Madrid

A. Madrid

Don Quixote & Sancho Panza, Madrid

Don Quixote & Sancho Panza á Plaza de España

Flestir þekkja Costa del Sol, Costa Brava eða Benidorm, enda er þessi bók ekki um þá valinkunnu staði. Handan við sólarstrendur er til annar Spánn, gamall menningarheimur, sem hefur gengið í endurnýjun lífdaganna á nýfengnum lýðræðistíma. Þessi bók er skrifuð fyrir ferðamenn, sem vilja kynnast ánægjulegum raunveruleika utan við ágæta ferðamannaþjónustu sólarstranda. Við munum í yfirreið okkar bæði skoða frjálslegan nútíma og fjölbreytta menningarsögu.

Suma staðina í þessari bók er auðvelt að skoða með því að fá sér bílaleigubíl frá Costa del Sol eða Costa Brava. Aðra er auðvelt að skoða með því að láta eftir sér að taka flugvél frá sólarströnd inn til höfuðborgarinnar í Madrid og gista þar tvær eða þrjár nætur. Þeir, sem ætla að fljúga með Iberia til Spánar geta fengið lítt takmarkað flug innanlands í 60 daga á Spáni fyrir $250, ef þeir panta það fyrirfram.

Næstu skref

B – Madrid – vesturbær – Plaza Puerta del Sol

Borgarrölt, Madrid
Plaza Puerta del Sol, Madrid

Plaza Puerta del Sol

Plaza Puerta del Sol, Madrid 4

Plaza Puerta del Sol

Torgið Puerta del Sol er miðja borgarinnar, bæði að formi til og í reynd. Frá því eru mældar allar vegalengdir á Spáni. Kílómetrasteinn “0” er fyrir framan höll öryggislögreglunnar, sem er við suðurhlið torgsins. Í turni hallarinnar er klukkan, sem allar aðrar klukkur á Spáni eru miðaðar við. Frá torginu er skammur vegur til flestra staða, sem ferðamenn vilja skoða í Madrid. Það er umlokið samræmdum og rjómalitum húsum frá 18. öld.

Íbúar í Madrid mæla sér mót á torginu á öllum tímum dagsins og koma þangað í strætisvögnum og neðanjarðarlestum. Allan daginn iðar torgið af lífi. Það er líka staður útifunda og mótmælaaðgerða. Við bjuggum á hótelum við torgið og komumst að raun um, að það er helzt milli klukkan fimm og sjö á morgnana, að kyrrð færist yfir torgið.

 

Norður frá því liggja göngugöturnar Preciados og Carmen í átt til verzlunargötunnar Gran Vía. Við þessar göngugötur eru helztu vöruhús borgarinnar, El Corte Inglés og Galerias Preciados. Suður frá torginu er helzta gleðskaparhverfi borgarinnar, fullt af skyndibitastöðum, kaffihúsum, vín- og snarlbörum, veitingahúsum og skemmtistöðum. Þar er líka “hitt” torgið í bænum, Plaza Mayor.

Descalzas Reales

Descalzas Reales, Madrid

Descalzas Reales

Vestur frá Plaza Puerta del Sol liggja tvær götur, Mayor og Arenal. Við höldum þá síðari í átt til óperuhússins. Við getum tekið stuttan krók eftir annarri þvergötu til hægri, San Martín, til að skoða Monasterio de Descalzas Reales við samnefnt torg. 

Það er nunnuklaustur frá 16. öld fyrir aðalskonur og safnaði fljótt miklum auði, m. a. í listverkum. Því hefur verið breytt í safn, þar sem sjá má fræg verk eftir Brüghel eldri, David, Titian og Rubens. Miðja safnsins er húsagarður með þrjátíu kapellum allt um kring.

Næstu skref

C. Madrid – austurbær – Plaza de España

Borgarrölt, Madrid
Plaza de España, Madrid

Don Quixote og Sancho Panza á Plaza de España

Plaza de España

Við hefjum síðari gönguferðina á Spánartorgi, Plaza de España. Það er svo sem ekkert sérstaklega skemmtilegt torg, girt ljótum skýjakljúfum, en merkilegt fyrir bronzstyttuna af Don Quixote og Sancho Panza, sem er einkennistákn borgarinnar og ljósmyndað á kápu þessarar bókar. Yfir styttunni gnæfir minnismerki um rithöfundinn Miguel de Cervantes Saavedra, sem samdi söguna um þá félaga, hina dæmigerðu Kastilíubúa. Cervantes var uppi fyrir fjórum öldum, samtíðarmaður Shakespeares og sr Einars í Eydölum.

Gran Vía

Úr austurhorni torgsins liggur Gran Vía, helzta ferðamannagata borgarinnar. Við röltum upp brekkuna framhjá skrifstofum flugfélaga og skyndibitastöðum, hótelum og bílaleigum, bönkum og bíóhúsum. Þungamiðja götunnar er við Plaza de Callao, þar sem göngugöturnar tvær, Preciados og Carmen, liggja niður á Plaza Puerta del Sol. Töluvert austar rennur Gran Vía inn í götuna Alcalá. Alla þessa leið er yfirleitt þung umferð bíla með tilheyrandi flauti og taugaveiklun.

Gran Vía skiptir miðborginni í tvennt. Sunnan við er hin hefðbundna miðborg, sem lýst er í þessari bók, þar á meðal veitingastaðir, kaffihús, barir og skemmtistaðir ferðamanna og fullorðinna Spánverja, en norðan við eru staðir unga fólksins í Madrid, með hávaðasamri tónlist, fíkniefnasölu og umræðum um ljóðlist.

Næstu skref

D. Barcelona

Borgarrölt, Madrid

Katalúnía

Barri Gótic, Barcelona

Barri Gótic

Katalúnía hefur löngum verið menningarafl á Spáni. Einkum var það áberandi um og eftir aldamótin 1900, þegar margir frægustu listamenn Spánar voru Katalúníumenn eða fluttust þangað til að njóta hins frjálsa borgarlofts. Hér bjuggu Pablo Picasso, Joan Miró, Gaudí, Salvador Dalí og Pablo (Pau) Casals. Á tímum falangista var Katalúníu haldið niðri, en eftir dauða Francos og endurnýjun lýðræðis hefur Katalúnía verið á fullri ferð í átt til aukins sjálfstæðis, eigin menningar og auðsöfnunar.

Frá Katalúníu koma zarzuela, blanda sjávarrétta, og bullabesa, sem er sjávarréttasúpa í stíl við hina frönsku bouillabaisse, en þó mun bragðsterkari. Skötuselur (rape) er vinsæll. Einn þjóðarrétta Katalúna er crema catalana, mjólkurbúðingur með karamelluskorpu.

Sardana dans, Catedral de Santa Eulalia, Barcelona

Sardana dans fyrir framan Catedral de Santa Eulalia

Katalúnía er land cava, freyðivíns, sem er framleitt á sama hátt og franskt kampavín. Freyðivín er víða selt á gangstéttum Barcelona og á sérstökum Xampanyerias-börum. Vín frá Katalúníu eru að jafnaði ekki eins góð og vín frá Rioja, en eru á uppleið, einkum vín frá Penèdes.

Barcelona

Barcelona er höfuðborg Katalúníu og hafnarborg við Miðjarðarhafið, önnur stærsta borg Spánar, með tæplega tveimur milljónum íbúa. Hún er mesta kaupsýslu- og bankaborg Spánar, miklu stríðari og spenntari en Madrid, líkari Norður-Evrópu, tengiliður Spánar við meginálfuna.

Fólk vinnur í Barcelona, en lifir í Madrid. Í Barcelona hangir fólk minna á kaffihúsum og flýtir sér meira á götunum. Þótt umferðaræðarnar séu mun víðari í Barcelona og breiðgötur skeri miðborgina kruss og þvers, er umferðin þar mun þyngri en í Madrid. Á annatímum virðist bílaþvagan standa nokkurn veginn í stað um allan miðbæ.

Þar sem uppgangur borgarinnar var mestur um og upp úr aldamótum, eru mörg fræg hús í borginni frá þeim skamma tíma, er ungstíll, það er Art Nouveau eða Jugendstil, fór eins og eldur í sinu um Evrópu. Því má sjá í Barcelona bankahallir, sem minna á draumóra úr ævintýrum, gerólíkar þunglamalegum bankakössum annars staðar í álfunni.

Katalúnska er víðast hvar að leysa kastilísku af hólmi í Barcelona. Hún er töluvert ólík kastilísku, undir meiri áhrifum af nábýlinu við Provence í Frakklandi. Ef leigubílar eru lausir, stendur ekki lengur “libre” í framglugganum, heldur “lliure”. Ný götuskilti á katalúnsku eru sem óðast að koma upp. Matseðlar eru í vaxandi mæli á katalúnsku. Í safni Joan Miró eru skýringar ekki á því, sem við þekkjum sem spönsku, heldur á heimatungunni. Allt bendir til, að spönsku verði smám saman rutt til hliðar í höfuðborg Katalúníumanna.

Næstu skref

E. Andalúcia

Borgarrölt, Madrid

Sevilla

Catedral de Santa Maria, Sevilla 2

Catedral de Santa Maria

Sevilla er helzta borg Andalúsíu og var raunar öldum saman aðalborg Spánar. Hún var márísk í rúmar fimm aldir, 712-1248, svo sem enn má sjá á borgarkastalanum og bænaturni dómkirkjunnar.

Einkum varð vegur hennar þó mikill eftir landafundina í Ameríku fyrir fimm öldum. Í þá daga var skipgengt upp ána Guadalquivir til borgarinnar, svo að Amerigo Vespucci, Cristóbal Cólon (Kólumbus) og Fernao de Magalhaes (Magellan) settu svip sinn á staðinn og lögðu sumpart héðan af stað í ferðir sínar. Hér komu líka við sögu Don Júan, Don Quixote, Cervantes, Velázques og Carmen.

Alcázar, Sevilla

Alcázar

Sevilla er fjörug borg með rúmlega hálfa milljón íbúa, auk mikils fjölda ferðamanna, sem flykkist til borgarinnar árið um kring. Fræg er hin mikla dymbilvikuhátíð, Semana Santa, sem hefst á pálmasunnudag og stendur með daglegum skrúðgöngum í heila viku. Bræðraklúbbar keppast um að útbúa sem skrautlegasta vagna með turnum og myndastyttum. Á milli vagnanna dansar fólk og syngur.

Skömmu eftir dymbilvikuhátíðina kemur aprílhátíð, Feria de Abril, þegar menn reisa tjöld og halda uppi veizlum, dansi og söng í heila viku. Sevilla er höfuðborg dansanna flamenco og sevilliana.

Árið 1992 verður heimssýningin haldin á eyju í Guadalquivir um tveimur kílómetrum norðan við miðbæinn í Sevilla. Á sama ári verða ólympíuleikarnir í Barcelona og Madrid verður menningarhöfuðborg Evrópu, svo að Spánverjar hlakka mikið til um þessar mundir. Það ár verða einnig liðnar nákvæmlega fimm aldir síðan Kólumbus lagði af stað í fyrstu Ameríkuferð sína.

Næstu skref

F. Spánn

Borgarrölt, Madrid

Valencia

Valencia er eitt mesta ferðamannahérað Spánar. Þar eru Costa Blanca, Benidorm og Alicante. Þar eru mestu appelsínulundir Spánar, sól og sumar nær árið um kring.

Þetta er líka hrísgrjónaland Spánar, land fjölmargra hrísgrjónarétta, einkum pælunnar, pönnusteiktra hrísgrjóna með saffran, upphaflega með kjötbitum og baunum, en á síðari tímum einnig með sjávarfangi.

Valensíumenn eru frægir fyrir hátíðir sínar, sem standa með hléum árið um kring. Í apríl er mest um að vera, á Moros y cristianos, þar sem leiknir eru bardagar milli mára og kristinna frá 13. öld og þáttakendur klæðast ofsalega skrautlegum búningum. Um jól og áramót eru líka miklar hátíðir, svo og kjötkveðjan í febrúar.Valencia market

Vegna andstöðu sinnar við falangista fóru Valensíumenn illa út úr valdaskeiði Francos. Síðan hann féll frá, hefur efnahagur skánað töluvert. Einnig hafa þeir lagt mikla áherzlu á endurheimt tungu sinnar, sem er svipuð katalúnsku. Valensíska er komin á götuskilti og leigubílaskilti, svo og suma matseðla, svo að dæmi séu nefnd.

Borgin

Valencia er þriðja stærsta borg Spánar með tæplega 800 þúsund íbúum, einn helzti gluggi landsins til viðskipta á austanverðu og sunnanverðu Miðjarðarhafi.

Valencia er fræg fyrir Fallas, varðelda- eða kjötkveðjuhátíðina í marz, þegar heilsað er vori. Þá fara menn í skrúðgöngur með risastór líkneski, svonefndar fallas, sem unnið hefur verið við allt árið á undan. Klúbbar keppa um að búa til beztu líkneskin. Þá eru sungnir söngvar á valensísku, svonefndir Llibret, sem fela í sér háð og spott og hafa pólitískt sjálfstæðisgildi, sem óbeint er stefnt gegn kúgun af hálfu Kastilíu.

Næstu skref