Fljótshlíð

Frá leitarmannakofanum Bólstað undir Einhyrningi að félagsheimilinu Goðalandi í Fljótshlíð.

Leiðin er skemmtilegri til austurs, því að þá er jöklasýn betri og greiðara að sjá yfir Markarfljót til Þórsmerkur.

Fljótshlíð er ein frægasta sveit landsins. Jónas Hallgrímsson orti “Fögur er hlíðin” og Þorsteinn Erlingsson orti “Fyrr var oft í Koti kátt”. Á Einhyrningsflötum undir Einhyrningi stóð bær Sighvats hins rauða. Þar hét Bólstaður. Förum um búsældarlegar hlíðar neðst í undirfjöllum Tindfjalla. Breiðabólstaður og Hlíðarendi eru sögufrægar jarðir í sveitinni. Markarfljót rennur á breiðum og sléttum aurum og handan þess rís voldugur Eyjafjallajökull. Fljótshlíðin er einn eftirsóttasti sumardvalarstaðurinn, þar hafa verið reist einhver glæsilegustu sumarhús landsins.

Förum frá Bólstað í 300 metra hæð niður í byggð. Að mestu fylgjum við jeppaslóð út Fljótshlíð. Förum fyrst eftir Tröllagjá suðvestur Emstruleið. Beygjum suður og vestur fyrir Fauskheiði og æjum á Hellisvöllum. Síðan norðvestur aurana og upp í brekkurnar í Streitum undir Þórólfsfelli. Vestan við fellið förum við hjá farfuglaheimilinu í Fljótsdal. Áfram eftir þjóðvegi 261 með fjöllunum framhjá Múlakoti og Hlíðarendakoti. Við Neðri-Þverá förum við suður frá þjóðvegi og síðan vestur moldargötur samhliða þjóðveginum, loks aftur upp á þjóðveginn við Smáratún. Þar förum við vestur með þjóðveginum að rétt vestan við félagsheimilið Goðaland.

33,8 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Bólstaður: N63 43.831 W19 28.697.
Fell: N63 42.769 W19 42.790.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Þríhyrningur, Reiðskarð, Krókur, Mosar.
Nálægar leiðir: Hæringsfell, Goðaland, Flosavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson