Borgarrölt

4. Kappadokia – SultanHani Caravanserai

Borgarrölt

Sultanhasi Kervanserai - Agizikara Hani

SultanHani Caravanserai

Á svæðinu er líka Ihlara-gljúfur, dýpsta klettagljúfur landsins.

SultanHani, nálægt Aksaray, er bezt varðveitta Caravanserai í Tyrklandi, byggt 1226. Caravanserai voru víða um miðausturlönd, eins konar hótel fyrir ferðamenn, einkum kaupmenn, sem fóru um með klyfjaðar úlfaldalestir. Einkum var mikið af þessum hótelum á Silkileiðinni frá Kína um Persíu til Istanbul.

Næstu skref
Gljúfur - Ihlava

Ihlara-gljúfur

2. Kappadokia – Konya

Borgarrölt

Konya

Mevleni Tekkesi - Konya

Mevlânâ-safnið í Konya

Frá Ankara förum við landleiðina til Konya, borgar hinna dansandi Sufi-munka. Sufi eru munkar í dultrúarsöfnuði múslima, sem stunda hugleiðslu með því að snúast hratt í hringi eins og skopparkringlur. Þetta var lengi bannað í Tyrklandi, en hefur verið leyft að nýju.

Konya er miðstöð Sufi. Þar bjó stofnandinn, Mevlânâ Rumi, sem taldi tónlist og dans frelsa fólk frá daglegu amstri og þjáningu og leiða til himneskrar sælu. Ást og friður voru einkunnarorð hans. Munkarnir dansa í síðum, hvítum og víðum pilsum og bera háa heiluhatta á höfði.

Mevlânâ-safnið er miðstöð þessarar sértrúar. Þar er hátíðarsalur, þar sem haldnar eru danssýningar fyrir ferðamenn

Karatay medrese - Konya

Karatay medrese í Konya

Karatay Madrese

Á sama stað er Ince Minaret Medrese, moska frá 13. öld, sem hefur verið breytt í trélista- og steinlistasafn. Moskan er fræg fyrir íburðarmiklar veggskreytingar.

Utan við Konya er Karatay Madrese, moska frá 1251, sem hefur verið breytt í safn Seljuk postulínsflísa. Þar eru líka íburðarmiklar veggskreytingar.

Næstu skref

15. Istanbul – Múr Þeódósíusar

Borgarrölt

IMG_0102

Múr Þeódósíusar

Við skiljum við Istanbul með skutli í taxa út að borgarmúr Þeódósíusar og meðfram honum. Hann var reistur 412-422 og varði borgina fyrir innrásum í þúsund ár. Þetta er risavaxið og flókið mannvirki með tveimur múrveggjum með stríðsvagnavegi á milli. Á múrnum eru 11 borgarhlið og 192 turnar.

Múrinn stóðst atlögur Araba, Búlgara, Rússa og Tyrkja. Þegar Feneyingar og krossfarar unnu borgina 1202, komu þeir beint af hafi og klifu ekki landmúrinn. Tyrkir unnu borgina 1452 og klifu ekki heldur múrinn, heldur komust inn um eitt borgarhlið með brögðum.

Múrinn hefur verið lagfærður á köflum í sitt gamla form og ögrar enn öllum aðkomuherjum, sem kynnu að hafa illt í hyggju.

Nú víkur sögunni að landsbyggðinni í Tyrklandi. Við tökum flug til höfuðborgarinnar Ankara og síðan bíl um Kappadókíu í miðju landi og endum síðan á fornum Grikkjaslóðum við vesturströndina. Við förum frá Evrópu til Asíu.

Næstu skref

14. Istanbul – Süleymaniye Camii

Borgarrölt

Süleymaniye Camii

Süleyman moska - Istanbul

Süleymaniye moskan

Í nágrenni bazarsins eru háskóli borgarinnar og Süleymaniye Camii moskan, sem oft er talin fegursta moska borgarinnar. Hún er raunar Medressa, það er trúarskóli og velferðarstofnun. Umhverfis moskuna eru vistarverur, eldhús, veitingastaðir og spítali fyrir fátæka förumenn.

Þetta er aðalmoska heimsborgarinnar, hönnuð af arkitektinum Sinan fyrir soldáninn Süleyman mikla, reist 1550-1557 og stendur á hæsta stað í gamla bænum.

Næstu skref

13. Istanbul – Stóri bazarinn

Borgarrölt
Misir Karsisi - Istanbul

Kapalı Çarşı, stóri bazarinn

Stóri bazarinn

Nú víkur sögunni aftur upp að torginu Sultanahmet Meydanı. Þaðan er 20 mínútna ganga eftir Divanyolu Caddesi að Çemberlitaş böðum og þaðan svo til hægri eftir Vezirhan Caddesi að einum af höfuðinngöngum stóra bazarsins, Kapalı Çarşı.

Kapali Carsi - Istanbul

Kapalı Çarşı, stóri markaðurinn

Kapalı Çarşı er sjálft hjarta borgarinnar, einn stærsti og elzti bazar heims, byggður upphaflega 1456. Raunar er hann risavaxið borgarhverfi með mörgum borgarhliðum. Búðirnar 3000 eru yfirleitt litlar og þröngar og standa saman eftir vöruflokkum í 60 strætum. Teppi eru í einu hverfi, leður á öðru, gull og silfur á því þriðja og svo framvegis.

Þar sem við komum inn á bazarinn um Nuruosmaniye hliðið komum við beint inn í gull- og silfurhverfið. Hér og þar eru kaffihús til að hvílast, meira að segja tyrknesk böð líka. Mikil þrengsli eru víða, straumþung fljót af ferðafólki og heimafólki.

Árið 2014 var þetta fjölsóttasti ferðamannastaður heims. Hér er að villast og týnast að vild. Þetta er heill heimur, fullur af lit og ilmi.

Næstu skref

12. Istanbul – Sublime Porte

Borgarrölt

IMG_0143

Sublime Porte

Á leiðinni niður brekkuna frá inngangi fornminjasafnsis komum við að hliði Sublime Porte, stjórnarráðs Tyrklands á tíma soldánanna. Þar réð ríkjum Grand Vizier, það er stórvesír, sem var eins konar forsætisráðherra soldáns.

Ráðuneytið var jafnan kennt við virðulegt aðalhliðið við götuna, sem enn stendur. Þar fóru erlendir sendiherrar um til að afhenda skilríki sín. Á tungumáli diplómata var tyrkneska ríkið oftast kallað Sublime Porte eftir hliðinu.

Egypzki bazarinn

Kryddmarkaður borgarinnar, Mısır Çarşısı, er niðri við Galata-brúna yfir Gullna hornið, einn stærsti markaður borgarinnar, glæsileg og yfirbyggð húsakynni frá 1660.

Þar er einkum verzlað með krydd, en passið ykkur á kaupum á saffran. Dýrast er stimplað saffran frá Persíu, en það er hið eina ekta saffran á markaðinum. Þarna er líka selt tyrkneskt sælgæti, hnetur og þurrkaðir ávextir.

Austurlandahraðlestin

Austan við enda Galata-brúar er líka járnbrautarstöðin Sirkecsi, sem var endastöð hinnar glæsilegu Austurlandahraðlestar frá París, sem löngum var vettvangur reyfara og kvikmynda. Þar á meðal bóka eftir Agatha Christie og Graham Greene. Ferðir lestarinnar hófust 1889 og liðu undir lok 1977.

Næstu skref

11. Istanbul – Fornminjasafnið

Borgarrölt
IMG_0138

Hluti keðjunnar miklu, sem dregin var upp til að loka höfninni í Gullna horninu

Fornminjasafnið

Frá Topkapi höllinni er hægt að fara niður göngustíg að Fornminjasafninu. Einnig er hægt að koma þangað frá brekkunni niður frá Ægisif, Soğukçeşme Sokağı. Þar í götunni eru enn gömul borgarhús í Tyrkjastíl frá fyrri öldum. Eitt þeirra er Ayasofya Hotel, þar sem hægt er að fá notalega gistingu.

Safnið er ekki umfangsmikið, en hefur að geyma ýmsa heimskunna gripi. Mestur fengur er þar í minjum frá grískum tíma. Þarna er steinkista Alexanders með lágmyndum af bardögum hans. Raunar var hún ekki kista hans sjálfs, heldur kista Abdalonymosar frá Sídon.

Þar er líka steinhöggvinn friðarsamningur Egypta og Hittíta frá 1269 f.Kr. Ennfremur hluti af keðjunni miklu, sem dregin var upp til að loka innsiglingunni í höfnina í Gullna horninu, þegar óvini bar að garði. Keðjan var, þar sem Galata-brúin yfir fjörðinn er núna.

IMG_0137

Steinkista Alexanders með lágmyndum úr Persastríðinu

Næstu skref

10. Istanbul – Kvennabúrið

Borgarrölt
Istanbul - Topkapi sultan's bedroom

Svefnherbergi soldáns í kvennabúrinu

Kvennabúrið

Viðamestu húsakynni hallar soldáns eru kvennabúrið í norðvesturjaðri garðanna. Þar höfðust við konur soldáns undir stjórn soldánsmóður og sveitar svartra geldinga. Þar voru líka fangelsi soldánsbræðra til að hindra uppreisnir af þeirra hálfu. Flestar voru konurnar 1000 talsins í þessum vistarverum. Þær síðustu voru reknar út á gaddinn árið 1909, þegar gjaldþrota veldi soldáns var að hruni komið.

Í kvennabúrinu má sjá svefnsal soldáns, stofu og borðstofu hans og stofu móður hans, vistarverur kvenna og geldinga. Mikið er af fínlegu skrautvirki í veggjum, einkum blómabeðju-vindingum að hætti múslima.

IMG_0047

Vistarverur í kvennabúrinu

Skartgripasafnið

Vinsælasta safnið í Topkapi er skartgripasafn soldáns, sem glóir allt af þúsund stærstu og dýrustu eðalsteinum. Frægastur er þar Topkapi rýtingurinn, er var smíðaður í Istanbul, gjöf frá soldáni til keisarans í Persíu, sem dó svo, áður en hægt væri að afhenda gjöfina.

Vandað er til uppstillingar gripanna og miklar öryggisráðstafanir. Ráðlegt er að skoða safnið strax við opnun, því að örtröð verður mikil, þegar líður á daginn og erfitt að sjá dýrðina fyrir mannmergð.

Kaffihúsið

IMG_0066

Útsýni frá Topkapi yfir Sæviðarsund til Asíu

Gott er að hvíla sig með tyrknesku kaffi í Konyali, sem situr fremst á klettabrúninni með útsýni yfir Sæviðarsund. Sem veitingahús er Konyali ekki merkilegt og því farsælast að láta kaffið duga á útsýnissvölunum aftan við veitingasalina.

Næstu skref

9. Istanbul – Topkapi

Borgarrölt
Topkapi bókasafn - Istanbul

Bókasafnið í Topkapi hægra megin, hásætishöllin vinstra megin

Brunnur Ahmets III

Við norðausturhorn Ægissifjar er keisarahliðið að Topkapi höll soldánsins. Framan við hliðið er Brunnur Ahmets III frá 1728, lengi helzti stefnumótastaður fína fólksins í borginni. Þar var áður býzanski brunnurinn Perayton.

Nú safnast þar fyrir svartkuflaðar og strangtrúaðar konur, sem bíða bænastundar utan við veggi Ægissifjar. Þær gera það til að krefjast endurreisnar Egisifjar sem mosku og mótmæla notkun hennar sem safns.

Topkapi

Við göngum inn um keisarahliðið að risavöxnum forgarði Topkapi-soldánshallar. Á hægri hönd er kirkjan Hagia Eirene, sem hefur þá sérstöðu að hafa aldrei verið breytt í mosku. Framundan er gangstígur meðfram miðasölunni að hliði hallarinnar sjálfrar.

Topkapi er ekki ein höll, heldur margar smáhallir á víð og dreif um stóran garð. Beint framundan er hásætissalurinn og aftan við hann bókahöll Ahmet III. Vinstra megin er meginhöllin með kvennabúri. Í fjórða og innsta garði eru nokkrar hallir, þar á meðal Bagdað-höllin og veitinghúsið Konyali með flottu útsýni yfir Sæviðarsund.

Í sumum höllunum hefur verið komið fyrir söfnum, svo sem vopnasafni, handritasafni og búningasafni. Frægast er skartgripasafnið með hinum alkunna Topkapi-rýtingi.

Næstu skref
Topkapi - Istanbul

Bagdað-höllin í Topkapi

8. Istanbul – Böð og vatnsból

Borgarrölt

Roxelana-böðin

Baðhús Roxelönu, Haseki Hürrem Sultan Hamamı, er milli Ægisifjar og Bláu moskunnar við suðvesturhlið SultanAhmet Meydanı.

Roxelana-böðin frá 1557 voru lagfærð og opnuð að nýju 2011. Þar er hægt að komast í tyrkneskt bað við óvenjulega glæsilegar aðstæður. Böðin voru byggð fyrir hina frægu Roxelönu frá Úkraínu, sem gerðist hjákona Súleimans mikla og ól honum son, sem varð hinn illræmdi soldán Selim róni.

Tyrknesk böð minna á rómversku böðin í fornöld, en hafa formfastara ferli og ekkert ískalt bað í lokin. Baðinu fylgir harðskeytt nudd. Ekki þarf að hafa neitt með sér í böðin, sápa, sloppur og handklæði eru innifalin.

IMG_0071

Yerebatan Sarayı vatnsbólið

Ferðamenn notfæra sér helztu böð gamla bæjarins. Fyrir utan Roxelana eru til dæmis Cağaloğlu og Çemberlitaş milli SultanAhmet Meydanı og Kapalı Çarşı, stóra bazarsins. Stóru hótelin bjóða eigin tyrknesk böð.

Súlna-vatnsbólið

Frá norðurhorni SultanAhmet Meydanı liggur gatan Yerabatan Caddesi til norðvesturs. 50 metrum frá götuhorninu er neðanjarðarhvelfing súlna-vatnsbólsins frá árinu 542. Yerebatan Sarayı er stærsta vatnsbólið af 100 slíkum í gamla miðbænum. Frá þessu vatnsforðabóli rann vatnið til gömlu keisarahallarinnar og síðar til Topkapi, hallar soldánsins.

Vatnsbólið var hreinsað og lagt göngubrautum. Það hefur verið til sýnis frá 1994, 10 þúsund fermetra skógur 336 marmarasúlna, níu metra hárra. Fleiri súlur eru í Binbirdirek vatnsbólinu, alls 1000 talsins, en flötur þess er minni.

Næstu skref

7. Istanbul – Paðreimurinn

Borgarrölt
Paðreimurinn - Istanbul

Paðreimurinn, Hippodrome

Paðreimurinn

Við norðvesturhlið Bláu moskunnar er Hippodrome, paðreimur grísku keisaranna.

Topkapi í istanbul 1988

Þýzki brunnurinn á Hippodrome

Þar var háð var hin fræga kerruhestakeppni bláa, græna, rauða og hvíta liðsins. U-laga skeiðvöllurinn er 450 metra langur og rúmaði 100.000 áhorfendur. Hjarta borgarlífsins á grískum tíma, vettvangur blóðugra átaka fylgismanna keppnisliðanna. Hér brutust árið 532 út Nika-óeirðirnar, sem urðu 30.000 manns að bana.

Fátt stendur eftir af fornri frægð, nema lögun svæðisins, sem nú er göngutorg borgarbúa á frídögum. Á miðjum velli standa enn egypzki einsteinungurinn, steinhlaðinn turn og bronz-spírall. Svo og þýzki brunnurinn í norðurenda vallarins.

Næstu skref

6. Istanbul – Bláa moskan

Borgarrölt
Bláa moskan - Istanbul

Bláa moskan, Sultan Ahmet Camii

Bláa moskan

Andspænis Ægisif við SultanAhmet Meydanı er Bláa moskan, sem raunar heitir Sultan Ahmet Camii. Gælunafnið stafar af bláum postulínsflísum frá İznik, sem skreyta veggina að innan. Hún er hástig þeirrar smíði mustera, sem hófst með Ægisif þúsund árum áður.

Bláa moskan var byggð 1609 to 1616 í tíð soldánsins Ahmet I á rústum gömlu hallar grísku keisaranna. Gott dæmi um meira svif í opinberum byggingum múslima í samanburði við þyngdina í opinberum byggingum Evrópumanna. Munurinn sést í samanburði Bláu moskunnar og Ægisifjar.

Næstu skref

5. Istanbul – Ægisif

Borgarrölt
Istanbul - Aya Sofia mosaic

Mósaík í Ægisif

Þegar Ægisif og Bláa moskan eru bornar saman, finnst mörgum Bláa moskan vera stílhreinni og fegurri. Þá verður að hafa í huga, að Ægisif er tilraun, þúsund árum eldri en Bláa moskan. Stílfræði og verkfræði höfðu síðan fengið færi á að þroskast í þúsund ár, þegar Bláa moskan var reist.

Með vaxandi öfgum íslamisma í Tyrklandi undir auknu gerræði Erdogan forseta aukast líkur á, að Ægisif verði aftur breytt í mosku með banni við aðgangi trúvillinga á bænastundum. Bezt er að skoða dýrgripinn fyrr en síðar.

Næstu skref

4. Istanbul – Ægisif

Borgarrölt

Ægisif var stærsta kirkja heims í þúsund ár. Jafnarma kross með feiknarlegu, 31 metra víðu hvolfþaki í miðjum krossi. Hvolfþakið er meistarAyasofia - Istanbulaverk burðarþols, virðist svífa eins og sjálft himinhvolfið. Hefur samt staðið af sér tíða jarðskjálfta. Burðarþolið er flutt úr hvolfinu niður í tröllslegar súlur, sem eru studdar hliðarveggjum til að dreifa þunganum.

Á kristnum tíma voru veggir og hvolf kirkjunnar skreytt mósaíkmyndum, sem kalkað var yfir á moskutímanum. Kalkið hefur nú verið hreinsað og hinar glitrandi myndir eru aftur sýnilegar gestum og gangandi.

IMG_0122

Steinkista Henricus Dandolo

Á marmarahandriði innansvala Ægisifjar í Miklagarði eru norrænar rúnaristur. Þær eru norrænt fámæltar, önnur segir “Hálfdan var hér” og hin segir “Ari var hér”. Syfjuðum Væringjum í lífverði keisarans hefur leiðst að hlýða messu í höfuðkirkju grísks rétttrúnaðar. Rúnaristurnar má sjá á svalahandriðinu andspænis steinkistu Henricus Dandolo Feneyjagreifa.

Næstu skref

3. Istanbul – Ægisif

Borgarrölt
Ayasofia - Istanbul 2

SultanAhmet Meydanı torgið og Ægisif, Hagia Sofia

Ægisif

Miklar biðraðir eru við Ægisif og bezt að vera þar að morgni, áður en rúturnar koma með farþega risaskipanna, sem koma á hverri nóttu úr Eyjahafi. Hægt er að kaupa aðgöngumiða á netinu og prenta hann út til að spara tíma. Ægisif var fyrst kirkja, síðan moska og hefur síðast verið safn í 80 ár, síðan 1935.Ayasofia - Istanbul 4

Ægisif er miðpunktur okkar, merkasta og fegursta mannvirki mannkyns. Með minjum kristni og íslams er hún ennþá skurðpunktur öflugustu trúarbragða heims. Fyrirmynd allra rétttrúnaðarkirkja og moska. Var byggð árin 532-537 í býzönskum stíl á vegum Jústiníanusar mikla, keisara Miklagarðs. Arkitektar hennar voru grískir, eðlisfræðingurinn Isidorus frá Miletus og stærðfræðingur- inn Anþemius frá Tralles.

Næstu skref