Dublin

A. Dublin

Borgarrölt, Dublin
Palace, bar, Dublin 2

Palace bar Dublin

Fyrirmyndar ferðaþjónusta

Írar eru draumaþjóð ferðamennskunnar. Þeir eru alúðlegir og kurteisir að eðlisfari, hjálpsamir og sanngjarnir í viðskiptum. Þetta leynir sér ekki í ferðaþjónustunni. Hvergi í heiminum er auðveldara og afslappaðra að vera ferðamaður en einmitt á Írlandi.

Christ Church, Dublin

Christ Church, Dublin

Dublin er gluggi Írlands gagnvart umheiminum. Borgin er ekki stór, telur hálfa milljón manns. Sjálfur miðbærinn er þægilega lítill, innan við einn kílómetra radíus frá torginu College Green. Mörg beztu hótelin eru á þessu svæði; flest veitingahúsin, sem máli skipta; nærri allar sögufrægu krár borgarinnar; og allur þorri skoðunarverðra staða. Þægilegar gönguleiðir eru þess vegna milli allra staða og stofnana, sem lýst er hér.

Raunar er unnt að þræða alla helztu skoðunarstaði miðbæjarins upp á eina langa festi, sem nær frá víkingakirkjunni St Michan’s í norðaustri til söngkránna í Baggot Street í norðvestri. Unnt er að feta alla leiðina á einum degi, en auðvitað er hægt að gefa sér betri tíma, til dæmis til að sinna söfnum eða krám. Dublin er staður, þar sem gott er að taka lífinu með ró og reyna að leyfa andrúmsloftinu að sías
t inn.

Krárnar eru einkenni miðbæjarins. Þar hittast bláókunnugir og gerazt beztu vinir. Þar eru menn ekki lengi einmana, því að heimamenn eru alltaf tilbúnir að spjalla við ókunnuga. Ferðamenn smitast af þessu þægilega og opna hugarfari og verða smám saman eins og heimamenn. Sérstakur kafli er í bókinni um krárnar í Dublin.

Miðbærinn er einkum á syðri bakka árinnar Liffey, umhverfis borgarkastalann, göngugötuna Grafton Street og garðinn St. Stephen’s Green. Þetta er í senn elzti hluti borgarinnar og fegursti hluti hennar. Húsin eru lágreist og andrúmsloftið rólegt, þegar frá er talin ógandi umferð of margra bíla um of þröngar götur.

Hefjum gönguna

 

B. Pöbbarölt

Borgarrölt, Dublin

Eftir gönguferðina um Dublin eigið þið að átta ykkur af lýsingunum hér á eftir, hvar hver bjórkrá er í borginni.

Brazen Head, bar, Dublin

Brazen Head

Brazen Head

Elzta krá borgarinnar er Brazen Head og lætur lítið yfir sér niðri við ána Liffey, þar sem Lower Bridge Street liggur niður að henni, um 500 metrum frá Christ Church.

Veitingaleyfið er frá 1666, en talið er, að krá hafi verið hér frá 13. öld. Kráin er að öðru leyti frægust fyrir, að Robert Emmet skipulagði þar hina misheppnuðu uppreisn gegn Bretum árið 1803.

Kráin er tvískipt með ýmsum rangölum inn af steinlögðu porti. Lágt er til lofts og lýsing daufleg, kráargestir friðsælli en víðast hvar, en þægilegir viðskiptis eins og aðrir Írar. Ljóðalestur og írsk tónlist eru hér í hávegum höfð.

(The Brazen Head, 20 Lower Bridge Street, A3)

Palace, bar, Dublin 2

Palace

Palace

Dæmigerð reykjarmakkarkrá er Palace á góðum stað í götunni, sem liggur í framhaldi af Temple Bar að Westmoreland Street, sömu megin götunnar og hótelið Temple Bar.

Viðarskilrúm með speglum mynda stúkur við þungan eðalviðarbar  og virðulegan barskápavegg. Inn af kránni er ferningslaga setustofa, þar sem eru sófar og kringlótt sófaborð.

Hér er mikið drukkið og enn meira reykt. Gestir virðast aðallega vera verkamenn og fjölmiðlafólk.

(Palace Bar, 21 Fleet Street, C4)

Næstu skref

C. Írland

Borgarrölt, Dublin
Monasterboice, Írland

Monasterboice

Kurteisi, alúð og hjálpsemi Íra verður því meiri, sem fjær dregur höfuðborginni. Á vesturströndinni heilsa menn bílstjórum með handarsveiflu, alveg eins og væru þeir gamlir kunningjar. Hvarvetna leggja menn sig í líma við að greiða götu ókunnugra og draga þá inn í samræður heimamanna.

Bezta leiðin til að kynnast Írlandi á stuttum tíma er að fá sér bílaleigubíl. Þá erum við frjáls, getum valið hvaða sveitavegi, sem við viljum;
og látið staðar nema, hvar sem okkur lízt á góða bændagistingu. B&B er hvarvetna á boðstólum og felur venjulega í sér fullnægjandi aðstöðu samkvæmt íslenzkum kröfum.

Írland ber mildan og grænan svip. Flestir vegir eru varðaðir trjám og beitilöndum, þar sem una sér kýr og kindur, hestar og geitur. Sveitabæir og þorp kúra í landslaginu eins og eðlilegur þáttur þess. úti við ströndina, einkum að vestan, rís náttúran í svipmeiri dráttum.

Forn mannvirki segja gamla sögu, einkum frá fyrstu öldum kristni, þegar Írland var miðstöð kristinnar kirkju á myrkum miðöldum. Við kynnumst klaustrum, þaðan sem munkar fóru norður og vestur um höf; og skráðu eins og Íslendingar frægar sögur á vandlega lýst bókfell. Við kynnumst líka kastölum og hústurnum, sem voru miðpunktar í erjum milli smákónga og í styrjöldum milli Íra og Englendinga.

Allt þetta þræðum við upp á eina langa perlufesti, sem nær hringinn um landið. Það getur tekið nokkrar vikur að aka þennan hring, en það er líka unnt á skemmri tíma, af því að fjarlægðir eru stuttar í landinu.

Lýsingin nær einkum til fornra mannvirkja og sérstæðs landslags, svo og halla og herragarða, sem yfirleitt leika nú hlutverk hótela og veitingahúsa. Gaman er að skoða þessar hallir og herragarða, þótt menn kjósi svefnstað í bændagistingu.

Hér er ekki bent á einstaka ferðabændur, enda skipta þeir þúsundum og eru oft ekki auðfundnir í leit. Bezt er að velja bændagistingu, B&B, eftir hendinni. Ef „en suite“ stendur á skiltinu, þýðir það, að herbergið sé með einkabaðherbergi, sem algengt er orðið nú á tímum.

Við förum norður úr Dublin, höldum fyrst til Norður-Írlands, síðan vestur með ströndinni og aftur inn í írska lýðveldið, förum einkum um slóðir keltneskrar tungu á vesturströndinni, síðan suður um og norður austurströndina til Dublin. Öllum er auðvitað frjálst að taka króka og útúrdúra af þeirri perlufesti, sem hér er lýst. Bezt er að taka lífinu með ró og setja sér ekki skýrt markaða áfanga.

Við skulum leggja af stað