Róm

A. Róm

Borgarrölt, Róm
Colosseum, Roma 2

Colosseum

20 alda heimsborg

Róm er borg andstæðna, elli og æsku. Hún hefur í 20 aldir þótzt vera höfuðborg heimsins, fyrst sem keisaraborg og síðan sem páfaborg. Hún ber samt aldurinn vel, því að hún er full af fjöri frá morgni til kvölds. Næturlífið í La Dolce Vita var að vísu aldrei til, en allir þjóðfélagshópar eru allan daginn að líta inn á kaffihús. Róm vakir ekki á nóttunni, en hún tekur daginn og kvöldið með látum.

Róm hefur þolað margt um dagana, rán og gripdeildir erlendra barbara, brjálaðra keisara, franskra kónga og innfæddra páfa. Mörg frægustu tákn hennar eru rústir einar. Þar hafa voldugir heimamenn verið afdrifaríkastir.

Menn koma til Rómar til að skoða þessar gömlu rústir fornaldar á Forum, Capitolum og Palatinum. Menn koma líka að sjá Péturskirkju og aðrar hlaðstílskirkjur. Og loks koma menn til að lifa á kaffihúsum og veitingahúsum hins þrönga miðbæjar á Marzvöllum. Samkvæmt lögmáli andstæðna sækir unga fólkið í þennan gamla bæ.

Næstu skref

B. Páfaríki

Borgarrölt, Róm

Péturskirkja, Roma 2

1. ganga, Páfaríki

Palazzo di Giustizia

Palazzo di Giustitia, Roma

Palazzo di Giustitia

Péturskirkja er eitt helzta aðdráttarafl Rómar, enda höfuðkirkja kristindóms. Við byrjum leiðsögnina um Róm í nágrenni hennar, á bakka borgarfljótsins Tevere, við brúna Ponte Umberto I.

Andspænis okkur er það hús, sem mest ber á í allri Róm. Það er Palazzo di Giustizia, dómhús borgarinnar, mikil rjómaterta, hönnuð af Gugliemo Calderini og byggð 1889-1911 í sögustíl, eins konar blöndu hlaðstíls og nýgnæfu

Ponte Sant’Angelo

Við göngum niður eftir árbakkanum, Lungotevere Castello, í átt til fegurstu brúar Rómar. Það er Ponte Sant’Angelo, að mestu frá 136. Hadrianus keisari lét reisa hana til að tengja Marzvelli, Campus Martius, við grafhýsi sitt handan árinnar. Miðbogarnir þrír eru upprunalegir, en endabogarnir eru frá 17. öld. Stytturnar af Pétri og Páli postulum á syðri enda brúarinnar eru frá 1530. Hinar stytturnar tíu eru hannaðar af Bernini og reistar árin 1667-1669.

Næstu skref

C. Forna Róm

Borgarrölt, Róm

Fornar rústir

Augustus, Roma

Augustus

Miðborg hinnar fornu Rómar var í lægðinni vestur af hæðinni Capitolum og norður af hæðinni Palatinum. Þar var Forum Romanum, höfuðtorg Rómar á lýðveldistíma, og Fori Imperiali, röð höfuðtorga hennar á keisaratíma.

Þessi torg voru öldum saman þungamiðja Vesturlanda, allt frá því að Rómverjar tóku við af Grikkjum sem merkisberar vestursins og þangað til kaþólska kirkjan flutti þungamiðjuna hálfan annan kílómetra suðaustur til Laterano-torgs.

Lítið stendur eftir af fornri frægð þessa svæðis, brot af súlum og veggjum, sem gefa hugmynd um fornan glæsileika. Enn stendur mikið af Trajanusarmarkaði og Maxentiusarbyrðu, bútar af keisarahöllum og heiðnum hofum, nokkrir heilir sigurbogar og fundarsalur öldungaráðsins.

Næstu skref

D. Miðbær syðri – Santa Sabina

Borgarrölt, Róm

Santa Sabina, Roma

Santa Sabina

Við tökum leigubíl að Santa Sabina, sem er á útsýnisstað uppi á Aventino-hæð. Santa Sabina er frá 422, ein elzta byrðukirkja í Róm, haldið uppi af fögrum bogariðum kórinþusúlna. Þau eru fyrsta rómverska dæmið um, að hrein súlnarið leysi blönduð vegg- og súlnarið af hólmi, og má kirkjan því teljast fyrsta rómverska kirkjan í rómönskum stíl. Gáruðum marmarasúlunum hafði verið rænt úr rómversku hofi. Kirkjunni var breytt á 9., 13. og 16. öld, en eftir lagfæringar á 20. öld er hún orðin lík því, sem hún er talin hafa verið í upphafi.

Einna merkustu gripir kirkjunnar eru hinar upprunalegu, útskornu vesturdyr úr kýprusviði, sem sýna myndir úr ævi Móse og Jesú, þar á meðal ein elzta mynd, sem til er af krossfestingunni. Ofan við innganginn eru leifar upprunalegu steinfellumyndanna, sem áður náðu allan hringinn ofan við súlnariðin. Stóra steinfellumyndin í kórbakshvolfi er 16. aldar eftirlíking af upprunalegri mynd.

Frá garðinum við hlið kirkjunnar er útsýni yfir miðbæ Rómar og til Péturskirkju.

Næstu skref

E. Miðbær vestri – Tempietto

Borgarrölt, Róm
Tempietto, Bramante: Tempietto, Roma

Bramante: Tempietto

Gamli miðbærinn með flóknu neti undinna gatna, sem bílar komast tæpast um, er skemmtilegasti hluti borgarinnar. Við fórum um hluta hans í 3. göngu, þar sem fjallað var m.a. um Ghetto, Largo di Torre Argentina og Gesú.

Tempietto

Hér verður haldið áfram í gamla bænum og lýst gönguferð um meginhluta hans. Við byrjum handan árinnar, í Trastevere, og f
örum í leigubíl upp hæðina Gianicolo til kirkjunnar San Pietro in Montorio.

Í garðinum við hlið kirkjunnar er eitt þekktasta listaverk borgarinnar, Tempietto eftir Bramante, hringlaga og formfast hof í gnæfrænum stíl, með dórísku hringsúlnariði, byggt 1502. Þessi bygging markar upphaf há-endurreisnar og prýðir margar bækur um byggingarlist.

Af torginu framan við kirkjuna er gott útsýni yfir Róm. Þar standa upp úr Castel Sant’Angelo vinstra megin; minnismerki Victors Emanuels, Capitolum og Maxentiusarbyrða fyrir miðju; og San Giovanni in Laterano hægra megin.

Santa Maria in Trastevere

Héðan göngum við niður tröppur og brekkuna eftir Via Garibaldi að næstu gatnamótum og síðan eftir Via Memeli, unz við komum að tröppum, sem liggja niður að Via della Paglia í Trastevere. Þá götu göngum við til aðaltorgs hverfisins, Piazza Santa Maria in Trastevere.

Kirkjan við Trastevere-torg er frá 341. Hún var endurbyggð 1140 og þá var klukkuturninn reistur, en súlnaportið löngu seinna, 1702. Kirkjan er fræg fyrir steinfellumyndir á framhlið og að innanverðu. Myndin yfir kórbak ofanverðum af Kristi og Maríu er í býzönskum stíl eftir gríska meistara frá 12. öld, en sex myndirnar þar fyrir neðan eru eftir Pietro Cavallini, frá 13. öld.

Við torgið eru veitingahúsin Sabatini og Galeassi.

Trastevere

Upprunalega var Trastevere ekki hluti Rómar. Svæðið var byggt Etrúrum og síðan einnig Gyðingum og Sýrlendingum, en Augustus keisari innlimaði það í Róm. Borgarmúr Aureliusar keisara náði utan um hverfið. Þarna bjuggu löngum handverksmenn í nágrenni þáverandi hafnar, en á síðustu árum hefur ungt efnafólk í vaxandi mæli einkennt hverfið. Veitingahús eru á hverju strái í Trastevere og götulíf fjörlegt að kvöldlagi.

Næstu skref

F. Miðbær eystri – Villa Giulia

Borgarrölt, Róm

Villa GiuliaVilla Giulia, Roma

Við tökum leigubíl að Villa Giulia, sveitasetri páfans Juliusar III, hönnuðu af Vignola 1551, þar sem er safn etrúskra minja. Etrúrar eru taldir hafa komið frá Litlu-Asíu í lok 8. aldar f.Kr. Þeir réðu Róm og stórum svæðum á Ítalíu, áður en Rómverjar tóku við í lok 6. aldar f.Kr. Þessar þjóðir runnu síðan saman á 1. öld f.Kr.

Af gripum safnsins er frægast steinkistulok frá lokum 6. aldar með leirstyttu af hjónum á hvílubekk.

Frá Villa Giulia göngum við eftir Viale delle Belle Arti að Galleria Nazionale d’Arte Moderna í höll frá 1911, þar sem sýnd er ítölsk list frá 19. og 20. öld

Næstu skref

G. Útrásir – Villa Adriano

Borgarrölt, Róm

Villa Adriana, Tivoli, Roma

Villa Adriana

Um 30 km austan Rómar er sumardvalarbærinn Tivoli, á latínu Tibur, við rætur sabínsku hæðanna. Árin 126-134 lét Hadrianus keisari reisa sér sumarhöll í 5 km löngum garði 5 km austan við bæinn. Hadrianus hannaði sjálfur svæðið og notaði fyrirmyndir, sem hann hafði séð á ferðalögum sínum.

Rústir svæðisins hafa verið grafnar upp og eru til sýnis.

Canopus, Villa Adriana, Tivoli, Roma

Canopus, Villa Adriana

Frá innganginum á svæðið göngum við gegnum vegg, sem stendur eftir af eftirlíkingu Aþenuports, sem hét Poikile. Við förum fyrir enda tjarnarinnar og höldum áfram meðfram litlu og stóru baðhúsi að langri tjörn. Við hinn enda hennar er Canopus, stæling á egypzku Serapis-hofi.

Á leiðinni til baka förum við upp í rústirnar hægra megin, fyrst um hermannaskálana, Prætorium og síðan framhjá fiskatjörninni að hinni raunverulegu sumarhöll. Þar er efst ferhyrnt Gulltorg, Piazza d’Oro. Neðan við það eru rústir af vistarverum keisarans, svo sem borðsal og setustofu. Enn neðar eru leifar bókasafna.

Hægra megin við bókasöfnin er súlnarið umhverfis hjóllaga tjörn með eyju í miðjunni. Hér erum við komin aftur að Poikile, þar sem við byrjuðum skoðunarferð okkar.

Boðið er upp á daglegar skoðunarferðir frá Róm til Tivoli og er þá einnig skoðuð sumarhöllin Villa d’Este með miklum görðum frá miðri 16. öld.

Næstu skref