London

A. London

Borgarrölt, London

Heimsborgin London, samsafn þorpa

Big Ben, Westminster Palace, London

Big Ben, Westminster Palace

Ljúfa London er ein örfárra miðpunkta mannkyns, heimsmiðstöð kaupsýslu og stjórnmála, — og sú þeirra, sem hefur einna mestan alþjóðabrag. Gangstéttir miðborgarinnar eru iðandi af allra þjóða fólki, mörgu frá fjarlægum heimshornum. Enda fjallar einmitt einn kafli þessarar bókar um ferðalag kringum jörðina á 30 veitingahúsum í London.

Churchill, Parliament Square, London

Churchill, Parliament Square

Fólk fer samt ekki bara í viðskiptaerindum til heimsborgarinnar. London er nefnilega engin venjuleg stórborg með ys og amstri. Hún er einnig róleg borg, þar sem gott er að hvílast. Hún er heimur ótal garða, stórra og smárra. Hún er þorp lágreistra húsa við mjóar og sveigðar götur.

Um leið er hún íhaldssöm borg gamalla hefða. Indælust er hún vegna íbúanna, sem kunna að umgangast náungann á siðmenntaðan hátt. Engir heimsborgarbúar eru jafn lausir við taugaveiklun og æðibunugang og heimamenn þessarar borgar. Þeir hafa t.d. nógan tíma til að leiðbeina ókunnugum.

London er sérkennilegt safn nokkurra smábæja, sem hver hefur sína persónu, sitt aðdráttarafl. Alveg eins og Westminster er annar heimur en City, er Covent Garden annar heimur en Soho. Í stað þess að kalla London alþjóðaborg, mætti alveg eins kalla hana safn alþjóðaþorpa.

Coach & Horse, bar, London

Coach & Horse

Frístundalífið í London sogar einnig að sér fólk. Hún er heimsins mesta knattspyrnuborg og heimsins mesta leikhúsborg. Ölstofur hennar eru frægar. Kvikmyndahúsin bjóða allt hið nýjasta. Hún er höfuðborg popptónlistar og ein magnaðasta tízkuborg heims.

Frægar kirkjur og enn frægari söfn eru einn segull borgarinnar, sem annars státar ekki af eins merkilegri byggingalist og margar aðrar stórborgir. London er ekki falleg borg, en hún er notaleg borg, ágætur hvíldarstaður og skemmtistaður. En fyrst og fremst er hún ferðamanninum endalaus röð uppgötvana nýrra yndisefna.

Við byrjum á verzlunarferð.

Næstu skref

B. Hefðarbúðir

Borgarrölt, London
Berry Brothers, London 2

Berry Brothers, dæmigerð búð fyrir sérfræðinga, selur öldruð borðvín

Verzlun-búðaráp

Liðin er sú tíð, er London var ein hagstæðasta verzlunarborg Evrópu. En hún er enn ein hin skemmtilegasta. Einkum eru það sérverzlanirnar, sem gera garðinn frægan, sumar frá fyrri öld eða öldum. Ef við tökum forngripaverzlanirnar sem dæmi, þá eru á því sviði ótölulega margir flokkar sérverzlana í ákveðnum tímabilum ákveðinna tegunda og ákveðinna landa.

Leiðsögnin um verzlanir í London verður í höfuðdráttum í formi gönguferðar um St James´s hverfi og austurhluta Mayfair hverfis. Í leiðinni verður bent á ýmsar sögufrægar verzlanir, þótt fleira megi skoða en þær einar.

Ef sumum lesendum finnst karlmönnum gert hærra undir höfði en konum, er það til afsökunar, að karlmannabúðir í London eru sumar gamlar og rótgrónar, en kvennabúðir hins vegar nýlegar og innfluttar frá París eða Róm.

Óþarfi er að leiðbeina lesendum sérstaklega til vöruhúsanna miklu við Oxford Street og Regent Street, þar sem menn reyna að finna hið fáa, sem ekki fæst heima á Íslandi. Hins vegar er gaman að glugga í frægar og dýrar búðir, ekki beinlínis til að verzla, heldur til að skoða þær eins og aðra merkisstaði borgarinnar. Og kaupsýslan í London er ekki síður merkileg en gamlar kirkjur, söfn og myndastyttur.

Næstu skref

C. City

Borgarrölt, London

Eftir fyrstu gönguferðina um búðir St James´s og Mayfair hverfa, er kominn tími til að segja frá tíu almennum skoðunarferðum um aðra markverða staði miðborgarinnar. Við förum frá austri til vesturs, byrjum austast í City og færum okkur síðan til Covent Garden og Soho, enn til St James´s og Mayfair og loks til Westminster.

Vegna stærðar borgarinnar og smæðar bókarinnar verður ekki lýst ferðum um önnur hverfi nálægt miðju og engum ferðum um úthverfin.

Við sleppum öllu fyrir sunnan á, þótt þar á bakkanum sé Þjóðleikhúsið. Við sleppum menntahverfinu Bloomsbury, þótt þar sé háskólinn og British Museum, sem áður hefur verið lýst. Við sleppum Marylebone, enda höfum við þegar lýst söfnunum þar.

Við sleppum jafnvel hverfunum sunnan garða, “vinstri bakkanum”, sem sumir kalla svo. Frá South Kensington höfum við þegar lýst söfnunum, frá Knightsbridge höfum við þegar lýst Harrods og verzlanahverfinu þar í kring, og frá Belgravia og Chelsea höfum við þegar lýst verzlanagötum og veitingahúsum, sem máli skipta.

Til hagræðingar hafa flestar gönguferðir okkar upphaf og endi við stöðvar neðanjarðarlestarinnar.

2. gönguferð:

London Wall

London Wall, London

London Wall

Þegar við komum upp úr Tower Hill neðanjarðarstöð-inni, skulum við fyrst virða fyrir okkur Tower of London, því að héðan er eitt bezta útsýnið til hans. Síðan förum við göng undir götuna að Tower. Á leiðinni eru leifar af London Wall, múrnum, sem Rómverjar létu reisa utan um borgina, þegar Boadicea Keltadrottning hafði rænt hana árið 61. Þá var Londinium, eins og Rómverjar kölluðu hana, ung borg, aðeins tveggja áratuga gömul.

Leifar rómverska múrsins sjást víðar umhverfis City og eru aðallega frá 2. öld. Sumar götur í City sýna enn í nöfnum sínum, hvar hlið voru á virkisveggnum: Ludgate, Newgate, Aldersgate, Moorgate, Bishopsgate og Aldgate. Múrinn var ekki fluttur til, þótt borgin stækkaði, heldur aukinn og endurbættur á sama stað á miðöldum. Mestallt núverandi City, nema Fleet Street svæðið, er innan þess ramma, sem gamli múrinn markaði.

Næstu skref

D. Law Courts

Borgarrölt, London

Gray´s Inn

Gönguferðina um hulin port og yfirskyggða garða lögmannastéttar borgarinnar hefjum við hjá Chancery Lane neðanjarðarstöðinni). Frá götunni High Holborn göngum við eitt af þremur sundum, nr. 21 eða Fulwood Place eða Warwick Court, inn í völundarhús sunda, porta, stílhreinna húsa og fagurra garða, indæla vin í skjóli fyrir skarkala borgarinnar.

Hér eru skrifstofur lögfræðinganna í Gray´s Inn, einu af fjórum lögmannafélögum borgarinnar, Inns of Court, stofnað á 14. öld. Elztu húsin eru frá 17. öld, en garðarnir nokkru yngri, teiknaðir af Sir Francis Bacon. Gray´s Inn er opið almenningi 8-19.

Staple Inn, London

Staple Inn

Staple Inn

Lincoln's Inn, London

Lincoln’s Inn

Við förum eitt sundið aftur út á High Holborn. Andspænis, nokkru austar við götuna, sjáum við Staple inn, tvö timburhús, fjögurra alda gömul, frá 1586-96. Þessi framhlið er eina dæmið í borginni um, hvernig fínu göturnar litu út á dögum Elísabeter I. Taktu eftir bindingsverki bita og gafla og alls konar útskotum. Í miðjunni veita bogagöng aðgang að portunum að baki.

Lincoln´s Inn

Rétt vestar mætir Chancery Lane aðalgötunni High Holborn. Þar beygjum við til vinstri suður meðfram austurhlið Lincoln´s Inn. Við förum framhjá Stone Buildings Gate, því að við ætlum inn um Gatehouse með upprunalegum eikarhliðum frá 1518, hátt í fimm alda gömlum.

Hliðhúsið úr tígulsteini er með ferningslaga hornturnum, opið 8-19. Að baki er Old Square með gömlum húsum frá Túdor-tíma, öll úr rauðum tígulsteini, endurgerð 1609. The Old Hall er frá 1490. Kapellan við norðurhlið torgsins er frá 1619-23.

Við förum áfram til vesturs inn í sjálfa garðana, aðlaðandi og friðsæla, umlukta gamalli og gróinni byggingarlist frá því áður en góður smekkur komst úr tízku. Úr görðunum göngum við til suðurs um New Square og hlið frá 1697 út í Carey Street, þar sem við erum að baki hallar Borgardóms í London.

Næstu skref

E. Soho – Covent Garden

Borgarrölt, London
Covent Garden, London 2

Covent Garden

Covent Garden

Skemmtilegsta hverfið í London er leikhúsahverfið Covent Garden. Við förum létt með að skoða það, þar sem við sitjum að mestu um kyrrt á sjálfum markaðnum, svo sem lýst var fyrr hér í bókinni.

Austur frá markaðnum liggur Russell Street, þar sem mannþröngin á vínbörunum nær út á götu. Örlitlu austar við götuna er Konunglega leikhúsið. Við fyrstu þvergötu til norðurs er Konunglega óperan og Blómahöllin, sérkennilegt dæmi um byggingarlist undir áhrifum frá Crystal Palace, úr járni og gleri.

Covent Garden, London 4

Covent Garden

Auk King Street norðan markaðar, Henriette Street sunnan markaðar og Russel Street austan markaðar, er skemmtilegast að ganga Tavistock Street, sem liggur sunnan við Henrietta Street, og New Row í framhaldi af King Street. Í þessum götum er kaffihúsalífið og göturápið skemmtilegast í borginni.

Syðst í hverfinu er leikhúsgatan Strand, sem liggur milli Fleet Street og Trafalgar Square. Vestast er önnur leikhúsgata, St Martin´s Lane, milli Trafalgar Square og Long Acre. Norðarlega í hverfinu er Neal´s Yard og Neal Street með heilsufæði- og handíðabúðum.

Segja má, að Covent Garden sé hverfi hins náttúrulega skemmtanalífs, meðan Soho var um tíma hverfi hins ónátturulega, þótt veitingahúsin góðu hafi jafnan haldið þar velli og hverfið sé aftur á uppleið. Sem betur fer er Covent Garden í uppgangi um þessar mundir. Skemmtilegar smáverzlanir, kaffihús og vínbarir eru sífellt að bætast við.

Næstu skref

F. Pall Mall

Borgarrölt, London

Pall Mall

St. James's Palace, London

St. James’s Palace

Aðalgatan í St James´s hverfinu er Pall Mall, þar sem við hófum gönguferð nr. 1 um skemmtilegustu búðir miðborgarinnar. Í þetta sinn ætlum við hins vegar að kynnast öðrum þáttum andrúmsloftsins í St James´s,
hverfi hinna fínu karlaklúbba.

Pall Mall, London

Pall Mall

Við förum enn frá Trafalgar Square, í þetta sinn til suðvesturs eftir Pall Mall. Hérna megin við horn Regent Street er fyrsti klúbburinn sunnan götunnar, Institute of Directors. Síðan koma Travellers Club á nr. 106 og Reform á nr. 104, þaðan sem Phileas Fogg átti að hafa farið kringum jörðina á áttatíu dögum. Stóra höllin er Royal Automobile Club. Síðan kemur Oxford & Cambridge Club á nr. 71. Norðan götunnar er Army & Navy andspænis RAC.

St James´s Palace

Við enda götunnar komum við að St James’s Palace, hinni raunverulegu konungshöll Bretaveldis, þar sem drottningin tekur á móti erlendum sendiherrum. Þaðan kemur nafnið, að vera við hirð St James´s. Buckingham Palace er bara konungsbústaður, ekki konungshöll.

Í þessari lágreistu og sérkennilegu höll frá Túdor-tíma, reistri árið 1532, bjuggu konungar Bretlands frá 1698, þegar Whitehall-höll brann, til 1837, er Buckingham-höll tók við. Frá svölunum á hliðhúsinu úr rauðum tígulsteini með áttstrendum turnum tilkynnir kallari valdatöku nýrra konunga.

Í St James´s Palace búa nú ýmsir hirðmenn. Áfast höllinni til vesturs er Clarence House, heimili drottningarmóður. Til hliðar og aftan við St James´s Palace eru tvær hallir, Marlborough House til austurs og Lancaster House til vesturs.

St James´s Street

Klúbbarnir eru áfram í röðum við St James´s Street, sem liggur til norðvesturs frá höllinni. Við hlið Berry Brothers vínbúðarinnar  er mjótt sund inn í Pickering Place. Handan götunnar, aðeins ofar, er Carlton, mesti íhaldsklúbburinn. Nokkrum skrefum ofar er mjó gata, sem liggur að hótelunum Dukes og Stafford. Enn ofar, hvor sínum megin götunnar, eru klúbbarnir Brook´s á nr. 61 og Boodle´s á nr. 28. Loks uppi undir Piccadilly gatnamótum er klúbburinn White´s.

Við eigum bara eftir að rölta meðfram Ritz-hóteli við Piccadilly vestur að Green Park neðanjarðarstöðinni til að ljúka stuttri gönguferð um fínasta, brezkasta og rólegasta hverfi miðborgarinnar. Nú kemur röðin að Mayfair.

Næstu skref