Borgarrölt

3. Íslendingaslóðir – Holmens kirke

Borgarrölt

Hólmsinsgata og Brimarhólmur

Þegar íslenzkir námsmenn voru búnir að spássera á Strikinu og fá sér nokkra bjóra við Kóngsins Nýjatorg, læddust freistingarnar að sumum þeirra. Þeir komu sér suður í lastahverfið milli torgs og síkis, þar sem voru hinar illræmdu götur, Hólmsinsgata og Laxagata. Við höldum í humátt á eftir.

Bremerholm, København

Bremerholm

Við göngum Laxagötu út að Hólmsinsgötu, sem nú heitir raunar Brimarhólmur. Við Laxagötu eru hús frá miðri síðustu öld, en við Brimarhólm eru lítil merki um hinn sterka segul, sem á síðustu öld sogaði til sín ótal íslenzka erfiðismenn drykkjuskapar og kynlífs.

Einn þessara erfiðismanna var Ögmundur Sivertsen, sem orti svo, líklega liggjandi í sárasótt á sjúkrahúsi: “Kaupinhafn er slæmur staður,
/ Hólmsinsgötu þý og þvaður / þér af alhug forðast ber”. Annar gestur barnslegri, Eiríkur frá Brúnum, lýsti “kvennabúrum” götunnar með lotningarfullum ævintýraorðum í ferðasögu sinni.

Stundum kom fyrir, að ölóðir Íslendingar féllu eða fleygðu sér í Hólmsinssíki, beint undan Hólmsinsgötu, þar sem nú er komin breiðgata. Þar fundust lík Högna Einarssonar 1832 og Skafta T. Stefánssonar 1836. Lík Jóhanns Halldórssonar fannst nokkru vestar, undan Gömluströnd.

Við förum yfir Hólmsinssíki og inn Hafnargötu. Okkur á vinstri hönd var um langan aldur fangelsi íslenzkra lífstíðarfanga, Brimarhólmur. Það var við lýði frá miðri 16. öld til 1741, er fangarnir voru fluttir í Stokkhúsið. Um tíu af hundraði fanganna voru Íslendingar og unnu við skipasmíðar eða réru á galeiðum.

Þetta var þrælahald, sem undantekningarlítið dró menn til dauða á skömmum tíma. Árni frá Geitastekk var þó svo heppinn að losna og ná að skrifa ævisögu sína um fjölbreytta reynslu frá Indlandi til Brimarhólms.

Holmens Kirke,København 2

Holmens Kirke

Holmens kirke

Skemmtilegri minningar eru tengdar kirkjunni á hægri hönd, Hólmsinskirkju. Þar voru um tíma varðveittar bækur Árna Magnússonar eftir brunann 1728. Og þar var skírður og fermdur Jón Vestmann, 33 ára, 1644 eða 1645, eftir tæplega tveggja áratuga dvöl í barbaríinu, þar sem hann var m.a. skipherra sjóræningja.

Hér í kirkjunni gekk til spurninga tossi nokkur og pörupiltur, sonur Gottskálks frá Miklabæ Þorvaldssonar, Bertel Thorvaldsen, sem síðar varð heimsfrægur listamaður. Og hér voru prestar þeir Þorgeir Guðmundsson 1831-1839 og Haukur Gíslason 1915-1946.

Í Hafnargötu 19 stendur enn húsið, þar sem Tryggvi Gunnarsson Gránufélagsstjóri og síðar bankastjóri hafði aðsetur á mektardögum sínum í Kaupmannahöfn. Þaðan var stutt að ganga til Kauphallarinnar, en þangað hefur Einar Benediktsson þó trúlega meira vanið komur sínar.

Næstu skref

2. Íslendingaslóðir – Hviids Vinstue

Borgarrölt
Østergades Vinhandel, København

Genelli

Við höldum nú af stað frá Angleterre og göngum yfir enda Austurgötu að Østergades Vinhandel. Þar var á síðustu öld veitingahúsið Genelli, sem Íslendingar kölluðu Njál og sóttu stíft.

Hviids Vinstue, bar, København

Hviids Vinstue

Einn af hinum kunnari Njálsmönnum var “Frater”, sem raunar hét Magnús Eiríksson, en fékk viðurnefnið af því að kalla viðmælendur sína “bræður”. Hann var vinsæll og ljúfur maður, sem sat hér með nokkrum kynslóðum Hafnarstúdenta. Hann var guðfræðingur að mennt og skrifaði marga ritlinga, þar sem hann lýsti Martensen Sjálandsbiskupi sem persónugerðum antikristi og fógeta andskotans hér á jörð.

Við förum suður torgið að Litlu Kóngsinsgötu, þar sem enn er í kjallara kráin Hvítur. Þar sat Jónas Hallgrímsson löngum einn að drykkju og þaðan er hann sagður hafa komið, þegar hann fótbrotnaði í stiga heima hjá sér og hafði bana af. Og hér hangir uppi mynd Örlygs Sigurðssonar af Jónasi, Sverri Kristjánssyni, Árna Pálssyni og Jóhanni Sigurjónssyni að tímaskökku sumbli.

Hér við hlið Hvíts, á nr. 21, var Vincent, annar samkomustaður Íslendinga á síðustu öld. Frægari er þó Mini, sem Íslendingar kölluðu Mjóna, hér á horninu á móti Hvíti, þar sem nú heitir Stephan á Porta. Þetta var vinsælasti samkomustaður Íslendinga um miðja síðustu öld, svo vinsæll, að sumir þeirra virðast hafa varið þar lunganum úr deginum.

Einna harðastir Mjónamanna voru Gísli Brynjólfsson og Brynjólfur Pétursson. Aðrir þaulsætnir voru m.a. Jón Sigurðsson forseti, Konráð Gíslason, Grímur Thomsen og Benedikt Gröndal. Yfirleitt voru hér þeir, sem komnir voru til embætta og tekna, og virðast hafa lifað hér í hóglífi í mat og drykk.

Næstu skref

3. Christianshavn – Christiania

Borgarrölt
Christiania, København

Christiania

Handan kirkjunnar beygjum við til vinstri í Prinsessegade og förum hana að innganginum í Kristjaníu (Christiania) á horni Bátsmannsstrætis (Bådmandsstræde). Kristjanía hefur verið eins konar fríríki ungs utangarðsfólks síðan 1971, þegar þessar 170 húsa herbúðir voru teknar úr notkun og ætlaðar til niðurrifs.

Eftir miklar deilur hústökufólks og yfirvalda var Kristjaníutilraunin samþykkt í verki tímabundið. Síðan hefur Kristjanía verið litríkur hluti borgarinnar, með ódýrum veitingahúsum og tilraunaleikhúsum. Borgaralegir gestir með myndavélar eru ekki vel séðir.Christiania, København 2

Síðast þegar við komum til Kristjaníu, virtist staðurinn þreytulegur og sóðalegur, skuggi fyrri frægðar. Aðeins fíknilyfjagrösin voru fersk og litsterk í skarpri birtu sunnudagsmorguns. Og smám saman hefur staðurinn fyllzt af fíkniefnasölum og smáglæpamönnum í stað margra hinna upprunalegu sakleysingja.

Þegar við komum til baka úr Kristjaníu, förum við til vinstri eftir Bátsmannsstræti að borgarvirkjum 17. aldar. 1659 vörðu virkin borgina gegn árás Svía, en nú hefur þeim verið breytt í friðsæla garða. Við röltum rólega um þá og hressum okkur eftir ömurleikann í Kristjaníu.

Þegar við komum að Overgaden Over Vandet, yfirgefum við virkin og höldum áfram eftir síkinu. Hérna megin eru mörg falleg, gömul hús, aðallega reist af kaupmönnum á 18. öld. Í nr. 10 var sýning fornminja frá Kristjánshöfn.

Að lokum lýkur göngunni á Kristjánshafnartorgi við horn Torvegade, þar sem við getum tekið leigubíl, strætisvagn eða gengið yfir Knippelsbro til meginlands Kaupmannahafnar.

Svo liggur leiðin um Íslendingaslóðir í borginni.

Næstu skref

C. Madrid – austurbær – Plaza de España

Borgarrölt, Madrid
Plaza de España, Madrid

Don Quixote og Sancho Panza á Plaza de España

Plaza de España

Við hefjum síðari gönguferðina á Spánartorgi, Plaza de España. Það er svo sem ekkert sérstaklega skemmtilegt torg, girt ljótum skýjakljúfum, en merkilegt fyrir bronzstyttuna af Don Quixote og Sancho Panza, sem er einkennistákn borgarinnar og ljósmyndað á kápu þessarar bókar. Yfir styttunni gnæfir minnismerki um rithöfundinn Miguel de Cervantes Saavedra, sem samdi söguna um þá félaga, hina dæmigerðu Kastilíubúa. Cervantes var uppi fyrir fjórum öldum, samtíðarmaður Shakespeares og sr Einars í Eydölum.

Gran Vía

Úr austurhorni torgsins liggur Gran Vía, helzta ferðamannagata borgarinnar. Við röltum upp brekkuna framhjá skrifstofum flugfélaga og skyndibitastöðum, hótelum og bílaleigum, bönkum og bíóhúsum. Þungamiðja götunnar er við Plaza de Callao, þar sem göngugöturnar tvær, Preciados og Carmen, liggja niður á Plaza Puerta del Sol. Töluvert austar rennur Gran Vía inn í götuna Alcalá. Alla þessa leið er yfirleitt þung umferð bíla með tilheyrandi flauti og taugaveiklun.

Gran Vía skiptir miðborginni í tvennt. Sunnan við er hin hefðbundna miðborg, sem lýst er í þessari bók, þar á meðal veitingastaðir, kaffihús, barir og skemmtistaðir ferðamanna og fullorðinna Spánverja, en norðan við eru staðir unga fólksins í Madrid, með hávaðasamri tónlist, fíkniefnasölu og umræðum um ljóðlist.

Næstu skref

2. Christianshavn – Christianshavn Kanal

Borgarrölt
Overgaden, København

Christianshavn Kanal / Overgaden Neden Vandet

Við lítum inn í bakgarð hússins nr. 44, þar sem áður voru búðir stórskotaliðsins, sem gerðar hafa verið að íbúðum. Síðan höldum við áfram Strandgötu að síkinu, þar sem við snúum til hægri. 

Frelserskirken, København

Frelserskirken

Ef við héldum hins vegar beint áfram Strandgade, mundum við koma á nr. 93 að sendiráði Íslands og hinu heimsfræga veitingahúsi Noma.

En við beygðum til hægri. Hér komum við í hinn amsturdammska hluta Kaupmannahafnar, hannaðan 1618 af hollenzkum arkitektum, sem hinn títtnefndi byggingastjóri og konungur, Kristján IV, kallaði til.

Þegar við komum að horni Overgaden Neden Vandet, fáum við fyrirtaks útsýni eftir Kristjánshafnarsíki (Christianshavn Kanal), þar sem nýmálaðir bátar hvíla við bakka og gömul hús og vöruskemmur kúra við götur. Við tökum eftir gálgum og blökkum efst á mjóum stöfnum húsanna.

Við snúum til vinstri yfir næstu brú, inn í Sankt Annægade, þar sem við virðum fyrir okkur hinn einstæða vindingsturn Frelsarakirkjunnar (Vor Frelsers Kirke). Honum var bætt 1747-52 við hlaðstílskirkjuna, sem er frá 1682. Spíran er 87 metra há, næsthæst í bænum á eftir ráðhústurninum. Við getum klifrað upp turninn að innanverðu og spíruna að utanverðu.

Næstu skref

B. Piazza San Marco

Borgarrölt, Feneyjar
Piazza San Marco, Feneyjar 2

Piazza San Marco

Fyrsta gönguleið okkar um Feneyjar er stutt. Hún liggur um Piazza San Marco = Markúsartorg og mannvirkin umhverfis það. Þetta er þungamiðja Feneyja, glæsilegt torg framan við Markúsarkirkju, 175 metra langt og 58-82 metra breitt, lagt stórum marmaraflísum með reitamynztri, að jafnaði fjölskipað ferðamönnum.

Þar leika hljómsveitir fyrir kaffihúsagesti og þaðan er gengið inn í Markúsarkirkju, Campanile, Torre dell’Orologio og nokkur söfn að auki. Í bogagöngunum, sem umlykja torgið, eru tízkuvöru- og minjagripabúðir. Þar eru frægustu kaffihús borgarinnar, Florian og Quadri. Rétt hjá torginu eru matstaðirnir Al Conte Pescaor, La Colomba, Do Forni, Harry’s Bar and Rivetta.

Í flóðum rennur sjór inn á torgið. Þá eru settar upp göngubrautir kruss og þvers, svo að fólk geti gengið um þurrum fótum. Þá er líka beztur friður fyrir þúsundum útbelgdra dúfna, sem eru helzta myndefni ferðamanna í Feneyjum.

Næstu skref

 

D. Barcelona

Borgarrölt, Madrid

Katalúnía

Barri Gótic, Barcelona

Barri Gótic

Katalúnía hefur löngum verið menningarafl á Spáni. Einkum var það áberandi um og eftir aldamótin 1900, þegar margir frægustu listamenn Spánar voru Katalúníumenn eða fluttust þangað til að njóta hins frjálsa borgarlofts. Hér bjuggu Pablo Picasso, Joan Miró, Gaudí, Salvador Dalí og Pablo (Pau) Casals. Á tímum falangista var Katalúníu haldið niðri, en eftir dauða Francos og endurnýjun lýðræðis hefur Katalúnía verið á fullri ferð í átt til aukins sjálfstæðis, eigin menningar og auðsöfnunar.

Frá Katalúníu koma zarzuela, blanda sjávarrétta, og bullabesa, sem er sjávarréttasúpa í stíl við hina frönsku bouillabaisse, en þó mun bragðsterkari. Skötuselur (rape) er vinsæll. Einn þjóðarrétta Katalúna er crema catalana, mjólkurbúðingur með karamelluskorpu.

Sardana dans, Catedral de Santa Eulalia, Barcelona

Sardana dans fyrir framan Catedral de Santa Eulalia

Katalúnía er land cava, freyðivíns, sem er framleitt á sama hátt og franskt kampavín. Freyðivín er víða selt á gangstéttum Barcelona og á sérstökum Xampanyerias-börum. Vín frá Katalúníu eru að jafnaði ekki eins góð og vín frá Rioja, en eru á uppleið, einkum vín frá Penèdes.

Barcelona

Barcelona er höfuðborg Katalúníu og hafnarborg við Miðjarðarhafið, önnur stærsta borg Spánar, með tæplega tveimur milljónum íbúa. Hún er mesta kaupsýslu- og bankaborg Spánar, miklu stríðari og spenntari en Madrid, líkari Norður-Evrópu, tengiliður Spánar við meginálfuna.

Fólk vinnur í Barcelona, en lifir í Madrid. Í Barcelona hangir fólk minna á kaffihúsum og flýtir sér meira á götunum. Þótt umferðaræðarnar séu mun víðari í Barcelona og breiðgötur skeri miðborgina kruss og þvers, er umferðin þar mun þyngri en í Madrid. Á annatímum virðist bílaþvagan standa nokkurn veginn í stað um allan miðbæ.

Þar sem uppgangur borgarinnar var mestur um og upp úr aldamótum, eru mörg fræg hús í borginni frá þeim skamma tíma, er ungstíll, það er Art Nouveau eða Jugendstil, fór eins og eldur í sinu um Evrópu. Því má sjá í Barcelona bankahallir, sem minna á draumóra úr ævintýrum, gerólíkar þunglamalegum bankakössum annars staðar í álfunni.

Katalúnska er víðast hvar að leysa kastilísku af hólmi í Barcelona. Hún er töluvert ólík kastilísku, undir meiri áhrifum af nábýlinu við Provence í Frakklandi. Ef leigubílar eru lausir, stendur ekki lengur “libre” í framglugganum, heldur “lliure”. Ný götuskilti á katalúnsku eru sem óðast að koma upp. Matseðlar eru í vaxandi mæli á katalúnsku. Í safni Joan Miró eru skýringar ekki á því, sem við þekkjum sem spönsku, heldur á heimatungunni. Allt bendir til, að spönsku verði smám saman rutt til hliðar í höfuðborg Katalúníumanna.

Næstu skref

C. Canal Grande

Borgarrölt, Feneyjar
Grand Canale, Feneyjar 5

Canal Grande

Breiðstræti og aðalgata borgarinnar er í rauninni fljót. Þar sem Canal Grande bugðar sig núna, var áður fyrr áll í Feneyjalóni. Á bökkum hans varð borgin til og frá upphafi hefur hann verið helzta samgönguæð hennar. Hann er varðaður um það bil 200 margra alda gömlum höllum á tæplega 4 kílómetra leið sinni um borgina.

Canal Grande er iðandi af lífi frá morgni til kvölds. Almenningsbátar og leigubátar, lögreglubátar og sjúkrabátar, flutningabátar og útfararbátar, sorpbátar og gondólar eru sífellt á ferðinni fram og aftur. Á bökkunum bíður fólk eftir fari yfir vatnsgötuna eins og á rauðu ljósi í öðrum borgum.

Bátaleið 1 stanzar á flestum viðkomustöðum við Canal Grande. Flestar leiðarlýsingar hér eru miðaðar við bátastöðvarnar. Og fáir staðir í Feneyjum eru í meira en eins kílómetra göngufjarlægð frá einhverri bátastöðinni.

Við siglum frá járnbrautarstöðinni Santa Lucia, sem tengir Feneyjar við meginlandið, og ætlum til Markúsartorgs. Við förum auðvitað með leið 1, svokallaðri hraðferð, Accelerato, sem þekkist á því, að hún er hægari og kemur víðar við en aðrar leiðir.

Næstu skref

E. Andalúcia

Borgarrölt, Madrid

Sevilla

Catedral de Santa Maria, Sevilla 2

Catedral de Santa Maria

Sevilla er helzta borg Andalúsíu og var raunar öldum saman aðalborg Spánar. Hún var márísk í rúmar fimm aldir, 712-1248, svo sem enn má sjá á borgarkastalanum og bænaturni dómkirkjunnar.

Einkum varð vegur hennar þó mikill eftir landafundina í Ameríku fyrir fimm öldum. Í þá daga var skipgengt upp ána Guadalquivir til borgarinnar, svo að Amerigo Vespucci, Cristóbal Cólon (Kólumbus) og Fernao de Magalhaes (Magellan) settu svip sinn á staðinn og lögðu sumpart héðan af stað í ferðir sínar. Hér komu líka við sögu Don Júan, Don Quixote, Cervantes, Velázques og Carmen.

Alcázar, Sevilla

Alcázar

Sevilla er fjörug borg með rúmlega hálfa milljón íbúa, auk mikils fjölda ferðamanna, sem flykkist til borgarinnar árið um kring. Fræg er hin mikla dymbilvikuhátíð, Semana Santa, sem hefst á pálmasunnudag og stendur með daglegum skrúðgöngum í heila viku. Bræðraklúbbar keppast um að útbúa sem skrautlegasta vagna með turnum og myndastyttum. Á milli vagnanna dansar fólk og syngur.

Skömmu eftir dymbilvikuhátíðina kemur aprílhátíð, Feria de Abril, þegar menn reisa tjöld og halda uppi veizlum, dansi og söng í heila viku. Sevilla er höfuðborg dansanna flamenco og sevilliana.

Árið 1992 verður heimssýningin haldin á eyju í Guadalquivir um tveimur kílómetrum norðan við miðbæinn í Sevilla. Á sama ári verða ólympíuleikarnir í Barcelona og Madrid verður menningarhöfuðborg Evrópu, svo að Spánverjar hlakka mikið til um þessar mundir. Það ár verða einnig liðnar nákvæmlega fimm aldir síðan Kólumbus lagði af stað í fyrstu Ameríkuferð sína.

Næstu skref

D. San Marco

Borgarrölt, Feneyjar

Sestiere San Marco

Rio San Moise, Feneyjar

Rio San Moise

Tanginn, sem Canal Grande sveigist umhverfis frá Rialto brú að Markúsartorgi, myndar hverfi, sem kennt er við kirkjuna San Marco og er hjarta miðborgarinnar. Við förum nú í hringferð um hverfið og raunar einnig lítillega inn í aðliggjandi hverfi.

Calle Vallaresso

Við hefjum ferð okkar við suðvesturhorn Markúsartorgs, göngum út af torginu tæpa 100 metra leið eftir Salizzada San Moisè, þar sem við komum að hliðargötunum Calle Vallaresso til vinstri og Frezzeria til hægri. Við göngum þá fyrrnefndu á enda, um 150 metra leið, þar sem hún kemur fram á bakka Canal Grande.

Ein helzta gondólastöðin er þar sem Calle Vallaresso mæti
r bakkanum. Þar er oft mikill ys og þys og stundum raðir fólks, sem bíður eftir að kynnast einkennisfarartækjum Feneyja.

Merkar stofnanir eru hér á horninu, öðrum megin hinn kunni Harry’s Bar, sem Hemingway gerði frægan, og hinum megin hótelið Monaco, sem býður fjölmörg herbergi með útsýni yfir Canal Grande.

Í götunni eru einnig dýrar tízkuverzlanir og listmunaverzlanir, svo og eitt leikhús.

Næstu skref

 

 

F. Spánn

Borgarrölt, Madrid

Valencia

Valencia er eitt mesta ferðamannahérað Spánar. Þar eru Costa Blanca, Benidorm og Alicante. Þar eru mestu appelsínulundir Spánar, sól og sumar nær árið um kring.

Þetta er líka hrísgrjónaland Spánar, land fjölmargra hrísgrjónarétta, einkum pælunnar, pönnusteiktra hrísgrjóna með saffran, upphaflega með kjötbitum og baunum, en á síðari tímum einnig með sjávarfangi.

Valensíumenn eru frægir fyrir hátíðir sínar, sem standa með hléum árið um kring. Í apríl er mest um að vera, á Moros y cristianos, þar sem leiknir eru bardagar milli mára og kristinna frá 13. öld og þáttakendur klæðast ofsalega skrautlegum búningum. Um jól og áramót eru líka miklar hátíðir, svo og kjötkveðjan í febrúar.Valencia market

Vegna andstöðu sinnar við falangista fóru Valensíumenn illa út úr valdaskeiði Francos. Síðan hann féll frá, hefur efnahagur skánað töluvert. Einnig hafa þeir lagt mikla áherzlu á endurheimt tungu sinnar, sem er svipuð katalúnsku. Valensíska er komin á götuskilti og leigubílaskilti, svo og suma matseðla, svo að dæmi séu nefnd.

Borgin

Valencia er þriðja stærsta borg Spánar með tæplega 800 þúsund íbúum, einn helzti gluggi landsins til viðskipta á austanverðu og sunnanverðu Miðjarðarhafi.

Valencia er fræg fyrir Fallas, varðelda- eða kjötkveðjuhátíðina í marz, þegar heilsað er vori. Þá fara menn í skrúðgöngur með risastór líkneski, svonefndar fallas, sem unnið hefur verið við allt árið á undan. Klúbbar keppa um að búa til beztu líkneskin. Þá eru sungnir söngvar á valensísku, svonefndir Llibret, sem fela í sér háð og spott og hafa pólitískt sjálfstæðisgildi, sem óbeint er stefnt gegn kúgun af hálfu Kastilíu.

Næstu skref

8. Amalienborg – Rosenborg

Borgarrölt
Rosenborg, København

Rosenborg

Úr garðinum förum við aftur yfir Austurvegg og göngum hann til baka að Silfurgötu, þar sem við förum á horninu inn í Rósinborgargarð eða Kongens Have.

Kongens Have er elzti garður borgarinnar og með hinum stærri. Þar má sjá hinar fegurstu rósir og linditré. Eitt helzta skart garðsins er þó talið vera höllin Rósinborg (Rosenborg), þar sem varðveitt eru krýningardjásn konungsættarinnar og minjasafn hennar.

Rósinborg var reist 1606-17 í endurreisnarstíl að tilhlutan Kristjáns IV konungs hins byggingaglaða. Höllin var upphaflega sveitasetur Danakonunga, en var síðan notuð til veizluhalda þeirra, unz hún var gerð að minjasafni konungs 1858. Safnið er opið á sumrin 11-15 alla daga og á veturna 11-13 þriðjudaga og föstudaga, 11-14 sunnudaga.

Að lokum rennum við okkur út um annað suðurhlið garðsins yfir í Gothersgade. Við göngum eftir henni beint út á Kóngsins Nýjatorg, þar sem við erum á ný á kunnugum slóðum, upphafspunkti gönguferða okkar.

Þar bregðum við okkur inn á Hvít og fáum okkur glas af ágætu víni hússins. Á meðan hugleiðum við, hvort eitthvert safnið eða höllin freisti til nánari skoðunar síðar, ef tími vinnst til.

Svo er röðin komin að Kristjánshöfn

Næstu skref

7. Amalienborg – Østre Anlæg

Borgarrölt
Nyboder, København

Nyboder

Við förum aftur gegnum Churchill-garð og Esplanaden til hægri að enda hennar við Stóru Kóngsinsgötu (Store Kongensgade). Þar á horninu lítum við fyrst til hægri og sjáum hluta af Nýbúðum (Nyboder), hverfi, sem Kristján IV konungur lét reisa fyrir starfsfólk flotans upp úr 1631.

Østre Anlæg, København

Østre Anlæg

Síðan beygjum við til vinstri inn í Stóru Kóngsinsgötu og svo strax til hægri inn í Sankt Paulsgade. Þar hægra megin götunnar undir Pálskirkju sjáum við húslengju í upprunalegri mynd Nýbúða. Henni hefur verið breytt í minjasafn um Nýbúðir, opið 14-16 á sunnudögum.

Við göngum Pálsgötu á enda, beygjum til hægri í Riegensgade og síðan til vinstri í Stokkhúsgötu (Stokhusgade), er heitir eftir alræmdu fangelsi, sem tók við af áðurnefndum Brimarhólmi 1741 og þótti jafnvel enn grimmilegra. Af því sést nú ekki lengur tangur eða tetur og standa þar nú jarðfræðihús háskólans.

Østre Anlæg

Statens Kunstmuseum, København

Statens Kunstmuseum

Úr Stokkhúsgötu förum við framhjá húsi Jóns Sigurðssonar yfir Austurvegg (Øster Voldgade) og brúna yfir járnbrautina út í Østre Anlæg. Þar skoðum við okkur um eins lengi og við höfum tíma til og njótum náttúrunnar í þessum fallega garði, sem er í virkisgröfum hins gamla borgarveggs. Enn sést greinilega, hvernig virkisgrafirnar hafa litið út.

Um síðir tökum við stefnuna á Listasafn ríkisins, sem er í suðurhorni garðsins. Þar er gaman að skoða myndir gamalla meistara, einkum hollenzkra. Uppi hanga verk eftir Rubens, Rembrandt, Cranagh, Tintoretto, Mantegna, Matisse og Picasso. Dönskum listaverkum er líka sómi sýndur.

Úr safninu förum við yfir Silfurgötu (Sølvgade) út í Grasgarðinn (Botanisk Have). Þar er fjölskrúðugan gróður að sjá, meðal annars regnskógajurtir innan dyra.

Næstu skref

6. Amalienborg – Den lille havfrue

Borgarrölt
Den lille havfrue, København

Den lille havfrue

Møllen ved Kastellet, København

Møllen við Kastellet

Síðan höldum við áfram út Löngulínu að Hafmeyjunni litlu, höggmynd Edvard Eriksen frá 1913, kunnasta einkennistákni Kaupmannahafnar.

Gatan sveigir hér frá sjónum og við göngum hana spölkorn, förum yfir brú og beygjum út af til vinstri í átt til Kastellet, aðalvirkis borgarinnar, reist 1662-65, en þá byggt á eldra grunni. Ytri virkin eru sumpart eyðilögð, en eftir stendur fimmstrendur kjarninn.

Þar sjáum við falleg hlið og kastalakirkjuna, sem er áföst fangelsinu á þann sérkennilega hátt, að í gamla daga gátu fangar hlýtt messu án þess að yfirgefa svartholið. Fallegust er vindmyllan, sem prýðir vesturhorn virkisveggjarins.

Næstu skref

5. Amalienborg – Gefion

Borgarrölt
Gefion brønden, København

Gefion brunnur

Þegar við komum aftur út á götuna, beygjum við til hægri og förum Breiðgötu á enda. Við göngum stuttan spöl til hægri framhjá Frelsissafninu (Frihedsmuseet), sem er timburhús handan götunnar Esplanaden. Þar eru sýndar minjar andspyrnuhreyfingarinnar dönsku frá stríðsárunum síðustu.

Að baki safnsins er Churchill-garður. Þar sjáum við álengdar ensku kirkjuna og til hægri við hana Gefjunarbrunn (Gefionspringvandet). Gosbrunnurinn sýnir, hvernig gyðjan Gefjun bjó til Danmörku með því að breyta sonum sínum í naut og beita þeim fyrir plóg, sem hún notaði til að plægja upp Skán.

Við getum haldið áfram eftir Esplanaden til að fá okkur að borða í Lumskebugten, á nr. 21. Eða farið gönguleið hjá Gefjunarbrunni út Löngulínu (Langelinie). Á leiðinni er Langelinie Pavilionen, þar sem við getum fengið snarl við ágætt útsýni.

Næstu skref