Gamla, bandaríska sendiráðið, sem hertekið var
Tehran
Höfuðborgin Tehran er ein af risaborgum heims með 9 milljón íbúum. Einkenni allra slíkra borga er umferðaröngþveiti og nútímastreita, sem í Tehran mildast af trjágöngum meðfram helztu umferðaræðum. Helzt er það þjóðminjasafnið, sem er skoðunarvert, áður en haldið er út á landsbyggðina, hina eiginlegu Persíu.
Bandaríska sendiráðið
Persar hafa átt í útistöðum við ýmsa nágranna, einkum súnníta í Írak og Sádi-Arabíu. Árið 1979 var bandarískt sinnuðum keisara steypt af stóli og komið á klerkaveldi. Sambúðin við Bandaríkin kólnaði og bandaríska sendiráðið var hertekið í kröfugerð um, að keisarinn yrði framseldur.
Azadi turninn
Teppasafnið í Tehran
Einkennistákn Tehran er Azadi turninn, hannaður af arkitektinum Hossan Amanat fyrir keisarann, 50 metra hár og klæddur marmara. Eftir byltinguna var turninn gerður að Frelsisturni landsins, fagurlega skrautlýstur að næturlagi. En hönnuðurinn var Baha’i trúar og þess vegna var hann rekinn úr landi og gerðist frægur arkitekt í Kanada. Þótt trúfrelsi gildi að mestu í landinu, nær það ekki til Baha’i trúar.
Teppasafnið
Persnesk teppi eru fræg að verðleikum. Síðasta keisaraynjan var Farah Diba og hún hannaði teppasafnið sjálf með hliðsjón af vefstól. Ytra form hallarinnar er grind, sem bægir frá sólskini og dregur úr hita. Farah Diba gaf einnig teppi til safnsins, sem hýsir núna rúmlega hundrað teppi frá ýmsum tímum. Þau beztu eru í aðalsalnum á fyrstu hæð.
Gæði persneskra teppa eru metin eftir uppruna og fjölda hnúta á flatareiningu. Oftast er miðað við flöt, sem er sjö sentimetrar á kant, en líka er miðað við ferþumlunga. Yfir 200 hnútar á ferþumlung þykir fínt, en fjöldinn getur farið yfir 1.000 hnúta í flottustu teppum.