Borgarrölt

A. Feneyjar

Borgarrölt, Feneyjar
San Marco & Palazzo Ducale, Feneyjar 5

San Marco & Palazzo Ducale

Feneyjar eru einstæðar. Helzta umferðaræðin er stórfljót með röðum glæsihalla á bakkanum. Bátar eru farartæki allra vöruflutninga og almenningssamgangna. Að öðru leyti er umferðin fótgangandi. Engin hávaða- eða loftmengun er frá bílum, sem engir eru. Hressandi sjávarloftið í borginni fyllist ölduniði náttúrunnar og orðaniði mannlífsins. Streita nútímans á hér hvergi heima.

Þótt borgin sé orðin að safni um stórveldistíma liðinna alda, búa þar enn tugir þúsunda, um helmingur af því, sem mest var. Annað eins kemur af fólki af landi til starfa á morgnana og hverfur heim til sín á kvöldin. Þar við bætast ferðamennirnir. Feneyjar eru lifandi borg, þótt henni hafi hnignað á síðustu öldum. En hún er ekki fjörug, heldur bæði morgunsvæf og kvöldsvæf.

Borgin er samfellt listaverk og samfelld listasaga. Hver kirkja er full af dýrgripum gömlu meistaranna. Sumar gömlu hallirnar eru orðnar að listasöfnum og önnur að hótelum. Hún er full af veitingahúsum, sem bjóða gott sjávarfang úr Adríahafi. Hún er full af bátum, allt frá einærum gondólum yfir í hraðskreiða leigubáta. Hún er menningarsinnuðum ferðamanni samfelld slökun.

Sjá meira

13. Danmörk – Sórey & Ringsted

Borgarrölt
Sorø klosterkirke, Sjælland

Sorø klosterkirke

Við snúum til baka til Slagelse og finnum þar A1/E66, sem liggur til Kaupmannahafnar, um bæina Sórey og Ringsted. Fyrsti hlutinn, til Sórey, er 15 km. Við stönzum í borgarmiðju á Torvet, við hlið nunnuklaustursins og förum yfir götuna til að fá okkur síðbúið hádegissnarl í bakaríinu.

Síðan förum við um hliðið inn í stærstu nunnuklausturkirkju Danmerkur. Það er sistersíanskt og stofnað 1160-70 að undirlagi þjóðhetjunnar og erkibiskupsins Absalons, sem er grafinn að kórbaki eins og önnur þjóðhetja, Valdemar Atterdag, og nokkrir aðrir konungar.

Við röltum líka niður að vatninu í fögru umhverfi, sem hentar til gönguferða. Hluti garðsins, nálægt vatninu vinstra megin, er í enskum stíl.

Ringsted kirke, Sjælland

Ringsted kirke

Frá Sórey eru um 16 km sama veg til Ringsted. Þar ökum við til bæjarmiðju, þar sem Benedikts-reglu-kirkjan, helguð Sankt Bendt, leynir sér ekki. Hún er í rómönskum stíl, eitt allra fyrstu múrsteinshúsa Danmerkur. Gotneska ívafinu var bætt við eftir eldsvoða 1241. Í kirkjunni eru yfir 20 konungagrafir.

Nú snúum við bílnum síðustu 60 km til höfuðborgarinnar, Kaupmannahafnar, þar sem við hófum þessa ferð um sveitir, garða, þorp, bæi, kirkjur, söfn, hallir og kastala Danmerkur, um sögu hennar, rómantík hennar, “huggu” hennar.

Við erum reiðubúin að fara í aðra slíka ferð. Og við skiljum bókarefnið, Kaupmannahöfn, betur en áður.

Úti er ævintýri.

12. Danmörk – Kalundborg

Borgarrölt
Kalundborg kirke, Jylland

Kalundborg kirke

Næsta morgun förum við snemma á fætur til að ná 8-ferjunni frá höfninni til Kalundborg á Sjálandi. Við getum sleppt morgunverði á hótelinu, af því að við getum snætt hann í þriggja tíma rólegheitum um borð í ferjunni. Ef við eigum bókað, nægir okkur að leggja af stað frá hótelinu 7:30.

Sjáland

Þegar við erum komin í land í Kalundborg, ökum við beint upp hæðina að kirkjunni, þar sem við leggjum bílnum í Adelgade og virðum fyrir okkur gömlu húsin og kirkjuna við torgið. Kirkjan er býzönsk, reist 1170 í mynd fimm turna, sem hafa grískan kross að grunnplani. Þessi kirkja er byggingarlistalega séð einstök í sinni röð í Danmörku.

Trelleborg, Sjælland

Trelleborg

Á leiðinni úr bænum til Slagelse sýnir vegvísir leiðina til hægri, 4 km til hallarinnar Lerchenborg. Það er hlaðstíls-höll frá 1743-53 í stórum garði 20.000 rósa og fleiri blóma og trjáa.

Við höldum aftur út á aðalveginn og ökum áfram 38 km til Slagelse. Þegar þangað er komið, finnum við Korsör-veginn frá bæjarmiðju og skyggnumst um eftir vegvísi til hægri að Trelleborg. Þangað er 5 km krókur að afar undarlegu víkingavirki frá 1000-50.

Trelleborg er síki og aðalvirki, umlukt háum, hringlaga vegg. Á veggnum eru fjögur hlið, sem snúa til höfuðáttanna. Inni í virkinu eru minjar um sextán hús, reist eftir ströngu, flatarmálsfræðilegu mynztri. Fyrir utan hefur verið reist eftirlíking eins þessara húsa.

Ef menn telja víkinga ekki hafa orðið fyrir áhrifum rómverskrar verkfræði og nákvæmni, geta þeir skipt um skoðun hér. Eini munurinn er, að hin rómversku castra voru rétthyrnd, en Trelleborg er hringlaga.

Næstu skref

11. Danmörk – Árósar

Borgarrölt
Århus: Den gamle By, Jylland

Århus: Den gamle By

Eftir morgungönguna ættum við að leggja í hann ekki síðar en um tíuleytið í 80 km ferð til Árósa. Fyrst förum við frá ströndinni, leitum að vegvísi til Horsens og Árósa, förum á nýju og háu brúnni yfir fjörðinn og fylgjum A10 alla leið til Árósa, næststærstu borgar Danmerkur.

Árósar

Við finnum höfnina í Århus og ökum þaðan suður Spanien og Strandvejen, þar sem við finnum brátt við hafið næsta hótel okkar, Marselis, Strandvejen 25, sími (06) 14 44 11. Þar hendum við inn farangrinum og pöntum borð fyrir hádegissnarl og kvöldverð í veitingahúsum inni í bæ.

Grauballe-manden, Moesgård museum, Århus, Jylland

Grauballe-manden, Moesgård museum

Nú dugar ekkert dosk. Við höldum áfram Strandvejen framhjá tjaldstæðinu og fylgjum vegvísunum til Moesgård safns. Það er fornleifa- og þjóðfræðisafn í skóginum og sérhæfir sig í forsögu Danmerkur. Þar er til dæmis hinn heimsfrægi og vel varðveitti Grauballe-maður, sem lítur út eins og honum hafi verið fórnað guðunum fyrir nokkrum mánuðum. Hann er 1600 ára gamall, óhugnanlegri en nokkuð í safni Madame Tussauds.

Á bakaleiðinni förum við framhjá hótelinu og finnum í miðborginni Café Mahler, Vestergade 39, þar sem matur er ekki dýr, miðað við, hversu óvenjulega góður hann er. Við látum okkur dveljast yfir kaffinu, áður en við röltum skamman veg yfir Vesterbrotorv og Vesterbrogade yfir í Den gamle by.

Þessi gamli bær er eins konar Árbær, útisafn 60 gamalla húsa, sem hafa verið flutt hingað og endurreist. Þau eru fullbúin með innréttingum, sem sýna okkur hagkerfi liðins tíma, byggingarlist, lifnaðarhætti, viðskipti og handiðnir.

Athyglisverðast er borgarstjórahúsið frá 1597 við aðaltorgið. Mörg húsin eru skemmtileg að innanverðu, til dæmis verkstæði úrsmiðsins, brugghúsið og apótekið, fullt af skrítnum krukkum og lyfjagerðaráhöldum.

Þetta er slökunarmiðstöð Árósa, full af fólki um helgar. Den gamle by er í senn forn draumur og nýtt tivoli, þar sem mikið er um að vera á frídögum. Við hliðina er grasgarður borgarinnar, kjörinn til körfumáltíða í góðu veðri.

Af öðru skoðunarverðu í Árósum má nefna náttúruminjasafnið í háskólagarðinum, þekkt fyrir sýningar á upphafi og þróun lífs á jörðinni. Ennfremur dómkirkjan, stofnuð 1201, helguð Sankt Clemens. Hún var upprunalega rómönsk múrsteinskirkja, sem var síðan lagfærð og stækkuð á 15. öld í gotneskum stíl. Hún er lengsta kirkja Danmerkur.

Næstu skref

10. Danmörk – Jelling

Borgarrölt
Jelling Runesten, Jylland

Jelling Runesten

Frá Givskud höldum við áfram þá 20 km, sem eftir eru til Vejle, en stönzum á leiðinni í Jelling. Þar klifrum við upp á haugana beggja vegna kirkjunnar, grafir Gorms konungs og Týru drottningar frá 10. öld. Í kirkjugarðinum skoðum við rúnasteinana tvo. Hinn minni reisti Gormur konungur til minningar um Týru og hinn stærri reisti Haraldur blátönn til minningar um Gorm. Þarna eru líka 50 bautasteinar.

Við ökum rólega um fagurlega sveigt landslagið á leið til Vejle. Þar förum við um bæinn í suðurátt eftir A18/E67 og skimum eftir vegvísinum til Munkebjerg til vinstri í úthverfi bæjarins. Eftir 8 km akstur á hliðarveginum með ströndinni komum við að hótelinu Munkebjerg, sími (05) 82 75 00, þar sem við borðum og gistum.

Þeir, sem hafa nóga peninga, geta pantað svítuna með útsýnisgluggum að skóginum og Vejle-flóa. Munkebjerg er óvenju notalegt hótel, þótt þar séu stöðugt haldnar ráðstefnur. Umhverfis hótelið eru margir ánægjulegir og hressandi göngustígar niður að ströndinni.

Næstu skref

9. Danmörk – Legoland

Borgarrölt
Legoland, Billund, Jylland

Legoland, Billund

Legoland

Næsta morgun leggjum við enn af stað um níuleytið og förum úr bænum á A10/E3. Fljótlega beygjum við af honum í átt til Billund. Ferðin til Billund er 40 km löng. Við komum að hliðum Legoland, þegar sá ævintýraheimur barna er opnaður kl. 10. Hér sleppum við börnunum lausum fram yfir hádegið og gerum bara hlé til að fá hádegissnarl í Vis-a-Vis, sem er í beinum tengslum við garðinn.

Legoland er eign Lego System, framleiðanda hinna frægu, litlu kubba. Aðalaðdráttaraflið er lítið land, byggt úr 20 milljónum legó-kubba. Þar eru miðaldabæir og þorp, stæling á Amsterdam og öðrum þekktum bæjum í Rínarhéruðum, Noregi, Svíþjóð og Hollandi. Við dáumst að notkunarmöguleikum þessara kubba.

Börnin hafa líka gaman af að reyna ökuhæfni sína í bílskólanum og fá skírteinin sín á eftir. Þarna er líka sérstætt safn með 350 gömlum dúkkum og um 40 brúðuhúsum, brúðuleikhús með sex sýningum á dag, þorp úr villta vestrinu og Indjánabúðir, gullgröftur og smáhestagarður, lest, bílar, bátar og smábarnaleikvellir.

Givskud dyrepark, Jylland

Givskud dyrepark

Frá Billund förum við veginn til Give. Þegar við erum komin gegnum þorpið, beygjum við til hægri í átt til Vejle. Eftir um 25 km frá Legolandi komum við að ljónagarðinum Givskud. Það er eins konar safari-garður, sem hefur ljón að helzta aðdráttaraflinu. Hann minnir á Knuthenborg að því leyti, að gestir geta ekið um hann og þurfa stundum að krækja fyrir dýr, sem liggja á veginum.

Auk ljóna eru í Givskud fílar, villisvín, antilópur, úlfaldar, tapírar, flóðhestar, zebradýr, strútar, lamadýr og margir sjaldgæfir fuglar. Þar er einnig leikvöllur, þar sem börn geta fengið að kynnast dýrum. Givskud er lokað hálfum þriðja tíma fyrir sólarlag á sumrin.

Næstu skref

8. Danmörk – Koldinghus

Borgarrölt

Jótland

Koldinghus, JyllandSíðla dags förum við aftur út á A1 og ökum klukk
ustund 67 km leið til Kolding á Jótlandi, það er að segja meginlandi Evrópu. Þangað förum við á nýju hengibrúnni yfir Litlabelti
. Hún var byggð 1970, spannar 1 km haf og hleypir 42 metra háum skipum undir sig.

Í Kolding stönzum við í bæjarmiðju, við hlið kastalans Koldinghus. Hann er frá 13. öld og hefur að hluta verið uppgerður sem safn, opið -17 á sumrin og -15 á veturna. Notalegt er að rölta “ástarbrautina” meðfram vatninu fyrir framan kastalann. Handan vatnsins er borgargarðurinn, þar sem er hótelið Tre Roser, Byparken. Þar borðum við kvöldverð og tökum á okkur náðir. Hótelið Saxildhus kemur einnig til greina.

Næstu skref

7. Danmörk – Óðinsvé

Borgarrölt

Óðinsvé

Sank Knuds kirke, Odense, Fyn

Sankt Knuds kirke

Brátt erum við komin á fulla ferð á A1/E66 skamman, 29 km spöl til Odense. Það er þriðja stærsta borg Danmerkur, ein hin elzta á Norðurlöndum. Óðinsvé hafa verið biskupssetur frá 1020. Frægust er borgin þó fyrir son sinn, ævintýraskáldið H. C. Andersen. Við förum beint í borgarmiðju, þar sem við getum lagt bílnum neðanjarðar, undir torginu, sem er andspænis Sankt Albani Kirke.

Fyrst förum við af torginu framhjá ráðhúsinu og Sankt Knuds Kirke, sem er frá miðri 13. öld, ein hinna mikilvægari kirkna landsins í gotneskum stíl. Þar eru grafir nokkurra danska konunga og drottninga. Kirkjan er stílhrein, sérstaklega að innanverðu. Örstuttu handan kirkjunnar er Munkemøllestræde, þar sem er bernskuheimili H. C. Andersen.

Under lindetræet & H.C. Andersen museum, Odense, Fyn

Under lindetræet & H.C. Andersen museum

Við hörfum til baka að Sankt Albani Kirke og förum inn í Overgade, Bangsboder, Jensensstræde, Ramsherred og Sortebrødretorv, sem mynda gamalt þorp innan í borginni. Í Jensensstræde 39-43 er H. C. Andersen safnið. Þar eru sýndir persónulegir munir hans, bækur og teikningar.

Andspænis safninu, við Ramsherred 2, er veitingastofan Under Lindetræet, hentug fyrir aðdáendur rithöfundarins og bauð okkur raunar ágætis hádegissnarl. Þeir, sem vilja borða í fornlegu andrúmslofti og gera sér ekki rellu út af matnum, geta snætt í Den Gamle Kro í Overgade 23, sími (09) 12 14 33. Það er bindingshús frá 1683, byggt umhverfis húsagarð, og hefur verið veitingastaður síðan 1771.

Næstu skref

6. Danmörk – Nyborg

Borgarrölt
Egeskov, Fyn

Egeskov

Nyborg slot, Fyn

Nyborg slot

Frá Fåborg leggjum við í 47 km ferð eftir A8 til Nyborg. Fyrst förum við framhjá klaustri, kirkju og kastala sistersíana-munka í Brahetrolleborg, 1 km handan við þorpið Korinth. 10 km síðar förum við 1 km krók til Egeskov. Það er endurreisnarkastali með síki umhverfis, hinn bezt varðveitti slíki í Evrópu. Þar er einstakur garður með 200 ára gömlum runnum og kryddjurtagarði. Kastalinn var byggður 1524-54 á eikarstaurum, sem voru reknir niður í vatnsbotn. Garðurinn er opinn til 19 á sumrin.

Þegar við komum til Nyborg, ökum við beint gegnum miðbæinn að Nyborg Strand í leit að næturgistingu á hótelinu Hesselet, Nyborg Strand.

Umhverfi Hesselet er afar vel fallið til morgungöngu eða hjólreiða að morgni dags. Hótelið lánar reiðhjól. Síðan snúum við bílnum inn í bæinn til að skoða hann, einkum Nyborg Slot, sem er frá 1170. Sá kastali var löngum áningarstaður konunga og aðalsfólks.

Næstu skref

5. Danmörk – Fåborg

Borgarrölt
Falsled Kro, Fyn

Falsled Kro

Fjón

Ef við komum með seinni ferjunni, látum við skoðun Fåborg bíða til síðdegis og ökum greiða leið til Faldsled, 10 km lengra eftir veginum til Assens. Þar bíður okkar eina listamáltíðin á allri leiðinni frá Kaupmannahöfn til Árósa.

Faldsled kro, sími (09) 68 11 11, í fjarlægari enda þorpsins, er bæði hótel og veitingastaður, einn hinn bezti í landinu. Þar var franskur kokkur og sennilega bezti vínlisti landsins. Þetta er rólyndislegt hús með stráþaki, að hluta til úr bindingsverki. Umhverfið er fagurt við ströndina. Þetta er dæmigerð lúxuskrá.

Vesterport, Fåborg, Fyn

Vesterport, Fåborg

Þegar við höfum drepið tímann yfir kaffi og borgað háan reikninginn, snúum við til baka til Fåborg. Þar stönzum við á Torvet til að skoða gamla götuhluta umhverfis Vesterport, í Vestergade, Holkegade og Østergade, alla í næsta nágrenni turnsins, sem er leifar af Sankt Nicolai kirke, við hlið bílastæðis okkar.

Næstu skref

4. Danmörk – Ærey

Borgarrölt
Ærøskøbing, Fyn

Ærøskøbing

Síðasta ferjan til Marstal á Ærø fer 20:15 og um helgar 21:15. Hin næstsíðasta fer 17:55 og 18:15 um helgar. Siglingin tekur um 60 mínútur. Frá höfninni í Marstal er skammur 5 km akstur til Ærøskøbing. Þar staðnæmumst við nákvæmlega í miðju gamla bæjarins, á bílastæði hótelsins Ærøhus, Vesterbrogade 38, sími (09) 52 10 03. Það er rólegt, gamalt hótel með nýtízkulegum herbergjum í garðhúsum.

Orðið er áliðið, svo að við flýtum okkur í Mumm, Söndergade, sími (09) 52 12 12, þar sem við eigum pantað borð. Eftir kvöldmat röltum við um gömlu strætin, Söndergade, Gyden, Nørregade, Smedegade og þvergöturnar Vestergade og Brogade. En við höfum betri tíma á morgun til að kanna þennan 17. og 18. aldar bæ, sem er betur varðveittur en aðrir slíkir í Danmörku.

Ærøskøbing er raunar hápunktur ferðar okkur inn í rómantíska fortíð. Allur bærinn er eins og safn. Þar eru 36 friðuð hús, en öll í fullri notkun. Um morguninn mætum við nútímabörnum á leið um göngugöturnar til skóla. Og ferðamenn eru ekki of margir, af því að staðurinn er úr alfaraleið.

Virka daga getum við tekið 10:45 ferjuna frá Søby, 16 km vestur frá Ærøskøbing. Alla daga náum við 13:15 ferjunni, sem gefur okkur lengri tíma í andrúmsloftinu í Ærøskøbing, en þá þurfum við líka að hringja í vertinn í Faldsled kro til að segja, að við verðum sein í hádegisverð, um 14:30. Ferjan er 60 mínútur á leiðinni til Fåborg á eyjunni Fyn.

Næstu skref

3. Danmörk – Láland – Langaland

Borgarrölt

Lolland

Næsta morgun um níuleytið förum við Brovejen yfir brúna milli eyjanna Falster og Lolland. Annað hvort förum við beint eftir A7 til Sakskøbing og Maribo eða förum krókinn um Nysted til að sjá Fuglsang sveitasetrið og Ålholm kastala. Leiðin frá Nyköbing til Nysted er 16 km og síðan eru 24 km þaðan til Maribo.

Maribo Domkirke, Låland

Maribo Domkirke

Fljótlega komum við að Fuglsang, sem er í blöndu gotnesks stíls og endurreisnarstíls. Þar fáum við okkur morgungöngu í fögrum hallargarði, þar sem aðgangur er ókeypis. Síðan höldum við áfram til Nysted og tökum krók til Ålholm kastala í þann mund, er við komum að bænum.

Hinn stóri kastali frá 12. öld lítur út eins og ræningjavirki úr ævintýrunum. Hann er byggður í ýmsum stílum frá ýmsum tímum. Norðausturturninn er frá 14. öld og vesturveggirnir frá 13. öld. Kastalinn var einu sinni konu
ngsbústaður. Hann er opinn júní-ágúst 11-18. Ef við lögðum nógu tímanlega af stað í morgun, getum við notað tímann 10-11 í Ålholm Automobil Museum í nágrenninu, þar sem sýndir eru 200 gamlir bílar.

Frá Ålholm förum við eftir Saksköbing-veginum til Maribo, bæjar, sem reistur var umhvefis nunnu- og munkaklaustur frá upphafi 15. aldar. Nærri miðtorginu Torvet verður fyrir okkur dómkirkjan í Maribo, áður klausturkirkja, byggð 1413-70. Hún nýtur sín vel við hin ljúfu Maribo vötn.

Givskud dyrepark, Jylland 2

Knuthenborg Safari Park

Eftir 3 km á A7 í átt til Nakskov beygjum við til hægri Bandholm-veg til að taka 5 km krók til Knuthenborg. Það er opinn dýragarður, stærsti sveitaseturs-garður í Skandinavíu. Hann hefur verið svokallaður safari-garður síðan 1970. Tígrisdýr frá Bengal voru helzta aðdráttaraflið, þegar við ókum um garðinn. Kjörið er að fá hádegissnarl í Skovridergård Cafeteria í miðjum garðinum.

Auk tígrisdýranna státar garðurinn af villtum antílópum, gíröffum, zebradýrum, úlföldum, flóðhestum, strútum, öpum og mörgum fleiri dýrum, en fílana vantaði. Þar er líka stór barnagarður, þar sem boðnir eru reiðtúrar. Sýndar eru eftirlíkingar af sjö enskum höllum og kastölum. Einnig eru þar 500 mismunandi tegundir trjáa.

Hér er gott að verja heilu síðdegi, ef börnin eru með. En við verðum að gæta þess að missa ekki af ferjunum tveimur, sem við þurfum að ná, ef við ætlum að komast til Ærøsköbing í kvöld. Í tæka tíð verðum við að fara til baka á A7 til að halda áfram leiðinni frá Maribo til Nakskov, 27 km, og síðan 4 km til viðbótar að ferjuhöfninni í Tårs.

Langaland

Ferjan frá Tårs til Spodsbjerg á Langeland-eyju fer á klukkustundar fresti og á hálftíma fresti á annatímum. Ferðin tekur 45 mínútur. Frá höfninni í Spodsbjerg er aðeins stutt, 8 km leið til hafnarinnar í Rudkøbing, hinum megin á eyjunni. 

En áður en við yfirgefum Rudkøbing verðum við að gefa okkur tíma til að skoða og fara fram og til baka yfir hina voldugu Langalandsbrú, 1,7 km langa, hina þriðju lengstu í Danmörku. Og við verðum að skoða okkur um í Rudkøbing.

Við göngum frá höfninni upp Brogade að Gåsetorvet, rammað gömlum húsum. Síðan förum við spölkorn lengra, að kirkjunni, sem er að hluta frá um það bil 1100 og hefur endurreisnarturn frá 1621. Þaðan röltum við í fornlegu andrúmslofti um Smedegade, Vinkældergade, Ramsherredsgade, Gammel Sømandsgade, Strandgade, Sidsel Bagersgade, Østergade og síðan til baka Brogade að höfninni.

Næstu skref

2. Danmörk – Vordingborg

Borgarrölt
Gåsetårnet, Vordingborg, Sjælland

Gåsetårnet, Vordingborg

Vordingborg

Við höfum andað að okkur minningum frá Næstved, þessum miðaldabæ kaupmennsku og klausturs og leggjum nú í 29 km ferð beint til Vordingborg. Sá bær er fallega í sveit settur, reistur umhverfis 12. aldar kastala, er þjóðarhetjan Valdemar konungur mikli lét reisa sem brottfararstað herferða til Þýzkalands og Póllands.

Leið okkar liggur um Algade beina leið til bæjarmiðju og rústa kastalans, þar sem Valdemar konungur dó 1182. Við sjáum veggi, undirstöður og kjallara, auk Gåsetårnet, sjö hæða turns, sem enn stendur. Hann var bæði virkisturn og svarthol, með 3,5 m þykkum veggjum og 36 metra hæð upp að gullnu gæsinni efst.

Falstur

Enn leggjum við í hann og í þetta sinn yfir lengstu brú Danmerkur, 3,2 km yfir Storströmmen til eyjarinnar Falster, samtals 31 km leið beint til Nykøbing. Þar förum við eftir skiltum til austurhluta bæjarmiðjunnar og finnum fljótlega horn Brovejen og Jernbanegade. Þar er hótelið Baltic,  Jernbanegade 45-47, þar sem við eigum pantað herbergi. Þar látum við taka frá borð fyrir kvöldverð í Czarens hus, Langgade 2.

Ráðlegt er að panta ferjur næsta dags frá hótelinu, svo að við verðum hvergi strandaglópar á leiðinni.

Eftir sturtu og stutta hvíld göngum við Jernbanegade að Gråbrødrekirken, sem er frá 1532, tengd klaustri. Frá kirkjunni förum við inn göngugötuna Lille Kirkestræde, sem heldur andrúmslofti fyrri tíma. Við beygjum til hægri í Friesgade/Langgade, framhjá elzta borgarahúsinu, á nr. 18, frá 1580, að Czarens hus, sem er frá um það bil 1700.

Pétur Rússakeisari snæddi hér einu sinni 1716 og hið sama ætlum við nú að gera. Húsið er í senn minjasafn og veitingahús. Safnið er lokað á þessum tíma, en verður opnað 10 í fyrramálið, ef við höfum áhuga. En veitingahúsið sjálft er eiginlega safn líka.

Næstu skref

6. Sjáland – Járnaldarþorpið

Borgarrölt
Lejre jernældertorp, Sjælland

Lejre jernældertorp

Lejre

Ef við höfum enn tíma og þol, þegar við yfirgefum Hróarskeldu, gæti verið gaman að koma við í Lejre til að skoða járnaldarþorp, sem þar hefur verið endurreist í fornleifarannsóknastöð. En þorpið er því miður aðeins opið til 17, svo að við kunnum að vera orðin of sein fyrir, ef við höfum kosið eins dags ferðina.

Til að finna Lejre förum við A1 til suðurs frá Hróarskeldu og komum brátt að vegvísi til staðarins. Þetta er um fimmtán mínútna leið. Að öðrum kosti förum við A1 í hina áttina og eigum þá ekki nema rúmlega hálftíma ferð á greiðri hraðbraut til Kaupmannahafnar.

Dragør, Sjælland

Dragør

Þar ljúkum við þessari snöggu ferð um hina eiginlegu Danmörku utan stórborgarinnar. Við höfum kynnzt landslagi Danmerkur, þorpum hennar og höllum á eins fljótlegan hátt og mögulegt er.

Drageyri

Svo er líka til í dæminu, að við höfum ekki einu sinni heilan dag til umráða. Þá er heppilegast að fara til Drageyrar (Dragør) úti á Amager. Það er syfjulegt sjávarpláss í nágrenni Kastrup-flugvallar, með gömlum, rómantískum húsum og þröngum göngugötum, stofnað af hollenzkum innflytjendum á fyrri hluta 16. aldar.

Næstu skref

5. Sjáland – Víkingaskipasafnið

Borgarrölt
Víkingaskip í Roskilde, Sjælland

Víkingaskip í Roskilde

Víkingaskipasafnið

Eftir þessa skoðun höldum við okkur enn við A6 og ökum þriggja stundarfjórðunga leið til Hróarskeldu (Roskilde). Við fylgjum þar fyrst vegvísum til miðbæjarins, en höfum við hringtorg augun opin fyrir vegvísi til Víkingaskipasafnsins á hægri hönd.

Safnið var opnað 1969. Þar eru til sýnis fimm skip frá 1000-1050, sem sökkt var í mynni fjarðarins á sínum tíma, sennilega til að hefta för norskra víkinga. 70% viðar skipanna hafa varðveitzt og hafa skipin verið lagfærð af nostursemi.

Roskilde Domkirke, Sjælland

Roskilde Domkirke

Hér er líklega að finna eina skipið þeirrar tegundar, sem víkingaaldarmenn notuðu til siglinga til Íslands, Grænlands og Ameríku. Það er knörrinn. Hin skipin eru kaupskip, ferja, fiskibátur og langskip til hernaðar.

Hróarskeldukirkja

Við förum til baka afleggjarann að hringtorginu og höldum inn í miðbæinn til dómkirkjunnar.

Undirstöður hennar eru taldar vera frá tíma Absalons biskups um 1170, en turnspírurnar komu ekki á hana fyrr en 1635.

Í dómkirkjunni eru líkkistur danskra konunga og drottninga frá síðustu 1000 árum, gerðar sumar úr marmara og aðrar úr alabastri. Í kapellu Kristjáns I er súla, þar sem merkt er hæð konunglegra gesta. Kirkjan skemmdist í eldi 1968, en hefur verið lagfærð.

Næstu skref