Borgarrölt

9. Córdoba – Mesquita

Borgarrölt

Mesquita, Córdoba 2

Mesquita

Mesquita í Córdoba er sannkallað furðuverk. Hún var reist árið 785 og var þá nýjung í sögu byggingarlistar, því að skeifubogar hennar eru tveggja hæða. Það gefur henni aukna hæð og rými. Síðar var moskan stækð nokkrum sinnum og jafnan í sama stíl, síðast árið 987.

Dans við Mesquita, Córdoba

Dans við Mesquita

Mesquita er skógur 850 súlna í 10 röðum og virðist sums staðar vera nánast endalaus. Ofan á súlunum hvíla tvöfaldir márískir skeifubogar, röndóttir, til skiptis úr hvítum kalksteini og rauðum tígulsteini. Í heild er moskan þögull undraheimur margvíslegra ljósbrota, þar sem blæbrigðin breytast við hvert fótmál.

Að grunni til er Mesquita svipuð hefðbundnum safnaðarmoskum. Að utan er hún girt voldugum múrum. Fyrir innan þá er fremst Appelsínutrjágarðurinn, sem er forgarður með voldugum bænaturni og hreinsunarbrunni. Inni er moskan fyrst og fremst súlnaskógur, með bænaþili innst. Þar eru flóknar, marglaufa fléttur skeifuboga, svo og stefnugróf, sem markar áttina til Mekka.

Inni í miðjum súlnaskóginum var reist fremur ljót dómkirkja á 16. öld, þegar kristni hafði ýtt íslam til hliðar í Córdoba, en hún drukknar inni í moskunni.

Næstu skref

8. Córdoba

Borgarrölt
Mesquita, Córdoba

Mesquita, Córdoba

Córdoba

Frá Arcos liggur leiðin til Sevilla, sem er svo merk borg, að hún hefur sérstakan kafla framar í þessari bók og er því ekki til frekari umfjöllunar hér. Frá Sevilla höldum við svo til Córdoba, tæplega 300 þúsund manna borgar nyrst í Andalúsíu.

Emírar frá Damascus tóku völd í Córdoba 719 og hélzt hún í höndum Mára í fimm aldir, til 1236. Hún var lengi helzta borg Mára á Spáni og eitt mesta fræðasetur heims. Hún lét mikið á sjá, þegar veldi Mára var hrundið á 15. öld og hinir kristnu arftakar létu áveitukerfið grotna niður. Stóra moskan, Mesquita, er minnisvarði um márískan stórveldistíma. Á mesta blómaskeiðinu voru 300 moskur í borginni.

Mest er um að vera í Córdoba í maí. Þá er maíhátíð, sem er svipuð aprílhátíðinni í Sevilla, með vikulöngum dansi og hljóðfæraslætti. Í sama mánuði er húsagarðahátíðin, þegar húseigendur keppa um verðlaun fyrir fegurstu blómaskreytingar í görðum sínum og húsagarðarnir eru opnir almenningi.

Næstu skref

7. Andalúcia – Arcos

Borgarrölt
Arcos de la Frontera, séð frá parador

Arcos de la Frontera, séð frá paradornum

Arcos

Á leiðinni milli Ronda og Arcos de la Frontera er ekið um fjalllendi, þar sem eru hin frægu “hvítu” þorp, sem glampa í fjallshlíðunum í sólskininu, svo sem Castellar, Vejer og Zahara. Á þessu svæði voru löngum landamæri kristinna og íslamskra á Spáni. Þess vegna eru orðin “de la Frontera” víða í nöfnum bæja og þorpa.

Arcos de la Frontera er uppi á klettatappa við ána Guadalete. Gott er útsýnið frá aðaltorginu, sem hangir beint yfir klettaveggnum. Við torgið er kirkjan Santa María í gullsmíðastíl. Þar er einnig hótelið okkar, með stórum herbergissvölum.

Næstu skref

6. Andalúcia – Ronda

Borgarrölt

Ronda

Ronda, Puenta Nuevo

Ronda, Puenta Nuevo

Í nágrenni Ronda er fagurt landslag, einkum í fjalllendinu milli borgar og strandar, Serranía de Ronda, þar á meðal á leiðinni frá ströndinni, ef farið er upp hjá bænum San Pedro de Alcántara. Er þá farið frá Torremolinos vestur fyrir Marbella til San Pedro og þaðan inn í land til Ronda. Sú leið er lengri en hin stytzta, um 110 kílómetrar. Bærinn er 750 metrum yfir sjávarmáli.

Ronda er reist á fjallsbrún ofan við ána Guadalevín, sem rennur í djúpu gili, Tajo, gegnum miðbæinn. Gamli bærinn í Ronda er fra
mmi á klettaeyju, en nýi bærinn er á innri brúninni. Milli bæjarhlutanna liggja tvær brýr, 90 metra há Puente Nuevo frá 18. öld og enn eldri Puente Romano, sem veita hrikalegt útsýni yfir gilið.

Skemmtilegt er að rölta þröngar götur gamla bæjarins. Þar eru til dæmis gömul kirkja með íslömskum kallturni í márastíl; voldug og tvíturna Mondragón-höll í endurreisnarstíl; Salvatiera-höll; og máríska baðhúsið, sem minnir á, að Ronda var höfuðborg eins máraríkisins á Spáni. Auðvelt er að ganga um alla þessa staði, því að flatarmál gamla bæjarins er varla nema 15 hektarar.

Í nýja bænum, aðeins 100 metrum frá Puenta Nuevo, er einn elzti nautaatshringur Spánar, frá 1785. Það var einmitt í Ronda, að nautaat var fært í þann búning, sem gilt hefur æ síðan. Það var Francisco Romero, fæddur 1698, sem setti fram reglurnar. Sonarsonur hans, Pedro Romero, varð frægasti nautabani sögunnar. Frá nautahringnum liggur skemmtileg gata, Carrera de Espinel, með gömlum húsum.

Næstu skref

5. Sevilla – Santa Cruz

Borgarrölt

Santa Cruz

Plaza Dona Elvira, Sevilla

Plaza Dona Elvira, Santa Cruz

Hverfið austan við dómkirkjuna og kastalann heitir Santa Cruz. Það var gyðingahverfi á miðöldum, en varð á 17. öld að hverfi aðalsfólks. Enn er það hverfi efnafólks, með vel varðveittum húsum, friðsælum forgörðum og þröngum sundum, sem bílar komast ekki um. Þar eru ótalmörg kaffihús, barir og veitingahús, einkum við torgin Dona Elvira, Venerables Sacerdotes og Santa Cruz, þar sem er stytta af Don Juan.

Andalúsía

Santa Cruz, Sevilla

Santa Cruz

Þótt flestir íslenzkir ferðamenn leggi leið sína til Andalúsí
u, þekkja færri hina raunverulegu Andalúsíu að baki fjallanna við ströndina. Þar eru hinar sögufrægu borgir, sem við ætlum að heimsækja í þessum kafla. Þetta er land endalauss sólskins og letilífs, veizluhalda og sönglistar. Þetta er land nautaats og flamenco-dansa, sítróna og sérrís. Fegursti og þægilegasti tíminn í Andalúsíu er í marz-apríl og september-októ
ber.

Héðan kemur súpan gazpacho, köld tómatsúpa með olíu og ediki, hráum hvítlauk og lauk og oft með brauðmolum, framreidd í ótal tilbrigðum. Héðan kemur ískældi svaladrykkurinn sangría, sem felur í sér rauðvín, gos, ávaxtasafa og koníakstár.
Hið upprunalega sérrí kemur frá Andalúsíu. Bezta sérríð er svokallað fino, skraufaþurrt og ljóst og veikt. Það hæfir betur en nokkuð annað
áfengi sem fordrykkur á undan mat, því að það örvar bragðlaukana, en deyfir þá ekki eins og hanastél gera yfirleitt. Ekta amontillado er dekkra og þyngra sérrí, sem gott er að drekka eftir mat.

Við ímyndum okkur, að við séum stödd á Costa del Sol, t. d. í Torremolinos. Við erum orðin þreytt á sandi og sólskini og höfum tekið bílaleigubíl, sem við ætlum að aka til frægðarborga Andalúsíu. Leið okkar liggur um Ronda, Arcos de la Frontera, Sevilla, Córdoba, Granada og Malaga, þar sem við erum aftur komin niður á ströndina.

Milli Torremolinos og Ronda eru 84 kílómetrar, milli Ronda og Arcos 86 kílómetrar, milli Arcos og Sevilla 91 kílómetri, milli Sevilla og Córdoba 143 kílómetrar, milli Córdoba og Granada 166 kílómetrar, milli Granada og Malaga 127 kílómetrar og milli Malaga og Torremolinos 14 kílómetrar. Fyrsti viðkomustaður er Ronda.

Næstu skref

4. Sevilla – Alcázar

Borgarrölt
Patio de la Doncellas, Alcázar, Sevilla

Patio de la Doncellas, Alcázar

Alcázar

Eini hluti borgarkastalans, Alcázar, sem er frá márískum tíma, er veggriðið, sem skilur á milli fremra portsins, Patio de la Montería, og innra portsins, Patio del León. Að öðru leyti er kastalinn að mestu byggður á valdaskeiði kristins konungs, Péturs hins grimma, 1364-1366.

Alcázar, Sevilla

Alcázar

Hann lét hanna kastalann í márískum stíl, undir greinilegum áhrifum frá Alhambra í Granada, enda voru iðnaðarmennirnir Márar. Hann kunni ekki arabisku og vissi ekki, að í skrautbeðjum veggjanna höfðu þeir skráð: “Það er enginn sigurvegari nema Allah”. Íslamskur byggingastíll hélt velli á Spáni í samkeppni við ítalskan og franskan stíl lengi eftir að Márar höfðu verið hraktir á brott. Alcázar í Sevilla er bezta og hreinasta dæmið, sem til er um márískan stíl frá kristnum tíma.

Innan við Patio del León er höll Péturs. Í henni er innsta portið, Patio de las Doncellas, upprunalega í tærum Alhambra-stíl með oddbogagöngum á alla vegu. Á 16. öld var bætt ofan á hæð með bogagöngum, sem stinga í stúf.

Fyrir innan höll Péturs er víðáttumikill kastalagarður með klipptum runnaröðum, trjágöngum, garðhýsi Karls V, tjörnum og blómum. Þar inn af er svo minna þrautskipulagður garður á vinstri hönd.

Næstu skref

3. Sevilla – Giralda

Borgarrölt

Giralda

Giralda, Sevilla

Giralda

Norðan við austurdyr kirkjunnar er kirkjuturninn, Giralda. Hann er frá síðari hluta 12. aldar og var þá kallturn moskunnar, er áður var þar, sem kirkjan stendur nú. Hann er 98 metra hár og breiður eftir því, úr bleikum múrsteini, ferstrendur eins og tíðkaðist í vesturhluta íslams, en ekki sívalur eins og tíðkaðist í Persíu og austurhluta íslams.

Stíllinn er greinilega márískur, frá valdaskeiði Almóhaða, sem voru harðlínumenn í trúmálum og andvígir glysi. Þess vegna er turninn í mjög formföstum línum, með reglubundnum oddskeifugluggum og fíngerðu skarti. Á 16. öld var bætt ofan á turninn einni skrautlegri hæð og kristnu klukknaporti. Að innanverðu er spírallaga hringbraut upp turninn, þaðan sem er gott útsýni yfir borgina.

Ef farið er norður fyrir kirkjuna, er hægt að komast inn í garð appelsínutrjánna, Patio de los Naranjos, sem líka er leif frá márískum tíma. Slíkir garðar eru hefðbundinn hluti íslamskra moska

Lonja

Lonja

Lonja

Til að komast frá dómkirkjunni til borgarkastalans er gengið yfir torgið Plaza del Triunfo. Þar er á hægri hönd Vestur-Indíasafnið í höll, er var reist 1572 sem kauphöll, Lonja, þegar Sevilla var höfuðborg Ameríkusiglinga, teiknuð af Juan de Herrera, sem einnig hannaði konungshöllina El Escorial við Madrid. Þar inni eru meðal annars sýnd gömul siglingakort og gömul kort af bæjum í rómönsku Ameríku.

Næstu skref

2. Sevilla – Catedral

Borgarrölt

Catedral de Santa Maria, Sevilla

Catedral de Santa Maria

Patio de los Naranjos, Sevilla

Patio de los Naranjos, Catedral

Ekki er flókið mál að skoða hið markverðasta í Sevilla. Ekki þarf annað en að ganga kringum dómkirkjuna, sem yfirgnæfir umhverfi sitt með voldugum turni og víðáttumiklum svifsteigum, enda er hún sögð hin þriðja stærsta í heimi, næst á eftir Péturskirkju í Róm og Pálskirkju í London. Hún er byggð í svo síðgotneskum stíl, að áhrifa endurreisnartímans er farið að gæta. Byggingin hófst 1401, þegar rifin hafði verið íslömsk moska, sem stóð hér áður, þegar Sevilla var márísk borg. Frægt er vesturvirki kirkjunnar með margföldum dýrlingabogum umhverfis kirkjudyr.

Gengið er í dómkirkjuna bæði að vestanverðu og austanverðu. Að innan er hún yfirþyrmandi stór og kuldaleg, 56 metrar undir loft. 75 steindir gluggar eru á kirkjunni, sumir hverjir frá upphafi 16. aldar. Til vinstri við austurdyrnar er konungskapella, Capilla Real, þar sem hvíla nokkrir Spánarkonungar. Við enda suðurstúku kirkjunnar er líkkista Kólumbusar, borin af fjórum styttum, sem tákna fjögur konungdæmi Spánarveldis, sem þá voru Aragón, Castilía, León og Navarra.

Næstu skref

B. Hefðarbúðir

Borgarrölt, London
Berry Brothers, London 2

Berry Brothers, dæmigerð búð fyrir sérfræðinga, selur öldruð borðvín

Verzlun-búðaráp

Liðin er sú tíð, er London var ein hagstæðasta verzlunarborg Evrópu. En hún er enn ein hin skemmtilegasta. Einkum eru það sérverzlanirnar, sem gera garðinn frægan, sumar frá fyrri öld eða öldum. Ef við tökum forngripaverzlanirnar sem dæmi, þá eru á því sviði ótölulega margir flokkar sérverzlana í ákveðnum tímabilum ákveðinna tegunda og ákveðinna landa.

Leiðsögnin um verzlanir í London verður í höfuðdráttum í formi gönguferðar um St James´s hverfi og austurhluta Mayfair hverfis. Í leiðinni verður bent á ýmsar sögufrægar verzlanir, þótt fleira megi skoða en þær einar.

Ef sumum lesendum finnst karlmönnum gert hærra undir höfði en konum, er það til afsökunar, að karlmannabúðir í London eru sumar gamlar og rótgrónar, en kvennabúðir hins vegar nýlegar og innfluttar frá París eða Róm.

Óþarfi er að leiðbeina lesendum sérstaklega til vöruhúsanna miklu við Oxford Street og Regent Street, þar sem menn reyna að finna hið fáa, sem ekki fæst heima á Íslandi. Hins vegar er gaman að glugga í frægar og dýrar búðir, ekki beinlínis til að verzla, heldur til að skoða þær eins og aðra merkisstaði borgarinnar. Og kaupsýslan í London er ekki síður merkileg en gamlar kirkjur, söfn og myndastyttur.

Næstu skref

13. Barcelona – Placa del Toro

Borgarrölt
Placa del Toro, Barcelona

Placa del Toro

Parc Joan Miró, Barcelona

Parc Joan Miró

Handan við Spánartorg er einn helzti nautaatshringur borgarinnar, Placa del Toro, márískum stíl eins og svo margir nautaatshringir á Spáni. Á bak við hringinn er Parc Joan Miró með stórri höggmynd eftir listamanninn.

Héðan tökum við leigubíl niður í bæ. Skoðun Barcelona er lokið að sinni.

Costa Dorada

Frá Barcelona er stutt að fara um ströndina Costa Dorada til Sitges, 30 kílómetrum sunnan borgarinnar. Þar er strönd og kaffihúsalíf og skemmtilega gamall miðbær.

Lengri ferð má fara suður um ströndina til Tarragona, sem er 100 kílómetrum sunnan við Barcelona. Tarragona er gamall Rómverjabær með miklum fornleifum frá þeim tíma, þar á meðal hringleikahúsi og
borgarmúr. Miðbær Tarragona er frá miðöldum.

Einnig er stutt að heimsækja fjallaklaustrið Montserrat, 60 kílómetrum frá borginni. Þar er fjölbreytt landslag.

Costa Brava

Einnig má fara norður um ströndina Costa Brava, sem er ein fegursta strönd Spánar, með klettum í sjó fram og sandvíkum á milli. Þar er bærinn Gerona, 100 kílómetrum norðan Barcelona, með skemmtilegum miðbæ frá miðöldum, hinum bezt varðveitta á öllum Spáni.

Nú víkur sögunni til Andalúsíu.

Næstu skref

12. Barcelona – Poble Espanyol

Borgarrölt
Palau Nacional, Barcelona

Palau Nacional

Neðan við þetta svæði er Palau Naçional, sem stendur virðulega frammi á fjallsbrún. Þessi mikla höll var reist vegna heimssýningarinnar í Barcelona árið 1929. Þar er til húsa eitt stærsta safn miðaldalistar í heiminum, Museu d’Art de Catalunya. Í brekkunum austan við höllina eru fornminjasafnið, Museu Arqueològic og þjóðfræðisafnið, Museu Etnològic.

Poble Espanyol

Poble Espanyol, Barcelona

Poble Espanyol

Í brekkunum vestan við höllina er eins konar Árbær, Poble Espanyol. Þar hafa verið reistar nákvæmar eftirlíkingar af spönskum húsum, raðað saman eftir landshlutum. Þar má til dæmis finna Katalúníuhverfi, Kastilíuhverfi og Andalúsíuhverfi. Í húsunum eru verzlanir, listiðnaðarverkstæði og veitingastofur. Á kvöldin eru oft ýmsar sýningar, til dæmis dansar, svo og tónleikar og kvöldvökur.

Frá Palau Naçional liggja voldugar tröppur niður brekkuna, inn á milli sýningarhalla kaupstefnunnar í Barcelona, og niður á Spánartorg, Plaça d’Espanya. Þar er gaman að snúa sér við og virða fyrir sér mikilúðlegt útsýnið upp til Palau Naçional.

Næstu skref

11. Barcelona – Montjuïc

Borgarrölt

Parc de la Ciutadella

Fundacio Joan Miró, Barcelona

Fundació Joan Miró

Austan við gamla miðbæinn er mikill garður, Parc de la Ciutadella, þar sem heimssýningin var haldin árið 1888 og þar sem nú er vinsælt að fara í sunnudagsgöngur. Syðst í garðinum er dýragarður borgarinnar, fremur þægilegur garður á nútíma vísu, og fyrir norðan hann er nýlistasafn borgarinnar, Museu d’Art Modern, aðallega með verkum katalúnskra listamanna. Í garðinum er líka þinghús Katalúníu. Milli garðsins og hafnarinnar er uppfylling, þar sem er að rísa ólympíuþorpið fyrir árið 1992.

Montjuïc

Miró, Barcelona

Miró

Vestan við miðbæinn er fjallið Montjuïc. Gott er að fá sér leigubíl upp eða fara með kaðallyftu, en ganga niður. Efst uppi er hernaðarsafnið, Museu Militar. Þaðan er mikið útsýni yfir borgina, höfnina o
g hafið. Fyrir neðan safnið er tívolí-garður með margvíslegum leiktækjum, svo sem Parísarhjóli.

Þar er líka nýlegt safn, Fundació Joan Miró, þar sem sýnd eru verk katalúnska nútímalistamannsins Miró. Safnhúsið er hið frumlegasta að allri hönnun.

Á leiðinni niður komum við næst að svæðinu, þar sem ólympíuleikarnir 1982 verða haldnir. Þar er stóri ólympíuleikvangurinn og margir aðrir keppnisvellir af ýmsu tagi.

Næstu skref

9. Barcelona – Passeig de Gracìa

Borgarrölt

Passeig de Gracìa

Casa Batllo, Barcelona

Casa Batlló

Norður frá Katalúníutorgi liggur breiðgatan Passeig de Gracìa norður um nýja miðbæinn frá því rétt fyrir síðustu aldamót. Þetta var þá helzta og fínasta íbúðahverfi borgarinnar, Eixample, og er nú helzta og fínasta verzlunarhverfi hennar. Á breiðum gangstéttum Gracìa eru oft smakktjöld framleiðenda freyðivíns, sem bjóða gestum og gangandi upp á glas af cava, einkennisvíni Katalúníu.

Við þessa götu eru líka merk hús, einkum
eftir arkitektinn Gaudí. Hægra megin, á nr. 41 og 43 eru hlið við hlið litskrúðug húsin Casa Amatller frá 1900 eftir Josep Puigi Cadafalch í flæmskum stílbrigðum og Casa Batlló, frá 1905 eftir Gaudí, auðþekkjanlegt af bylgjuðum svölum og bjúgu þaki. Nokkru norðar, vinstra megin, á nr. 92, er Casa Milà eða La Pedrera, frá 1905, eftir Gaudí, sjóveikislega bylgjulaga með furðusmíðum á þaki.

Öll þessi hús eru í róttækri útgáfu af ungstíl eða nýstíl aldamótanna, sem hafði meiri áhrif í Barcelona en í flestum öðrum borgum Evrópu.

Næstu skref

C. City

Borgarrölt, London

Eftir fyrstu gönguferðina um búðir St James´s og Mayfair hverfa, er kominn tími til að segja frá tíu almennum skoðunarferðum um aðra markverða staði miðborgarinnar. Við förum frá austri til vesturs, byrjum austast í City og færum okkur síðan til Covent Garden og Soho, enn til St James´s og Mayfair og loks til Westminster.

Vegna stærðar borgarinnar og smæðar bókarinnar verður ekki lýst ferðum um önnur hverfi nálægt miðju og engum ferðum um úthverfin.

Við sleppum öllu fyrir sunnan á, þótt þar á bakkanum sé Þjóðleikhúsið. Við sleppum menntahverfinu Bloomsbury, þótt þar sé háskólinn og British Museum, sem áður hefur verið lýst. Við sleppum Marylebone, enda höfum við þegar lýst söfnunum þar.

Við sleppum jafnvel hverfunum sunnan garða, “vinstri bakkanum”, sem sumir kalla svo. Frá South Kensington höfum við þegar lýst söfnunum, frá Knightsbridge höfum við þegar lýst Harrods og verzlanahverfinu þar í kring, og frá Belgravia og Chelsea höfum við þegar lýst verzlanagötum og veitingahúsum, sem máli skipta.

Til hagræðingar hafa flestar gönguferðir okkar upphaf og endi við stöðvar neðanjarðarlestarinnar.

2. gönguferð:

London Wall

London Wall, London

London Wall

Þegar við komum upp úr Tower Hill neðanjarðarstöð-inni, skulum við fyrst virða fyrir okkur Tower of London, því að héðan er eitt bezta útsýnið til hans. Síðan förum við göng undir götuna að Tower. Á leiðinni eru leifar af London Wall, múrnum, sem Rómverjar létu reisa utan um borgina, þegar Boadicea Keltadrottning hafði rænt hana árið 61. Þá var Londinium, eins og Rómverjar kölluðu hana, ung borg, aðeins tveggja áratuga gömul.

Leifar rómverska múrsins sjást víðar umhverfis City og eru aðallega frá 2. öld. Sumar götur í City sýna enn í nöfnum sínum, hvar hlið voru á virkisveggnum: Ludgate, Newgate, Aldersgate, Moorgate, Bishopsgate og Aldgate. Múrinn var ekki fluttur til, þótt borgin stækkaði, heldur aukinn og endurbættur á sama stað á miðöldum. Mestallt núverandi City, nema Fleet Street svæðið, er innan þess ramma, sem gamli múrinn markaði.

Næstu skref

8. Barcelona – La Boqueria

Borgarrölt
Boqueria, Barcelona

La Boqueria

La Rambla, Barcelona

La Rambla, fuglasali

Við förum til baka eftir Cardenal Casanas til La Rambla og höldum áfram eftir þeirri götu. Til vinstri komum við að höfuðinngangi matvælamarkaðarins í Barcelona. Það er Mercat de Sant Josep, öðru nafni La Boqueria, stálgrinda- og glerhús í ungstíl frá 19. öld (B3). Þar eru stórfenglegar breiður af girnilegum ávöxtum, grænmeti, fiski, skeldýrum og kjöti. Þetta er bezt að skoða á morgnana, því að markaðurinn fjarar út síðdegis.

Næst komum við, líka til vinstri, að Palau de la Virreina. Þar bjó á nýlendutímanum varakonungurinn af Perú, en nú hýsir höllin ýmis söfn og sýningar.

Við höldum áfram eftir eyjunni á miðri La Rambla, göngum fram hjá platantrjám, blómabúðum, fuglabúðum, kaffihúsum og blaðsöluturnum, ef til vill einnig mótmælagöngum, og erum komin til Katalúníutorgs, þar sem við hófum þessa miklu gönguferð.

Næstu skref