Flokkar úr fókus

Greinar

Einn stjórnmálaflokkur hefur umfram aðra flokka landsins ástæðu til að hafa áhyggjur af fylgiskönnunum á miðju kjörtímabilinu. Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn, sem mælist langt undir síðasta kjörfylgi í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri.

Áhyggjur Framsóknarflokksins hljóta líka að vera nokkrar. Hver skoðanakönnunin á fætur annarri sýnir lakari stöðu hans en var í síðustu alþingiskosningum, sem voru flokknum þungbærar. Aðrir hlutar íslenzka fjórflokksins eru í sæmilega traustum fylgismálum.

Samfylkingin var stofnuð upp úr Alþýðuflokki, Alþýðubandalagi og Kvennalista með þeim yfirlýstu væntingum, að þetta yrði að minnsta kosti 40% flokkur. Niðurstaðan í kosningunum varð þó ekki nema 27%. Síðan hefur fylgið oftast mælzt 16­18% í skoðanakönnunum.

Meðan rólegum og miðlægum vinstri flokkum vegnar vel víðs vegar um Evrópu, þar á meðal í höfuðríkjunum Bretlandi, Frakklandi og Þýzkalandi, fellur miðlægi vinstri flokkurinn á Íslandi algerlega í skugga jaðarsins, eins og hann birtist í kannanafylgi vinstri grænna.

Að nokkrum hluta er vandamál Samfylkingarinnar svipað og Framsóknarflokksins. Þessir flokkar hafa ekki gætt veiðilendna sinna á rauða og græna jaðrinum og leyft nýjum flokki eindreginna og harðra sjónarmiða að hala sig á tveimur árum upp úr 9% í 25% fylgi.

Hefðbundnar kenningar segja, að flokkar eigi að stunda veiðiskap á miðjunni, af því að þar séu þorskarnir flestir. Þetta virðist síður eiga við á Íslandi en í nágrannalöndunum, nema þá að miðjan hafi færzt til, án þess að Samfylking og Framsókn hafi áttað sig á vilja kjósenda.

Græn sjónarmið eru ekki lengur jaðarmál. Þetta hafa systurflokkar Framsóknarflokksins á Norðurlöndum skilið og eru þar grænastir allra flokka. Hér á Framsókn við það skrítna böl að stríða að vera tveimur öldum of seint að reyna að troða Íslandi gegnum iðnbyltinguna.

Málið er ekki svona einfalt hjá Samfylkingunni, sem ætti að geta hossað sér á ýmsum stórmálum, sem fanga hugi þjóðarinnar í trássi við ríkisstjórnina. En fólk treystir bara ekki Samfylkingunni til að hindra Kárahnjúkavirkjun og afnema gjafakvótann í sjávarútvegi.

Spurning kjósandans er einfaldlega sú, hvort það taki því að falla frá stuðningi við stjórnarflokk og ánetjast ótraustri Samfylkingu á forsendum slíkra hitamála. Menn telja, að hún sé svo miðlæg, að hún muni fórna stóru hitamálunum í samningum um nýja ríkisstjórn.

Forustuvandi hrjáir báða flokkana. Formaður Framsóknar hefur átt einstaklega erfitt með að segja flokksfólki sínu, hvernig hann vilji láta skipa trúnaðarstöður og ráðherrastóla. Ennfremur er hann þungt haldinn af iðnbyltingar-sérvizku og smíðavinnu við gjafakvótann.

Málið er ekki svona einfalt hjá Samfylkingunni, sem hefur hvorki lagað stöðuna né spillt henni með því að skipta um formann. Ljóst er þó, að nýi formaðurinn virkar ekki á þann mynduga hátt, sem kjósendur ætlast sennilega til af leiðtoga stjórnarandstöðunnar á þingi.

Samfylkingin þarf að gera borgarstjórann í Reykjavík að formanni. Gallinn er bara sá, að hún þarf ekki að verða formaður, af því að hún er betur sett sem borgarstjóri Reykjavíkur, þar sem hún hefur einnig framsóknarmenn og vinstri græna undir víðum vængjum sínum.

Skoðanakannanir staðfesta, að Framsókn og Samfylking eru langt út úr fókus og eiga mikið verk fyrir höndum á þeim helmingi, sem lifir af kjörtímabilinu.

Jónas Kristjánsson

DV