Borgarrölt

4. Forna Róm – Foro di Cesare

Borgarrölt

Foro di Cesare, Roma

Foro di Cesare

Mussolini lét í æði sínu leggja breiðgötuna Via dei Fori Imperiali beint yfir hinar fornu rústir. Yfirvöld nútímans hafa ekki enn megnað að manna sig upp í að framkvæma ásetning um að fjarlægja götuna til að leita fleiri fornleifa.

Við förum yfir breiðgötu Mussolinis og göngum til baka eftir henni í átt til Foro di Cesare, sem lá milli áðurnefndra torga og hins forna Rómartorgs, Forum Romanum, þétt við Capitolum-hæð. Við sjáum greinilega niður í tvo þriðju hluta hins forna torgs, sem Cesar lét gera árið 51 f.Kr. Enn standa þar þrjár súlur úr hofi Venusar Genetrix, sem Juliusarætt taldi ættmóður sína, svo og súlubrot úr gjaldeyrisverzlana-byrðunni Argentaria, er stóð meðfram forngötunni Clivus Argentarius.

Við bregðum okkur frá suðurenda torgsins inn sundið Via Tulliano í átt til sigurboga Septimusar Severusar. Á hægri hönd okkar eru tröppur niður í kirkjukjallara. Undir kirkjunni er fangelsi, Mamertine, á tveimur hæðum, þar sem geymdir voru óvinir Rómarveldis, svo sem Jugurta Afríkukóngur árið 104 f.Kr. og Vercingetorix Gallahöfðingi árið 46 f.Kr. Búnar hafa verið til sögur um, að Pétur postuli og fleiri kristnir píslarvottar hafi einnig verið í þessari prísund.

Héðan getum við virt fyrir okkur hluta af Forum Romanum, svo sem sigurboga Severusar og Tabularium, áður en við förum til baka meðfram Via dei Fori Imperiali, eftir göngustígnum Via della Salara Vecchia, til eina inngangsins í Forum Romanum.

Næstu skref

3. Forna Róm – Foro di Augusto

Borgarrölt

Foro di Augusto

Við förum aftur niður tröppurnar og göngum eftir Via Alessandrina, meðfram grindverkinu, sem snýr að Trajanusarmarkaði, framhjá Casa dei Cavalieri di Rodi, reist 1464-1471 í feneyskum endurreisnarstíl, svo sem sjá má af yfirbyggðu svölunum, sem snúa að Foro di Traiano.

Forum Augusti, Roma

Foro di Augusto

Næst blasa við leifar Foro di Augusto og musteris Marz hefnanda, Martius Ultor, sem Augustus keisari lét reisa árið 31 f.Kr. til minningar um sigur sinn á Cassiusi og Brutusi. Þetta musteri var lengi síðan ættarmusteri afkomenda hans. Beggja vegna þess eru leifar af bogadregnum byrðum. Milli byrðanna og musterins eru tröppur, sem lágu til skuggahverfisins Suburra.

Síðasti hluti fornleifasvæðisins handan grindverksins er Foro di Nerva, framan við hótelið Forum. Þetta torg vígði Nerva keisari árið 98. Það var langt og mjótt, umhverfis hina fornu aðalgötu Argiletum, sem lá frá Forum Romanum, meðfram Curia til Suburra. Lítið sést af sögufrægum rústum musteris Minervu, sem hér var miðsvæðis á torginu, því að páfinn Páll V lét ræna þær á 17. öld til að byggja gosbrunn á Janiculum.

Í fornöld var hér eitt keisaratorgið enn í röð, þar sem nú eru gatnamót Via dei Fori Imperiali og Via Cavour. Það var torg Vespanianusar keisara með musteri friðarins og bókasafni, þar sem nú er kirkjan Santi Cosma e Damiano.

Norðaustan torgsins er turn frá 13. öld, Torre de’Conti.

Næstu skref

2. Forna Róm – Foro di Traiano

Borgarrölt
Colonna di Trajano, Roma

Colonna di Trajano

Foro di Traiano

Við hefjum ferðina í norðurhorni svæðisins, á höfuðtorgi Rómar í nútímanum, Piazza Venezia, þaðan sem við sjáum súlu Trajanusar greinilega. Við göngum að henni.

Trajanusarsúlan hefur staðið hér í tæplega nítján aldir, furðanlega vel varðveitt. Trajanus keisari lét reisa hana til að minnast sigra sinna í tveimur styrjöldum við Daka í Rúmeníu. Sagan er sögð í 100 lágmyndum, sem mynda marmaraspíral utan á súlunni og væru alls 200 metra langar, ef þær lægju í beina línu. Eins og mörg marmaraverk fornaldar voru þessar myndir í upphafi málaðar skærum litum. Lengst af stóð efst stytta af Trajanusi, en síðustu fjórar aldirnar hefur Pétur postuli verið á vaktinni.

Upphaflega voru háar bókasafnsbyggingar beggja vegna súlunnar og þá var auðveldara en nú að lesa myndasögu súlunnar.

Foro di Trajano, Roma

Foro di Trajano

Að baki súlunnar eru leifar fimm skipa Ulpiubyrðu, Basilica Ulpia, sem ber ættarnafn Trajanusar. Við tökum eftir, að fyrir tveimur árþúsundum var yfirborð lands mun lægra í miðbæ Rómar en það er nú. Handan byrðunnar var sjálft Trajanusartorgið undir beru lofti, stærsta torg keisaratímans í Róm.

Vinstra megin, í hálfhring undir hlíðinni, stendur enn að nokkru Kringla hinna fornu Rómverja, safn 150 sölubúða og þjónustufyrirtækja undir einu þaki. Þetta er merkasti hlutinn af Foro di Traiano, hannaður af Apollodorusi frá Damascus og byggður árin 107-113.

Yfir þessum minnisvarða um skipulagskunnáttu hinna fornu Rómverja gnæfir yngra mannvirki, Torre delle Milizie, frá 1227-1241, eitt bezt varðveitta miðaldamannvirki Rómar.

Foro Trajano, Roma

Foro di Trajano, forna verzlunarhverfið

Til þess að skoða hina fornu verzlanamiðstöð þarf að fara upp tröppurnar vinstra megin við hana, Via Magnanapoli, því að þar er eini inngangurinn, frá Via Quattro Novembre.

Næstu skref

5. Páfaríki – Péturskirkja

Borgarrölt
Péturskirkja, Roma 2

Péturskirkja

San Pietro

Hér var áður Péturskirkja hin fyrri, reist á dögum Constantinusar mikla á fyrri hluta 4. aldar, sennilega 326, og var lengi ein af höfuðkirkjum Rómar, en ekki páfakirkja. Hún var reist hér, af því að á þessum stað var Pétur postuli sagður hafa verið krossfestur á dögum Neros keisara.

Péturskirkja, Roma 3

Hvolf Péturskirkju

Péturskirkja hin síðari var í upphafi krosskirkja, jafnarma eins og grískur kross, að mestu hönnuð og reist af Michelangelo 1547-1564, en var síðan lengd í byrðu af Maderno og Bernini á fyrri hluta sautjándu aldar, þannig að grunnmynd hennar varð eins og latneskur kross. Samtals tók bygging hennar meira en hálfa aðra öld, allt frá því er Bramante gerði fyrstu teikningarnar 1506 og til þess er Bernini lauk við kirkjutorgið 1667. Kirkjan er byggð í endurreisnarstíl, en skreytt í hlaðstíl.

Sporöskjulaga göngin með fjórum súlnaröðum umhverfis Piazza San Pietro eru eftir Bernini, reist 1656-1667. Markmið sporöskjunnar var að draga athyglina að framhlið kirkjunnar og búa til eins konar náðarfaðm fyrir hina trúuðu, er þeir hlýða á boðskap páfa. Ofan á sporöskjunni eru 140 englastyttur. Í miðju torgsins er einsteinungur frá Heliopolis í Egyptalandi, höggvinn á 1. öld f. Kr., fluttur til Rómar á dögum Caligula. Brunnarnir á torginu eru eftir Maderno, hægra megin, og Bernini, vinstra megin.

Andspænis okkur gnæfir sviplítil framhlið kirkjunnar, hönnuð af Carlo Maderno og reist 1607-1614. Styttur Péturs og Páls postula standa á tröppunum framan við kirkjuna.

Héðan frá að sjá skyggir framhliðin að verulegu leyti á meistaraverk Michelangelos, kirkjukúpulinn. Á brúninni standa styttur Krists og allra lærisveinanna nema Péturs sjálfs. Páfasvalirnar eru neðan við gaflaðsþríhyrninginn.

Pieta, Péturskirkja, Roma

Pieta, Péturskirkja

Sjálf kirkjan er ein hin stærsta í heimi, með 450 styttum, 500 súlum og 50 ölturum, ríkulega skreytt marmara og listaverkum, talin rúma 60.000 manns í einu. Hún er rúmlega 200 metra löng, með 140 metra háu og
40 metra breiðu hvolfþaki yfir krossmiðju.

Hvolfþakið er eins konar stækkuð mynd af hvolfþaki Pantheons. Giacomo della Porta lauk við þakið og gerði það heldur léttara útlits en Michelangelo hafði gert ráð fyrir. Hvolfið er alsett steinfellumyndum.

Hægra megin við innganginn er Pietà, höfuðafrek Michelangelos, höggvin 1499-1500 og sýnir sorg Maríu meyjar við lát Krists.

Péturskirkja, Roma 4

Péturskirkja

Við kórbak er afar skrautlegur Pétursstóll í hlaðstíl, hannaður af Bernini. Undir hvolfþakinu er hásæti með 29 metra háum og hrikalegum bronshimni, sem Bernini hannaði í hlaðstíl. Bronsinu lét páfinn Urban VIII ræna úr Pantheon.

Undir hásætinu er grafhýsi Péturs postula. Framan við það hægra megin er bronsstytta af Jupiter, sem í fornöld stóð á Capitolum, en er nú sögð af Pétri postula, með fægðan fót af kossum trúaðra, sem vita ekki, að þetta er heiðinn guð.

Um norðaustursúluna undir hvolfþakinu er gengið niður í grafarhvelfingar páfa og um leifar gömlu Péturskirkju.

Úr anddyri kirkjunnar er hægra megin farin leiðin til lyftunnar, sem flytur fólk upp á kirkjuþak. Gott útsýni er ofan af framhliðinni, en frábært verður það, ef fólk leggur á sig að klífa tröppurnar af þakinu upp á hvolfþakið.

Frá suðurhlið kirkjunnar er gengið niður í fornan kirkjugarð frá 1.-4. öld, sem grafinn hefur verið út. Panta þarf fyrirfram, ef fólk vill fara þangað niður.

Hér lýkur göngu um Páfaríki.

Næstu skref

4. Páfaríki – Musei Vaticani

Borgarrölt
Laocoen, Vaticano, Roma

Laocoen, Vaticano

Musei Vaticani

Þetta eru vel skipulögð og mikið sótt söfn, einkum fræg fyrir Sistínsku kapelluna, sem hefur verið hreinsuð og logar nú í litadýrð málverka Michelangelos. Auðvelt er að fara um söfnin, því að fjórar misjafnlega langar og ítarlegar leiðir um þau eru merktar fjórum litum. Við veljum ótrauð lengstu leiðina.

Fyrst liggur leiðin um egypzka safnið með styttum af móður Ramsesar II og Mentuhotep faraó í sal nr. 5.

Síðan förum við um grísk-rómverska safnið, þar sem frægastur er Belvedere-garður. Þar eru frægar styttur af Apollo og Perseifi, en einkum þó styttan af Laocoën konungi og sonum hans, sem reyna að verjast höggormum. Þessi höggmynd er frá Rhodos frá 1. öld f.Kr. og fannst í gullhöll Neros keisara. Þetta verk er oft tekið sem dæmi um spennuna í hlaðstíl hellenismans, er grísk list rann skeið sitt á enda.

Næst er etrúska safnið með dýrgripum úr grafhýsi etrúskra hjóna. Munirnir sýna vel sérstöðu etrúskrar menningar, sem var öðru vísi en grísk og rómversk og stundum talin ættuð frá Litlu-Asíu.

Stanze di Rafaello

Map Gallery, Vaticano, Roma

Kortasafnið, Vaticano

Þá liggur leiðin um langan gang, þar sem er teppasafn og safn landakorta frá 1580-1583. Loft þessara sala eru rækilega skreytt.

Síðan förum við um sali Rafaels, með verkum hans frá 1508-1517, þar á meðal eldsvoðanum í Borgo, Aþenuskólanum, messunni í Bolsena og frelsun Péturs postula úr fangelsi. Þessir salir eru frægasti hluti safnanna næst á eftir Sistínsku kapellunni.

Svo förum við um Nikulásarkapellu með freskum eftir Fra Angelico frá 1447-1451 og um Borgia-sali með freskum eftir Pinturicchio frá 1492-1503.

Capella Sistina

Þá er röðin komin að Sistínsku kapellunni, sem var reist 1475-1480. Þar er frægast loftið, sem Michelangelo málaði 1508-1511 og gaflmynd hans af dómsdegi, máluð 1533. Loftmyndirnar sýna sköpun heimsins, brottrekstur Adams og Evu úr aldingarðinum og Nóa. Dómsdagsmyndin er hlaðin spennu og
markar þau tímamót, að endurreisnarstíll er þá að byrja að breytast yfir í hlaðstíl.

Næst er málverkasafnið, Pinacoteca, þar sem eru meðal annars þrjú altarismálverk Rafaels, af krýningu heilagrar Maríu, Madonnu frá Foligno og ummyndun Krists á fjallinu. Þar er líka heilagur Jeronimus eftir Leonardo da Vinci og losun Krists af krossinum eftir Caravaggio.

Ferðinni um söfn Vatíkansins lýkur í yngsta hlutanum; fornminjasafni, þar sem meðal annars eru steinfellumyndir úr baðhúsi Caracalla; og kristminjasafni, þar sem eru nokkrar þekktar steinkistur.

Við förum ekki sömu leið til baka úr safninu, heldur með strætisvagni, sem ekur á hálftíma fresti um garða Vatíkansins milli safns og torgsins framan við Péturskirkju.

Næstu skref

3. Páfaríki – Vaticano

Borgarrölt
Péturstorg og Via della Conciliazioni, Roma

Horft af þaki Péturskirkju yfir Péturstorg og Via della Conciliazioni, sem liggur að Ponte Sant’Angelo og Castel Sant’Angelo

Vaticano

Við göngum til hægri úr kastalanum og áfram breiðgötuna Via della Conciliazione, sem liggur beint til Péturstorgs og Péturskirkju, miðpunkts heimsins í síðustu fimm aldir. Við ætlum þó fyrst að skoða hin víðáttumiklu söfn Vatíkansins.

Hér stöndum við ekki á Ítalíu, heldur í ríki Páfastóls. Hér fást frímerki Vatíkansins og hér eru póstkassar þess. Héðan komast póstkort fljótar heim en úr póstkössum Rómar.

Frá torginu beygjum við til hægri meðfram húsum Páfaríkis, eftir Via di Porta Angelica, Piazza del Risorgimento, Via Michelangelo og Viale Vaticano, samtals um 800 metra leið að dyrum Vatíkansafna.

Vatíkansöfnin eru í páfahöllum, sem smám saman voru reistar, allt frá því um 500, en einkum eftir 1377, þegar páfastóll var fluttur aftur til Rómar frá Avignon og Vatíkanið tók við af Laterano-höllinni, sem hafði eyðilagzt í eldsvoða. Flest húsin eru frá 15. og 16. öld. Smám saman hlóðu páfarnir upp forngripum og dýrgripum, sem fylltu sali hallanna. Söfnin hafa verið opin almenningi síðan í lok 18. aldar, en hafa mikið verið stækkuð síðan.

Næstu skref

D. Miðbær syðri – Santa Sabina

Borgarrölt, Róm

Santa Sabina, Roma

Santa Sabina

Við tökum leigubíl að Santa Sabina, sem er á útsýnisstað uppi á Aventino-hæð. Santa Sabina er frá 422, ein elzta byrðukirkja í Róm, haldið uppi af fögrum bogariðum kórinþusúlna. Þau eru fyrsta rómverska dæmið um, að hrein súlnarið leysi blönduð vegg- og súlnarið af hólmi, og má kirkjan því teljast fyrsta rómverska kirkjan í rómönskum stíl. Gáruðum marmarasúlunum hafði verið rænt úr rómversku hofi. Kirkjunni var breytt á 9., 13. og 16. öld, en eftir lagfæringar á 20. öld er hún orðin lík því, sem hún er talin hafa verið í upphafi.

Einna merkustu gripir kirkjunnar eru hinar upprunalegu, útskornu vesturdyr úr kýprusviði, sem sýna myndir úr ævi Móse og Jesú, þar á meðal ein elzta mynd, sem til er af krossfestingunni. Ofan við innganginn eru leifar upprunalegu steinfellumyndanna, sem áður náðu allan hringinn ofan við súlnariðin. Stóra steinfellumyndin í kórbakshvolfi er 16. aldar eftirlíking af upprunalegri mynd.

Frá garðinum við hlið kirkjunnar er útsýni yfir miðbæ Rómar og til Péturskirkju.

Næstu skref

2. Páfaríki – Castel Sant’Angelo

Borgarrölt

Castel Sant’Angelo

Við norðurenda brúarinnar blasir við mikilúðlegt grafhýsi Hadrianusar, reist 135-139. Sívalningurinn er að mestu upprunalegur, í stíl etrúskra grafhýsa. Þar var varðveitt aska Hadrianusar og eftirmanna hans allt til Septimusar Severusar. Ofan á sívalningnum var þá jarðvegshaugur og þar trónaði efst líkneski af Hadrianusi í fereykisvagni.

Þegar Aurelius keisari lét víggirða borgina 270, gerði hann grafhýsið að virki í borgarmúrnum. Gregorius I páfi lét reisa kapellu uppi á haugnum 590, helgaða Sant’Angelo, og af honum er 18. aldar bronsstyttan, sem nú trónir á virkinu. Grafhýsinu var breytt í kastala, sem fékk nafn það, er hann ber enn í dag.

Nikulás V lét reisa múrsteinshæð ofan á sívalninginn og turna á hornin um miðja 15. öld. Alexander VI lét reisa áttstrendu fallbyssustæðin umhverfis virkið um 1500. Virkið var þá tengt páfahöllinni með göngum í löngum múrvegg, Passetto, sem páfar gátu flúið eftir inn í virkið, ef hættu bar að höndum. Clementius VII flúði í virkið undan herjum Karls V Frakkakonungs 1527 og lét gera vistarverur þar.

Síðar var kastalinn löngum notaður sem herbúðir og fangelsi, en nú er hann orðinn að safni. Í óperunni Tosca eftir Puccini varpar söguhetjan sér út af virkisveggnum.

Gengið er inn í safnið frá hliðinni, sem snýr að ánni.

Farið er upp rampa og tröppur í megingarð virkisins, þar sem er upprunalega marmarastyttan af engli virkisins, frá 1544. Rampinn er að verulegu leyti í upprunalegu ástandi, með svart-hvítum steinfellumyndum. Við efri enda hans var útfararklefi Hadrianusar.

Safnið er að mestu hernaðarlegs eðlis. Á efstu hæð eru vistarverur þriggja páfa, Piusar IV, Juliusar II og Páls III. Vistarverur Juliusar eru hannaðar af Bramante. Þaðan er gott útsýni yfir borgina. Á þessari hæð er einnig bókasafn og leyndarskjalasafn páfastóls.

Á næstefstu hæð er megingarðurinn, Cortile di Onore, garður Alexanders VI af Borgia, dómsalurinn í kastalamiðju, nokkrir fangaklefar, svo og kapella Leo X, hönnuð af Michelangelo, reist þar sem upprunalega kapellan var. Í fangaklefunum sat meðal annarra munkurinn og vísindaheimspekingurinn Giordano Bruno.

Næstu skref

J. Universités

Borgarrölt, París (English)

Universités

Jardin des Plantes, Paris

Jardin des Plantes

This walk leads us through the Latin district or the district of university colleges, such as the Sorbonne and the Collège de France, which forms the northern part of the 5th district. We are also seeing many historic buildings.

Jardin des Plantes

We start by going to Jardin des Plantes. If we arrive by metro, we leave it at the Gare d’Orléans station and walk back to Place Valhubert beside the Seine, where there is the main entrance to the botanical garden.

A good place for relaxing. It includes a small zoo on our right and the Museum National d’Histoire Naturelle at the far end to the left. The garden is famous for having been open to the public since 1650.

We saunter through the garden and leave through the gate at its north western corner.

Next steps

E. Miðbær vestri – Tempietto

Borgarrölt, Róm
Tempietto, Bramante: Tempietto, Roma

Bramante: Tempietto

Gamli miðbærinn með flóknu neti undinna gatna, sem bílar komast tæpast um, er skemmtilegasti hluti borgarinnar. Við fórum um hluta hans í 3. göngu, þar sem fjallað var m.a. um Ghetto, Largo di Torre Argentina og Gesú.

Tempietto

Hér verður haldið áfram í gamla bænum og lýst gönguferð um meginhluta hans. Við byrjum handan árinnar, í Trastevere, og f
örum í leigubíl upp hæðina Gianicolo til kirkjunnar San Pietro in Montorio.

Í garðinum við hlið kirkjunnar er eitt þekktasta listaverk borgarinnar, Tempietto eftir Bramante, hringlaga og formfast hof í gnæfrænum stíl, með dórísku hringsúlnariði, byggt 1502. Þessi bygging markar upphaf há-endurreisnar og prýðir margar bækur um byggingarlist.

Af torginu framan við kirkjuna er gott útsýni yfir Róm. Þar standa upp úr Castel Sant’Angelo vinstra megin; minnismerki Victors Emanuels, Capitolum og Maxentiusarbyrða fyrir miðju; og San Giovanni in Laterano hægra megin.

Santa Maria in Trastevere

Héðan göngum við niður tröppur og brekkuna eftir Via Garibaldi að næstu gatnamótum og síðan eftir Via Memeli, unz við komum að tröppum, sem liggja niður að Via della Paglia í Trastevere. Þá götu göngum við til aðaltorgs hverfisins, Piazza Santa Maria in Trastevere.

Kirkjan við Trastevere-torg er frá 341. Hún var endurbyggð 1140 og þá var klukkuturninn reistur, en súlnaportið löngu seinna, 1702. Kirkjan er fræg fyrir steinfellumyndir á framhlið og að innanverðu. Myndin yfir kórbak ofanverðum af Kristi og Maríu er í býzönskum stíl eftir gríska meistara frá 12. öld, en sex myndirnar þar fyrir neðan eru eftir Pietro Cavallini, frá 13. öld.

Við torgið eru veitingahúsin Sabatini og Galeassi.

Trastevere

Upprunalega var Trastevere ekki hluti Rómar. Svæðið var byggt Etrúrum og síðan einnig Gyðingum og Sýrlendingum, en Augustus keisari innlimaði það í Róm. Borgarmúr Aureliusar keisara náði utan um hverfið. Þarna bjuggu löngum handverksmenn í nágrenni þáverandi hafnar, en á síðustu árum hefur ungt efnafólk í vaxandi mæli einkennt hverfið. Veitingahús eru á hverju strái í Trastevere og götulíf fjörlegt að kvöldlagi.

Næstu skref

3. Róm – matur

Borgarrölt

Veitingar

Cesarina, restaurant, Roma

Cesarina

Ítalir borða lítið á morgnana, fá sér kannski espresso kaffi og cornetto á kaffihúsi eða bakaríi úti á horni. Hádegisverður byrjar oftast um 13:30 og kvöldverður um 20:30. Hvort tveggja eru heitar máltíðir og nokkurn veginn jafngildar. Ítalir eru mikið fyrir mat og nota hann ótæpilega.

Þeir eru hins vegar hófsamir á vín og drekka margir hverjir bara vatn. Kranavatn í Róm er mjög hreint og gott, eitt hið bezta á Ítalíu, en samt fá flestir heimamenn sér aqua minerale, flöskuvatn á veitingahúsum, oft með koltvísýringi, gassata

Ítalskur matseðill skiptist oft í fimm hluta, antipasti, forrétti; pasti eða asciutti eða primi piatti, pastarétti; secundi piatti, fisk- eða kjötrétti án meðlætis; contorni eða verdure, grænmeti eða meðlæti; og dolci, frutti og formaggi, eftirrétti, ávexti og osta.

Engar reglur er um, hve marga rétti fólk fái sér eða í hvaða röð. Sumir Ítalir fá sér til dæmis fyrst forrétt og síðan tvö pöstu, hvert á fætur öðru. Algengast er, að fólk fái sér þrjá rétti, til dæmis forrétt, pasta og aðalrétt eða pasta og aðalrétt með hliðarrétti eða pasta og aðalrétt og eftirrétt.

Gróflega er verðlagið þannig, að forréttur, pasta og flaska af víni hússins kosta hvert um sig tvöfalt verð hliðarréttar eða eftirréttar og að aðalréttur kostar þrefalt verð hliðarréttar eða eftirréttar. Verðið, sem hér í bókinni er skráð hjá hverju veitingahúsi, er yfirleitt miðað við forrétt, pasta, aðalrétt og hliðarrétt eða eftirrétt.

Skynsamlegt er að velja sér vín hússins, bianco eða rosso, því að þau eru yfirleitt vel valin og ágætlega drykkjarhæf. Áhugamenn um vín geta þó skyggnzt í listann til að finna eitthvað nýtt, því að ekkert land á eins mikið úrval mismunandi flöskumiða. Almennt séð er ítalskt vín gott, en ekki mikið um hágæðavín. Ítalir taka vín og mat ekki eins alvarlega og Frakkar gera.

Hvergi í heiminum er betri þjónusta en á ítölskum veitingahúsum. Ítalskir þjónar eru snarir í snúningum og vilja, að gestum líði vel. Þeir eru snöggir að bera fram matinn, unz kemur að eftirrétti, en þá færist allt í fyrsta gír. Það stafar af, að Ítalir vilja skófla í sig matnum, en ekki fara strax að því loknu, heldur sitja lengi og tala saman. Hröð þjónusta táknar alls ekki, að þjónninn vilji losa borðið sem fyrst.

Veitingahús Rómar eru yfirleitt lítil og hreinleg, stundum tilviljanakennt innréttuð. Þau hafa undantekningarlítið lín í dúkum og þurrkum, oftast hvítt.

Útlendingum finnst gjarna, að ítölsk matreiðsla felist í pöstum á pöstur ofan. Ítalir tala sjálfir ekki um ítalska matreiðslu, heldur feneyska, toskanska, lígúríska, latínska og svo framvegis eftir borgum og héruðum.

Og svo hefjast göngurnar.

Næstu skref

2. Róm – öngþveiti

Borgarrölt
Tempietto, Bramante: Tempietto, Roma

Bramante: Tempietto

Á blómaskeiði keisaranna bjó milljón manns í Róm. Síðar féll íbúatalan niður í 30 þúsund á miðöldum. Nú er hún komin upp í þrjár milljónir. Róm er ekki eins stór og París, London eða New York, en hún hefur fleiri minjar gamals tíma en hinar til samans.

Bílaumferðin í Róm er óskipulegt öngþveiti. Bílstjórar troðast um öll sund og fylla hvert torg, en aka þó ekki á gangandi fólk. Þeir þrasa mikið og hátt eins og aðrir borgarbúar. En umburðarlyndi er þó aðaleinkenni fólksins í borginni. Borgin er höfuðborg kaþólskunnar, en borgarbúar eru sjálfir hóflega kaþólskir. Þeir eru fyrst og fremst lífsreyndir og veraldarvanir

Ekkert miðtorg er til í Róm. Spánartröppur eða Piazza Navona eru bara fyrir ferðamenn.

Næstu skref

D. Downtown

Borgarrölt, New York

World Trade Center

World Trade Center er ekki lengur til. En þar byrjar bókin, sem kom út 1988, fyrstu gönguferðina og ég læt þann kafla standa, þótt hann vísi ekki lengur veginn. Hann segir þó frá nýliðinni fortíð:

World Trade Center, New York

Svona leit World Trade Center út, séð frá jörð

Við hefjum fyrstu gönguferðina við World Trade Center. Í suðurturninum, WTC nr. 2, tökum við örskjóta lyftuna upp á 107. hæð og virðum fyrir okkur nálægt útsýni yfir bankaturnana í Downtown og fjarlægara útsýni suður til frelsisstyttu og Verrazano-brúar og norður til skýjakljúfanna í Midtown. Frá 107. hæð er farið í rennistiga upp á sjálft turnþakið, 110 hæð. Svipað útsýni er að hafa úr veitingasölunum á 107. hæð  í WTC nr. 1.

Byggingu turnanna var lokið árið 1974 og voru þeir þá um skeið hinir hæstu í heimi, átta hæðum hærri en Empire State. Þeir eru frekar einfaldir að útliti og skekkja raunar heildarmyndina af skýjakljúfaþyrpingu bankahverfisins. En þeir sjást alls staðar að og eru auðþekkjanlegir.

Byggingarnar í World Trade Center mynda hring umhverfis stórt torg. Undir torginu er stórt verzlunarsvæði, sem tengir húsin saman. Þar eru um 60 verzlanir, auk veitingahúsa, banka og annarrar þjónustu. Þar á meðal er útibú frá TKTS, stofnuninni, sem selur leikhúsmiða á hálfvirði á sýningardegi. Á torginu sjálfu eru frægar styttur eftir Koenig, Rosati og Nagare.

Battery Park City

Vestan við World Trade Center, þar sem áður voru bryggjur, hefur verið búið til nokkurra ferkílómetra land út í Hudson River. Þar er verið að reisa Battery Park City, stórborg íbúða með görðum í kring. Þessu hverfi er ætlað að veita mannlífi í syðsta hluta Manhattan, bankahverfið, sem hingað til hefur verið dautt um kvöld og helgar.

Næstu skref

K. Montmartre – Sacré-Coeur

Borgarrölt, París (English)
Sacre-Coeur, Paris

Sacre-Coeur

Montmartre

When we have spent four or five days to see central Paris we can begin to think about nearby places. We can forget Montparnasse which is finished. But Montmartre is still worth a visit.

The hill, which the locals call Butte, with the famous Sacré-Coeur, was in the 19th C. the artists’ quarter of Paris. What remains there is a centre of fake art for tourists. And under the hill, around Pigalle, the most boring part of Paris night life is located.

We start by climbing the steps up to Sacré-Coeur or take the funicular uphill. We get there from the Angers metro station in Boulevard de Rochechouart by walking north Rue de Steinkerque. Or from the Abesses metro station by walking Rue de Tac and Rue Tardieu.

Sacré-Coeur

St. Pierre, Paris

Saint-Pierre

Built in a cake-and-cream style 1876-1914. Its fame derives from its singular location and from its white stone of Château Landon which gets whiter and whiter with age. It is formed as a Byzanthian crucifix church with one big dome in the middle and additional four on the corners.


The view in front of the church is truly spectacular.

Alongside Sacré-Coeur is Saint-Pierre.

Saint-Pierre

One of the oldest churches in Paris, from the first half of the 12th C. The building was finished in 1147. It has Romanesque column capitals but is otherwise Gothic in style.

Next steps

16. Midtown – Greenacre Park

Borgarrölt

Greenacre Park, New York

Greenacre Park

Við eigum þess líka kost að ljúka ferðinni á annan hátt. Þá beygjum við til hægri eftir 57th Street og göngum suður 3rd Avenue. Þegar við komum að 51st Street, beygjum við til vinstri. 

Þar vinstra megin götunnar er garðurinn Greenacre Park, örlítill að flatarmáli eins og áðurnefndur Paley Park. Þar getum við hvílst á stólum við lítil borð innan um tré og með notalegan foss að bakgrunni. Rennandi vatnið drekkir umferðarhávaðanum í kring.

Roosevelt Island

Loks eigum við þess kost að ganga 57th Street alla leið vestur að 2nd Avenue og beygja þar til vinstri. Við 60th Street komum við að endastöð Roosevelt Island Tramway, opnaður 1976.

Gaman er að skreppa með skartlitum loftvíravögnum yfir vesturkvísl East River og njóta útsýnisins. Athugið að hafa með ykkur farseðil neðanjarðarlestakerfisins, því að miðar eru ekki seldir á þessari stöð.

Ferðin út í Roosevelt Island, sem er eyja í miðri East River, tekur aðeins fjórar mínútur. Þar í eyjunni hefur verið skipulagt nýtízku íbúðahverfi án bílaumferðar. Af bökkum eyjarinnar er gott útsýni til miðbæjarins.

Þar með lýkur göngum okkar um Manhattan, nafla alheimsins.

Góða ferð!