Borgarrölt

3. Útrásir – Grottaferrata

Borgarrölt

Via Appia Antica

Castelli Romani er sameiginlegt nafn nokkurra smábæja í hæðunum 25 km suðaustur af Róm. Boðið er upp á daglegar skoðunarferðir í rútu og er þá oft einnig komið við í katakombunum við Via Appia Antica.

Via Appia Antica var lagður 312 f.Kr. og náði til Capua, Benevento og Brindisi. Snemma var farið að reisa grafhýsi umhverfis hann, því að bannað var að jarða fólk innan borgar. Enn er hægt að aka eftir þessum gamla vegi framhjá helztu katakombum kristinna manna í Róm, grafhýsi Romulusar, veðhlaupabraut Maxentiusar og grafhýsi Ceciliu Metella, svo og ótal smærri bautasteinum og minnisvörðum.

Þrjár katakombur eru til sýnis á þessum slóðum, Callisto, lokuð miðvikudaga; Domitilla, lokuð þriðjudaga; og Sebastiano, lokuð fimmtudaga.

Katakomba er ekki felustaður kristinna, heldur kristinn neðanjarðar-grafreitur, sem skiptist venjulega í nokkrar hæðir, því alltaf þurfti að grafa dýpra og dýpra, þegar minna varð um rými. Þær voru að mestu grafnar á 3. og 4. öld.

Castelli Romani

Castelli, Grottaferrata, Roma

Castelli, Grottaferrata

Leiðin um Castelli Romani liggur venjulega fyrst til Castel Gandolfo, sem er á brún eldgígsins mikla, sem hefur myndað Lago di Albano. Í þessum bæ er sumarhöll og stjörnuskoðunarstöð páfans. Frá svölum framan við sumarhöllina er gott útsýni yfir vatnið.

Rocca di Papa er bær, sem hangir í hlíðum Monte Cavo, allur í bröttum tröppum og undnum göngusundum, hæsti bær í Castelli Romani.

Grottaferrata býr að baki virkissíkis yfir fallegu klaustri, þar sem kaþólskir munkar hafa frá 1004 notað ortódoksa helgisiði. Þar er kirkja með 12. aldar turni.

Í Frascati er miðstöð vínræktar og þar gnæfir svipmikil Villa Aldobrandini í hlíðinni yfir miðbæjartorginu.

Nú víkur sögunni að Napoli og Campania.

Næstu skref

2. Útrásir – Ostia Antica

Borgarrölt
Forum & Capitolum, Ostia, Roma

Forum & Capitolum, Ostia

Ostia Antica

Hinn gamli hafnarbær Rómar, Ostia Antica, er 25 km suðvestan borgarinnar. Þangað má komast í lest, sem fer frá Porta San Paolo og tengist neðanjarðarlestakerfi borgarinnar. Bærinn hefur verið grafinn upp og er til sýnis. Hann er að mestu leyti frá 2. öld. Árframburður olli því, að hafnarstæðið eyðilagðist og bærinn lagðist niður, grófst í sand og hefur þannig varðveitzt.

Rústirnar eru tæplega 1,5 km að lengd. Frá innganginum er farið eftir aðalgötunni, Decumanus Maximus, framhjá kirkjugarðinum að baðhúsi Neptunusar, þar sem eru fagrar steinfellumyndir. Við hlið þess er nokkuð heillegt leikhús og að baki þess ferhyrnt fyrirtækjatorg, þar sem verzlunar- og siglingafyrirtæki höfðu búðir og skrifstofur í súlnagöngum.

Leiðin liggur svo eftir aðalgötunni beint að höfuðtorginu, Forum, þar sem er aðalhofið, Capitolum, reist á fyrri hluta 2. aldar. Marmarinn er horfinn, en undirstöður hofsins og hluti veggjanna stendur enn.

Í Ostia Antica má víða sjá merki svokallaðra Insulæ sem voru íbúðablokkir þess tíma, reistar umhverfis lokaðan, ferhyrndan húsagarð, stundum 3ja eða 4ra hæða.

Hægt er að verja miklum tíma í að rölta um hliðargötur bæjarins. Að því loknu er farin sama leið til baka eftir Decumanus Maximus.

Næstu skref

B. Páfaríki

Borgarrölt, Róm

Péturskirkja, Roma 2

1. ganga, Páfaríki

Palazzo di Giustizia

Palazzo di Giustitia, Roma

Palazzo di Giustitia

Péturskirkja er eitt helzta aðdráttarafl Rómar, enda höfuðkirkja kristindóms. Við byrjum leiðsögnina um Róm í nágrenni hennar, á bakka borgarfljótsins Tevere, við brúna Ponte Umberto I.

Andspænis okkur er það hús, sem mest ber á í allri Róm. Það er Palazzo di Giustizia, dómhús borgarinnar, mikil rjómaterta, hönnuð af Gugliemo Calderini og byggð 1889-1911 í sögustíl, eins konar blöndu hlaðstíls og nýgnæfu

Ponte Sant’Angelo

Við göngum niður eftir árbakkanum, Lungotevere Castello, í átt til fegurstu brúar Rómar. Það er Ponte Sant’Angelo, að mestu frá 136. Hadrianus keisari lét reisa hana til að tengja Marzvelli, Campus Martius, við grafhýsi sitt handan árinnar. Miðbogarnir þrír eru upprunalegir, en endabogarnir eru frá 17. öld. Stytturnar af Pétri og Páli postulum á syðri enda brúarinnar eru frá 1530. Hinar stytturnar tíu eru hannaðar af Bernini og reistar árin 1667-1669.

Næstu skref

A. New York

Borgarrölt, New York

Fjörug og mannleg

Liberty Statue, New York 2

Liberty Statue

New York er fjörug borg, allt að því vingjarnleg borg og líklega jafnvel mannleg borg. Hún er staðurinn, þar sem ókunnugir eru fyrirvaralaust teknir tali, ekki aðeins við barinn, heldur hvar sem er. Þeir eru viðurkenndir sem fólk, enda er þriðjungur borgaranna fæddur í útlöndum og því eins konar ókunnugir sjálfir.

New York er ekki Bandaríkin og ekki heldur Evrópa, heldur suðupottur beggja og þriðja heimsins að auki. Sumir borgarhlutar minna á bazar í Kairo eða Kalkútta. Alls staðar er mannhaf, alls staðar er verið að verzla og nú orðið ekki sízt á gangstéttum úti.

Sé einhver staður nafli alheimsins, þá er það miðborg New York, sem fjallað er um í þessari bók, — Manhattan. Sú eyja er miðstöð myndlistar, önnur af tveimur miðstöðvum leiklistar, fremsta miðstöð tónlistar og bókmennta. Hún er mesta safnaborg heims.

Næstu skref

14. Miðbær eystri – San Pietro in Vincoli

Borgarrölt
Michelangelo: Moses, San Pietro in Vinicole, Roma

Michelangelo: Moses, San Pietro in Vincoli

San Pietro in Vincoli

Hér getum við lokið ferðinni eða gengið 900 metra, fyrst beint frá kirkjunni eftir Via Merulana og síðan til hægri eftir Via Giovanni Lanza. Þar sem sú gata mætir Via Cavour, eru til vinstri brattar tröppur og undirgöng og er þá komið að San Pietro in Vincoli.

Kirkjan er frá 432, en er einkum fræg fyrir þrjár höggmyndir eftir Michelangelo við gröf páfans Juliusar II, þar á meðal risastyttu af Móse, sem ferðamenn flykkjast að til að skoða. Hvor sínu megin við Móses eru styttur af Rakel og Leu, einnig eftir Michelangelo. Stytturnar á efri hæð eru hins vegar eftir lærisveina hans.

Nú er lokið skoðun Rómar og næst förum við um Lazio, hið forna Latinum, sem tungumálið Latína heitir eftir.

Næstu skref

13. Miðbær eystri – Santa Maria Maggiore

Borgarrölt
Santa Maria Maggiore, Roma 2

Santa Maria Maggiore

Santa Maria Maggiore

Frá torginu förum við eftir breiðgötunni Via Cavour til Piazza del Esquilino, þar sem Santa Maria Maggiore er í brekkunni á vinstri hönd, ein af fjórum höfuðkirkjum Rómar, með Péturskirkju, Jóhannesarkirkju í Laterano og Pálskirkju utan múra. Við göngum kringum kirkjuna til að komast að framhlið hennar og inngangi á Piazza di Santa Maria Maggiore.

Kirkjan var upphaflega reist 432-440, en hefur smám saman breytzt mikið við endurnýjanir og viðbætur. Fordyrið að sunnanverðu er frá 12. öld. Kirkjuturninn, sem er hinn hæsti í Róm, er frá 1377. Núverandi útlit fékk kirkjan á 18. öld.

Að innan er kirkjubyrðan líkari uppruna sínum, til dæmis með jónískum súlnaröðum utan um miðskip, sem er jafnhátt og það er breitt. Í miðskipi, altarisboga og kór eru ofan súlnariðs upprunalegar steinfellumyndir frá 5. öld. Þær eru meðal elztu kristilegu steinfellumyndanna í Róm og sýna atburði úr biblíunni, en til að sjá þær vel þarf helzt sjónauka.

Santa Maria Maggiore, Roma

Santa Maria Maggiore

Á torginu fyrir utan er annar einsteinungurinn, sem rænt var frá innganginum að grafhýsi Augustusar.

Næstu skref

12. Miðbær eystri – Piazza Republica

Borgarrölt
Fontana delle Naiadi & Terme di Diocleziano, Roma

Fontana delle Naiadi & Terme di Diocleziano

Piazza Republica

Frá horninu förum við suðaustur eftir Via delle Quattro Fontane og síðan til vinstri eftir Via Nazionale að Piazza della Republica, sem oft er kallað Piazza Esedra, af því að það er í laginu eins og hálfhringur, hannað 1870. Á miðju torginu er brunnur, Fontana delle Naiadi, af fjórum berum stúlkum að berjast við sæskrímsli, og þótti brunnurinn dónalegur um aldamótin, þegar hann var reistur.

Terme di Diocleziano

Handan torgsins eru rústir baðhallar Diokletianusar keisara, sem var stærsta baðhöll fornaldar í Róm, 13 hektarar að flatarmáli og gat tekið 3000 baðgesti í einu, reist 295-305. Í baðhöllinni voru mismunandi heit böð eins og lýst er í kaflanum um Caracalla-baðhöllina, bókasöfn, tónleikasalir, garðar og sýningarsalir.

Böðin féllu úr notkun 538, þegar vatnsriðin til borgarinnar voru eyðilögð í upplausn þjóðflutningatímans. Eftir stendur nokkur hluti af innsta kjarnanum, þar sem var kaldi og volgi baðsalurinn, svo og innri sveigveggur heita baðsalarins, sem snýr að torginu.

Kaldi og volgi baðsalurinn varðveittust að nokkru, af því að þeim var breytt í kirkjuna Santa Maria degli Angeli. Michelangelo var falið að hanna kirkjuna 1561. Hann notaði veggi og form baðhallarinnar til að hanna krosskirkju, þar sem mest ber á þverskipinu. Í því er mikið safn málverka frá 18. öld.

Museo Nazionale Romano

Við förum til vinstri úr kirkjunni, göngum meðfram rústum baðhallarinnar fyrir hornið að inngangi í fornminjasafn, sem hefur verið innréttað í afganginum af rústum hallarinnar. Það er Museo Nazionale Romano, eitt merkasta safn grískra og rómverskra muna, sem til er.

Í safninu er hin gríska frummynd Ludovisi-hásætisins; fræg stytta af Augustusi keisara í klerkaskikkju; Venus frá Cyrene; kringlukastarinn og ótal mörg fleiri verk, sem prýða listasögubækur.

Stazione Termini

Úr safninu förum við yfir Piazza del Cinquecento. Handan við það er aðaljárnbrautarstöðin með stórum glerveggjum undir risavöxnu bylgjuþaki, gott dæmi um byggingarlist nútímans, reist 1951. Við torgið eru líka stöðvar strætisvagna og áætlunarbíla, sem fara út um borgina og út úr henni, þar á meðal til flugvalla Rómar.

Nálægt torginu, við Via Massimo d’Azeglio 3f, er veitingahúsið La Taverna.

Næstu skref
Stazione Termini, Roma

Stazione Termini

11. Miðbær eystri – San Andrea al Quirinale

Borgarrölt

San Andrea al Quirinale

San Andrea al Quirinale, Roma 2

San Andrea al Quirinale

Við göngum eftir Via del Quirinale meðfram forsetahöllinni. Miðja vega hallarinnar, handan götunnar, er sporöskjulaga og lítil einskipabyrða, hönnuð í hlaðstíl af Bernini 1668, fyrirmynd margra kirkna. Þetta er jesúítakirkjan San Andrea al Quirinale, sem Bernini taldi bezta verk sitt.

Kirkjan er meiri á þverveginn en langveginn. Að götunni snúa sveigðar tröppur og sveigð súlnaverönd undir stórum gaflaðsþríhyrningi. Bókrolluvindingar styðja að hvolfinu úr öllum áttum. Að innan er kirkjan klædd bleikfikróttum og mislitum marmara, hóflega skreytt og með reitamynztri í hlutfallslega háu hvolfi.

San Andrea al Quirinale, Roma

San Andrea al Quirinale

San Carlo alle Quattro Fontane

Sömu megin götunnar, nær enda Palazzo del Quirinale, er önnur lítil kirkja eftir hinn höfuðpáfa hlaðstíls, Borromini, reist að mestu 1638-1640.

San Carlo alle Quattro Fontane er fyrirmynd margra kirkna eins og San Andrea og einnig sporöskjulaga að grunnfleti, en hér er kirkjuskipið á langveginn. Einkenni kirkjunnar eru sveiglínur og gagnsveiglínur, hvolfar og íhvolfar, svo og stærðfræðileg nákvæmi í allri útfærslu.

Hér á horni Via del Quirinale og Via delle Quattro Fontane eru fjórir brunnar, hver undir sínu húshorni. Frá miðju horninu er útsýni eftir beinum götum til fjögurra átta að fjórum einsteinungum, sem eru á Piazza Trinità dei Monti, Piazza Porta Pia, Piazza del Esquilino og Piazza del Quirinale.

Næstu skref

10. Miðbær eystri – Piazza del Quirinale

Borgarrölt
Palazzo Quirinale, Roma

Palazzo Quirinale

Piazza del Quirinale

Frá brunninum förum við suður eftir Via San Vincenzo og síðan til vinstri eftir Via della Dataria og svo tröppurnar upp á Piazza del Quirinale, eitt fallegasta torg Rómar, í vesturbrún Quirinale-hæðar.

Á miðju torgi eru styttur af Castori og Polluxi við annan af einsteinungnum, sem upphaflega stóð við innganginn að grafhýsi Augustusar. Frá torginu er gott útsýni yfir miðbæinn. Umhverfis það eru hallir og ber þar mest á hlaðstílshöllinni Palazzo del Quirinale frá 1573, fyrrverandi páfahöll og núverandi aðsetri forseta Ítalíu. Maderno hannaði aðalinngang hallarinnar.

Næstu skref

9. Miðbær eystri – Fontana Trevi

Borgarrölt

Fontana Trevi, Roma

Fontana Trevi

Frá Piazza Barberini förum við niður verzlanagötuna Via del Tritone, beygjum til vinstri eftir Via della Stamperia og göngum á hljóðið frá Trevi-brunni, sameinaðan vatnsnið og ferðamannanið. Við brunninn stendur fólk og kastar peningum yfir öxlina á sér í brunninn til að tryggja endurkomu sína til Rómar. En Anita Ekberg er orðin ellimóð og filmstjörnur eru hættar að baða sig í brunninum, enda er löggan vel á verði.

Fontana Trevi er dæmi um ofhlæði lokaskeiðs hlaðstíls. Nicolà Salvi hannaði brunninn 1762. Hann er úr skjannahvítum marmara og sýnir sjávarguðinn Neptúnus með tveimur sjávargoðum og reiðskjótum þeirra. Yfir brunninum er hvít marmarahliðin á Palazzo Poli og myndar bakgrunn við hæfi brunnsins.

Næstu skref

8. Miðbær eystri – Via Veneto

Borgarrölt

Via Veneto, Roma

Via Veneto

Frá Porta Pinciana förum við að öðrum kosti niður eftir Via Vittorio Veneto, hina hefðbundnu hótelgötu borgarinnar og tízkugötu hennar á blómaskeiði ítalskra kvikmynda. En hún er tæpast lengur miðstöð Rómartízkunnar. Þetta er breið gata, sem skartar trjám og þekktum kaffihúsum, svo sem Café de Paris á 90 og Doney á 145. Umhverfis hana er Ludovisi-hverfið, sem þekkt er að auðlegð. Gatan liggur í sveigum niður á Piazza Barberini.

Fontana Tritone, Roma

Fontana Tritone

Nokkur góð matsöluhús eru í götunum vinstra megin við Via Veneto, svo sem Girarrosto Toscano á Via Campania 29, Andrea á Via Sardegna 28c og Cesarina á Via Piemonte 129.

Palazzo Barberini

Á Piazza Barberini er brunnur eftir Bernini, Fontana Tritone, frá 1642, og sýnir fjóra höfrunga bera hörpuskel, er á situr sjávargoð, sem blæs í kuðung.

Við torgið er Palazzo Barberini, hönnuð af hinum tveimur stóru nöfnum hlaðstíls, Bernini og Borromini, reist 1629-1633. Framhliðin er eftir Bernini og ýmsar skreytingar eftir Borromini.

Í höllinni er safn listaverka, Galleria Nazionale d’Arte Antica, á 1. hæð frá 13.-16. öld og á 2. hæð frá 17.-18. öld.

Næstu skref

7. Miðbær eystri – Trinità dei Monti

Borgarrölt
Trinità dei Monti & Scalinata de Spagna, Roma

Trinità dei Monti til vinstri & Scalinata de Spagna

Trinità dei Monti

Við förum upp tröppurnar að kirkjunni Trinità dei Monti. Að ofanverðu er gott útsýni yfir miðbæinn og alla leið til Péturskirkju. Enn betra útsýni er úr veitingasal Hassler-hótels, sem er hér við hlið kirkjunnar og getið er í gistingarkafla bókarinnar. Á torginu ofan við tröppurnar er rómverskur einsteinungur, sem er stæling á egypzkum.

Smíði Trinità dei Monti hófst 1502 og lauk 1585. Framhliðin er í hlaðstíl eftir Carlo Maderno, þann hinn sama og hannaði framhlið Péturskirkju. Í kirkjunni eru listaverk eftir Volterra.

Við getum tekið krók norður frá kirkjunni eftir Viale Trinità dei Monti að Villa Medici frá 1564, þar sem oft eru listsýningar og franskar menningarvikur.

Casino Borghese

Að öðrum kosti förum við til suðurs eftir Via Sistina að Via Crispi, þar sem við beygjum til vinstri upp brekkuna og höldum beint áfram eftir Via Porta Pinciana að samnefndu hliði á borgarmúrnum.

Við getum tekið á okkur krók gegnum Porta Pinciana inn í Borghese-garða og þar til hægri eftir Viale Museo Borghese að samnefndu höggmynda- og málverkasafni, sem er í Casino Borghese. Þetta er 800 metra leið, sem borgar sig, ef við erum á ferð nógu snemma dags.

Í safninu eru verk eftir Bernini, Canova, Caravaggio, Dürer, Pinturicchio, Rafael, Rubens, Titian og marga fleiri þekkta listamenn fyrri alda.

Næstu skref

6. Miðbær eystri – Piazza di Spagna

Borgarrölt
Scalinata di Spagna, Roma

Scalinata di Spagna

Piazza di Spagna

Spánartorg er langt og mjótt. Á miðju þess, undir Spánartröppum, er brunnurinn Fontana della Barcaccia, hannaður af Bernini eldri 1627-1629. Við brunninn er þungamiðja ferðamannalífs í Róm og hefur svo verið öldum saman.

Spánartröppur heita raunar Scalinata della Trinità dei Monti. Þær voru reistar 1723-1726 í hlaðstíl og eru mesti ferðamannasegullinn í Róm. Áður fyrr stóðu fyrirsætur listamanna á steinhandriðum, síðan urðu tröppurnar vettvangur blómasala, en nú selja Afríkumenn þar ódýra skartgripi og leðurvörur. Á vorin glóa tröppurnar af glóðarrósum.

Næstu skref

5. Miðbær eystri – Via dei Condotti

Borgarrölt
Caffé Greco, café, Roma

Caffè Greco

Via dei Condotti

Við förum úr safninu kringum San Rocco, undir göngin inn á Piazza Augusto Imperatore, þar sem inngangurinn sést í grafhýsi Augustusar, sem áður er getið. Við höldum áfram eftir Largo degli Schiavoni inn Via Tomacelli, þar sem við beygjum til vinstri, förum yfir Via del Corso beint inn Via dei Condotti.

Þessi gata er burðarás göngugatnahverfis hlaðstílshúsa neðan við Spánartröppur. Þetta hverfi hefur tekið við af svæðinu umhverfis Via Veneto sem fína hverfið í miðbænum. Á þessum slóðum eru flestar fínustu tízkubúðir Rómar, þar á meðal margar við Via dei Condotti.

Nálægt enda götunnar við Piazza di Spagna er Caffè Greco, rúmlega tveggja alda gamalt kaffihús, sennilega frægasta kaffihús heims. Þar stóðu H. C. Andersen, Berlioz, Browning, Goethe, Tennyson, Thackeray og Wagner frammi við diskinn. Nú sitja ferðamenn fyrir innan, í mjóum veitingasal.

Næstu skref

4. Miðbær eystri – Ara Pacis

Borgarrölt

Ara Pacis, Roma

Ara Pacis

Ármegin við grafhýsið er ferhyrnd bygging með glerveggjum. Innan í því er altarið Ara Pacis Augustae, sem upphaflega var reist árið 9 f.Kr. til heiðurs hinum rómverska friði, sem Augustus hafði komið á. Altarið stóð upphaflega við Via Flamina.

Altarið, sem hér er, var sett saman úr brotum upprunalega altarisins, sem varðveitt voru í ýmsum söfnum; úr eftirlíkingum af slíkum brotum úr því; og svo hreinum eftirlíkingum. Það var opnað almenningi 1970.

Skreytingar þess og lágmyndir marka hástig rómverskrar höggmyndalistar. Að utanverðu eru á neðri hlutanum laufa- og svanaskreytingar. Á efri hluta hliðanna eru lágmyndir af Augustusi, ættingjum hans og fleira fólki í skrúðgöngu. Við innganginn að sunnanverðu eru lágmyndir, sem sýna stofnun Rómar; og að norðanverðu sýna þær veldi borgarinnar.

Næstu skref