Flokkaflakk

Greinar

Langvinn aðild að stjórnmálaflokki er ekki lengur aðgöngumiði að öruggu sæti eða vonarsæti á lista flokksins í kosningum. Í vaxandi mæli leita flokkar í nánasta umhverfi sínu að nýju, en þekktu fólki, sem talið er geta selt ímynd flokksins, dregið fleiri atkvæði í dilk hans.

Jafnframt kemur fyrir, að sama persónan íhugar opinberlega, hvort hún eigi að taka boði þessa flokksins eða hins um öruggt sæti eða vonarsæti á lista. Sem dæmi um þetta má nefna formann félags sjúkraliða, sem átti kost á sæti fyrir tvo flokka í tveimur kjördæmum.

Landamærin eru orðin sérstaklega óljós milli Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Þjóðvaka. Þar rambar fólk inn og út án vegabréfaskoðunar, síðan Þjóðvaki losaði um flokkstengsl fólks á vinstri væng stjórnmálanna. Þarna eru greinilega þrír flokkar á sama markaði.

Af formlegri stjórnmálastefnu þessara flokka mætti ætla, að einhver munur væri milli Alþýðuflokks og Þjóðvaka annars vegar og Alþýðubandalags hins vegar. Fólkið, sem flakkar milli þessara flokka, telur þennan formlega stefnumun þeirra þó ekki skipta sköpum.

Er þó til dæmis Alþýðuflokkurinn með aðra stefnu í Evrópumálum, sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum en til dæmis Alþýðubandalagið. Þetta hindrar formann félags sjúkraliða ekki í að íhuga, hvort hún eigi að velja framboð á vegum þessa flokksins eða hins.

Fleiri flokkar koma við sögu í flakki fólks. Ýmsir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins tala eins og þeir ætli að styðja Alþýðuflokkinn að þessu sinni, sumpart vegna stefnunnar í málum Evrópu, sjávarútvegs og landbúnaðar og sumpart til að verja flokkinn fylgishruni.

Framsóknarflokkurinn sætti flokkaflakki á fyrri hluta þessa vetrar, en virðist að mestu hafa endurheimt lausagöngufólkið. Minnkandi fylgi Þjóðvaka í skoðanakönnunum hefur meðal annars stafað af, að framsóknarfólkið í Þjóðvaka er horfið heim til föðurhúsanna.

Kvennalistinn hefur þá sérstöðu að hafa á þessu kjörtímabili skyndilega tekizt að stimpla sig sem kerfiskarlaflokk án þess að eiga neina aðild að landsstjórninni. Stuðningur þingflokksformannsins við mannréttindafrumvarp kerfiskarlanna er punkturinn yfir i-ið.

Sem stimpluðum kerfiskarlaflokki hefur kvennalistanum ekki tekizt að endurheimta sinn hluta af fylginu, sem Þjóðvaki sópaði til sín á öndverðum vetri, þótt öðrum flokkum hafi tekizt að krafsa í sinn hluta. En hann bíður færis eins og aðrir flokkar í nágrenni við Þjóðvaka.

Flestir búast við, að fylgi Þjóðvaka muni halda áfram að dala, þegar komið er í ljós, að stefnuskráin er gamalkunn og frambjóðendur gamalkunnir fallistar úr öðrum flokkum. Þess vegna keppast aðrir flokkar við að ná í þingmannsefni, sem geta höfðað til Þjóðvakafólks.

Flokkaflakkið sýnir, að áhugafólk um stjórnmál er hætt að gefa mikið fyrir formlegar stefnuskrár, sem draga hvort eð er dám hver af annarri. Þetta viðhorf endurspeglast hjá kjósendum almennt, sem eiga margir hverjir fremur erfitt með að ákveða sig í skoðanakönnunum.

Þeim mun meiri áherzlu leggur fólk á frambjóðendur og einkum flokksforingja, sem það telur sig geta treyst. Þetta kom í ljós, þegar Þjóðvaki skauzt fyrst upp á himin skoðanakannana. Og þetta hefur haldið áfram að koma fram í leit flokka að söluhæfum frambjóðendum.

En þrátt fyrir flokkaflakk verður víðast hvar í framboði gamalkunnugt kerfisfólk, sumt undir nýjum formerkjum. Byltingin á flokkakerfinu verður ekki núna.

Jónas Kristjánsson

DV