Borgarrölt

7. Barcelona – Plaça Reial

Borgarrölt
Placa Reial, Barcelona

Placa Reial

Barri Gótic, Barcelona 2

Barri Gótic

La Rambla

Hér við Monument a Colom er suðurendinn á La Rambla, helztu röltgötu borgarinnar. Hún liggur héðan til Plaça de Catalunya, þaðan sem við hófum göngu okkar. Við förum eftir henni miðri, þar sem er löng og mjó eyja með platantrjám, blómabúðum, fuglabúðum, kaffihúsum og blaðsöluturnum, en bregðum okkur inn í sumar hliðargötur.

Fyrst komum við að vaxmyndasafninu til hægri í Museu de Cera, á horninu við þvergötuna Passatge Banca. Síðan lítum við til vinstri inn í þvergötuna Carrer Nou de la Rambla, þar sem eitt af húsum Gaudís er rétt við hornið. Það er Palau Güell, virkishús með auðþekkjanlegum skreytingum úr smíðajárni og hefur að geyma leikhúsminjasafn (A4). Á þessum slóðum er Kínahverfið í borginni, Barri Chino, þar sem mikið er um hórur og vasaþjófa.

Plaça Reial

Andspænis götunni, hinum megin við La Rambla, er þvergatan Carrer Colom, sem liggur að lokuðu göngutorgi, Plaça Reial. Það er heildarteiknað torg í stíl við Plaza Mayor í Madrid, með skuggsælum súlnagöngum og kaffihúsum allt um kring.

Á þessu torgi hittast frímerkjasafnarar og myntsafnarar á sunnudagsmorgnum. Á nóttunni eru hér rónar og fíkniefnaneytendur, sem geta valdið óþægindum.

Nokkru norðar á La Rambla komum við vinstra megin að Gran Teatre del Liceu, á horni þvergötunnar Sant Pau. Það er borgaróperan, byggð 1846, með risastórum áhorfendasal, en lætur lítið yfir sér að utanverðu.

Plaça del Pi

Andspænis Liceu liggur þvergatan Cardenal Casanas á ská til norðurs að torgunum Plaça del Pi og Plaça Sant Joseph Oriol undir kirkjunni Mare de Déu del Pi. Á þessum torgum er einn af flóamörkuðum borgarinnar. Þar eru líka oft uppákomur í listum. Norður af Plaça del Pi er heilmikið hverfi verzlana með göngugötum undir þaki, eins konar bazar á austræna vísu, en hreint og fágað á vestræna vísu.

Næstu skref

6. Barcelona – Moll de la Fusta

Borgarrölt
Moll de la Fusta, Barcelona

Moll de la Fusta

Monument a Colom. Barcelona

Monument a Colom

Niðri við höfn förum við yfir Passeig de Colom út á Moll de la Fusta, sem er pálmum skrýtt göngusvæði við lystisnekkjuhöfnina. Við förum þessa leið til hægri, í áttina að Monument a Colom, súlunni miklu, þar sem efst trónir stytta af Kristófer Kólumbusi. Hægt er að fara upp súluna í lyftu og njóta útsýnis í góðu veðri. Torgið umhverfis styttuna heitir Plaça Portal de la Pau.

Í höfninni fyrir framan, undir höllinni Port Autonom, liggur oft eftirlíking í fullri stærð af Santa María, karavellunni, sem flutti Kólumbus í fyrstu Ameríkuferðinni. Vestar á hafnarbakkanum er tollbúðin, virðuleg höll, en landmegin er gamla skipasmíðastöðin í borginni, Drassanes, frá 14. öld, heimsins eina dæmi sinnar tegundar iðnaðarhúsnæðis frá þessum tíma. Þar er nú viðamikið siglingasafn, Museu Marítim.

Tollbúðin, Barcelona

Tollbúðin

Næstu skref

5. Barcelona – Plaça Sant Jaume

Borgarrölt
Placa Sant Jaume, Barcelona

Placa Sant Jaume

Plaça Sant Jaume

Við göngum beinustu leið til baka eftir Princesa, yfir Laietana og áfram eftir götunni Jaume unz við komum inn á borgartorgið Plaça Sant Jaume. Þar er stjórnarráð Katalúníu á hægri hönd og ráðhús Barcelona á vinstri hönd. Stjórnarráðið er mikil höll frá 15. öld, Palau de la Generalitat. Ráðhúsið á móti er frá 14. öld, Ajuntament.

Palau de la Generalitat, Barcelona 2

Palau de la Generalitat

Við skulum ganga eftir sundinu Calle Bisbe Irurita meðfram stjórnarráðinu að dómkirkjunni, sem við vorum áður búin að skoða. Á leiðinni er skemmtileg göngubrú í gotneskum stíl yfir sundið milli húsanna Generalitat og Canonges, þar sem eru skrifstofur formanns stjórnarráðsins. Í þessum höllum er stjórn Katalúníu önnum kafin við að efla sjálfstæði svæðisins gagnvart miðstjórnarvaldinu í Madrid.

Ajuntament, Barcelona

Ajuntament

Við erum nú komin aftur að dómkirkjunni og getum gertð öðrum kosti röltum við eftir göngusundunum og kynnum okkur Barri Gòtic í návígi. Ef við förum eftir sundunum Gegants og Avinyó, göngum við framhjá veitingahúsunum Agut d’Avinyó og El Gran Café. Við tökum almennt stefnuna til suðausturs og endum niðri við höfn. Á leiðinni förum við yfir götuna Ample, þar sem er hótelið Metropol og veitingastaðurinn El Túnel.

Næstu skref

4. Barcelona – Museu Picasso

Borgarrölt
Montcada, Barcelona

Montcada, vinstra megin Picasso-safn

Museu Picasso

Við förum frá Plaça de l’Ángel yfir götuna Laietana og göngum eftir Princesa, unz við komum að sundinu Montcada, þar sem við beygjum til hægri. Þessi gata með gróðurbeðjum á svölum var þegar á 12. öld hverfi höfðingjanna í bænum. Aðalshallirnar þar eru frá 13. til 18. öld. Nú er þar Picasso-safnið til húsa í þremur höllum, á nr. 15-19.

Við komum þar fyrst inn í forgarð, sem er dæmigerður fyrir katalúnskar borgarhallir af þessu tagi. Þetta safn er eitt hið merkasta í borginni og er það við hæfi, því að Picasso lærði að mála í Barcelona, kom hingað 15 ára gamall. Andspænis Picasso-safninu er fatatízkusafnið Museu de tèxtil i de la Indumentària.

Museu Picasso, Barcelona

Museu Picasso, inngangur

Næstu skref

3. Barcelona – Plaça del Rei

Borgarrölt

Barri Gòtic

Museu Frederic-Mares, Barcelona

Museu Frederic-Mares

Hér hefst hinn gotneski, gamli hluti miðborgarinnar, Barri Gòtic, með þröngum og krókóttum húsasundum, fullur af kaffihúsumog veitingahúsum. Nafnið stafar af því, að mörg hús í hverfinu eru í gotneskum stíl frá 13.-15. öld.
Við skulum ganga inn sundið Comtes norðan við kirkjuna. Þar er konungshöll Aragóns vinstra megin sundsins, andspænis dómkirkjunni. Þar bjuggu greifarnir af Barcelona, sem urðu kóngar af Aragón eftir 1137. Núna eru þar söfn. Fyrst komum við að listasafninu Museu Frederic-Marès. Síðan komum við að fornskjalasafninu, sem er í varakonungshöllinni frá endurreisnartíma, Palau del Lloctinent. Hér framundan til hægri er veitingahúsið Cuineta. Við beygjum hins vegar til vinstri og förum inn á konungstorg, Plaça del Rei.

Plaça del Rei

Placa del Rei, Barcelona

Placa del Rei, Torre del Rei Martí vinstra megin, Saló del Tinell fyrir miðju

Við sjáum hér frá Plaça del Rei hina hliðina á varakonungshöllinni. Fyrir enda torgsins er Saló del Tinell, hinn gamli 14. aldar veizlu- og hásætissalur hallarinnar, með frægum tröppum fyrir framan, þar sem Ferdinand Aragónskóngur og Ísabella Kastilíudrottning eru sögð hafa tekið á móti Kristófer Kólumbusi, er hann kom frá fyrstu Ameríkuferð sinni.

Yfir Tinell-sal gnæfir Torre del Rei Martí, 16. aldar útsýnisturn með margra hæða súlnariðum. Hægra megin, andspænis varakonungshöllinni, er konungskirkjan Capella de Santa Agata, gotnesk kirkja frá 14. öld. Suðaustan við torgið, andspænis Tinell-sal, er Casa Clariana Padellòs, 16. aldar hús. Þar og í öðrum mannvirkjum umhverfis torgið er borgarsögusafnið til húsa, Museu d’Història de la Ciutat.

Við göngum áfram suðaustur meðfram Casa Clariana Padellòs og beygjum til vinstri eftir götunni Libreteria, þar sem við komum strax að torginu Plaça de l’Ángel, þar sem hótelið Suizo er. Ef við skreppum norður frá torginu, komum við á Plaça de Ramón Berenguer el Gran, þar sem við sjáum Capella de Santa Agata frá hinni hliðinni, þar sem hún er reist utan í og ofan á gamla borgarmúrnum utan um Barri Gòtic.

Næstu skref

2. Barcelona – Barri Gótic

Borgarrölt
Catedral de Santa Eulalia, Barcelona

Catedral de Santa Eulalia

Gamla hverfið í miðbænum, Barri Gòtic, er sérstaklega skoðunarvert.

Plaça de Catalunya

Við hefjum gönguferðina um gömlu Barcelona á Katalúníutorgi, Plaça de Catalunya, sem er miðtorg borgarinnar. Það er stórt, með gosbrunnagarði í miðju. Við austurhlið þess er vöruhúsið El Corte Inglés. Við göngum meðfram vöruhúsinu og áfram niður göngugötuna Portal de l’Ángel. Smám saman þrengist gatan og endar á Plaça Nova, þar sem dómkirkjuturnar blasa við.

Catedral de Santa Eulalia

Á vinstri hönd okkar er nútímalegt hús með stórri lágmynd eftir Picasso, sem sýnir Katalúna dansa þjóðdans sinn, Sardana. Framundan eru tveir turnar, leifar vesturports rómverska borgarmúrsins frá 4. öld. Hægra megin turnanna er biskupshöllin, Palau Episcopal, og vinstra megin er hús erkidjáknans, Casa de l’Ardiaca, upprunalega frá 11. öld, en endurnýjað á 16. öld.

Catedral de Santa Eulalia var reist á 14. öld og fyrri hluta 15. aldar í gotneskum stíl, en með því katalúnska sérkenni, að kirkjuskipið er aðeins eitt, án hliðarskipa. Inn á milli útveggjastoðanna er skotið ótal smákapellum. Kirkjan var gerð upp á 19. öld og ber að mestu upprunalegan svip. Inni í henni má meðal annars sjá 16. aldar kórhlíf úr hvítum marmara. Hægt er að ganga hægra megin úr dómkirkjunni inn í lítinn og friðsælan klausturgarð frá 15. öld, þar sem gæsir ganga á beit.

Skemmtilegast er að vera hér eftir kl. 12 á sunnudögum, þegar Sardana dansinn byrjar framan við dómkirkjuna. Það er katalúnskur hringdans, nokkuð flókinn, sem er eins konar sjálfstæðisyfirlýsing Katalúna. Á tímum Francos var dansinn bannaður og iðkaður í kyrrþey. Nú er hann framinn af aðvífandi kirkjugestum, ungum sem öldnum. Þessi óskipulagða uppákoma hefur jafnan mikil áhrif á ferðamenn.

Næstu skref

6. Madrid – austurbær – El Escorial

Borgarrölt
El Escorial

El Escorial

Einn hinna sérkennilegu Spánarkonunga var Filipus II af Habsborg. Hann var ofsatrúaður kaþólikki og reisti sér vinkilrétt reglustrikaða grjóthöll mikla, El Escorial, í nágrenni Madrid, um miðja 16. öld.

Við skulum ljúka kaflanum um Madrid með því að skreppa í útrás til þessarar hallar, sem er 55 kílómetrum norðan við borgina.

El Escorial er í afar ströngum og kuldalegum fægistíl, hönnuð af Juan de Herrera og reist á síðari hluta 16. aldar, um leið og Madrid var gerð að höfuðborg. Höllin er ferningslaga, reist með mikla kirkju að miðpunkti og er að öðru leyti skipt í fjóra jafna ferninga, tveir af hverjum skiptast í fjóra minni ferninga. Í tveimur ferningum var klaustur, í einum háskóli og í einum vistarverur konungs. Allar línur eru afar hreinar, beinar og kuldalegar, í stærðfræðilegum málsetningum.

Gaman er að bera saman tiltölulega fátæklegar vistarverur Habsborgarans Filipusar II á 2. hæð við ríkmannlegar vistarverur eins eftirkomanda hans, Búrbónans Karls IV, á 3. hæð.

Í höllinni eru líka ýmis söfn, þar sem meðal annars má sjá kvöl heilags Máritz eftir El Greco. Hallarkirkjan er í fægirænum endurreisnarstíl; eins og grískur, jafnarma kross að grunnfleti, með víðáttumiklu hvolfi. Undir henni eru grafir flestra Spánarkonunga, sem ríkt hafa frá þeim tíma.

Og þá víkur sögunni að  Barcelona.

Næstu skref

5. Madrid – austurbær – Prado

Borgarrölt
Goya, Prado, Madrid 2

Nakta Maja, Goya

Museo del Prado

Erfitt er að veita leiðsögn um Prado, ekki bara af því að safnið er stórt, heldur einnig af því að alltaf er verið að færa til hluti og leiðbeiningar eru einstaklega lélegar. Reiknað er með, að málverk Goya verði flutt yfir torgið Canovas del Castillo inn í Palacio de Villahermosa, en síðast, þegar ég vissi til, voru þau í suðurenda Prado, á tveimur hæðum. Bezt er að nota þann inngang, andspænis grasgarðinum, því að oft eru biðraðir við aðalinnganginn á miðri vesturhlið safnsins.

Goya, Prado, Madrid 3

Aftaka uppreisnarmanna, Goya

El Greco, Prado, Madrid

Aðalsmaður, El Greco

Mörg frægustu málverk Goya hafa til skamms tíma verið varðveitt hér. Þar á meðal eru málverkin af Maju í fötum (nr. 741) og nöktu Maju (nr. 742); af Satúrnusi að éta son sinn (nr. 763); og af lífláti uppreisnarmanna í Madrid 3. maí 1808 (nr. 749). Málverk Goya er í sölum 66-68, 19-23 og 32-38.

Hér er líka mikið af málverkum eftir El Greco. Þau eru miðsvæðis á annarri hæð, í sölum 8b-10b. Þar á meðal er aðalsmaður með hönd við hjartastað (nr. 809) og Lotning fjárhirðanna (nr. 2988).

Ekki er síður El Bosco eða Hieronymus Bosch sjáanlegur í miklu úrvali. Hans myndir eru í sölum 40-44 á efri hæð. Þar á meðal eru lotning vitringanna (nr. 2048) og gleðigarðurinn (nr. 2823).

El Bosco, Prado, Madrid

Gleðigarðurinn, El Bosco

Velázques, Prado, Madrid

Konungsbörnin, Velázques

Eftir Raphael má nefna myndina af rauðklædda kardínálanum (nr. 299) í vesturenda efri hæðar og eftir Velázquez má nefna myndina af konungsbörnunun (nr. 1174) í miðsal efri hæðar.

Eftir Raphael má nefna myndina af rauðklædda kardínálanum (nr. 299) í vesturenda efri hæðar og eftir Velázquez má nefna myndina af konungsbörnunun (nr. 1174) í miðsal efri hæðar.

Þá má ekki gleyma nöktu jússunum hans Rúbens, sem þekja fermetra eftir fermetra í safninu.
Allt eru þetta meðal merkustu málverka heims, kunn úr listaverkabókum. Prado er eitt af helztu söfnum gamallar listar í heiminum, við hlið Louvre í París, Uffizi í Flórens og National Gallery í London.

El Greco, Prado, Madrid 2

Lotning fjárhirðanna, El Greco

Eitt frægasta verk safnsins er þó ekki hér í húsinu, heldur í sérstöku húsi í nágrenninu, í Casón del Buen Retiro. Það er Guernica eftir Picasso, ef til vill frægasta málverk aldarinnar. Það lýsir afleiðingum þýzkra loftárása á borg í Baskalandi í borgarastyrjöldinni 1936-1939. Hann málaði það fyrir lýðveldisstjórnina, sem Franco hrakti frá völdum. Heimkoma málverksins til Spánar varð tákn fyrir sigur lýðræðis. Til að komast þangað er gengið upp brekkuna norðan við Prado, alla leið að Retiro-garði.

Við að skoða öll þessi listaverk, sem meira eða minna eru úr eign Spánarkonunga, sker í augun, hvað mikið er af hrottalegum og ofsafengnum málverkum í samanburði við önnur söfn af þessu tagi. Tortíming, dauði og djöflar hafa greinilega verið hugleikin umþóttunarefni sumra hinna rammkaþólsku Habsborgara, sem réðu fyrir Spáni.

Næstu skref

4. Madrid – austurbær – Reina Sofia & Thyssen

Borgarrölt
Picasso, Prado, Madrid

Picasso, áður í Prado

Centro de Arte Reina Sofia

Torgið fyrir neðan brekkuna er Plaza del Emperador Carlos V. Við förum yfir torgið, göngum nokkra metra suðvestur eftir breiðgötunni Atocha og beygjum til hægri inn í götuna Santa Isabel. Þar á nr. 52 er nýlega búið að innrétta nútímalistasafn í gömlu sjúkrahúsi. Þetta er Centro de Arte Reina Sofia, auðþekkjanlegt af miklum glerhýsum utan um lyftuganga, sem hafa verið reistir utan við gamalt húsið.

Þetta er víðáttumikið safn, á stærð við Pompidou-safnið í París og státar að sjálfsögðu af spönsku snillingunum Salvador Dalí, Joan Miró og Pablo Picasso. Hugsanlegt er, að Guernica eftir Picasso, sem nú er í öðru safni í Madrid, verði flutt í þetta safn.

Colección Thyssen

Við förum til baka til torgs Karls keisara og göngum norður eftir breiðgötunni Paseo del Prado, sem er safngata borgarinnar, liggur nokkurn veginn frá Reina Sofia til Palacio de Villahermosa við torgið Canovas del Castillo, þar sem hótelin Palace og Ritz horfast í augu og þar sem spánska þjóðþingið, Cortes, er handan við Palace-hótel.

Í Palacio de Villahermosa er svo verið að innrétta enn eitt safnið á þessum litla bletti. Það er safn 787 listaverka, sem svissneski auðkýfingurinn Thyssen-Bornemisza er að afhenda Spáni til varðveizlu. Það verður opnað um áramótin 1991-1992. Þá verða þrjú voldug málverkasöfn á um það bil eins kílómetra kafla við breiðgötuna Paseo del Prado. Það eru Colección Thyssen, Centro de Arte Reina Sofia og síðast en ekki sízt Museo del Prado.

Museo del Prado, Madrid

Museo del Prado

Paseo del Prado

 Á hægri hönd er fyrst grasgarður borgarinnar, Jardin Botanico, og síðan eitt af allra frægustu söfnum heims, Museo del Prado, fölbleikt í nýgnæfum stíl.

Næstu skref

3. Madrid – austurbær – Retiro

Borgarrölt

Puerta de Alcalá

Puerta de Alcalá, Madrid

Puerta de Alcalá

Við göngum götuna alla leið til þvergötunnar Puerta de Alcalá, þar sem er sigurboginn Puerta de Alcalá (E3), reistur eftir teikningum Sabatinis á síðari hluta átjándu aldar til minningar um innreið Karls III í borgina. Torgið heitir Plaza de la Independencía.

Retiro

Estanque, Retiro, Madrid

Estanque, Retiro

Hér af torginu förum við inn í norðvesturhorn hins græna lunga borgarinnar, Retiro-garðsins. Hann er afar stór, að umfangi eins og Hyde Park í London, en miklu meira ræktaður skógi. Þessi garður var upphaflea lagður á 17. öld sem hallargarður sumarseturs Filipusar IV, en var gerður að almenningsgarði seint á 19. öld.

Við förum framhjá stöðuvatninu Estanque, þar sem fólk rær um á skemmtibátum. Handan vatnsins er minnisvarði um Alfons XII, teiknaður í svipuðum brúðkaupstertustíl og minnisvarði Viktors Emanúels II í Róm.

Hér göngum við framhjá brúðuleikhúsi fyrir börn, spákonum, sem segja okkur framtíðina í Tarot-kortum, pylsusölum, vasaþjófum, bridgespilurum, kotrukörlum og skákmönnum, unz við komum að Palacio de Cristal, sem speglast í tjörninni fyrir framan.

Retiro, Madrid 3

Retiro

Suðurhluti garðsins er afskekktari og þar má sjá heitar ástir og skrítna hunda. Við förum út um suðvesturhornið og göngum niður brekkuna Claudio Moyano. Þar á gangstéttinni eru fornbókasalarnir. Mest er um að vera hjá þeim á sunnudagsmorgnum, þegar borgarbúar gera sér dagamun í Retiro.

Næstu skref

2. Madrid – austurbær – Paseo de Recoletos

Borgarrölt
Pósthúsið, Paseo de Recoletos, Madrid

Pósthúsið, Plaza de Cibeles

Paseo de Recoletos

Við staðnæmust á næsta torgi, Plaza de Cibeles, og virðum fyrir okkur pósthúsið handan götunnar. Sennilega er þetta virðulegasta pósthús veraldar, enn skrautlegra en gamla pósthúsið í Amsterdam, reist í brúðkaupstertustíl upp úr síðustu aldamótum. Á torginu er átjándu aldar stytta af frjósemisgyðjunni Kýbelu í vagni, sem er dreginn af ljónum.

Recoletos, Madrid

Hermannagrafreitur á Paseo de Recoletos

Við beygjum til vinstri eftir breiðgötunni Paseo de Recoletos til Kólumbusartorgs, Plaza de Cólon. Á þessari leið er allt fullt af útikaffihúsum á grænu eyjunni milli umferðaræðanna, þar á meðal Café d´Espejo í glerhúsi í ungstíl. Við þennan kafla er einnig kaffihúsið Gran Café de Gijón. Hávaðinn í bílunum drukknar í hávaðanum af samræðunum. Og bílaumferðin er á fullu alla daga, öll kvöld og langt fram eftir nóttu.

Næst Kólumbusartorgi að austanverðu er þjóðarbókhlaðan, Biblioteca Naçional, og fornminjasafnið, Museo Arqueológico Naçional. Þjóðarbókhlaðan snýr til vesturs að Paseo de Recoletos og fornminjasafnið til austurs að götunni Serrano, sem við munum ganga á eftir.

Cólon, Plaza de Cólon, Madrid

Cólon, Plaza de Cólon

Næst okkur á Plaza de Cólon gnæfir stytta af Kólumbusi yfir fossaföllum og menningarmiðstöð, sem er neðanjarðar undir torginu. Þar er sýningarsalur og leikhús. Inngangurinn er við styttuna. Innst á torginu eru ljósbrúnir minnisvarðar um fræga spánska landkönnuði.

Næstu skref

5. Madrid – vesturbær – Plaza Mayor

Borgarrölt
San Isidro, Plaza Mayor, Madrid

San Isidro hátíð á Plaza Mayor

Plaza Mayor

Þetta er hitt aðaltorgið í bænum, notalegt torg, laust við bílaumferð, kjörinn staður til að setjast niður á útikaffihúsi. Þetta er rétthyrnt torg í formföstum stíl, byggt í upphafi 17. aldar. Öll húsin við torgið eru í sama stíl, þrjár hæðir og með samtals 114 súlum, þar sem hægt er að ganga í skugga umhverfis torgið. Stytta af Filipusi III er á miðju torgi, svo og skarar af dúfum. Níu undirgöng liggja inn á torgið, sem að öðru leyti er lokað umheiminum.

Plaza Mayor, Madrid

Frímerkjamarkaður á Plaza Mayor

Plaza Mayor var áður helzta torg borgarinnar. Þar voru trúvillingar dæmdir og teknir af lífi, þar var nautaat háð og kóngar krýndir. Nú er þetta miðstöð ferðamanna í Madrid, en staðarmenn gera sig þar einnig heimakomna. Skrifstofa ferðamála er á nr. 3.

Skemmtilegast er á Plaza Mayor á sunnudagsmorgnum, þegar þar er frímerkja- og myntsafnaramarkaður. Þangað koma menn með albúmin sín til að skiptast á frímerkjum.


Ef við förum til vesturs út um undirgöngin í norðvesturhorni torgsins, framhjá snarlbarnum Mesón, og beygjum síðan til vinstri, komum við að fallegum og skemmtilegum matvælamarkaði miðbæjarins við 17. aldar torgið Plaza San Miguel. Í undirgöngunum til norðurs úr sama horni Plaza Mayor er veitingastaðurinn Toja.

Plaza Santa Ana

Við förum hins vegar til austurs út um undirgöngin í suðausturhorni torgsins og göngum framhjá utanríkisráðuneyti Spánar eftir götunum Gerona og Bolsa, unz við komum að torgunum Plaza del Ángel og Plaza Santa Ana, þar sem hótelið Victoria gnæfir hæst. Á þessum slóðum eru flestir barir og kaffihús í borginni, miðað við flatarmál, þar á meðal Café Central, Cerveceria Alemana, Cuevas de Sésame og La Trucha. Hér er líka veitingahúsið El Cenador del Prado.

Við göngum svo frá Santa Ana norður Principe, unz við komum að götunni San Jerónimo, þar sem við beygjum til vinstri til Plaza Puerta del Sol, þar sem við hófum þessa gönguferð um gamla miðbæinn í Madrid.

Næstu skref

4. Madrid – vesturbær – Rastro

Borgarrölt
Rastro, Madrid

Rastro

Cuchilleros, Madrid

Cuchilleros

Til suðurs frá kirkjunni liggur gatan Estudios að Plaza de Cascorro. Þar byrjar markaðurinn Rastro, sem einkum er í götunni Ribera di Curtidores og raunar líka í flestum nálægum götum. Þetta er helzti flóamarkaður borgarinnar, opinn á sunnudögum 10-14 og í seinni tíð einnig á laugardögum. Þar er jafnan mikið mannhaf og nokkuð um vasaþjófnað.

Á þessum slóðum er elzti og litríkasti hluti borgarinnar. Hér eru víða steinlögð öngstræti og hér er talað með digurstum hreim Madridarbúa.

Við förum hins vegar til baka inn á Cava Baja og höldum þá götu til norðurs yfir torgið Plaza Puerta Cerrada, þar sem nafn götunnar breytist í Cuchilleros. Á þessari leið eru veitingahúsin í röðum, svo sem Casa Paco og Casa Botín. Við förum upp tröppurnar og undirgöngin inn á Plaza Mayor.

Næstu skref

3. Madrid – vesturbær – Plaza de la Villa

Borgarrölt
Ayuntamieneto, Madrid

Ayuntamieneto, Plaza de la Villa

Plaza de la Villa

Við höldum suður eftir götunni meðfram konungshöllinni, Bailén, unz við komum að Mayor, sem liggur til baka að Plaza Puerta del Sol, þar sem við hófum göngu okkar. Á þeirri leið komum við fljótlega að Plaza de la Villa, hinu gamla ráðhústorgi borgarinnar. Á miðju torginu er stytta af Álvaro de Bazán flotaforingja, hetju sjóorrustunnar við Lepanto.

San Miguel, Madrid

San Miguel

Andspænis okkur, austan torgsins, er 15. aldar turninn Torre de Los Lujanes, þar sem Frans I var í haldi eftir orrustuna við Pavía. V
ið hlið turnsins er Hemeroteca í márastíl með voldugum inngangi í gotneskum stíl. Neðan við torgið er Casa de Cisneros, frá 16. öld, í gotneskum silfursmíðastíl, með eftirtektarverðum svalaglugga. Vestan við torgið er svo ráðhús borgarinnar, Ayuntamiento, reist á miðri 17. öld í endurreisnarstíl.

 

Catedral de San Isidro

Catedral de San Isidro, Madrid

Catedral de San Isidro

Héðan höldum við á vit gamla bæjarins í Madrid. Við göngum sundið Punonrostro norðan við Torre de Los Lujanes og leið okkar liggur til suðurs að 18. aldar kirkjunni San Miguel í ítölskum hlaðstíl með íbjúgri framhlið. Við höldum enn áfram til suðurs eftir götunni Letamendi, unz við komum að kirkjunni San Pedro. 14. aldar turn kirkjunnar er annar af tveimur turnum í borginni í márastíl.

Hér getum við haldið áfram götuna San Pedro til suðurs að Plaza San Andrés, þar sem við beygjum til vinstri inn langa og mjóa g
ötu, Cava Baja
, sem er helzta veitingahúsagata borgarinnar. Í þeim kafla bókar
innar segir frá Esteban, Casa Lucio og El Schotis. Síðan beygjum við til hægri götuna Bruno og komum beint að dómkirkjunni, Catedral de San Isidro, sem er við götuna Toledo.

San Isidro er verndardýrlingur Madrid. Mesta hátíð ársins er haldin honum til heiðurs 8.-15. maí. Það er hátíð tónlistar og matargerðarlistar, nautaats og næturlífs, svo og annarrar skemmtunar. Sjálf dómkirkjan er frá 17. öld, í voldugum og ströngum jesúítastíl.

Næstu skref

2 – Madrid – vesturbær – Palacio Real

Borgarrölt
Palacio Real, Madrid

Palacio Real, séð frá Plaza de Oriente

Plaza de Oriente

Við hverfum til baka og göngum Arenal áfram, förum framhjá óperuhúsinu Teatro Real, sem er frá fyrri hluta nítjándu aldar, og komum inn á torgið Plaza de Oriente  fyrir framan langhlið konungshallarinnar. Á torginu er stytta af Filipusi IV Spánarkonungi, gerð eftir teikningum eftir Velázquez. Við torgið suðaustanvert er útikaffihúsið Café de Oriente, þar sem við getum hvílt okkur.

Ef við nennum, getum við farið norður fyrir höllina og gengið tröppurnar niður í Sabatini-garða, sem eru með klipptum trjám að frönskum hætti. Þaðan er virðulegt útsýni til konungshallarinnar.

Annars förum við suður fyrir höllina, því að gengið er inn í hana að sunnanverðu, þar sem hallarportið er. Konungsfjölskyldan býr ekki lengur í Palacio Real. Höllin er notuð fyrir opinberar móttökur og gestaboð, en að öðru leyti er hún safn, opið almenningi.

Palacio Real, Madrid 2

Palacio Real hásætissalur

Palacio Real

Palacio Real var byggð á átjándu öld á grunni eldri hallar, sem brann árið 1734. Í henni eru 2.800 herbergi, en frá árinu 1931 hefur enginn búið þar. Hápunktur safnsins er hásætissalurinn, sem er sennilega skrautlegasti salur heimsins, klæddur gullflúruðu pelli og purpura, með loftmálverki eftir Tiepolo.

Íbúð Maríu Kristínu drottningar er til sýnis sem veggteppasafn. Íbúð Ísabellu prinsessu er til sýnis sem málverka-, útsaums-, postulíns- og kristalssafn. Þar eru til dæmis verk eftir Goya, Bosco, Rubens, Greco og Velázquez. Bókasafn Filipusar V er til sýnis sem bóka- og myntsafn. Einnig er til sýnis lyfjasafn hallarinnar og herklæðasafn. Inn í skrautvagnasafn er gengið á öðrum stað, úr garðinum Campo del Moro, sem er vestan hallar. Þaðan er glæsilegt og bratt útsýni upp til hallarinnar.

Næstu skref