Borgarrölt

10. Írland – Giant’s Causeway

Borgarrölt
Giants' Causeway, Norður-Írland

Giants’ Causeway

Áfram förum við B15 út á A2 og komum fljótlega að ferðamannamiðstöð, þaðan sem litlir strætisvagnar flytja fólk fyrir £0,50 niður á strönd að stuðlabergi, sem er þekktasta náttúruundur Írlands.

Giant’s Causeway er víðáttumikið stuðlaberg, sem gengur í sjó fram. Steinninn er úr basalti og hefur myndazt við afar hæga storknun hrauns, þannig að steinninn hefur náð að kristallast í margstrendar súlur. Þetta fyrirbæri er víða á Íslandi, en sjaldgæft annars staðar. Súlurnar í Giant’s Causeway eru taldar vera 40.000. Aðgangur £1,50.

Næstu skref

9. Írland – Carrick-a-Rede

Borgarrölt

Ballygally

Við ökum nú greiða leið áfram A2 og stönzum ekki fyrr en við gamalt kastalahótel á vegarbrúninni við sjávarsíðuna.

Ballygally Castle var reistur 1625 í skozkum stíl, enda er í góðu skyggni útsýni úr honum til Skotlands. Hann er vel varðveittur í upprunalegu ástandi, en mestur hluti hótelsins er í viðbyggingu. Sum gistiherbergin eru í gamla kastalanum og er sjálfsagt að panta þau.

Cushendun

Carrick-a-Rede, Norður-Írland

Carrick-a-Rede

Áfram höldum við A2 til Glenariff, þar sem okkur eru tveir kostir á höndum. Við getum farið til vinstri smáhringferð eftir A43 um Glenariff-skóg og -foss og síðan B14 til Cushendun eða farið til hægri með sjónum eftir B92 til Cushendall og Cushendun.

Cushendall og Cushendun eru rómantísk þorp við ströndina. Hið síðarnefnda er allt undir verndun þjóð–minjalaga. Hvít og friðsæl smáhús lúra milli
stóra trjáa við breiðar götur.

Carrick-a-Rede

Frá Cushendun förum við aftur inn á A2 og á honum til Ballycastle, þar sem við beygjum til hægri eftir B15 og komum fljótlega að bílastæði, þaðan sem gengin er hálftíma leið að frægri hengibrú fyrir göngufólk.

Carrick-a-Rede er 20 metra löng göngubrú, sem liggur í 25 metra hæð frá landi yfir í höfða, þar sem fiskimenn stunda laxveiðar á sumrin. Göngubrúin er úr reipum og sveiflast undir fólki, svo að ekki er heiglum hent að fara yfir hana. Ekki fara þó neinar sögur af slysum á brúnni í 200 ára sögu hennar.

Næstu skref

 

8. Írland – Carrickfergus

Borgarrölt
Carrickfergus Castle, Norður-Írland

Carrickfergus Castle

Carrickfergus

Við ökum úr bænum, fyrst M2, síðan M5 og loks A2, samtals stutta leið til Carrickfergus úti við sjóinn. Við stönzum á bílastæði við bátahöfn og kastala, sem er áberandi við aðalgötu bæjarins.

Carrickfergus Castle stendur á sjávarhömrum, upprunalega laus frá meginlandinu. Hann er normanskur kastali frá 1180, einn af stærstu og bezt varðveittu kastölum á Írlandi. Hann varði innsiglinguna til Belfast og var lengi eitt helzta virki Englendinga gegn írskum uppreisnarmönnum. Hann var þó tekinn þrisvar, af Skotum 1315, af mótmælendum 1689 og Frökkum 1760.

Í kastalanum er safn, sem segir sögu hans. Elzti hlutinn er innsta og hæsta virkið, en utar eru tvö yngri virki. Kastalinn er afar gott sýnishorn af verk- og varnartækni hinna fransk-norrænu Normanna á miðöldum.

Dobbin’s

Við göngum þvert yfir aðalgötuna til gamla kráarhótelsins á staðnum.

Dobbin’s Inn er dæmigert hótel í fornu húsi í gömlum stíl írskum, frægast fyrir nafnkunnan draug, “Maud”, sem þar er sagður búa. Frá hótelinu eru neðanjarðargöng til kastalans og til bæjarkirkjunnar. Hér getum við gist eða matast eða farið á krána áður en við höldum lengra.

Næstu skref

7. Írland – Belfast

Borgarrölt
City Hall, Belfast, Norður-Írland

City Hall, Belfast

Belfast

Aftur förum við inn á N1, yfir landamærin til Norður-Írlands, þar sem vegurinn heitir A1, alla leið inn í miðbæ í Belfast. Úr King Street ökum við inn í bílageymslu við Castlecourt verzlanakringluna. Þaðan er um 600 metra gangur, fyrst eftir King Street og síðan til vinstri eftir Wellington Place, að miðpunti borgarinnar, ráðhúsinu.

City Hall er mikilúðlegasta mannvirkið í Belfast, hvít höll, sem allar leiðir liggja að. Hún var reist 1898-1906 í nýgnæfum rjómatertustíl með mikilli koparhvelfingu yfir miðþaki. Ferðamenn mega skoða höllina.

Fyrir framan er Donegal Square, aðaltorg borgarinnar og strætisvagnamiðstöð hennar. Andspænis ráðhúsinu handan torgsins eru göngugötur.

Crown Liquor

Sömu leið förum við til baka. Ef við beygjum til vinstri í Fisherwick Street í stað þess að fara til hægri í King Street, komum við eftir 200 metra að þekktasta hóteli og frægustu krá borgarinnar við Great Victoria Street.

Crown Liquor, bar, Belfast

Crown Liquor

Hotel Europe hefur nýlega verið gert upp og er nú afar vel búið að öllu leyti. Andspænis hótelinu er Crown Liquor Saloon, ríkulega skreyttur að utan og innan. Kráin er í vel varðveittum viktoríustíl, með postulínsflísum að utan, steindum gluggum, gasljósum, lokuðum gestabásum við útvegg og útskornum viðarsúlum og viðarlofti. Þetta er sennilega merkasta mannvirki borgarinnar og sælustaður göngumóðra. Ef hann væri ekki, mundum við tæpast stanza lengi í Belfast.

Næstu skref

6. Írland – Monasterboice

Borgarrölt
Monasterboice, Írland

Monasterboice

Við förum áfram eftir hliðarveginum samkvæmt vegvísi til Monasterboice.

Í kirkjugarðinum í Monasterboice er mikill sívaliturn frá víkingatíma. Slíka turna reistu írskir munkar til að skýla sér og dýrgripum kirkjunnar fyrir víkingum. Turninn var brenndur 1097 og gripum tvístrað, en stendur enn að mestu leyti.

Í kirkjugarðinum eru þrír hákrossar, einsteinungar frá 10. öld, sá stærsti 7 metra hár. Þetta eru einna bezt varðveittu og fegurstu hákrossar Írlands, rækilega myndhöggnir atburðum úr biblíunni.

Hákrossar með löngum fæti og baug um krossmiðju voru einkenni írskrar kristni frá 8. öld og fram á 10. öld, á stórveldistíma Írlands sem miðpunkts hins kristna heims. Þeir voru 2-7 metra háir, fyrst skreyttir óhlutlægum táknum og síðar biblíumyndum.

Ballymascanlon

Héðan förum við beint á N1 í átt til Dundalk. Við förum framhjá miðbænum eftir vegvísi í átt til Belfast, förum yfir brú og framhjá kirkjugarði út úr Dundalk, alltaf á N1, og skömmu síðar eftir vegvísi til Ballymascanlon hótels.

Næstu skref

5. Írland – Mellifont

Borgarrölt
Mellifont Abbey, Ireland

Mellifont Abbey

Við förum til baka og beygjum til hægri á N51, en næstum strax aftur til vinstri eftir vegpresti til Mellifont-klausturs.

Mellifont eru vel varðveittar rústir elzta klausturs af reglu Sistersíana á Írlandi, frá 1142. Aðeins sjást undirstöður kirkjunnar, sem var vígð 1157. Eftir standa einkum garðport hægra megin og átthyrnt handþvottarhús fyrir miðju, hvort tveggja upprunalegt, svo og vinstra megin yngra kórsbræðrahús frá 14. öld. Klaustrið var lagt niður 1556. Aðgangur £0,80.

Næstu skref

4. Írland – Newgrange

Borgarrölt
Newgrange, Írland 2

Newgrange

 

Við höllum okkur aftur að R161 og ökum hann til Navan og þaðan N51 um Slane í átt til Drogheda, unz við komum að vegvísi til Newgrange-hofs.

Newgrange er mikið útfararhof frá því um 3000 fyrir Krists burð, eitt hið merkasta af því tagi í Evrópu. Það er grasi vaxinn steinhaugur, klæddur hvítu kvarzi, gerður af manna höndum, 80 metra breiður og 12 metra hár. Hið næsta er hann umlukinn liggjandi björgum, sem sum eru höggvin táknum, en fjær er hringur lóðréttra steina. Bygging hofsins hefur verið mikið afrek á tímum frumstæðrar tækni og ber vott um öfluga trú og styrka stjórn.

Newgrange, Ireland

Newgrange

Frá íhvolfum inngangi liggur 20 metra langur gangur inn í útfararsal með þremur útskotum.

Á vetrarsólstöðum skín sólin nærri lárétt eftir ganginum inn í greftrunarsalinn og lýsir hann upp í nokkrar mínútur. Aðgangur £1,50.

Næstu skref

3. Írland – Tara

Borgarrölt
Tara Hill, Írland

Tara Hill

Frá Trim förum við R161 í áttina til Navan og finnum vegprest, sem vísar leiðina til Tara-hæðar.

Tara var eins konar Þingvöllur Norðvestur-Írlands í heiðnum sið, en lætur núna lítið yfir sér. Þar er kirkja með trjálundum nær og beitilandi í brekkunum fjær. Þar mótar fyrir hólum, sem eru leifar af fornu helgisetri, konungshöll og þingstað Kelta frá heiðnum tíma, er Tara var eins konar höfuðstaður Írlands. Eftir valdatöku Njálunga í Ulster á 6. öld og kristnitöku á Írlandi var hér kristinn helgistaður fram til 1022. Eftir það hvarf Tara af sjónarsviðinu, en lifði áfram í sögum og ævintýrum.

Næstu skref

 

2. Írland – Trim

Borgarrölt
Trim Castle, Ireland

Trim Castle

Við förum N3 norður frá Dublin og beygjum í Black Bull á R154 til kastalans í Trim á bakka árinnar Boyne.

Rústir Trim Castle eru einna fyrirferðarmestar í öllu landinu, nærri hektari að flatarmáli. Enskir landvinningamenn reistu kastalann á miðöldum. Hann er lauslega normanskur að stíl, miðturninn frá 1220-1225 og útveggirnir frá 1250. Héðan slapp Hinrik IV úr fangavist á vegum Ríkharðs II og vann af honum ensku krúnuna.

Gengið er úr þorpsmiðju upp í kastalann að vestanverðu. Í miðturninum voru tveir veizlusalir og svefnherbergi þar fyrir ofan. Aðalhlið kastalans var áður að austanverðu, þar sem voru tvær vindubrýr og  útvirkisturn með dýflissum.

Næstu skref

3. Inngangur – Gisting

Borgarrölt

Mörg notaleg hótel hafa verið innréttuð í mjóu, 300-350 ára gömlu húsunum við síkin. Enn fleiri veitingahús eru í þessum gömlu húsum, mörg hver prýdd forngripum sautjándu aldarinnar. Ekki má heldur gleyma knæpunum, sem margar eru óbreyttar enn þann dag í dag.

Helst viljum við búa í gömlu húsi með útsýni út á eitthvert síkið, varðað trjám, til þess að hafa Amsterdam fyrir augunum, einnig þegar við hvílum okkur. Um leið viljum við, að þreyttir ferðamenn hafi um nætur sæmilegan svefnfrið í herbergjum sínum, þótt þau snúi út að síkisgötu.

Pulitzer hotel, Amsterdam 2

Pulitzer hótel er innréttað í mörgum síkishúsum.

Síðast en ekki sízt finnst okkur nauðsynlegt, að hótelið sé í miðborginni, svo að unnt sé að ganga í rólegheitum í 17. aldar andrúmslofti til allra áhugaverðustu staðanna. Leigubílar eru ekki á hverju strái og bílstjórar aka sumir eins og brjálaðir menn milli umferðarhnúta.

Næstu skref

6. Dublin – Doheny & Nesbitt’s

Borgarrölt
Doheny & Nesbitt, bar, Dublin 2

Doheny & Nesbitt’s

Doheny & Nesbitt’s

Hefðbundin og fremur þreytuleg drykkjukrá stjórnmálanna innan um söngkrárnar í Baggot Street er Doheny & Nesbitt, ein frægasta krá miðbæjarins.

Þetta er afar dimm og afar lítil krá með ljótu dúkagólfi og rifnum auglýsingaspjöldum og speglaauglýsingum á veggjum, svo og stórum leirkerjum uppi undir lofti. Spegluð skilrúm eru við barinn og gera hann enn þrengslalegri.

Kráargestir koma úr þinghúsinu og stjórnarráðinu handan við hornið, stjórnmálamenn, þingfréttaritarar og embættismenn.

(Doheny & Nesbitt, 5 Lower Baggot Street, E2)

Baggot Inn

Rokkkrá miðbæjarins er Baggot Inn, snyrtileg krá við samnefnda söngkráagötu.

Kráin er fremur fínleg og björt af söngkrá að vera, U-laga og tvískipt. Speglar eru á súlum og lág skilrúm við veggi, þar sem hanga málverk og ljósmyndir af rokkurum.

Hingað koma gestir til að hlusta á nýjustu rokkhljómsveitirnar, sem einkum halda tónleika á hæðinni fyrir ofan.

(The Baggot Inn, Lower Baggot Street, D2)

Toner’s

Helzta listamannakrá borgarinnar er Toner’s við Baggot Street, 200 ára gömul krá, sem er að mestu leyti með upprunalegu útliti og raunar næsta þreytuleg.

Við barborð úr mahoní eru speglaðar stúkur og þröngar. Í barveggnum eru miklar skúffur og margar, leifar frá þeim tíma, er hér var einnig nýlenduvöruverzlun. Gamlar bækur eru þar fyrir ofan. Mikið flísaskraut er fyrir barenda og glerskápur með minjagripum andspænis barnum.

Meðal gesta er töluvert af samræðugóðum skáldum og fólki, sem heillast af samræðugóðum skáldum.

(Toner’s, 139 Lower Baggot Street, E1)

Abbey Tavern

Á endastöð borgarjárnbrautarinnar við Howth-höfða í norðri er þjóðlagakrá fyrir ferðamenn, sú bezta af því tagi. Það er Abbey Tavern við bratta götu upp frá höfninni.

Dagskráin fer fram í stórum sal að kráarbaki, þar sem margir rútufarmar ferðamanna sitja og fá sér snæðing við kertaljós fyrir skemmtunina, sem verður flestum minnisstæð.

Hljóðfæraleikararnir og söngvararnir spanna yfir breitt svið írskra þjóðlaga frá ýmsum tímum, fornum og nýjum. Þeir leika einkum á fiðlur og gítara, en einnig á skeiðar og blístrur og pípur. Tónlistin er ósvikin og sagnfræðilega rétt, en nær eigi að síður að hjörtum erlendra áheyrenda. Þetta er fyrsta flokks skemmtun.

Næst er það landsbyggðin, græna Írland

5. Dublin – Neary’s

Borgarrölt
Neary's, bar, Dublin 2

Neary’s

Neary’s

Leikhúskrá miðbæjarins er auðvitað að baki Gaiety leikhússins. Leikarainngangur Gaiety og bakinngangur Neary’s standast nokkurn veginn á, en aðalinngangur kráarinnar er við þvergötu út frá Grafton Street.

Kráin er tvískipt, fremur lítil, með stórum speglum. Sérkennilegir gasljósastaurar úr smíðajárni eru á bleiku marmara-barborði. Fínt teppi er á gólfi og þykkar setur í stólum, enda er þetta ekki slordónastaður.

Í hópi viðskiptavina er slæðingur af leikurum og tónlistarmönnum innan um ferðamennina. Peter O’Toole er sagður halda til hér, þegar hann er í Dublin.

(Neary’s, 1 Chatham Street, C2)

Horseshoe

Frægasti hótelbar borgarinnar er Horseshoe Bar í austurenda jarðhæðar Shelbourne-hótels, afar lítill og þétt skipaður.

Með útveggjum eru leðursófar við hringlaga tréborð með öldubrjóti og í miðjunni er skeifulaga barborð með fínum barstólum. Hátt er til lofts og lítið um skreytingar, en mikið um spegla.

Hingað koma vel stæðir ferðamenn, einkum Bandaríkjamenn, því að hér eru löguð hanastél; svo og skartbúið fólk, sem kemur hingað á Benzum og Jagúörum úr úthverfunum.

(The Horseshoe Bar, The Shelbourne Hotel, St Stephen’s Green North, D2)

Foley’s

Söngkrá á uppleið við Merrion Row – Baggot Street kráarásinn reisir íslenzka fánann að húni, þegar tekur að hausta og mörlandar komast í innkaupastuð. Það er Foley’s Lounge Bar, eins konar millistig kráar og veitingasalar.

Þetta er frekar ánægjulegur staður, bjartur og rúmgóður, með teppi á gólfi, imbakassa og málverkasýningu á veggjum og voldugri klukku við endavegg. Brjóstmyndir eru af myndarlegum herrum, en engir eru þeir íslenzkir enn.

Írsk þjóðlög eru leikin og sungin hér öll virk kvöld vikunnar og í hádegi sunnudags, en á sunnudagskvöldum er djassað.

(Foley’s Lounge Bar, Merrion Row, D2)

O’Donoghue’s

Andspænis Foley’s við Merrion Row er ein frægasta söngkrá Írlands, O’Donoghue’s, skuggaleg krá, sem hefur írskar ballöður að sérgrein.

Kráin er lítil og kraðaksleg með rauðum og grænum neonljósum ofan við flöskur og glös í barvegg, þar sem líka eru peningaseðlar frá öllum heimshornum. Á veggjum eru gamlir auglýsingaspeglar.

Kráin hefur verið í fararbroddi endurreisnar írsku ballöðunnar. Gestir koma með gítarana sína, enda er tónlistin ekki skipulögð, heldur kemur upp úr grasrótinni. Hér byrjuðu Dubliners frægðargöngu sína um heimsbyggðina.

(O’Donoghue’s, 15 Merrion Row, D2)

Næstu skref

4. Dublin – McDaid’s

Borgarrölt
Mc Daids, bar, Dublin

Mc Daid’s

McDaid’s

Bókmenntakráin í miðbænum er hin örsmáa McDaid’s við örstutta þvergötu frá Grafton Street, nánast undir Westbury hóteli. Hér sátu Brendan Behan og fleiri þekktir rithöfundar.

Kráin er fallega skreytt að utan og innan. Afar háir gluggar snúa út að götu, sumpart steindir. Skrautlegar postulínsflísar eru á veggjum undir myndum af Samuel Becket og minna frægum skriffinnum.

Enn þann dag í dag er bókmenntasvipur á kránni, því að hingað koma háskólakennarar og nemendur í bókmenntum til að halda hefðinni við.

(McDaid’s, Harry Street, C3)

Duke

Innarlega við Duke Street er ósvikin krá gamla Viktoríutímans, The Duke, fín og rúmgóð og björt, með múrmálverkum og fremur litlu af viði.

Barstólarnir eru bólstraðir og standa á parkettgólfi. Barinn er með steindu gleri að baki. Fínt teppi er á gólfi við útidyr og gefur tóninn. Sófar eru á pöllum við veggi og háir barstólar niðri á gólfinu framan við pallana.

Gestir eru margir hverjir úthverfafólk í innkaupaferð, sem fær sér bjór og snarl í hléi milli búða, enda er verðlagið hagkvæmt, þótt staðurinn sé fínn og snyrtilegur.

(The Duke, 9 Duke Street, D3)

Næstu skref

3. Dublin – Davy Byrne’s

Borgarrölt
Davy Byrnes, bar, Dublin 2

Davy Byrne’s

Davy Byrne’s

Tízkukrá uppanna í miðbænum er Davy Byrne’s, andspænis Bailey við Duke Street, frægust fyrir gorgonzola-ostinn og Búrgundarvínið, sem Leopold Bloom fékk sér þar í skáldsögunni Ódysseifi eftir James Joyce.

Innréttingar þessarar björtu kráar eru að hluta til í millistríðsárastíl, með veggmyndum af þekktum rithöfundum, sem voru uppi eftir aldamótin. Að aftanverðu er nýtízkulegri bar með amerísku hanastélssniði.

Hér er flest fólk vel klætt, ungt fólk á uppleið í viðð svipað fólk úr hópi ferðamanna.

(Davy Byrne’s, 21 Duke Street, C3)

Old Stand

Helzta íþróttaáhugakrá miðborgarinnar er Old Stand í hliðargötunum að baki Grafton Street, um 100 metrum frá Powerscourt verzlunarmiðstöðinni.

Þetta er fremur björt krá, tvískipt, og óvenjulega rúmgóð, hreinleg og einföld að allri gerð, ekki mjög gömul að húsbúnaði. Innan dyra er hægt að ganga slitið trégólfið hringinn umhverfis barina tvo.

Hér safnast margir áhugamenn um keppnisíþróttir, svo sem veðreiðar og írskan slagsmálabolta. Margir fá sér snæðing.

(Old Stand, Exchequer Street, C3)

O’Neill’s

Nærtækasta stúdentakrá miðbæjarins er O’Neill’s á horninu andspænis St Andrews kirkju, 100 metrum frá aðalfumferðartorginu College Green, þar sem er aðalinngangur Trinity háskóla.

Einkennistákn kráarinnar er stór klukka yfir öðrum innganginum. Þetta er stór, hreinleg, vel viðuð og lítið skreytt krá með töluverðu setuplássi.

Kráin er vel sótt, bæði af stúdentum og borgurum. Menn sækja ekki bara í bjórinn, heldur líka í snarlið.

(O’Neill’s, 2 Suffolk Street, C3)

Næstu skref

 

2. Dublin – Mulligan’s

Borgarrölt
Stag´s Head, bar, Dublin

Stag´s Head

Stag’s Head

Bezta kráarmatreiðsla miðbæjarins er í gamalli og torfundinni krá frá 1770, Stag’s Head, sem er í litlu sundi samsíða Dame Street.

Þessi fegursta krá borgarinnar var færð í núverandi búning rétt fyrir aldamót og bjargaði nýlega lífi sínu með aðstoð húsfriðunarmanna. Hún er í fögrum Viktoríustíl með stórum speglum og bogariði yfir bar, gömlu timburlofti, miklum hjartarhaus yfir miðjum bar, mahóníborðum með marmaraplötum, steindum gluggum og fagurgrænum sófum.

Matreiðslan er einföld og maturinn bragðgóður, soðið beikon og hvítkál, írsk kjötsúpa, samlokur og borgarar með frönskum.

Gestir eru margir hverjir vel stæðir, meðal annarra mikið af lögmönnum.

(Stag’s Head, 1 Dame Court / Dame Lane, C3)

 

Bailey

Ein af þremur frægum krám við hina stuttu hliðargötu Duke Street út frá Grafton Street er Bailey, sem skartar dyrunum að 7 Eccles Street, þar sem Leopold Bloom bjó, söguhetjan í Ódysseifi eftir James Joyce.

Bailey, bar, Dublin 3

Bailey

Þetta er fín krá, teppalögð og búin vönduðum húsgögnum, þar á meðal notalegum sófum og hægindastólum, speglum á áberandi stöðum, meðal annars að barbaki. Hún er björt og nánast nútímaleg. Stórir gluggar snúa að götu, setustofur framan við og innan við og veitingasalur uppi á annarri hæð.

Nú orðið er mest um ferðamenn hér og aðra fína gesti, en áður var þetta samkomustaður skálda og listamanna, blaðamanna og stúdenta. Maturinn er vinsæll.

(The Bailey, 4 Duke Street, C3)

Mulligan’s

Þreytulega blaðamannakráin Mulligan’s við Poolbeg Street rétt hjá höfninni, dagblöðunum og Trinity-háskóla er ein af elztu krám borgarinnar, frá 1782, og ber aldurinn með sér. Hennar er getið í skáldsögunni Dubliners eftir James Joyce.

Kráin liggur í U með einum bar á hvora hlið og setuklefa þar á milli úti við glugga. Lágt er til lofts, dimmt og drungalegt, og húsbúnaður eins slitinn og frekast getur orðið. Tvö herbergi eru inn af kránni, óvistleg með öllu. Húsbúnaður er tilviljanakenndur, fátæklegur og ósmekklegur

Gestir eru margir ölmóðir, enda er bjórinn talinn einna beztur í borginni. Hér rennur hann í stríðum straumum frá morgni til kvölds. Hingað koma blaðamenn af skrifstofunum í kring, hafnarverkamenn og námsmenn.

(Mulligan’s, 8 Poolbeg Street, D4)

Næstu skref