Stjórnmálaflokkar verða ekki sameinaðir, en hægt er að fara út fyrir flokkana og sameina hugmyndir, atgervi og fólk. Þetta er skoðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra, sem hefur ágæta reynslu af sameiginlegu framboði nokkurra stjórnmálaflokka í Reykjavík.
Borgarstjórinn flutti ávarp á 80 ára afmæli Alþýðuflokksins og fjallaði um erfiða stöðu lítilla stjórnmálaflokka á miðju stjórnmálanna og á vinstri væng þeirra. Þar lagði hún áherzlu á, að ekki væri hægt að sameina öflin í flokkunum á grundvelli flokkanna sjálfra.
Þetta er einmitt kjarni málsins. Endurteknar umræður um sameiningu stjórnmálaflokka hafa lítið gildi, af því að flokkarnir eru ekki fyrirbæri, sem hafa í eðli sínu getu til sameinast. Þeir eru fyrst og fremst valdastofnanir og alls ekki uppsprettur pólitískra hugmynda.
Ekki þarf annað en að líta á forustumenn stjórnmálaflokkanna til að sjá, að þeir geta ekki sameinazt í flokki. Tilvera þeirra í forustunni byggist á hirðmannasveitum, sem þeir hafa myndað umhverfis sig. Þeir eru forustumenn vegna valdsins, sem þetta veitir þeim.
Foringjar stjórnmálaflokkanna, eins og þeir eru nú og hafa lengi verið, eru ekki merkisberar hugmynda og atgervis, heldur sækjast þeir eftir völdum. Þeir mynda um sig klíkur, er ná í flokkunum völdum, sem síðan eru notuð til að verða ráðherrar og skömmtunarstjórar.
Það er til dæmis ekki unnt að sameina stjórnmálaöfl með því að sameina Jón Baldvin Hannibalsson og Ólaf Ragnar Grímsson eða með því að sameina Halldór Ásgrímsson og Svavar Gestsson. Ekki þarf langa umhugsun til að sjá, að slík dæmi ganga engan veginn upp.
Sameiginlegt framboð nokkurra flokka tókst í Reykjavík, af því að þessir foringjar og aðrir slíkir starfa fyrst og fremst á landsvísu og hafa lítil afskipti af borgarmálum. Sameiginlega framboðið fór fram hjá leiðtogunum, fjallaði ekki um þá og hefur ekki fordæmisgildi.
Sameiginlegt framboð tókst í Reykjavík, af því að áherzlan var á öðru en stjórnmálaflokkunum, sem að því stóðu. Það tekst hins vegar ekki um þessar mundir á Vestfjörðum, af því að flokkarnir sem slíkir eru þar of sterkir í viðræðunum um sameiginlegt framboð.
Frægasta dæmið um misheppnaða sameiningu í framboði var Hræðslubandalagið, sem Framsóknarflokkurinn og Alþýðuflokkurinn mynduðu árið 1956, af því að hagfræðingar reiknuðu því meirihluta á Alþingi með því að leggja saman kjósendatölur flokkanna.
Kjósendur láta ekki sameina sig með slíkum hætti. Flokkunum tókst ekki að reikna sig í valdastóla. Kjósendur Framsóknarflokksins vildu ekki kjósa frambjóðanda Alþýðuflokksins og kjósendur Alþýðuflokksins vildu ekki kjósa frambjóðanda Framsóknarflokksins.
Ekki þarf heldur lengi að skoða valdabaráttuna innan einstakra flokka til að sjá, hvernig staðan væri, ef sérfræðingar í valdabrölti innan flokka ætluðu að fara að sameinast milli flokka. Við getum ímyndað okkur, hvernig forustumenn Alþýðubandalagsins mundu haga sér.
Ingibjörg Sólrún lýsti ástandi, þar sem úthaldið brestur, um leið og einhver keppinautanna sýnist þess albúinn að græða á raunverulegum eða ímynduðum stundaróvinsældum hinna, jafnan með ódýrum skyndilausnum. Henni fannst það ekki eftirsóknarvert ástand.
Niðurstaða hennar var, að sameiningarumræðuna yrði að færa út fyrir tortryggið ratsjársvið flokkanna og reyna fremur að sameina hugmyndir, atgervi og fólk.
Jónas Kristjánsson
DV