ALMENNINGUR REKUR SIG Á STEINVEGG, þegar hann reynir að gæta réttar síns gagnvart almannavaldinu í landinu. Það fengu Helgi Magnús Hermannsson og Björk Baldursdóttur að reyna, þegar ófætt barn þeirra dó í kjölfar legvatnsprufu á Landsspítalanum.
SPÍTALINN OG LÖGREGLAN DRÓGU LAPPIRNAR. Starfsfólk spítalans fór ekki eftir reglum og tilkynnti ekki andlátið. Lögreglan neitaði að rannsaka það. Læknanefndir og landlæknir voru þversum. Eftir mikið japl og jaml skyldaði ríkissaksóknari lögregluna til að rannsaka málið.
AÐ LOKUM VARÐ AÐ HÖFÐA EINKAMÁL. Það vannst fyrir helgina, Þóra Fischer læknir og íslenzka ríkið voru dæmd til ábyrgðar fyrir vítavert gáleysi og verða að greiða 7-8 milljónir króna fyrir læknamistök, sem eru ekki einstök í sinni röð, því að slíkar prufur hafa oftar farið illa á Landspítalanum.
SAMSTARFSFÓLK LÆKNISINS FÓR HAMFÖRUM gegn DV, sem var eini fjölmiðillinn, er sagði rækilega frá málinu. Skrif blaðsins á þessum tíma um málið voru rétt, en birting á nafni og mynd læknisins var kærð til siðanefndar Blaðamannafélagsins, svo og að vegið væri að starfsheiðri lækna á spítalanum.
SIÐANEFNDIN TÓK UNDIR RUGLIÐ í kröfu samstarfsfólksins á spítalanum og úrskurðaði, að birting nafns og myndar Þóru Fischer væri alvarlegt brot á siðareglunum. Siðanefndin lítur nefnilega á sig sem fulltrúa faríseanna og vill ekki, að trufluð sé hentisemi almannavaldsins í samskiptum við almenning.
ÞANNIG TEKUR STEINVEGGURINN Á SIG ÝMSAR MYNDIR. Hann er stundum samstarfsfólk, læknamafía og landslæknir, sem snúa bökum saman. Hann er stundum lögreglan í landinu og stundum siðanefnd Blaðamannafélagsins. Allir þessir aðilar hafa tapað málinu. Allir vörðu þeir nafnlausa og andlitslausa andstöðu við hagsmuni fólks, steinvegg hins opinbera.
DV