Borgarrölt

7. Menning – MoMA

Borgarrölt

 

Museum of Modern Art, New York 5

Dansinn eftir Matisse, Museum of Modern Art,

Museum of Modern Art, New York 4

Ungfrúrnar frá Avignon eftir Picasso, Museum of Modern Art

Museum of Modern Art

Að ganga í gegnum Museum of Modern Art er eins og að fletta kynningarbók um listaverk 20. aldar. Við könnumst við málverkin af myndum úr bókum. MoMA, eins og safnið er kallað, hefur einmitt á veggjum sínum frægustu einkennisverk heimsmeistarnna í myndlist.

Museum of Modern Art, New York 2

Broadway Boogie Woogie eftir Mondrian, Museum of Modern Art

Samt er MoMA ekki nema rúmlega hálfrar aldar gamalt safn. Það var nýlega stækkað um helming, svo að stoltarverk þess njóta sín betur en áður. Tímabilið, sem safnið spannar bezt, er 1880-1960, það er að segja blæstílinn og tjástílinn, auk hliðargreina á borð við kúbisma.

Museum of Modern Art, New York 7

Christina´s World eftir Wyeth, Museum of Modern Art

Í MoMA eru svo mörg heimsfræg verk, að þau verða ekki talin hér. Aðeins má minnast á Dansinn eftir Matisse, Ungfrúrnar frá Avignon eftir Picasso, Broadway Boogie Woogie eftir Mondrian, Christina´s World eftir Wyeth og One eftir Pollock.

Museum of Modern Art, New York 6

One eftir Pollock, Museum of Modern Art

Ekki má heldur gleyma, að loftkælt safnið er hin notalegasta vin fyrir þá, sem koma sveittir úr mannhafi verzlunarhverfisins í kring. Yndislegastur er höggmyndagarðurinn að baki, bezti staður borgarinnar til að hvíla lúin bein.

Næstu skref
Museum of Modern Art, New York 8

Safngarðurinn, Museum of Modern Art

6. Menning – listsýningasalir

Borgarrölt
Leo Castelli, New York

Leo Castelli

Listsýningasalir

Í engri grein menningar eru yfirburðir Manhattan meiri en í myndlist. París hefur fyrir löngu orðið að víkja úr forustuhlutverkinu. Það er á Manhattan, sem allir myndlistamenn heimsins vilja sýna, enda eru þar peningarnir, sem borga listaverkin. Þar slá í gegn óþekktir listamenn og selja verk sín fyrir stjarnfræðilegar upphæðir. Hefðbundnu salirnir eru flestir við 57th Street, en nútímalistin blómstrar í sýningarsölunum í SoHo  og nú orðið einnig í TriBeCa. West Broadway og Wooster Street eru aðalgötur þessarar greinar.

Næstu skref

5. Menning – Broadway

Borgarrölt

Broadway

Broadway, New York

Broadway leikhús

Leikhúshverfið á Manhattan er kennt við Broadway, sem sker hverfið sundur að austanverðu. Á þessu svæði í kringum Times Square eru 42 leikhús. Þetta er mesta leikhússvæði heims, næst á undan Covent Garden svæðinu í London. Í heila öld hefur það verið þungamiðja bandarískrar leiklistar. Þar eru beztu leikararnir, leikstjórarnir og gagnrýnendurnir. Og þar eru flestir áhorfendurnir.

Á síðari árum hefur Broadway vikið fyrir Covent Garden með þeim hætti, að sífellt er meira um, að verk, sem fyrst slá í gegn í London, séu síðan flutt yfir hafið til New York. Einnig er áberandi, hvernig dýrir söngleikir hafa orðið sífellt fyrirferðarmeiri á Broadway. Miðaverð er orðið þar mjög hátt, oft um USD 45. En vinnubrögð eru alltaf jafnvönduð á leiksviðinu, jafnvel í gamanleik á borð við Blúndur og blásýru, sem við sáum þar síðast.

Til að komast að raun um, hvað er á dagskrá í leikhúsunum 42, er bezt að skoða skrána í vikuritinu New York. Á miðju Father Duffy Square, sem er norðurendi Times Square, er TKTS, þar sem hægt er að fá leikhúsmiða fyrir hálfvirði á sýningardegi. Þar eru oft langar biðraðir. Nánari upplýsingar fást í síma 354 5800. Auk þess eru púrtnerar hótela lagnir við að útvega miða að hverju sem er

Off Broadway

Nútímaleiklist er meira stunduð í því, sem kallað er Off Broadway, um 200 leikhúsum úti um allan bæ, flestum þó í Greenwich Village. Þar eða í London eru frumflutt verk, sem síðar eru tekin upp á Broadway. Þessi þróun hefur nú staðið í tæpa fjóra áratugi. Við sáum síðast söngleikinn Angry Housewives í Minetta Lane leikhúsinu, frábæra sýningu aðeins átta leikara.

Í vikuritunum New York og Village Voice má sjá, hvað helzt er á boðstólum í Off Broadway. Annars er sú leiklist orðin svo sígild, að farið er að tala um Off Off Broadway sem staðinn, þar sem hlutirnir gerist.

Næstu skref

4. Menning – Alice Tully Hall

Borgarrölt

Alice Tully Hall, New York

Alice Tully Hall

Carnegie Hall, New York

Carnegie Hall

Gengið er frá Broadway inn í Alice Tully Hall, aðalstöðvar kammertónlistar í New York, heimili Chamber Music Society of Lincoln Center, sem notar salinn, er tekur 1.096 í sæti, október-maí. Í september er hann notaður fyrir kvikmyndahátið borgarinnar. Á sumrin er Alice Tully Hall notað af gestkomandi listamönnum.

Carnegie Hall

Áður en Lincoln Center kom til sögunnar var Carnegie Hall helzta tónlistarhöll borgarinnar, vel í sveit sett í miðbænum, rétt sunnan við Central Park. Þar leika heimsfrægar sinfóníuhljómsveitir og jafnfrægir einleikarar, ekki aðeins sígilda tónlist, heldur einnig jazz. Tóngæðin eru nánast fullkomin í 2.784 manna salnum.

Þegar Lincoln Center komst í gagnið, stóð til að rífa Carnegie Hall. Ekki varð af því og nú hefur húsið verið endurnýjað að frumkvæði hóps borgarbúa undir forustu fiðluleikarans Isaac Stern. Því verki var einmitt að ljúka, þegar við vorum síðast í New York.

Næstu skref

3. Menning – Avery Fisher Hall

Borgarrölt

Avery Fisher Hall, New York

Avery Fisher Hall

44 hásúlur umlykja sinfóníuhöllina Avery Fisher Hall, sem hefur verið margendurbyggð að innanverðu til að ná réttum hljómburði, er tókst loks árið 1976 eftir tíu ára strit.

Höllin tekur 2.742 manns í sæti. Hún er heimili New York Philharmonic, sem hefur vertíð september-maí. Í júlí-ágúst eru haldnir ódýrir Mozart-konsertar og í september kvikmyndahátið borgarinnar.

Leonard Bernstein, Arturo Toscanini og Leopold Stokowski hafa verið hljómsveitarstjórar NY Philharmonic, en nú stjórnar þar Zubin Mehta. Þegar við vorum þar síðast, var á dagskrá frumflutningur á konsert eftir Husa og flutningur á annarri sinfóníu Schuberts og öðrum píanókonsert Liszts. Mehta stjórnaði og einleikari á píanó var Andre Vatts.

Næstu skref

2. Menning – NY State Theater

Borgarrölt

N.Y. State Theater, New York

New York State Theater

Hitt óperuhúsið við torgið, New York State Theater, er heimili New York City Ballet og New York City Opera. Ballettinn ræður ríkjum  nóvember-febrúar og apríl-júlí, en óperan júlí-nóvember. Við framhlið hússins eru fjögur pör sjö hæða súlna og inni í anddyrinu eru fjórar hæðir til gyllta loftsins, allar með svölum. Höllin tekur 2.279 manns í sæti.

Þegar við vorum síðast í New York var Kristján Jóhannsson að koma þar fram í fyrsta sinn við mikinn orðstír gagnrýnenda. Það var í hlutverki Rodolfo í La Bohéme eftir Puccini. Önnur verk á skránni voru Madama Butterfly eftir sama höfund, Brúðkaup Figaros eftir Mozart, Perluveiðimennirnir og Carmen eftir Bizet, Norma eftir Bellini, Faust eftir Gounot og heimsfrumsýning á Líf og ævi Malmcolm X eftir Davis.

Næstu skref

4. New York – hringsigling

Borgarrölt
Manhattan Bridge & Downtown, New York

Manhattan Bridge & Downtown, séð frá sjó

Circle Line

Fyrsta og skemmtilegasta skoðunarferðin í New York er jafnframt hin þægilegasta. Við förum út að 83. bryggju við vesturenda 43rd Street og tökum okkur far með bátnum, sem siglir umhverfis Manhattan. Þar komum við okkur fyrir í þægilegu útsýnissæti og sötrum uppáhaldsdrykkinn á meðan við sjáum borgina líða hjá. Þetta er allra bezta aðferðin til að átta sig á afstöðu einstakra skýjakljúfa og borgarhverfa án þess að þurfa að rekast um í mannþröng og borgarhita.

Midtown, New York 2

Midtown séð úr þyrlu

Bezt er að koma sér fyrir á bakborða, því að báturinn fer rangsælis umhverfis Manhattan. Ennfremur er skynsamlegt að velja sér gott skyggni til fararinnar, helzt að morgni dags, því að stórborgum fylgir oft mistur, sem spillir skyggninu. Ferðin tekur þrjár stundir.

Island Helicopter

Nýstárlegri og fljótvirkari aðferð til að átta sig á hlutföllum Manhattan er að fara í þyrluflug. Farið er frá mótum 34th Street og East River. Unnt er að velja mismunandi löng flug, allt frá sjö mínútum og USD 30. Hálftíma flug yfir eyjuna þvera og endilanga og suður að frelsisstyttunni kostaði USD 84. Um þessa ferð gildir eins og um hina fyrri, að gott skyggni skiptir mestu máli. Okkur er ekki kunnugt um, að slys hafi orðið í langri sögu þessa þyrluflugs.

Fyrst er það menningin

Næstu skref

3. New York – veitingahúsin

Borgarrölt
Oyster Bar, restaurant, New York

Oyster Bar á Grand Central Station, eitt skemmtilegasta veitingahúsið

Matur – veitingahús

Veitingahúsin eru eitt bezta dæmið um, að í New York mætast allar þjóðir heims. Af 10.000 matstöðum á Manhattan er aragrúi af erlendum uppruna. Þar er hægt að fara hringferð um hnöttinn án þess að gera annað en sækja veitingastofur.

Kannanir sýna, að New York búar fara út að borða þriðja hvern dag að meðaltali, enda þarf mikil viðskipti til að halda uppi 10.000 matstofum. Margir þeirra kunna vel að meta góðan mat, svo að mikið er af prýðilegum veitingastöðum í borginni, þótt líka sé töluvert af lélegum og ómögulegum.

Næstu skref

2. New York – mjúk og hörð

Borgarrölt
World Trade Center, New York 2

Bókarhöfundar eru hér á þaki World Trade Center, sem nú er ekki lengur til

Channel Gardens, New York

Channel Gardens

Manhattan er staðurinn, sem hefur allt. Ef eitthvað er til einhvers staðar í heiminum, er það líka til á Manhattan. Þar eru útibú frá öllum frægu verzlunum Evrópu. Þar eru 10.000 veitingahús frá nærri öllum löndum heims. Þar eru gefin út blöð og reknar útvarpsstöðvar á 50 tungumálum.

Daglega er eitthvað merkilegt að gerast í New York, Corazon Aquino að taka við verðlaunum á Pierre, Johnny Cash að árita bækur á 5th Avenue, Sarah Vaughan með afmælistónleika á Blue Note í Greenwich, Norðmenn að sigla víkingaskipi inn á South Street Seaport og Kristján Jóhannsson að syngja í La Boheme í ríkisleikhúsinu.

Manhattan hefur gengið í endurnýjun lífdaganna. Mörg hverfi, sem áður voru í niðurníðslu, hafa verið hresst við á síðustu árum, víðast að frumkvæði framúrstefnu-listamanna. Veitingahús, verzlanir og velmegun hafa fylgt eftir.

Fólk annað hvort elskar eða hatar New York. Hún er mjúk og hörð í senn, en fyrst og fremst er hún hröð og æst, jafnvel tryllt. Hún er kjörinn áningarstaður þeirra, sem líður vel, þar sem hlutirnir gerast, þar sem naflinn sjálfur er. Hún er andartakið sjálft.

Næstu skref

10. Barcelona – Sagrada Família

Borgarrölt
Sagrada Familia, Barcelona

Sagrada Familia, Barcelona

Sagrada Família

Ef við beygjum inn þvergötuna við Casa Milá, komum við fljótlega að einkennistákni borgarinnar, umdeildri höfuðsmíði arkitektsins Gaudí. Það er kirkjan Temple Expiatori de la Sagrada Família.

Byrjað var að reisa hana fyrir rúmri öld, en hún er enn ekki fullsmíðuð, en turnarnir mörgu, með marglitum mósaíktoppum, rísa í óskipulegri reisn yfir görðunum í kring. Ekki er hægt að lýsa þessu furðuverki í texta. Það tekst betur með ljósmynd, en bezt er þó að koma á staðinn, standa undir berum himni í kirkjuskipinu og horfa upp til turna Gaudís.

Héðan má taka leigubíl og skreppa til Parc Güell. Það er skemmtigarður, sem er teiknaður af enn hinum sama Gaudí. Upphaflega átti þetta að vera hverfi 60 garðíbúða, en aldrei varð af því. Eftir stendur skemmtigarðurinn með Hans og Grétu piparkökuhúsum og skrautlegum hleðslum af ýmsu tagi, draumaheimur fyrir börn á öllum aldri.

Næstu skref

14. Toledo – Catedral gótica

Borgarrölt
Catedral gótico, Toledo

Catedral gótica, Toledo

Catedral gótica

Frá kastalanum förum við til dómkirkjunnar, upprunalega í gotneskum stíl franskættuðum frá 13. öld, en dálítið færð til byggingarstíla tveggja næstu alda. Vesturverkið og turninn eru í hreinum stíl gotneskum. Í turninum hangir 17 tonna klukka frá miðri 18. öld. Kirkjan er einkum þekkt fyrir höggmyndir og málverk, sem í henni eru. Einnig fyrir kórbekkina, sem eru vandlega útskornir. Rodrigo Alemán skar neðri hluta þeirra í lok 15. aldar. Ennfremur er dómkirkjan þekkt fyrir Transparente eða Gegnsæja altarið, það er skærlita altaristöflu útskorna, sem sýnir síðustu kvöldmáltíðina. Taflan er í kúrríkskum skreytistíl. Gluggum var komið fyrir ofan við töfluna til að ljós og skuggar gætu leikið við útskurðinn.

Norðan við dómkirkjuna er mikill fjöldi góðra matstaða, m.a. Adolfo.

San Juan de los Reyes, Toledo

San Juan de los Reyes, Toledo

Áfram höldum við til vesturs, eftir götunni Ángel Santo Tomé til klaustursins San Juan de los Reyes. Á leiðinni er kirkjan Santo Tomé. Við hana er márískur turn frá 14. öld. Inni í kirkjunni er frægt málverk eftir El Greco. Hann hét réttu nafni Domenico Teotocopulos, fæddur á Krít, en bjó lengst af í Toledo, í lok 16. aldar og upphafi hinnar 17.

Rétt aftan við kirkjuna er hús og safn Grecos, Casa y Museo del Greco. Verk hans eru víðar í bænum, til dæmis í safninu Santa Cruz, sem er rétt norðan við Alcázar.

Rétt hjá safninu er önnur af tveimur sínagógum borgarinnar, Sinagoga Del Tránsito, frá 14. öld. Að utan er hún ekki merkileg að sjá, en að innan eru márískar skreytingar. Hin sínagógan, Santa María la Blanca, er á svipuðum slóðum.

San Juan de los Reyes

Næstum vestur við Cambrón-hlið er klaustrið San Juan de los Reyes. Það var reist í lok 15. aldar á vegum Ferdinands og Ísabellu í gotneskum stíl. Klaustrið er glæsilegt að utanverðu og skrautlegt að innanverðu.

Hér við Cambrón-hliðið er veitingahúsið Chirón.

Margt fleira er merkilegt að skoða í Toledo. Þar á meðal er aðaltorg borgarinnar, Plaza del Zocodover, norðan við Alcázar og rétt hjá Santa Cruz-safninu, þar sem meðal annars eru málverk eftir El Greco. Það er að minnsta kosti dagsverk að rölta um borgina fram og aftur til að kynnast henni.

Þá er bara að fara til Madrid og ljúka þessari ökuferð.

13. Toledo

Borgarrölt
Toledo

Toledo, dómkirkjan efst fyrir miðju, kastalinn efst til hægri

Toledo

Toledo er ein elzta borg Spánar, sögufrægur 60 þúsund manna miðaldabær, sem stendur á graníthöfða við fljótið Tajo, girtur múr á þá hlið, sem snýr frá ánni. Þetta er einn elzti bær Spánar, lagður þröngum og undnum göngusundum. Toledo var höfuðborg Vestgota og lengst af helzta borg Kastilíu, unz Madrid var gerð að höfuðborg um miðja 16. öld. Hún er enn höfuðborg kaþólsku kirkjunnar, því að æðsti kardínáli landsins hefur þar vist.

Allur gamli bærinn í Toledo er skemmtilegt göngusvæði, allt frá borgarkastalanum Alcázar í austurendanum til klaustursins San Juan de los Reyes í vesturendanum.

Alcázar stendur þar, sem borgarstæðið er hæst, og gnæfir yfir önnur hús í bænum. Í núverandi útliti er kastalinn að mestu frá 16. öld, en hefur síðan brunnið þrisvar og var nær eyðilagður í borgarastyrjöldinni 1936, en hefur verið endurnýjaður í hinni gömlu mynd.

Næstu skref

12. Salamanca – Catedral Nueva y Vieja

Borgarrölt
Dómkirkjurnar, Salamanca

Dómkirkjurnar, Salamanca

Catedral Nueva y Vieja

Handan aðalbyggingar háskólans liggur mjótt sund að dómkirkjunum tveimur, hinni gömlu og hinni nýju.

Catedral Nuevo, Salamanca

Catedral Nuevo, Salamanca

Vinstra megin er “nýja” dómkirkjan frá fyrri hluta 16. aldar, tæplega fimm alda gömul, í gotneskum stíl. Vesturvirki kirkjunnar, sem snýr að götunni, er afar skrautlegt, hannað af arkitektunum Churriguera, sem kúrríkskur stíll er kenndur við. Það er ýkt útgáfa af svokölluðum silfursmíðastíl, sem einkenndist af fínlegum steinskurði.

Innan úr nýju dómkirkjunni er gengið inn í hina gömlu, sem er rómönsk kirkja frá 12. öld, í frönskum Akvítaníustíl. Þar inni er fræg risastór og litskær altaristafla frá miðri 15. öld, með 53 stökum málverkum úr æfi Krists, eins konar myndasöguhefti þess tíma.

Frá dómkirkjunum er hægt að fara til baka Rúa Mayor til Plaza Mayor, þaðan sem við hófum gönguna, eða rölta um götukróka borgarinnar, þar sem víða eru hús frá 15. og 16. öld. Vestur frá Plaza Mayor er Barrio de San Benito með gömlum húsum hefðarfólks og kirkju frá síðari hluta 15. aldar.

Næstu skref

11. Salamanca – Universidad

Borgarrölt
Aðalinngangur háskólans, Salamanca

Aðalinngangur háskólans, Salamanca

Patio de las Escuelas

Patio de las Escuelas, Salamanca

Patio de las Escuelas, Salamanca

Hliðargatan liggur að háskólatorginu, Patio de las Escuelas.

Patio de las Escuelas er lítið torg, sem er bezta sýnishorn Spánar af silfursmíðastíl. Fyrir miðju torgi er þrungin skreyting risavaxins aðalinngangs háskólans, frá fyrri hluta 16. aldar. Steinninn er svo fínlega höggvinn, að hann minnir á víravirki silfursmiða. Þaðan kemur heitið silfursmíðastíll eða platerískur stíll. Hér sjáum við eitt fullkomnasta dæmi Spánar um þennan stíl. Háskólinn er að öðru leyti að mestu frá 15. öld.

Til hliðar við torgið er næst stúdentagarðurinn, Hospital del Estudio, og síðan Escuelas Menores, hvort tveggja með aðalinngangi í silfursmíðastíl. Fyrir innan síðari innganginn er hugljúfur garður frá fyrri hluta 15. aldar, með súlnagöngum á alla vegu.

Escuela Menores, Salamanca

Escuela Menores, Salamanca

Næstu skref

10. Salamanca

Borgarrölt
Plaza Mayor, Salamanca

Plaza Mayor, Salamanca

Salamanca

Salamanca er Oxford Spánar, lítill bær 170 þúsund manna, með mjóum götum og stórum háskóla, sem var stofnaður 1215 og var á miðöldum einn af hinum fjórum mestu, ásamt með háskólunum í París, Oxford og Bologna.

Plaza Mayor

Skeljahúsið, Salamanca

Casa de las Conchas, Salamanca

Plaza Mayor í Salamanca var byggt í hlaðstíl á fyrri hluta átjándu aldar, teiknað af Alberto de Churriguera. Það er ferhyrnt torg án bílaumferðar með súlnagöngum á alla vegu, þar sem eru kaffihús og verzlanir. Það minnir á samnefnt torg í Madrid og raunar á fleiri borgartorg á Spáni, svo sem Plaça Reial í Barcelona. Plaza Mayor í Salamanca er hjarta borgarinnar, fullt af iðandi mannlífi frá morgni til kvölds.

Í næsta nágrenni torgsins er Gran Hotel og veitingahúsin Chez Victor og Río de la Plata. Frá torginu liggur Rúa Mayor að dómkirkjunum. Miðja vega klofnar gatan hjá Casa de las Conchas, 16. aldar húsi, sem skreytt er steinhöggnum hörpuskeljum. Hliðargatan liggur að háskólatorginu, Patio de las Escuelas.

Næstu skref