Borgarrölt

3. Miðbær eystri – Mausoleo di Augosto

Borgarrölt

Masoleo di Augusto, Roma

Mausoleo di Augosto

Via del Corso liggur þráðbein gegnum miðbæinn, þar sem Via Flamina var í fornöld. Þetta er helzta verzlunar- og bankagata Rómar, svo og skrúðgöngugata, liggur milli Piazza del Popolo og Piazza Venezia, 1500 metra leið. Við göngum hana til Via Pontefici, þar sem við göngum til hægri framhjá Mausoleo di Augosto.

Hringlaga grafhýsi Augustusar keisara var reist 28-23 f.Kr og varð þá einn af mestu helgistöðum Rómar. Þar var Augustus grafinn og nokkrir helztu ættingjar hans. Það var hringlaga bygging með jarðvegshaug ofan á og voldugu líkneski af keisaranum efst, líkt og grafhýsi Hadrianusar, sem áður var fjallað um.

Á 12. öld var því breytt í virki. Páfinn Gregorius IX lét eyðileggja það og ræna úr því kalksteininum á fyrri hluta 13. aldar. Löngu seinna var grafhýsið notað sem nautaatshringur og síðar leikhús, en rústirnar hafa nú verið friðaðar.

Næstu skref

2. Miðbær eystri – Piazza del Popolo

Borgarrölt
Porta del Popolo & Santa Maria del Popolo, Roma

Porta del Popolo & Santa Maria del Popolo hægra megin

Piazza del Popolo

Frá safninu förum við yfir götuna, upp tröppurnar í Borghese-garða og síðan beint áfram að Viale Washington, er við göngum alla leið að Porta del Popolo, þar sem við förum í gegn. Þetta er alls um 800 metra leið.

Porta del Popolo er frá 1562-1565 og stendur þar, sem Porta Flamina var áður, í borgarmúr Aureliusar.

Piazza Popolo, Roma

Piazza del Popolo, Santa Maria dei Miracoli og Santa Maria di Montesanto

Vinstra megin við borgarhliðið er Santa Maria del Popolo, frá 1472-1477, ein fyrsta kirkja Rómar í endurreisnarstíl. Í kirkjunni er mikið af listaverkum, til dæmis eftir Pinturicchio, Caravaggio og Rafael.

Piazza del Popolo er hannað af Giuseppe Valadier og lagt 1816-1824. Á torginu miðju er egypzkur einsteinungur frá Heliopolis, sem áður var í Circus Maximus. Torgið markar tilraun til borgarskipulags, sem fólst í að hafa samhæfðar byggingar umhverfis víðáttutorg.

Ofan við torgið er útsýnisstaðurinn Pincio í vesturhlið Borghese-garða.

Á mótum torgs og Via del Corso eru tvær systurkirkjur, Santa Maria dei Miracoli og Santa Maria di Montesanto, hannaðar af Carlo Rainaldi og reistar 1662-1679.

Pincio, Roma

Pincio

Við torgið eru tvö þekkt kaffihús hvort andspænis öðru, Rosati á 5a og Canova á 16. Þar hittast uppar og menningarvitar borgarinnar.

Næstu skref

15. Miðbær vestri – Piazza Colonna

Borgarrölt

Piazza ColonnaColonna, Roma

Frá Piazza Sant’Ignazio förum við eftir Via Bergamaschi að Piazza Colonna, sem er á fjölförnum stað á mótum tveggja verzlunargatna, Via del Corso og Via del Tritone.

Súlan á torginu var reist 176-193 til heiðurs Aureliusi keisara og sýnir spíralmyndir úr stríði hans við þjóðflokka á bökkum Dónár. Þessi súla minnir á súlu Trajanusar, en er ekki eins vel gerð. Höggmyndin ofan á súlunni var áður af keisaranum, en er nú af Páli postula.

Að baki súlunni er Palazzo Wedekind með 16 fornaldarsúlum í jónískum stíl. Norðan við torgið er Palazzo Chigi frá 1562-1630, hannað af Giacomo della Porta og síðan Carlo Maderna. Andspænis súlunni, handan Via del Corso, er verzlanahöllin Galeria Colonna með mörgum smábúðum undir einu þaki

Palazzo di Montecitorio, Roma

Camera dei Deputati

Við förum meðfram Palazzo Wedekind inn á torgið Piazza di Montecitorio. Þar er höllin Palazzo di Montecitorio, hönnuð af Bernini og síðan Carlo Fontana, reist 1650-1694. Þar er neðri deild ítalska þjóðþingsins til húsa, Camera dei Deputati. Aðalinngangurinn er ekki frá þessu torgi, heldur frá torginu norðan við höllina, Piazza di Palamento.

Við Piazza Colonna og Piazza di Montecitorio og í nágrenni þeirra eru byggingar stjórnmálaflokka og fjölmiðla. Við Via Uffici del Vicario, sem liggur út frá Piazza di Montecitorio, á nr. 36, er veitingahúsið Piccola Roma.

Þá er bara eftir austurhluti miðbæjarins.

Næstu skref

14. Miðbær vestri – Borsa

Borgarrölt

Borsa, Roma

Borsa

Við beygjum til vinstri eftir Via del Corso, framhjá kirkjunni San Marcello, byggð á 16. og 17. öld. Íhvolf hlaðstíls-framhliðin frá 1683 er eftir Carlo Fontana.

Við beygjum aftur til hægri eftir Via di Caravita og förum að Piazza Sant’Ignazio. Þar er kristmunkakirkjan Sant’Ignazio frá 1626. Í miðlofti hennar eru freskur eftir Andrea Pozzo.

Frá torginu förum við eftir Via dei Burrò meðfram kauphöllinni Borsa inn á torgið Piazza di Pietra, þar sem við sjáum súlnarið Borsa. Hér stóð áður Hadrianusarhof í fornöld, reist á vegum Antoniusar Piusar keisara árið 145 og eru súlurnar úr því.

Næstu skref

13. Miðbær vestri – Santa Maria sopra Minerva

Borgarrölt

Santa Maria sopra Minerva, Roma

Santa Maria sopra Minerva

Við göngum vinstra megin við Pantheon að Piazza della Minerva, þar sem er egypzkur einsteinungur frá 6. öld f.Kr. á fílsbaki. Bernini átti hugmyndina að þessari uppsetningu.

Við torgið er Santa Maria sopra Minerva, eina gotneska kirkjan í Róm, frá 1280. Ferhyrnd og einföld framhliðin var endursmíðuð í endurreisnarstíl á 17. öld með óbreyttum dyraumbúnaði frá 15. öld. Framan á kirkjunni hægra megin eru sex skildir, sem sýna hæð nokkurra flóða í borginni fyrr á öldum. Mikil listaverk eru innan í kirkjunni, þar á meðal höggmynd í kórnum af Kristi eftir Michelangelo.

Palazzo Doria

Facchino, Roma

Facchino

Við förum meðfram kirkjunni hægra megin eftir Via di Santa Caterina da Siena og í beinu framhaldi af henni eftir götunum Via Piè di Marmo, Piazza del Collegio Romano og Via Lata að hinni beinu aðalgötu Via del Corso, sem skilur sundur gamla og nýja miðbæinn.

Frá suðvesturhorni Piazza del Collegio Romano er gengið inn í málverka- og höggmyndasafnið í Palazzo Doria Pamphili, höll frá 1435. Þar má sjá sum af frægustu verkum Caravaggios, svo sem flóttann til Egyptalands; Donna Olimpia eftir Algardi; brjóstmynd af Innocentiusi X eftir Velasquez; og verk eftir Titian, Rafael, Correggio og Carracci-frændur.

Við Via Lata, nálægt horninu við Corso, er þekktur brunnur, Facchino, upp við vegg Banco di Roma. Þetta er höggmynd af drykkfelldum vatnsbera.

Næstu skref

12. Miðbær vestri – Pantheon

Borgarrölt

Pantheon, Roma 2

Pantheon

Síðan höldum við til vinstri eftir Via Sant’Eustachio og til hægri eftir Salita di Crescenzi inn á Piazza della Rotonda.

Hér erum við komin að bezt varðveittu fornbyggingu Rómar, hofið Pantheon, með frægu hringhvolfi frá 119-128, reistu á vegum Hadrianusar keisara á rústum fyrra hofs, sem Marcus Agrippa lét reisa 27 f.Kr. Það hefur staðið af sér allar hremmingar í nærri nítján aldir.

Upphaflega voru utan á hringhvolfinu bronzflögur, Pantheon, Romasem Constantinus keisari lét ræna 356 og flytja til Miklagarðs. Ennfremur voru í anddyrinu bronzplötur, sem páfinn Urban VIII af Barberini-ætt lét ræna 1624 til að steypa hásætishiminn Péturskirkju. Þá sagði hinn frægi Pasquino: Quod non fecerunt Barbari, fecerunt Barberini (Það sem barbarar gerðu ekki, það gerðu Barberinar) Að öðru leyti varðveittist hofið, vegna þess að því var breytt í kristna kirkju.

Framhlið Pantheons er eins og hefðbundið grískt hof með miklu, tvöföldu súlnaporti undir gaflaðsþríhyrningi. Súlurnar sextán eru einsteinungar úr graníti. Inn í sjálfa hringkirkjuna er gengið um voldugar bronsdyr, sem eru upprunalegar.

Hringkirkjan er 43,30 metrar í þvermál og jafnmargir metrar á hæð. Hvolfið, sem er breiðara en hvolf Péturskirkju, var einstætt verkfræðiafrek á sínum tíma, fegursti minnisvarði þeirrar tækni Rómverja að leiða burðarþol um hvolf niður í veggi og súlur. Efst uppi er tveggja metra, hringlaga op, sem hleypir inn ljósstaf sólar.

Neðst skiptast á súlnarið framan við kapellur, sem eru til skiptis hálfhringlaga og kantaðar; og veggfletir með helgiskrínum, þar sem skiptast á bogadregin gaflöð og þríhyrnd. Þessi form úr Pantheon voru síðan stæld endalaust, einkum á tíma endurreisnarstíls.

Útliti hæðarinnar ofan súlnanna var breytt á 18. öld. Yfir þriðju kapellunni hægra megin hefur þessu aftur verið breytt í upprunalegt horf til samanburðar.

Í kirkjunni eru steinkistur tveggja Ítalíukonunga og nokkurra listamanna, þar á meðal Rafaels.

Við götuna Via della Rosetta, á nr. 8-9, er veitingahúsið Rosetta.

Næstu skref

11. Miðbær vestri – San Ivo

Borgarrölt

San Ivo

San Ivo, Roma

San Ivo

Við göngum til baka að framhlið Palazzo Madama og suður eftir Corso del Rinascimento, þar sem við komum vinstra megin að Palazzo della Sapienza, sem var háskóli Rómar fram til 1935. Við förum inn í háskólaportið til að skoða háskólakirkjuna San Ivo, mesta meistaraverk Borrominis, í ávölum og íhvolfum línum hans, frá 1642-1660.

Kirkjan er hönnuð til að falla inn í sund á milli tveggja húsa. Kirkjan hefur íhvolfa framhlið á grunni, sem er eins og sexarma stjarna, og hún hefur sexlaufahvolf undir spíralturni. Flóknari gátu byggingar hlaðstíls tæpast orðið og er þetta þó lítil kirkja.

Við förum úr háskólaportinu, beygjum til vinstri eftir Corso del Rinascimento, aftur til vinstri eftir Via dei Sediari, framhjá veitingahúsinu Papà Giovanni, og síðan enn til vinstri inn á Piazza Sant’Eustachio. Þaðan er gott útsýni til hvolfsins á San Ivo og þar er þekkt kaffihús, Sant’Eustachio.

Næstu skref

10. Miðbær vestri – Piazza Navona

Borgarrölt

Piazza Navona

Við förum til baka meðfram kirkjunni og beygjum til hægri inn í Via della Pace og beint í framhaldi af henni eftir Via dei Lorensi inn á torgið Piazza Navona.

Rétt norðan við torgið, við Via Zanardelli 14, er veitingahúsið Passetto.

Torgið er í laginu eins og Circus Agonalis, íþrótta- og veðhlaupavöllur Dominitianusar keisara, sem var lagður hér á Campus Martius árið 86. Þá fóru hér fram frjálsar íþróttir og glíma, auk veðhlaupa. Constantinus keisari lét ræna marmara vallarins árið 356. Bardagasýningar riddara voru síðan háðar hér fram á 17. öld. 1477-1869 var grænmetismarkaður borgarinnar á torginu.

Nú er þetta einn helzti ferðamannastaður borgarinnar, enda er banni við bílaumferð framfylgt hér, þótt það sé ekki gert annars staðar í miðbænum. Hér sitja málarar og bjóða vegfarendum verk sín. Hér eru tvö þekkt kaffihús andspænis hvort öðru, Tre Scalini og Colombia. Hinu fyrra má ekki rugla saman við samnefnt veitingahús.

Á miðju torgi er hinn frægi Fjórfljótabrunnur í hlaðstíl frá 1651 eftir Bernini. Fjórar mannsmyndir, sem tákna höfuðfljótin Dóná, Níl, Ganges og Plate, eru í kringum helli, sem ber uppi rómverskan einsteinung frá tíma Dominitianusar.

Við enda torgsins eru Márabrunnur að sunnanverðu og Neptunusarbrunnur að norðanverðu. Við sunnanverða vesturhlið torgsins er Palazzo Pamphili, hönnuð af Rainaldi 1644.

S. Agnese & Fontana dei Fiumi, Roma

Sant’Agnese in Agone & Fontana dei Fiumi, Piazza Navona

Sant’Agnese in Agone

Fyrir miðju torgi er hlaðstílskirkjan Sant’Agnese in Agone, eitt þekktasta verk Borrominis, byggð að mestu 1652-1657. Hann gerði hvolfþakið og framhliðina, þar sem fram kemur blanda af ávölum og íhvolfum línum, en að öðru leyti er kirkjan meira hlaðin skrauti en hann hafði gert ráð fyrir. Kirkjan er einkar skrúðbúin að innanverðu.

Palazzo Madama

Frá miðju torgi, þar sem er kaffihúsið Colombia, göngum við eftir Calle Agonale til Corso del Rinascimento, þar sem Palazzo Madama gnæfir andspænis okkur, reist á 16. öld fyrir Medici-ættina og hýsir nú öldungadeild ítalska þingsins. Hin glæsilega framhlið, sem nýlega var gerð upp, er frá 1649.

Ef við förum vinstra megin meðfram höllinni, komum við að torgi, þar sem San Luigi dei Francesi er á vinstri hönd. Í kirkjunni, sem var byggð 1518-1589, eru málverk eftir Caravaggio og freskur eftir Domenichino.

Næstu skref

9. Miðbær vestri – Santa Maria della Pace

Borgarrölt

Santa Maria della Pace

Santa Maria della Pace, Roma

Santa Maria della Pace

Við beygjum til hægri inn í Vicolo della Volpe. Við komum þar strax að klaustri við kirkjuna Santa Maria della Pace. Þar er tveggja hæða klausturgarður eftir Bramante frá 1500-1504 með gullinsniði í súlnaskipan. Á neðri hæð eru jónískar veggsúlur á bogastoðum, líkt því sem er á Colosseum. Á efri hæð eru kórinþusúlur með grönnum deilisúlum á milli.

Við göngum nokkur skref áfram eftir Vicolo
della Volpe, förum fyrir afturenda Santa Maria della Pace og beygjum meðfram henni til hægri til að komast framan að þessari litlu og vel földu kirkju.

Pietro da Cortona reisti 1656-1657 þessa framhlið í hlaðstíl á eldri kirkju og hannaði raunar líka friðsælt kirkjutorgið, þar sem gert var ráð fyrir fyrsta einstefnuakstri sögunnar, á hestvögnum, sem fluttu aðalsfólk til kirkju. Hann notaði æðóttan kalkstein í framhliðina, eins og Rómverjar gerðu að fornu. Súlnarið framhliðarinnar er hálfhringlaga með íhvolfum vængjum. Þessi form hafa víða verið stæld, svo sem í hliðardyraveröndum Pálskirkju í London. Gaflaðið er í senn þríhyrnt og sveigt.

Að innan er kirkjan frá 15. öld, með stuttu kirkjuskipi og átthyrndu miðhvolfi. Í fyrstu kapellunni hægra megin eru Síbyllur Rafaels frá 1514. Í fyrstu kapellunni vinstra megin er freska eftir Peruzzi. Yfir altari eftir Carlo Maderno er fræg mynd af Madonna della Pace.

Næstu skref

8. Miðbær vestri – Via dei Coronari

Borgarrölt

Via dei Coronari

Via dei Coronari, Roma

Via dei Coronari

Við förum inn með hlið Oratorio dei Filippini eftir Via dei Filippini til torgsins Piazza dell’Orlogio. Á afturhorni hallarinnar er veggskreyting með englum prýddri Madonnumynd, í líkingu við það, sem víða sést á götum í Róm. Yfir henni er klukkuturn á höllinni.

Frá Piazza dell’Orlogio förum við eftir Via dei Banchi Nuovi og Via Banco di Santo Spirito, eftir samnefndum páfabanka, sem var í hneykslisfréttum fyrir fáum árum. Hér var bankahverfi Rómar á endurreisnartíma.

Þegar við komum að Vicolo del Curato, beygjum við þá götu til hægri og síðan í beinu framhaldi af henni inn Via dei Coronari, sem við göngum nærri því á enda.

Þetta er aðalgata forngripasala í Róm, þétt skipuð smáhöllum og smábúðum, með nokkrum smátorgum á stangli.

Næstu skref

7. Miðbær vestri – Oratoria dei Filippini

Borgarrölt

Oratoria dei Filippini

Chiese Nuova & Oratoria dei Filippini, Roma

Chiesa Nuova til hægri & Oratoria dei Filippini

Við göngum áfram eftir Via del Governo Vecchio, framhjá handverksbúðum og forngripaverzlunum, til Via della Chiesa Nuova, þar
sem við beygjum til vinstri út á torgið fyrir framan Chiesa Nuova.

Chiesa Nuova var reist 1575-1647 í hlaðstíl. Hún er afar skrautleg að innan, samkvæmt hönnun Pietro da Cortona. Hvelfingar miðskips, miðhvolfs og kórs eru þaktar freskum. Englamyndirnar við altarið eru eftir Rubens.

Við hliðina á Chiesa Nuova er Oratorio dei Filippini, hannað og byggt af Borromini 1637-1650, eitt af helztu meistaraverkum hans. Útlitið er samræmt kirkjunni, en til viðbótar gerði hann framhliðina íhvolfa, með hvelfdum og íhvolfum byggingarþáttum, sem hann var frægur fyrir. Þetta er einn hápunktanna í sögu hlaðstíls.

Næstu skref

6. Miðbær vestri – Piazza di Pasquino

Borgarrölt

Piazza di Pasquino

Pasquino, Roma

Pasquino

Við snúum til baka eftir Corso Vittorio Emanuele II, framhjá sveigðri framhlið Palazzo Massimo, frá 1527-1536 eftir Baldassarre Peruzzi, að torginu Piazza San Pantaleo, þar sem Palazzo Braschi er við enda torgsins, þar sem Rómarsafn er til húsa.

Héðan eru aðeins nokkrir metrar inn að Piazza Navona og við getum vel skotizt eftir Via Cuccagna til að líta á torgið. Að öðrum kosti förum við frá torginu eftir Via di San Pantaleo til Piazza di Pasquino. Þar á horninu er illa farin stytta, sem sennilega er frá 3. öld f.Kr.

Almenningur kallaði styttuna Pasquino eftir berorðum skraddara, sem frægur er í Rómarsögu fyrir gróft umtal um fína fólkið. Á nóttunni hengdu menn á styttuna háð og spott, skammir og svívirðingar, áróður og auglýsingar, sem um morguninn fóru eins og eldur í sinu um borgina. Þetta var öldum saman ritfrelsishorn Rómar.

Næstu skref

5. Miðbær vestri – San Andrea della Valle

Borgarrölt
San Andrea della Valle, Roma

San Andrea della Valle

San Andrea della Valle

Frá suðurenda Piazza Campo dei Fiori göngum við eftir Via del Biscione og Via del Paradiso til Corso Vittorio Emanuele II, þar sem við beygjum til hægri. Í sundi út frá Via del Paradiso, við Piazza del Paradiso 65, er veitingahúsið Costanza.

Hér komum við strax að hvítri framhlið San Andrea Della Valle, sem reist var 1591-1665. Fyrsti hönnuðurinn var Carlo Maderno, en hin glæsilega hlaðstíls-framhlið er eftir Carlo Rainaldi, sem tók við af honum. Í stað bókrolluvindinga eru englamyndir látnar tengja neðri og efri hæð framhliðarinnar.

Hvolfþakið eftir Maderno er eitt hið fegursta í borginni og er næststærst þeirra á eftir hvolfi Péturskirkju, málað af Lanfranco.

Við förum yfir götuna framan við kirkjuna og skoðum gosbrunn eftir Maderno.

Næstu skref

4. Miðbær vestri – Piazza Campo dei Fiori

Borgarrölt
Piazza Campo di Fiori, Roma

Piazza Campo di Fiori

Piazza Campo dei Fiori

Frá höllinni göngum við til baka út á Farnese-torg, beygjum þar til hægri og förum út af torginu eftir Via dei Corda til Piazza Campo dei Fiori, sem er fjörlegur blóma- og grænmetismarkaður gamla miðbæjarins með þreytulegum húsum í kring. Á miðju torgi er stytta af Giordano Bruno munki, sem var brenndur á báli 1600 fyrir skoðanir sínar um, að jörðin væri ekki miðja alheimsins.

Þetta torg var miðja Rómar á 16. öld. Þar voru borgarhátíðir og aftökur. Þar mæltu menn sér mót og þar voru veitingahúsin, meðal annars krá Vanozzu Catanei, sem átti hin illræmdu systkini Cesare og Lucretia með páfanum Alexander VI Borgia. Kráin er við horn götunnar Vicolo del Gallo. Við suðurenda torgsins er eitt bezta kaffihús Rómar, Om Shanti.

Næstu skref

3. Miðbær vestri – Palazzo Farnese

Borgarrölt

Palazzo Farnese, Roma

Palazzo Farnese

Við göngum meðfram Palazzo Farnese og beygjum til hægri á horninu til að komast út á torgið framan við höllina. Þar á torginu eru tvö risastór steinker úr Caracalla-baðhöllinni. Þeim var rænt þaðan 1626.

Palazzo Farnese er helzta verk Antonio Sangallo yngra, hönnuð 1514. Smíðin hófst 1534 og Michelangelo lauk henni að mestu 1546 og Giacomo della Porta að fullu 1589. Hátíðleg höllin er frístæð og hornrétt og býr yfir miðhúsagarði með bogagöngum og súlnaknippum í rómönskum stíl.

Að utanverðu eru hvorki frístæðar súlur né veggsúlur, heldur láréttir fletir í endurreisnarstíl. Á annarri hæð eru gluggagaflöð til skiptis bogadregin og þríhyrnd, samkvæmt fyrirmynd úr hvolfi Pantheons. Ytra form hallarinnar hefur löngum verið talið fullkomnasta dæmi endurreisnarstíls í Róm.

Palazzo Spada, Roma

Palazzo Spada

Palazzo Spada

Frá Piazza Farnese göngum við samsíða höllinni eftir Via dei Venti að Palazzo Spada, sem reist var 1540, nokkrum árum á eftir Farnese-höll, enda er stíllinn ekki lengur hreinn endurreisnarstíll, heldur sú grein hans, sem kölluð hefur verið fægistíll eða mannerismi. Veggir eru ekki lengur sléttir og strangir, heldur hlaðnir lágmyndum og ýmsu skrauti. Við sjáum við þetta vel í veggjum efri hæða.

Palazzo Spada er safn, sem sýnir muni, sem Spada kardínáli safnaði á 17. öld, og er þeim komið fyrir á sama hátt og í upphafi.

Í sundi rétt við höllina, á Via dell’Arco del Monte 95, er veitingahúsið Il Pianeta Terra.

Næstu skref