Borgarrölt

6. Isole – Isola San Michele

Borgarrölt
Isola San Michele, Feneyjar

Isola San Michele

Við höldum næst í norður frá Feneyjum. Bátaleið 52 fer frá Lido og Feneyjum til Murano, en að auki er hægt að komast frá Feneyjum með bátaleiðum 12, 13 og 23. Leiðir 23 og 52 koma við á Isola San Michele.

Kirkjugarðseyja Feneyja, næstum öll lögð undir leiði, sem mörg eru fagurlega blómum skreytt. Bátastöðin er við eyjarkirkjuna frá 1469, klædda að framan í hvítan Istríu-stein.

Kirkjugarðinum er skipt í hluta eftir kirkjudeildum.

Margir frægir útlendingar eru grafnir á eyjunni, þar á meðal Igor Stravinsky og Ezra Pound.

Næstu skref

5. Isole – Lido

Borgarrölt
Í camping á Lido

Í camping á Lido

Almenningsbátaleið 82 liggur einnig til eyjarinnar Lido, sem og leiðir 1, 6, 14 og 52. Hraðskreiðust þeirra er leið 6, sem fer á 12 mínútum frá San Zaccaria stöðinni til Santa Maria Elisabetta stöðvarinnar á Lido.

Lido er tólf kílómetra langt sandrif milli Adríahafs og Feneyjalóns, sumardvalarstaður fína og fræga fólksins fyrstu áratugi þessarar aldar, þegar Feneyjar voru fremsta sólarströnd Vesturlanda. Þar eru fræg hótel og miklar baðstrendur, sem eru þéttar setnar en áður var. Bezt er að fara um eyjuna á reiðhjóli, sem taka má á leigu andspænis bátastöðinni.

Brezkir bókmenntamenn gerðu Lido fræga á 19. öld. Byron lávarður og Shelley dvöldust þar löngum stundum. Byron synti frá Lido um Canal Grande til Santa Chiara. Um aldamótin var Lido komin í tízku hjá aðalsfólki og filmstjörnum. Þá voru farin að rísa þar hótel. 1912 kom út bókin Dauði í Feneyjum eftir Thomas Mann, þar sem lýst er lífi iðjuleysis-aðalsins á eynni.

Næstu skref

 

D. Amalienborg

Borgarrölt, Kaupmannahöfn
Kanneworfske Hus, Kongens Nytorv, København

Kanneworfske Hus, Kongens Nytorv

2. ganga:

Kongens Nytorv

Enn hefjum við göngu á Kóngsins Nýjatorgi, við enda Striksins og byrjum eins og áður á því að ganga yfir Litlu Kóngsinsgötu, en förum svo yfir torgið að Konunglega leikhúsinu. Handan þess er Tordenskjoldsgade með listamannakránni Brönnum. Síðan tekur við Konunglega akademían í Charlottenborg og þá erum við komin að Nýhöfn (Nyhavn).

Framundan, vinstra megin Breiðgötu (Bredgade), er Thottshöll. Á hinu horninu við Breiðgötu er kyndugt hús, “Kanneworffske Hus“. Í framhaldi af því sjáum við svo húsaröð Nýhafnar, sem við skulum virða fyrir okkur, áður en við förum yfir götuna fyrir botni hafnarinnar. Við skulum líka horfa til baka yfir torgið og taka eftir, hvernig hótelið Angleterre ber í hvítum glæsibrag af öðrum höllum torgsins.

Milli Kanneworffske Hus og oddmjóa hússins göngum við inn Store Strandgade, þar sem veitingahúsið væna, Els, er strax á vinstri hönd, á nr. 3. Við göngum þá götu áfram og síðan til baka til hægri eftir Lille Strandgade út að Nýhöfn. Í þessum götum er margt gamalla húsa frá síðari hluta átjándu aldar. Við tökum sérstaklega eftir nr. 3 og 18 við Stóru og nr. 14 og 6 við Litlu Strandgötu.

Næstu skref

4. Isole – Giudecca

Borgarrölt
Santa Maria della Salute, Feneyjar

Eyjan Giudecca með Redontore að baki Dogana di Mare og Santa Maria della Salute

Við tökum almenningsbátinn 82 frá San Giorgio til nágrannaeyjunnar Giudecca.

Eyjan mjóa og langa frá vestri til austurs má muna fífil sinn fegri frá blómaskeiði Feneyja, þegar þar voru sumarhallir borgaraðalsins. Nú eru hallirnar hnípnar og þreytulegar og torgin illa snyrt. Frá Feneyjum blasir við breiður norðurbakki og út frá honum liggja sund í átt til suðurstrandarinnar.

Höfuðprýði eyjarinnar er Il Redentore, kirkja eftir Andrea Palladio, reist 1577-1592 í gnæfrænum stíl, sem minnir á gullöld Rómar, afar formföst og fögur. Hún tekur sig vel út flóðlýst að kvöldlagi, séð frá bakkanum Zattere í Dorsoduro-hverfi Feneyja.

Í austurenda eyjarinnar er hótelið og veitingahúsið Cipriani.

Næstu skref

3. Isole – Andrea Palladio

Borgarrölt

Fondacione Cini, San Giorgio, Feneyjar

Fondacione Cini

Klaustrið er vestan kirkjunnar.

Benediktaklaustrið er frá sama tíma og kirkjan, einnig hannað af Andrea Palladio. Allt í kringum stóra innigarða eru mikil og létt súlnagöng á fyrstu hæð og palladísk gluggaröð á annarri hæð, þar sem annar hver gluggi hefur oddhatt og hinn sveigðan hatt. Þetta form hefur verið stælt um allan heim.

Klaustrinu hefur verið breytt í menningarstofnun, Fondacione Cini, sem heldur þar ráðstefnur og sýningar. Þar hafa ráðamenn Vesturlanda hitzt til skrafs og ráðagerða og eitt sinn var þar kjörinn páfi.

Andrea Palladio

Höfundur klausturs og kirkju er einn merkasti arkitekt allra tíma.

Andrea Palladio var uppi 1508-1580, fæddur í nágrannabæ Feneyja, Vicenza, þar sem sjá má mörg verka hans. Hann nam rómverska byggingarlist keisaratímans í Róm. Síðan hannaði hann mörg sveitasetur feneyskra aðalsmanna í nágrenni borgarinnar og nokkrar hallir í Feneyjum sjálfum, kirkjuna Redentore á Giudecca-eyju, svo og klaustrið og kirkjuna á San Giorgio eyju.

Fleira er sagt af verkum hans í bókarkaflanum um Vicenza.

Næstu skref

2. Isole – Isola di San Giorgio

Borgarrölt

Isola San Giorgio Maggiore, Feneyjar

Isola di San Giorgio

Við byrjum á Isola di San Giorgio. Þangað má komast með almenningsbátaleið 52 frá San Zaccaria við hertogahöllina. Komið er að landi við torgið framan við kirkju eyjarinnar.

Kirkja og klaustur arkitektsins Andrea Palladino, reist 1559-1580, blasa glæsilega við ferðamönnum á bakkanum framan við hertogahöllina. Á eyjunni er einnig lystisnekkjuhöfn, skrúðgarður og útileikhús.

San Giorgio Maggiore

Við beinum athygli okkar að kirkjunni San Giorgio Maggiore.

Hönnun kirkjunnar er skólabókardæmi fyrir þá megingrein endurreisnarstefnunnar, sem kölluð hefur verið Palladismi eftir höfundinum, Andrea Palladio, öll í formföstum, mælirænum einingum. Stafninn er í grísk-rómverskum musterisstíl.

Næstu skref

7. Cannaregio – Ghetto

Borgarrölt
Ghetto, Feneyjar

Ghetto

Við göngum upp með skurðinum austanmegin, tæplega 100 metra, og beygjum til hægri í Calle del Ghetto Vecchio, 200 metra leið, og komum þar að brú, sem liggur yfir til Campo Ghetto Nuovo.

Ákveðið var 1516, að allir Gyðingar í Feneyjum skyldu búa á þessari eyju í Cannaregio, þar sem áður var málmbræðsla = geto. Þaðan kemur nafnið, sem síðan hefur verið notað um slík hverfi, enda var fyrsta hverfið hér í Feneyjum. Tvær vaktaðar brýr lágu frá eyjunni til umhverfisins.

Smám saman fjölgaði Gyðingum í Feneyjum og þeir dreifðust yfir á nágrannasvæðin, en það var þó ekki fyrr en 1866, sem þeir fengu leyfi til að búa hvar sem er í borginni. Nú búa nánast engir feneyskra Gyðinga á þessari eyju, en þar eru þó enn nokkrar verzlanir þeirra, svo og safn um sögu þeirra í borginni.

Campo Ghetto Nuovo, Feneyjar

Campo Ghetto Nuovo

Á einum veggnum við torgið eru lágmyndir, sem sýna helför Gyðinga í síðari heimsstyrjöldinni. Frá norðurhlið torgsins er stór brú með vönduðum smíðajárnshandriðum.

Við höldum sömu leið til baka eftir Calle del Ghetto Vecchio og til vinstri eftir bakka Canale di Cannaregio til gönguleiðarinnar milli Rialto og Ferrovia, beygjum til hægri, förum yfir brúna og áfram eftir hótelgötunni, sem brátt nefnist Rio terrà Lista di Spagna og liggur að járnbrautarstöðinni. Þessi gönguferð endar þar. 

Næst siglum við út í nálægar eyjar.

Næstu skref

6. Cannaregio – Canale di Cannaregio

Borgarrölt
Canale di Cannaregio, Feneyjar

Canale di Cannaregio

Síðan höldum við sömu leið til baka um Campo San Marziale, Calle Zancani og Campo di Santa Fosca, þar sem við beygjum til hægri inn á gönguleiðina milli Rialto og Ferrovia. Við göngum eftir henni um 900 metra leið að breiðskurðinum Canale di Cannaregio.

Einn breiðasti skurður Feneyja næst á eftir Canal Grande, mikið notaður til vöruflutninga. Honum fylgir ys og þys hafnarhverfis, einkum á kaflanum, sem næstur er Canal Grande.

Næstu skref

5. Cannaregio – Rio della Misericordia

Borgarrölt
Rio della Sensa, Feneyjar

Rio della Sensa

Rio della Misericordia

Að þessu sinni göngum við um 600 metra eftir Strada Nova. Síðan beygjum við til hægri í Campo di Santa Fosca og áfram yfir brú og eftir Calle Zancani um brú til Campo San Marziali og áfram upp á brú yfir Rio della Misericordia.

Við erum hér komin að þremur tiltölulega beinum og breiðum skurðum, sem liggja langsum eftir norðanverðu Cannaregio-hverfinu. Rio della Misericordia er hinn syðsti, síðan kemur Rio della Sensa og loks Rio Madonna del’Orto, sem raunar heitir ýmsum nöfnum.

Við Rio della Sensa er torgið Campo dei Mori með frægri styttu, sem kölluð er Signor Antonio Rioba, með gamansömu málmnefi. Þar á skurðbakkanum Fondamenta dei Mori stendur enn íbúðarhús málarans Tintoretto.

Á norðurbakka skurðanna þriggja eru yfirleitt greiðar gönguleiðir, sem er óvenjulegt í Feneyjum. Þessi borgarhluti er lítt snertur af ferðamennsku. Litlar verzlanir og verkstæði eru á stangli á jarðhæðum, en að öðru leyti er þetta íbúðahverfi. Sólin nær oft að skína lengi á stéttarnar, þar sem eftirlaunamenn standa gjarna og dorga í skurðunum.

Við spókum okkur góða stund á bökkum skurðanna þriggja.

Næstu skref
Rio Madonna dell' Orto, Tintoretto house

Rio Madonna dell’ Orto

4. Cannaregio – Strada Nova

Borgarrölt
Strada Nova, Feneyjar

Strada Nova

Frá kirkjunni göngum við til suðurs Campo dei Gesuiti, Salizzada Seriman, Salizzada larga Borgato og Rio terrà dei Santi Apostoli, um 500 metra nánast beina leið, beygjum til hægri í Calle larga dei Proverbi og til vinstri Salizzada del Pistor til Campo dei Santi Apostoli, alls tæpa 300 metra til viðbótar. Þar beygjum við til hægri inn í breiðgötuna Strada Nova.

Breiðgatan Strada Nova liggur í næstum beina línu samsíða Canal Grande að baki síkishallanna, frá Campo dei Santi Apostoli til Campo di Santa Fosca, 700 metra leið. Þetta er breiðasti og greiðfærasti hluti gönguleiðarinnar milli járnbrautarstöðvarinnar og Rialto-brúar, þétt skipuð verzlunum. Í nágrenni hans eru veitingahúsin A la Vecia Cavana og Vini da Gigio.

Nokkru vestar er annar greiður kafli, Rio terrà San Leonardo, og næst járnbrautarstöðinni er Rio terrà Lista di Spagna, þar sem mikið er af hótelum. Milli þessara kafla eru þrengri hlutar, en leiðin er alls staðar greinileg.

Þetta er hinn fjörlegi hluti hverfisins Cannaregio, mjög ólíkur hinum rólegu og friðsælu skurðbökkum, þar sem heimamenn sitja með veiðistengur sínar.

Næstu skref

3. Cannaregio – Gesuiti

Borgarrölt
Tintoretto, Gesuiti, Feneyjar

Tintoretto, Gesuiti

Tiziano, Gesuiti, Feneyjar

Tiziano, Gesuiti

Gesuiti

Frá stöðinni göngum við bakkann til vesturs um 200 metra leið og beygjum til vinstri í Salizzada dei Specchieri, þar sem við komum að kirkjunni Gesuiti vinstra megin götunnar.

Ytra byrði kirkjunnar er í þunglamalegum hlaðstíl, enda er hún frá fyrri hluta 18. aldar.

Að innan skartar hún litskrúðugum marmara á veggjum og í súlum og ríkulegum veggfreskum í lofti. Tiziano og Tintoretto eru meðal höfunda altarismálverka í kirkjunni.

Næstu skref

19. San Polo – Campo della Pescheria

Borgarrölt
Pescheria, Feneyjar 2

Pescheria

Við göngum eftir Ruga degli Orefici og beint áfram Ruga degli Speziali, alls um 250 metra, að fiskmarkaðinum, þar sem við beygjum til hægri.

Fiskmarkaðurinn er í opnu höllinni Pescheria, götunni, sem liggur samsíða henni, Calle Beccarie, og til hægri á skurðbakkanum Campo della Pescheria. Í framhaldi af bakkanum til austurs er bakkinn Erberia, sem er ávaxta- og grænmetismarkaður, og þá erum við komin langleiðina til baka til Rialto-brúar.

Hér hefur aðalmarkaður Feneyja verið öldum saman. Mest er um að vera snemma morguns, þegar heimamenn kaupa í matinn. Um hádegisbilið lognast starfsemin út af.

Gaman er að skoða ferskt sjávarfangið, ótal tegundir fiska, skelja, krabba og smokkfiska. Þá eru fallegar breiðurnar af litskærum ávöxtum. Frá fiskmarkaðinum er farið um brú að dyrum veitingahússins Poste Vecie.

Við göngum úr austurenda Erberia milli San Giacomo di Rialto og Palazzo Camerlenghi og ljúkum þessari gönguferð við Rialto-brú.

Cannaregio

18. San Polo – Ruga degli Orefici

Borgarrölt

Ruga degli Orefici

Rugo degli Orefici, Feneyjar

Rugo degli Orefici

Við förum fyrir enda Rialto-brúar, sem við höfum skoðað í annarri gönguferð, og beygjum til vinstri inn í Ruga degli Orefici.

Hér við enda Rialto-brúar er helzta útimarkaðshverfi Feneyja. Það nær samfellt frá brúnni að fiskmarkaðinum í Pescheria, í götunum Ruga degli Orefici, Ruga degli Speziali, Calle Beccarie og Campo della Pescheria og ýmsum hliðarsundum. Næst brúnni eru mest vörur, sem höfða til ferðamanna, en næst fiskmarkaðinum fást matvörur heimamanna.

San Giacomo di Rialto

Næst brúnni, norðan megin götunnar er ein elzta kirkja borgarinnar, San Giacomo di Rialto.

Gotnesk kirkja frá 11. og 12. öld með upprunalegu súlnaporti við aðalinngang og upprunalegum klukkuturni.

Handan kirkjunnar gengur lítið torg út úr götunni. Þar er steinlíkneskið Gobbo frá 16. öld.

Næstu skref

 

17. San Polo – Riva del Vin

Borgarrölt

Sant’AponàlSant' Aponal, Feneyjar

Við förum af torginu um suðausturhorn þess tæplega 300 metra leið um Calle della Madonetta, Campiello Meloni og Calle Mezzo að torginu framan við Aponàl-kirkjuna.

Ekki lengur notuð sem kirkja, en þekkt fyrir gotneskar lágmyndir á stafninum.

Riva del Vin

Sant' Aponal, Feneyjar

Sant’ Aponal

Við förum til suðurs með stafni kirkjunnar og áfram eftir Calle dei Luganegher inn á Campo San Silvestro, þar sem við beygjum til vinstri inn í Rio terrà San Silvestro, sem sveigir til hægri út að Canal Grande, þar sem bakkinn heitir Riva del Vin. Alls er þetta tæpra 300 metra leið.

Við göngum bakkann í átt til Rialto-brúar.

Þetta er eini breiði bakkinn við Canal Grande, þar sem ferðamenn geta spókað sig og setið við sleitur á gangstéttar-veitingahúsi og fylgst með ferðum fólks um Rialto-brú og báta um Canal Grande. Maturinn á þessum veitingahúsum er ekki merkilegur, en ekki heldur tiltakanlega dýr.

Nafn bakkans stafar af því, að fyrr á öldum var víni skipað hér á land.

Við bakkann eru hótelin Marconi og Sturion. Í hliðargötu er veitingahúsið Alla Madonna.

Næstu skref