Borgarrölt

8. Markúsartorg – Scala dei Giganti

Borgarrölt
Scala dei Giganti, Palazzo Ducale, Feneyjar

Scala dei Giganti, Palazzo Ducale

Inn í hallargarðinn er farið um gotneskt hlið milli hennar og Markúsarkirkju, Porta della Carta. Þegar komið er inn í portið, er sigurbogi á vinstri hönd, Arco Foscari. Framundan eru miklar tröppur, stigi risanna.

Tröppurnar miklu inn í höllina voru hannaðar af Antonio Rizzo og reistar á síðari hluta 15. aldar. Nafn þeirra stafar af risavöxnum styttum eftir Sansovino efst í stiganum, af Neptúnusi og Marz, guðum láðs og lagar.

Tröppurnar voru notaðar við hátíðleg tækifæri. Í þeim voru nýir hertogar jafnan krýndir frýgversku húfunni með toppi að aftanverðu, sem minnir dálítið á kórónu Neðra-Egyptalands hins forna.

Næstu skref

 

7. Markúsartorg – Palazzo Ducale

Borgarrölt
Palazzo Ducale, Feneyjar

Palazzo Ducale

Við lágmyndina er inngangurinn í hertogahöllina.

Hertogahöllin er einkennistákn Feneyja, enda nýtur hún þess að vera til sýnis á lónsbakkanum framan við kirkjuna. Hún er mannvirkið, sem heilsar ferðamönnum, sem koma sjóleiðina til Markúsartorgs. Hún var öldum saman stjórnmálamiðstöð Feneyja, heimili hertogans, fundarstaður ríkisráðsins og öldungaráðsins, aðsetur yfirdómstólsins og leynilögreglunnar.

Í núverandi mynd er hún leikandi léttbyggð og leiftrandi fögur gotnesk höll frá 14. öld og upphafi 15. aldar. Hún er afar sérstök, byggð á tveimur hæðum súlnaganga, sem ná eftir öllum torghliðum hallarinnar, þeirri efri í blúndustíl, sem víða má sjá í Feneyjum. Ofan við súlnagöngin eru fagurlega mynztraðir og ljósir veggir úr marmara frá Verona.

Nú á tímum er hún safn. Til sýnis er íbúð hertogans og fundarsalir ríkisráðs og öldungaráðs, svo og ríkisfangelsið. Þessi glæsilegu salarkynni gefa góða hugmynd um stórveldistíma Feneyja, þegar borgin atti kappi við stórveldi á borð við Austrómverska keisaradæmið og síðar Tyrkjaveldi um yfirráð á austanverðu Miðjarðarhafi.

Næstu skref

6. Markúsartorg – Di Tetrarci

Borgarrölt
Di Tetrarchi, San Marco, Feneyjar

Di Tetrarchi, San Marco

Eftir að hafa skoðað fjársjóðastofuna förum við niður tröppurnar aftur og höldum út á torgið. Við förum til vinstri suður fyrir kirkjuna.

Á miðri þeirri hlið er lágmynd á kirkjuhorni af rómversku fjórkeisurunum.

Fræg lágmynd úr dílagrjóti, sem talin er sýna fjórkeisarana Díókletíanus, Maximíanus, Galeríus og Konstantíus, sem stjórnuðu Rómarveldi í lok þriðju aldar. Faðmlög þeirra eru hugnæm og í samræmi við raunveruleikann, því að þeir stóðu saman um stjórn ríkisins.

Næstu skref

 

5. Markúsartorg – Equini San Marco

Borgarrölt
Equini San Marco, Feneyjar

Equini San Marco

Við höldum áleiðis úr kirkjunni. Sunnan við innganginn innanverðan eru tröppur upp á kirkjusvalirnar. Þaðan er gengið inn í fjársjóðastofuna og í bronzhrossastofuna og út á svalirnar fyrir ofan anddyri kirkjunnar. Við lítum fyrst út á svalirnar.

Hrossastytturnar fjórar ofan við innganginn eru eftirlíkingar þeirra, sem þar stóðu í hartnær sex aldir, frá 1204, þegar Feneyingar rændu þeim úr Miklagarði, og til 1797, þegar Napóleon rændi þeim frá Feneyjum og flutti til Parísar. Af svölunum er ágætt útsýni niður á Markúsartorg og byggingarnar umhverfis það.

Í stofu að baki svalanna eru hinar upprunalegu hrossastyttur úr bronzi varðveittar úti í horni. Þær voru upphaflega við keisarastúku paðreimsins í Miklagarði. Margt hafa þær séð um dagana, en núna á elliárunum hafa þær ekkert útsýni.

Áður en við yfirgefum kirkjuna getum við minnzt þess, að hér varð tónskáldið Monteverdi kórstjóri árið 1613 og varð þar með upphafsmaður forustu Fenyja á sviði tónsmíða, sem náði hámarki á upphafi næstu aldar, þegar Vivaldi varð tónstjóri Pietà kirkjunnar hér í nágrenninu.

Næstu skref

4. Markúsartorg – Pala d’Oro

Borgarrölt
Pala d'Oro, San Marco, Feneyjar

Pala d’Oro, San Marco

Eftir að hafa skoðað okkur um í kirkjunni förum við inn að kórbaki til að skoða gullbríkina miklu.

Við kórbak er gullbríkin, altaristafla kirkjunnar, gerð á 10. öld af feneyskum gullsmiðum, þrír fermetrar að stærð, þakin 250 smámyndum, sem hver um sig er skreytt dýrindis eðalsteinum og glerungi. Þessi altaristafla er einstök í sinni röð í heiminum og án efa sú verðmætasta. Napóleon rændi nokkrum eðalsteinum úr henni, en að öðru leyti hefur hún varðveizt.

Stundum er erfitt að greina á milli sökudólga og fórnardýra í ránum og gripdeildum veraldarsögunnar. Glerungnum í gullbríkinni rændu Feneyingar í Miklagarði 1204, þar sem þeir rændu líka hrossunum á kirkjuloftinu. Napóleon rændi síðan hrossunum af þaki Markúsarkirkju 1797, en þeim var síðan skilað, þegar hann hafði hrökklazt frá völdum.

Helgustu minjum kirkjunnar, jarðneskum leifum Markúsar guðspjallamanns, rændu Feneyingar raunar í Alexandríu 828 og voru stoltir af. Raunar gilti um þá eins og Víkinga og fleiri siglingaþjóðir, að oft var skammt milli kaupsýslu og gripdeilda á sjóferðum þeirra. Feneyingar sneru til dæmis fjórðu krossferðinni upp í að rústa og ræna keppninaut sinn í Miklagarði.

Næstu skref

3. Markúsartorg – San Marco að innan

Borgarrölt
San Marco, Feneyjar 2

San Marco

Gengið er inn í kirkjuna um miðdyrnar að framanverðu.

Markúsarkirkja breytist að innan í sífellu eftir því, hvaðan birtan fellur á steinfellumyndirnar. Bezt er að skoða þær af kirkjusvölunum. Hvelfingin, sem sést bezt þaðan er Hvítasunnuhvelfingin með elztu steinfellumyndunum, frá 12. öld. Upprisuhvelfingin í kirkjumiðju er frá 13. öld.

Steinfellumyndirnar þekja samtals heila ekru. Þær eru líflegar og sýna samskipti fólks, greina kirkjuna frá hinum stirðnuðu býzönsku fyrirmyndum, þar sem hver persóna lifir í eigin heimi. Þannig marka þær upphaf þeirrar forustu, sem feneyskir listamenn tóku í málaralist Vesturlanda og héldu um nokkrar aldir.

Næstu skref

2.Markúsartorg – San Marco

Borgarrölt
San Marco, Feneyjar 6

San Marco

Við byrjum á því að skoða Markúsarkirkju.

Ævintýrahöll úr Þúsund og einni nótt, austræn kirkja í vestrænni kristni, reist 1063-1094 í býzönskum stíl, jafnarma kross að grunnfleti, með fimm hvelfingum á þaki. Hún er bezta dæmi Feneyja um hin miklu og aldalöngu sambönd borgríkisins við hinn gríska eða býzanska heim, löndin um austanvert Miðjarðarhaf og Miðausturlönd.

Öldum saman var hún hlaðin skarti og dýrgripum að innan sem utan. Þó varð hún ekki dómkirkja Feneyja fyrr en 1807, en hafði fram að því verið einkakirkja hertogans, oft notuð við móttöku sendiherra og annarra borgaralegra athafna. Í henni var val nýs hertoga kynnt fyrir borgurunum og frá henni var farið í skrúðgöngur um víðáttumikið Markúsartorg.

Steinfellumyndir einkenna kirkjuna að utan og innan, í veggjum, lofti og jafnvel gólfi. Þær eru frá ýmsum tímum, en flestar þó frá miðöldum, yfirleitt eftir óþekkta listamenn. Núverandi útlit fékk kirkjan á síðari hluta 15. aldar og fyrri hluta 16. aldar. Fræg eru bronzhrossin, sem voru áður yfir aðalinngangi, en eru nú geymd í hliðarsal að baki núverandi eftirlíkinga.

Næstu skref

9. Inngangur – Matur

Borgarrölt

Matreiðsla

Útlendingar halda oft, að ítölsk matreiðsla felist aðallega í pöstum á pöstur ofan. Í rauninni er málið flóknara. Ítalir tala ekki um ítalska eldamennsku, heldur feneyska, toskanska, lígúrska, latneska og svo framvegis. Feneyska eldamennskan leggur mikla áherzlu á hrísgrjón og sjávarfang og er undir meiri austrænum áhrifum en önnur eldamennska á Ítalíu.

Pescheria, Feneyjar 2

Pescheria, fiskmarkaðurinn

Matseðlar

Dæmigerður ítalskur matseðill er í fimm köflum: Antipasti = forréttir; pasti eða asciutti eða primi piatti = pastaréttir eða hrísgrjónaréttir; secundi piatti = fiskur eða kjöt; contorni eða verdure = grænmeti og salöt; dolci og frutti og formaggi = eftirréttir, ávextir og ostar.

Engar reglur eru um fjölda eða röð rétta á matseðli. Sumir fá sér forrétt og síðan tvær pöstur, hverja á fætur annarri. Venjulegastir eru þrír réttir. Er þá til dæmis byrjað á forrétti eða pöstu og endað á síðari rétti með hliðarrétti. Eða byrjað á pöstu og endað á síðari rétti með hliðarrétti. Eða byrjað á pöstu, farið í síðari rétt og endað á eftirrétti.

Verð forréttar, pöstu eða flösku af víni hússins er yfirleitt nálægt því að vera tvöfalt verð hliðarréttar eða eftirréttar; og verð aðalréttar er venjulega þrefalt verð þeirra rétta. Verðið hér er yfirleitt miðað við forrétt, aðalrétt, hliðarrétt, eftirrétt, flöskuvatn og kaffi. Allt verð er gefið upp fyrir tvo.

Sérgreinar

Sjávarfang er merkilegast í matreiðslu Feneyinga. Að öðru leyti er ein helzta matarsérgreinin Polenta = maísþykkni, oft skorið í sneiðar og grillað. Önnur er Fegato alla veneziana = pönnusteikt kálfalifur með lauk. Vinsælt er Carpaccio = næfurþunnar sneiðar af hráu nautakjöti með olífuolíu og salati. Sígilt er Insalata mista = blandað hrásalat, yfirleitt frábært.

Frægasti eftirréttur Feneyja er Tiramisù, eins konar ostatertubúðingur, kryddaður með kaffi og súkkulaði. Hann kemur frá Miklagarði og hefur breiðst frá Feneyjum út um Evrópu. Ostar frá héraðinu eru Asiago, Fontina og Montasio. Flest veitingahús hafa líka Grana, Taleggio og Gorgonzola á boðstólum.

Sjávarréttir

Mörg feneysk veitingahús leggja áherzlu á Antipasto di frutti di mare = blandaða sjávarrétti í forrétt. Þar er hægt að bragða ýmislegt frábært, svo sem Aragosta = humar; Calamari og Seppie = smokkfisk; Cappe og Vongole = skelfisk; Cappesante = hörpufisk; Folpi og Polipo = kolkrabba; Gamberi = mjög stórar rækjur; Granceola = kóngulóarkrabba; og Scampi = stórar rækjur.<P>

Vinsæll af heimamönnum er Baccalà mantecata = plokkaður saltfiskur, vel útvatnaður og blandaður olífuolíu, steinselju og hvítlauk.

Algengir fiskar úr Adríahafi eru Branzino = barri; Rospo = skötuselur; Orata = brassi; Rombo = þykkvalúra; San Pietro = Pétursfiskur; Sogliola = koli; og Spigola = barri. Yfirleitt eru þeir beztir grillaðir.

Kaffi

Ítalir eru fremstu kaffimenn heims. Þeir drekka kaffið nýmalað úr espresso vélum. Oftast drekka þeir það espresso eða caffé = mjög sterkt, eða doppio = tvöfalt magn af mjög sterku kaffi. Á morgnana drekka sumir þeirra cappucino = espresso blandað loftþeyttri mjólk. Slæmt kaffi fyrir ferðamenn er kallað americano. Ítalir drekka kaffið standandi við barinn.

Vín

Vín hússins eru yfirleitt vel valin og hagkvæm, annað hvort bianco eða rosso, hvít eða rauð. Vínáhugafólk getur litið í vínlistann til a
ð leita að einhverju nýstárlegu, því að ekkert land í heimi hefur eins mörg mismunandi merki. Ítalskt vín er yfirleitt gott, heilbrigt og einfalt, en nær sjaldnast frönskum upphæðum. Ítalir taka vín ekki eins alvarlega og Frakkar.

Vínhéruðin norðan og vestan Feneyja eru Veneto og Friuli. Beztu vínin tilgreina vínsvæði og þrúgutegund á flöskumiða. Á Colli Euganei svæðinu er ræktað mikið af Merlot. Önnur góð svæði í Veneto eru Breganze, Gambellara, Pramaggiore, Conegliano-Valdobbiadene og Piave. Í Friuli eru Aquileia, Collio Goriziano, Colli Orientali, Grave del Friuli, Isonzo og Latisana.

Aðeins vestar, í hæðunum við Verona eru enn þekktari vínsvæði, svo sem Bardolino, Valpolicella, Soave og innan þeirra enn þrengri og betri svæði, kölluð Superiore og Classico, þar sem bezt er.

Og þá er loksins kominn tími til að skoða Feneyjar.

Markúsartorg

 

8. Inngangur – Veitingar

Borgarrölt

Veitingar

Hádegisverðartími er 12:30-14, kvöldverðartími 19:30-22. Yfirleitt skilur eigandinn eða einhverjir þjónar ensku. Feneysk veitingahús eru yfirleitt lítil og hreinleg, stundum tilviljanalega innréttuð. Þau hafa yfirleitt lín á borðum og línþurrkur, oftast hvítar.

La Caravella, restaurant, Feneyjar

La Caravella, restaurant

Hvergi í heiminum er þjónusta betri en á Ítalíu. Þjónar eru yfirleitt fljótir og afkastamiklir. Þeir fylgja vel eftir með nýjum réttum, þangað til þú ert kominn í síðasta rétt. Þá hægir á öllu. Ítalir virðast vilja snæða hratt og fara sér síðan hægt yfir vínglasi eða kaffi. Snör þjónusta þýðir ekki, að þjónninn vilji losna við þig.

Matarvenjur

Ítalir borða ekki mikið á morgnana. Þeir fá sér espresso eða cappucino og cornetto smjördeigshorn á kaffihúsi götuhornsins. Hádegismatur í Feneyjum hefst oftast kl. 13 og kvöldverður kl. 20. Bæði hádegisverður og kvöldverður eru heitar máltíðir og jafn mikilvægar. Ítölum geðjast að mat og innbyrða hann svikalaust.

Þeir fara hins vegar varlega með vín og sumir drekka aðeins vatn. Kranavatn er drykkjarhæft í Feneyjum. Í veitingahúsum drekka samt flestir vatn af flöskum, aqua minerale, kallað frizzante, ef það er sódavatn.

Sjá meira

G. Sjáland

Borgarrölt, Kaupmannahöfn

Útrás um Sjálandsbyggðir

Við erum nú orðin svo kunnug Kaupmannahöfn, að við höfum dag aflögu fyrir danska sveitasælu. Við fáum okkur bíl á leigu til að skoða á Norður-Sjálandi hið dæmigerða danska landslag, kastala, söfn og dómkirkju. Við getum auðvitað farið í hópferðir til þessara staða, en frjálslegra er að fara með eigin tímaskyni á eigin spýtur.

Ef við ætlum að skoða allt, sem hér er lýst, á einum degi, verðum við að láta hendur standa framúr ermum. Leiðin er 175 kílómetrar og tekur tæpar fjórar klukkustundir í akstur. Vegna takmarkaðs opnunartíma merkisstaða verða þá ekki nema fimm stundir aflögu til skoðunar.

Þá er um að velja að sleppa einhverju og skoða annað lauslega, sem við höfum á minnstan áhuga, eða taka tvo daga í ferðina. Þá gistum við annaðhvort á Hotel Marienlyst á Nordre Strandvej 2, Helsingjaeyri, eða á Hotel Store Kro á Slotsgade 6, Fredensborg.

Lousiana, Henry Moore

Lousiana, Henry Moore í forgrunni

Við leggjum af stað 9 að morgni, finnum Østerbrogade og ökum hana til norðurs. Nafn hennar breytist fljótlega í Strandvejen, enda fylgjum við ströndinni úr borginni. Þetta er engin hraðbraut, heldur mjór vegur, sem bugðast um sjávarpláss, sumarhús og sveitasetur. Í góðu veðri sjáum við til Hveðnar (Ven) og Svíþjóðar.

Louisiana

Með rólegum akstri komum við til þorpsins Humlebæk um 10, þegar Louisiana-safnið er opnað. Þetta er gamalt sveitasetur í stórum og glæsilegum garði nyrzt í þorpinu, heilt völundarhús nútímalistar, bæði úti og inni, í gamla húsinu og í nýjum sölum. Þetta er eitt frjálslegasta safn, sem um getur, umvafið fersku sjávarlofti. Þegar við heimsóttum það síðast, var þar mjög stór sýning á verkum Picasso.

Næstu skref

7. Inngangur – Gisting

Borgarrölt

 

Danieli, hótel, Feneyjar 2

Danieli hótel, gestamóttaka

Hótel í Feneyjum eru yfirleitt hrein og vel við haldið, þar á meðal pípulagnir, ef þau hafa þrjár stjörnur eða fleiri. En tveggja stjörnu hótel geta líka verið mjög góð, þótt þau hafi ef til vill ekki sjónvarpstæki á herbergjum. Einka baðherbergi er talið sjálfsagt. Sum hótel hafa verið innréttuð í frægum höllum, sem eru enn innréttaðar í gömlum stíl.<

Dýrara er að gista í Feneyjum en annars staðar á Ítalíu. Þú getur þess vegna gist uppi í landi og farið á morgnana með lest eða bíl í bæinn, en það kostar auðvitað bæði tíma og peninga. Morgunverður á ítölskum hótelum er yfirleitt nauðaómerkilegur, svipað og á frönskum hótelum. Betra er að fá sér ferskt pressaðan safa, nýbakað brauð og kaffi úti á horni.

Sjá meira

6. Inngangur – Gondólar

Borgarrölt
Gondólar, Feneyjar

Gondólar við Harry’s Bar

Gondólar

Gondólar eru eitt helzta einkennistákn Feneyja, smíðaðir í 1000 ára gömlum stíl, breiðari öðrum megin til að vega upp á móti einni ár. Gondólarnir eru allir svartir, 11 metra langir, vandlega smíðaðir úr níu viðartegundum og kosta yfir eina milljón króna hver. Þegar þeir voru helzta samgöngutæki borgarinnar, voru þeir um 10.000, en núna eru þeir 400.

Þegar Feneyjar urðu ferðamannaborg, breyttust gondólarnir úr hversdagslegu samgöngutæki yfir í rómantískan unað, þar sem ræðarinn söng aríur fyrir ástfangin farþegapör. Þriðja stigið kom svo með japönskum ferðamönnum, sem fara fjölmennir saman í gondólum um Canal Grande og hafa með sér harmoníkuleikara og aríusöngvara. Sú er helzt notkun gondóla nú á tímum.

Kjötkveðjuhátíð

Karnívalið í Feneyjum er elzta og sögufrægasta kjötkveðjuhátíð heims og hófst á 11. öld. Framan af var það tveggja mánaða veizla, en stendur núna í tíu daga fyrir föstubyrjun í febrúar. Fólk klæðist grímubúningum, fer í skrúðgöngur og reynir að sleppa fram af sér taumunum. Margir búningarnir eru stórkostlegir og grímurnar eru ein helzta ferðamannavara borgarinnar.

Sjá meira

 

 

5. Inngangur – List

Borgarrölt
Accademia: Tintoretto, Feneyjar

Accademia: Tintoretto

Feneyskir málarar, fæddir þar eða búsettir, voru allar aldir meðal fremstu listamanna Ítalíu. Þeir kynntu ekki nýjungar á borð við gotneskan stíl og endurreisnarstíl, en þeir tóku þær upp og gerðu þær að hefð. Róm og Flórenz eru frægari fyrir einstök tímabil ítalskrar listar, en Feneyjar eiga mikla listamenn frá öllum þessum tímabilum. Og málverk þeirra eru enn í Feneyjum.

Feneysk list fæddist af meiði Miklagarðs og blandaði saman býzönskum stíl og gotneskum. Mósaík og gullinn litur einkennir fyrstu listamenn Feneyja, svo sem frændurna Paolo og Lorenzo Veneziano. Síðan komu Jacopo Bellini, bræðurnir Gentile og Giovanni Bellini, Andrea Mantegna, Bartolomeo Vivarini og Vittoro Carpaccio með skarpar myndir á frumskeiði endurreisnartímans.

Háskeið endurreisnartímans endurspeglast svo í leik ljóss og skugga í málverkum Tiziano, Tintoretto og Paolo Veronese. Helztu fulltrúar Feneyja frá tímum hlaðstíls og svifstíls voru svo Canaletto, Pietro Longhi og frændurnir Giambattista og Giandomenico Tiepolo. Í nánast hverri af hinum mörgu kirkjum Feneyja má finna málverk eftir þessa heimsfrægu meistara.

Sjá meira

4. Inngangur – Hallir

Borgarrölt
Palazzo Ducale, Feneyjar 2

Palazzo Ducale, fremst Colonne di San Marco e San Teodoro

Hundruð halla þekja síkisbakka Feneyja. Þær snúa yfirleitt fögrum framhliðum að vatninu og einföldum bakhliðum að göngugötum. Oftast eru þær fjórar hæðir. Neðst voru vörugeymslur og skrifstofur. Þar fyrir ofan voru stofur á helztu glæsihæðinni, piano nobile. Þriðja hæðin var íbúðarhæð fjölskyldunnar og á fjórðu
hæð bjuggu þjónarnir.

Elztu og fegurstu hallir Feneyja eru frá 13. öld. Þær eru í býzönskum stíl með léttum og háum bogariðum á grönnum súlum, sem ná þvert yfir veizlustofuhæð framhliðarinnar. Palazzo Loredan er gott dæmi. Flestar eru gotnesku hallirnar, frá 13.-15.öld og einkennast of oddbogum, oddmjóum gluggum og blúndugluggum. Palazzo Foscari er gott dæmi um þennan stíl.

Frá 15.-16.öld eru þyngri hallir í endurreisnarstíl, samhverfar og mælirænar, með riffluðum súlum og kórinþskum súluhöfðum. Ca’Grande er gott dæmi. Frá 17. öld eru svo þunglamalegar hlaðstílshallir með ýktu skrautflúri og djúpum gluggum á framhliðum. Ca’Pesaro er gott dæmi um þann stíl.

Sjá meira

 

3. Inngangur – Verndun

Borgarrölt
Grand Canale, Feneyjar 3

Grand Canale, Santa Maria della Salute fyrir miðju

Feneyjar hafa verið að síga í sæ, aðallega á síðustu áratugum. Stafar það einkum af uppþurrkun lands vegna útþenslu iðnaðar í nágranna-borgunum Mestre og Porto Marghera og vegna óhóflegrar notkunar á tilbúnum áburði í Pó-dal. Þá hefur notkun vélbáta valdið ókyrrð í síkjum og veikt undirstöður húsanna. Með ýmsum aðgerðum hefur landsigið hægt á sér, en alls ekki stöðvazt.

Eldhætta er mikil í borginni vegna hins takmarkalitla kæruleysis, sem einkennir borgarstjórnina eins og fleiri slíkar á Ítalíu. Ómetanleg listaverk, margra alda og þúsund ára gömul eru í stöðugri hættu vegna afleitra eldvarna í borginni. Þetta kom vel í ljós, þegar óperuhúsið Fenice brann í ársbyrjun 1996.

Sjá meira