Roxelana-böðin
Baðhús Roxelönu, Haseki Hürrem Sultan Hamamı, er milli Ægisifjar og Bláu moskunnar við suðvesturhlið SultanAhmet Meydanı.
Roxelana-böðin frá 1557 voru lagfærð og opnuð að nýju 2011. Þar er hægt að komast í tyrkneskt bað við óvenjulega glæsilegar aðstæður. Böðin voru byggð fyrir hina frægu Roxelönu frá Úkraínu, sem gerðist hjákona Súleimans mikla og ól honum son, sem varð hinn illræmdi soldán Selim róni.
Tyrknesk böð minna á rómversku böðin í fornöld, en hafa formfastara ferli og ekkert ískalt bað í lokin. Baðinu fylgir harðskeytt nudd. Ekki þarf að hafa neitt með sér í böðin, sápa, sloppur og handklæði eru innifalin.
Yerebatan Sarayı vatnsbólið
Ferðamenn notfæra sér helztu böð gamla bæjarins. Fyrir utan Roxelana eru til dæmis Cağaloğlu og Çemberlitaş milli SultanAhmet Meydanı og Kapalı Çarşı, stóra bazarsins. Stóru hótelin bjóða eigin tyrknesk böð.
Súlna-vatnsbólið
Frá norðurhorni SultanAhmet Meydanı liggur gatan Yerabatan Caddesi til norðvesturs. 50 metrum frá götuhorninu er neðanjarðarhvelfing súlna-vatnsbólsins frá árinu 542. Yerebatan Sarayı er stærsta vatnsbólið af 100 slíkum í gamla miðbænum. Frá þessu vatnsforðabóli rann vatnið til gömlu keisarahallarinnar og síðar til Topkapi, hallar soldánsins.
Vatnsbólið var hreinsað og lagt göngubrautum. Það hefur verið til sýnis frá 1994, 10 þúsund fermetra skógur 336 marmarasúlna, níu metra hárra. Fleiri súlur eru í Binbirdirek vatnsbólinu, alls 1000 talsins, en flötur þess er minni.