Borgarrölt

3. Gamli miðbærinn – Christiansborg

Borgarrölt
Børsen & Christiansborg, København

Børsen til vinstri & Christiansborg

Slotsholmen

Við látum duga snögga heimsókn og höldum áfram Hafnargötu út að síkinu. Nú verða senn kaflaskil á göngu okkar. Við yfirgefum Brimarhólm og erum senn komin út á Hallarhólma, Slotsholmen, þá eyju, sem öldum saman hefur verið pólitísk þungamiðja Danmerkur. Við nemum staðar á Kauphallarbrú (Børsbroen).

Børsen

Framundan sjáum við Kauphöllina (Børsen), handan brúarinnar, reista í hollenzkum fægistíl 1619-40 að tilhlutan Kristjáns IV konungs. Kauphöllin er ríkulega skreytt, bæði innan dyra og utan. Mesta athygli okkar vekur turnspíran mikla, ofin saman úr fjórum drekasporðum.

Christiansborg

Við beygjum af brúnni til vinstri, förum í kringum Kauphöllina og göngum eftir Hallarhólmagötu (Slotsholmsgade) út á hallartorg Christiansborg, Kristjánsborgar. Framhlið hennar blasir við okkur. Að baki styttunnar af Friðriki VII konungi eru svalirnar, þar sem Margrét II Þórhildur drottning var hyllt við valdatöku.

Núverandi Kristjánsborg var reist 1907-28 eftir hallarbrunann 1884. Hún er klædd marglitu graníti frá Borgundarhólmi og ber ógrynni af kopar á þaki, eins og svo margar hallir borgarinnar. Hún hefur að geyma hæstarétt Danmerkur, þjóðþing Dana, svo og hluta utanríkisráðuneytis og veizlusali konungs og ríkisstjórnar.

Undir höllinni hafa fundizt leifar af fyrsta kastala Kaupmannahafnar, borg Absalons erkibiskups frá 12. öld. Á þeim grunni voru síðan reistar konungshallir Dana, allt til hallarbrunans 1794, er heimkynni konungs voru flutt úr rústum Kristjánsborgar til fjögurra halla Amalíuborgar.

Meðan konungar sátu í Hróarskeldu (Roskilde) höfðu völdin hér arftakar Absalons biskups. Á 15. öld komst borgin í hendur Danakonunga. Þeir tóku þá sæti biskupa á Hallarhólma. Og loks á tíma lýðræðis tóku þingmenn og ráðherrar sæti konungs. Hallarhólmi hefur þannig staðið af sér allar veltur stjórnmálasögunnar.

Ekki voru Kaupmannahafnarbúar alltaf jafn uppnæmir fyrir konungi og hirð. Höllin stendur að hluta, þar sem áður voru öskuhaugar borgarinnar, Skarnholmen. 1650 neyddist konungur til að gefa út tilskipun um bann við, að borgarbúar notuðu nafnið Skarnhólma yfir Hallarhólma.

Næstu skref

2. Gamli miðbærinn – Holmens kirke

Borgarrölt

Brimarhólmur

Við röltum til hægri framhjá Hvíti (Hviids Vinstue), yfir Litlu Kóngsinsgötu (Lille Kongensgade), framhjá Mjóna (Stephan á Porta) og höll vöruhússins Magasin du Nord, þar sem áður var sögufrægt hótel, Hótel du Nord, og beygjum til hægri í Víngarðsstræti (Vingårdstræde).

Hér við hægri hlið götunnar er falið í kjallara matarmusterið Kong Hans (sjá bls.23). Við förum ekki þangað svo snemma dags, heldur göngum áfram út að Brimarhólmi (Bremerholm), sem áður var illræmdur og hét Hólmsinsgata (Holmensgade).

Við erum komin í hverfi, sem að stofni til er frá árunum eftir borgarbrunann 1795. Á síðustu árum hafa mörg hinna gömlu húsa verið rifin og ný reist í staðinn, svo að gamli heildarsvipurinn er horfinn. Við getum kíkt inn í sumar litlu og gömlu hliðargöturnar, áður en við höldum til vinstri niður Brimarhólm.

Í gamla daga var þetta þröng gata með öldur- og vændishúsum á báða vegu. Sukkinu var útrýmt héðan með gömlu húsunum og flutt til Nýhafnar fyrst og síðan Istedgade. Nú ríkir hér siðprýðin ein, en hvorki tangur né tetur af fornri frægð.

Við höldum þvert yfir Hólmsinssíki (Holmens Kanal), sem áður var eitt af síkjum borgarinnar, og göngum eftir Hafnargötu (Havnegade) inn á hinn forna Brimarhólm. Þar var áður fyrr skipasmíðastöð konungs og flota. Vinnuaflið var fengið úr þrælakistu Brimarhólms, þar sem geymdir voru lífstíðarfangar.

Holmens Kirke, København

Holmens Kirke

Danmörk var mikið flotaveldi á fyrri tímum. Veldi konungs byggðist mest á flotanum, sem hér var smíðaður, nánast undir glugggum konungshallar Kristjánsborgar. Í eina tíð réð þessi floti öllum Norðurlöndum og í ann
an tíma teygði hann arma sína til fjarlægra heimsálfa.

Á hægri hönd okkar er Hólmsinskirkja (Holmens Kirke), upprunalega reist sem akkerasmiðja skipasmíðastöðvarinnar 1563. Þessa gömlu smiðju í endurreisnarstíl lét hinn mikli byggingastjóri, Kristján IV konungur, dubba upp í kirkju fyrir flotann 1619. Síðan hefur kirkjan nokkrum sinnum verið endurbyggð og lagfærð.

Næstu skref

F. Dorsoduro & San Polo

Borgarrölt, Feneyjar
Guggenheim: Joan Miró, Feneyjar

Guggenheim: Joan Miró

Sunnanverður tanginn milli Canal Grande að norðanverðu og Feneyjalóns að sunnanverðu. Nafnið þýðir, að jarðvegur er hér þéttari og traustari en víðast annars staðar í borginni. Þungamiðja hverfisins er listasafnið Accademia og brúin, sem er fyrir framan safnið og tengir hverfið við meginhluta miðborgarinnar.

Á sjálfum tanganum vestan við Accademia er rólegt íbúðahverfi vel stæðra Feneyinga og útlendinga. Austan við safnið er fjörugra hverfi miðstéttafólks og allra austast við hafskipahöfnina er verkamannahverfi. Suðurbakkinn við lónið er vinsæll slökunarstaður með útikaffihúsum, þar sem fólk sameinar sólskinið, útsýnið og sjávarloftið.

Við tökum bát frá Palazzo Ducale yfir Canal Grande til Dorsoduro og byrjum gönguna austast, við bátastöðina Salute, fyrir framan kirkjuna.

Næstu skref

 

G. Cannaregio

Borgarrölt, Feneyjar
Cannaregio, Feneyjar

Cannaregio

Nyrzti hluti hverfisins er fyrst og fremst íbúðabyggð með litlum verzlunum og verkstæðum í bland, næsta upprunalegur að útliti. Víða eru þar tiltölulega beinir og breiðir skurðir með gangfærum bökkum. Syðsti hluti hverfisins er líkari öðrum hverfum Feneyja og einkennist af samgöngum milli brautarstöðvar og Rialto-brúar, bæði á Canal Grande og á tiltölulega greiðfærri gönguleið.

Í annarri gönguferð fórum við um suðausturhorn hverfisins til að skoða kirkjurnar San Giovanni Crisostomo og Santa Maria dei Miracoli, svo að við sleppum þeim hluta í þessari gönguferð.

Við hefjum ferðina við Fondamente Nuove bátastöðina á norðurströnd Feneyja. Þangað komumst við með almenningsbátum 23 og 52. 

Næstu skref

3. Inngangur – Tivoli

Borgarrölt
Tivoli, Færgekroen, København

Tivoli, Færgekroen

Vorið er talið komið til Kaupmannahafnar, þegar hlið Tivoli eru opnuð 1. maí ár hvert. Þá flykkjast Danir og ferðamenn til að skemmta sér í þessum garði, sem tæpast á sinn líka í heiminum að fjölbreytni og hinu sérstaka danska fyrirbæri, sem kallast “hygge”.

Ekkert er líklegra til að dreifa streittu og eyða döpru geði en einmitt Tivoli. Staðurinn er svo magnaður áreynslulausri, danskri glaðværð, að hann ber höfuð og herðar yfir nafna sína og Disneylönd í öðrum löndum. Og hann er enn danskur, þótt ferðamenn setji líka svip á hann.

Frá 1843 hefur þessi merki skemmtigarður verið í hjartastað Kaupmannahafnar, ánægjulegur staður hvíldar og tilbreytingar, aðeins steinsnar frá umferðarþunga miðborgarinnar. Hér göngum við úr raunveruleikanum inn í furðulegan og fallegan ævintýraheim.

Gamli miðbærinn

2. Inngangur – Verzlun

Borgarrölt

Gisting-hótel

Mikið úrval góðra hótela er í miðborg Kaupmannahafnar, þar sem mest hið skoðunarverða er, flest áhugaverðustu veitingahúsin og bjórkrárnar, skemmtana- og menningarlífið. Enginn ætti að vera í vandræðum með að finna hótel sér við hæfi á þessum slóðum gangandi fólks. Eini gallinn er, að svigrúm verðs, frá hinu dýrasta til hins ódýrasta, er þrengra en í flestum öðrum stórborgum.

Els, restaurant, København

Els, restaurant,

Að dönskum hætti eru hótelherbergi yfirleitt tandurhrein og snyrtileg. Sum hótelin hafa verið innréttuð á listfenginn hátt innan í gömlum húsum og skara að því leyti fram úr öðrum hótelum, hvað þá hinum ópersónulegu keðjuhótelum.

Veitingar

Mikil breyting hefur orðið í veitingamennsku Kaupmannahafnar, síðan fyrsta útgáfa þessarar bókar var rituð. Þar hefur á síðustu áratugum orðið hliðstæð bylting nýfranskra áhrifa og varð um svipað leyti á Íslandi. Danir hafa lagað hefð sína að nýjum siðum og bjóða nú betri mat en nokkru sinni fyrr.

Verzlun-búðaráp

Við lítum í búðir, þegar við komum til Kaupmannahafnar. Ekki til að verzla ódýrt, því að verðlag er þar hærra en víðast annars staðar í heiminum. Við förum í búðir til að skoða og handleika hagnýta listmuni, sem Danir eru frægari fyrir en flestar aðrar þjóðir.

Larsen, Strøget, København

Larsen, Strøget

Verzlanir Kaupmannahafnar eru sannkallað ævintýraland fágaðrar smekkvísi og rótgróins handverks. Engin verzlunargata heims jafnast á við Strikið í samþjappaðri fegurð og einfeldni nytjahluta. Á 15 mínútna gönguleið er verzlun við verzlun, fullar ævintýra til að njóta.
Búðaráp er einfaldast að stunda á Strikinu og göngugötunum út frá því. Þar standa þéttast þær verzlanir, er hafa á boðstólum vörur, sem ferðamenn hafa áhuga á að skoða og handleika og kannski kaupa. Þar eru seldar einkennisvörur Dana.

Mesta samþjöppun frægðarbúða er við austanvert Strikið, frá Heilagsandakirkju að Kóngsins Nýjatorgi. Í framhaldi af Strikinu til beggja enda eru líka vinsælar verzlunargötur. Handan Kóngsins Nýjatorgs er Stóra Kóngsinsgata, þétt skipuð verzlunum, og handan Ráðhústorgs er Vesterbrogade.

Næstu skref

A. Kaupmannahöfn

Borgarrölt, Kaupmannahöfn

Litla heimsborgin

Ferðamenn úr öllum heimshornum hafa borið Kaupmannahöfn þá sögu, að hvergi sé betra að vera gestur en einmitt þar. Hin lífsglaða borg er ein hin vingjarnlegasta í heimi, opinská og alþjóðleg, án þess að hafa glatað dönskum siðum, hefðum og menningu.

Strøget, København 3

Strøget

Danir hafa tamið sér áhyggjulausa framkomu heimsmanna, stríðnislega gamansemi prakkara og listræna dirfsku handverksmanna. Þeir hafa opnað upp á gátt glugga sína til umheimsins og eru þó engum líkir.

Auðlindir eiga þeir fáar, aðrar en hugvitið, sem bezt kemur fram í heimsfrægum listmunum. Allt verður að gersemi í höndum þeirra, gler, leir og viður, silfur, stál og skinn. Og hvergi er betra að sjá þetta en einmitt í Kaupmannahöfn.

Strøget, København

Strøget

Ekkert er þar stærra eða í sjálfu sér merkilegra en í hvaða annarri heimsborg. Til eru stærri kastalar, söfn og fornminjar, garðar og verzlanir. En slíkir áningastaðir ferðamanna hafa sérstakt, danskt aðdráttarafl í Kaupmannahöfn.

Og svo er það lífið sjálft, sem dregur ferðamenn til borgarinnar, er endurspeglar nútímann, blíðan og stríðan í senn, allt frá vonleysi fíkniefnaneytandans upp í hófsama lífslyst. Í þessari bók munum við einkum staðnæmast við hið síðarnefnda.

Hér flýtur bjór og vín með góðum mat. Hér er samvera og einvera á kaffihúsum og krám, í göngugötum og görðum. Hér er notalegt að vera, því að gestir að utan eru yfirleitt fljótir að finna hinn danska takt.

Næstu skref

H. Isole

Borgarrölt, Feneyjar
Sana Maria Assunta, Torcello, Feneyjar

Sana Maria Assunta, Torcello, ein elzta kirkja Feneyja

Gaman er að gefa sér tíma til að skoða eyjarnar umhverfis miðborgina í Feneyjum. Þær hafa hver sína sérstöðu.

Klaustureyjan San Giorgio er andspænis hertogahöllinni og hin langa og mjóa Giudecca er andspæns borgarhverfinu Dorsoduro. Austan borgar er baðstrandareyjan Lido. Norðan borgar eru kirkjugarðseyjan San Michele, glergerðareyjan Murano, blúndugerðareyjan Burano og svo eyðieyjan Torcello, sem kemur mest á óvænt.

Næstu skref

17. Verona – Castelvecchio

Borgarrölt

Castelvecchio

Castelvecchio, Verona

Castelvecchio

Við förum frá kirkjunni til baka eftir Via Duomo, beygjum til hægri og förum 1200 metra eftir Corso Cavour að gamla borgarkastalanum, Castelvecchio.

Fagurlega hannaður kastali Scaligeri-hertoganna, reistur 1355-1375, á valdatíma Cangrande II, enn í góðu ástandi og hýsir nú glæsilega skipulagt listasögusafn, sem auðvelt er að skoða í réttri tímaröð. Það spannar síðrómverska list, frumkristna list, miðaldalist og list endurreisnartímans, þar á meðal verk Giovanni Bellini, Tiziano og Veronese.

Ponte Scaligero

Ponte Scaligero, Verona

Ponte Scaligero

Handan vopnadeildar safnsins er göngubrú, sem veitir gott útsýni til brúarinnar Ponte Scaligero.

Miðaldabrú, reist 1354-1376, á valdaskeiði Cangrande II, helzti vettvangur gönguferða borgarbúa nú á tímum. Brúin skemmdist í heimsstyrjöldinni síðari, en hefur verið gerð upp að nýju.

Frá Castelvecchio er bein, 600 metra leið eftir Via Roma til Piazza Brà, þar sem við hófum þessa gönguferð um Verona.

Þar með lýkur ferð okkar til Verona og dvöl okkar á Feneyjasvæðinu. Ef við ætlum til Feneyja, er gott að vita, að þangað eru 114 km á hraðbrautinni.

Úti að sinni er Feneyjaævintýri.

 

16. Verona – Duomo

Borgarrölt

Palazzo di Vescovo

Duomo, Verona

Duomo

Við förum til baka yfir rómversku brúna og upp brekkuna handan hennar að dómkirkjunni. Við afturenda kirkjunnar förum við hjá anddyri biskupsgarðsins, Palazzo di Vescovo.

Gotneskur inngangur hallar dómkirkjubiskupsins.

Duomo

Við förum fram fyrir kirkjuna og inn á torgið fyrir framan hana.

Dómkirkjan hefur verið gerð upp og geislar hinum mildu steinlitum, sem hún bar upprunalega. Elzti hluti hennar er frá 12. öld og framhliðin er í rómönskum langbarðastíl, hönnuð af Nicolò.

Bleikar súlur halda uppi kirkjuþakinu. Helzta meistaraverk kirkjunnar er Upprisan eftir Tiziano, frá 1535-1540, í fyrstu kapellunni vinstra megin.

Frá kirkjunni er innangengt í skírnhúsið, sem raunverulega er 8. aldar múrsteinskirkja, San Giovanni in Fonte, með 12. aldar framhlið úr marmara.

Næstu skref

 

15. Verona – Teatro Romano

Borgarrölt
Teatro Romano & Castel San Pietro, Verona

Teatro Romano & Castel San Pietro

Teatro Romano

Frá bakhlið kirkjunnar förum við norður og niður brekkuna að ánni Adige, yfir hana á rómversku brúnni Ponte della Pietra og suður með bakkanum hinum megin að rómverska leikhúsinu, Teatro Romano, alls um 400 metra leið.

Rómverskt leikhús frá 1. öld fyrir Krist, tíma Ágústusar keisara, og er enn notað til leiksýninga. Áður voru þar sýnd leikverk eftir Plautus, en nú er þar haldin árleg Shakespeare-hátíð. Leikhúsið er byggt inn í árbakkann og veitir gott útsýni frá heillegum áhorfendapöllum yfir ána til miðborgarinnar.

Castel San Pietro

Frá leikhúsinu er farið í lyftu upp í klaustrið fyrir ofan, Castel San Pietro.

Klaustrinu ofan við rómverska leikhúsið hefur verið breytt í fornminjasafn með frábæru útsýni yfir borgina og héraðið. Í safninu eru meðal annars fornar steinfellumyndir.

Næstu skref

14. Verona – Sant’Anastasia

Borgarrölt
Sant' Anastasia, Verona

Sant’ Anastasia

Við förum norður með austurhlið Palazzo di Cangrande 100 metra eftir götunni Cavaletto og beygjum til hægri í Corso Sant’Anastasia, sem liggur að einni höfuðkirkju borgarinnar, aðra 100 metra til viðbótar.

Sant’Anastasia er voldug og háreist klausturkirkja Dóminíkusarmunka í rómönskum stíl frá 1290, með gotneskum inngangi, skreyttum veggfreskum frá 15. öld.

 

Næstu skref

13. Verona – Arche Scaligere

Borgarrölt
Arche Scaligeri, Verona

Arche Scaligeri

Við förum með suðurhlið hallarinnar nokkra metra að litlu torgi með miklum minnisvörðum.

Hér eru steinkistur Scaligeri-hertoganna hátt á stalli undir berum himni í tilkomumiklum 14. aldar turnum í gotneskum stíl með oddhvössum spírum framan við framhlið Palazzo di Cangrande. Þess háttar greftrun er einsdæmi í miðaldasögu Ítalíu.

Scaligeri-hertogarnir höfðu svo mikið sjálfsálit, að þeir vildu hvíla nær guði en aðrir höfðingjar, sem yfirleitt hvíla í kirkjuhvelfingum.

Að baki kistuturnanna er lítil, rómönsk kirkja frá 7. öld, Santa Maria Antica. Hún var ættarkirkja Scaligeri-hertoganna. Kistuturn Cangrande I er beint fyrir framan kirkjudyrnar.

Næstu skref

13. Verona – Palazzo di Cangrande

Borgarrölt
Loggia dei Consilione & Palazzo di Cangrande, Verona

Loggia dei Consilione & Palazzo di Cangrande

Loggia del Consiglio

Við förum aftur úr portinu og skoðum höllina Loggia del Consiglio við norðurenda torgsins.

Fögur tengihöll frá 1493 í feneyskum endurreisnarstíl með háum og grönnum súlnasvölum við torgið og veggfreskum yfir svölunum. Á þakskeggi eru styttur af rómverskum frægðarmönnum, sem voru fæddir í Verona, svo sem Catullusi skáldi, Pliniusi náttúruvísindamanni og Vitruviusi byggingameistara.

Palazzo di Cangrande

Hornrétt á tengihöllina er önnur höll, Palazzo di Cangrande.

Höllin er kennd við Cangrande I, þekktasta hertoga Scaligeri-ættarinnar, sem stjórnaði borginni 1263-1387. Hún er núna lögreglustöð.

Næstu skref

 

C. Gamli miðbærinn

Borgarrölt, Kaupmannahöfn

Gamli miðbærinn

Flest markvert í borgarmiðju Kaupmannahafnar er hægt að skoða í þremur þriggja klukkustunda gönguferðum. Tímalengdin er miðuð við rólegt rölt og ekki talinn með sá tími, sem færi í að skoða innan dyra söfn og mannvirki, sem opin eru almenningi. Áhugamenn þyrftu auðvitað miklu lengri tíma.

Fyrsta gönguleiðin liggur um gamla bæinn milli Kóngsins Nýjatorgs og Ráðhústorgs. Önnur liggur um Friðriksbæ frá Kóngsins Nýjatorgi út að Hafmeyjunni við Löngulínu. Hin þriðja liggur svo um Kristjánshöfn, handan brúnna yfir höfnina.

Kóngsins Nýjatorg

Charlottenborg Museum, København

Charlottenborg, Kongens Nytorv

Við hefjum gönguna á mótum Kóngsins Nýjatorgs og Austurgötu, við enda Striksins, á horninu fyrir framan hótelið Angleterre og lítum þar í kringum okkur. Hér er stærsta torg borgarinnar, yfir þrír hektarar að flatarmáli. Það er líka eitt fegursta torgið, girt mörgum frægum og fallegum húsum og höllum.

Gróðurreitur, kallaður Krinsen, var á miðju torginu, umhverfis riddarastyttu af Kristjáni V Danakonungi. Styttan er nýleg bronsstytta af hinni upprunalegu blýstyttu frá 1688. Í aldanna rás höfðu blýfætur hestsins sigið saman, svo að ráðlegt þótti 1946 að skipta til harðara efnis. Nú er komin þarna neðanjarðarlestastöð.

Det kongelige Teater, København

Det kongelige Teater, Kongens Nytorv

Handan við torgið sjáum við menningarhöllina Charlottenborg, þar sem Listaakademían er til húsa. Höllin var reist í hollenzkum hlaðstíl 1672-83 og ótti á sínum tíma glæsilegasta hús borgarinnar. Akademían hefur verið hér síðan 1754. Að baki hennar er sýningarsalur, þar sem hver merkissýningin rekur aðra.

Til hægri sjáum við Det kongelige Teater, hið mun glæsilegra Konunglega leikhús frá 1872-74, sem einnig hýsir óperuna og balletinn. Aðalsalurinn rúmar 1.500 gesti og hliðarsalurinn 1.000 gesti. Við getum skoðað þessar hallir danskrar menningar í síðari gönguferð og látum nú nægja að átta okkur á staðháttum.

Næstu skref