Ríkisstjórn Íslands hefur fyllzt ótrúlegri gjafmildi gagnvart útlendingum. Hún ætlar að verja 4,5 milljörðum króna á þremur árum til að efla samgöngur milli Evrópu og Ameríku, en ekki milli Íslands og útlanda.
Fyrir sömu upphæð gæti ríkisstjórnin gefið nærri 20.000 Íslendingum vetrarfarseðla til Bandaríkjanna, fram og til baka. Það samsvarar rúmlega 200 sætum á viku þá sjö mánuði á ári, sem vetrarfargjöld gilda.
Þetta dæmi sýnir, að ríkisstjórnin getur á ýmsan hátt stuðlað að flugsamgöngum við útlönd og að atvinnu í flugmálum, ef hún á 4,5 milljarða handbæra. Luxemborgarflugið er engan veginn eina hugsanlega haldreipið.
Flug milli Luxemborgar og Bandaríkjanna verður ekki rekið af neinu viti án breiðþotu, sem kemst alla leið í einum áfanga. Hvar sitja þá eftir hagsmunir Íslendinga á skeri þeirra nyrzt í Atlantshafinu?
Steingrímur Hermannsson hefur þar á ofan sagt, að Boeing 747 sé betri en Douglas DC 10, þar sem hún nýtist líka til vöruflutninga. Hann er kominn svo á kaf í þjóðnýtinguna, að hann er farinn að velja milli breiðþota.
Steingrímur hefur rétt mat á flugvélategundum, raunar mun betra en hrakfallabálkar Flugleiða. En ummæli hans sýna þó, að breiðþotur eru í sviðsljósi björgunaraðgerðanna í Luxembourg þessa síðustu samningadaga.
Hvernig dettur mönnum líka í hug, að Luxemborgarar fáist til að láta af hendi sína 4,5 milljarða króna, nema notaðar séu hagkvæmustu flugvélarnar, breiðþotur? Og þær tapa stórfé á króknum til Íslands.
Ríkisstjórnin má ekki einblína um of á peninga Luxemborgara. Freistingar í þá átt geta leitt til lausna, sem eru meira en helmingi dýrari en þær, sem fundnar yrðu án þátttöku Luxemborgara og án Luxemborgarflugs.
Með framtaki sínu er ríkisstjórnin líka að þvinga upp á Flugleiðir einmitt því flugi, sem fyrirtækið vildi helzt leggja niður. Þar með flytur ríkisstjórnin ábyrgðina til sín. Hún býr til Iandbúnaðarkerfi í flugi.
Um leið hyggst ríkisstjórnin auka hlut sinn í Flugleiðum úr 6% í 20%. Hinni efnislegu þjóðnýtingu fylgir þannig fyrsta skrefið í átt til formlegrar þjóð- nýtingar. Allt er þetta í meira lagi vafasamt.
Auðvitað er rétt að reyna að halda í skefjum samdrætti í atvinnu að flugmálum. Þetta er framtíðargrein, en ekki fortíðargrein eins og landbúnaðurinn. En 4,5 milljarða eða 20.000 farseðla blóðgjöf getur verið í ýmsu formi.
Aðalatriðið er, að Íslendingar, en ekki útlendingar fái þessa 20.000 farseðla. Blóðgjöfin verður öll að fara í að stuðla að samgöngum Íslands við umheiminn, einkum veikustu samgöngunum, við Bandaríkin og Vesturálfu.
Ríkisstjórnin gæti til dæmis niðurgreitt farseðla til Bandaríkjanna. Hún gæti gefið flugþjónustu sína. Hún gæti leyft fleirum að spreyta sig á flugi vestur um haf. Einokun er ekki sjálfsagt náttúrulögmál.
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hlaupa í fang Luxemborgara er fljótfærnisleg. Sú aðferð er ef til vill betri en engin, en aðeins ef til vill. Ríkisstjórnin átti að gefa sér tíma til að hugleiða fleiri leiðir.
Jónas Kristjánsson
DV