Fyrirmyndar ferðaþjónusta
Írar eru draumaþjóð ferðamennskunnar. Þeir eru alúðlegir og kurteisir að eðlisfari, hjálpsamir og sanngjarnir í viðskiptum. Þetta leynir sér ekki í ferðaþjónustunni. Hvergi í heiminum er auðveldara og afslappaðra að vera ferðamaður en einmitt á Írlandi.
Dublin er gluggi Írlands gagnvart umheiminum. Borgin er ekki stór, telur hálfa milljón manns. Sjálfur miðbærinn er þægilega lítill, innan við einn kílómetra radíus frá torginu College Green. Mörg beztu hótelin eru á þessu svæði; flest veitingahúsin, sem máli skipta; nærri allar sögufrægu krár borgarinnar; og allur þorri skoðunarverðra staða. Þægilegar gönguleiðir eru þess vegna milli allra staða og stofnana, sem lýst er hér.
Raunar er unnt að þræða alla helztu skoðunarstaði miðbæjarins upp á eina langa festi, sem nær frá víkingakirkjunni St Michan’s í norðaustri til söngkránna í Baggot Street í norðvestri. Unnt er að feta alla leiðina á einum degi, en auðvitað er hægt að gefa sér betri tíma, til dæmis til að sinna söfnum eða krám. Dublin er staður, þar sem gott er að taka lífinu með ró og reyna að leyfa andrúmsloftinu að sías
t inn.
Krárnar eru einkenni miðbæjarins. Þar hittast bláókunnugir og gerazt beztu vinir. Þar eru menn ekki lengi einmana, því að heimamenn eru alltaf tilbúnir að spjalla við ókunnuga. Ferðamenn smitast af þessu þægilega og opna hugarfari og verða smám saman eins og heimamenn. Sérstakur kafli er í bókinni um krárnar í Dublin.
Miðbærinn er einkum á syðri bakka árinnar Liffey, umhverfis borgarkastalann, göngugötuna Grafton Street og garðinn St. Stephen’s Green. Þetta er í senn elzti hluti borgarinnar og fegursti hluti hennar. Húsin eru lágreist og andrúmsloftið rólegt, þegar frá er talin ógandi umferð of margra bíla um of þröngar götur.
Hefjum gönguna