Ferðir

Amsterdam göngur

Ferðir

1. ferð:

Grachten

Sú ferð, sem nýkomnir ættu að byrja á, er raunar engin gönguferð, heldur þægileg bátsferð um Grachten, síki borgarinnar. Þannig kynnumst við Amsterdam frá því sjónarhorni, sem áður fyrr var hið eðIilega. Við sjáum hana eins og siglandi gestir fyrri alda sáu hana.

Auk þess er bátsferð um síkin ágæt aðferð til að átta sig á lögun borgarinnar og afstöðu ýmissa merkisstaða, sem gaman væri að skoða nánar síðar á hestum postulanna. Við finnum líka, hvernig síkin liggja eins og skeifur, hver utan yfir aðra, og hvernig umferðargöturnar liggja eins og geislar út frá borgarmiðju, yfir hvert síkið á fætur öðru.

Úr bátnum kynnumst við gaflhúsagerðinni og ýmsum tilbrigðum hennar. Húsin voru reist svona há og mjó, af því að borgarskattur manna fór eftir því lengdarmáli, sem þeir tóku af síkisplássi. Persónuleiki byggingarmeistara fékk svo útrás í nánari útfærslu gaflanna.

Tígulsteinn gaflanna er misjafn á litinn. Sum húsin eru ljósgrá, önnur brúnleit, gul, ljósrauð eða jafnvel blárauð. Þá er toppstykkið útfært á misjafnan hátt, sumpart vegna tízkustrauma á 17. og 18. öld, og höfðu tilhneigingu til að verða voldugri, eftir því sem auður kaupmanna jókst með tímanum.

Þessi saga byggingalistar, samþjappaðrar í mjóum göflum, rennur saman við fegurð ótal bogabrúa yfir síkin og voldugra trjáa á síkisbökkunum. Úr þessu verður heildarmynd, sem bezt er að njóta úr báti á miðju síki.

Mörg fyrirtæki reka bátsferðir og hafa brottfararstaði víðs vegar um miðborgina. Sama er, hvar við byrjum hringferðina, sem tekur eina stund. Bátarnir eru svipaðir, verðið svipað og leiðin í stórum dráttum hin sama.

Singel

Innsta skeifusíkið umhverfis gamla miðbæinn er Singel, og framhald þess til norðausturs, handan Amstel, í Oudeschans. Singel var upprunalega síkið framan við borgarmúrana og var svo fram að gullöld Hollands og Amsterdam, sem hófst um 1600.

Við tökum eftir grennsta húsi borgarinnar, við Singel 7. Það er jafnmjótt og útidyrnar. Nokkru ofar, þar sem við komum að fyrstu beygjunni á síkinu, sjáum við sérkennilegt fangelsi í brúnni, sem við förum undir. Að fangelsinu verður einungis komizt á báti.

Við Singel eins og við Herengracht, Keizersgracht og Prinsengracht eru hús númeruð frá norðurendanum til suðurs og síðan til austurs að ánni Amstel.

Herengracht

Næsta skeifusíki utan við Singel er Herengracht, „herramannasíki“, sem varð í upphafi 17. aldar að fína heimilisfanginu í Amsterdam. Þar reistu ríkustu kaupmennirnir hús sín og kepptu hver um annan þveran í glæsibrag.

Þessi hús standa nærri öll enn og hýsa skrifstofur og banka. Glæsilegust eru þau við aðra beygju síkisins, „gullbeygjuna“, við um það bil nr. 390, þar sem Nieuwe Spiegelstraat mætir síkinu. Rétt ofan við þriðju beygju, á nr. 502, er svo borgarstjórabústaðurinn.

Keizersgracht

Þriðja skeifusíkið heitir Keizersgracht eftir Habsborgaranum Maximilian I, sem meðal annarra landa réði Hollandi í upphafi 16. aldar. Við sjáum á húsunum, að þau eru ekki alveg eins ríkmannleg og við Herengracht. Hér bjuggu miðlungskaupmenn og vel stæðir iðnrekendur. Einnig hér standa 17. aldar húsin enn.

Prinsengracht

Yzta skeifusíkið innan við nýrri borgarmúrana á 17. öld er Prinsengracht. Þar eru íbúðarhúsin enn minni um sig og mikið er um vöruhús í bland. Mörgum þessara vöruhúsa hefur nú verið breytt í lúxusíbúðir, þótt ytra útlit sé óbreytt, enda eru þau yfirleitt friðuð.

Singelgracht

Utan um þessi hverfi 17. aldar var svo reistur nýr virkisgarður, innan við hann skeifusíkið Lijnbaansgracht og utan við hann síðasta skeifusíkið, Singelgracht. Það var raunverulegt virkissíki og engin borgarbyggð við það. Seint á 19. öld voru borgarvirkin rifin og fékkst þá dýrmætt rými fyrir samgönguæðar, garða, torg, opinberar byggingar og söfn.

Til greina kemur að endurtaka bátsferðina að kvöldlagi, þegar fallegu brýrnar eru lýstar miklum fjölda rafmagnspera. Þá lítur Amsterdam út eins og ævintýraborg.

2. ferð:

Allar gönguferðirnar þrjár í þessari bók byrja og enda við aðaltorgið Dam. Fyrsta ferð leiðir okkur um austurhluta gömlu miðborgarinnar.

Dam

Þar sem nú er Dam, var fyrsta stíflan í ánni Amstel gerð einhvern tíma á 13. öld. Eftir þeirri stíflu fékk borgin nafn og kallaðist Amsteldamme. Við stífluna myndaðist höfn og út frá henni stækkaði fiskiþorpið upp í kaupsýsluborg.

Við hefjum gönguna framan við Krasnapolsky hótel og frestum því að skoða konungshöllina og Nieuwe Kerk handan torgsins. Í okkar enda þess trónir þjóðarminnisvarðinn (sjá líka bls. 42), sem reistur var 1956 fyrir samskotafé til að minnast afreka Hollendinga í síðari heimsstyrjöldinni.

Hægra megin við hótelíð, handan lítils sunds, er ein af hinum gömlu Bruine kroegs, De Wildeman, í elzta húsi torgsins, frá 1632. Þar væri gott að styrkja sig á kaffi fyrir gönguna og skoða um leið veggskreytingu hinna mörgu peningaseðla gamalla tíma frá ýmsum löndum.

Við getum líka litið inn í vetrargarðinn Wintertuin, morgunverðarsal Krasnapolsky (sjá bls. 18), sem er einstakur í sinni röð, ekki sist ef við erum á ferðalagi að vetrarlagi.

Warmoesstraat

Frá hótelinu göngum við til hægri eftir Warmoesstraat, elztu götu borgarinnar. Þar bjuggu á 15. öld fínustu borgararnir. Þegar þeir fluttu á 17. öld til Herengracht, varð þessi gata að helztu verzlunargötunni og hótelgötunni. Hertoginn af Alba bjó hér, þegar hann vildi sauma að Hollendingum.

Tvær kaffiverzlanir endurspegla enn hina gömlu tíma. Thee en koffiehandel á nr. 102 og Geels & Co á nr. 67. Og farfuglaheimilið á nr. 87, sem bauð gistingu á Fl 17 og Fl 12 í sal, síðast þegar við gengum hjá, endurspeglar líka gamla tímann.

Við tökum fljótt eftir, ef við höfum ekki gert það á siglingunni um síkin, að mjóu gaflhúsin slúta í rauninni fram. Þau eru byggð svona af ásettu ráði. Efst í gaflinum er bálkur fyrir blokk. Þannig má á reipi draga stóra muni upp á hæðirnar, án þess að reka þá utan í. Engin leið er að koma þeim upp þrönga stigana. Þessa iðju verða menn að stunda enn þann dag í dag um alla borg.

Við förum götuna út að Oudebrugsteeg, sem liggur til vinstri og lítum aðeins inn í hana, því að þar er þétt setinn bekkurinn af smáhótelum, börum og búðum. Síðan förum við spölkorn til baka eftir Warmoesstraat, unz við sjáum Oudekerk til vinstri.

Oudekerk

Við göngum kringum Oudekerk, Gömlukirkju, og furðum okkur á tvennu. Annars vegar litlu húsunum, sem skotið er inn í króka kirkjuveggjanna til að nýta plássið. Og hins vegar, að hálfklæddu og digru dömurnar í rauðlýstu gluggunum skuli stunda iðju sína beint undir kirkjuveggjunum.

Oudekerk er elzta kirkja borgarinnar, frá því um 1300, næstum því eins gömul og Sturlungaöld. Hún er byggð úr tígulsteini og er í rómönskum stíl, en þó með miklum gluggum, fallega steindum, eins og tíðkaðist á síðari gotneskum tíma. Turninn er yngri, frá miðri sextándu öld, í blandstíl gotnesku og endurreisnar.

Turninn er raunar furðuleg smíði. Neðsti stallurinn er voldugur og ferstrendur með klukkuskífum til allra átta. Þar á ofan kemur port hárra og mjórra súlna. Síðan kemur næpa. Málið er ekki enn búið, því að þar á ofan kemur annað súlnaport og loks önnur, gullin næpa efst uppi.

Oudezijds Voorburgwal

Kirkjan er við Oudezijds Voorburgwal, sem er þungamiðja gleðikvennahverfisins, ásamt með hinu samhliða Oudezijds Actherburgwal. Íflestum húsunum umhverfis síkin tvö sitja þær í stórum gluggum og bíða viðskiptavina um bjartan dag sem á kvöldin.

Við höldum til vinstri norður eftir bakkanum og tökum fljótlega eftir mjóstu götu borgarinnar, milli nr. 54 og 62. Þaðer nafnlaust og liggur inn að rauðum ljósum.

Museum Amstelkring

Örlitlu norðar komum við að Museum Amstelkring á nr. 40. Þar uppi á lofti er leynikirkja kaþólskra frá 1663. Hún var notuð í tvær aldir, meðan Kalvínismi Hollendinga var sem strangastur. Talið er, að 60 slíkar leynikirkjur hafi verið í borginni, en þessi er hin eina í upprunalegu ástandi.

Kirkjan er innréttuð á efstu hæðum og í risi þriggja íbúðarhúsa. Hún er sjálf á þremur hæðum. Kirkjugestir skutust úr hliðargötu inn um litlar dyr upp þrönga og flókna stiga. Við tökum eftir, hversu slitin þrepin eru.

Kirkjan er til sýnis og sömuleiðis neðri hæðir hússins, þar sem innréttað hefur verið minjasafn, sem sýnir híbýli og húsbúnað hins vel stæða fólks, er lét gera kirkju uppi á lofti.

Sint Olofssteeg

Við förum áfram norður meðfram síkinu og sjáum framundan kirkjuna, sem tók við, þegar kaþólikkar máttu aftur þjóna guði opinberlega. Það er St Nicolaaskerk.

Við enda síkisins hægra megin brúar sjáum við hrörlegt hús hanga yfir síkinu. Það er frá því um 1500, eitt elzta hús borgarinnar. Þar var til skamms tíma hið fræga veitingahús Le Chat qui pelote, sem orðið hefur mörgum harmdauði.

Áfram höldum við síðan ferð okkar eftir Sint Olofssteeg upp á hina frægu götu Zeedijk. Á horninu verða fyrir okkur smáhópar iðjuleysingja frá fyrrverandi nýlendum Hollands. Þeir eru sumir í vímu og taldir meinlitlir, en lögreglan er þó oftast hér á vakki.

Út á brúna förum við og virðum fyrir okkur útsýnið til baka eftir Oudezijds Voorburgwal og enn fremur í gagnstæða átt eftir þröngu síkinu Oudezijdskolk, þar sem er bakhlið St. Nicolaaskerk innan um gömul vöruhús. Síðan snúum við til baka af brúnni og höldum til vesturs Zeedijk stuttan spöl að Prins Hendrikkade.

Beurs

Hér sjáum við til vinstri, handan bátalægisins við Damrak, kauphöllina í Amsterdam, Beurs. Það er skrítin höll, reist um aldamótin í eins konar Jugend-stíl. Hún þótti mikið hneyksli á þeim tíma og þykir jafnvel enn. Þetta er þunglamalegt tígulsteinshús, sem tekur sig einna bezt út frá þessu sjónarhorni.

Jugendstíll, ungstíll, eða Art Nouveau, nýstíll, kom til skjalanna rétt fyrir síðustu aldamót, þegar byggingarmeistarar voru orðnir þreyttir á stælingum gamalla stíla, á nýgrísku, nýrómversku og nýgotnesku. Mælirænni formfestu var kastað fyrir róða og frelsið fekk að ríkja. Stíllinn stóð ekki lengi, því að milli heimsstyrjaldanna leysti nytjastíll nútímans hann af hólmi.

Sá, sem hér horfir á tilviljanakennt útlit Beurs, á erfitt með að trúa, að eins konar nytjastíll ríkir að innanverðu, þar sem gríðarlegir stálbogar spanna yfir margra hæða kauphallarsal undir risavöxnum þakgluggum. Þannig blandaði byggingameistarinn Berlage saman innra svifi og ytri þunga.

Gamla kauphöllin, sem brann, var reist hér á sama stað árið 1611. Hún var þannig gerð, að skipin gátu siglt eftir henni miðri, undir þaki. Til beggja hliða voru svo sölubúðir á tveimur hæðum. Eftir lýsingum og myndum hlýjur það að hafa verið miklu skemmtilegri kauphöll en þessi.

Centraalstation

Í hinni áttinni, til hægri, sjáum við aðaljárnbrautarstöðina í 19. aldar nýgotneskum stíl, teiknuð af Petrus Cuypers þeim, sem líka teiknaði Rijksmuseum. Stöðin er reist á þremur tilbúnum eyjum og hvílir á 8687 tréstaurum. Hún er þarna nánast úti í sjó, af því að hvergi var annars staðar rúm fyrir hana.

Fyrir framan er fjörlegt, hvítt timburhús, Noord-Zuid Hollands Koffiehuis, þar sem er veitingastofa og upplýsingastofa ferðamálaráðs borgarinnar.

St Nicolaaskerk

Við göngum eftir Prins Hendrikkade framhjá St Nicolaaskerk, höfuðkirkju kaþólikka, um það bil 100 ára gamalli. Nicolaas þessi er verndardýrlingur sjómanna og barna. Samkvæmt siðvenju í Amsterdam kemur hvítskeggjaður náungi í rauðri biskupsskikkju til borgarinnar í lok nóvember á hverju ári. Hann heitir Sinterklaas og heimsækir borgarstjórann til að kynna sér, hvort borgarbörnin hafi hegðað sér nógu vel til að fá gjafir.

Þannig varð St Nicolaas að Sinterklas og síðan að Sankti-Kláusi eða þeim jólasveini, sem breiðzt hefur út um allan heim, einmitt frá Amsterdam. Og þetta er kirkjan hans.

Schreierstoren

Við tökum beygjuna á Prins Hendrikkade og sjáum strax turninn Schreierstoren á hægri hönd. Þessi turn frá 1482 var upphaflega hluti borgarmúrsins og þá náði höfnin hingað. Sagan segir, að nafnið stafi af, að hingað komu konurnar og börnin til að veifa og gráta, þegar karlarnír lögðu á hafið.

Scheepvaart Museum

Frá turninum sjáum við handan vatnsins miklar byggingar, reistar 1656 sem birgðaskemmur flotans á 18.OOO tréstaurum í höfninni. Þar er nú Scheepvaart Museum eða hollenzka siglingasafnið með ótal líkönum skipa, korta, hnatta og annars, sem minnir á siglingar.

Siglingasafnið er um leið hollenzkt sögusafn, því að saga landsins er saga siglinga. Á stórveldistíma Amsterdam náðu Hollendingar í sínar hendur mestöllum siglingum um Evrópu vestanverða og norðanverða. Þeir endurbættu gamlar skipagerðir og fundu upp á nýjum. Hvarvetna hleyptu þeir nýju blóði í handverk og kaupsýslu. Hvarvetna voru þeir aufúsugestir, nema hjá hirðum einvaldshneigðra konunga, sem stefndu að verzlunareinokun, til dæmis Kristjáns IV yfir Danmörku og Íslandi.

Binnenbantammer

Okkur finnst of langt þangað að sinni og beygjum heldur til hægri eftir austurbakka Geldserkade. Þriðja þvergatan til vinstri er Binnenbantammerstraat, miðpunktur Kínahverfisins í borginni. Þar eru kínversku veitingahúsin í röðum, þar á meðal Azïe (sjá bls. 26). Á þessum slóðum er einna ódýrastan veitingahúsamat af almennilegu tagi að fá í miðborginni.

Zedijk

Úr Binnenbantammerstraat göngum við til baka yfir Geldserkade og beygjum til hqri eftir hinum síkisbakkanum. Síðan förum við næstu þvergötu til vinstri, Waterpoortsteeg, og erum strax komin inn á Zeedijk enn án ý, en á öðrum stað en í fyrra skiptið.

Þetta er hin hefðbundna sjómanna-skemmtigata borgarinnar. Barirnir og búlurnar eru hlið við hlið og mikill mannfjöldi er úti á götu að kvöldlagi. Á morgnana er gatan hins vegar steindauð og hasslyktin horfin.

Við getum gengið götuna til hægri og komizt fljótlega á fyrri slóðir þessarar gönguferðar. En við kjósum heldur að fara til vinstri. Nálægt endanum ber fyrir okkur sjón, sem kemur á óvart í þessari gleðskapargötu. Það er leikvöllur með skrítnum leiktækjum, bleikum fíl og skærum veggmálverkum.

Nieuwmarkt

Hér komum við út á Nieuwmarkt, sem einu sinni var fiskmarkaður borgarinnar. Enn eru hér ýmsar góðar verzlanir, þar sem höndlað er með fisk, kjöt, osta, vín og annað góðgæti. Á torginu er dálítill blómamarkaður og svo fjörlegur fornminjamarkaður á sunnudögum.

Waag

Á miðju torginu er gamall turn, sem eitt sinn var hlið á virkisvegg borgarinnar. Hann hét áður St Anthoniespoort, en hefur lengi verið kallaður Waag, því að þar voru hinar opinberu vigtir, þar sem tryggt var, að vörur væru rétt mældar.

Waag hefur sjö turna og margar dyr, byggður 1488. Lengst af var hann aðsetur ýmissa gilda iðnaðarmanna og hafði hvert gildi sínar útidyr. Meðal þeirra var gildi skurðlækna, sem leyfði Rembrandt að mála hér hinar tvær frægu myndir: Kennsla í anatómíu. Myndin af dr. Tulp er í Mauritzhuis í Haag og myndin af dr. Deijman í Rijksmuseum hér í Amsterdam.

Nú er Waag Sögusafn gyðinga, opið 9:30-17, sunnudaga 13-17. Þar eru til sýnis ýmsir heilagir gripir gyðinga og minjar um hernámið í seinni heimsstyrjöldinni.

Kloveniersburgwal

Af torginu förum við suður eftir síkinu Kloveniersburgwal, fyrst á hægri bakka, en færum okkur svo á fyrstu brú yfir á vinstri bakka. Við sjáum hægra megin, á nr. 26, eitt af grennstu húsum borgarinnar, hús vagnstjóra Tripps. Að baki þess er sú saga, að vagnstjórinn óskaði sér eigin húss, jafnvel þótt það væri ekki breiðara en dyrnar á húsi húsbóndans. Sá heyrði óskina og uppfyllti hana, nákvæmlega.

Zuiderkerk

Við beygium til vinstri inn Zandstraat og komum að Zuiderkerk. Hún var reist 1611 af hinum þekkta byggingameistara Hendrick de Keyser og er fyrsta kirkja borgarinnar í kalvínskum sið. Mesta skart hennar er turninn, sem er sagður hafa haft mikil áhrif á kirkjuturna Christophers Wren í London.

Montelbaanstoren

Við höldum áfram Zandstraat og út á brúna yfir Oudeschans. Af henni er ágætt útsýni til vinstri til turnsins Montelbaanstoren. Hann er einn af 15. aldar virkisturnum borgarinnar. Árið 1606 bætti Hendrick de Keyser ofan á hann tæplega 50 metra hárri spíru. Margir telja þetta fallegasta turn borgarinnar, enda sést hann oft á málverkum og ljósmyndum.

Rembrandthuis

Áfram höldum við yfir brúna og sjáum strax á hægri hönd hús með rauðum gluggahlerum. Það er Rembrandthuis, þar sem sjálfur meistarinn bjó mestu velgengnisárin, frá 1639 til 1658, þegar hann varð gjaldþrota. Hér málaði hann mörg þekktustu verk sín.

Nú er húsið minningasafn um Rembrandt, opið 10-17, sunnudaga 13-17. Sjá má prentvél hans og rúmlega 250 stungur, en húsbúnaður er ekki hans, heldur annarra samtíðarmanna. Heimilisfangið er Jodenbreestraat 4-6 og minnir á, að þetta var miðja gyðingahverfisins fram að síðari heimsstyrjöld.

Mozes en Aaronkerk

ið förum áfram Jodenbreestraat út að torginu Mr Visserplein. Við enda götunnar er á hægri hönd afturendi kirkju, sem ber hið gyðinglega nafn Mozes en Aaronkerk. Hún var samt upphaflega kaþólsk, en hefur verið breytt í félagsmálamiðstöð.

Hér er nú griðastaður fyrir erlenda verkamenn og ungt ferðafólk. Selt er gos og snarl og boðið upp á sýningar á handíð og list eða á vandamálum íbúa þriðja heimsins. Einnig eru þar á sunnudögum sérhæfðar poppmessur fyrir ungt fólk. Þannig er þetta fjörugasta kirkjan í borginni.

Valkenburgerstraat

Vinstra megin við torgið förum við á flóamarkaðinn í Valkenburgerstraat (sjá bls. 45)

Portugese Synagoge

Þegar við komum aftur inn á Mr Visserplein, höfum við kassalagað stórhýsi á vinstri hönd. Það er höfuð-sýnagóga gyðinga, reist 1675. Þá hafði mikill fjöldi gyðinga streymt frá ofsóknum rannsóknaréttarins á Spáni og í Portúgal til trúfrelsisins og uppgangsins í Amsterdam.

Synagógan er í eins konar jónískum stíl og á að vera stæling á meintu útliti musteris Salómons í Jerúsalem. lnni standa tólf voldugar súlur undir kvennasvölum. Mest áberandi eru kertaljósakrónurnar miklu, er bera þúsund kerti, sem öll eru látin loga við guðsþjónustur á laugardögum.

Portugese Synagoge er opin til skoðunar 10-15, sunnudaga 10-13, lokuð laugardaga.

Blauwbrug

Frá torginu göngum við Nieuwe Amstelstraat að ánni Amstel, þar sem er brúin Blauwbrug. Hún er eftirlíking af brú Alexanders lll Rússakeisara yfir Signu í París, byggð 1880, skreytt miklum ljósakúplum. Þaðan er eitt bezta útsýni í borginni, til suðurs að hinni hvítu Magere Brug.

Við Blauwbrug sjáum við sérkennilega gróinn húsbát í eigu listamannsins Bulgar. Þetta er einn af rúmlega 2000 húsbátum á síkjum borgarinnar. Um helmingur þeirra er þar í óleyfi, en borgaryfirvöld hafa ekki mátt til aðgerða, af því að húsbátamenn í Amsterdam eru jafn harðir af sér og hundaeigendur í Reykjavík. Sumir þessara báta eru verstu hreysi, en aðrir eru lúxusíbúðir með öllum þægindum, þar á meðal rafmagni úr landi. Öllum er þeim sameiginlegt að nota síkin fyrir úrgang, en ekki ræsi borgarinnar.

Magere Brug

Við förum yfir Blauwbrug, Bláubrú, og göngum eftir bakka Amstel í átt til Magere Brug, Mögrubrúar, frægustu og fegurstu brúar borgarinnar. Hún er orðin nærri 3OO ára gömul og þykir sérstaklega falleg að næturlagi, þegar hún er prýdd ótal ljósum. Þessi mjóa trébrú er mikill umferðarhnútur og sýnir því verndun hennar, hve mikla virðingu borgarar Amsterdam bera fyrir hinu gamla.

Museum Willet-Holthuysen

Frá Magere Brug göngum við til baka meðfram Amstel að Herengracht og göngum þar inn hægri bakka síkisins. Þar komum við fljótt að Museum Willet-Holthuysen á Herengracht 605. Það var reist 1687 sem auðmannsheimili og er nú minjasafn um lífið á slíkum heimilum í þá daga. Allt er þetta svo eðlilegt, að það er eins og fjölskyldan hafi skroppið út fyrir klukkustund, en ekki fyrir tæpum 300 árum.

Að húsabaki er skemmtilegt dæmi um húsagarð eins og þeir tíðkuðust hjá auðugum 17. og 18. aldar borgurum, sem höfðu lítið rými, en reyndu þó að stæla garða franskra aðalsmanna.

Thorbeckeplein

Við göngum Herengracht út að Thorbeckeplein og förum þar út á brúna yfir Herengracht. Þaðan er skemmtilegt útsýni til margra brúa á Herengracht og Reguliersgracht. Síðan förum við norður Thorbeckeplein inn á Rembrandtsplein.

Rembrandtsplein

Skemmtanalífsins á Thorbeckeplein og Rembrandtsplein var getið framar í bókinni (sjá bls. 42). Í þetta sinn göngum við inn í garðinn á miðju torgi og skoðum styttuna af Rembrandt. Kannski er líka kominn tími til að fá sér fiskrétt í hádegisverð á Seepaerd (sjá bls. 32).

Í norðausturhorni torgsins er pínulítil lögreglustöð milli Reguliersbreestraat og Halvemansteeg, sögð sú minnsta í heimi. Þar kveðjum við þetta torg, sem einu sinni var smjör- og ostamarkaður borgarinnar, og göngum norður Halvemansteeg og yfir ána Amstel á brú.

Groenburgwal

Komin yfir Amstel göngum við skamman veg meðfram Kloveniersburgwal, unz við komum að fremstu brúnni yfir það síki. Það er ein af hinum skemmtilegu járnvindubrúm frá gömlum tíma, þegar slíkar brýr tóku við af trévindubrúm á borð við Magere Brug.

Að þessu sinni förum við ekki strax yfir brúna, heldur göngum spölkorn í gagnstæða átt eftir Staalstraat að litlu og Iaglegu síki, sem nefnist Groenburgwal. Af brúnni þar er skemmtilegt útsýni til Zuiderkerk (sjá bls. 65)

Oudemanhuispoort

Síðan förum við sömu leið til baka, göngum yfir áðurnefnda járnvindubrú og beygjum svo til hægri eftir vinstri bakka Kloveniersburgwal.

Brátt komum við að mjóu húsasundi til vinstri og förum þar inn. Það er Oudemanhuispoort eða Gamalmennahússund, sem heitir svo, af því að þetta var einu sinni inngangurinn í fátækrahæli borgarinnar. Nú er þetta inngangurinn í háskólann. Aðalbyggingu hans sjáum við brátt hægramegin, handan húsagarðs. Á vinstri hönd er hins vegar bókamarkaðurinn (sjá bls 46)

Grimburgwal

Þegar við erum komin út úr Oudemanhuispoort, förum við yfir brúna framundan. Þar á horninu fyrir framan er Þriggjasíkjahús, sem heitir svo, af því að það liggur að síkjum á þrjá vegu. Framhlið hússins, fallegri hliðin, er hinum megin.

Við göngum áfram með Grimburgwal, sem við höfum á vinstri hönd. Það er lítið og ljúft síki með háskólabyggingum á vinstri bakka.

Við vorum búin að fara yfir brúna á Oudezijds Achterburgwal og förum nú yfir brúna á Oudezijds Voorburgwal. Af brúnni lítum við til baka að Þriggjasíkjahúsi. Síðan höldum við áfram meðfram Grimburgwal, unz við komum að nokkrum gömlum húsum á síkisbakkanum vinstra megin götunnar.

Þar leynist lítil hurð og að baki hennar þröngur og brattur stigi upp að örsmárri kökustofu, Carla lngeborg‘s Pannekoekenhuis, þar sem er kjörið tækifæri til að fá sér eina stóra, hollenzka pönnuköku með hunangi.

Pijlsteeg

Við göngum síðan aftur til baka að Oudezijds Voorburgwal og röltum nokkurn veg eftir vinstri bakka síkisins. Við förum yfir Damstraat og beygjum síðan inn næsta húsasund til vinstri, Pijlsteeg. Þar er miðja vega jenever-búlan Wijnand Fockink, þar sem við fáum okkur glas ítilefni af, að nú er fyrstu gönguferðinni lokið. Héðan eru aðeins nokkur skref út að Dam og Krasnapolsky, þaðan sem við hófum ferðina

2. ferð:

Enn hefjum við ferð frá Dam, en í þetta sinn byrjum við í hinum enda torgsins, fyrir framan konungshöllina og Nieuwe Kerk. Við höfum áður lýst lífinu á torginu (sjá bls. 42), svo að við snúum okkur strax að konungshöllinni.

Koninklijk Paleis

Höllin var reist 1655 sem ráðhús borgarinnar á miðri auðsældaröld hennar. Hún er teiknuð af Jacob van Campen í síðbúinni, hollenzkri útgáfu af endurreisnarstíl, svokölluðum palladískum fægistíl. Við tökum eftir einkar formföstum hlutföllum hallarinnar, mildum útskotum, veggsúlnariðum og láréttri skiptingu milli hæða.

Höllin minnir raunar á sum ráðhús 16. aldar. Allur útskotni miðbálkurinn er einn risastór og bjartur salur, sem lengi var hinn stærsti í heimi. lnni í höllinni eru ein hin beztu dæmi um Empire húsgögn, arfur frá Louis Bonaparte, er skyndilega hafði sig á brott héðan.

Þessi volduga höll var sem ráðhús ein helzta miðstöð hollenzka heimsveldisins í hálfa aðra öld. Þegar Napóleon Bonaparte tók Holland 1808, gerði hann bróður sinn, Louis, að kóngi í ráðhúsinu. Það konungsveldi varð skammvinnt, en síðan hefur ráðhúsið verið konungshöll landsins.

Að vísu býr drottningin ekki þar, því að tæpast er hægt að búa í höll með háværum umferðaræðum á alla vegu, hafandi ekki einu sinni garð á milli. Hún býr að venju í Haag og kemur bara hingað í opinberar móttökur eða til að gista eina nótt í senn.

Höllin er opin almenningi á sumrin 12:30-16 og veturna sömu tíma á miðvikudögum. Gestir geta gert sér í hugarlund, að það þurfti 13.659 tréstaura til að halda höllinni uppi í mýrinni. Að skilnaði skulum við minnast þess, að höllin er eitt fullkomnasta skólabókardæmi um ákveðinn byggingarstíl í fortíðinni.

Sint Luciensteeg

Frá höllinni skellum við okkur í mannhafið og látum okkur berast suður eftir Kalverstraat (sjá bls. 43). Við förum svo til hægri í Sint Luciensteeg, þar sem fyrir okkur verða á vegg vinstra megin húsmerkingarsteinar. Þetta eru eins konar skjaldarmerki, höggvin í stein, sem í gamla daga komu í staðinn fyrir götunúmer í Amsterdam. Hvert hús í fínni hverfunum hafði slíkan húsmerkingarstein. Á göngum okkar um borgina sjáum við marga slíka, en hér hefur verið safnað á einn stað nokkrum steinum af húsum, sem hafa verið brotin.

Við getum litið inn á Nieuwezijds Voorburgwal. Á þessum parti þeirrar götu er frímerkjamarkaðurinn haldinn (sjá bls. 47)

Hlstorisch Museum

Við förum Sint Luciensteeg til baka og höldum áfram suður Kalverstraat nokkra metra, unz við komum að nr. 92 hægra megin. Þar er inngangurinn í borgarminjasafnið Historisch Museum, sem áður var munaðarleysingjahæli borgarinnar.

Þetta er safn fyrir þá, sem ekki hafa áhuga á söfnum. Það er svo vel gert, að óhjákvæmilegt er, að við öðlumst dálítinn áhuga á merkri sögu Amsterdam. Við förum sal úr sal og fylgjumst með þróun og vexti borgarinnar öld fyrir öld.

Amsterdam var upprunalega fiskipláss, sem fékk eins konar kaupstaðarréttindi 1275. Íbúarnir voru aðallega Frísar. Fátt segir af borginni, fyrr en eftir brunann mikla 1452, er timburhús voru bönnuð og fyrirskipað var að byggja úr tígulsteini. Í ríkjamyndunum miðalda komst Amsterdam fyrst undir veldi Búrgundarhertoga og síðan Habsborgara.

Sextánda öldin einkenndist af tilraunum Hollendinga til að losna undan oki hinnar spönsku deildar Habsborgara. Vilhjálmur þögli barðist við hertogann af Alba og varð forfaðir konungsættarinnar af Oranje. Á þessum tíma voru Hollendingar knúnir áfram af kalvínismanum, sem var í ofsafenginni andstöðu við ofsafengna kaþólsku Filipusar II af Kastilíu.

Árið 1602 var Austur-Indíafelagið stofnað, 1609 Amsterdambanki og 1611 kauphöllin. Borgin var virkur aðili að þessum fyrirtækjum og varð heimsveldi á þessum áratug. Um þetta leyti voru gerðir Herengracht, Keizersgracht og Prinsengracht. Miðborgin fékk þann svip, sem hún ber að mestu enn. Holland eignaðist nýlendur út og suður og fræga flotaforingja, sem eru grafnir í Nieuwe Kerk.

Á stórveldístíma sínum mynduðu Hollendingar mikilvægan hlekk í þróunarkeðju Norðvestur-Evrópu, sem fól í sér tæknilegt stökk frá miðöldum inn í vísindatíma nútímans. Siglingar örvuðu handverk, sem örvaði svo aftur siglingar. Þetta hlóð upp á sig og Amsterdam varð Evrópumiðstöð fjármála, kaupsýslu, iðnaðar, tækni, vísinda, lista og menningar.

Amsterdam og Hollendingar urðu á öldinni átjándu að víkja fyrir afli London og Englendinga. Hollendingar voru samt búnir að koma sér vel fyrir, svo sem sýna dæmin af Unilever, Royal Dutch Shell og Philips, stórveldisfyrirtækjum nútímans. Á síðustu áratugum felast þó mestu afrek Hollendinga í gífurlegri tækni við gerð flóðgarða.

Safnið er opið 9:30-17, sunnudaga 13-17.

Begijnensteeg

Við yfirgefum fortíðina í Historisch Museum og höldum áfram suður Kalverstraat. Næsta hliðargata til hægri er Begijnensteeg, þar sem við beygjum til hægri. Þar er skemmtileg bjórkrá, Pilsener Club (sjá bls. 49). Einnig er þar rómantískt veitingahús, Bistrogijn, með steindum gluggum, gamalhollenzkum húsbúnaði og kertaljósum. Gatan stefnir beint að hliðinu á Begijnhof.

Við hefðum líka getað komizt hingað beint úr safninu bakdyramegin. Þá hefðum við farið um Varðmannasalinn, sem er tveggja hæða glerskáli með stórum málverkum af hetjum Amsterdam, er söfnuðust saman 1580 til að verja borgina fyrir hertoganum af Alba.

Begijnhof

Begijnhof er kyrrlátur unaðsreitur mitt í ys og þys stórborgarinnar. Þar kúra saman smáhýsi í kringum stóra garðflöt og kirkju. Þetta var öldum saman heimili kristilegra kvenna, sem þó voru ekki vígðar sem nunnur. Slík kristileg kvennaþorp hafa hvergi varðveitzt nema hér og í Breda.

Ferðamenn koma lítt við hér, enda eru dyrnar að Begijnhof ekki áberandi. En þetta er einmitt ánægjulegur hvíldarstaður frá hávaða, þrengslum og mannhafi umhverfisins. Sérstaklega er notalegt að koma hingað á sunnudagsmorgnum, þegar orgeltónarnir hljóma úr kirkjunum. Ef Shangri La er einhvers staðar, þá er það hér.

Kirkjan á flötinni er mótmælenda, kölluð Enska kirkja. Andspænis henni er kaþólska kirkjan felld inn í húsaröðina, á nr. 31. Hún er hin raunverulega kirkja Begijnen, kristilegu kvennanna.

Rétt vinstra megin við kaþólsku kirkjuna er elzta íbúðarhús borgarinnar, timburhús frá 1478, meira en 500 ára gamalt. Það er eins gamalt og hálf Íslandssagan. Í skotinu að baki hússins eru nokkrir húsmerkingarsteinar eins og þeir, sem áður hefur verið lýst.

Spui

Við förum úr þessum enda Begijnhof um flísalagt portið út á torgið Spui. Þar getum við litið inn í 3OO ára gamla bjórkrá, Hoppe (sjá bls. 48).
Síðan förum við aftur í Kalverstraat, sem liggur um austurenda torgsins. Þar komum við brátt á hægri hönd að vaxmyndasafninu Madame Tussaud, sem er eitt útibúið frá móðursafninu í London, opið 10-18.

Leldsestraat

Við beygjum næst til hægri inn Heiligeweg og í beinu framhaldi af honum Koningsplein og Leidsestraat. Við fylgjum þannig áfram verzlunarás borgarinnar, sem hófst í hinum enda Kalverstraat við konungshöllina og mun halda áfram handan Leidseplein í P.C.Hooftstraat og von Baerlestraat.

Leidsestraat er göngugata eins og Kalverstraat, full af fólki á öllum tímum dags og jafnvel nætur, því nú erum við farin að nálgast Leidseplein. Við förum á brúm yfir Herengracht, Keizersgracht og Prinsengracht og erum óheppin, ef eitt einkennistákna borgarinnar, handknúið og ríkulega litskreytt götuorgel eða lírukassi, verður ekki á vegi okkar.

Við skulum staðnæmast á brúnni yfir Herengracht og virða fyrir okkur Gullbogann á síkinu vinstra megin. Þar eru fínustu heimilisföngin í borginni, áður heimili auðugustu borgarherranna og nú virðulegustu bankanna.

Komin á Keizersgracht getum við tekið smákrók til hægri til að líta á hús nr. 446, vinstra megin síkis. Þar átti Casanova um tíma í platónsku ástarsambandi við Esther, dóttur Hope bankastjóra.

Við getum líka staðnæmzt við Prinsengracht. Þar í húsinu á hægra horninu er hótelið Alexander (sjá bls. 11), veitingahúsin Dikker en Thijs og Prinsenkelder (sjá bls. 40) og sælkerabúðin Dikker en Thijs. Hún er hin fremsta hér í borg og vitnar því miður ekki um, að Hollendingar séu miklir matgæðingar.

Leidseplein

Og þá erum við komin á Leidseplein, miðstöð hins ljúfa lífs. Hér eru í röðum veitingahúsin góðu, krárnar fínu og allar útgáfur skemmtanalífsins. Margir eru þeir, sem búa á American hóteli (sjá bls. 18) við torgið og sjá enga ástæðu til að fara út fyrir torgið.

Við Leidseplein eru veitingahúsin Oesterbar (sjá bls. 32), Djawa (sjá bls. 26), Borderij (sjá bls. 38) og Swarte Schaep (sjá bls. 38). Hér eru krárnar Wiinlokaal (siá bls. 48), Continental Bodega (sjá bls. 48), Reynders (sjá bls. 47) og Eylders (sjá bls. 47). Hér er næturklúbburinn Blue Note (sjá bls. 53) og rétt hjá ungmennastaðirnir Melkweg (sjá bls. 52) og Paradiso (sjá bls. 52).

Og á miðju torgi trónir Stadsschouwburg í öllu sínu veldi, borgarleikhúsið, ríkisóperan og ríkisballettinn. Við setjumst handan þess á stól fyrir framan Café Americain og hvílum lúin bein, virðum fyrir okkur mannlífið og sötrum sérgrein hússins, lrish Koffie.

P.C.Hooftstraat

Handan við Singelgracht eru hótelin Marriott (sjá bls. 16) og Centraal (sjá bls. 20). Milli þeirra er gatan Vondelstraat og inn af henni Roemer Visscherstraat með nokkrum ódýrum hótelum, þar á meðal Owl (sjá bls. 21), Vondel, Parkzicht, Sipermann og Engeland.

Við förum brúna yfir Singelgracht og beygjum síðan til vinstri. Þar verður á vegi okkar enn eitt einkennistákn borgarinnar, einn af mörgum síldarvögnum hennar. Þar er hægt að stýfa úr hnefa ýmsar tegundir af síld, ólíkt matarlegri en pylsurnar hjá okkur.

Við göngum suður garðinn og Stadhouderskade, unz við komum að Hobbemastraat til hægri. Þar á hægra horninu er veitingahúsið Mirafiori (sjá bls. 32). Síðan beygjum við til hægri inn í P.C.Hooftstraat, þar sem sitt á hvoru horninu eru veitingahúsin Sama Sebo (sjá bls. 25) og Rembrandt (sjá bls. 31).

P.C.Hooftstraat er fínasti hluti verzunarássins, sem við höfum fylgt á göngu okkar. Hér eru tízkubúðirnar og ýmsar sérverzlanir með dýrar vörur. Og hér er veitingahúsið Fong Lie (sjá bls. 27).

A mótum P.C.Hooftstraat og Constantijn Huygenstraat getum við beygt til hægri og farið í Vondelpark, notalegan útilífsgarð, sem er mikíð stundaður af trimmurum, hjólreiðafólki og hassreykingamönnum.

Ef við tökum ekki krókinn í garðinn, beygjum við á horninu tíl vinstri og förum von Baerlestraat alla leið að Concertgebouw, sem er hægra megin götunnar. Concertgebouw hýsir samnefnda sinfóníusveit, sem er í frægara lagi (sjá bls. 50).

Concertgebouw snýr út að gras- og blómatorginu Museumsplein. Handan þess sjáum við hið volduga Rijksmuseum, ríkislistasafnið, og á vinstri hönd Stedelijk Museum, borgarlistasafnið, og Rijksmuseum Vincent van Gogh.

Stedelijk Museum

Við höfum nú lokið göngu okkar um verzlunargöturnar Kalverstraat, Heiligeweg, Koningsplein, Leidsestraat og P.C.Hooflstraat og getum hætt að líta í búðarglugga. Hér tekur við menningarsagan.

Við förum til baka götuna, yfir hana og inn í hina nýju álmu Stedelijk Museum, Kjarvalsstaði Amsturdammara. Það er opið 9:30-17, sunnudaga 13-17. Hér skoðum við svokallaða nútímalist, þaðer að segja 20. aldar list frægra nafna.

Á veggjum hanga verk eftir Cézanne, Picasso, Renoir, Monet og Manet, einnig Chagall, Malevich, Kandinsky og Mondrian, svo og málverk eftir Cobra-hópinn. Þar eru líka yngri stefnurnar, popplist og conceptual list og hvað þær nú annars allar heita.

Þetta safn nýtur mikils álits, enda er það stöðugt að kaupa ný listaverk og heldur næstum þrjátíu sérsýningar á ári hverju.

Rijksmuseum Vincent van Gogh

Komin úr Stedelijk Museum förum við til hægri og síðan aftur til hægri inn Paulus Potterstraat, framhjá eldri álmu safnsins og að van Gogh safninu, sem er sömu megin götunnar. Það er í nútímabyggingu frá 1973, sem þykir merkilegur aldur í miðborginni!

Rijksmuseum Vincent van Gogh er opið 10-17, sunnudaga 13-17. Það er eitt skemmtilegasta listasafn í heimi. Hvergi er til jafn heildstætt safn málverka eins, heimsfrægs málara. Hér eru til sýnis um 200 málverk hans í réttri tímaröð. Hægt er að fylgjast mánuð fyrir mánuð með listþróun hans og vaxandi brjálsemi undir ævilokin, er hann framdi sjálfsmorð 37 ára gamall árið 1800. Hér eru einnig 500 rissmyndir hans.

Svo merkilega vill til, að mestur hluti afgangsins af málverkum Vincent er líka í Hollandi, ekki langt frá Amsterdam, í safni Kröller-Müller í Hoge Veluwe skógi. Þannig einokar Holland van Gogh gersamlega, öfundað af listvinum í öðrum löndum. En skýringin er, að enginn vildi kaupa myndir Vincents, meðan hann lifði. Síðar sáu ættingjar hans um, að „ruslið“, sem hann skildi eftir í Frakklandi, yrði flutt til heimalandsins.

Coster

Við göngum áfram Paulus Potterstraat að Rijksmuseum. Á enda götunnar, vinstra megin, er gimsteinasalan Coster. Í borginni eru margir góðir gimsteinasalar, sem sýna ferðamönnum slípun gimsteina, og Coster er einn sá besti. Það kostar ekkert að fylgjast með gamla manninum stunda þessa nákvæmnisvinnu með þar til gerðum vélakosti. En viljir þú kaupa, skaltu bara nefna upphæðina. Það er sama, hversu há hún er, Coster hefur eitthvað fyrir þig.

Rijksmuseum

Þunglamaleg höllin Rijksmuseum stendur klofvega yfir Museumstraat. Við komum hér aftan að henni og förum göngin til að komast að framhliðinni, þar sem inngangurinn er.

Rijksmuseum er ekki beinlínís á borð við Louvre, Ufflzi, Prado og National Gallery, en slagar þó hátt upp i þessi söfn Parísar, Flórens, Madrid og Lundúna. Gimsteinn þess er auðvitað Rembrandt og síðan aðrir Hollendingar á borð við Frans Hals og Vermeer.

Hinir miklu málarar Hollands voru uppi á 17 öld, einmitt gullöldinni, þegar opinberar stofnanir og einstaklingar höfðu nóg fé til að moka i listamenn. Þannig fylgdi menningin gróðanum.

Erfitt er að veita leiðsögn um samið, því að í seinni tíð hefur það ekki haft starfslið til að halda öllum vængjum opnum samtímis. Til að komast í alla vængina yrðum við að hafa allan daginn til ráðstöfunar. Til að þjóna þeim, sem ekki hafa tíma til slíks, hafa frægustu málverkin verið látin í míðsalina hægra megin, sem áður voru fyrir sérsýningar. Þessir miðsalir eru alltaf opnir.

Þar er mest látið með risastórt málverk Rembrandts af varðsveit Frans Banning Cocq og Willem van Ruytenburgh, oftast kallað Næturvaktin. Tveir varðmenn vaka yfir Næturvaktinni, sem í rauninni er dagvakt, svo sem í ljós kom, þegar fernisinn var hreinsaður af málverkinu skömmu eftir stríð.
Safnið er opið 10-17, sunnudaga 13-17.

Nieuwe Spiegelstraat

Þegar við komum úr safninu, höldum við beint af augum yfir Singelgracht og götuna Weteringschans, þar sem veitingastofan Opatija (sjá bls. 33) er nálægt horninu hægra megin.

Við höldum áfram yfir Lijnbaansgracht og síðan meðfram Spiegelgracht, þar sem við erum komin inn í hverfi forngripasala. Þeir eru hér á stóru svæði við Spiegelgracht, Prinsengracht og Keizersgracht, en þekktastir og flestir eru þeir við Nieuwe Spiegelstraat, sem er í beinu framhaldi af Spiegelgracht. Á kaflanum milli Prinsengracht og Keizersgracht er einmana vínbúð innan um þrjá tugi forngripasala.

Þessi samþjöppun er einkar þægileg fyrir áhugafólk um þessi efni. Á nokkrum tugum metra er hægt að finna sérfræðinga í flestum greinum forngripasölu. Og þeir selja ekki bara hollenzka forngripi, heldur hvaða lands sem er. Fransk- og brezkættaðir hlutir eru áberandi í þessum búðum.

Museum Van Loon

Þegar við erum komin út að Keizersgracht, beygjum við til hægri meðfram síkinu, förum yfir umferðargötuna Vijzelstraat að Keizersgracht 672, þar sem Museum Van Loon er til húsa. Það er ættarsafn van Loon ættarinnar, sem löngum hefur verið áberandi í opinberu lífi Amsterdam. Skemmtilegastur er skrautgarðurinn að húsabaki. Safnið er opið 10-12 og 13-16, lokað miðvikudaga.

Museum Fodor

Við þurfum að krækja út á brúna til baka til að komast í Museum Fodor, sem er andspænis Van Loon, við Keizersgracht 672. Þar eru sýnd málverk þeirra, sem enn eru ekki orðnir nógu frægir til að koma verkum sínum í Stedelijk Museum. Þess vegna fara menn hingað til að kynnast nýjum straumum i myndlist.

Verkaskipting þriggja safna er með þeim hætti, að Fodor sýnir list dagsins í dag, Stedelijk list 20. aldar og Rijksmuseum list fyrri alda. Hér á Museum Fodor gerðu Íslendíngar garðinn frægan í árslok 1983, fyrstir erlendra málara. Þetta safn á því stað í hjarta okkar.

Íslendingarnir, sem sýndu á Fodor, voru Árni Ingólfsson, Daði Guðbjörnsson, Eggert Pétursson, Helgi Þorgils Friðjónsson, Ingólfur Arnarson, Ívar Valgarðsson, Kristinn Harðarson, Steingrímur Eyfjörð Kristmundsson og Tumi Magnússon.

Bloemenmarkt

Við förum til baka út á Viezelstraat, ljótustu götu borgarinnar, og göngum hana til norðurs fram hjá Algemene Bank Nederland, sem er svo stirður, að hann tekur ekki einu sinni gildar eigin ávísanir. Á brúnni yfir Herengracht stönzum við stutta stund til að virða fyrir okkur Gullbogann til vinstri, sem við vorum áður búin að sjá frá Leidsestraat.

Síðan förum við áfram að blómamarkaðinum, Bloemenmarkt (sjá bls. 46) við Singel og drekkum í okkur litskrúð blómanna. Slíkan blómamarkað sjáum við tæpast í öðrum borgum.

Munttoren

Við erum komin að torginu Muntplein, sem heitir eftir turninum Munttoren. Hann er einn af turnum hins gamla borgarvirkis frá miðöldum og hét áður Reguliers, en fekk nafnið Munttoren, af því að borgin sló eigin mynt í honum um tíma. Á 17. öld brann turninn að mestu og fékk þá nýjan efri hluta. Sjálft torgið er mesta umferðartorg bíla í borginni.

Rokin

Handan Rokin síkis blasir við okkur hótelið Europe (sjá bls. 14) með veitingasalnum Excelsior (bls. 34) og matreiðslumönnunum í kjallaranum undir yfirborði vatnsins. Að baki okkar er veitingahúsið Indonesia (sjá bls. 26) á annarri hæð í hótelinu Carlton.

Við göngum norður eftir Rokin, þar sem við getum á ný tekið upp á að skoða í búðarglugga, ef við fáum okkur ekki bara að borða á Kopenhagen (sjá bls. 34). Margar verzlanir, sem hafa dyr út að Kalverstraat, hafa einnig dyr út að Rokin. Innan skamms erum við komin á Dam, þar sem þessi ferð var hafin. Við höfum skoðað suðvesturhluta miðborgarinnar.

4. ferð:

Þá er ekki annað eftir en norðvesturhlutinn. Við byrjum enn á Dam og í þetta sinn fyrir framan Nieuwe Kerk.

Nieuwe Kerk

Nieuwe Kerk er, þrátt fyrir nafnið, ein elzta kirkjan í Amsterdam, reist á 15. öld. Hún er eins konar Westminster Abbey Hollendinga, krýningarkirkja konungsættarinnar. Þar hafa þrjár Hollandsdrottningar verið krýndar í röð, Vilhelmína 1898, dóttir hennar Júlíana 1948 og dótturdóttirin Beatrix 1980. Svo virðist sem kvennaveldi hafi í heila öld ríkt í ættinni Oranje-Nassau. En nú hefur Beatrix eignast krónprins til að taka við ríkinu.

Nieuwe Kerk er ef til vill frægust fyrir að vera án turns. Mjó spíra var sett á hana til málamynda á 19. öld. Um miðja 17. öld höfðu borgarfeður deilt um, hvort byggja skyldi kirkjuturn eða ráðhús og varð ráðhúsið ofan á. Kirkjan er opin 12-16, sunnudaga 13-17.

Gravenstraat

Að baki Nieuwe Kerk eru nokkur skemmtileg húsasund. Næst kirkjunni er Gravenstraat. Þar á nr. 28 er skemmtileg, lítil ostabúð, Crignon, sem rúmar varla fleiri en einn viðskiptavin í einu, en býður þó upp á rúmlega hundrað tegundir osta frá ýmsum löndum. Að búðarbaki er ostaveitingastofa. Við sömu götu, á nr. 16, er gamla jenever-búlan Drie Fleschjes (sjá bls. 50).

Nieuwendijk

Við förum Gravenstraat til austurs að Nieuwendijk, sem er eins konar framhald Kalverstraat til norðurs frá Dam. Það er gata verzlunar og býður upp á ótal hliðarsund, sem meira að segja höfundar þessarar bókar hafa ekki kannað öll. Eftir því sem norðar dregur, vex skemmtanalífið á kostnað verzlunarinnar. Gatan tekur þverbeygju til vesturs og endar við Singel.

Ronde Luterse Kerk

Við tökum örstuttan krók suður með vinstri hlið Singel, bæði til að virða fyrir okkur mjósta hús borgarinnar, sem er á Singel nr. 7, og til að skoða Ronde Luterse Kerk, sem er kúpulkirkja frá 1671.

Tvær milljónir tígulsteina og þakkopar frá Karli XI Svíakonungi fóru í þessa tæplega 50 metra háu kirkju í barokk- eða hlaðstíl. Hún var um síðir afvígð og gerð að pakkhúsi, unz Sonesta hótelið (sjá bls. 16) endurlifyaði hana.

Brouwersgracht

Til baka förum við og yfir Singel, göngum spölkorn inn Haarlemmerstraat, þar sem á nr. 43 er mjósta veitingahús heims, Groene Lanteerne í 17. aldar stíl og þjónusturnar bera eins konar þjóðbúninga.

Síðan göngum við götuna til baka, beygjum til hægri og síðan aftur til hægri eftir Brouwersgracht. Við þetta síki byrja hin margnefndu skeifusíki Herengracht, Keizersgracht og Prinsengracht. Hér er síkjastemmningin í algleymingi. Við tökum sérstaklega eftir fallega endurnýjuðu pakkhúsi á nr. 118.

Hér erum við um það bil að detta út af kortinu á bls. 36, svo að nú verða menn að fylgja þessari leiðarlýsingu undanbragðalaust. Við höldum áfram eftir hægri bakka Brouwersgracht framhjá Herenmarkt, sem er greinilega huggulegt torg, úr því að gamla fólkið situr þar og ungu börnin leika sér þar.

Jordaan

Þegar við komum að Prinzengracht, beygjum við til vinstri eftir henni, förum yfir á hægri bakkann og heilsum upp á Norderkerk og markaðinn við hana (sjá bls. 46). Kirkjan var reist 1623 og er í laginu eins og grískur kross.

Við erum komin í Jordaan, hverfið milli Prinsengracht og Lijnbaansgracht. Það var upphaflega fetækrahverfi franskra Húgenotta, en hefur á síðustu árum verið endurlífgað af miðaldra hippum, sem hafa innréttað dýrar íbúðir í gömlum pakkhúsum. Og við erum aftur komin inn á kortið á bls. 36.

Suður eftir Prinsengracht göngum við og lítum að vild inn í hliðargöturnar á hægri hönd. Á kránni Prins við Prinsengracht lO4 er kjörið að hvíla lúin bein.

Á næsta horni förum við inn Egelantiersgracht, afar notalegt síki, sem er dæmi um, hve vel hefur tekizt að endurreisa Jordaan. Af 8000 húsum hverfisins hafa 800 verið tekin undir verndarvæng húsfriðunarnefndar borgarinnar.

Anne Frank Huis

Við göngum hinn bakka Egelantiersgracht út að Prinsengracht og förum þar yfir næstu brú. Þar komum við á vinstri bakkanum að Anne Frank Huis á Prinsengracht 263. Það er opið 9-17, sunnudaga 10-17.

Hér bjó Anna Frank með sjö ððrum gyðingum í felum frá 1942 og þangað til þau voru svikin í hendur nazista í ágúst 1944. Hér skrifaði Anna dagbókina, sem hefur öðlazt heimsfrægð. Hér sjáum við bókaskápinn, sem var um leið hurð að felustað flóttafólksins.

Við sjáum einnig blaðaúrklippurnar, sem 13 ára stúlkan límdi á vegginn fyrir ofan rúmið sitt. Þar er mynd af Deanna Durbin og Margréti Bretaprinsessu. Fyrir tilviljun fannst þetta allt og þar á meðal dagbókin.
Lesendur fjögurra milljón eintaka af dagbók Önnu Frank geta hér endurlifað bókina á dramatískan hátt. Íslenzkir lesendur geta glaðzt yfir, að íslenzka útgáfan er þar til sýnis með öðrum útgáfum bókarinnar. Þetta er án efa eitt af allra merkustu söfnum borgarinnar.

Westerkerk

Aðeins ofar og sunnar við Prinsengracht er Westerkerk, byggð 1631 af feðgunum Hendrick og Pieter de Keyser í hreinskornum formum og mælirænum einingum. Hún hefur tvö snubbótt þverskip og kubblaga turn. Hún er dæmigerð kalvínsk kirkja, hefur engar hliðarkapellur fyrir dýrlinga og kórinn er stuttur, svo að skammt sé milli prests og safnaðar.

Turninn er hinn hæsti í Amsterdam, 85 metra hár, og býður dugnaðarfólki upp á óviðjafnanlegt útsýni í góðu skyggni. Í turninum er klukknasamstæða eftir Francois Hemony, sem raunar hefur sett saman slíkar klukkur í fleiri turnum borgarinnar. Samstæður þessar spila fjörug lög, sem klingja í eyrum ferðamanna, löngu eftir að þeir eru farnir heim.

Á torginu fyrir framan bjó franski heimspekingurinn Descartes um tíma á nr. 6. Þaðan skrifaði hann í bréfi: „Í hvaða landi væri að finna slíkt fullkomið feelsi?“ Þar vísaði hann til þess, að Holland, með Amsterdam í fararbroddi, hefur löngum verið griðastaður flóttamanna og annarra þeirra, sem ekki bundu bagga sína sömu hnútum og samferðamenn.

Héðan getum við farið til baka yfir Prinsengracht og kynnst Jordaan nánar. Slíkri könnun hæfir engin sérstök leiðarlýsing. Ef við höfum hins vegar fengið nóg af rölti í bili, þá göngum við Raadhuisstraat til austurs að fyrrverandi ráðhúsi og núverandi konungshöll, þar sem við hófum þessa göngu.

Leiðsögninni um Amsterdam er lokið og við getum stungið okkur inn á Drie Fleschjes að baki Nieuwe Kerk eða farið yfir torgið til að prófa nýjan snafs hjá Gijsberti Hodenpijl.

1984 og 1992

© Jónas Kristjánsson

Amsterdam gisting

Ferðir

Í hverjum áningarstað er gisting frumþörf ferðamannsins. Ef við búum ekki hjá vinum, eru hótelin hið fyrsta, sem við þurfum á að halda í ókunnri borg. Við byrjum því leiðsögnina um Amsterdam á hótelunum.

Hollensk hótel eru yfirleitt hreinleg og hafa allan búnað í góðu lagi. Sjálfsagt þykir orðið, að baðherbergi fylgi hverju herbergi. Hér verður aðeins vikið að gistingu, þar sem rykugur ferðamaður getur þvegið sér í eigin baðkeri eða sturtu.

Í öllum tilfellum setjum við það skilyrði, að sími sé í herberginu.

Helst viljum við búa í gömlu húsi með útsýni út á eitthvert síkið, varðað trjám, til þess að hafa Amsterdam fyrir augunum, einnig þegar við hvílum okkur. Um leið viljum við, að þreyttir ferðamenn hafi um nætur sæmilegan svefnfrið í herbergjum sínum, þótt þau snúi út að síkisgötu.

Síðast en ekki sízt finnst okkur nauðsynlegt, að hótelið sé í miðborginni, svo að unnt sé að ganga í rólegheitum í 17. aldar andrúmslofti til allra áhugaverðustu staðanna. Leigubílar eru ekki á hverju strái og bílstjórar aka sumir eins og brjálaðir menn milli umferðarhnúta.

Hér verður sagt frá nokkrum völdum hótelum, sem hafa reynst okkur vel á undanförnum árum. Þau eru í ýmsum verðflokkum, allt frá Fl. 135 fyrir tvo með morgunverði, upp í Fl. 610 fyrir tvo með morgunverði. Öll prófuðum við veturinn 1991-92 til öryggis, því að allt er í heiminum hverfult.

Við prófuðum líka önnur hótel, sem við getum ekki mælt með, af því að okkur fannst þau ekki standast samkeppni við hin, hvert í sínum verðflokki.

Ambassade

Hótelið „okkar“ í Amsterdam er Ambassade. Ástæðurnar eru margar. Í fyrsta lagi er það vel í sveit sett, nálægt miðju borgarkortsins á bls. 12-13. 1 öðru lagi er það ódýrt, miðað við gæði, kostar Fl. 250, meðan jafnfín hótel kosta yfir Fl. 350.

Mikilvægast er þó, að Ambassade gefur hótela bezt næma stemmningu 17. aldar heimilis auðugs kaupmanns. Það er aðeins búið 46 herbergjum, svo það er nánast heimilislegt, fullt af gömlum húsgögnum.

Öldruð gólfklukka í fallegu anddyri gaf vonir um framhaldið, sem magnaðist í setustofu persateppis og fornminja og einfaldari morgunverðarstofu á tveimur gólfum uppi á annarri hæð. Þaðan er fallegt útsýni yfir virðulegt Herengracht síki.

Starfslið og eigendur voru sérdeilis vingjarnlegir. Þeir létu næturhröfnum í hópi gesta í té útidyralykil, svo að þeir þyrftu ekki að trufla aðra við heimkomu.

Herbergi nr. 28 er uppi á fjórðu hæð, heil húsbreidd með góðu útsýni yfir síkið úr þremur stórum gluggum. Það er stórt og var meðal annars búið gamalli kommóðu og gömlum borðstofustól og tveimur voldugum hægindastólum. Þriðja rúmið í herberginu var fellt upp að vegg. Baðherbergið var fullflísað og hið vandaðasta að búnaði.

Héðan eru ekki nema 500 metrar til Dam og 800 metrar til Rembrandtsplein og Leidseplein. Betri getur staðsetningin tæpast orðið.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 250 með morgunverði.

(Ambassade, Herengracht 341, sími 626 2333, fax 624 5321, telex 10158, B3)

Classic

Eitt af þremur öðrum uppáhaldshótelum okkar er Classic, í göngugötu að baki Nieuwe Kerk, aðeins 80 metrum frá aðaltorginu Dam. Það er nýtízkulega innréttað í gömlu genever-brugghúsi við hlið smakkstofunnar Drie Fleschjes.

Þrátt fyrir nálægðina við ys og þys stórborgarinnar, er þetta hljóðlátt og rólegt hótel, en of hljóðbært er milli herbergja. Flest er lítið við þetta hótel. Það hefur lítið anddyri með litlum bar og setukrók, opið inn í morgunverðarsal. Herbergin eru aðeins 33 að tölu og verðið lágt.

Það eina, sem ekki var lítið, var sjálft herbergið nr. 110. Það var fremur stórt, hafði glugga til tveggja átta og var búið samstæðum reyrhúsgögnum af vandaðasta tagi. Enginn var minibarinn, en hins vegar hin ágætasta kaffivél. Baðið var fullflísað.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 225 með morgunverði.

(Classic, Gravenstraat 14-16, sími 623 3716, fax 638 1156, B2)

Pulitzer

Þriðja vildarhótelið okkar er Pulitzer, þar sem við höfum notið eins fegursta hótelherbergis, sem við höfum séð. Allt hótelið er innréttað af frábærri smekkvísi í nútímastíl innan í sautján samliggjandi húsum. Þau eru flest frá fyrri hluta 17. aldar og sum frá því um 1600, frá tíma Guðbrands biskups Þorlákssonar.

Flest hinna 236 herbergja hótelsins snúa að Prinsengracht, en í rauninni nær hótelið meira eða minna yfir heila húsablokk milli þess síkis og Keizersgracht. Þar að aftanverðu er gengið til hótelbars og veitingastofunnar Goedsbloem, sem er þekkt fyrir hina nýju, frönsku matargerðarlist.

Að utanverðu bendir fátt til, að hér sé hótel hið innra. Anddyrið er lítið og yfirlætislaust og starfsliðið var þægilegt og afslappað. Á jarðhæðinni eru miklir rangalar inn húsagarðinn að hótelpartinum við Keizersgracht.
Lyfta er í hótelinu, en eigi að síður þurfa menn sífellt að ganga upp og niður smátröppur, því að gólfin í húsunum sautján standast engan veginn á. Þetta eru skemmtilegir gangar fyrir þá, sem ekki eru fatlaðir.

Herbergi nr. 419 var óvenjulega smekklegt, með öllum nútímaþægindum undir berum bitum hinnar öldnu burðargrindar. Í sumum öðrum herbergjum eru bitar meira áberandi, svo og berir múrsteinsveggir. Herbergið nær yfir heila húsbreidd út að Prinsengracht og var fullt af sólskini.

Hinir björtu og samstæðu litir herbergisins og búnaðar þess mögnuðu sumarstemmninguna. Stólar og annar búnaður var hinn þægilegasti og vandaðasti. Sama var að segja um baðherbergið. Allt var hreint og nýtt sem ónotað væri, indæl hótelvin í Amsterdam.

Yfirleitt mælum við með slíkum herbergjum, sem snúa út að síkjum. En á Pulitzer er víða fallegt útsýni úr bakherbergjum niður í friðsælan hótelgarðinn með indælu kastaníutré, svo að hinir óheppnu verða líka heppnir.

Frá Pulitzer eru aðeins 300 metrar að Húsi Önnu Frank og annað eins að tískuhverfinu Jordaan.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 470 með morgunverði.

(Pulitzer, Prinsengracht 323, sími 523 5235, fax 627 6753, telex 16508, A4)

Rembrandt

Fjórða hótelið í þessum fyrirmyndarhópi er Rembrandt. Það er innréttað með svipuðu hugarfari og Pulitzer, en er þó ekki eins smart. Hins vegar er það sérlega vel í sveit sett, aðeins 300 metra frá Spui og 400 metra frá Dam.

Hótelið er í einu stóru húsi, sem snýr út að Herengracht og þremur litlum, sem snúa að Singel síki. Anddyrið er lítið og látlaust, en herbergin 111 eru stílhrein og skemmtileg, ekki síst uppi í risi, þar sem burðarbitarnir njóta sín.

Herbergi nr. 407 var rúmgott og bjart eins og önnur, sem lýst hefur verið hér að framan. Burðarbitarnir voru alls ráðandi í innréttingunni. Útsýnið úr tveimur voldugum gluggum út á Herengracht var einkar skemmtilegt. Búnaður í herbergi og á baði var vandaður.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 300 með morgunverði.

(Rembrandt, Herengracht 255, sími 622 1727, fax 625 0630, telex 15424, 83)

Europe

Annað af tveimur fínustu hótelunum í borginni er Europe, sem raunar heitir „de l‘Europe“ upp á frönsku. Við tökum það fram yfir Amstel, þótt opinberu salarkynnin séu ekki eins fín, því að það er í fyrsta lagi minna og í öðru lagi svo miklu meira miðsvæðis.

Raunar er Europe í hjarta borgar innar, ekki síður vel staðsett en Ambassade, sem fremst var getið. Til Rembrandtsplein eru 300 metrar. 600 metrar til Dam og 900 metrar til Leidseplein. Hótelhöllin rís andspænis Munttoren, þar sem mætast áin Amstel og síkin Rokin og Singel.

Þessu 100 herbergja hóteli frá 1895 hefur verið líkt við risastóra afmælistertu á floti. Mesta athygli þeirra, sem hjá fara að kvöldlagi, vekur þó upplýst eldhúsið í kjallaranum, því að yfirborð vatnsins nær upp að gluggum og kokkarnir virðast vinna í kafi.

Europe er eitt af þessum gömlu aðalshótelum, sem eru virðuleg, án þess að vera merkileg með sig. Að innanverðu hefur það verið endurnýjað hátt og lágt, svo að tæknilega stenst það samkeppni við keðjuhótel kaupsýslumanna á borð við Hilton og Marriott.

Persónuleg þjónusta er auðvitað mun betri á hóteli af þessu tagi en keðjuhótelunum. Gestir eru fljótlega ávarpaðir með nafni. Enga stund tekur að fá það, sem óskað er eftir, hvort sem það er miðnæturverður eða bílaleigubíll.

Eins og opinberu salirnir var herbergi nr. 316 innréttað í hvítu og daufbláu í frönskum stíl, með samræmdum, gömlum húsgögnum. Það var risastórt og með vel opnanlegum glugga, sem vísaði beint út á Muntplein og umferð ferðamannabáta á Amstel. Umferðarhávaðans vegna var þægilegra að hafa gluggann lokaðan.

Baðherbergið var kapítuli út af fyrir sig, allt klætt í marmara, vel búið sápuvörum og risastórum handklæðum, svo og þykkum baðslopp. Í náttborðum voru stjórntæki fyrir allt, sem þurfti, þar á meðal fyrir sjónvarpstækið og ýmiss konar hótelþjónustu, sem kom að vörmu spori. Á jarðhæð, með svipuðu útsýni, er veitingasalurinn Excelsior, sem áður bauð einn bezta franskættaða mat í borginni, en hefur dalað upp á síðkastið og hefur dottið úr þessari bók.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 610 með morgunverði.

(Europe, Nieuwe Doelenstraat 2, sími 623 4836, fax 624 2962, telex 12081, C2)

Marriott

Eina bandarískt-ættaða keðjuhótelið fyrir kaupsýslumenn í Amsterdam, sem kemst með tærnar, þar sem Europe og Amstel hafa hælana, er Marriott, sem stendur andspænis Leidseplein, handan Singelgracht, með góðu útsýni yfir miðborgina.

Eins og á öllum slíkum hótelum minnir anddyrið á járnbrautarstöð. Gestir eru sífellt að koma og fara úr hinum 393 herbergjum hótelsins. Rétt að baki er þó friðsæll hótelbar, sem er innréttaður á nokkrum pöllum í stíl bókasafns. Í kjallaranum er annað tveggja bestu diskóa borgarinnar, Windjammer Club (sjá bls. 53).

Herbergi nr. 307 snýr út að Leidseplein eins og vera ber. Það var rúmgott, búið þungum húsgögnum í stílhreinu samræmi við litskrúðug gluggatjöld og djarflita veggi. Sérkennilegt var, að vel búið og smekklegt baðherbergi var veggfóðrað, en ekki flísalagt.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 500 með morgunverði.

(Marriott, Stadhouderskade 21, sími 607 5555, fax 607 5511, telex 15087, D5)

Ramada

Ein skærasta stjarnan á himni hótela kaupsýslumanna og ráðstefnufólks í Amsterdam er Ramada. Það er byggt í samráði við yfirvöld húsfriðunarmála í borginni, en í andstöðu við róttækari húsfriðunarsinna.

Ráðstefnusalur hótelsins er hin hringlaga Ronde Luterse Kerk, sem hefur verið afvígð vegna skorts á Lúterstrúarmönnum í borginni. Andspænis kirkjunni hafa þrettán friðuð hús frá 17. öld verið felld inn í nýja stórbyggingu, sem er í hefðbundnum gaflastíl borgarinnar. Milli hótels og kirkju liggja göng undir götuna.

Þessu afreki sameiningar gamals og nýs tíma hefur fylgt nýtt líf, sem hefur skotið rótum í þessu gamla hverfi pakkhúsa. Umhverfis hafa verið innréttuð skemmtileg veitingahús af ýmsu tagi, ölstofur og léttvínssalir, enda er mikil umferð í kringum 432 herbergja hótel. Þar sem áður var doði, er nú líf og fjör.

Hótelið snýr einni hlið að götu, sem liggur samsíða Damrak, í næsta nágrenni aðaljárnbrautarstöðvarinnar. Það liggur því vel við nyrðri hluta gömlu miðborgarinnar, en síður við hverfunum umhverfis Leidseplein og Rembrandtsplein.

Anddyrið er hávaðasamt, eins og við er að búast á svona stóru hóteli, sem hefur fullt af verzlunum og dálítið af veitingasölum innanborðs. Hótelið er raunar smábær út af fyrir sig handa þeim, sem ekki vilja fara út undir bert loft eða meira en 25 metra frá næsta hótelbar. Þarna er meira að segja annað af tveimur beztu diskóum borgarinnar, Boston Club (sjá bls. 53).

Herbergi nr. 806 var rúmgott, vel innréttað og notalegt. Þykkt, vínrautt teppi var á gólfi og allir húsmunir í samræmi. Baðherbergið var fullflísað og fullkomið að búnaði. Við höfðum ekki haft vit á að panta herbergi með útsýni til betri áttar.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 525 með morgunverði.

(Ramada, Kattengat 1, sími 621 2223, fax 627 5245, telex 17149, A2)

American

Eitt skemmtilegasta hótel borgarinnar er 188 herbergja American, vel í sveit sett við Leidseplein. Það var reist 1897 í geðveikislegum „art nouveau“ eða „Jugend“-stíl með gotneskum tilþrifum og minnir á Walt Disney-kastala. Það er orðið svo sögufrægt í byggingarlistinni, að það hefur verið alfriðað. Frægasti hlutinn er innréttingin á Café Americain (sjá bls. 47).

Þetta er hefðbundinn áningarstaður listvina, listamanna og skemmtikrafta. Borgarleikhúsið, óperan og ballettinn eru í næsta húsi, alls staðar í kring eru næturklúbbarnir og kabarettarnir og hinum megin við Singelgracht eru öll heimsfrægu söfnin og sinfóníuhöllin. Á þessu hóteli skríða gestir úr rúmum um hádegisbil.

Fjörlegast er að fá herbergi með svölum út að Leidseplein og gangstéttarkaffistofu hótelsins, en því fylgir töluverður hávaði frá sporvögnum, þegar gluggar eru opnir. Friðsælla og fegurra er útsýnið að breiðum Singelgracht.

Herbergi nr. 416 snýr út að Singelgracht með fallegu og notalegu útsýni gegnum voldugar trjákrónur. Herbergið var sæmilega rúmgott og vel búið húsgögnum og öllum aðbúnaði á baði.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 450 með morgunverði.

(American, Leidsekade 97, sími 624 5322, fax 625 3236, telex 12545, C5)

Krasnapolsky

Í verðflokki með American er eitt af einkennistáknum borgarinnar, hótelið Krasnapolsky við Dam, andspænis konungshöllinni. Þetta rúmlega 100 ára gamla hótel býður gestum sínum til morgunverðar í víðfrægum vetrargarði, Wintertuin, þar sem risastórar plöntur héngu til skamms tíma niður úr glerþakinu og gera vonandi aftur, þegar breytingum er lokið.

Smám saman hefur Krasnapolsky vaxið út í næstu hús, upp í 323 herbergi, svo að ekki er auðvelt að rata, en lyftur eru hér og þar til bóta. Viturlegast er auðvitað að panta sér herbergi í elzta hlutanum með útsýni yfir á torgið til konungshallarinnar. Innréttingar þar hafa að verulegu leyti verið endurnýjaðar. Boðið er upp á reyklausar vistarverur.

Herbergi nr. 2032 bjó yfir tilætluðu útsýni yfir aðaltorg borgarinnar, þar sem uppákomur skemmtikrafta, ofsatrúarmanna og mótmælafólks lífga hellurnar frá morgni til kvölds. Þetta er kjörinn útsýnisstaður, með stuttum vegalengdum til allra átta í gömlu miðborginni.

Sjálft herbergið bar þess merki, að innanhússarkitekt hafði nýlega fengið að leika lausum hala. Allir litir voru í svörtu, hvítu og silfruðu í leikrænni samsetningu. Meiri dirfsku höfum við ekki séð annars staðar í innréttingu hótelherbergja. En allur búnaður verkaði eins og í sögu, bæði í herbergi og á baði.

Herbergi nr. 4018 var með yngri mahóní-innréttingu, sem var afar vönduð og samræmd, en ekki eins skemmtileg, því að hún gat verið á hvaða fyrsta flokks hóteli sem er.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 425 með morgunverði.

(Krasnapolsky‚ Dam 9, sími 554 9111‚ fax 622 8607, telex 12262, B2)

Scandic Crown

Í næsta verðflokki fyrir neðan er sögufrægt, en ekki litríkt Scandic Crown, sem áður hét Victoria, með 321 herbergi eftir mikla stækkun. Það er virðulegt hús við norðurenda aðalgötunnar Damrak, andspænis aðaljárnbrautarstöðinni, rétt hjá áðurnefndu Ramada hóteli. Eftir endurnýjun sómir það sér vel á nýjan leik.

Herbergi nr. 411 var í gamla hlutanum, mjög stórt og næstum tómlegt, af því að fínu húsgögnin fylltu það ekki. Tveir gluggar veittu útsýni til járnbrautarstöðvarinnar. Hávaðinn frá umferðargötunum barst ekki inn í herbergið. Baðherbergið var líka vel búið að öllu leyti.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 395 með morgunverði.

(Scandic Crown, Damrak 1, sími 623 4255, fax 625 2997, telex 16625, A1)

Doelen

Rétt hjá Europe, einnig við Amstel, þar sem hún mætir Kloveniersburgwal, er virðulegt og gamaldags Doelen, sem minnir á Europe, en er ekki eins fínt. Hótelið er langt og mjótt með þekktum hótelbar í mjóa endanum við síkið. Helmingurinn af 85 herbergjum snýr út að síki og á og eru þau æskilegri til búsetu en hin.

Herbergi nr. 218 var rúmgott, búið flestum þægindum í gamaldags og ópersónulegum stíl og tveimur stórum gluggum, sem vísuðu út á svalir að ánni.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 375.

(Doelen, Nieuwe Doelenstraat 24, sími 622 0722, fax 622 1084, telex 14399, C2)

Ascot

Hentugt hótel við breiðgötuna Damrak, um 50 metrum frá aðaltorginu Dam, er Ascot með 109 vel búnum herbergjum, en fremur kuldalegu starfsliði. Annar galli er á þessum stað, að morgunmatur var fremur vondur og sama var að segja um annan mat, svo að ráðlegt er að fara út að snæða.

Herbergi nr. 311 var fremur stórt og notalegt, búið ljósbláum ábreiðum og gluggatjöldum og bauð upp á gott útsýni út á breiðgötuna. Baðherbergið var marmaraslegið og vandað eftir því.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 360.

(Ascot, Damrak 95-98, sími 626 0066, fax 627 0982, telex 16620, B2)

Dikker en Thijs

Ágætt hótel er Dikker en Thijs á horni Prinsengracht og verslunargötunnar Leidsestraat, aðeins 100 metrum frá skemmtanatorginu Leidseplein. Það er með minnstu hótelum bókarinnar, aðeins búið 25 herbergjum.

Dikker en Thijs er útibú frá samnefndri kaffistofu á jarðhæðinni, þar sem áður var fræg sælkerabúð. Undir kaffihúsinu er Prinsenkelder veitingahúsið (sjá bls. 40), yfir henni Dikker en Thijs veitingahúsið (sjá bls. 40) og þar fyrir ofan hótelið, allt í sömu eign.

Uppi á hverri hæð er dálítil forstofa fyrir framan fjögur herbergi. Það eykur einkaíbúðabraginn á hótelinu. Bezt er að vera ofarlega til að fá útsýni og í herbergjum með tölum sem enda á 03 og 04, því að þau snúa út að Prinsengracht með útsýni yfir kirkjuturna miðborgarinnar.

Herbergi nr. 504 beið okkar nýtízkulegt, með ferskum ávöxtum í skál. Plastinnréttingarnar voru hvítar og dálítið kuldalegar. Rúm var fyrir tvo hægindastóla við stóran útsýnisglugga, sem opnaðist út á örlitlar svalir. Tvöfalt glerið hindraði hávaða frá Leidsestraat. Baðherbergið var fullflísað, vel búið og hafði einnig stóran útsýnisglugga.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 350 með morgunverði.

(Dikker en Thijs, Prinsengracht 444, sími 626 7721, fax 625 8986, telex 13161, C4)

Port van Cleve

Enn eitt mjög vel í sveit setta hótelið er 99 herbergja Port van Cleve, sem er að baki konungshallarinnar, við hlið gamla aðalpósthússins, er hefur verið breytt í eins konar Kringlu. Þetta er lítið og notalegt hótel með vingjarnlegu starfsliði. Niðri er einn af frægustu veitingasölum borgarinnar.

Herbergi nr. 518 sneri að húsabaki með útsýni yfir nálæg þök. Það var mjög stórt og stílhreint að búnaði, með stóru og fullflísuðu baðherbergi.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 310 með morgunverði.

(Port van Cleve, Nieuwezijds Voorburgwal 178-180, sími 624 4860, fax 622 0240, telex 13129, A3)

Frommer

Eitt skemmtilegu hótelanna í Amsterdam er Arthur Frommer, 90 herbergja hótel nálægt Rembrandtsplein og Museum Fodor. Það er innréttað í sambýlishúsi þrettán vefara.

Herbergi nr. 214 var búið sérkennilegum húsgögnum, þar á meðal útskornum hægindastólum og ruggustól, sem var um það bil að fara úr límingu. Geysiþykkar ábreiður voru á rúmum. Húsbúnaðurinn var dálítið byrjaður að láta á sjá.

Baðherbergið var lítið en hafði að geyma stóran, niðurgrafinn sturtubotn. Engin herbergisþjónusta var veitt.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 240 með morgunverði.

(Arthur Frommer, Noorderstraat 46, sími 622 0328, fax 620 3208, telex 14047, D3)

Agora

Af ódýru hótelunum reyndist okkur drýgst Agora, sem er við Singel, rétt við Koningsplein. Það er ákaflega vel í sveit sett, rétt hjá hótelinu Ambassade, og skemmtilega lítið, aðeins 14 herbergja. Útidyrnar eru alltaf læstar, en hótelgestir fá útidyralykil. Morgunverðarstofan er smekkleg, með stórum glugga út að litlum garði. Hótelhaldarar eru afar viðkunnanlegir. Lága verðið stafar að einhverju leyti af, að ekki er lyfta í húsinu.

Herbergi nr. 27 var fremur lítið og búið öldruðum húsgögnum vönduðum, þar á meðal póleruðu skrifborði. Allt var í góðu lagi í baðherberginu, sturta til dæmis einkar öflug.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 180.

(Agora, Singel 462, sími og fax 627 2200, telex 12657, C3)

Owl

Einna ódýrust af þeim sómasamlegu hótelum með baði á herbergjum, sem við fundum í Amsterdam, eru nokkur hótel víð Roemer Visscherstraat að baki Marriott hótels og í næsta nágrenni við söfnin frægu umhverfis Museumsplein.

Skemmtilegast þeirra er Owl, við þann enda götunnar, sem næstur er Marriott. Þetta er friðsælt, lítið, 34 herbergja hótel með vingjarnlegu starfsliði. Morgunverðarsalur í kjallara er snyrtilega innréttaður.

Herbergi nr. 444 sneri út að garði að húsabaki. Það var lítið, en sómasamlegt og hafði fullflísað baðherbergi. Nokkuð hljóðbært er í húsinu.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 175 með morgunverði.

(Owl, Roemer Visscherstraat 1, sími 618 9484, fax 618 9441, telex 13360, D5)

Vondel

Við enda sömu götu, enn nær Marriott, er 35 herbergja Vondel, notalegt hótel með vingjarnlegu starfsliði og svipuðum kostum og göllum og Owl. Herbergi nr. 5 var þó mun stærra en tilsvarandi herbergi á Owl, hefur raunar setustofupart og samt pláss fyrir þriðja rúmið. Húsgögn voru gömul, en hreinleg. Baðið var flísalagt.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 175 með morgunverði.

(Vondel, Vondelstraat 28, sími 612 O120, ekki telex, C5)

Parkzicht

Þetta er lítið og notalegt hótel með aðeins 15 herbergjum, sem sum snúa út að Vondelpark. Herbergi nr. 5 var búið gamaldags húsgögnum í góðu lagi. Baðherbergi var með fullnægjandi búnaði.

Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 145 með morgunverði.

(Parkzicht, Roemer Visscherstraat 35, sími 618 1954, ekki telex, D5)

Önnur hótel á sama verði á svipuðum stað við götuna eru Sipermann, Roemer Visscherstraat 35, sími 616 1866, Fl. 135 með morgunverði; og Engeland, Roemer Visscherstraat 30a, sími 612 9691, Fl. 155 með morgunverði. Athugið, að ekki eru öll herbergi með baði á þessum hótelum.

1984 og 1992

© Jónas Kristjánsson

Amsterdam inngangur

Ferðir

Ævintýralega Amsterdam

— 17. aldar safn

Miðborg Amsterdam er stærsta safn heims, einstæð vin þúsunda húsa og hundraða brúa frá sautjándu öld, blómaskeiði siglinga og kaupsýslu Hollendinga. Um 7.000 hús í miðborginni hafa beinlínis verið friðuð, svo að sautjánda öldin megi varðveitast um ókomna framtíð.

Kílómetra eftir kílómetra rýfur ekkert samræmið í mjóum húsgöflum, fagursveigðum síkisbrúm og laufskrýddum trjám. Borgarsíkin eru lengri en í Feneyjum og mynda svigrúm og andrúm í annars þröngt byggðri borg. Hið eina, sem truflar myndina, er‚ eru bílarnir, sem komast vart leiðar sinnar.

Síkin eru nú orðið lítið notuð, nema fyrir útsýnisbáta ferðamanna. Hjólhesturinn og fætur postulanna eru samgöngutækin, sem henta borginni. Vegalengdirnar eru raunar svo stuttar, að á annatíma er oft fljótlegra að ganga milli staða en að aka stóran krók einstefnugatna.

Í Amsterdam er fullt af söfnum með minjum frá gullöldinni, þegar hér var meðal annars prentuð Specimen lslandiae historicum eftir Arngrím Jónsson lærða. En ferðamenn þurfa ekki að sækja söfnin til að kynnast sautjándu öldinni. Þeir hafa andrúmsloftið allt í kringum sig‚ bæði úti og inni.

Mörg notaleg hótel hafa verið innréttuð í mjóu, 300-350 ára gömlu húsunum við síkin. Enn fleiri veitingahús eru í þessum gömlu húsum, mörg hver prýdd forngripum sautjándu aldarinnar. Ekki má heldur gleyma knæpunum, sem margar eru óbreyttar enn þann dag í dag.

Að baki hins íhaldssama yfirbragðs borgar kaupsýslumanna ríkir svo um leið óvenjulegt og að sumra viti óhóflegt frjálslyndi, sem spannar frá gleðikonum í búðargluggum yfir í frjálsa dreifingu vímuefna til sjúklinga á læknabiðstofum og til ungmenna á opinberum félagsmiðstöðvum.

Við höfum lesið mikinn fjölda leiðsögubóka fyrir ferðamenn og fundist þær að ýmsu leyti takmarkaðar. Við höfum lesið bækurnar, sem ekki taka tillit til, að mikill hluti ferðamanna ver miklum hluta tímans á hóteli og veitingahúsum og hefur þess á milli töluverðan áhuga á að skemmta sér og líta í búðarglugga, en er ekki allan sólarhringinn að skoða sinn að skoða söfn og merka staði. Við viljum taka tillit til þessa og reyna að semja raunsæja bók. Við höfum líka lesið bækurnar, sem leggja dóm á hótel, veitingahús, verslanir og skemmtistaði, en eru þá fremur að þjónusta þessar stofnanir en lesendur.

Við teljum svo eindregið, að upplýsingar af því tagi eigi að vera óháðar, að við prófuðum allar þessar stofnanir og komum hvarvetna fram sem venjulegir gestir, greiðandi almennt og afsláttarlaust verð og gáfum okkur ekki fram, fyrr en að reikningum greiddum. Á þann hátt teljum við mestar líkur á, að reynsla lesenda muni koma heim og saman við þá reynslu, sem hér er lýst.

Þá höfum við skoðað bæklinga hótela, veitingahúsa og ferðamálaráða og fundist myndirnar falsaðar. Innanhúss eru myndirnar stúdíóteknar og sýna ekki raunveruleikann, hvað þá þegar þær eru teknar í hótelsvítu, en viðskiptavinurinn fær venjulegt herbergi. Utanhúss er beðið dögum saman eftir réttri birtu og réttu birtuhorni og myndirnar sýna ekki þungskýjaðan raunveruleika ferðamannsins. Við höfnuðum öllum gjafamyndum af slíku tagi, tókum okkar eigin og teljum þær gefa raunhæfari mynd en glansmyndir áróðursbæklinganna.

Jónas Kristjánsson og Kristín Halldórsdóttir

Bankar

Bankar eru opnir mánudaga-föstudaga 9-16, sumir fimmtudaga -19 og á aðaljárnbrautarstöðinni 7-22:45 alla daga. Farðu ekki með ávísun til Hollands, aðeins reiðufé, ferðatékka eða plastkort.

Barnagæsla

Hringdu í Oppascentrale Kriterion, sími 624 5848.

Bátar

Farið er frá 11 stöðum í 1 stundar bátsferðir um síkin.

Ferðir

Upplýsingastofa Ferðamálaráðs er fyrir framan aðaljárnbrautarstöðina, Stationsplein 10, opin mánudaga-laugardaga 9-23, sunnudaga -21, á veturna mánudaga-föstudaga 9-18, laugardaga -17, sunnudaga 10-13 og 14-17, sími 626 6444.

Fíkniefni

Ólöglegt er að hafa fíkniefni með höndum, þótt sums staðar sé það látið afskiptalaust.

Flug

Flugvallarvagninn til Schiphol fer á 15 mínútna fresti frá nokkrum helztu hótelunum. Hann er venjulega tæpan hálftíma á leiðinni. Leigubíll er 20 mínútur á leiðinni og kostar Fl. 70.Í síma 601 0966 eru gefnar upplýsingar á ensku um komu og brottför flugvéla.

Flugleiðir

Skrifstofa Flugleiða er á Apollolaan 7, opin 9-17, sími 76 95 35.

Framköllun

Víða í miðbænum er unnt að fá framkallað og kóperað á klukkutíma.

Gisting

Upplýsingastofa Ferðamálaráðs (sjá „Ferðir“ hér að ofan) útvegar húsnæðislausu ferðafólki gistingu.

Hótel

Ef þú vilt útsýni úr hótelherbergi, skaltu panta herbergi með „canal view“. Þá eru „twin room“ oft stærri en „double room“ fyrir sama verð.

Krítarkort

Ef þú hefur glatað krítarkorti, er heima svarað allan sólarhringinn í 354-1-68 54 99 fyrir Eurocard og í 354-1-67 17 00 fyrir Visa.

Leigubílar

Hringdu í 677 7777 eða farðu á næstu biðstöð leigubíla. Aðeins er unnt að veifa í leigubíl á förnum vegi, ef þakskilti hans er upplýst. Sumir leigubílstjórar vita lítið um götunöfn og heimilisföng í borginni.

Lyfjabúð

Hringdu í 664 2111 til að fá að vita, hvar sé næsta næturvarsla.

Læknir

Hringdu í 664 2111 til að fá upplýsingar um læknisþjónustu.

Löggæsla

Hringdu í neyðarsímann 06 11 til að ná sambandi við lögreglu. Hún er ekki eins hjálpleg við útlendinga og hún er í Kaupmannahöfn og London.

Peningar

Hollenski gjaldmiðillinn heitir formlega Flórína, skammstafað Fl., en hversdagslega er hann kallaður Guilders eða Gyllini. Smámynt er centímur. Flest hótel og veitingahús taka bæði Eurocard og Visa.

Pósthús

Aðalpósthúsið við Singel 250-256 er opið mánudaga-föstudaga 8:30-18, fimmtudaga -20:30 og laugardaga 9-12.

Rafmagn

Rafspenna er sama og hér heima, 220 volt.

Reiðhjól

Best staðsetta reiðhjólaleigan er Koenders, 33 Stationsplein, við aðaljárnbrautarstöðina.

Ræðismaður

Aðalræðismaður íslands er við Herengracht 176, sími 626 2658.

Salerni

Þú mátt nota salerni kaffihúsa og barstofa, af því að það eru taldir opinberir staðir.

Samgöngur

Ódýr dagskort, 2ja, 3ja og 4urra daga kort, sem gilda á öllum leiðum strætisvagna, sporvagna og neðanjarðarlesta, fást á upplýsingastofu Ferðamálaráðs (sjá „Ferðir“ hér að ofan).

Sími

Mun ódýrara er að hringja heim úr almenningssímum en frá herbergjum hótela. Á Tele Talk Center við Leidsestraat 101 og Telehouse við Raadhuisstraaat 46-50 er allan sólarhringinn alþjóðleg símaþjónusta.

Sjúkrabíll

Hringdu í neyðarsímann 06 11 til að fá sjúkrabíl.

Skemmtanir

Upplýsingar um skemmtana- og menningarlífið fást í vikuritinu What is on in Amsterdam.

Slökkvilið

Hringdu í neyðarsímann 06 11 til að ná sambandi við slökkvilið.

Tannlæknir

Hringdu í 664 2111 til að fáupplýsingar um tannlæknaþjónustu.

Vatn

Þótt ótrúlegt megi virðast er kranavatnið drykkjarhæft .

Verðlag

Verðlagið hér í bókinni er frá vetri 1992. Þeir, sem síðar nota bókina, ættu að reikna með um 5% verðbólgu á ári í Hollandi.

Verslun

Flestar verslanir eru opnar mánudaga-laugardaga 9-17:30 eða -18 og fimmtudaga -21 . Margar eru lokaðar mánudagsmorgna.

Þjórfé

Þjórfé er innifalið í reikningum hótela og veitingahúsa og í gjaldmælum leigubíla. Sumir viðskiptavinir slétta upphæðir upp í næstu tölu, sem endar á 5 eða 10 gyllinum. Hótelverðir, sem útvega leigubíl, fá eitt-tvö gyllini og sömuleiðis fatageymslufólk.

1984 og 1992

© Jónas Kristjánsson

Amsterdam skemmtun

Ferðir

Dam

Torgin eru meðal hins skemmtilegasta í Amsterdam. Fremst er þar Dam, torgið fyrir framan konungshöllina. Þetta torg er miðjan, sem gamla miðborgin óx í kringum. Það er afar fjörlegt torg, ekki bara vegna dúfnanna, heldur vegna mannfjöldans, er fylgist með eða tekur þátt í uppákomum.

„Jesús elskar þig!“ stóð á fána hjá uppákomu „Ungs fólks með hlutverk“, sem stóð yfir, þegar við litum þar við síðast. Enskumælandi prédikari reyndi að stunda múgsefjun með reifabarn í fangi, milli þess sem stúlkur í rauðum pilsum og hvítum skyrtum stigu helgidans.

Þar rétt hjá sat gítarspilari á kassa og raulaði þjóðlög. Á þriðja staðnum var enn annar, sem lék á nokkur hljóðfæri í senn. Báðir höfðu myndarlegan áheyrendahóp eins og prédikarinn. Í hinum enda torgsins sátu ungmenni á tröppum stríðsminnisvarðans, sem í Amsterdam gegnir svipuðu hlutverki og styttan af Eros á Piccadilly Circus. (B2)

Leidseplein

Hitt skemmtilega torgið í borginni er Leidseplein, miðpunktur skemmtanalífsins. Þar í kring eru leikhúsin, söfnin, veitingastaðirnir og næturklúbbarnir í röðum. Yfir torginu trónir borgarleikhúsið og í næsta nágrenni eru hinir frægu ungmennastaðir Melkweg og Paradiso.

Á torginu sjálfu er yfirleitt eitthvað um að vera, þótt í smærri stíl sé en á Dam. Síðast sáum við þar gítarleikara og látbragðsleikara, sem við höfðum séð hálfu ári áður í Covent Garden í London. Og svo er á Leidseplein dálítið af gangstéttarkaffihúsum, frægast Café Americain með Parísarstemmningu. (C4-5)

Rembrandtsplein

Einu sinni var Rembrandtsplein þungamiðja skemmtanalífsins. Torgið hefur nú látið á sjá. Klámbíó og lélegir næturklúbbar hafa hrakið hinn heilbrigðari hluta kvöld- og næturlífsins yfir á Leidseplein. Enn eru þar þó ágæt veitingahús og útikaffihús. Og gróðurreiturinn á miðju torgi gerir staðinn vinalegan, þrátt fyrir æpandi neon-auglýsingar. Við hlið Rembrandtsplein er Thorbeckeplein með miklu safni næturklúbba, en styttan af Thorbecke gamla snýr baki í þá. (C-D2)

Kalverstraat

Markaðirnir í Amsterdam eru skemmtilegir eins og torgin. Fjölsóttastur er Kalverstraat, sem í rauninni er ekki markaður, heldur göngugata með verzlunum á báðar hendur. En þröngin og fyrirgangurinn á mjórri götunni er slíkur, að minnir á útimarkað af betra tagi.

Einu sinni var Kalverstraat gata fínna verslana. Nú hefur hún hins vegar að nokkru leyti breytzt í götu gallabuxnasala, þar sem margt er selt við vægu verði. Inn á milli eru dýru tízku- og demantabúðirnar.

Sums staðar í heiminum hafa göngugötur af þessu tagi pláss fyrir útikaffihús. En því er ekki fyrir að fara hér. Sá, sem ætlar að rölta um í ró og næði, neyðist til að greikka sporið til að halda sama hraða og mannhafið. Áhrifin eru semsagt eins og af markaði, en ekki göngugötu.

Kalverstraat verslanirnar eru lokaðar á sunnudögum. (B3)

Albert Cuypstraat

Þetta er aðalmarkaðurinn í Amsterdam og nær nokkrar blokkir til austurs frá horni Ferdinand Bolstraat. Hann hefur magnazt á síðustu árum vegna flutnings Súrinama frá fyrrverandi hollenzku Guyana í S-Ameríku og annars fólks af fjarlægum ströndum til Pijp-hverfisins á þessum slóðum.

Í Albert Cuypstraat er hægt að fá hin undarlegustu og sjaldséðustu krydd, fiska og grænmeti, ávexti og blóm. Litaskrúðið er mikið á vörum og fólki, vöruúrvalið mikið og ódýrt. Ilmurinn frá snarltjöldunum er bæði fjarrænn og freistandi. Til dæmis ilmur af pönnukökum, fylltum kjöti og grænmeti, og af Barras, sem eru eins konar baunabollur.

Markaðurinn er lokaður á sunnudögum. (E2-3)

Waterlooplein

Flóamarkaðurinn er nú aftur kominn á Waterlooplein eftir langa útlegð í Valkenburgerstraat í nágrenninu. Algengt er, að sölumenn setji upp 50-100% hærra verð en þeir eru að lokum tilbúnir að semja um.

Hér er hægt að fá allt milli himins og jarðar, allt frá pelsum yfir í skrúfur, allt frá fornminjum yfir í bátaluktir. Og ekki má gleyma, að hér fást ódýr reiðhjól til nokkurra daga notkunar fyrir ferðamenn. (C1)

Bloemenmarkt

Holland er land blóma. Og blómamarkaðurinn við Singel, frá Muntplein að Leidsestraat, er frægur um allan heim. Í 200 ár hafa bátarnir vaggað hér við síkisbakkann, fullir af skærum litum blóma. Jafnvel um hávetur, þegar menn vaða snjóinn, eru blómin seld hér utan dyra.

Vafasamt er, að til sé í heiminum nokkur annar slíkur sérhæfður blómamarkaður af þessari stærð. Hann er örugglega eitt af því, sem ferðamenn í Amsterdam verða að gefa sér tíma til að skoða. (C3)

Noordermarkt

Á síðustu árum hefur markaðurinn umhverfis Noorderkerk tekið upp öfluga samkeppni við hinn hefðbundna flóamarkað í Waterlooplein. Hann nær núna langt inn eftir Westerstraat og breytist þar í fatamarkað. En hann er bara opinn mánudaga. Á sama stað er fuglamarkaður laugardaga.

Vöxtur þessa markaðar stafar af, að hverfið í kring, Jordaan, er komið í tízku. Þangað hafa flutt miðaldra hippar frá stúdentauppreisninni 1968, sem nú eru orðnir vel stæðir borgarar og geta innréttað sér dýrar íbúðir í gömlum pakkhúsum.

Úrvalið hér er raunar orðið meira en í Waterlooplein og breiddin meiri, bæði niður í skranið og upp í sómasamlegar vörur. Hér er svo á laugardagsmorgnum skemmtilegur fuglamarkaður. (A3)

Oudemanhuispoort

Langi og mjói 18. aldar gangurinn með þessu langa nafni er í rauninni aðalinngangur háskólans. Á aðra hlið hans eru í röðum kassar bóksala eins og á Signubakka. Hér geta stúdentar keypt notaðar námsbækur og ferðamenn gamlar bækur, landakort og steinprentsmyndir.

Oudemanhuispoort liggur milli síkjanna Kloveniersburgwal og Oudezijds Achterburgwal. (C2)

Postzegelmarkt

Síðdegis á miðvikudögum og laugardögum er frímerkjamarkaður haldinn í Nieuwezijds Voorburgwal, þar sem gatan breikkar fyrir sunnan aðalpósthúsið og fyrir norðan Historisch Museum. Þar er líka seld gömul mynt. (83)

Reynders

Eitt þekktasta kaffihús borgarinnar er Reynders við Leidseplein. Löngum var þetta listamannakrá, en er nú orðin að stað, þar sem heimamenn hittast yfir kaffi, áður en þeir fara eitthvert annað.

Fremst er gangstéttarútskot í venjulegum kaffihúsastíl. Inni er mikið safn gamalla tréborða og tréstóla í einum graut. Innst er billjarðborð. Þetta er hversdagslegur staður með góðri stemmningu heimafólks. Ferðamenn voru fáir, þegar við síðast litum inn. (C4)

Eylders

Í sömu húsalengju, aðeins fjær torginu, er Eylders, annað þekkt kaffihús, heldur snyrtilegra og fínna. Málverkasýning er á veggjum. En borðin eru líka slitin hérna eins og á hinum staðnum, eftir olnboga nokkurra áratuga.

Het Hok

Rétt hjá Leidseplein, á horni Lange Leidsedwarsstraat og Leidsekruisstraat eru tvær skákstofur, þar sem fólk getur teflt, meðan það fær sér kaffi. Þær eru Het Hok á sjálfu horninu og Domino. Fyrri staðurinn er skemmtilegri, rúmgóður og fastagestalegur.(C4)

Café Americain

Merkilegasta kaffistofa borgarinnar er víð sama torgið og hinar. Café Americain er á jarðhæð hótelsins American og er frægasti hluti Jugend-stíls þess hótels. Innréttingarnar eru verndaðar af húsfriðunarnefnd, þar á meðal sérkennilegar ljósakrónur úr frostgleri, súlur og bogar, flauel og steindir gluggar.

Hér hélt njósnarinn Mata Hari brúðkaup sitt. Og hér hafa löngum setið og sitja enn innlendir og erlendir listamenn og láta elginn vaða. Fyrir utan kaffi og með því fást hér ódýrir réttir dagsins, ýmsir smáréttir og ferðamannamatseðill, sem síðast kostaði Fl. 17.

Utan dyra er sá hluti borgarinnar, sem mest minnir á París. Heilt torg er framan við hótelið og þar er þétt setinn bekkurinn á sólríkum dögum. Á þessu gangstéttarkaffihúsi út frá Café Americain mæla ferðamenn sér mót nú á tímum. (C5)

Wijnlokaal Mulliner‘s

Við Leidseplein er fleira en kaffistofur. Þar eru líka vínstofur, þar sem heimamenn stunda sötur eftir vinnu og fyrir heimferð eða útstáelsi. Ein þeirra er Wijnlokaal við Lijnbaansgracht 267.

Þessi staður sérhæfir sig í púrtvíni af ýmsum aldri, allt upp í rúmlega hálfrar aldar gömlu. Barinn liggur næstum í heilan hring og fyrir framan eru smáborð í hornum. (D4)

Continental Bodega

Aðeins nær Leidseplein, við Lijnbaansgracht 246, er sherry-bar borgarinnar. Hann býður upp á ótal tegundir af sherry og léttum vínum fram til klukkan hálfátta á kvöldin. Staðurinn er á þremur hæðum.

Menn fá pöntunarkort við innganginn. Þeir sem sitja uppi á annarri hæð, sjá niður á barinn. Þeir slá í aðra af tveimur kúabjöllum. Barþjónninn halar niður pöntunarlistann og aftur upp með fullum glösum af því, sem pantað var. Síðan borga menn viðskiptin við útidyrnar.

Þetta er mjög líflegur staður, bæði fyrir heimamenn og ferðamenn. Eftir vinnu er hann sneisafellur og jafnvel biðröð við bjöllurnar. lnnréttingar eru rómantískar. Sherryglas er á Fl. 2,90 og við fengum ágætt Manzanilla á Fl. 3,50. (D4)

Cafe de Jaren

Blaðalestrar-kaffihús eru mörg og höfða vel til borgarbúa. Í háskólahverfinu er Cafe de Jaren við hlið Doelen-hótels, við Nieuwe Doelenstraat. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja og fullt af stúdentum, sem sumir eru háværir, en aðrir niðursokknir í lestur. Stórar svalir snúa út að Amstel. Nóg er af blöðum og tímaritum, þar á meðal á ensku. (C2)

Morlang og Walem

Tvær kaffistofur eru hlið við hlið við Keizersgracht 449 og 451, rétt hjá Leidsestraat. Þetta eru blaðalestrarstofur og að minnsta kosti Walem hefur úrval erlendra blaða og tímarita. Morlang er heldur rólegri. (C4)

Upstairs

Sérstakt fyrirbæri í Amsterdam eru pönnukökuhúsin. Það skemmtilegasta hét áður Carla Ingeborg‘s, en heitir nú Upstairs. Það er við Grimburgwal 2 og er pínu-pínulítið, gengið upp hænsnastiga. (C2)

Bruine kroegs

Útbreiddustu krár borgarinnar eru bjórstofurnar, svonefndar Bruine kroegs, sem eru á öðru hverju götuhorni í miðborginni. Þær eru yfirleitt minni en brezkir pubs og enn skuggsýnni, bæði vegna lítillar birtu og hins dökka viðar í húsbúnaði. Þaðan kemur nafnið.
Hér horfa menn á barþjóninn fylla glösin af stakri þolinmæði í mörgum áföngum, skafandi froðuna af á milli áfanga með hnífi. Þetta eru staðirnir, sem heimamenn hafa að festasetri.

Hoppe

Hoppe er heiti margra kráa í Amsterdam. Hin upprunalega Hoppe er við torgið Spui vestanvert. Hún er fræg fyrir, að þar hittast háir og lágir og blanda geði, allt frá ráðherrum yfir í Súrinama. Þetta er krá hollenzks jafnræðis og frjálslyndis. (B-C3)

Pilsener Club

Rétt hjá Hoppe er Pilsener Club, öðru nafni Engelse Reet, í þröngu stræti, Begijnensteeg, sem liggur að Begijnhof. Þar er líka margt um manninn úr öllum stéttum. Stundum er mestur hávaðinn frá bridgespilurunum við hringborðið. Á trégólfi er sandur, sem skúrar hvítan viðinn. (C3)

Scheltema

Rétt hjá konungshöllinni er gömul og niðurgrafin blaðamannakrá með kamínu á miðju gólfi. Það er Scheltema við Nieuwezijds Voorburgwal 242. (B3)

Pieper

Dæmigerð krá er Pieper, rétt hjá Leidsestraat, við Prinsengracht 424, rustaleg, skuggaleg, hönnunarlaus, þröng og þægileg. (C4)

Pilserij

Við hlið Classic hótels að baki Nieuwe Kerk, við Gravenstraat 10, er dimm krá í skemmtilegum ungstíl. (A-B2)

Wynand Fockink

Ein af sérgreinum Amsterdam eru smökkunarstaðir fyrirtækjanna, sem framleiða jenever og líkjöra. Þar fá menn skenkt fleytifull glös og verða síðan að beygja sig niður að borðinu með hendur fyrir aftan bak til að taka fyrsta sopann. Þetta er hefð.
Skemmtilegasta smakkstofan er Wynand Fockink í mjóu sundi, Pijlsteeg 31, út frá Dam við hlið Krasnapolsky hótels. Þar ræður ríkjum tungumálagarpurinn, sagnfræðingurinn og heimspekingurinn P.A. Gijsberti Hodenpijl og er ekki í vandræðum með umræðuefnin.

Sjálfur barinn hefur verið óbreyttur í rúmar þrjá aldir. Gamlar vínflöskur skreyta veggina og barborðið er orðið slitið mjög. Hvergi er hægt að fá sér sæti í þessari litlu brennivínsholu. Það skýrir ef til vill, af hverju enginn er þar nógu lengi til að verða fullur. Nógu góðir eru kryddsnafsarnir samt. (B2)

Drie Fleschjes

Önnur smakkstofa í nágrenninu, rétt undir Nieuwe Kerk, við Gravenstraat 16, við Classic hótelið, er Drie Fleschjes, einnig gömul og fornfáleg. Þar hittast kaupsýslumenn í hádeginu til að fá sér frystan jenever í stað þess að borða sér til óbóta. Inni í horni er sérkennilegt glerbúr fyrir tvímenningsdrykkju.

Einkenni smökkunarstaða er, að ekki er til siðs, að viðskiptavinir setjist þar upp, heldur fá sér einn eða tvo. Ennfremur, að þetta gerist að degi til. Smakkstofurnar eru nefnilega lokaðar á kvöldin (A-B2)

Bols Taverne

Helsta smakkstofan í hverfinu Jordaan er Bols Taverne við Rozengracht 106. Það er eins konar hverfiskrá, sem býður líka upp á snarl og heilar máltíðir. Þar er boðið upp á rúmlega hundrað tegundir af brennivíni, en samt hefur aldrei sézt þar fullur maður.
Framan við stofuna er lítið garðhorn, sem er notað eins og útikaffihús á sumrin. Og fyrir ofan barinn eru svalir fyrir matargesti. Tilboð dagsins eru skráð á töflur og þau eru bezt. Þetta er snyrtilegur og alþýðlegur staður. (A4)

Concertgebouw

Fleira er skemmtilegt í Amsterdam en torg og markaðir, kaffi og vín, bjór og brennivín. Í samnefndri byggingu er hin þekkta sinfóníuhljómsveit Concertgebouw til húsa við van Baerlestraat. Þar er hljómburður óvenju góður í 2200 manna sal. Senn á að hefjast mikil viðgerð á húsinu.

Þegar við vorum síðast í Amsterdam stjórnaði Vladimir Ashkenazy þar hljómsveitinni kvöld eftir kvöld í verkum eftir Mozart og Richard Strauss. (E5)

Stadsschouwburg

Borgarleikhúsið, ríkisóperan og ríkisballettinn eru til húsa í Stadsschouwburg við Leidseplein. Þegar við vorum síðast í borginni, var þar leikið Das unaufhaltsame Aufstieg von Arturo Ui eftir Bertolt Brecht; sungin Ævintýri Hoffmanns eftir Offenbach; og Globe leikhúsið í London gestalék Richard III eflir Shakespeare. En fátt var um fína drætti í ballettinum. (C4-5)

Mickery

Í Amsterdam er alþjóðlega framúrstefnuleikhúsið Mickery við Rozengracht 117, nálægt Bols Taverne. Það er einkafyrirtæki, sem hefur gert mikið af að fá leikhópa frá útlöndum og að fá þar æfðar og frumfluttar leiksýningar, sem síðan fara annað. Oft eru þar leiksýningar á enskri tungu, sem er gagnlegt fyrir ferðamenn. Í vetur var þar King Lear eftir Shakespeare (A4)

Shaffy

Shaffy er eins konar menningarmiðstöð við Keizersgracht 324. Þar er mikið um framúrstefnu í leiklist í fjórum sýningarsölum, svo og kvikmyndasýningar, listsýningar, tónleika og danssýningar. Segja má, að hægt sé að fara þangað, án þess að vita, hvað sé á boðstólum. Eitthvað af því muni reynast nógu freistandi til að bjarga kvöldinu. (B4)

Paradiso

Í gamalli kirkju við Weteringschans 6, rétt hjá Leidseplein, hefur verið komið upp ungmennamiðstöð, sem hefur í nokkur ár verið miðpunktur nútímahávaða fyrir ungt fólk. Fyrst var það poppið, síðan ræflarokkið, þungarokkið og nýjustu bylgjurnar. Þar skiptast á lítt þekktar sveitir og aðrar á borð við Sex Pistols. Þetta er ekki staður fyrir rólega næturstund. (D4)

Melkweg

Að baki Stadsschouwburg, við Lijnbaansgraacht 234a, er gamalt mjólkurbú handan síkis og vindubrúar. Því hefur verið breytt í listamiðstöð fyrir ungt fólk. Dyrnar eru læstar, svo að berja verður upp á, en auðvelt er að kaupa ódýrt klúbbskírteini til þriggja mánaða.

Fyrir innan eru myndasýningar, leiksýningar, hávaðaframleiðsla, dans og tæknilega bezt fluttu kvikmyndasýningar í borginni. Þar að auki eru hér nokkur veitingahús, til dæmis fyrir grænmetisætur. Ennfremur bókamarkaður, flóamarkaður, bar og testofa.
Hér rölta menn um og staðnæmast, ef eitthvað grípur, sem upp á er að bjóða. Ef allt er í of mikilli framúrstefnu, er alténd hægt að skoða bókamarkaðinn. Staðurinn er á fullu frá 21 til 01, en eftir það er diskó. (C5)

Boston Club

Annað af tveimur helztu diskóum fyrir stælfólkið í Amsterdam er Boston Club í Ramada hóteli (sjá bls. 16). Þar er unga fólkið áberandi öðru vísi klætt en í Paradiso og Melkweg. (A2)

Windjammer Club

Hitt diskóið er í kjallara Marriott hótels (sjá bls. 16). Það er sniðuglega innréttað á mörgum pöllum með margvíslegum skúmaskotum. Seglskipastýri og aðrar sæfaraskreytingar á borð við reipi eru á veggjum. Gestir sitja á barstólum við lítil borð. Dansgólfið er mjög lítið. (D5)

Blue Note

Næturklúbbar í Amsterdam eru ekki merkilegir í augum þeirra, sem hafa heimsótt slíka í París eða New York. Hinn gamli, trausti klúbbur í Amsterdam er í kjallara við hlið veitingahússins Borderij (sjá bls. 38), rétt við Leidseplein. Hann heitir Blue Note. Þar lék síðast topplaus stúlknahljómsveit fyrir hefðbundnu sjói, sem getur varla hneykslað neinn nú til dags. Sérfræðingar segja, að Blue Note sé enn skásti kosturinn hér í borg, enda er nóg af svikaklúbbunum. (C-D4)

1984 og 1992

© Jónas Kristjánsson

Róm inngangur

Ferðir

Bókarstefna

Við höfum lesið bækurnar, sem ekki taka tillit til, að mikill hluti ferðamanna ver nokkrum hluta tímans á hóteli og í veitingahúsum og hefur þess á milli töluverðan áhuga á að skemmta sér og líta í búðarglugga, en er ekki allan sólarhringinn að skoða söfn og merka staði. Við viljum taka tillit til þessa og reyna að semja raunsæja bók.

Við höfum líka lesið bækurnar, sem leggja dóm á hótel, veitingahús, verzlanir og skemmtistaði, en eru þá fremur að þjónusta þessar stofnanir en lesendur. Við teljum svo eindregið, að upplýsingar af því tagi eigi að vera óháðar, að við prófuðum allar þessar stofnanir og komum hvarvetna fram sem venjulegir gestir, greiðandi almennt og afsláttarlaust verð og gáfum okkur ekki fram fyrr en að reikningum greiddum. Á þann hátt teljum við mestar líkur á, að reynsla lesenda komi heim og saman við þá reynslu, sem hér er lýst.

Þá höfum við skoðað bæklinga hótela, veitingahúsa og ferðamálaráða og fundizt myndirnar falsaðar. Innanhúss eru þær stúdíóteknar og sýna ekki raunveruleikann, hvað þá þegar þær eru teknar í hótelsvítu, en viðskiptavinurinn fær venjulegt herbergi. Utanhúss er beðið dögum saman eftir réttri birtu og réttu birtuhorni og myndirnar sýna ekki þungskýjaðan raunveruleika ferðamannsins.

Við höfnuðum öllum gjafamyndum af slíku tagi, tókum okkar eigin og teljum þær gefa raunhæfari mynd en glansmyndir áróðursbæklinga.
Jónas Kristjánsson og Kristín Halldórsdóttir

20 alda heimsborg

Róm er borg andstæðna, elli og æsku. Hún hefur í 20 aldir þótzt vera höfuðborg heimsins, fyrst sem keisaraborg og síðan sem páfaborg. Hún ber samt aldurinn vel, því að hún er full af fjöri frá morgni til kvölds. Næturlífið í La Dolce Vita var að vísu aldrei til, en allir þjóðfélagshópar eru allan daginn að líta inn á kaffihús. Róm vakir ekki á nóttunni, en hún tekur daginn og kvöldið með látum.

Róm hefur þolað margt um dagana, rán og gripdeildir erlendra barbara, brjálaðra keisara, franskra kónga og innfæddra páfa. Mörg frægustu tákn hennar eru rústir einar. Þar hafa voldugir heimamenn verið afdrifaríkastir.

Menn koma til Rómar til að skoða þessar gömlu rústir fornaldar á Forum, Capitolum og Palatinum. Menn koma líka að sjá Péturskirkju og aðrar hlaðstílskirkjur. Og loks koma menn til að lifa á kaffihúsum og veitingahúsum hins þrönga miðbæjar á Marzvöllum. Samkvæmt lögmáli andstæðna sækir unga fólkið í þennan gamla bæ.

Á blómaskeiði keisaranna bjó milljón manns í Róm. Síðar féll íbúatalan niður í 30 þúsund á miðöldum. Nú er hún komin upp í þrjár milljónir. Róm er ekki eins stór og París, London eða New York, en hún hefur fleiri minjar gamals tíma en hinar til samans.

Bílaumferðin í Róm er óskipulegt öngþveiti. Bílstjórar troðast um öll sund og fylla hvert torg, en aka þó ekki á gangandi fólk. Þeir þrasa mikið og hátt eins og aðrir borgarbúar. En umburðarlyndi er þó aðaleinkenni fólksins í borginni. Borgin er höfuðborg kaþólskunnar, en borgarbúar eru sjálfir hóflega kaþólskir. Þeir eru fyrst og fremst lífsreyndir og veraldarvanir
(Ekkert miðtorg er til í Róm. Spánartröppur eða Piazza Navona eru bara fyrir ferðamenn.

Almennt

Bankar

Skiptu peningum í bönkum eða gjaldeyrisstofum, cambio, en ekki á hótelum. Bankar eru opnir 8:30-13:30 og 14:45-15:45 virka daga, en skipta sumir gjaldeyri bara á morgnana. Á aðaljárnbrautarstöðinni er banki opinn allan sólarhringinn, en þar er oft löng biðröð.

Dagblöð

International Herald Tribune og brezku blöðin eru víða fáanleg í blaðasöluturnum Rómar.

Ferðir

Skrifstofa ferðamálaráðs, Ente Provinciale per il Turismo, er við Via Parigi 11, sími 461 851, svo og útibú á flugvellinum og aðaljárnbrautarstöðinni.

Flug

Leonardo da Vinci flugvöllurinn í Fiumicino er 30 km suðvestan Rómar, sími 60.121. Strætisvagn er 60-80 mínútur á leiðinni til aðaljárnbrautarstöðvarinnar, Stazione Termini. Lest er 30 mínútur til brautarstöðvarinnar Porta San Paolo, sem tengist neðanjarðarlestakerfi borgarinnar. Leigubílar eru 40-60 mínútur í bæinn og kosta L. 50.000 frá velli (2.500 kr) og L. 60.000 til vallar. Mæting er klukkustund fyrir brottför flugvéla.

Framköllun

Víða í miðbænum er unnt að fá framkallað og kóperað á klukkutíma.

Hótel

Á aðaljárnbrautarstöðinni er ferðamálaráð með skrifstofu, sem útvegar ferðamönnum hótelherbergi. Pantaðu herbergi með “twin beds”, því að rúmin og herbergin eru oft stærri en þau sem eru með “double bed”. Herbergi, sem snúa út að götu, eru oft bjartari og loftbetri, en hávaðasamari en þau, sem snúa inn í port.

Krítarkort

Ef þú hefur glatað krítarkorti, er heima svarað allan sólarhringinn í 354-1-685 499 fyrir Eurocard og 354-1-671 700 fyrir Visa.

Kvartanir

Það er tímasóun að kvarta á Ítalíu. Reyndu heldur að sjá björtu hliðarnar.

Leigubílar

Löggiltir leigubílar eru gulir, með sérstöku ljósaskilti á þaki og nota gjaldmæla. Þeir eru á sérstökum biðstöðvum, en stundum má veifa í þá á götu. Álag er greitt fyrir farangur, nætur- og helgidaga og fyrir flugvallarferðir. Leigubílasímar eru 3570, 3875, 4994 og 8443.

Lyfjabúð

Lyfjabúðir eru opnar 8:30-13 og 16-20. Í gluggum þeirra er vísað á nálægar lyfjabúðir með helgarvakt. Internazionale við Piazza Barberini 49, sími 462 996, er opin allan sólarhringinn.

Löggæzla

Hringdu í neyðarsímann 113.

Læknir

Hringdu í 475 6741, opið allan sólarhringinn.

Peningar

Á Ítalíu eru einkum notaðir seðlar, 1000, 2000, 5000, 10.000, 20.000, 50.000 og 100.000 líru seðlar. 1000 lírur samsvara 50 krónum. Flest hótel og veitingahús taka bæði Eurocard og Visa, sum þó aðeins Visa.

Póstur

Betra er að senda póst frá Vatíkaninu en frá Róm, því að ítalska póstkerfið er lélegt. Athugaðu, að á Péturskirkjutorgi eru sérstök frímerki og sérstakir póstkassar fyrir Vatíkanið.

Rafmagn

Rafmagnsspenna er sama og á Íslandi, 220 volt.

Ræðismaður

Aðalræðismaður Íslands í Róm er í Via Flaminia 441, sími 39.97.96.

Salerni

Salerni kaffihúsa eru stundum léleg, en yfirleitt í lagi á veitingahúsum.

Samgöngur

Annatímar á götunum og í almenningsfarartækjum eru 8-9:30 og 17-20. Oft er fljótlegra að fara fótgangandi milli staða heldur en í leigubíl. En gættu þín á bílunum, sem vaða um á rauðu ljósi eftir þörfum. Aktu ekki sjálfur í Róm. Neðanjarðarlestir eru heppilegar til lengri ferða milli helztu skoðunarstaða í borginni. Lestir milli borga á Ítalíu eru afar ódýrar og fljótar í förum.

Sendiráð

Ekkert íslenzkt sendiráð er á Ítalíu, en ræðismenn eru víða, sjá “Ræðismaður”.

Sími

Milli borga á Ítalíu er hringt í 0 framan við svæðisnúmerið. Til Íslands er fyrst hringt í 00 til að fá millilandasamband, beðið eftir sóni, síðan í 354 fyrir Ísland og loks svæðisnúmer og símanúmer í einni bunu. Landsnúmer Ítalíu er 39 og svæðisnúmer Rómar er 6.

Sjúkrabíll

Hringdu í neyðarsímann 113.

Sjúkrahús

Enskumælandi starfsfólk er á Salvator Mundi International Hospital, sími 586 041.

Slys

Hringdu í neyðarsímann 113.

Slökkvilið

Hringdu í 115.

Tannlæknir

Neyðarhjálp fæst á Ospedale G. Eastman, sími 490 042.

Vatn

Kranavatn er yfirleitt mjög hreint og gott í Róm, bezta vatn á Ítalíu. Á veitingahúsum drekka menn þó yfirleitt lindarvatn af flöskum.

Veitingar

Hádegisverðartími er kl.13:30-15, kvöldverðartími 20:30-23. Á flestum veitingahúsum skilur einhver þjónninn ensku eða þá eigandinn.

Verðlag

Verðlag hér í bókinni er frá vori 1992. Verðbólga er litlu minni en á Íslandi. Langt er liðið síðan Ítalía var ódýrt land. Hótel eru dýrari í Róm en Reykjavík og veitingahús nærri eins dýr.

Verzlun

Verzlanir eru yfirleitt opnar 9-13 og 15:30-19:30 á veturna, 16-20 á sumrin, alla virka daga, en stundum skemur á laugardögum.

Þjórfé

Þjónusta er yfirleitt innifalin í reikningum veitingahúsa. Sumir skilja eftir nokkur þúsund lírur til viðbótar. Leigubílastjórar reikna með 10% þjórfé. Töskuberar reikna með L. 1000 á tösku.

Öryggi

Notaðu ekki handtösku. Hafðu peninga innan klæða. Notaðu plastkort sem mest. Hafðu skilríki ekki á sama stað og peninga. Skildu ekki eftir verðmæti í læstum bíl. Mikið ónæði er af sígaunabörnum, sem ganga um nokkur saman og betla, en reyna um leið að rífa af þér allt lauslegt. Ofbeldisglæpir eru fátíðir í Róm.

1991

© Jónas Kristjánsson

Madrid Spánn

Ferðir

Aðrar borgir

Valencia

Héraðið

Valencia er eitt mesta ferðamannahérað Spánar. Þar eru Costa Blanca, Benidorm og Alicante. Þar eru mestu appelsínulundir Spánar, sól og sumar nær árið um kring.

Þetta er líka hrísgrjónaland Spánar, land fjölmargra hrísgrjónarétta, einkum pælunnar, pönnusteiktra hrísgrjóna með saffran, upphaflega með kjötbitum og baunum, en á síðari tímum einnig með sjávarfangi.

Valensíumenn eru frægir fyrir hátíðir sínar, sem standa með hléum árið um kring. Í apríl er mest um að vera, á Moros y cristianos, þar sem leiknir eru bardagar milli mára og kristinna frá 13. öld og þáttakendur klæðast ofsalega skrautlegum búningum. Um jól og áramót eru líka miklar hátíðir, svo og kjötkveðjan í febrúar.

Vegna andstöðu sinnar við falangista fóru Valensíumenn illa út úr valdaskeiði Francos. Síðan hann féll frá, hefur efnahagur skánað töluvert. Einnig hafa þeir lagt mikla áherzlu á endurheimt tungu sinnar, sem er svipuð katalúnsku. Valensíska er komin á götuskilti og leigubílaskilti, svo og suma matseðla, svo að dæmi séu nefnd.

Borgin

Valencia er þriðja stærsta borg Spánar með tæplega 800 þúsund íbúum, einn helzti gluggi landsins til viðskipta á austanverðu og sunnanverðu Miðjarðarhafi.

Valencia er fræg fyrir Fallas, varðelda- eða kjötkveðjuhátíðina í marz, þegar heilsað er vori. Þá fara menn í skrúðgöngur með risastór líkneski, svonefndar fallas, sem unnið hefur verið við allt árið á undan. Klúbbar keppa um að búa til beztu líkneskin. Þá eru sungnir söngvar á valensísku, svonefndir Llibret, sem fela í sér háð og spott og hafa pólitískt sjálfstæðisgildi, sem óbeint er stefnt gegn kúgun af hálfu Kastilíu.

Gisting og matur

Inglés

Erfitt er að gera upp á milli hótela í Valencia. Við kunnum bezt við okkur í 62 herbergja Hotel Inglés, sem er í gamalli höll við hliðina á höll markgreifans af Dos Aguas, sem nú er keramiksafn. Starfslið var mjög vingjarnlegt og hótelbarinn skemmtilegur. Herbergi nr. 102 er stórt og gott, með óvenjulega rösklegri loftræstingu, svo og litlum svölum út að götunni. Baðherbergið er hins vegar lítið og með þreytulegum flísum, en pípulagnir allar í fínu lagi. Friðsælli herbergi snúa út að hliðargötu og keramiksafninu. Tveggja manna herbergi kostaði 10.500 pts. (Inglés, Marqués de Dos Aguas 6, sími (6) 351 64 26)

Ma Cuina

Einn allra bezti matstaðurinn í miðborginni er Ma Cuina, afar huggulegur og smekklegur staður í nokkrum sölum á tveimur hæðum, með góðu rými á milli borða og góðri þjónustu, en dálítið ævintýralegri eldamennsku á köflum, undir nýfrönskum áhrifum. Við fengum okkur mjög góða sveppi í afar mjúkri kæfu; allgóða dádýra-rifjasteik í súkkulaðisósu, þótt ótrúlegt megi virðast, enda hæfði hún kjötinu ekki; og smjördeigsbakstur hússins. Þríréttað fyrir tvo kostaði 9.500 pts. (Ma Cuina, Gran Vía Germanías 49, sími (6) 341 77 99, lokað sunnudaga)

El Plat

Hinn dæmigerði Valensíustaður er El Plat, einfaldur matsalur, mikið sóttur af kaupsýslumönnum. Þjónusta er óvenjulega góð, en alþýðleg. Þar er jafnan á boðstólum hrísgrjónaréttur dagsins, svo og auðvitað pæla og ýmsir réttir í sterkri piparsósu, sem er annað einkennistákn borgarinnar. Við prófuðum góða pælu með kjúklingabitum, stórum baunum og artistokkum (paella valenciana); og mjög góðar risarækjur í sterkri piparsósu (all-i-pebre de langostinos); og ágæta kastaníuhnetufroðu með þeyttum rjóma (mousse de castane). Þríréttað fyrir tvo kostaði 8.200 pts. (El Plat, Conde de Altea 41, sími (6) 334 96 38, lokað mánudaga)

La Oca Dorada

Einn af fínu stöðunum er La Oca Dorada, innréttaður á annarri hæð í bleikum Parísarstíl við stóran glugga út að sigurboganum á torginu. Þar eru virðulegir, bakháir tréstólar og miklir speglar. Sumt á matseðlinum var ekki fáanlegt og smjör var borið fram frosið í álpappír. Maturinn var samt nokkuð góður, góðar risarækjur (langostinos) grillaðar, mjög góður lýsingur, grillaður (merluza al txacolí); og loks kaffi-íshröngl sniðugt. Þríréttað fyrir tvo kostaði 10.000 pts. (La Oca @ýð í laugardagshádegi og sunnudagskvöld)

Rölt

Micalet

Þekktasti hluti dómkirkjunnar í Valencia er Micalet, áttstrendur turn í gotneskum stíl, einkennistákn borgarinnar, byggður um aldamótin 1400. Úr honum er gott útsýni yfir borgina og héraðið í kring.

Sjálf er kirkjan frá ýmsum tímum, elztu hlutar frá síðari hluta 13. aldar, reistir í rómönskum stíl, þar á meðal suðurvirkið. Norðurvirkið er hins vegar gotneskt.

Við þær kirkjudyr, Puerta de los Apóstoles, eru enn haldin vatns-dómþing (tribunal de las aguas) á hverjum fimmtudagsmorgni kl.10, þar sem kviðdómur bænda úrskurðar, eftir munnlegan málflutning, í ágreiningsmálum vegna áveituréttinda appelsínubænda. Úrskurði verður ekki áfrýjað.

Vinstra megin við dómkirkjuna er önnur kirkja, Nuestra Señora de los Desamparados.

Lonja

Ef við förum yfir torgið fyrir framan kirkjurnar, fullt af dúfum, erum við strax komin að héraðsstjórnarhöllinni, Palacio de la Generalidad, 15. aldar höll í gotneskum stíl.

Nokkru vestan dómkirkjunnar er kauphöllin, La Lonja, önnur 15. aldar höll, reist í gotneskum stíl af silkikaupmönnum borgarinnar, með einkar virðulegum inngangi. Hún er talin ein fegursta bygging veraldlegs eðlis frá gotneskum tíma á Spáni, opin þriðjudaga-laugardaga 10-14 og 16-18, sunnudaga 10-14.

Andspænis kauphöllinni er matvælamarkaður borgarinnar í 8000 fermetra glerhúsi, einn hinn stærsti í Evrópu.

Dos Aguas

Við Inglés-hótelið er sérkennilega skrautleg höll í kúrríkskum stíl, byggð um miðja 18. öld og síðar löguð að svifstíl, Palacio del Marqués de Dos Aguas, þar sem nú er safn 5000 keramikgripa frá öllum tímum menningarsögunnar. Inngangur hallarinnar er sérstaklega skrautlegur, gerður úr alabastri, eitt þekktasta dæmið um hlaðstíl á Spáni. Um leið vísar hann fram til nýstíls eða ungstíls síðustu aldamóta, sem náði mikilli útbreiðslu á Spáni, einkum í Barcelona, og þá í ýktri mynd. Safnið er opið þriðjudaga-laugardaga 10-14 og 16-18, sunnudaga 10-14.

San Sebastián

Euzkadi

Baskaland, Pais Vasco, Euzkadi. Þetta er einn dularfyllsti hluti Spánar, þar sem fólk talar tungu, euskara, sem ekki er skyldi neinni annarri í heiminum. Og það sem meira er: Það er farið að taka niður spönsku götuskiltin og setja upp skilti á baskamáli, þar sem allt er fullt af x-um og z-um og enginn utanaðakomandi skilur neitt.

Hinar ofsafengnu pólitísku deilur í Euzkadi og milli Baska og Kastilíumanna hafa engin önnur áhrif á stöðu ferðamanna. Þótt menn séu enn skotnir á færi í Euzkadi, eru ferðamenn kerfisbundnir látnir í friði. Baskar eru slyngir kaupsýslumenn og vita, hvar mörkin liggja.

Eitt helzta sérkenni Baska er, að þeir eru meiri matgæðingar en flestir aðrir Evrópumenn, nema ef til vill Frakkar. Flest beztu veitingahús Spánar eru rekin af Böskum eða hafa að minnsta kosti Baska í eldhúsi. Heima fyrir í Euzkadi keppast karlar um að vera í matreiðsluklúbbum, txokes, og skiptast á um að halda dýrindis veizlur. Í Euzkadi jafngildir þetta Lions og Kiwanis.
Marmitako er túnfisksúpa, blönduð kartöflum, papriku og kryddi, þekktur baskaréttur. Txakoli heitir fölt og grænleitt vín svæðisins. Idiázabal er frægasti baskaosturinn. Smokkfiskur í eigin bleiki, chipirones en su tinta, er hvergi betri en í Euzkadi.

Borgin

Guipúzoca heitir sá hluti Euzkadi, sem næstur er Frakklandi og áhugaverðastur er ferðamönnum. Þar er höfuðborgin San Sebastian, ein af meiriháttar sumarleyfaborgum Spánar og mesta matreiðsluborg Spánar.

San Sebastian komst í tízku um og eftir miðja nítjándu öld, þegar Ísabella II og síðan María Cristina Spánardrottningar gerðu borgina að sumardvalarstað hirðarinnar.

Enn þann daga í dag er stéttaskiptingin hin sama. Almúginn fer í sólskinið til Costa del Sol, Costa Brava, Costa Blanca, Costa Dorada, Benidorm og svo framvegis, en fína fólkið í fréttunum fer til San Sebastian, þar sem sólskinið er minna, en samkvæmislífið er betra. Borgin er Biarritz Spánar.

San Sebastian er orðin að tæplega 200 þúsund manna bæ. Það, sem skiptir ferðamenn máli, er þó aðeins pínulítill blettur af borginni, það er að segja gamli miðbærinn, þar sem eru frægu hótelin og góðu matsölustaðirnir, svo og baðströndin fræga, Playa de la Concha.

Gisting og matur

María Cristina

Fína fólkið gistir í 139 herbergja María Cristina við Urumea-ána, sem markar miðbæinn að austanverðu. Hótelið er eitt bezta hótel Spánar, í aldamótastíl, reist 1912, allt hið glæsilegasta og stílhreinasta, allt frá virðulegu anddyri yfir til þungra viðarinnréttinga í herbergjum. Tveggja manna herbergi kostaði 30.000 pts. (María Cristina, Paseo República Argentina, sími (43) 42 49 00, fax 42 39 14, telex 38195)

De Londres y de Inglaterra

Bezt staðsetta hótelið í San Sebastian er 142 herbergja Londres, beint við helztu baðströndina, með útsýni til höfðanna Urgull og Igueldo. Það var lengi fína hótelið í bænum, unz María Cristina tók við. Spilavítið er á jarðhæð Londres. Hótelið hefur allt verið endurnýjað að innanverðu og er nú hið glæsilegasta, hólf í gólf, þar á meðal herbergin, sem sum hafa svalir út að sjó. Hins vegar er þjónusta hin slakasta, sem ég hef séð í fjögurra stjörnu hóteli, en verðið er heldur ekki hátt, miðað við stjörnurnar. Herbergi nr. 319 snýr í vitlausa átt, en hefur svalir út á torgið, er með góðri loftræstingu og góðu baðherbergi marmaralögðu. Herbergið er innréttað að ljósum, frönskum hætti. Tveggja manna herbergi kostaði 13.300 pts. (De Londres y de Inglaterra, Zubieta 2, sími (43) 42 69 89, fax 42 00 31, telex 36378)

Arzak

Bezta veitingahús Spánar er Arzak. Það er vinstra megin á leiðinni úr miðbænum í átt til Frakklands, eftir þjóðvegi 1, um 2,5 km frá miðbæjarbrúnni, Puente Santa Catalina, yfir Urumea-ána. Þar er Juan Mari Arzak kokkur og konan hans, Maite Arzak, veitingastjóri. Arzak tekur sjálfur við pöntunum og kemur stöku sinnum til að spjalla um, hvort allt sé eins og það eigi að vera. Og hann verður miður sín, ef gestir kveðja hann ekki persónulega, þegar þeir fara. Staðurinn er afar huggulega innréttaður á tveimur hæðum, með panil upp á miðja veggi, armstólum, mikið blómum skreyttur. Arzak eldar á nýfransk-baskneska vísu og er raunar einn af höfuðsmönnum nýfrönsku stefnunnar í heiminum yfirleitt. Við fengum okkur smakkseðil, sem fól í sér mjög gott rækjusalat (langostinos frescos salteados con ciruela y pimiento dulce); ákaflega góða skógarsveppi með marglitu makkaroni (karraspinas rellenas al jugo de trufa); heimsins beztu þykkvalúru með ýmsu grænmeti (rodaballo al horno sobre aceite de oliva virgen y cintas de verdura); allgóða önd í hjúp, með góðri appelsínusósu (ragout de pato con frambuesa, naranja y pinones); og súkkulaðitertu með sítrónu- og hindberja-ískraumi (sorbetes y tartas). Aðrir frægir réttir eru meðal annars ostrusúpa með spergli (sopa de ostras con espárragos verdes); og humar í ávaxtasafa árstíðarinnar (bogavante con zumo de frutas del tiempo); Þríréttað fyrir tvo kostaði 13.500 pts. (Arzak, Alto de Miracruz 21, sími (43) 27 84 65,, lokað sunnudagskvöld og mánudaga)

Akelarre

Helzti keppinautur Arzaks í Baskalandi er Pedro Subijana, sem eldar nýfranskan mat á glæsilegu sveitasetri með góðu útsýni við þjóðveginn um Igueldo-fjall, 7,5 km frá miðbænum. Beygt er til hægri, þegar komið er út úr undirgöngunum við austurenda Concha-baðstrandar. Þetta er fjórði bezti veitingastaður Spánar. Meðal þekktra rétta eru sveppasalat (pequeño ragout de setas con trufa); leginn túnfiskur í tómatsalati (ensalada de tomate con bonito marinado); koli í basknesku eplavíni (lenguado al chacolí); andasteik (pato semilacado al sésamo); og peru- og rúsínuterta með frosnum hrísgrjónabúðingi (hojaldre de pera y pasas con helado de arroz con leche). Þríréttað fyrir tvo kostaði 11.000 pts. (Akelarre, Carretera Barrio de Igueldo, sími (43) 21 20 52, lokað sunnudagskvöld og mánudaga)

Casa Nicolasa

þriðja bezta veitingahúsið, er í gamla miðbænum, rétt við María Cristina, afar dökkur staður og stranglegur frá 1912, viðarklæddur upp alla veggi. Við hvert borð er rafmagnshnappur til að gestir geti kallað til þjónustu. José Juan Castillo, kokkur og eigandi, var sífellt á ferðinni að ræða við gesti og hljóp á eftir okkur niður stigann til að kveðja. Hann eldar á hefðbundinn hátt. Við prófuðum mjög góðan forrétt, papriku, fyllta fiski, með svartri kolkrabbasósu (pimientos verdes rellenos de chipirón); góða þykkvalúru með tvenns konar sósu og tvenns konar kavíar (rodaballo en cama de col y caviar); og blandaða eftirrétti af vagni (orgía de postres). Aðrir þekktir réttir eru skötuselur með skeljasósu (rape asado con salsa de almejas); og lýsingur í grænni sósu (merluza en salsa verde). Þríréttað fyrir tvo kostaði 13.500 pts. (Casa Nicolasa, Aldamar 4, 2. hæð, sími (43) 42 17 62, lokað sunnudaga og mánudagskvöld)

Rölt

Urgull

Skemmtilegast er að rölta úr miðbænum eftir Paseo Nuevo kringum höfðann Urgull. Uppi á honum er virki og stríðsminjasafn, svo og gott útsýni yfir miðbæinn. Þangað upp verður að fara fótgangandi.
Að öðru leyti gera menn það sér til dægradvalar að þræða veitingahúsin í miðbænum, sofa og éta, éta og sofa.

Santiago de Compostela

Galicia

Galicia er gamalt Keltaland eins og nafnið sýnir, sæbarið, fátækt og afskekkt eins og Bretagne og Cornwall. Grafnir hafa verið upp 5000 kastalar og virki kelta á þessu svæði. Tungumálið í nútímanum er þó ekki keltneskt, heldur rómanskt, milli spönsku og portúgölsku. Hins vegar eru sekkjapípurnar greinilega skyldar hinum brezku.

Matreiðslan í Galisíu er dálítið sérstök. Frægur er Galisíugrautur, búinn til úr baunum, kartöflum og kjötbitum, Cocido gallego. Einnig Galisíusúpa, búin til úr kartöflum, káli og baunum, Caldo gallego. Þetta eru réttir, sem menn eiga fremur von á í köldum löndum norður í höfum. Empanadas heita pæ, sem eru fylltar kjöti eða sjávarréttum.

Borgin

Helzti ferðamannastaður í Galiciu er borgin Santiago de Compostela, sem var á miðöldum jafn eftirsótt takmark pílagríma og sjálf Róma. Þá fóru upp undir milljón pílagrímar árlega til Santiago de Compostela til að komast í návígi við leifar Jakobs postula. Reistar voru miklar pílagrímakirkjur í rómönskum stíl á leiðinni frá Frakklandi til Compostela. Fyrsta leiðsögubók ferðamanna í mannkynssögunni var skrifuð um þessa leið árið 1130. Enn þann dag í dag eru farnar hópferðir suður Frakkland og eftir norðurströnd Spánar til að feta í fótspor forfeðra okkar í stétt pílagríma.

Miðbærinn í Santiago de Compostela er að miklu leyti frá ofanverðri 12. öld og hefur að geyma beztu minjar frá rómönskum tíma byggingarlistar á Spáni. Dómkirkjan sjálf er höfuðmannvirkið frá þeim tíma.

Gisting og matur

Reyes Católicos

150 herbergja hótelið Reyes Católicos er elzta hótel heims, fimm alda gamalt, á bezta stað í bænum, við aðaltorg bæjarins, þar sem er hin fræga dómkirkja. Hótelið er frá lokum 15. aldar og hefur alltaf verið hótel fyrir ferðamenn. Það var upprunalega byggt handa pílagrímum, en núna er það stórkostlegt lúxushótel með víðáttumiklum göngum og setustofum, allt fullt af fornum húsmunum. Það er annað af tveimur flaggskipum parador-keðjunnar. Hótelið myndar kross og ferning utan um fjóra garða. Herbergi nr. 108 er með sérstakri forstofu og marmaralögðu baðherbergi, parketti á gólfum og vönduðum húsgögnum í fornum stíl. Tveggja manna herbergi kostaði 17.900 pts. (Reyes Católicos, plaza de España 1, sími (81) 58 22 00, fax 56 30 94, telex 86004)

San Martín

Hægt er að gista við dómkirkjuna án þess að borga morð fjár. Milli Reyes Católicos og dómkirkju er klaustrið San Martín Pínario, sem býður á sumrin 126 herbergi, hrein og einföld, öll með baði. Tveggja manna herbergi kostaði ekki nema 3.000 pts. og er það bókarmet. (San Martín, Plaza de la Inmaculada 5, sími (81) 58 30 09, opið 1.7.-30.9.)

Don Gaiferos

Í næsta nágrenni kirkjunnar, í skemmtilegri götu, er fínasta veitingahúsið í bænum, Don Gaiferos. Þar er eldað á hefðbundinn galisíuhátt, svo sem bauna- kartöflu og kjötgrautur (cocido gallego), þjóðarréttur Galiciu. Þríréttað fyrir tvo kostaði 10.000 pts. (Don Gaiferos, Rúa Nova 23, sími (81) 58 38 94, lokað sunnudaga)

Las Huertas

Ef við förum niður brekkuna austur frá Reyes Católicos, eru 50 metrar að veitingahúsinu Las Huertas. Þar er eldað ágætlega á nýfranskan galisíuhátt. Þríréttað fyrir tvo kostaði 7.800 pts. (Las Huertas, Las Huertas 16, sími (81) 56 19 79, lokað sunnudaga)

Rölt

Catedral Vieja

Dómkirkjan í Compostela var reist á 11., 12. og 13. öld í rómönskum stíl, sem barst til Spánar frá Frakklandi. Hún er eitt fárra spánskra dæma um þann stíl, þar sem mestur hluti Spánar var á þeim tíma á valdi Mára. Kirkjan var þá mjög stílhrein sem slík, að öðru leyti en því, að mikil vængjaþrep liggja upp í hana, því að hún er byggð ofan á hvelfingu, þar sem varðveittur er helgur dómur Jakobs postula. Hún skiptist samkvæmt hefðum þess tíma í eitt aðalskip í miðju og tvö hliðarskip. Í þessari dómkirkju náðu hliðarskipin í boga aftur fyrir háaltari, svo að skrúðgöngur pílagríma gætu farið í hring innan í kirkjunni. Á þeirri leið var skotið út fjölda af litlum kapellum ýmissa dýrlinga.

Um miðja sautjándu öld var sett nýtt vesturvirki á kirkjuna, svokölluð Obradoiro-framhlið í hlaðrænum stíl, sem einni öld síðar var klædd í afar skrautlegan, kúrríkskan hlaðstíl. Beint fyrir innan framhliðina er Pórtico de la Gloria frá 1188. Þar þökkuðu pílagrímarnir fyrir að komast á leiðarenda með því að krjúpa við miðsúluna, sem stendur enn í dag, slitin af fingraförum milljónanna.

Suðurvirki kirkjunnar er í upprunalega, rómanska stílnum frá 12. öld. Þar eru Silfursmíðadyrnar, Puerta de las Platerías, nákvæmlega þaktar í tilhöggnum myndum. Kirkjan er opin 10:30-13:30 og mánudaga-laugardaga 16-19:30, á veturna 11-13:30 og mánudaga-laugardaga 16-18.

Við förum umhverfis kirkjuna, því að torg standa að henni á alla vegu, að vestanverðu Plaza del Obradoriro, að sunnanverðu Plaza de la Platerías, að austanverðu Plaza de la Quintana og að norðanverðu Plaza de la Immaculada. Suður frá þremur fyrstnefndu torgunum liggja skemmtilegar göngugötur um gamla miðbæinn. Þar eru kaffihús og námsmannakrár, silfursmiðir og svartarafs-smiðir.

Kastilía

Kastilía er hjarta Spánar og upprunaland tungumálsins, sem við köllum spönsku, en minnihlutaþjóðir á Spáni kalla kastilísku. Kastilía er þurr háslétta, illa ofbeitt og strjálbýlt eyðiland fjárhirða, skálda, hermanna og presta. Það er land kastala, enda kemur nafn landsins þaðan. Í Kastilíu eru frægir kastalar: Manzanares el Real, Mombeltrán, Coca, Gormaz, Peñafiel, Belmonte og Sigüenza. Við ætlum að þessu sinni ekki að skoða kastalana, heldur nokkrar sögufrægar borgir í nágrenni höfuðborgarinnar.
Kastilíumenn kunna vel að ofnsteikja smágrísi (cochinillo asado) og lambakjöt (cordero asado), einnig kiðlinga, akurhænur og ýmsa villibráð. Þekktur er osturinn frá La Mancha héraðinu, manchego.
Við ímyndum okkur, að við séum í Madrid. Við erum orðin þreytt á borgarfjörinu og höfum tekið bílaleigubíl, sem við ætlum að aka til annarra frægðarborga Kastilíu. Leið okkar liggur um Segovia, Ávila, Salamanca og Toledo. Frá Madrid til Segovia eru 87 kílómetrar, frá Segovia til Ávila eru 67 kílómetrar, frá Ávila til Salamanca eru 98 kílómetrar, frá Salamanca til Toledo eru 234 kílómetrar, lengsti áfanginn, og frá Toledo til Madrid eru 70 kílómetrar.

Segovia

Segovia er 50 þúsund manna bær í 1000 metra hæð og rís eins og skip upp af hásléttunni. Staðurinn er einkum frægur fyrir rómverska vatnsriðið, sem er nítján alda gamalt, og borgarkastalann, sem stendur fegurst kastala.

Los Linajes

Bezta og skemmtilegasta hótelið í Segovia er falið í þröngri götu í gamla bænum, rétt norðan við dómkirkjuna og austan við borgarkastalann. Það er 55 herbergja hótelið Los Linajes í höll Falconi-ættarinnar frá 11. öld, hlaðið forngripum. Pantaðu herbergi í gamla stílnum. Tveggja manna herbergi kostaði 8.400 pts. (Los Linajes, Dr Velasco 9, sími (11) 43 17 12)

Mesón de Cándido

Bezta og skemmtilegasta veitingahúsið í Segovia er Mesón de Cándido, rétt við rómverska vatnsriðið, í húsi frá 15. öld, innréttað á nokkrum hæðum í gömlum Segovia-stíl, óhjákvæmilega afar vinsælt af ferðamönnum, sem eru að skoða vatnsriðið.
Þar eru beztar smágrísasteikur (cochinnillo asado) og lambasteikur (cordero asado) og ýmsir réttir frá Kastilíu. Meðal sérrétta hússins er kastilíusúpa í gömlum stíl (sopa castellana del siglo XV); silungur (truchas frescas Felipe V); og fyllt akurhæna (perdiz estofada). Þríréttað fyrir tvo kostaði 6.500 pts. (Mesón de Cándido, Plaza Azoguejo 5, sími (11) 42 59 11)

Acueducto romano

Hið mikla vatnsrið Rómverja, Acueducto romano, frá því um 100 eftir Krist, blasir við ferðamönnum, sem koma að miðbænum í Segovia. Það er eitt af bezt varðveittu minjum frá tímum keisaranna Vespaníusar og Trajanusar.

Það flytur enn vatn til borgarinnar á 167 steinbogum, er 728 metra langt og 28 metra hátt við torgið, þar sem gatan liggur undir það. Það er reist úr höggnum granítsteinum án nokkurs bindiefnis. Rétt austan við vatnsriðið er matsölustaðurinn Mesón de Cándido.

Alcázar

Ef vatnsriðið er sagt vera við skut skipsins, er borgarkastalinn, Alcázar, í stafni. Milli þeirra er um eins kílómetra ganga um gamla bæinn. Þar verður á vegi okkar gotnesk dómkirkja frá 16. öld, grönn og glæsileg, með gullnum bjarma í sólskini. Á svipuðum slóðum er hótelið Los Linajes, ásamt mörgum skemmtilegum húsum og göngusundum.

Borgarkastalinn er frá miðri 14. öld og gnæfir yfir dalnum. Hann var um tíma íbúðarhöll Ísabellu drottningar. Nú er hann vopnasafn. Fáir kastalar á Spáni eru jafn veglegir í landslaginu og kastalinn í Segovia. Hann er opinn 10-18:30, -15:30 á veturna.

Skemmtilegt er að aka umhverfis gamla bæinn í Segovia og virða fyrir sér bæjarstæðið, einkum kastalann, sem tekur sig vel út frá brúnni yfir ána Eresma og frá Vera Cruz kapellunni handan árinnar.

Ávíla

Ávíla er lítill, 40 þúsund manna miðaldabær í 1131 metra hæð, hæsta héraðshöfuðborg Spánar. Hún er frægust fyrir hinn mikla og heillega borgarmúr, sem umlykur borgina, fagurlega flóðlýstur í myrkri, og blasir við ferðamönnum, sem nálgast úr vestri. Þegar við förum úr bænum í átt til Salamanca, getum við staðnæmst á útsýnisstaðnum Cuatro Postes handan árinnar Adaja og virt fyrir okkur bæinn með múrunum.

Palacio Valderrábanos

Tvö ánægjuleg hótel eru í Ávila. Annað er 73 herbergja Palacio Valderrábanos í gamalli biskupshöll andspænis dómkirkjunni, með voldugum, gotneskum granítinngangi frá 15. öld. Herbergin eru stór og þægileg, búin virðulegum húsgögnum. Tveggja manna herbergi kostaði 10.000 pts. (Palacio Valderrábanos, Plaza de la Catedral 9, sími (18) 21 10 23, fax 25 16 91, telex 22481)

Parador Raimundo de Borgona

Hitt hótelið er utan í norðanverðum borgarmúrnum, 62 herbergja Parador Raimundo de Borgona í 15. aldar húsi. Það er innréttað í kastalastíl, hefur vingjarnlegt andrúmsloft, þar á meðal innigarð og býður gott útsýni yfir gamlan bæinn. Tveggja manna herbergi kostaði 9.500 pts. (Parador Raimundo de Borg-ona, Marqués de Canales y Chozas 16, s. (18) 21 13 40, fax 22 61 66)

Meson del Rastro

Bezta veitingahúsið í bænum er Meson del Rastro, undir sunnanverðum borgarmúrnum. Matreiðslan er hefðbundin, m.a. baunir með smápylsum (judías del Barco de Ávila con chorizo); kiðlingur (caldereta de cabrito a los pastoril); og kálfasteik (chuletón de ternera del Valle de Amblés). Þríréttað fyrir tvo kostaði 6.500 pts. (Meson del Rastro, Plaza del Rastro, sími (18) 21 12 18)

Murallas

Tæpast er til greinilegra dæmi um borgarmúr frá miðöldum en Murallas í Ávila. Hann er að mestu leyti frá lokum 11. aldar, að meðaltali 10 metra hár, hálfs þriðja kílómetra langur, með 88 virkjum og átta borgarhliðum. Sjálfsagt er að taka sér göngutúr allan hringinn á borgarmúrnum.

Catedral

Dómkirkjan í Ávila er ein elzta kirkja Spánar í snemmgotneskum stíl, byggð úr graníti á 12. öld. Hún er hermannakirkja, lítur út eins og virki og er raunar hluti af borgarmúrnum austanverðum.

Ávila var lengi á landamærum kristni og íslams á Spáni, eins konar herbúð, og ber kirkjan þess merki.

Nokkru eldri kirkja er San Vicente, utan við norðausturhorn múrsins, rómönsk kirkja frá upphafi 12. aldar.

Salamanca

Salamanca er Oxford Spánar, lítill bær 170 þúsund manna, með mjóum götum og stórum háskóla, sem var stofnaður 1215 og var á miðöldum einn af hinum fjórum mestu, ásamt með háskólunum í París, Oxford og Bologna.

Gran Hotel

Bezta hótelið í miðbænum er 100 herbergja Gran Hotel, vel í sveit sett við suðausturhorn Plaza Mayor. Herbergi nr. 211 er stórt og þægilegt, með glugga út að hávaðasamri aðalgötunni og býr yfir marmaralögðu baðherbergi. Tveggja manna herbergi kostaði 13.500 pts. (Gran Hotel, Plaza poeta Iglesias 5, sími (23) 21 35 00, telex 26809)

Chez Victor

Bezta veitingahúsið í Salamanca er Chez Victor, í einföldum og opnum sal rétt norðvestan við Plaza Mayor. Þar eldar Victoriano Salvador og kona hans, Margarita Salvador, stjórnar í sal. Víctor bjó lengi í Frakklandi og eldar á franska vísu, lagað að spönskum staðháttum. Við prófuðum mjög góða snigla í olíu (ragout de caracoles); afar góða nautasteik (filet de buey); og kaffiblandaðan súkkulaðibúðing (fondant de chocolate al café). Meðal annarra sérrétta eru saffransúpa (sopa marinera al azafrán); sjávarréttir með pasta (raviolis relennos de mariscos); og margir súkkulaði-eftirréttir. Þríréttað fyrir tvo kostaði 9.000 pts. (Chez Victor, Espoz y Mina 26, sími (23) 21 31 23, lokað sunnudagskvöld og mánud.)

Río de la Plata

Einn hinna betri matstaða er Río de la Plata, á ská andspænis Gran hóteli. Nokkrir matstaðir eru í sama húsi, en þetta er sá bezti og sá, sem minnst er áberandi. Þar eldar Paulina Andrés hefðbundna borgarrétti, svo sem Kastilíusúpu (sopa castellana); grillaða þykkvalúru (rodaballo a la plancha); kálfasteik (ternera de Ávila); lambarif (chuletillas de cordero); möndlubúðing (flan de almendras); og hrísgrjónagraut (arroz con leche). Þríréttað fyrir tvo kostaði 8.000 pts. (Río de la Plata, Plaza del Peso 1, sími (23) 21 90 05, lokað mánudaga)

Plaza Mayor

Plaza Mayor í Salamanca var byggt í hlaðstíl á fyrri hluta átjándu aldar, teiknað af Alberto de Churriguera. Það er ferhyrnt torg án bílaumferðar með súlnagöngum á alla vegu, þar sem eru kaffihús og verzlanir. Það minnir á samnefnt torg í Madrid og raunar á fleiri borgartorg á Spáni, svo sem Plaça Reial í Barcelona. Plaza Mayor í Salamanca er hjarta borgarinnar, fullt af iðandi mannlífi frá morgni til kvölds.

Í næsta nágrenni torgsins er Gran Hotel og veitingahúsin Chez Victor og Río de la Plata. Frá torginu liggur Rúa Mayor að dómkirkjunum. Miðja vega klofnar gatan hjá Casa de las Conchas, 16. aldar húsi, sem skreytt er steinhöggnum hörpuskeljum. Hliðargatan liggur að háskólatorginu, Patio de las Escuelas.

Patio de las Escuelas

Patio de las Escuelas er lítið torg, sem er bezta sýnishorn Spánar af silfursmíðastíl. Fyrir miðju torgi er þrungin skreyting risavaxins aðalinngangs háskólans, frá fyrri hluta 16. aldar. Steinninn er svo fínlega höggvinn, að hann minnir á víravirki silfursmiða. Þaðan kemur heitið silfursmíðastíll eða platerískur stíll. Hér sjáum við eitt fullkomnasta dæmi Spánar um þennan stíl. Háskólinn er að öðru leyti að mestu frá 15. öld. Hann er opinn mánudaga-laugardaga 9:30-13:30, -13 á veturna, og 16:30-19, -18 á veturna, sunnudaga 10-13, 11-13 á veturna.

Til hliðar við torgið er næst stúdentagarðurinn, Hospital del Estudio, og síðan Escuelas Menores, hvort tveggja með aðalinngangi í silfursmíðastíl. Fyrir innan síðari innganginn er hugljúfur garður frá fyrri hluta 15. aldar, með súlnagöngum á alla vegu.

Catedral Nueva y Vieja

Handan aðalbyggingar háskólans liggur mjótt sund að dómkirkjunum tveimur, hinni gömlu og hinni nýju.

Vinstra megin er “nýja” dómkirkjan frá fyrri hluta 16. aldar, tæplega fimm alda gömul, í gotneskum stíl. Vesturvirki kirkjunnar, sem snýr að götunni, er afar skrautlegt, hannað af arkitektunum Churriguera, sem kúrríkskur stíll er kenndur við. Það er ýkt útgáfa af svokölluðum silfursmíðastíl, sem einkenndist af fínlegum steinskurði.

Innan úr nýju dómkirkjunni er gengið inn í hina gömlu, sem er rómönsk kirkja frá 12. öld, í frönskum Akvítaníustíl. Þar inni er fræg risastór og litskær altaristafla frá miðri 15. öld, með 53 stökum málverkum úr æfi Krists, eins konar myndasöguhefti þess tíma. Gamla dómkirkjan er opin 10-14 og 15-20, á veturna 9:30-13:30 og 15:30-18.

Frá dómkirkjunum er hægt að fara til baka Rúa Mayor til Plaza Mayor, þaðan sem við hófum gönguna, eða rölta um götukróka borgarinnar, þar sem víða eru hús frá 15. og 16. öld. Vestur frá Plaza Mayor er Barrio de San Benito með gömlum húsum hefðarfólks og kirkju frá síðari hluta 15. aldar.

Toledo

Toledo er ein elzta borg Spánar, sögufrægur 60 þúsund manna miðaldabær, sem stendur á graníthöfða við fljótið Tajo, girtur múr á þá hlið, sem snýr frá ánni. Þetta er einn elzti bær Spánar, lagður þröngum og undnum göngusundum. Toledo var höfuðborg Vestgota og lengst af helzta borg Kastilíu, unz Madrid var gerð að höfuðborg um miðja 16. öld. Hún er enn höfuðborg kaþólsku kirkjunnar, því að æðsti kardínáli landsins hefur þar vist.

Hostal del Cardenal

Frábært hótel er í Toledo, 27 herbergja Hostal del Cardenal, í kardínálahöll frá 18. öld upp við borgarmúrinn rétt hjá Bisagra-hliðinu. Gengið er um garð ávaxtatrjáa að innganginum í rólegt og friðsælt hótel. Tveggja manna herbergi: 8.000 pts. (Hostal del Cardenal, Paseo Recaredo 24, s.(25) 22 49 00)

Næstbezti veitingasalur borgarinnar er í hótelinu, innréttaður í gömlum stíl. Á sumrin er hægt að snæða úti í garði. Hér fást góðir kastilíuréttir, steiktur grís (cochinillo asado); og villibráð, svo sem akurhæna (perdiz estofada a la toledana); og eftirréttir úr marzipan (mazapanes). (Hostal del Cardenal, Paseo Recaredo 14, sími (25) 22 08 62)

Adolfo

Rétt norðan við dómkirkjuna er veitingastofan Adolfo í gömlum kastilíustíl, ein af mörgum á þeim slóðum, en sú bezta í bænum. Þar eldar Adolfo Munoz sjávarréttasalat (caprichos de la huerta con delicias de mar); saffrankryddaðan freyðivínslax (delicias de salmón al cava con esencia de azafrán); dádýr í villisveppasósu (lomo de ciervo en salsa de setas); og marzípantertu (delicias de mazapán). Þríréttað fyrir tvo kostaði 9.200 pts. (Adolfo, La Granada 6 / Hombre de Palo 7, sími (25) 22 73 21, lokað sunnudagskvöld)

Chirón

Við borgarhliðið Puerta del Camrón er útsýnis-veitingastaðurinn Chirón, vinsæll ferðamannastaður með nokkuð góðan mat á sómasamlegu verði. Eldamennskan er í hefðbundnum kastilíustíl. Þar er meðal annars á boðstólum eggjakaka (tortilla a la magra); akurhæna (perdiz a la toledana); steikt lambakjöt (cordero asado); og mjólkurbúðingur (leche frita). Þríréttað fyrir tvo kostaði 6.400 pts. (Chirón, Paseo Recaredo 1, sími (25) 22 01 50)

Alcázar

Allur gamli bærinn í Toledo er skemmtilegt göngusvæði, allt frá borgarkastalanum Alcázar í austurendanum til klaustursins San Juan de los Reyes í vesturendanum.

Alcázar stendur þar, sem borgarstæðið er hæst, og gnæfir yfir önnur hús í bænum. Í núverandi útliti er kastalinn að mestu frá 16. öld, en hefur síðan brunnið þrisvar og var nær eyðilagður í borgarastyrjöldinni 1936, en hefur xverið endurnýjaður í hinni gömlu mynd. Hann er opinn 9:30-19, -18 á veturna.

Catedral gótica

Frá kastalanum förum við til dómkirkjunnar, upprunalega í gotneskum stíl franskættuðum frá 13. öld, en dálítið færð til byggingarstíla tveggja næstu alda. Vesturverkið og turninn eru í hreinum stíl gotneskum. Í turninum hangir 17 tonna klukka frá miðri 18. öld. Kirkjan er einkum þekkt fyrir höggmyndir og málverk, sem í henni eru. Einnig fyrir kórbekkina, sem eru vandlega útskornir. Rodrigo Alemán skar neðri hluta þeirra í lok 15. aldar. Ennfremur er dómkirkjan þekkt fyrir Transparente eða Gegnsæja altarið, það er skærlita altaristöflu útskorna, sem sýnir síðustu kvöldmáltíðina. Taflan er í kúrríkskum skreytistíl. Gluggum var komið fyrir ofan við töfluna til að ljós og skuggar gætu leikið við útskurðinn. Dómkirkjan er opin mánudaga-laugardaga 10:30-13 og 15:30-19, -18 á veturna, sunnudaga 10:30-13:30 og 16-19, -18 á veturna.

Norðan við dómkirkjuna er mikill fjöldi góðra matstaða, m.a. Adolfo.

Ángel Santo Tomé

Áfram höldum við til vesturs, eftir götunni Ángel Santo Tomé til klaustursins San Juan de los Reyes. Á leiðinni er kirkjan Santo Tomé. Við hana er márískur turn frá 14. öld. Inni í kirkjunni er frægt málverk eftir El Greco. Hann hét réttu nafni Domenico Teotocopulos, fæddur á Krít, en bjó lengst af í Toledo, í lok 16. aldar og upphafi hinnar 17.. Klaustrið er opið 10-13:45 og 15:30-19, -18 á veturna.

Rétt aftan við kirkjuna er hús og safn Grecos, Casa y Museo del Greco. Verk hans eru víðar í bænum, til dæmis í safninu Santa Cruz, sem er rétt norðan við Alcázar. Safnið er opið þriðjudaga-laugardaga 10-14 og 15:30-19, -18 á veturna, sunnudaga 10-14.
Rétt hjá safninu er önnur af tveimur sínagógum borgarinnar, Sinagoga Del Tránsito, frá 14. öld. Að utan er hún ekki merkileg að sjá, en að innan eru márískar skreytingar. Hún er opin þriðjudaga-laugardaga 10-14 og 16-19, sunnudaga 10-14. Hin sínagógan, Santa María la Blanca, er á svipuðum slóðum, opin 10-14 og 15:30-19, -18 á veturna.

San Juan de los Reyes

Næstum vestur við Cambrón-hlið er klaustrið San Juan de los Reyes. Það var reist í lok 15. aldar á vegum Ferdinands og Ísabellu í gotneskum stíl. Klaustrið er glæsilegt að utanverðu og skrautlegt að innanverðu. Klaustrið er opið 10-13:45 og 15:30-19, -18 á veturna.

Hér við Cambrón-hliðið er veitingahúsið Chirón.

Margt fleira er merkilegt að skoða í Toledo. Þar á meðal er aðaltorg borgarinnar, Plaza del Zocodover, norðan við Alcázar og rétt hjá Santa Cruz-safninu, þar sem meðal annars eru málverk eftir El Greco. Það er að minnsta kosti dagsverk að rölta um borgina fram og aftur til að kynnast henni.

1991

© Jónas Kristjánsson

Róm útrásir

Ferðir

Villa Adriana

Um 30 km austan Rómar er sumardvalarbærinn Tivoli, á latínu Tibur, við rætur sabínsku hæðanna. Árin 126-134 lét Hadrianus keisari reisa sér sumarhöll í 5 km löngum garði 5 km austan við bæinn. Hadrianus hannaði sjálfur svæðið og notaði fyrirmyndir, sem hann hafði séð á ferðalögum sínum. Rústir svæðisins hafa verið grafnar upp og eru til sýnis.

Frá innganginum á svæðið göngum við gegnum vegg, sem stendur eftir af eftirlíkingu Aþenuports, sem hét Poikile. Við förum fyrir enda tjarnarinnar og höldum áfram meðfram litlu og stóru baðhúsi að langri tjörn. Við hinn enda hennar er Canopus, stæling á egypzku Serapis-hofi.

Á leiðinni til baka förum við upp í rústirnar hægra megin, fyrst um hermannaskálana, Prætorium og síðan framhjá fiskatjörninni að hinni raunverulegu sumarhöll. Þar er efst ferhyrnt Gulltorg, Piazza d’Oro. Neðan við það eru rústir af vistarverum keisarans, svo sem borðsal og setustofu. Enn neðar eru leifar bókasafna.

Hægra megin við bókasöfnin er súlnarið umhverfis hjóllaga tjörn með eyju í miðjunni. Hér erum við komin aftur að Poikile, þar sem við byrjuðum skoðunarferð okkar.

Boðið er upp á daglegar skoðunarferðir frá Róm til Tivoli og er þá einnig skoðuð sumarhöllin Villa d’Este með miklum görðum frá miðri 16. öld. Báðir staðirnir eru lokaðir á mánudögum.

Ostia Antica

Hinn gamli hafnarbær Rómar, Ostia Antica, er 25 km suðvestan borgarinnar. Þangað má komast í lest, sem fer frá Porta San Paolo og tengist neðanjarðarlestakerfi borgarinnar. Bærinn hefur verið grafinn upp og er til sýnis. Hann er að mestu leyti frá 2. öld. Árframburður olli því, að hafnarstæðið eyðilagðist og bærinn lagðist niður, grófst í sand og hefur þannig varðveitzt.

Rústirnar eru tæplega 1,5 km að lengd. Frá innganginum er farið eftir aðalgötunni, Decumanus Maximus, framhjá kirkjugarðinum að baðhúsi Neptunusar, þar sem eru fagrar steinfellumyndir. Við hlið þess er nokkuð heillegt leikhús og að baki þess ferhyrnt fyrirtækjatorg, þar sem verzlunar- og siglingafyrirtæki höfðu búðir og skrifstofur í súlnagöngum.

Leiðin liggur svo eftir aðalgötunni beint að höfuðtorginu, Forum, þar sem er aðalhofið, Capitolum, reist á fyrri hluta 2. aldar. Marmarinn er horfinn, en undirstöður hofsins og hluti veggjanna stendur enn.

Í Ostia Antica má víða sjá merki svokallaðra Insulæ sem voru íbúðablokkir þess tíma, reistar umhverfis lokaðan, ferhyrndan húsagarð, stundum 3ja eða 4ra hæða.

Hægt er að verja miklum tíma í að rölta um hliðargötur bæjarins. Að því loknu er farin sama leið til baka eftir Decumanus Maximus.

Svæðið er lokað mánudaga.

Via Appia Antica

Castelli Romani er sameiginlegt nafn nokkurra smábæja í hæðunum 25 km suðaustur af Róm. Boðið er upp á daglegar skoðunarferðir í rútu og er þá oft einnig komið við í katakombunum við Via Appia Antica.

Via Appia Antica var lagður 312 f.Kr. og náði til Capua, Benevento og Brindisi. Snemma var farið að reisa grafhýsi umhverfis hann, því að bannað var að jarða fólk innan borgar. Enn er hægt að aka eftir þessum gamla vegi framhjá helztu katakombum kristinna manna í Róm, grafhýsi Romulusar, veðhlaupabraut Maxentiusar og grafhýsi Ceciliu Metella, svo og ótal smærri bautasteinum og minnisvörðum.

Þrjár katakombur eru til sýnis á þessum slóðum, Callisto, lokuð miðvikudaga; Domitilla, lokuð þriðjudaga; og Sebastiano, lokuð fimmtudaga. Þær eru allar opnar mánudaga, þegar flest söfn í Róm eru lokuð.

Katakomba er ekki felustaður kristinna, heldur kristinn neðanjarðar-grafreitur, sem skiptist venjulega í nokkrar hæðir, því alltaf þurfti að grafa dýpra og dýpra, þegar minna varð um rými. Þær voru að mestu grafnar á 3. og 4. öld.

Castelli Romani

Leiðin um Castelli Romani liggur venjulega fyrst til Castel Gandolfo, sem er á brún eldgígsins mikla, sem hefur myndað Lago di Albano. Í þessum bæ er sumarhöll og stjörnuskoðunarstöð páfans. Frá svölum framan við sumarhöllina er gott útsýni yfir vatnið.
Rocca di Papa er bær, sem hangir í hlíðum Monte Cavo, allur í bröttum tröppum og undnum göngusundum, hæsti bær í Castelli Romani.

Grottaferrata býr að baki virkissíkis yfir fallegu klaustri, þar sem kaþólskir munkar hafa frá 1004 notað ortódoksa helgisiði. Þar er kirkja með 12. aldar turni.

Í Frascati er miðstöð vínræktar og þar gnæfir svipmikil Villa Aldobrandini í hlíðinni yfir miðbæjartorginu.

Napoli

Liðin er sú tíð, að Napoli var fallegur bær. Hann er hávaðasamur og illa farinn af óheyrilegri bílaumferð. Auk þess er þar öflugt Camorra-glæpafélag og rán og þjófnaðir eru tíðir. Hins vegar er hann vel í sveit settur fyrir þá Rómarfara, sem vilja skoða draugabæina Herculanum og Pompei, ganga á Vesuvius, aka Amalfí-strönd eða skreppa til Capri. Of langt er að fara frá Róm og til baka á einum degi, því að vegalengdin er 219 km. Hótelin á ströndinni sunnan við konungshöllina í Napoli eru kjörinn áningarstaður.

Castel Nuovo

Hinn voldugi kastali, Castel Nuovo, við höfnina í Napoli var reistur 1282, umkringdur djúpu og breiðu kastalasíki. Borgarmegin við hann er inngangur í líki tveggja hæða sigurboga, reistur 1467.

Konungshöllin, Palazzo Reale, er við hlið kastalans, reist í upphafi 17. aldar og heldur útliti sínu, þótt hún hafi verið endurbyggð nokkrum sinnum. Hún er núna safn.

Á leiðinni milli kastala og hallar er farið framhjá Teatro San Carlo, óperu og leikhúsi frá 1737 og endurbyggðu 1816 í nýgnæfum stíl.

Andspænis leikhúsinu er Galleria Umberto I, krosslaga verzlunarmiðstöð undir feiknarlegu glerhvolfi.

Fyrir framan konungshöllina er hálfhringlaga risatorg, Piazza del Plebiscito.

Frá konungshöllinni eru aðeins 500 metrar að hótelhverfinu við ströndina suður frá miðbænum. Fyrir framan hótelin er Porto Santa Lucia, lystibátahöfn í skjóli við normanna-kastalann Castel d’Ovo, sem fékk núverandi útlit 1274.

Ef farið er lengra eftir ströndinni, er komið í næstu vík fyrir norðan, þar sem eru miklir garðar við ströndina, með útsýni til skagans Posillipo.

Miramare

Skemmtilegasta hótelið í Napoli er úti við ströndina sunnan við miðbæinn, um 500 metrum frá gömlu konungshöllinni. Það er 30 herbergja Miramare í gömlum herragarði og hefur skemmtilegt útsýni yfir flóann beint til eldfjallsins Vesuviusar. Hótelið er afar smekklega innréttað í nútímastíl. Morgunverðarstofa er uppi á efstu hæð, með góðu útsýni.

Herbergi nr. 107 er stórt, innréttað í ljósbláum tónum, með stóru skrifborði, buxnapressu og kaffivél, svo og risastórum spegli yfir höfðagafli rúms. Frá stórum glugga og svölum er útsýni til Vesuviusar. Baðherbergi er bæði stórt og glæsilega innréttað í marmara, með góðu nuddbaðkeri, en undarlegum frágangi við sturtu, sem tryggði vatnsflóð út á gólf. Verðið var L. 240.000 með morgunverði.

(Miramare, Via Nazario Sauro 24, sími (081) 42.73.88, fax 41.67.75)

Royal

Handan við hornið á strandgötunni, yfir siglingabátahöfninni Santa Lucia, er röð þekktustu hótela borgarinnar. Á sjálfu horninu er Excelcior, bezta hótelið. Síðan koma Santa Lucia, Vesuvio, Continental og Royal, sem hefur 273 herbergi.

Herbergi nr. 810 á Royal er stórt og gott í nútímalegum viðskiptastíl, með góðu útsýni yfir höfnina Santa Lucia og kastalann Castel d’Ovo. Það er með risaspegli, parketti og svölum og vel búið að öllu leyti, með stóru og fullflísuðu baðherbergi. Verðið var L. 240.000 með morgunverði.

(Royal, Via Partenope 38, sími (081) 76.44.800, telex 710167, fax 76.45.707)

Ciro a Santa Brigida

Hefðbundinn og fremur ódýr hádegisverðarstaður kaupsýslumanna og hefðarkvenna í verzlunarerindum er Ciro a Santa Brigida við verzlunarmiðstöðina Galleria Umberto I, gengið inn frá götunni, en ekki verzlunarmiðstöðinni. Þetta er stór og annasamur, en líka snyrtilegur og notalegur staður með góðri þjónustu í nokkrum sölum á tveimur hæðum.

Við prófuðum penne mozzarella e melanzane, pastarör með osti og eggaldini; pizza marinara, skeldýraböku; magro di vitello ai ferri, pönnusteikta kálfasneið með eggi; fritto calamari e gamberi, djúpsteiktan smokkfisk og rækjur; zuppa inglese, svampbotnstertu með þeyttum rjóma; og cannoli, smjördeigshorn fyllt með sykruðum ricotta-osti, sykruðum berki og kakói.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 70.000. (Ciro a Santa Brigida, Via Santa Brigida 71-73, sími (081) 55.24.072, lokað sunnudaga)

Rosolino

Rosolino er sérkennilegur að því leyti, að þar er leikið og sungið fyrir dansi, en samt er þar góður matur. Veitingahúsið er á hótelströndinni, sem liggur frá konungshöllinni til Santa Lucia-hafnar. Gegnlýstar afstæðismyndir á glerveggjum einkenna staðinn.

Við prófuðum risotto della pescatora, hrísgrjón með sjávarfangi; insalata di mare, kalt sjávarréttasalat; tournedos rossini, grillaða nautahryggsteik; zabaglione, þeyttar eggjarauður með sykri og rauðvíni; og monte bianco, kastaníuhnetumauk með þeyttum rjóma.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 140.000. (Rosolino, Via Nazario Sauro 5-7, sími (081) 41.58.73, lokað sunnudaga)

La Cantinella

Bezta veitingahús í Napoli er La Cantinella á hótelströndinni, sem liggur frá konungshöllinni, við hlið hótelsins Miramare. Aðalsalurinn einkennis af voldugum, ljósum burðarsúlum, en við götuna er langur og mjór salur í bláum stíl, með flauelsveggjum og flauelslofti.

Við prófuðum linguine alla cantine, pastaþræði með rækjum og spínati; insalata di mare, kalt sjávarréttasalat; filetto di manzo, nautahryggsteik; og medaglioni di manzo, einnig nautahryggsteik; mozzarella-ost; og macedonia di frutta, blandaða ávexti í legi.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 100.000. (La Cantinella, Via Cuma 42, sími (081) 40.48.84 og (081) 40.53.75, lokað sunnudaga)

Sbrescia Ciro

Skemmtilegur útsýnisstaður og ekki dýr er í Positano, ríkmannlegu íbúðahverfi á skaga norðan við miðbæinn í Napoli. Það er Sbrescia Ciro í brattri götu, sem vindur sig niður fjallið. Stórir gluggar veita gott útsýni yfir úthverfið Mergellina og Uvo-kastala til Vesuviusar.

Við prófuðum linguine casa nostra, pastaþræði hússins; vermicelli alle vongole, spaghetti með smáskeljum; scaloppa alla Sbrescia, kálfakjötsneið; spigola, grillaðan hafurriða; uva, vínber; og gelato, ís.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 70.000. (Sbrescia Ciro, Rampe San Antonio a Posillipo 110, sími (081) 66.91.40, lokað mánudaga)

Herculanum

Frá Napoli eru 10 km til Herculanum, 5000 manna fiskimannaþorps, sem drukknaði í leðju, þegar Vesuvius gaus árið 79. Þorpið er mun minna og fátæklegra en Pompei, en hefur það fram yfir, að timbur hefur sums staðar varðveitzt með því að steingervast í 12 metra djúpri leðju. Heilu húsin hafa raunar varðveitzt með timbri, eldunaráhöldum og húsgögnum.

Uppgröfturinn er um 150×250 metrar að flatarmáli. Þrjár aðalbrautir liggja samsíða um bæinn og tvær aðalbrautir þvert á þær. Bezt er að fara fyrst í Casa dell’Albergo, sem er rétt við tröppurnar niður í rústirnar, fara síðan þaðan yfir í götuna Cardo IV upp að aðaltorginu Forum, og loks til baka aftur eftir götunni Cardo V. Skynsamlegt er að fá leiðsögumann og segja honum, hve mikinn tíma þú hefur.

Þarna má meðal annars sjá steinfellumyndir í gólfum, baðhús bæjarins með aðskildum svæðum fyrir kynin, verzlanir með afgreiðsluborði við götu, höggmynd af hjartardýrum og hálfbrunnin húsgögn.

Pompei

Frá Herculanum eru 15 km til Pompei og á leiðinni er gott útsýni til Vesuviusar.

Þetta var 25.000 manna kaupsýslubær, sem grófst á 2 dögum í 6-7 metra þykku öskulagi, þegar eldfjallið gaus árið 79.
Eftir uppgröft á svæði, sem er 2 km langt og 1 km, þar sem það er breiðast, er hægt að sjá í hnotskurn, hvernig lífið hefur verið í slíkum bæ fyrir rúmlega nítján öldum. Enn sjást kosningaslagorð á vegg og klámmyndir í hóruhúsi. Svæðið er stórt, svo að bezt er að fá sér leiðsögumann til að nýta sem bezt þann tíma, sem er til umráða.

Aðaltorg er í bænum, umlukt hofum Jupiters, Apollos og Vespanianusar, svo og 67 m langri verzlunar- og dómstólabyrðu. Leikhúsin eru tvö, annað fyrir 5000 manns og hitt fyrir 800. Vel hönnuð og vönduð baðhúsin eru einnig tvö, þar á meðal Terme Stabiane, þar sem sjá má steingerða líkami fórnarlamba gossins. Hringleikahúsið er það elzta, sem fundizt hefur, frá 80 f.Kr. Margir eru barirnir við aðalgötuna. Þarna má líka sjá hvert Insula á fætur öðru, nokkurra hæða íbúðablokkir með innigarði.

Bezt varðveitta húsið er þrautskreytt íbúð Vetti bræðra, ríkra kaupmanna, Casa dei Vettii. Þar eru vel varðveittar freskur á veggjum og garður með styttum og brunnum.

Ef tími er nægur, borgar sig að taka krókinn til Villa dei Misteri, þar sem eru stórar og glæsilegar freskur, sem sýna launhelganir Dionysiosar.

Amalfi-strönd

Eftir skoðun Pompei er rétt að drífa sig til Sant’Agata sui due Golfi, sem er nálægt Sorrento, um 40 km frá Pompei og 60 km frá Napoli, til að finna sér gistingu, til dæmis í Hermitage, sími 87.80.062, eða Jaccarino, sími 87.80.026. Bæði þessi hótel hafa útsýni til Napoli og Vesuviusar. Síðan þarf að búa sig undir kvöldverð í bezta veitingahúsi Suður-Ítalíu, Don Alfonso.

Don Alfonso

Bezta veitingahús Suður-Ítalíu og bezta veitingahús þessarar bókar er Don Alfonso rétt sunnan við Sorrento, í fjallaþorpi, sem hefur í senn útsýni til Amalfi- og Napoli-flóa. Matstaðurinn er við aðalgötu þorpsins, skammt frá aðaltorginu. Í björtum og fallegum veitingasal, sem skipt er með múrsteinabogum í tvo hluta, ráða ríkjum hjónin Alfonso og Livia Jaccarino. Hjá þeim fengum við hjartanlegar móttökur og beztu máltíð okkar á Ítalíu.

Við prófuðum smakkseðil hússins: Involtino di pesce con rughetta e semi di finocchio selvatico, kryddleginn gullinhöfða með grænmeti og eggjasósu; treccine di pesce azzurro agli ortaggi, hornfisk með gulrótum, lauk og selju; i piaceri della pasta, pastaræmur með skeljum og graskeri; filetti di boccadoro ai cetrioli e rosmarino, soðin og sædaggarkrydduð smáfiskaflök með kartöflumauki í tómati og osti; infuso alle erbe, sítrónukrap; braciole di annecchia con pinoli e uvetta, nautakjöt vafið utan um rúsínur og hnetur; scelta di formaggi, þrenns konar osta, gorgonzola, provolone og caciocavallo; og dolce e piccola pasticceria, grænt pistasíu-marsípan með mangó-sósu og fyllt með ostablöndu.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 180.000. Vínlisti er einn hinna beztu í landinu. (Don Alfonso, Corso Santa Agata 11, Sant’Agata sui due Golfi, sími (081) 87.80.026, lokað sunnudagskvöld og mánudaga)

Positano

Um sæbratta Amalfi-ströndina liggur krókóttur vegur frá Sant’Agata sui due Golfi til Salerno, um 80 km leið. Þetta er talin ein fegursta strandlengja Ítalíu. Niðri í djúpum giljum liggja fámenn fiskiþorp með litla víkurrennu til sjávar. Utan í sjávarhömrum hanga sumarhús auðmanna.

Fyrsta þorpið á leiðinni er hótelbærinn Positano, gamalt fiskimannaþorp, sem orðið er að ferðamannabæ. Þorpið stendur í brattri hlíð, þar sem sums staðar eru hamrar milli húsa. Hvítkölkuð húsin minna á gríska eða spánska eyju.

Vallone di Furore er hrikalegasti hluti leiðarinnar. Þar kúrir lítið fiskiþorp undir klettum og bröttum hlíðum.

Ferðamannabærinn Amalfi hefur gefið leiðinni nafn sitt. Þar eru húsin hvít eins og í Positano, en ströndin ekki eins hrikaleg, svo að þar er pláss fyrir pínulítinn miðbæ með kirkju í austrænum stíl.

Frá Salerno eru um 60 km til baka til Napoli.

Capri

Capri
Utan við Sorrento-skaga er Capri, sæbrött klettaeyja, 6×3 km, með mildri veðráttu og ríkulegum gróðri, eftirsóttur dvalarstaður allt frá tíma rómversku keisaranna.

Aðalþorpið á eynni heitir líka Capri og er uppi á hrygg milli fjalla, með hafnir á báða vegu, Marina Piccola í suðri og Marina Grande í norðri, þar sem ferðamenn koma til hafnar. Austar á eynni og enn hærra er annað þorp, Anacapri, tengt aðalbænum með vegi, sem liggur um bratta kletta.

Engir einkabílar eru á Capri, aðeins litlir strætisvagnar, leigubílar og rafhjól, sem flytja vörur og farangur. Flestar götur í þorpinu eru göngugötur, sumar hverjar með engum húsum í sömu hæð, en bröttum tröppum upp í hús fyrir ofan og niður í hús fyrir neðan. Frá aðaltorginu, Piazza Umberto I eru stuttar gönguleiðir til útsýnisstaða á borð við Cannone Belvedere, Tragara Belvedere og Giardini Augusto, svo og löng og brött gönguleið upp til rústanna af höll Tiberiusar keisara, sem húkir efst uppi á kletti.

Grotta Azzurra

Frægasta náttúruundur eyjarinnar er Blái hellirinn, þar sem heiðblá birta endurvarpast gegnum vatnið. Skipulagðar ferðir eru í hellinn, sumpart tengdar hringsiglingu um eyna. Þá má líka sjá Græna hellinn, sem endurspeglar grænni birtu, hvíta hellinn, sem hægt er að ganga upp í; og Faraglioni-kletta, sem siglt er gegnum.

Anacapri

Anacapri er ekki eins ferðamannalegur staður og Capri. Þaðan er farið landleiðina niður að Bláa hellinum. Og þaðan er farið í stólalyftu upp á hæsta fjall eyjarinnar, Monte Solaro, þaðan sem er ógleymanlegt útsýni í góðu veðri um alla eyna, Napoliflóa og Appeniafjöll.

Pineta

Eitt af beztu hótelum á Capri er Palma. Það er við göngugötuna Via Vittorio Emanuele, sem liggur frá aðaltorginu Piazza Umberto I, um 100 metrum frá torginu. Verðið var L. 300.000 með morgunverði. (Palma, Via Vittorio Emanuele 39, sími (081) 83.70.133, telex 722015, fax 83.76.966)

Um 100 metrum neðar við götuna, á horni hennar og Via Camerelle, er fínasta hótel á Capri, Quisisana. Verðið var L. 400.000 með morgunverði. (Quisisana, Via Camerelle 2, sími (081) 83.70.788, telex 710520, fax 83.76.080)

Skemmtilegt hótel er Pineta, um 10 mínútna göngu frá aðaltorginu. Gengið er framhjá ofannefndum hótelum og beygt til vinstri inn Via Camerelle. Þegar sú gata endar, er farið upp stutta brekku til Via Tragara, þar sem hótelið er á hægri hönd.

Herbergi nr. 41 er mjög stórt með miklum svölum með sólstólum og afar stóru baðherbergi, þar sem allt var í fínu lagi. Það er búið snyrtilegum og vönduðum nútíma húsgögnum og skemmtilegu málverki af fiskum. Það býr yfir fínu útsýni til sjávar. Verðið var L. 120.000 með morgunverði.

(Pineta, Via Tragara 6, sími (081) 83.70.644, telex 710011, fax 83.76.445)

Moscardino

Moscardino er gott og einfalt fiskréttahús, vel í sveit sett í súlnagöngunum milli Piazza Umberto I og endastöðvar bílaumferðar á Via Roma. Þar er veggklæðning úr kvistafuru, sem er þakin tilviljanakenndum ljósmyndum. Þetta er eini staður bókarinnar, þar sem eru pappírsdúkar og pappírsþurrkur.

Við prófuðum insalata di mare, rækjur, krækling, tvær tegundir skelja, kolkrabba og smokkfisk; riso alla pescatora, hrísgrjónarétt með svipuðum tegundum sjávarfangs; zuppa di pesce, kræklingasúpu; scaloppina ai funghi, kálfasneið með sveppum; uva, vínber; og gelato, ís.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 70.000. (Moscardino, Piazza Umberto I)

La Tavernetta

Bezta veitingahús eyjarinnar er La Tavernetta, í mjóu göngugötunni, sem liggur næst norðan við aðalgötuna Via Roma, nálægt þeim enda, sem fjær er torginu Piazza Umberto I. Bogar skipta salnum í nokkra hluta. Opið er inn í eldhús.

Við prófuðum ravioli alla caprese, mærukryddað pasta með tómatsósu og Capri-osti; risotto al gamberi, hrísgrjónarétt með stórum rækjum; filetto di manzo alla griglia, nautahryggsteik; og capriccio-parfait, ís.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 120.000. (La Tavernetta, Via Lo Palazzo 23a, sími (081) 83.76.864, lokað mánudaga)

1991

© Jónas Kristjánsson

Róm veitingar

Ferðir

Ítalir borða lítið á morgnana, fá sér kannski espresso kaffi og cornetto á kaffihúsi eða bakaríi úti á horni. Hádegisverður byrjar oftast um 13:30 og kvöldverður um 20:30. Hvort tveggja eru heitar máltíðir og nokkurn veginn jafngildar. Ítalir eru mikið fyrir mat og nota hann ótæpilega.

Þeir eru hins vegar hófsamir á vín og drekka margir hverjir bara vatn. Kranavatn í Róm er mjög hreint og gott, eitt hið bezta á Ítalíu, en samt fá flestir heimamenn sér aqua minerale, flöskuvatn á veitingahúsum, oft með koltvísýringi, gassata.

Ítalskur matseðill skiptist oft í fimm hluta, antipasti, forrétti; pasti eða asciutti eða primi piatti, pastarétti; secundi piatti, fisk- eða kjötrétti án meðlætis; contorni eða verdure, grænmeti eða meðlæti; og dolci, frutti og formaggi, eftirrétti, ávexti og osta.

Engar reglur er um, hve marga rétti fólk fái sér eða í hvaða röð. Sumir Ítalir fá sér til dæmis fyrst forrétt og síðan tvö pöstu, hvert á fætur öðru. Algengast er, að fólk fái sér þrjá rétti, til dæmis forrétt, pasta og aðalrétt eða pasta og aðalrétt með hliðarrétti eða pasta og aðalrétt og eftirrétt.

Gróflega er verðlagið þannig, að forréttur, pasta og flaska af víni hússins kosta hvert um sig tvöfalt verð hliðarréttar eða eftirréttar og að aðalréttur kostar þrefalt verð hliðarréttar eða eftirréttar. Verðið, sem hér í bókinni er skráð hjá hverju veitingahúsi, er yfirleitt miðað við forrétt, pasta, aðalrétt og hliðarrétt eða eftirrétt.

Skynsamlegt er að velja sér vín hússins, bianco eða rosso, því að þau eru yfirleitt vel valin og ágætlega drykkjarhæf. Áhugamenn um vín geta þó skyggnzt í listann til að finna eitthvað nýtt, því að ekkert land á eins mikið úrval mismunandi flöskumiða. Almennt séð er ítalskt vín gott, en ekki mikið um hágæðavín. Ítalir taka vín og mat ekki eins alvarlega og Frakkar gera.

Hvergi í heiminum er betri þjónusta en á ítölskum veitingahúsum. Ítalskir þjónar eru snarir í snúningum og vilja, að gestum líði vel. Þeir eru snöggir að bera fram matinn, unz kemur að eftirrétti, en þá færist allt í fyrsta gír. Það stafar af, að Ítalir vilja skófla í sig matnum, en ekki fara strax að því loknu, heldur sitja lengi og tala saman. Hröð þjónusta táknar alls ekki, að þjónninn vilji losa borðið sem fyrst.

Veitingahús Rómar eru yfirleitt lítil og hreinleg, stundum tilviljanakennt innréttuð. Þau hafa undantekningarlítið lín í dúkum og þurrkum, oftast hvítt.

Útlendingum finnst gjarna, að ítölsk matreiðsla felist í pöstum á pöstur ofan. Ítalir tala sjálfir ekki um ítalska matreiðslu, heldur feneyska, toskanska, lígúríska, latínska og svo framvegis eftir borgum og héruðum. Hér verður að sjálfsögðu mest fjallað um latínska eða rómverska matreiðslu, þótt með séu tekin hús, sem sérhæfa sig á öðrum sviðum.

Hér á eftir koma uppáhaldsveitingahús okkar í stafrófsröð.

Agata e Romeo

Agata e Romeo er afar fínt og lítið veitingahús með góðri og virðulegri þjónustu, um 200 metrum frá kirkjunni Santa Maria Maggiore. Agata Paricella er í eldhúsinu og Romeo Caraccia sér með hendur í vösum um afslappaða stjórn í sal.

Rúmt er milli borða, þar sem gestir sitja hér og þar í þægilegum tágastólum í skotum milli veggbogariða undir hvelfingum.

Við prófuðum zuppa di scarola e borlotti, blaðsalats- og baunasúpu; rigatoni alla pagliata, breið pastarör með tómatsósu og granaosti, svo og nýrum og öðrum innmat; merluzzo con zabaione, soðinn þorsk í rauðvínssósu; agnello di Abruzzo, lambahryggstykki með kartöflum, sveppum og hundasúrublöðum; og millefoglie con crema chantilly, púðursykraðar og næfurþunnar smjördeigsflögur á búðingi og mousse di ricotta con salsa di canelle, ostfroðu með kanilsósu.

Pagliata er dæmi um dálæti Rómverja á innmat kálfa og nauta, svo sem nýrum, lifur og brisi, sem stendur nær franskri matreiðslu en ítalskri. Innmatur er raunar ein helzta sérgrein Rómar í matreiðsluhefðum Ítalíu.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 140.000. Vínlisti er góður. (Agata e Romeo Caraccio, Via Carlo Alberto 45, sími 73.32.98 og 44.65.842, lokað sunnudaga)

Ai Tre Scalini

Um 200 metrum frá Colosseum er Ai Tre Scalini, örlítil og virðuleg, fyrsta flokks borðstofa, sem sameinar hefðbundna matreiðslu og hugmyndaflug. Eigandinn og matreiðslukonan er byggingaverkfræðingur, Rosanna Dupré, og hefur nýjan matseðil á degi hverjum.

Þessi stofa leynir á sér að utan og er fremur heimilisleg að innan, með stórum glasaskáp og dimmum risamálverkum á veggjum, parketti á gólfi og gamalli ljósakrónu í lofti.

Við prófuðum spigola al sale, léttsaltaðar, hráar, næfurþunnar hafurriðasneiðar; ravioli al radiccho, radísur í pasta-umslagi; filetto di manzo en crusta, innbakað og mikið kryddað kálfakjöt með brokkáli; piccioni farciti, fyllta önd; og spume de melone, melónuköku með marsipanblönduðum rjóma.

Kryddleginn fiskur hrár, al sale, er ekki eins þekktur á Ítalíu og hér á landi eða til dæmis í Japan. Þetta veitingahús hefur forustu um að prófa ýmsa kryddlagningu á hinum ótalmörgu fisktegundum, sem eru á boðstólum á Ítalíu. Matseðillinn endurspeglar þetta að nokkru leyti.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 160.000. (Ai Tre Scalini, Via di Santissimi Quattro 30, sími 70.96.309 og 70.02.835, lokað mánudaga)

Al Moro

Al Moro er fremur lítið áberandi veitingahús í hliðargötu, um 100 metrum frá Trevi-brunni og 100 metrum frá Corso, sagt vera hið dæmigerða veitingahús borgarinnar og býður sanna Rómarmatreiðslu.

Veitingastaðurinn er einkum sóttur af rosknu og ráðsettu fólki, þótt útlendingar fái jafngóðar móttökur. Innréttingin er hefðbundin, með viðarklæðningu upp á vegg og ósamstæðum málverkum þar fyrir ofan. Snætt er í tveimur sölum og er sá fremri öllu skemmtilegri.

Við prófuðum spaghetti alle vongole, spaghetti með litlum skelfiski í skelinni; antipasti assortiti, mjúkan ricotta-ost, zucchini-grasker og kjötbollur; abbacchio alla romana, lambalærissneið með pönnusteiktum kartöflum; vitello cacciatora, kálfakjötsneið með sveppum og tómötum, insalata mista, blandað hrásalat, vætt í olíu og ediki; og fragoline di bosco, skógartínd jarðarber.

Alla romana þýðir að rómverskum hætti, sem getur verið nánast hvað sem er; abbacchio alla romana táknar oft, að kjötið er soðið í eggja-, sítrónu- og hvítvínssósu; zuppa alla romana þýðir oft skelfisksúpa; gnochi alla romana táknar oft kartöflustöppu-bollur með tómatsósu og osti; pizza alla romana þýðir oft, að áleggið er mozzarella- og grana-ostar og basilikum; trippa alla romana táknar, að vinstrin eru steikt í mintukryddaðri tómatsósu og borin fram með pecorino-osti; pollo alla romana, að kjúklingurinn er steiktur í bitum með lauk, skinku, papriku, tómati, sædögg, olíu og smjöri; og piselli alla romana, að baunirnar séu steiktar með lauk, skinku og smjöri.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 120.000. (Al Moro, Vicolo delle Bollette 13, sími 68.40.736 og 67.83.495, lokað sunnudaga)

Alberto Ciarla

Eitt helzta matargerðarmusteri Rómar er Alberto Ciarla, sérkennilega og vandlega innréttaður fiskréttastaður við San Cosimato torg í Trastevere, uppahverfinu á vinstri bakka Tiburfljóts. Staðurinn ber nafn matreiðslumeistarans.

Hátt er til lofts og dimmt í dimmbláum og grábláum litbrigðum. Speglar fyrir báðum endum matsalarins gera staðinn óraunverulegan og nokkur fiskabúr gera hann þar á ofan neðansjávarlegan. Raunveruleikinn kemur svo fram í innrömmuðum peningaseðlum og prófskírteinum á veggjum. Þríarma kertastjakar eru á hverju borði.

Við prófuðum Etrúríu-matseðil: Insalata di gamberi, sítrónuvættar rækjur með sveppum og hundasúrublöðum; bombolotti allo sparacreddo, risastóra pastahólka með bragðsterkri sósu úr brokkáli og fiskkrafti; zuppa di pasta e fagioli ai frutti di mare, pastasúpu með skeldýrum og rauðbaunum; filetto di pesce alle erbe, hafurriða í fáfnisgrasi; og frutti di sottobosco, aðalbláber með ís.

Sum beztu veitingahús Rómar, svo sem Alberto Ciarla og Il Pianeta Terra, bjóða upp á smakkseðla að nýfrönskum hætti, þar sem viðskiptavinir fá langa röð smárétta í stað hinna hefðbundnu þriggja. Þessir seðlar eru jafnan settir saman með tilliti til árstíðar og aflabragða dagsins. Etrúríuseðillinn er dæmi um slíkt.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 250.000. Vínlisti er góður. (Alberto Ciarla, Piazza di San Cosimato 40, sími 58.18.668 og 68.84.377, lokað sunnudaga)

Andrea

Einn af toppstöðum Rómar, þar sem matreiðslan er í fyrirrúmi, er Andrea í fína Ludovisi-hverfinu, 100 metrum frá Via Veneto og 100 metrum frá Borghese-garði.

Þetta er nakinn veitingastaður með grænleitum veggþiljum, hestvagnamyndum, heilum speglaveggjum, marmaragólfi, bambusstólum og stórum lömpum.

Við prófuðum tagliolini con porcini, pastareimar með boletus-sveppum; linguine al nero di seppie, pastaþræði með svartri smokkfiska-bleksósu; rombo griglia, grillaða þykkvalúru; scampi alla griglia, grillaðar risarækjur með skelinni; formaggi, osta að vali; og fragoline di bosco con panna liquida, skógartínd jarðarber með rjóma.

Ítalskir ostar eru margir góðir og frábrugðnir íslenzkum. Frægastir eru tveir: Gorgonzola, frekar linur og bragðsterkur gráðostur; og grana eða parmigiano, grjótharður matreiðsluostur, sem við þekkjum undir enska heitinu parmesan. Aðrir þekktir ostar eru bel paese, mildur og mjúkur; mozzarella, gúmkenndur ferskostur; provolone, sterkur ostur með skrítnu lagi; ricotta, ferskur sauðaostur, taleggio, mildur rjómaostur; og svo auðvitað Rómarosturinn pecorino, harður og bragðsterkur sauðaostur.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 180.000. Vínlisti er góður. (Andrea, Via Sardegna 28, sími 48.21.891 og 47.40.557, lokað sunnudaga og í mánudagshádegi)

Cannavota

Cannavota er ódýrt og gott veitingahús, fallega innréttað, við torg dómkirkjunnar San Giovanni in Laterano, eitt þekktasta fiskréttahús borgarinnar og býður hefðbundna Rómarmatreiðslu.

Innréttingin minnir á fjallahótel, voldugar trésúlur og trébitar, viðarklæðning og bakháir stólar, fjöldi mynda og málverka.

Við prófuðum fritto misto di mare, djúpsteikta og sítrónuvætta sjávarréttablöndu; linguine alla reviglio, spaghetti með tómat- og rækjusósu; risotto alla Cannavota, hrísgrjónarétt með tómat, rjóma og humar; filetto di tacchino, kalkúnabringu undir sveppa- og ostþaki; scaloppe alla verbena, kálfasneiðar undir sveppa- og ostþaki; insalata mista, blandað hrásalat; og macedonia di frutta, blandaða ávexti í legi.

Fritto misto di mare er dæmi um traustar sjávarréttablöndur í Róm, að mestu úr skelfiski, krabbadýrum og smokkfiskum. Hún er djúpsteikt, en aðrar eru til dæmis antipasto di mare, blandaðir sjávarréttir kaldir í forrétt; insalata di mare, blandað sjávarréttasalat, jafnan ferskt og gott; zuppa di pesce alla romana, skelfisksúpa og risotto di frutti di mare, hrísgrjónaréttur soðinn í fisksoði.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 60.000. (Cannavota, Piazza San Giovanni in Laterano 20, sími 77.50.07, lokað miðvikudaga)

Cesare

Að baki dómsmálaráðuneytisins og grafhýsis Hadrianusar á Tiburbökkum er afar rómversk veitingastofa, Hostaria Cesare, er liggur vel við þeim, sem eru að koma úr Péturskirkju eða safni Vatíkansins.

Veitingahúsið er í nokkrum smásölum með bogariðum á milli. Salirnir mynda lengju, sem er ýkt með spegli fyrir innri enda.

Viðarklæðning nær upp á veggi, en þar fyrir ofan er allt ljóst og bjart. Þetta er fjörugur samræðustaður, mikið sóttur af fastagestum.
Við prófuðum breasola, þurrt saltkjöt með granaosti og hundasúrublöðum, olíu og sítrónusafa; penne al’arrabiata, stutt, gáruð pastarör með tómat-, hamar- og piparsósu; saltimbocca alla romana, skinkuklæddar þunnsneiðar af kálfakjöti; og fragolini con panna, skógartínd jarðarber með rjóma.

Breasola minnir dálítið á prosciutto. Þurrkun saltkjöts er sennilega upprunnin í Sviss, en aðferðin hefur borizt til Rómar frá Langbarðalandi. Saltimbocca alla romana er einhver frægasti Rómarrétturinn og þýðir Hopp-í-munn á íslenzku. Skinku- og kálfakjötssneiðunum er oftast rúllað utan um salvíu og þær festar með tannstöngli, en í Cesari voru þær bornar fram flatar. Þær eru smjörsteiktar og síðan gegnsoðnar í Marsala-hvítvíni, sem minnir á sérrí.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 110.000. (Cesare, Via Crescenzio 13, sími 68.61.227 og 68.61.912, lokað sunnudagskvöld og mánudaga)

Cesarina

Cesarina er stór og vinsæll matstaður í sveitastíl með Bologna-matreiðslu í fína Ludovisi-hverfinu vestur af Via Veneto, um 200 metrum frá Borghese-garði og 500 metrum frá Via Veneto.

Miklar múrhleðslur eru í veggjum og bogum, sem skipta staðnum í nokkra veitingasali. Margs konar málverk skreyta veggina. Gestir tala mikið um viðskipti og hafa hátt að ítölskum hætti.

Við prófuðum mortadella, ósaltaðar svínapylsur að bæti Bolognabúa, soðnar í sveipjurtakryddi og hvítvíni; carpaccio, þunnar og hráar nautasneiðar með sítrónublandaðri olíu og Parma-osti; tagliatelle bolognese, eggjablandaðar pastaræmur með Bologna-sósu; filetto di bue Toscana, sítrónuvætta steik með kaffifífli; og semifreddo Cesarina, eins konar ís með búðingi og súkkulaðisósu.

Bolognasósa er búin til úr nauta- og svínahakki, hráskinku, sveppum, tómötum, grænmeti, kryddi og hvítlauk.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 140.000. (Cesarina, Via Piemonte 109, sími 48.80.828 og 46.08.28, lokað sunnudaga)

Costanza

Costanza er steik- og fiskréttahús með hefðbundinni og traustri Ítalíumatreiðslu í litlu sundi í gamla bænum, um 100 metrum frá torginu Campo de’Fiori.

Það er afar lítið áberandi að utanverðu, en þeim mun æsilegra að innan. Aðalsalurinn er með rómantísku hellislagi, hvelfdu lofti og fornminjum í skotum, svo sem amfórum og súlubrotum, skemmtilega óbeint lýstur. Til hliðar er viðarklæddur salur með arni.

Við prófuðum crepes funghi e tartufi, snarpheitar pönnukökur utan um sveppi og hvítsveppi; entrecote griglia, grillaða nautasteik, með asparagi, ferskum og olíuvættum spergli, til hliðar; og tiramisú, ítalskan súkkulaðibúðing með kaffisúkkulaði.

Hvítsveppir, tartufi, eru ítalska tegundin af sveppategundinni tuber, jarðkeppum, sem þekktari eru af frönsku tegundinni, svartsveppum, truffes. Þetta eru afar dýrir sveppir, sem vaxa neðanjarðar á Norður-Ítalíu og eru þefaðir uppi af hundum eða svínum, sem sérstaklega eru þjálfuð til þess. Þeir hafa magnaðan ilm og eru alltaf borðaðir hráir, helzt út á einhvern annan mat eða í bland með öðrum mat. Þessir dulúðugu sveppir eru eitt af einkennistáknum Ítalíu.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 100.000. (Costanza, Piazza del Paradiso 65, sími 68.61.717 og 65.41.002, lokað sunnudaga)

Crisciotti

Dæmigerður og erilsamur og ferðamannalaus Rómarstaður er Crisciotti í hliðargötu um 100 metrum frá Via Nazionale og 600 metrum frá Fori Imperiali.

Þar sitja heimamenn í þremur litlum sölum undir rustalegum innréttingum, þar sem brúnar steinmyndir eru á rauðmálaðum veggjum ofan við steinbjörg, og matfiskar eru sýndir í miklum glerkæli.

Við prófuðum zuppa di verdura matarmikla og litskrúðuga grænmetissúpu; agnello, lambakjöt án meðlætis; insalata mista, hrásalat; og frutta di stagione, ferska ávexti árstíðarinnar.

Zuppa di verdura, insalata mista og frutta di stagione eru vinsælir réttir meðal heimamanna og yfirleitt alls staðar að minnsta kosti frambærilegir og helzt góðir. Ef við hefðum pantað pasta dagsins í stað lambakjötsins, hefðum við verið með dæmigerðan Rómverjaseðil.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 100.000. Plastkort eru ekki tekin gild. (Crisciotti, Via del Boschetto 30, sími 47.44.770, lokað laugardaga)

Da Nerone

Da Nerone er einfalt og ódýrt matsöluhús í Rómarstíl, um 200 metrum norðan við Colosseum, og hefur nautasteikur og franskar kartöflur að sérgrein, svo að útlendingar leita það oft uppi.

Þetta er fjörlegur staður með kátu heimafólki, sem situr í tveimur stofum á þægilegum tréstólum undir þakhvolfi og hárri veggklæðningu, mjög stórum og mjög litlum málverkum. Opið er inn í eldhús, þar sem sjá má verkkunnáttu í lagi.

Við prófuðum antipasto misto, ýmsa kalda rétti af 34 tegunda hlaðborði; antipasto di mare, sjávarrétti af þessu sama hlaðborði; filetto de bue ai ferri con patate fritta, þunna og breiða, pönnusteikta nautahryggsteik með frönskum kartöflum; gelati misti, þrenns konar ís; og frutta di stagione, ferska ávexti árstíðarinnar.

Þótt nautasteikur séu upp og ofan á ferðamannastöðum Ítalíu, eru þær undantekningarlítið mjög góðar í alvöruveitingahúsum, sem sækjast eftir viðskiptum heimamanna. Þjónar og kokkar vilja ekki fá matinn í hausinn, en Ítalir eru fljótir að taka til sinna ráða, ef maturinn er mislukkaður. Þess vegna er gott ráð að leita uppi þá staði, sem heimamenn sækja sjálfir.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 60.000. (Da Nerone, Via delle Terme di Tito 96, sími 47.45.207, lokað sunnudaga)

El Toulà

Í gamla miðbænum, um 300 metrum frá horninu á Corso og Via Condotti, er El Toulà, fína og flotta alþjóðaviðskipta-veitingahúsið í Róm, með mikilli þjónustu við önnum kafna gesti, sem tala mikið í farsíma til að láta á sér bera. En þar er samt eitt af beztu veitingahúsum borgarinnar, enda er matreiðslumeistarinn Daniele Repette, sem eldar í Feneyjastíl.

Yfirbragð staðarins er létt og ljóst. Gengið er niður tröppur í langan sal, sem er skilinn sundur með bogum í nokkur svæði, þar sem rúmt er milli borða. Blómaskreytingar eru á hverju borði og þjónar á hverju strái.

Við prófuðum carpaccio di’vitello con pate di olive mere e pinoli, hráar þunnsneiðar af kálfakjöti með olífumauki, grana-osti, sítrónusafa og olíu; medaglioni d’astice con insalata novelle e punte d’asparagi, ferskvatnskrabbasalat með spergiltoppum; ventaglio di petto d’anitra alle nerue aroccasti, andasteik; cotelette di’capriolo al ginepro con polenta, engiferkryddaðar dádýrakótilettur með maísstöppu; budino di nocciole con mousse di cioccolato, hnetubúðing með súkkulaðihúð; og fagoltino di mele della Val di Non con salsa di arance di Sicilia, innbakaða smjördeigsköku með appelsínumarmelaði. Á eftir fengu allir fínlega brjóstsykursdropa og frigolotta, harða stökkköku, sem gestir lemja með hamri.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 190.000. Vínlisti er góður. (El Toulà, Via della Lupa 29b, sími 68.73.498 og 68.73.750, lokað í laugardagshádegi og sunnudaga)

Galeassi

Við aðaltorgið í uppahverfinu Trastevere, handan Tiburfljóts, Piazza Santa Maria in Trastevere, er veitingahúsið Galeassi, nokkru ódýrara en Sabatini á sömu slóðum og leggur líka áherzlu á fiskrétti.

Þetta er notalegur og snyrtilegur staður með dökkum við langt upp á veggi og dökku viðarlofti, en að öðru leyti í björtum litum. Bezt er að vera í litla salnum, sem er fremst við götuna.

Við prófuðum fettucini con funghi porcini, breiðar og hlykkjóttar pastaræmur með boletus-sveppum; risotto creme di scampi, hrísgrjónarétt með stórrækjubitum; mazzancolle al forno, ofnsteiktar risarækjur í skelinni; saltimbocca alla romana con funghi, salvíukryddaðar kálfa- og skinkusneiðar með sveppum; ananas, ferskan ananas; og macedonia di frutta, ávaxtasalat.

Ítalir hafa nokkrar tegundir af rækjum, sem allar eru stærri en íslenzkar rækjur. Gamberi, stórar rækjur; gamberoni, mjög stórar rækjur; mazzancolle, risarækjur; og scampi, sem minnir á íslenzkan humar.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 90.000. (Galeassi, Piazza Santa Maria in Trastevere 3, sími 58.03.775 og 58.09.898, lokað mánudaga)

Girarrosto Toscano

Girarrosto Toscano er notalegur og fallega innréttaður veitingastaður niðri í kjallara andspænis Borghese-garði, um 100 metrum frá efri enda Via Veneto og býður upp á matreiðslu, sem er ættuð frá Toskaníu, það er að segja svæðinu umhverfis Flórens.

Veitingastaðnum er mikið skipt niður með súlum og bogariðum og hvolflofti. Veggir eru klæddir ljósum viði upp í boga. Ofan á veggklæðningunni er vínflöskusafn hússins, mikið að vöxtum, enda er Toskanía eitt frægasta vínræktarsvæði Ítalíu. Þaðan koma til dæmis Chianti-vín.

Við prófuðum sérgrein hússins, grand’antipasto, sem fólst í safni ótal forrétta, svo sem eggjahræru með kartöflubitum, fylltu graskeri og fylltum ætiþistli, kjötbollum með tómatsósu, hvítum ricotta-ostakúlum, pylsum og skinku, prosciutto-hráskinku, reyktum laxi og melónu. Á eftir prófuðum við hina sérgrein hússins, bistecca alla Fiorentina, kolagrillaða og saltkryddaða nautarifjasteik með spínati. Og síðast ferska ávexti vínlegna með ís.

Ricotta er mjúkur og ósaltaður sauðaostur, sem minnir á grískan feta og á að borða alveg ferskan. Algengast er að setja hann í fyllingar í pastaumslög og í sætubakstur af ýmsu tagi, en á þessu veitingahúsi er hann borinn fram í votum og linum kúlum.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 140.000. (Girarrosto Toscano, Via Campania 29, sími 48.21.899 og 48.23.835, lokað miðvikudaga)

I Preistorici

Vestast í gamla miðbænum, í göngugötu frá Via Giulia, nálægt norðurenda hennar, er I Preistorici, notalegt veitingahús með læstum dyrum og litlu nafnspjaldi við bjölluna, en engri annarri auðkenningu, á vegum eins af ævintýrahneigðari matreiðslumeisturum borgarinnar, Luigi Frizziero.

Veitingastofan er í nokkrum litlum stofum með hvolfloftum. Þykk og vönduð viðarklæðning er á neðanverðum veggjum og stór málverk þar fyrir ofan. Enginn matseðill er á staðnum.

Við prófuðum prosciutto, þunnsneidda hráskinku; risotto di mare, hrísgrjónarétt með risarækjum, kræklingi og öðrum skelfiski; filetto al pepe, nautapiparsteik; filetto griglia, nautagrillsteik; creme brulée, karamelluskorpubúðing; og fragole, jarðarber.

Risotto er hrísgrjónaréttur frá Pódalnum, einkum tengdur Milano og Feneyjum. Hrísgrjónin eru fyrst steikt í smjöri eða olíu, oft með lauk, og síðan soðin í litlu magni af vökva, til dæmis víni eða soði af þeim mat, sem blandað er í hrísgrjónin, þegar þau eru borin fram. Oft er síðast sett í þau smjör og grana-ostur.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 110.000. Plastkort eru ekki tekin gild. (I Preistorici, Vicolo Orbitelli 13, sími 68.92.796, lokað sunnudaga)

Il Galeone

Il Galeone er skemmtilega innréttað fiskveitingahús við San Cosimato markaðstorgið í hverfinu Trastevere, en það er sá hluti gamla miðbæjarins, sem er á vinstri bakka Tiburfljóts.

Hátt er til tágalofts og gestir sitja í útskornum stólum á steingólfi undir steindum gluggum og járnslegnum viðarsúlum og -bitum.

Við prófuðum linguine alle vongole, pastaþræði með smáskeljum; tagliolini all’aragosta, bragðsterkar pastareimar með krabbabitum og tómatsósu; spigola alla griglia, afar ferskan og vel sítrónuvættan hafurriða; og misto di frutti di bosco, ýmis fersk skógarber, þar á meðal aðalbláber.

Spigola er algengur fiskur í Róm. Aðrar fisktegundir, sem eru áberandi á matseðlum, eru bonito, túnfiskur; merlano, lýsa; merluzzo, þorskur; spada, sverðfiskur; rombo, þykkvalúra og slétthverfa; rospo, skötuselur; og sogliola, sólflúra.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 160.000. (Il Galeone, Piazza San Cosimato 27, sími 58.09.009 og 58.16.311, lokað miðvikudaga)

Il Pianeta Terra

Eitt allra beztu matargerðarmustera Rómar er Il Pianeta Terra bak við læstar dyr, sem erfitt er að finna í þröngu göngusundi í gamla bænum, um 200 metrum frá torginu Campo de’Fiori. Nafn veitingahússins þýðir Plánetan jörð. Þar eldar Roberto Minetti og Patrizia Minetti stjórnar afar fínni þjónustu í sal.

Niðri er setustofa og bar, en uppi er skuggsýnn veitingasalur með misdökkri veggklæðningu og hvelfdu múrsteinalofti. Boðið var upp á ýmsa matseðla, smakkseðil, fiskseðil, Rómarseðil og hefðbundinn seðil. Ferns konar heimagerðar brauðkollur voru strax bornar á borð til að gefa matgæðingatón þegar í upphafi leiks.

Við prófuðum smakkseðilinn: Criole al oeli di pomodoro e basilico, basilkryddaðan ál í tómatsósu; paté de foie gras in salsa di Recioto, gæsalifur í hvítvínssósu með rifsberjum, skógartíndum jarðarberjum og hindberjum; zuppe di lenticchie con gamberi, baunasúpu með stórum rækjum; vermicelli alle mezzancolle; pasta með risarækjubitum í sterkum tómati; risotto au zuchine e zafferano, hrísgrjón með saffransósu og grana-osti; pesce con cicoriette fritte, þykkvalúru með djúpsteiktum kaffifífli; insalate di carne, kryddlegið, þunnsneitt og kalt nautalendarkjöt með eplasneiðum; og dolche di Patrizie e Roberto, fínar tertur hússins.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 300.000. Vínlisti er góður. (Il Pianeta Terra, Via dell’Arco del Monte 95, sími 68.69.893, lokað mánudaga)

L’Orso ‘80

L’Orso ‘80 er sérkennilega skíðaskálalegur staður, fremur ódýr, í gamla miðbænum, um 300 metrum norður frá Piazza Navona, með matreiðslu frá Abruzzi, fjöllunum austan Rómar.

Staðnum er skipt í tvennt með boga. Fremri salurinn er klæddur ljósri kvistafuru í norrænum skíðaskálastíl, með innbyggðum skápum úr voldugum smíðajárnsgrindum og skreyttir tilviljanakenndum málverkum af ýmsu tagi.

Við prófuðum zuppa pavese, eggja-, brauð- og ostasúpu; risotto alla pescadora, hrísgrjónarétt með tómati og smokkfiski; spaghetti alle vongole, spaghetti með skelfiski í skelinni; filetto di bue alla griglia, nautahryggsteik; polla toscana arrosto, ofnsteiktan kjúkling; frutta mista, blandaða ávexti; og creme caramel, karamellubúðing.

Ítalskar súpur greinast aðallega í fjóra flokka, brodo, tærar súpur; minestrone, tærar súpur með pastabitum; og minestre, þykkar súpur með hrísgrjónum eða pasta. Í fjórða flokknum eru svo eggjasúpur, svo sem zuppa pavese og stracciatella.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 80.000. (L’Orso ‘80, Via dell’Orso 33, sími 68.64.904 og 68.61.710, lokað mánudaga)

La Campana

La Campana er ódýr matstofa í gamla bænum, um 400 metrum frá norðurenda Piazza Navona, með hressandi og vel gerðum hversdagsmat í Rómarstíl.

Þetta er einfalt og hlutlaust innréttaður staður, bjartur og snyrtilegur, með þétt setnum borðum og árvökulum þjónum í hinum fullkomna Ítalíustíl.

Við prófuðum penne con carciofi, stór pastarör með ætiþistlum og mintusósu; pappardelle in salsa lepre, breiðar pastaræmur með hérakjötssósu; involtini di manzo con puré, kálfasneiðar vafðar upp á spjót, bornar fram með kartöflustöppu; filetto di tacchino, kalkúnakjöt með sveppum og tvenns konar rjómasósu; og fragole di bosco con panna, jarðarber með rjóma.

Mintukrydd er rómverskt matreiðslusérkenni. Önnur sérkenni Rómar eru meðal annars stracciatella, eggja- og ostasúpa; abbacchio, unglambakjöt; carciofi, ætiþistlar; asparagus, spergill; trippa, kálfavinstur; og ostarnir pecorino og ricotta. Viðhengið alla romana táknar oftast blandaða tómatsósu, stundum með rauðvíni, stundum með einhverju allt öðru.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 80.000. (La Campana, Vicolo della Campana 18, sími 68.67.820 og 68.75.273, lokað mánudaga)

La Taverna

La Taverna er afar skemmtilega hannaður og yfirlætislaus matstaður með hraðri og öruggri þjónustu í kjallara um 100 metrum frá torginu framan við aðaljárnbrautarstöðina og býður trausta matreiðslu að hætti heimamanna.

Salirnir tveir eru bjartir, umkringdir háum og dökkum viðarklæðningum með fatasnögum og ljósum flötum og speglum á milli. Flöskum er raðað upp á viðarklæðninguna allt um kring.

Við prófuðum prosciutto di Parma, hráskinku með melónu; filetto di bue con carciofi, nautahryggsteik með ætiþistlum; og torta al ciocolato, súkkulaðitertu.

Nautahryggsteikur eru mjög misjafnar á Ítalíu. Á stöðum eins og þeim, sem komast í þessa bók, eru þær yfirleitt fyrsta flokks, en á lélegum stöðum geta þær verið afleitar. Gott ráð fyrir steikaraðdáendur er að leita uppi fiskréttahús, sem bjóða líka nautasteik. Fiskikokkar eru manna næmastir á nákvæma eldunartíma.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 90.000. (La Taverna, Via Massimo d’Azeglio 3f, sími 47.44.305, lokað laugardaga)

Mario

Mario er ódýr og góður og líflegur matstaður með Toskaníu-matreiðslu í tízkubúðahverfinu neðan við Spánartröppur, um 400 metrum frá tröppunum og 200 metrum frá aðalgötunni Corso.

Staðurinn er snyrtilega innréttaður, þétt settur mörgum röðum ljósmynda og lítilla málverka ofan við viðarklæðningu veggjanna. Myndirnar sýna flestar brúnamikinn Mario með ýmsu frægu fólki. Salnum er þrískipt með súlnariðum og mjög þétt skipaður borðum, enda veitir ekki af. Chinati-vínið frá Toskaníu er á borðum í 1,5 lítra flöskum og drukkið úr óbrjótanlegum vatnsglösum. Þjónarnir hafa sérstaklega mikið að gera, en hafa samt allt á hreinu.

Við prófuðum risotto con funghi, hrísgrjónagraut með sveppum; ribollita, grænmetissúpu; ravioli verde, lítil hveitiumslög fyllt spínati, osti, eggjum og Parma-osti; due quaglie arrosto, tvær meyrar akurhænur; og castagnaccio, heita og mjúka hnetuköku, setta heilum möndlum, sérgrein hússins.

Toskaníumatreiðsla hefur löngum þótt bezta matreiðsla Ítalíu. Frá hirðinni í Flórens komu drottningarefni Frakklands og höfðu matreiðslumenn sína með sér til hirðarinnar í París. Þannig varð til hin fræga franska matargerðarlist. Af ítölskum pastaréttum þykir bezt ravioli eða gnochi Toskaníubúa. Og vínið þaðan er almennt séð eitt hið bezta á Ítalíu.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 70.000. (Mario, Via della Vite 55, sími 67.83.818, lokað sunnudaga)

Montevecchio

Montevecchio er pínulítið, 28 sæta matargerðarmusteri við lítið torg í þéttasta og vandrataðasta hluta gamla miðbæjarins, um 100 metrum vestan við norðurenda Piazza Navona, og sérhæfir sig í villidýrabráð.

Áður var hér veitingahúsið Pino et Dino, en meistarakokkurinn Antonio Civello hefur breytt því í musteri að frönskum hætti. Húsið er læst að utanverðu og aðeins tekið við gestum, sem hafa pantað. Hátt er til lofts í lítilli stofu, risastór vínflöskuskápur á öðrum langvegg og risastórt málverk á hinum, gylltar ljósakrónugreinar á veggjum og gríðarstór smíðajárnskróna í lofti.

Við prófuðum strudel di funghi, sveppabollu; crepes al gorgonzola e noci, pönnukökur fylltar gráðosti og möndlum; anitra alle noci, hnetusteikt andakjöt; capretto d’Abruzzo al forno, ofnsteikt dádýr; tiramisu, ítalskan súkkulaðibúðing með kaffisúkkulaði; og creme brulée, karamelluskorpubúðing.

Meðal veiðidýra á Ítalíu eru capretto, capriolo og cervo, dádýr; chinghiale, villigöltur; lepre, héri; quaglie, kornhæna; starna, akurhæna; og allodole, beccaccia og uccelletti, smáfuglar af ýmsu tagi, aðallega spörfuglar.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 130.000. Vínlisti er góður. (Montevecchio, Piazza Montevecchio 22a, sími 68.61.319, lokað mánudaga)

Papà Giovanni

Papà Giovanni er gamall heimilisvinur, skemmtilega ósmekklega innréttaður matstaður með læstum útidyrum, mjög góðri matreiðslu og síbreytilegum matseðli, 150 metrum sunnan við höll öldungadeildarinnar í gamla bænum, 50 metrum norðan við Corso Vittorio Emanuele II.

Veitingahúsinu er skipt í langa ganga með sófum og lágum borðum á annan veginn og flöskurekkum á hinn veginn. Loftið er gamalt og útskorið með nöktum ljósaperum, veggir eru úr grófri og misjafnri steinahleðslu og vínflöskurnar hafa ekki verið rykþurrkaðar áratugum saman.

Við prófuðum misticanza con neretti, ígulkerjasalat; farfalla di spigola, grafinn haf-urriða; tagliolini alla cardinale, pastareimar með sveppum; vermicello pomodoro verde, grænt spaghetti með osti; portafoglio con funghi, kálfakjötsneiðar vafðar um spínat, með brokkáli og rósakáli; granatina di filetto, kálfakjötbollur með litlum tómötum á stóru salatblaði; creme brulée allo zenzero, karamelluskorpubúðing með þeyttum rjóma; pastiera di castagne, hnetufroðu með þeyttum rjóma.

Hér fá herrar bláa matseðla, þar sem verð er skráð. Dömur fá hins vegar bleika seðla, þar sem ekki er skráð verð rétta, heldur hitaeiningafjöldi. Meðmæli dagsins eru ekki hin sömu á þessum seðlum, enda ætlast Renato Sentuti til að fínar dömur borði annað en grófir karlar.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 160.000. Vínlisti er góður. (Papà Giovanni, Via dei Sediari 4, sími 68.65.308, lokað sunnudaga)

Passetto

Passetto er traust veitingahús af gamla skólanum, með ekta fullkomnum ítölskum þjónum, í gamla bænum, um 100 metrum frá Piazza Navona. Þar er maturinn borinn fram á fötum eins og tíðkaðist í gamla daga.

Hátt er til lofts í löngum sal, þægilegur korkur á gólfi, miklir speglar á einum langvegg og undarleg veggmálverk á hinum á móti, viðarklæðning upp á miðja veggi. Innar er salur í hefðbundnari stíl.

Við prófuðum pasta e fagioli ai frutti di mare, sem reyndist vera pönnukaka, vafin utan um fiskhakk og bökuð með osti og tómatsósu; zuppa di cozze, kræklingasúpu með skeljunum í; filetto al pepe verde, nautapiparsteik með spergli; og creme brûlé, karamelluskorpubúðing og eplaköku af eftirréttavagni.

Zuppa di cozze er vandlega elduð súpa. Olía, laukur og tómatar eru látnir krauma í potti, síðan er vatn látið sjóða með maukinu og síðast er kræklingurinn látinn opnast í súpunni um leið og hún er borin á borð.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 130.000. (Passetto, Via Zanardelli 14, sími 65.40.569, lokað sunnudaga og í mánudagshádegi)

Piccola Roma

Piccola Roma er í gamla bænum, rétt við ítalska þinghúsið, um 200 metrum frá Corso, jafnan önnum kafið, því að þingmenn og þrýstendur, fréttamenn og fulltrúar þurfa jafnan að flýta sér og hafa frakkana tilbúna á stórum snögum við borðin.

Eins og mörg fyrirmyndar-veitingahús Rómar reynir Piccola Roma að láta fara lítið fyrir sér að utanverðu. Að innan er það samtals nokkuð stórt, í nokkrum smásölum á annarri hæð. Múrsteinn er upp á miðja veggi og þar fyrir ofan eru tilviljanakennd og undarleg málverk og plaköt. Vínflöskuhilla myndar rönd þvert yfir veggina.

Við prófuðum prosciutto di San Daniele, reykta og hráa skinku bragðsterka, sem kom í miklu magni, borin fram með fíkjum; risotto pescatore, bragðsterkan hrísgrjónarétt með smokkfiski og kræklingi; abbacchio forno, gott lambakjöt, mikið steikt, með ristuðum kartöflum; og gelato, þrenns konar ís, með súkkulaðimintu, vanillu og mokka.

Prosciutto er einn af einkennisréttum Ítalíu. Frægust í útlöndum er skinkan frá Parma, en á Ítalíu er skinkan frá San Daniele í ekki síðra áliti. Skinkan er jafnan skorin í næfurþunnar og víðáttumiklar sneiðar. Erlendis er þekktast að bera skinkuna fram með melónu, en Ítalir eru mikið fyrir að hafa ferskar fíkjur með henni og er það enn ljúfari kostur.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 70.000. Plastkort eru ekki tekin gild. (Piccola Roma, Via Uffici del Vicario 36, sími 67.98.606, lokað sunnudaga)

Piperno

Piperno er notalegur og fallegur veitingastaður með afar góðum mat í skuggalegu sundi í gyðingahverfi miðbæjarins, beint undir múrum Censi-hallar, um 50 metrum frá Tiburbökkum.

Veitingasalurinn er víður, með skenk á miðju gólfi. Innréttingar eru hinar vönduðustu, viðargólf og viðarloft, veggþiljur upp á miðja veggi og risastór málverk af gömlum rústum á mosagrænum veggjum þar fyrir ofan. Fyrir innan er annar salur hversdagslegri.

Við prófuðum sérgrein staðarins, carciofi alla giudia, olíusteiktan ætiþistil að hætti gyðinga; filetti di baccalà, djúpsteiktan saltfisk, vel útvatnaðan og bragðmildan; og le palle de nonno fritte, djúpsteiktan ricotta-ost með súkkulaði undir smjördeigsþaki.

Ætiþistlarnir eru opnaðir og flattir, skornir kruss og þvers, djúpsteiktir í olíublöndu, sem er leyndarmál staðarins. Að matreiðslu lokinni eru þeir gullnir að lit og minna á blómhnappa. Þessi réttur staðarins hefur hlotið frægð úti um heim. Flest veitingahús hverfisins bjóða carciofi alla giudia.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 100.000. (Piperno, Via Monte de’Cenci 9, sími 65.40.629 og 65.42.772, lokað sunnudagskvöld og mánudaga)

Rosetta

Bezta fiskihús Rómar og eitt helztu matarmustera borgarinnar er Rosetta, í gamla bænum um 100 metrum norðan við Pantheon, þar sem við verðum að hringja bjöllu til að komast inn.

Með aukinni frægð hefur þessi litli veitingastaður Riccioli-bræðra frá Sikiley smám saman orðið fínni og vandaðri að útliti en hann var, þegar við uppgötvuðum hann fyrir rúmum áratug. Innréttingar eru virðulegar, með áberandi skenk, þar sem er blóma-, ávaxta- og vínflöskuskrúð. Fyrir enda salar er komið fiskalistaverk úr brenndum flísum. Því miður hefur líka borizt hingað niðursoðin tónlist, sem annars er sjaldgæf í veitingahúsum Rómar.

Við prófuðum cappesante ai carciofi, hörpufisk með ætiþistli; spigola macinata al arancia, kryddleginn hafurriða í appelsínu- og sítrónusafa; scampi insalata, stórar rækjur með grana-osti og hundasúrublöðum; rombo griglia, grillaða slétthverfu; polipo griglia, grillaðan kolkrabba; macedonia di frutta, blandaða ávexti ferska; og sorbetto, sítrónukrap.

Á þessum stað er óhætt að borða skelfisk. Meðal skeljategunda, sem oft fást, eru arselle og vongole, smáskeljar; cappe og cappesante, hörpudiskur; cozze og muscoli, kræklingur.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 180.000. (Rosetta, Via della Rosetta 8-9, sími 68.61.002 og 65.48.841, lokað laugardaga og sunnudaga)

Sabatini

Sabatini er vinsæll ferðamannastaður, en samt mjög góður, í litlu göngusundi um 10 metra frá torginu Piazza Santa Maria in Trastevere, sem er á vinstri bakka Rómar, í fyrrverandi verkamannahverfi, sem er að breytast í uppahverfi. Systurstaður með sama nafni er við torgið sjálft og þykir nokkuð góður líka. Báðir eru miklir stemmningsstaðir, þekktastir fyrir fiskimatreiðslu.

Þungamiðja veitingahússins er við grilleldunarofninn og diskinn, sem við förum framhjá, þegar okkur er vísað inn í einhvern hliðarsalanna. Í miðjunni er þröng á þjónaþingi, en í hliðarsölunum er andrúmsloftið heldur rólegra. Þar er gamalt, málað viðarloft með trébitum. Veitingahúsið hefur verið notað sem svið í Fellini-kvikmynd.

Við prófuðum trippa alla romana, pönnusteikt kálfavinstur í tómatsósu með mintu og pecorino-osti; crespolini, pönnukökur fylltar spínati, osti, eggi og lifur; costata di bue, nauta-millirifjasteik; og tiramisú súkkulaðibúðing.

Trippa er alls ekki seigt, ef það er rétt eldað, svo sem var á Sabatini, heldur hinn ljúfasti matur, enda er þetta eins konar þjóðarréttur á stórum svæðum frá Róm til Flórens. Að borða ekki vinstur í Róm er eins og að borða ekki saltkjöt og baunir á Íslandi.

Pecorino er harður sauðaostur, sem minnir á grana (parmesan).

Tveggja manna máltíð kostaði L. 130.000. (Sabatini in Trastevere, Vicolo Santa Maria in Trastevere 18, sími 58.18.307, lokað þriðjudaga)

Taverna Giulia

Taverna Giulia er notalegt veitingahús með Lígúríu-matreiðslu og góðri þjónustu vestast í gamla bænum, þaðan sem brýrnar liggja yfir til Péturskirkju og Vatíkans, frægt fyrir góðan spergil árstíðarinnar.

Veitingahúsið er í nokkrum smásölum, sem eru hver inn af öðrum. Lág klæðning er neðst á ljósum og grófum veggjum.

Smíðajárnsskreytigrindur eru í bogum milli borðsvæða. Gestir sitja í þægilegum tágastólum með lausum sessum.

Við prófuðum trenette al pesto, flatt pasta með Ligúríu-sósu; lasagnette ai funghi porcini, litlar pastaplötur með boletus-sveppum; ravioli genovese, pastaumslög utan um blöndu af ýmsum innmat lamba og kálfa; tagliatelle al gorgonzola, pastareimar með gráðosti; vitello stracotto alla Genovese, breiðar og þunnar kálfasneiðar hvítvínssoðnar með lauksósu; faraoni di Giomnes all’arancio, perluhænu með þunnri appelsínusósu og pönnusteiktum seljustöngli; og pacciugo, ferska ávexti og ber með krapi.

Pesto er fræg og bragðsterk sósa frá Ligúríu, oftast græn á litinn, búin til úr basilíkum, hnetum, hvítlauk og miklu af hörðum matreiðsluosti, grana eða pecorino. Ligúría er ströndin umhverfis Genova, þekkt fyrir sérstæða matreiðslu, sem er milli franskrar og ítalskrar.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 90.000. (Taverna Giulia, Vicolo dell’Oro 23, sími 68.69.768 og 65.64.089, lokað sunnudaga)

Vecchia Roma

Í miðju gyðingahverfinu í gamla bænum, um 300 metrum frá tröppunum upp á Capitolum, er þekkt veitingahús, sem hefur maísrétti að sérgrein. Það er Vecchia Roma, eitt af mörgum með því nafni, en er hið eina rétta þeirra.

Matstaðnum er skipt í nokkrar litlar stofur með ljósri viðarklæðningu, stórum málverkum frá gömlum tíma og fínum tágastólum, járngrindum fyrir gluggum og kertastjökum úr smíðajárni.

Við prófuðum calamaretti affogati all’uvetta, nokkra heilsteikta, litla kolkrabba í olíu, með hundasúrublöðkum og tómati; polenta ghiottona, maísgraut, sem minnti í útliti á kartöflustöppu, en heldur kornaðri og mun saltari, með saltfiski og kryddjurtum ofan á að hætti gyðinga; og polenta boscaiola, maísgraut með funghi porcini, boletus-sveppum ofan á.

Polenta var áður búin til úr hirsikornum, en eftir fund Ameríku hefur maís tekið við. Hún er búin til með því að sjóða maíshveiti í vatni, unz það þykknar og kögglast. Síðan er það kælt og skorið í sneiðar, sem venjulega eru steiktar, bakaðar eða grillaðar. Grautarformið í Vecchia Roma er fremur óvenjulegt.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 120.000. (Vecchia Roma, Via della Tribuna (Piazza) di Campitelli 18, sími 68.64.604, lokað miðvikudaga)

Vín

Sæmileg vín koma frá svæðunum umhverfis Róm, svo sem frascati, colli albani, cori, montecompatri, velletri, og zagarolo, sem öll hafa viðurkenningarstimpilinn D.O.C., denominazione di origine controllata. Þekktari og betri eru þó norðlægari vín, einkum frá Piemonte og Toskaníu, sem sum hver hafa ekki þennan stimpil.

Frá Toskaníu eru hér á landi einkum þekkt vínin chianti classico. Þaðan koma líka brunello di montalcino, vernaccia di san gimignano og svo auðvitað venjulegt chianti. Á síðari árum hafa tignanello og sassicaia orðið fræg.

Frá Piemonte þekkjum við aðallega barolo. Þaðan koma líka barbaresco, barbera, dolcetto og grignolino. Ágæt vín fást einnig í Róm frá öllum öðrum héruðum þessa mikla vínræktarlands, sem Grikkir kölluðu Vínland, önotria. Almennt séð eru rauðvín traustari og betri en hvítvín.

Kaffihús

Ítalir eru mesta kaffimenningarþjóð heims og drekka allt sitt kaffi nýmalað úr espresso-vélum. Þeir drekka kaffið oftast espresso eða caffè, þrælsterkt; doppio, tvöfaldan skammt af slíku kaffi, eða cappucino, sterkt kaffi blandað og þynnt með loftþeyttri mjólk, en sjaldan americano, kaffisull eins og við notum. Þeir drekka kaffið yfirleitt við barinn, sem er mun ódýrara en að fá það afgreitt á borð.

Alls staðar eru kaffihús í Róm. Þekktasta kaffihúsið er Caffè Greco við tízkuverzlanagötuna Via Condotti, náægt endanum við Spánartröppur. Það var stofnað 1760 og hefur síðan verið áningarstaður rithöfunda og listamanna.

Við Piazza del Popolo er Rosati á 5a og Canova á 16. Við Piazza Navona er Tre Scalini á 28 og Colombia á 88. Við Piazza Campo dei Fiori er Om Shanti á 53. Við Largo di Torre Argentina er Bernasconi á 1. Við Via Veneto er Café de Paris á 90 og Doney á 145. Við Piazza Sant’Eustachio er Sant’Eustachio.

1991

© Jónas Kristjánsson

Madríd Andalúsía

Ferðir

Sevilla

Sevilla er helzta borg Andalúsíu og var raunar öldum saman aðalborg Spánar. Hún var márísk í rúmar fimm aldir, 712-1248, svo sem enn má sjá á borgarkastalanum og bænaturni dómkirkjunnar.

Einkum varð vegur hennar þó mikill eftir landafundina í Ameríku fyrir fimm öldum. Í þá daga var skipgengt upp ána Guadalquivir til borgarinnar, svo að Amerigo Vespucci, Cristóbal Cólon (Kólumbus) og Fernao de Magalhaes (Magellan) settu svip sinn á staðinn og lögðu sumpart héðan af stað í ferðir sínar. Hér komu líka við sögu Don Júan, Don Quixote, Cervantes, Velázques og Carmen.

Sevilla er fjörug borg með rúmlega hálfa milljón íbúa, auk mikils fjölda ferðamanna, sem flykkist til borgarinnar árið um kring. Fræg er hin mikla dymbilvikuhátíð, Semana Santa, sem hefst á pálmasunnudag og stendur með daglegum skrúðgöngum í heila viku. Bræðraklúbbar keppast um að útbúa sem skrautlegasta vagna með turnum og myndastyttum. Á milli vagnanna dansar fólk og syngur.

Skömmu eftir dymbilvikuhátíðina kemur aprílhátíð, Feria de Abril, þegar menn reisa tjöld og halda uppi veizlum, dansi og söng í heila viku. Sevilla er höfuðborg dansanna flamenco og sevilliana.

Árið 1992 verður heimssýningin haldin á eyju í Guadalquivir um tveimur kílómetrum norðan við miðbæinn í Sevilla. Á sama ári verða ólympíuleikarnir í Barcelona og Madrid verður menningarhöfuðborg Evrópu, svo að Spánverjar hlakka mikið til um þessar mundir. Það ár verða einnig liðnar nákvæmlega fimm aldir síðan Kólumbus lagði af stað í fyrstu Ameríkuferð sína.

Hótel

Alfonso XIII

Hótelið í Sevilla er Alfonso XIII, mikil höll 149 herbergja í aðeins 300 metra fjarlægð frá dómkirkjunni, reist fyrir heimssýninguna 1929 og æ síðan áningarstaður hefðarfólks. Þar er skemmtilegur innigarður með gosbrunni og márískum súlnagöngum, svo og mikið af márískum skreytingum. Flest meiri háttar samkvæmi í borginni eru haldin á hótelinu.

Bílageymsla er í hótelinu. Bak við það er háskólinn í Sevilla, til húsa í gömlu tóbaksverksmiðjunni, sem Carmen átti að hafa unnið í. Tveggja manna herbergi kostaði 28.600 pts. (Alfonso XIII, San Fernando 2, sími (5) 422 28 50, fax 421 60 33, telex 72725)

Fernando III

Auðvitað er unnt að búa ódýrar. Fernando III er líka 300 metrum frá dómkirkjunni eða rétt rúmlega það, í lúxushverfinu Santa Cruz. Það er í hálfgerðum sveitastíl, en býr yfir sundlaug og fremur stórum herbergjum, vel búnum. Bezt er að fá herbergi með svölum. Bílageymsla er í hótelinu. Tveggja manna herbergi kostaði 10.000 pts. (Fernando III, San José 21, sími (5) 421 77 08, telex 72491)

Veitingar

Egana Oriza

Bezta veitingahúsið í miðborg Sevilla er Egana Oriza. Það er fallega innréttað í gömlu húsi við veggi garðsins aftan við borgarkastalann, Alcázar, og í garði fyrir utan. Kokkurinn er Baski, José Mari Egana, og blandar saman hefðum frá Baskalandi og hráefni frá Andalúsíu, svo sem villibráð frá svæðunum í kring. Hann býður meðal annars saltfisksúpu (sopa de bacalao); kalda hvítlauks-tómatsúpu með melónu (ajo blanco), afbrigði af gazpacho; eggjahræru (revuelto de patatas, ajetes, setas y pimientos); litla smokkfiska í smjördeigi (chipirones); ofnsteiktar dúfur í rauðvínssósu (pichón de Bresse asado con salsa de vino tinto); og ostaís í hunangi með hnetukremi (helado de queso y miel con crema de nueces). Þríréttað fyrir tvo kostaði 12.000 pts. (Egana Oriza, San Fernando 41, sími (5) 422 72 11, lokað í laugardagshádegi og sunnud.)

San Marco

Næstbezta veitingahús miðborgarinnar er San Marco, um 600 metrum beint norður frá dómkirkjunni. Það er í fallegum, 18. aldar herragarði og veitir óvenjulega góða þjónustu. Asana Ramacciotti er í eldhúsinu og eldar undir ítölskum áhrifum.
Meðal einkennisrétta hans eru sjávarréttasúpa (boullabesa a nuestro estilo); fiskikássa (couscous de pescado); önd í olífuolíu (pato con aceitunas); og pasta með hafurriða og skeljasósu (ravioli rellenos de lubina en salsa de almejas). Þríréttað fyrir tvo kostaði 10.000 pts. (San Marco, Cuna 6, sími (5) 421 24 40, lokað sunnudaga og í mánudagshádegi)

La Albahaca

Við torgið, sem Santa Cruz hverfið er kennt við, er La Albahaca í virðulegum herragarði og sameinar fallegt umhverfi, góða þjónustu og bezta matinn í Santa Cruz. Maturinn er fjölbreytilegur, svo sem sjávarréttasúpa (sopa de frutos del mar); koli í appelsínusósu (lenguado a la naranja); kálfasteik (entrecote de ternera grillé con trufas del olivar y verduras naturales); og ostfroða með hindberjasósu (mousse de queso con salsa de frambuesa). Þríréttað fyrir tvo kostaði 10.000 pts. (La Albahaca, Plaza Santa Cruz 12, sími (5) 422 07 14, lokað sunnudaga)

Hostería del Laurel

Í miðju Santa Cruz hverfinu er gamalt og gróið veitingahús, innréttað á tveimur hæðum að hefðbundnum hætti Andalúsíu, með flísaveggjum og bogadyrum, smíðajárnslugtum og tréskurðarmyndum. Þar er líka hægt að borða úti á torgi. Höfð er í frammi hefðbundin matreiðsla, sem er hin næstbezta í Santa Cruz hverfinu. Meðal annars er boðið upp á góðan spergil (espárragos) með þrenns konar sósum; og ágætis turnbauta (tournedos Hostería del Laurel). Þríréttað fyrir tvo kostaði 7.200 pts. (Hostería del Laurel, Plaza de los Venerables 5, sími (5) 422 02 95)

La Isla

Vitlausu megin við aðalgötuna Constitución, það er að segja ekki dómkirkjumegin, er La Isla í hliðargötu, um 100 metrum í loftlínu frá dómkirkjunni. Þetta er ákaflega vinsæll staður meðal heimamanna, en minna kunnur ferðafólki, sem sjaldan ratar hingað. Innréttingarnar eru svo sem ekki merkilegar, en samræðuhávaðinn þeim mun meiri. Þjónustan er afar góð.
Sérgreinar hússins eru sjávarréttir, einkum frá Galisíu og ströndinni við Cadiz, djúpsteiktir eða grillaðir. Meðal annars var í boði hráskinka (jamón de Cumbres Mayores); laxahræra með sveppum og rækjum (revuelto de salmón con champiñones y gambas); og karamellukrem (tocino de cielo). Þríréttað fyrir tvo kostaði 9.000 pts. (La Isla, Arfe 25, sími (5) 421 26 31, lokað mánudaga)

Skoðun

Ekki er flókið mál að skoða hið markverðasta í Sevilla. Ekki þarf annað en að ganga kringum dómkirkjuna, sem yfirgnæfir umhverfi sitt með voldugum turni og víðáttumiklum svifsteigum, enda er hún sögð hin þriðja stærsta í heimi, næst á eftir Péturskirkju í Róm og Pálskirkju í London. Hún er byggð í svo síðgotneskum stíl, að áhrifa endurreisnartímans er farið að gæta. Byggingin hófst 1401, þegar rifin hafði verið íslömsk moska, sem stóð hér áður, þegar Sevilla var márísk borg. Frægt er vesturvirki kirkjunnar með margföldum dýrlingabogum umhverfis kirkjudyr.

Gengið er í dómkirkjuna bæði að vestanverðu og austanverðu. Að innan er hún yfirþyrmandi stór og kuldaleg, 56 metrar undir loft. 75 steindir gluggar eru á kirkjunni, sumir hverjir frá upphafi 16. aldar. Til vinstri við austurdyrnar er konungskapella, Capilla Real, þar sem hvíla nokkrir Spánarkonungar. Við enda suðurstúku kirkjunnar er líkkista Kólumbusar, borin af fjórum styttum, sem tákna fjögur konungdæmi Spánarveldis, sem þá voru Aragón, Castilía, León og Navarra.
Kirkjan er opin 10:30-13 og 16-18:30, lokuð sunnudaga. Siðsamlegur klæðnaður er nauðsynlegur.

Giralda

Norðan við austurdyr kirkjunnar er kirkjuturninn, Giralda. Hann er frá síðari hluta 12. aldar og var þá kallturn moskunnar, er áður var þar, sem kirkjan stendur nú. Hann er 98 metra hár og breiður eftir því, úr bleikum múrsteini, ferstrendur eins og tíðkaðist í vesturhluta íslams, en ekki sívalur eins og tíðkaðist í Persíu og austurhluta íslams. Stíllinn er greinilega márískur, frá valdaskeiði Almóhaða, sem voru harðlínumenn í trúmálum og andvígir glysi. Þess vegna er turninn í mjög formföstum línum, með reglubundnum oddskeifugluggum og fíngerðu skarti. Á 16. öld var bætt ofan á turninn einni skrautlegri hæð og kristnu klukknaporti. Að innanverðu er spírallaga hringbraut upp turninn, þaðan sem er gott útsýni yfir borgina. Turninn er opinn á sama tíma og dómkirkjan.

Ef farið er norður fyrir kirkjuna, er hægt að komast inn í garð appelsínutrjánna, Patio de los Naranjos, sem líka er leif frá márískum tíma. Slíkir garðar eru hefðbundinn hluti íslamskra moska.

Lonja

Til að komast frá dómkirkjunni til borgarkastalans er gengið yfir torgið Plaza del Triunfo. Þar er á hægri hönd Vestur-Indíasafnið í höll, er var reist 1572 sem kauphöll, Lonja, þegar Sevilla var höfuðborg Ameríkusiglinga, teiknuð af Juan de Herrera, sem einnig hannaði konungshöllina El Escorial við Madrid. Þar inni eru meðal annars sýnd gömul siglingakort og gömul kort af bæjum í rómönsku Ameríku. Safnið er opið 10-13, lokað sunnudaga.

Alcázar

Eini hluti borgarkastalans, Alcázar, sem er frá márískum tíma, er veggriðið, sem skilur á milli fremra portsins, Patio de la Montería, og innra portsins, Patio del León. Að öðru leyti er kastalinn að mestu byggður á valdaskeiði kristins konungs, Péturs hins grimma, 1364-1366.

Hann lét hanna kastalann í márískum stíl, undir greinilegum áhrifum frá Alhambra í Granada, enda voru iðnaðarmennirnir Márar. Hann kunni ekki arabisku og vissi ekki, að í skrautbeðjum veggjanna höfðu þeir skráð: “Það er enginn sigurvegari nema Allah”. Íslamskur byggingastíll hélt velli á Spáni í samkeppni við ítalskan og franskan stíl lengi eftir að Márar höfðu verið hraktir á brott. Alcázar í Sevilla er bezta og hreinasta dæmið, sem til er um márískan stíl frá kristnum tíma.

Innan við Patio del León er höll Péturs. Í henni er innsta portið, Patio de las Doncellas, upprunalega í tærum Alhambra-stíl með oddbogagöngum á alla vegu. Á 16. öld var bætt ofan á hæð með bogagöngum, sem stinga í stúf.

Fyrir innan höll Péturs er víðáttumikill kastalagarður með klipptum runnaröðum, trjágöngum, garðhýsi Karls V, tjörnum og blómum. Þar inn af er svo minna þrautskipulagður garður á vinstri hönd.

Alcázar er opinn mánudaga-föstudaga 9-12:45 og 15-17:45, laugardaga-sunnudaga 9-13.

Santa Cruz

Hverfið austan við dómkirkjuna og kastalann heitir Santa Cruz. Það var gyðingahverfi á miðöldum, en varð á 17. öld að hverfi aðalsfólks. Enn er það hverfi efnafólks, með vel varðveittum húsum, friðsælum forgörðum og þröngum sundum, sem bílar komast ekki um. Þar eru ótalmörg kaffihús, barir og veitingahús, einkum við torgin Dona Elvira, Venerables Sacerdotes og Santa Cruz, þar sem er stytta af Don Juan.

Andalúsía

Þótt flestir íslenzkir ferðamenn leggi leið sína til Andalúsíu, þekkja færri hina raunverulegu Andalúsíu að baki fjallanna við ströndina. Þar eru hinar sögufrægu borgir, sem við ætlum að heimsækja í þessum kafla. Þetta er land endalauss sólskins og letilífs, veizluhalda og sönglistar. Þetta er land nautaats og flamenco-dansa, sítróna og sérrís. Fegursti og þægilegasti tíminn í Andalúsíu er í marz-apríl og september-október.

Héðan kemur súpan gazpacho, köld tómatsúpa með olíu og ediki, hráum hvítlauk og lauk og oft með brauðmolum, framreidd í ótal tilbrigðum. Héðan kemur ískældi svaladrykkurinn sangría, sem felur í sér rauðvín, gos, ávaxtasafa og koníakstár.
Hið upprunalega sérrí kemur frá Andalúsíu. Bezta sérríð er svokallað fino, skraufaþurrt og ljóst og veikt. Það hæfir betur en nokkuð annað áfengi sem fordrykkur á undan mat, því að það örvar bragðlaukana, en deyfir þá ekki eins og hanastél gera yfirleitt. Ekta amontillado er dekkra og þyngra sérrí, sem gott er að drekka eftir mat.

Við ímyndum okkur, að við séum stödd á Costa del Sol, t. d. í Torremolinos. Við erum orðin þreytt á sandi og sólskini og höfum tekið bílaleigubíl, sem við ætlum að aka til frægðarborga Andalúsíu. Leið okkar liggur um Ronda, Arcos de la Frontera, Sevilla, Córdoba, Granada og Malaga, þar sem við erum aftur komin niður á ströndina.

Milli Torremolinos og Ronda eru 84 kílómetrar, milli Ronda og Arcos 86 kílómetrar, milli Arcos og Sevilla 91 kílómetri, milli Sevilla og Córdoba 143 kílómetrar, milli Córdoba og Granada 166 kílómetrar, milli Granada og Malaga 127 kílómetrar og milli Malaga og Torremolinos 14 kílómetrar. Fyrsti viðkomustaður er Ronda.

Ronda

Í nágrenni Ronda er fagurt landslag, einkum í fjalllendinu milli borgar og strandar. Serranía de Ronda, þar á meðal á leiðinni frá ströndinni, ef farið er upp hjá bænum San Pedro de Alcántara. Er þá farið frá Torremolinos vestur fyrir Marbella til San Pedro og þaðan inn í land til Ronda. Sú leið er lengri en hin stytzta, um 110 kílómetrar. Bærinn er 750 metrum yfir sjávarmáli.

Ronda er reist á fjallsbrún ofan við ána Guadalevín, sem rennur í djúpu gili, Tajo, gegnum miðbæinn. Gamli bærinn í Ronda er frammi á klettaeyju, en nýi bærinn er á innri brúninni. Milli bæjarhlutanna liggja tvær brýr, 90 metra há Puente Nuevo frá 18. öld og enn eldri Puente Romano, sem veita hrikalegt útsýni yfir gilið.

Skemmtilegt er að rölta þröngar götur gamla bæjarins. Þar eru til dæmis gömul kirkja með íslömskum kallturni í márastíl; voldug og tvíturna Mondragón-höll í endurreisnarstíl; Salvatiera-höll; og máríska baðhúsið, sem minnir á, að Ronda var höfuðborg eins máraríkisins á Spáni. Auðvelt er að ganga um alla þessa staði, því að flatarmál gamla bæjarins er varla nema 15 hektarar.

Í nýja bænum, aðeins 100 metrum frá Puenta Nuevo, er einn elzti nautaatshringur Spánar, frá 1785. Það var einmitt í Ronda, að nautaat var fært í þann búning, sem gilt hefur æ síðan. Það var Francisco Romero, fæddur 1698, sem setti fram reglurnar. Sonarsonur hans, Pedro Romero, varð frægasti nautabani sögunnar. Frá nautahringnum liggur skemmtileg gata, Carrera de Espinel, með gömlum húsum.

Reina Victoria

Sjálfsagt er að gista í 90 herbergja Reina Victoria, sem stendur frammi á hamrabrún í nýja bænum, um einn kílómetra í beina götustefnu frá Puento Nuevo. Frá þessu gamaldags hóteli er fagurt útsýni yfir dalinn og Serranía de Ronda handan hans. Tveggja manna herbergi kostaði 9.600 pts. (Reina Victoria, Dr. Fleming 25, s. (52) 87 12 40)

Don Miguel

Mest gaman er að borða í Don Miguel, sem er frammi á klettabrún við Puento Nuevo. Hluti veitingahússins er úti á stöllum í klettunum, þaðan sem útsýni er óvenjulegt. Á þessum stað er fram reiddur beztur matur í Ronda, svo sem sveppa-eggjahræra (revuelto de setas); og fasani úr fjöllunum (faisán de la serranía rondena). Yfir staðnum vakir Miguel Coronel, sem er sérfræðingur í gömlum uppskriftum úr fjallahéruðum Andalúsíu. Þríréttað fyrir tvo kostaði 5.600 pts. (Don Miguel, Plaza de España 3, sími (52) 87 10 90, lokað þriðjudagskvöld, á sumrin líka sunnudaga, á veturna miðvikudaga)

Arcos

Á leiðinni milli Ronda og Arcos de la Frontera er ekið um fjalllendi, þar sem eru hin frægu “hvítu” þorp, sem glampa í fjallshlíðunum í sólskininu, svo sem Castellar, Vejer og Zahara. Á þessu svæði voru löngum landamæri kristinna og íslamskra á Spáni. Þess vegna eru orðin “de la Frontera” víða í nöfnum bæja og þorpa.

Arcos de la Frontera er uppi á klettatappa við ána Guadalete. Gott er útsýnið frá aðaltorginu, sem hangir beint yfir klettaveggnum. Við torgið er kirkjan Santa María í gullsmíðastíl. Þar er einnig hótelið okkar, með stórum herbergissvölum.

Parador Casa del Corregidor
Einn af hinum frægu paradorum Spánar er við aðaltorgið. Það er 24 herbergja Parador Casa del Corregidor, með stórfenglegu útsýni úr matsal og frá herbergjum með svölum út yfir klettabrúnina. Tveggja manna herbergi kostaði 11.000 pts. (Parador Casa del Corregidor, Plaza de España, sími (56) 70 05 00, fax 70 11 16).

Ágætt er að borða í hótelinu sjálfu og hafa útsýnið á meðan. Eldað er að hætti Andalúsíu. Þar á meðal er góð tómatsúpa köld með grænmeti (gazpacho), þjóðarréttur Andalúsíu. Þríréttað fyrir tvo kostaði 5.600 pts.

Córdoba

Frá Arcos liggur leiðin til Sevilla, sem er svo merk borg, að hún hefur sérstakan kafla framar í þessari bók og er því ekki til frekari umfjöllunar hér. Frá Sevilla höldum við svo til Córdoba, tæplega 300 þúsund manna borgar nyrst í Andalúsíu.

Emírar frá Damascus tóku völd í Córdoba 719 og hélzt hún í höndum Mára í fimm aldir, til 1236. Hún var lengi helzta borg Mára á Spáni og eitt mesta fræðasetur heims. Hún lét mikið á sjá, þegar veldi Mára var hrundið á 15. öld og hinir kristnu arftakar létu áveitukerfið grotna niður. Stóra moskan, Mesquita, er minnisvarði um márískan stórveldistíma. Á mesta blómaskeiðinu voru 300 moskur í borginni.

Mest er um að vera í Córdoba í maí. Þá er maíhátíð, sem er svipuð aprílhátíðinni í Sevilla, með vikulöngum dansi og hljóðfæraslætti. Í sama mánuði er húsagarðahátíðin, þegar húseigendur keppa um verðlaun fyrir fegurstu blómaskreytingar í görðum sínum og húsagarðarnir eru opnir almenningi.

Adarve

Bezta hótelið í Córdoba er 100 herbergja Adarve, sem er við hlið Mesquita í miðbænum. Það er í márískum stíl, opnað fyrir nokkrum árum. Tveggja manna herbergi kostaði 17.000 pts. (Adarve, Magistral González Francés 15, sími (57) 48 11 02, fax 47 50 79, telex 76594)

Maimónides

Mun ódýrara og ekki síður vel í sveit sett við hlið Mesquita er 60 herbergja Maimónides. Það var gaman að sitja við glugga herbergis nr. 208 og hafa útsýni beint yfir aðalgötu bæjarins, bænaturn stóru moskunnar og fjörugan innganginn að hinu vinsæla veitingahúsi, El Caballo Rojo. Herbergið var vel búið leðurhúsgögnum og var með góðu baðherbergi með öllum tækjum í lagi, en loftræstingin var fremur daufleg. Bílageymsla er undir hótelinu. Tveggja manna herbergi kostaði 8.800 pts. (Maimónides, Torrijos 4, sími (57) 47 15 00, telex 76594)

El Caballo Rojo

Bezti matstaður borgarinnar og hugsanlega allrar Andalúsíu er El Caballo Rojo, við sjálfan bænaturn moskunnar, á sama horni og hótelið Maimonídes. Staðurinn er fremur einfaldur í sniðum, á tveimur hæðum inn af löngu porti. Þjónusta er mjög góð og verðið tiltölulega lágt. Aðsóknin er svo mikil, að stundum bíða menn úti á götu. Þarna ræður ríkjum kokkurinn Francisco Medina Navarro. Hann hefur lagt sérstaka áherzlu á að finna gamlar uppskriftir frá márískum tíma. Við fengum heita og góða artistokka hússins (alcachofas a la montillana); skötusel í márískri rúsínusósu (rape Mozárabe); og nokkuð góða eftirréttablöndu (surtido des postres). Meðal sérgreina hússins eru lambasteik í hunangi (cordero a la miel) og spergill með möndlukremi (espárragos blancos de Córdoba a la crema de almendras). Þríréttað fyrir tvo kostaði 8.000 pts. (El Caballo Rojo, Cardenal Herrero 28, sími (57) 47 53 75)

El Churrasco

Næstbezta veitingahúsið í Córdoba og einnig tiltölulega hagstætt í verði er El Churrasco, rúmlega 100 metrum norður frá bænaturni Mesquita, í gamla gyðingahverfinu, Judería. Það er í fjórum borðstofum á tveimur hæðum í fallegum herragarði með innigarði og hefur að geyma einn bezta vínlista í allri Andalúsíu. Mikið er jafnan um að vera, því að staðurinn er mikið sóttur af heimamönnum. Rafael Carrillo býður einkum góðar nautasteikur (buey) og svínasteikur (cerdo) frá kolagrilli (churrasco). Við prófuðum hráa anda-skinku, skemmtilega óvenjulegan rétt (jamón de pato); sérlega góðan, gufusoðinn lax með tveimur sósum, þar á meðal ljúfasta mæjones, sem ég hef smakkað (salmon al vapor de las finas hierbas); og léttan marens, svokallaðar fljótandi eyjar (iles flottante). Meðal sérgreina hússins er saltfiskur (bacalao al estilo del chef); og andasteik (magret de pato en salsa de dátiles). Þríréttað fyrir tvo kostaði 7.600 pts. (El Churrasco, Romero 16, sími (57) 29 08 19, lokað fimmtudaga)

Mesquita

Mesquita í Córdoba er sannkallað furðuverk. Hún var reist árið 785 og var þá nýjung í sögu byggingarlistar, því að skeifubogar hennar eru tveggja hæða. Það gefur henni aukna hæð og rými. Síðar var moskan stækð nokkrum sinnum og jafnan í sama stíl, síðast árið 987.

Mesquita er skógur 850 súlna í 10 röðum og virðist sums staðar vera nánast endalaus. Ofan á súlunum hvíla tvöfaldir márískir skeifubogar, röndóttir, til skiptis úr hvítum kalksteini og rauðum tígulsteini. Í heild er moskan þögull undraheimur margvíslegra ljósbrota, þar sem blæbrigðin breytast við hvert fótmál.

Að grunni til er Mesquita svipuð hefðbundnum safnaðarmoskum. Að utan er hún girt voldugum múrum. Fyrir innan þá er fremst Appelsínutrjágarðurinn, sem er forgarður með voldugum bænaturni og hreinsunarbrunni. Inni er moskan fyrst og fremst súlnaskógur, með bænaþili innst. Þar eru flóknar, marglaufa fléttur skeifuboga, svo og stefnugróf, sem markar áttina til Mekka.

Inni í miðjum súlnaskóginum var reist fremur ljót dómkirkja á 16. öld, þegar kristni hafði ýtt íslam til hliðar í Córdoba, en hún drukknar inni í moskunni.

Mesquita er opin 10:30-13:30 og 16-19, 15:30-17:30 á veturna.

Alcázar

Rétt hjá moskunni er borgarkastalinn, Alcázar, frá 14. öld. Að baki hans eru márískir garðar, mishæðóttir með rennandi vatni, gosbrunnum og tjörnum. Þar er gott að rölta sér til hvíldar eftir skoðunargöngur um merkisstaði borgarinnar. Opið 9:30-13:30, 17-20, 16-19 á veturna.

Judería

Umhverfis moskuna er gyðingahverfi borgarinnar, Judería, með þröngum og kræklóttum göngugötum og pottablómum á húsveggjum. Við hefjum gönguna um það á horninu undir bænaturni moskunnar, þar sem eru veitingahúsið El Rojo Caballo og hótelið Maimónides. Hótelið heitir eftir gyðingalækni, sem var fremstur lækna í heiminum á 12. öld. Annar frægur íbúi í Córdoba á þeirri öld var máríski vísindamaðurinn og heimspekingurinn Averroes. Á þeim tíma var Córdoba eitt helzta menningarsetur veraldar.

Leiðin liggur um sundið á horninu, síðan til hægri inn Deanes og svo til vinstri eftir Romero. Þar á torginu Salazar er matstaðurinn Churrasco. Á torginu snúum við til vinstri og göngum þröngt sundið til torgsins Maimónides. Þar er nautaatssafnið í herragarði að baki gróðursæls forgarðs, opið 9:30-13:30 og 17-20. Við göngum til hliðar við safnið, framhjá handíðamarkaðinum að baki safnsins og framhjá annarri af tveimur sínagógum gyðinga, sem eftir eru á Spáni, í 14. aldar húsi vinstra megin götunnar, opin þriðjudaga-laugardaga 10-14 og 16-19. Síðan finnum við aðra götukróka til baka.

Frá norðurhorni moskunnar förum við inn sundið Bosco og beygjum strax til hægri í Calleje de las Flores. Þar er sérstaklega mikið um pottablóm á veggjum. Frá torginu við enda sundsins er ágætt útsýni um sundið til baka til bænaturns moskunnar.

Granada

Frá Córdoba förum við suðaustur yfir Andalúsíu í átt til fjalla. Þar sem láglendið mætir fjöllunum er rúmlega 250 þúsund manna borgin Granada.

Granada er fyrst og fremst fræg fyrir máríska hallarvirkið Alhambra, sem er sennilega fegursta og merkasta mannvirki Spánar og stendur á hæð ofan við borgarmiðju. Þetta er afar skemmtilegt borgarstæði við rætur Sierra Nevada, sem sýna snævi þakta kolla sína á góðum degi.

Granada var síðasta vígi Mára, þegar kristnir konungar mjökuðu veldi sínu suður eftir Spáni. Þangað flúðu Márar frá Córdoba, þegar hún féll 1236, og héldu velli í meira en hálfa þriðju öld, til 1492. Granada var íslömsk borg í nærri átta aldir og hefur nú verið kristin í aðeins fimm aldir. Ekkert er eftir af minjum frá márískum tíma í Granada nema kastalahöllin Alhambra.

Parador de San Francisco

Parador de San Francisco er sannkallað draumahótel í fimm alda gömlu mannvirki. Það er umlukið görðum Alhambra-hallar á þrjá vegu. Klaustri frá 15. öld hefur verið breytt í 39 herbergja lúxushótel, sem er annað af tveimur flaggskipum hinna spönsku hótel-paradora. Hótelið er indælt innst sem yzt. Herbergin eru á tveimur hæðum umhverfis friðsælan innigarð og hafa útsýni yfir Alhambra-garða, sum einnig til snævi þakinna tinda. Herbergi 213 er stórt og með stóru baðherbergi. Allur búnaður er hinn vandaðasti.

Tveggja manna herbergi kostaði 17.000 pts. (Parador de San Francisco, Alhambra, sími (58) 22 14 40, fax 22 22 64, telex 78792, panta þarf með miklum fyrirvara).

Vel er hægt að borða í Parador de San Francisco. Til dæmis er kjörið að snæða þar léttan hádegisverð úti í garði. Á kvöldin er boðið upp á sögufræga Andalúsíu- og Márarétti. Við prófuðum kalda tómatsúpu (gazpacho Andaluz); ágætis nautasteik (solemillo de buey); og skemmtilegan eftirrétt frá Máratíma (postre Albacain). Meðal annarra sérrétta voru baunir með skinkubitum (habas con jamón); og eggjakaka með heila, eistum og grænmeti (tortilla del Sacromonte). Þríréttað fyrir tvo kostaði 7.800 pts.

América

Hægt er að gista á sama stað á ódýrari hátt. Við hlið ofangreinds hótels er 13 herbergja hótelið América, mjög snyrtilegt, en látlaust og einfalt, byggt umhverfis innigarð. Þar kostar tveggja manna herbergi ekki nema 6700 pts. (América, Real de la Alhambra 53, sími (58) 22 74 71, lokað nóvember-marz)

Sevilla

Eitt bezta veitingahúsið í Granada er rétt við dómkirkjuna og beinlínis við hlið konungskapellunnar. Það er Sevilla, innréttað í dæmigerðum Andalúsíu-sveitastíl, með stórum flísum upp á veggi, litlum myndum og plöttum á veggjum og bitum og lugtum í lofti. Hér hittust menningarvitar fyrir borgarastríð, þar á meðal Federico García Lorca, sem fæddist í þorpi hjá Granada. Hér býr José Rodríguez López til hefðbundna Andalúsíurétti. Við fengum okkur heita mjólkursúpu með alls konar fiski og rækjum, góða og milda (sopa Sevilla); nokkuð góða eggjaköku með heila, eistum og grænmeti (tortilla Sacromonte); og baunir með skinkubitum (jamón con habas). Allt eru þetta dæmigerðir Andalúsíuréttir. Þríréttað fyrir tvo kostaði 6.600 pts. (Sevilla, Oficios 12, sími (58) 22 12 23, lokað sunnudagskvöld).

Alhambra

Hástig íslamskrar byggingarlistar er Alhambra-kastalahöllin, eina íslamska konungshöllin, sem varðveitzt hefur tiltölulega óskemmd. Hún endurspeglar þrá sona eyðimerkurinnar í vinjar rennandi vatns og gróðrar. Hvergi er flatarnýting minni en þar. Byggingar urðu þar að aukaatriði, eins konar ramma utan um gróður, læki og gosbrunna. Úti og inni urðu eitt. Byggingarefnið var létt, fátæklegt og lítt varanlegt; tilviljanakennt sambland af múrsteinum, rusli og gifskalki, en landslagsskipulagið og fíngerðar skrautbeðjur urðu aðalatriði.

Mesta furða er, að hinar veiklulegu byggingar í Alhambra skuli hafa staðizt tímans tönn og vera enn eins og skilið hafi verið við þær í gær. Fíngert ofurflæði útflúrs í gifskalki í súlnagöngum meðfram opnum görðum er svo vel varðveitt, að það er eins og sex til sjö aldir hafi liðið á einni nóttu. Í veggjum hallarinnar leiftrar sólarljósið í mælirænum beðjum gifskalkvindinga og fagurlitaðra gljáplatna úr postulíni, svo og í spakmælum og trúarsetningum í arabisku letri. Í loftunum leiftra marglitir dropasteinsstuðlar úr gifskalki, og skrautbeðjur í tréskurði.

Vinstra megin við aðgöngumiðasöluna er höll Karls V í formföstum endurreisnarstíl, reist á síðari hluta 16. aldar í algerri þverstæðu við hina márísku höll. Þar er nú sagnfræðisafn og listasafn.

Aftan við aðgöngumiðasöluna er hallarkastalinn, Alcazaba, langelzti hluti svæðisins, frá 9. öld. Úr hæsta turni kastalans er frábært útsýni yfir Alhambra, Granada og Sierra Nevada.

Gengið er meðfram höll Karls V til að komast í márísku höllina, Palacio árabe, sem er að mestu leyti frá 14. öld. Þar förum við um hvern salinn á fætur öðrum. Sumir eru undir þaki, en aðrir eru undir berum himni. Víða veita gluggar útsýni yfir borgina. Frægasti salurinn undir þaki er Sendiherrasalur, Sala de Embajadores. Frægustu opnu salirnir eru Myrtuviðargarður, Patio de los Arrayanes; og Ljónagarður, Patio de los Leones. Umhverfis þá tvo garða er Alhambra skipulögð.

Genaralife

Aftan við Ljónagarð er gengið út í garða Alhambra, Jardínes del Partal, sem teygja sig með bunulækjum og appelsínulundum eftir fellsbrúninni í átt til Torre del Agua, þar sem við taka garðar sumarhallarinnar Generalife. Þar eru langar gönguleiðir, girtar kýprusvið og lárvið, í átt til lítillar hallar frá 14. öld. Þessar viðartegundir blómstra í júlí og ágúst, en yfirgengilegt blómaskrúðið er að öðru leyti mest í maí. Frá Generalife er gott útsýni til Alhambra.

Alhambra er, ásamt Generalife, opin 9:30-20 alla daga, -20:30 og 22-24 þriðjudaga, fimmtudaga og laugardaga. Mjög mikill ágangur ferðamanna er um hásumarið.

Capilla Real

Gengið er inn í dómkirkjuna, Catedral de Santa María, eftir göngustíg frá aðalgötunni Vía de Colón. Hún er frá 16. og 17. öld, byrjaði í gotneskum stíl, en var að mestu reist í endurreisnarstíl. Hún er með fimm kirkjuskipum. Hringlaga höfuðkapella í miðri kirkju er sérstök í sinni röð og átti að vera eftirlíking af Grafarkirkju í Jerúsalem.

Til hliðar við dómkirkjuna er Konungskapella, Capilla Real, í síðgotneskum stíl frá upphafi 16. aldar. Þar eru grafin Ferdinand og Ísabella, sem unnu endanlegan sigur yfir Márum hér í Granada og sameinuðu þar með Spán undir kaþólskri stjórn. Inn í kapelluna er gengið frá Vía de Colón um stíginn meðfram gömlu kauphöllinni, Lonja. Framan við kapelluna, það er að segja handan hennar, er ráðhús frá 18. öld í hlaðstíl. Kapellan og dómkirkjan eru opnar 10:30-13 og 16-19, -18 á veturna.

Ef genginn er stígurinn framhjá kapellunni er Alcaisería á vinstri hönd. Það er gamli silkimarkaðurinn frá márískum tíma. Þar er nú ferðamannabazar, með löngum röðum smábúða undir þaki. Þar er líka veitingahúsið Sevilla. Við hinn enda Alcaisería er helzta markaðstorgið í borginni, Plaza de Bibarrambla.

Cartuija

Á einni hæðinni ofan við Granada er Karthúsingaklaustur, Cartuija. Þar inni má sjá einna fullkomnustu mynd hins kúrríkska skrautstíls, sem víðast hvar annars staðar rann út í ofhlæði. Cartuija er opið 10-13 og 16-19, -18 á veturna.

Malaga

Frá Granada förum við beina leið yfir fjöllin og niður á Costa del Sol og komum til strandar við Almunécar. Við ökum ströndina um Nerja, þar sem hellirinn er, til Malaga, sem er síðasta áfangastaður Andalúsíuferðarinnar.

Parador de Gibralfaro

Ofan við Malaga eru tvö samtengd virki, Alcazaba og Gibralfaro, með ágætu útsýni yfir höfnina í Malaga. Í Alcazaba er márískt listasafn, en utan í Gibralfaro er eitt af kastalahótelum Spánar, Parador de Gibralfaro, með 12 herbergjum. Þaðan höfðum við útsýni beint ofan í nautaatshring borgarinnar og höfnina. Í veitingasalnum var boðið upp á hefðbundna Malaga-rétti. Tveggja manna herbergi kostaði 10.000 pts. (Parador de Gibralfaro, sími (52) 22 19 03)

Antonio Martín

Nothæf veitingahús í Malaga eru helzt í hnapp saman milli nautahrings og strandar. Við Maestranza eru Taberna del Pintor á nr. 6 og Nuevo Bistrot á nr. 16. Við Vélez Málaga 8 er Café de París. Niðri við ströndina, rétt hjá hinum matstofunum, er bezti staðurinn, Antonio Martín. (Antonio Mart-ín, Paseo Marítimo 4, s. (52) 22 21 13)

1991

© Jónas Kristjánsson

Madrid Barcelona

Ferðir

Barcelona er höfuðborg Katalúníu og hafnarborg við Miðjarðarhafið, önnur stærsta borg Spánar, með tæplega tveimur milljónum íbúa. Hún er mesta kaupsýslu- og bankaborg Spánar, miklu stríðari og spenntari en Madrid, líkari Norður-Evrópu, tengiliður Spánar við meginálfuna.

Fólk vinnur í Barcelona, en lifir í Madrid. Í Barcelona hangir fólk minna á kaffihúsum og flýtir sér meira á götunum. Þótt umferðaræðarnar séu mun víðari í Barcelona og breiðgötur skeri miðborgina kruss og þvers, er umferðin þar mun þyngri en í Madrid. Á annatímum virðist bílaþvagan standa nokkurn veginn í stað um allan miðbæ.

Þar sem uppgangur borgarinnar var mestur um og upp úr aldamótum, eru mörg fræg hús í borginni frá þeim skamma tíma, er ungstíll, það er Art Nouveau eða Jugendstil, fór eins og eldur í sinu um Evrópu. Því má sjá í Barcelona bankahallir, sem minna á draumóra úr ævintýrum, gerólíkar þunglamalegum bankakössum annars staðar í álfunni.

Katalúnska er víðast hvar að leysa kastilísku af hólmi í Barcelona. Hún er töluvert ólík kastilísku, undir meiri áhrifum af nábýlinu við Provence í Frakklandi. Ef leigubílar eru lausir, stendur ekki lengur “libre” í framglugganum, heldur “lliure”.

Ný götuskilti á katalúnsku eru sem óðast að koma upp. Matseðlar eru í vaxandi mæli á katalúnsku. Í safni Joan Miró eru skýringar ekki á því, sem við þekkjum sem spönsku, heldur á heimatungunni. Allt bendir til, að spönsku verði smám saman rutt til hliðar í höfuðborg Katalúníumanna.

Gamla hverfið í miðbænum, Barri Gòtic, er sérstaklega skoðunarvert.

Hótel

Colón

Góða hótelið í miðborg Barcelona er Colón, frábærlega í sveit sett, andspænis dómkirkjunni. Colón er eina fjögurra stjarna hótelið, sem er beinlínis í gömlu, gotnesku borgarmiðjunni. Það er hóflega stórt, 160 herbergja, fremur gamaldags, en hefur að mestu verið endurnýjað að innanverðu. Mörg herbergin eru í ljósum blómalitum. Gott herbergi með útsýni til dómkirkjunnar kostaði 16.500 pts. Flest hótel í þessum gæðaflokki taka miklu meira fyrir gistinguna. (Colón, Avenída Catedral 7, s. 301 14 04, fax 317 29 15, telex 52654, C3)

Regencia Colón

Að baki hótelsins Colón er yngri systir þess, Regencia Colón, töluvert ódýrari og minni, 55 herbergja. Það hefur líka verið gert upp og meðal annars sett inn loftkæling, sem ekki var áður. Herbergi nr. 557 er mjög snoturt og fínlegt, með litlum svölum með útsýni til turns konungshallarinnar. Í þessu herbergi er blómaveggfóður eins og hjá eldri systur handan hornsins, svo og gömul húsgögn í góðu viðhaldi. Baðherbergið er vel flísað og var í góðu lagi. Þægilegt starfsfólk lífgaði tilveruna enn frekar. Verð tveggja manna herbergis var 9.800 pts. Þetta er óskaverð á óskastað. (Regencia Colón, Sagristans 13-17, sími 318 98 58, fax 317 28 22, telex 98175, C3)

Metropol

Annað hótel, jafnvel enn notalegra, líka í gotneska miðbænum, er Metropol, 68 herbergja hótel, 300 metrum sunnan við ráðhústorgið, Plaça Sant Jaume. Þar fengum við afar fínt herbergi, nr. 404, með risastóru og glæsilegu baðherbergi, sem saman mynda U kringum lítið port. Baðherbergið er allt lagt í marmara. Húsgögnin í herberginu eru með hinum vönduðustu, sem ég hef séð í hótelherbergi á Spáni. Meðal húsgagna er skrifborð í fullri stærð. Allt var sem spánnýtt í herberginu. Verðið var 9.500 pts. (Metropol, Ample 31, sími 315 40 11, fax 319 12 76, B4)

Suizo

Ef ekki er pláss á ofangreindum hótelum, má notast við Suizo, sem er lítið 48 herbergja hótel við lítið torg í gamla bænum, rétt hjá hinum hótelunum, 200 metrum frá dómkirkjunni. Það er að vísu orðið nokkuð þreytulegt og ekki nógu vel ryksugað. Herbergi nr. 211 er lítið, búið gömlum húsgögnum, sæmilega virðulegum. Svalir snúa út að rólegri hliðargötu. Baðherbergið er flísalagt og í góðu lagi. Verðið var 10.200 pts. Betri herbergi fengust á 13.200 pts. (Suizo, Plaça del Ángel 12, sími 315 41 11, fax 315 38 19, telex 97206, C4)

Veitingar

Katalúnía

Katalúnía hefur löngum verið menningarafl á Spáni. Einkum var það áberandi um og eftir aldamótin síðustu, þegar margir frægustu listamenn Spánar voru Katalúníumenn eða fluttust þangað til að njóta hins frjálsa borgarlofts. Hér bjuggu Pablo Picasso, Joan Miró, Gaudí, Salvador Dalí og Pablo (Pau) Casals. Á tímum falangista var Katalúníu haldið niðri, en eftir dauða Francos og endurnýjun lýðræðis hefur Katalúnía verið á fullri ferð í átt til aukins sjálfræðis, eigin menningar og auðsöfnunar.
Frá Katalúníu koma zarzuela, sem er blanda sjávarrétta, og bullabesa, sem er sjávarréttasúpa í stíl við hina frönsku bouillabaisse, en þó mun bragðsterkari. Skötuselur (rape) er vinsæll. Einn þjóðarrétta Katalúna er crema catalana, mjólkurbúðingur með karamelluskorpu.
Katalúnía er land cava, freyðivíns, sem er framleitt á sama hátt og franskt kampavín. Freyðivín er víða selt á gangstéttum í Barcelona og á sérstökum Xampanyerias-börum. Vín frá Katalúníu eru að jafnaði ekki eins góð og vín frá Rioja, en eru á uppleið, einkum vín frá héraðinu Penedès.

Neichel

Við tökum Neichel með í hóp veitingahúsanna, þótt það sé ekki í miðbænum. Það er bezti matsalur Barcelona og einn þriggja beztu veitingastaða á Spáni. Það er í háskóla- og fótboltavallarhverfinu vestarlega í bænum, falið í götubotnlanga að baki sundlaugar. Borðað er í látlausum og veggmyndalausum sal, sem er fremur kuldalegur, áður en hann fyllist af fólki. Stórir gluggar veita útsýni til sítrónutrjáa í garðinum. Þjónusta var svo góð, að ég hef aldrei séð kveikt í Havanavindli með annarri eins nákvæmni og hjá einum þjóninum. Ólíkt öllum öðrum beztu veitingastöðum landsins ráða hér ekki Baskar ríkjum, heldur Elsassmaðurinn Jean-Louis Neichel, sem eldar að nýfrönskum hætti. Kona hans, Evelyne Neichel, stjórnar í sal. Við prófuðum mjög góða skeljasúpu (sopita de cigalas y centollo); enn betri humar og túnfisk í eggaldini (esqueixada de atún al limón verde y bogavante con caviar de berengenas); frábæran sæskegg í skorpu með skógartíndum sveppum og sveppasoði (croustillant de salmonete y hortalizas en un fumet de setas de bosque); góðan eplakraumís (granizado de manzanas verdes y coulis de frutas silvestres); mjög góðar kjötsneiðar af Limousin-nauti (lomo de buey del Limousin en escalopas a las cinco pimientas aromáticas); og eftirrétti af vagni (la caravana de los finos postres). Þegar búið var að velja eftirréttina af vagninum, var farið með vagninn fram, þar sem Neichel bjó til listaverk úr því, sem valið var. Verð fyrir tvo var 15.000 pts. (Neichel, Avenída de Pedralbes 16 bis, sími 203 84 08, fax 205 63 69, lokað sunnudaga)

El Túnel

Innst í þröngu húsasundi við hliðina á hótelinu Metropol er falinn El Túnel, einn af beztu matstöðunum í gamla bænum. Þetta litla veitingahús hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá 1923. Þar eldar Virgilio Casado og býður hefðbundna rétti frá Katalúníu í samræmi við val hráefna á markaði dagsins. Fjölmennir meðal gesta eru tryggir hópar heimamanna. Innréttingar eru virðulegar í aldamótastíl, með vönduðum harðviðarpanil langt upp á veggi. Við prófuðum afar gott hrásalat með svartsveppum og gæsalifur (ensalada de judía verde con fois gras y trufas); ágæta tómatsúpu með góðum fiski (sopa de pescados con su rouille); mjög góðan kola grillaðan (lenguado pieza grille); grillaða þykkvalúru (turbot planche); afar góða eplatertu (tarta Tatin); og ís með súkkulaðisósu (biscuit). Meðal annarra sérgreina kokksins eru kið (cabrito), lýsingur (merluza) og mjólkurbúðingur með karamelluskorpu (crema catalana). Þríréttað fyrir tvo kostaði 8.500 pts. (El Túnel, Ample 33, sími 315 27 59, lokað sunnudagskvöld, mánudaga, BC4)

Agút d’Avinyó

Í öðru þröngu húsasundi rétt hjá ráðhústorginu, Plaça Sant Jaume, er falið annað af beztu veitingahúsum gamla bæjarins, Agút d’Avinyó. Það er óvenjulega fallega innréttaður staður með borðkrókum hér og þar á ýmsum pöllum. Samanlagt er staðurinn meðalstór, en leynir á sér, því að fá borð eru í hverju skoti ?Ä@ð tröppum og handriðum út um allt. Hátt er til lofts, feiknastór veggmálverk frá aldamótum og allt fullt af forngripum. Hér snæða stjórnmála- og kaupsýslumenn og aðrir fastagestir í hádeginu í góðu yfirlæti hjá Mercedes Giralt veitingastjóra. Matreiðslan er í hefbundnum Katalúníustíl. Við prófuðum sitt lítið af hverju; góða humarsúpu (sopa di bogavante) með ristuðum brauðmolum; kjúklinga- og grænmetisbollu með skinkuteningum; plokkaðan saltfisk (bacalao) afar góðan; ágæta rækju (langostinos) í ostahlaupi; góðan fisk og skelfisk í sterkri tómatsósu; rauðsprengt kálfakjöt; pönnusteikta lambakótilettu lélega; gott andakjöt (pato); ýmsa góða eftirrétti og skógartínd jarðarber, sem voru mjög góð. Þríréttað fyrir tvo kostaði 10.500 pts. (Agút d’Avinyó, Trinitat 3 / Avinyó 8, sími 302 60 34, B4)

El Gran Café

Við sömu götu, Avinyó, handan við hornið, er skemmtilegt veitingahús, El Gran Café. Hátt er þar til lofts og hluti borðanna er uppi á svölum. Innréttingar eru í nýstíl aldamótanna, með miklum gluggum, speglum, ljósakrónum og ljósastyttum. Staðurinn getur orðið mjög rómantískur á kvöldin, þegar leikin er málsverðartónlist á slaghörpu. Matreiðslan er ekki eins góð og á stöðunum, sem nefndir hafa verið hér að framan, en eigi að síður frambærileg, hefðbundin að katalúnskum hætti. Við prófuðum edikslegnar saltfiskflögur með stórum, hvítum baunum, góðan rétt (amanida de bacalla marinat); rækjur og lifrarkæfu á salati (amanida de tofones i llagostins); vel steikt nautakjöt með tómatsósu (filet d´Ávila a la vinagreta); og lélega nautasteik á teini (burxets de filet al oporto); ostatertu og ágæta eplatertu. Meðal sérgreina staðarins er sveppasalat með hráskinku (salade di robellons con jabugo serrano). Þríréttað fyrir tvo kostaði 11.000 pts. (El Gran Café, Avinyó 9, sími 318 79 86, lokað í laugardagshádegi og sunnudaga, B4)

Cuineta

Aftan við dómkirkjuna er búið að skíra Bona Cuina upp á nýtt, svo að staðurinn heitir nú Cuineta, eins og systurstaðurinn handan við hornið, í þrönga göngusundinu Paradiso, á nr. 4 í 17. aldar húsi. Sami matseðill er á báðum stöðum, en umhverfi öllu skemmtilegra og þjónusta öllu betri hérna megin, við Pietat. Þetta er afar fallegur, lítill staður, hlaðinn harðviði og gleri upp eftir öllum veggjum, svo og forngripum, því að eigendur eru forngripasalar. Gestir sitja í þægilegum armstólum á fínu teppi og fá þurrt sérrí meðan þeir skoða matseðilinn. Við prófuðum góðan, ostbakaðan spergil með skinku (espárragos gratinados); mjög góða kæfu hússins með fíkjum (pate higos); afar góðan og bragðmildan saltfisk hússins með spínati og rúsínum (bacalao Cuineta); góðan kola grillaðan (lenguado plancha); búðing með rjóma og kiwi; svo og ricotta-ost með hnetum og hunangi. Þríréttað fyrir tvo kostaði 10.000 pts. (Cuineta, Pietat 12, sími 315 41 56, C4)

Seynor Parellada

Nálægt gamla borgarmúrnum, steinsnar frá hótelinu Suizo, er Seynor Parellada, stór og hávaðasamur veitingastaður, einfaldur í sniðum og þó vingjarnlegur, tiltölulega ódýr. Þar gengur herra Parellada sjálfur um og sér um, að gestir hafi það eins gott og þeir vilja. Í hádeginu er matstofan þétt setin kaupsýslumönnum úr nágrenninu. Matreiðslan er hefðbundin. Við fengum okkur góðar, næfurþunnar laxasneiðar úr legi (carpaccio); afar gott saltfisksalat (esqueixada con escalibada); 10 litla smokkfiska, mjög góða (calamars); góðan lýsing grillaðan; frysta froðu og ís. Meðal sérgreina hússins er saltfiskur (bacalao con samfaina). Þríréttað fyrir tvo kostaði 6.000 pts. (Seynor Parellada, Argentería 37, sími 315 40 10, lokað sunnudaga, C4)

Siete Puertas

Stutt frá Seynor Parellada, niðri við höfnina, er ákaflega stór og fjörugur matsölustaður á franska vísu, jafnan yfirfullur af fólki. Það er Siete Puertas, stofnaður fyrir rúmlega hálfri annarri öld, eitt af einkennistáknum borgarinnar. Setið er á litlum stólum og löngum bekkjum undir panil- og flísaveggjum. Í lofti eru riÄð enn frekar. Antonio Roca kokkur er beztur í hrísgrjónaréttum, svo sem sardínum á hrísgrjónum (arroz de sardinas) og pælu. Við prófuðum nokkuð saltan saltfisk í tómat (esqueixada); góðan spergil (espárragos); góða, ofnsteikta þykkvalúru (rodaballo); ágæta pælu hússins (paella parellada); ís með heitri súkkulaðisósu (biscuit); og ískraum með rúsínum (sorbete de orujo con pasas). Þríréttað fyrir tvo kostaði 8.500 pts. (Siete Puertas, Passeig d’Isabel II -14, sími 319 30 33, C5)

Brasserie Flo

Skammt vestur af Katalúníutorgi er einn af allra beztu matstöðum miðbæjarins, Brasserie Flo, stór og hávaðasamur, glaðlegur og fjörugur. Við innganginn eru ostrur til sýnis, vinsælar á þessum stað. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja, miklar ljósakrónur og súlur. Á veggjum eru fjöldamörg, gömul plaköt innrömmuð og háir speglar. Mikið er um fastagesti úr fjölmiðlaheiminum og óperugesti, enda er staðurinn opinn fyrir matarpantanir til kl. 1 að nóttu. Matreiðslan er fransk-katalúnsk eins og innréttingarnar. Við fengum okkur kalda humarsúpu, frekar daufa (crema de bogavante); ostbakaðar ostrur í kampavíni, mjög góðar (ostras al cava); afar góðar nautalundir (solomillo de buey) í of sterkri sósu; einnig mjög gott dádýrakjöt (filet mignon de ciervo) með rúsínum, perum og ákaflega sterkri sósu; góðan búðing með karamelluskorpu (crema catalana); og ferska ávexti góða (macedonia de frutas). Þríréttað fyrir tvo kostaði 8.500 pts. (Brasserie Flo, Junqueres 10, sími 317 80 37, C2)

Quo Vadis

Quo Vadis er gamalgróinn og tiltölulega einfaldur matsalur með góðum mat og góðri þjónustu í hliðargötu út af La Rambla, rétt við Palacio de la Virreina. Hann er oft opinn fyrir matarpantanir til kl. 2 að nóttu fyrir óperugesti, enda er Liceo rétt hjá. Stutt er að sækja vandað hráefnið, því að matvælamarkaður miðbæjarins, Boquería, er rétt hjá veitingahúsinu. Matreiðslan er meðal hinna beztu í miðborginni. Við prófuðum sex mismunandi sveppi, sem ekki voru á seðlinum, sérstaklega góða; nokkuð góða blöndu af ýmsu grænmeti í olíu; rækjur, egg, fisk og saltfisk í olíu á afar heitri pönnu, mjög góðan rétt; sérstaklega góða fisk- og sjávarréttablöndu í mildri tómatsósu; góða osta; og blöndu ferskra berja og ávaxta. Þríréttað fyrir tvo: 10.000 pts. (Quo Vadis, Carme 7, s. 302 40 72, lokað sunnudaga, B3)

Göngur

Plaça de Catalunya

Við hefjum gönguferðina um gömlu Barcelona á Katalúníutorgi, Plaça de Catalunya (B2), sem er miðtorg borgarinnar. Það er stórt, með gosbrunnagarði í miðju. Við austurhlið þess er vöruhúsið El Corte Inglés. Við göngum meðfram vöruhúsinu og áfram niður göngugötuna Portal de l’Ángel. Smám saman þrengist gatan og endar á Plaça Nova, þar sem dómkirkjuturnar blasa við.

Catedral de Santa Eulalia

Á vinstri hönd okkar er nútímalegt hús með stórri lágmynd eftir Picasso, sem sýnir Katalúna dansa þjóðdans sinn, Sardana. Framundan eru tveir turnar, leifar vesturports rómverska borgarmúrsins frá 4. öld. Hægra megin turnanna er biskupshöllin, Palau Episcopal, og vinstra megin er hús erkidjáknans, Casa de l’Ardiaca, upprunalega frá 11. öld, en endurnýjað á 16. öld.

Catedral de Santa Eulalia var reist á 14. öld og fyrri hluta 15. aldar í gotneskum stíl, en með því katalúnska sérkenni, að kirkjuskipið er aðeins eitt, án hliðarskipa. Inn á milli útveggjastoðanna er skotið ótal smákapellum. Kirkjan var gerð upp á 19. öld og ber að mestu upprunalegan svip. Inni í henni má meðal annars sjá 16. aldar kórhlíf úr hvítum marmara. Hægt er að ganga hægra megin úr dómkirkjunni inn í lítinn og friðsælan klausturgarð frá 15. öld, þar sem gæsir ganga á beit. Kirkjan er opin 7:30-13:30 og 16-19:30.

Skemmtilegast er að vera hér eftir kl. 12 á sunnudögum, þegar Sardana dansinn byrjar framan við dómkirkjuna. Það er katalúnskur hringdans, nokkuð flókinn, sem er eins konar sjálfstæðisyfirlýsing Katalúna. Á tímum Francos var dansinn bannaður og iðkaður í kyrrþey. Nú er hann framinn af aðvífandi kirkjugestum, ungum sem öldnum. Þessi óskipulagða uppákoma hefur jafnan mikil áhrif á ferðamenn. (BC3)

Barri Gòtic

Hér hefst hinn gotneski, gamli hluti miðborgarinnar, Barri Gòtic, með þröngum og krókóttum húsasundum, fullur af kaffihúsum og veitingahúsum. Nafnið stafar af því, að mörg hús í hverfinu eru í gotneskum stíl frá 13.-15. öld.

Við skulum ganga inn sundið Comtes norðan við kirkjuna. Þar er konungshöll Aragóns vinstra megin sundsins, andspænis dómkirkjunni. Þar bjuggu greifarnir af Barcelona, sem urðu kóngar af Aragón eftir 1137. Núna eru þar söfn. Fyrst komum við að listasafninu Museu Frederic-Marès, opið þriðjudaga-laugardaga 9-14 og 16-19, sunnudaga 9-14. Síðan komum við að fornskjalasafninu, sem er í varakonungshöllinni frá endurreisnartíma, Palau del Lloctinent. Hér framundan til hægri er veitingahúsið Cuineta. Við beygjum hins vegar til vinstri og förum inn á konungstorg, Plaça del Rei.

Plaça del Rei

Við sjáum hér frá Plaça del Rei hina hliðina á varakonungshöllinni. Fyrir enda torgsins er Saló del Tinell, hinn gamli 14. aldar veizlu- og hásætissalur hallarinnar, með frægum tröppum fyrir framan, þar sem Ferdinand Aragónskóngur og Ísabella Kastilíudrottning eru sögð hafa tekið á móti Kristófer Kólumbusi, er hann kom frá fyrstu Ameríkuferð sinni.

Yfir Tinell-sal gnæfir Torre del Rei Martí, 16. aldar útsýnisturn með margra hæða súlnariðum. Hægra megin, andspænis varakonungshöllinni, er konungskirkjan Capella de Santa Agata, gotnesk kirkja frá 14. öld. Suðaustan við torgið, andspænis Tinell-sal, er Casa Clariana Padellòs, 16. aldar hús. Þar og í öðrum mannvirkjum umhverfis torgið er borgarsögusafnið til húsa, Museu d’Història de la Ciutat, opið þriðjudaga-föstudaga 9-20:30, laugardaga-sunnudaga 9-13.30. (C3)

Við göngum áfram suðaustur meðfram Casa Clariana Padellòs og beygjum til vinstri eftir götunni Libreteria, þar sem við komum strax að torginu Plaça de l’Ángel, þar sem hótelið Suizo er. Ef við skreppum norður frá torginu, komum við á Plaça de Ramón Berenguer el Gran, þar sem við sjáum Capella de Santa Agata frá hinni hliðinni, þar sem hún er reist utan í og ofan á gamla borgarmúrnum utan um Barri Gòtic.

Museu Picasso

Við förum frá Plaça de l’Ángel yfir götuna Laietana og göngum eftir Princesa, unz við komum að sundinu Montcada, þar sem við beygjum til hægri. Þessi gata með gróðurbeðjum á svölum var þegar á 12. öld hverfi höfðingjanna í bænum. Aðalshallirnar þar eru frá 13. til 18. öld. Nú er þar Picasso-safnið til húsa í þremur höllum, á nr. 15-19, opið 10-20, lokað mánudaga, C4. Við komum þar fyrst inn í forgarð, sem er dæmigerður fyrir katalúnskar borgarhallir af þessu tagi. Þetta safn er eitt hið merkasta í borginni og er það við hæfi, því að Picasso lærði að mála í Barcelona, kom hingað 15 ára gamall. Andspænis Picasso-safninu er fatatízkusafnið Museu de tèxtil i de la Indumentària.

Plaça Sant Jaume

Við göngum beinustu leið til baka eftir Princesa, yfir Laietana og áfram eftir götunni Jaume unz við komum inn á borgartorgið Plaça Sant Jaume (BC4). Þar er stjórnarráð Katalúníu á hægri hönd og ráðhús Barcelona á vinstri hönd. Stjórnarráðið er mikil höll frá 15. öld, Palau de la Generalitat. Ráðhúsið á móti er frá 14. öld, Ajuntament. Við skulum ganga eftir sundinu Calle Bisbe Irurita meðfram stjórnarráðinu að dómkirkjunni, sem við vorum áður búin að skoða. Á leiðinni er skemmtileg göngubrú í gotneskum stíl yfir sundið milli húsanna Generalitat og Canonges, þar sem eru skrifstofur formanns stjórnarráðsins. Í þessum höllum er stjórn Katalúníu önnum kafin við að efla sjálfstæði svæðisins gagnvart miðstjórnarvaldinu í Madrid.

Við erum nú komin aftur að dómkirkjunni og getum gertð öðrum kosti röltum við eftir göngusundunum og kynnum okkur Barri Gòtic í návígi. Ef við förum eftir sundunum Gegants og Avinyó, göngum við framhjá veitingahúsunum Agut d’Avinyó og El Gran Café. Við tökum almennt stefnuna til suðausturs og endum niðri við höfn. Á leiðinni förum við yfir götuna Ample, þar sem er hótelið Metropol og veitingastaðurinn El Túnel.

Moll de la Fusta

Niðri við höfn förum við yfir Passeig de Colom út á Moll de la Fusta, sem er pálmum skrýtt göngusvæði við lystisnekkjuhöfnina. Við förum þessa leið til hægri, í áttina að Monument a Colom, súlunni miklu, þar sem efst trónir stytta af Kristófer Kólumbusi (A5). Hægt er að fara upp súluna í lyftu og njóta útsýnis í góðu veðri. Torgið umhverfis styttuna heitir Plaça Portal de la Pau.

Í höfninni fyrir framan, undir höllinni Port Autonom, liggur oft eftirlíking í fullri stærð af Santa María, karavellunni, sem flutti Kólumbus í fyrstu Ameríkuferðinni. Vestar á hafnarbakkanum er tollbúðin, virðuleg höll, en landmegin er gamla skipasmíðastöðin í borginni, Drassanes, frá 14. öld, heimsins eina dæmi sinnar tegundar iðnaðarhúsnæðis frá þessum tíma. Þar er nú viðamikið siglingasafn, Museu Marítim, opið þriðjudaga-föstudaga 10-14 og 16-19, laugardaga-sunnudaga 10-14.

La Rambla

Hér við Monument a Colom er suðurendinn á La Rambla, helztu röltgötu borgarinnar. Hún liggur héðan til Plaça de Catalunya, þaðan sem við hófum göngu okkar. Við förum eftir henni miðri, þar sem er löng og mjó eyja með platantrjám, blómabúðum, fuglabúðum, kaffihúsum og blaðsöluturnum, en bregðum okkur inn í sumar hliðargötur.

Fyrst komum við að vaxmyndasafninu til hægri í Museu de Cera, á horninu við þvergötuna Passatge Banca. Síðan lítum við til vinstri inn í þvergötuna Carrer Nou de la Rambla, þar sem eitt af húsum Gaudís er rétt við hornið. Það er Palau Güell, virkishús með auðþekkjanlegum skreytingum úr smíðajárni og hefur að geyma leikhúsminjasafn (A4). Á þessum slóðum er Kínahverfið í borginni, Barri Chino, þar sem mikið er um hórur og vasaþjófa.

Plaça Reial

Andspænis götunni, hinum megin við La Rambla, er þvergatan Carrer Colom, sem liggur að lokuðu göngutorgi, Plaça Reial (B4). Það er heildarteiknað torg í stíl við Plaza Mayor í Madrid, með skuggsælum súlnagöngum og kaffihúsum allt um kring. Á þessu torgi hittast frímerkjasafnarar og myntsafnarar á sunnudagsmorgnum. Á nóttunni eru hér rónar og fíkniefnaneytendur, sem geta valdið óþægindum.

Nokkru norðar á La Rambla komum við vinstra megin að Gran Teatre del Liceu, á horni þvergötunnar Sant Pau. Það er borgaróperan, byggð 1846, með risastórum áhorfendasal, en lætur lítið yfir sér að utanverðu (AB4).

Plaça del Pi

Andspænis Liceu liggur þvergatan Cardenal Casanas á ská til norðurs að torgunum Plaça del Pi og Plaça Sant Joseph Oriol undir kirkjunni Mare de Déu del Pi. Á þessum torgum er einn af flóamörkuðum borgarinnar. Þar eru líka oft uppákomur í listum. Norður af Plaça del Pi er heilmikið hverfi verzlana með göngugötum undir þaki, eins konar bazar á austræna vísu, en hreint og fágað á vestræna vísu (B3).

La Boqueria

Við förum til baka eftir Cardenal Casanas til La Rambla og höldum áfram eftir þeirri götu. Til vinstri komum við að höfuðinngangi matvælamarkaðarins í Barcelona. Það er Mercat de Sant Josep, öðru nafni La Boqueria, stálgrinda- og glerhús í ungstíl frá 19. öld (B3). Þar eru stórfenglegar breiður af girnilegum ávöxtum, grænmeti, fiski, skeldýrum og kjöti. Þetta er bezt að skoða á morgnana, því að markaðurinn fjarar út síðdegis.

Næst komum við, líka til vinstri, að Palau de la Virreina. Þar bjó á nýlendutímanum varakonungurinn af Perú, en nú hýsir höllin ýmis söfn og sýningar.

Við höldum áfram eftir eyjunni á miðri La Rambla, göngum fram hjá platantrjám, blómabúðum, fuglabúðum, kaffihúsum og blaðsöluturnum, ef til vill einnig mótmælagöngum, og erum komin til Katalúníutorgs, þar sem við hófum þessa miklu gönguferð.

Passeig de Gracìa

Norður frá Katalúníutorgi er gatan Passeig de Gracìa norður um nýja miðbæinn frá því rétt fyrir síðustu aldamót. Þetta var þá helzta og fínasta íbúðahverfi borgarinnar, Eixample, og er nú helzta og fínasta verzlunarhverfi hennar. Á breiðum gangstéttum Gracìa eru oft smakktjöld framleiðenda freyðivíns, sem bjóða gestum og gangandi upp á glas af cava, einkennisvíni Katalúníu.
Við þessa götu eru líka merk hús, einkum eftir arkitektinn Gaudí. Hægra megin, á nr. 41 og 43 eru hlið við hlið litskrúðug húsin Casa Amatller frá 1900 eftir Josep Puigi Cadafalch í flæmskum stílbrigðum og Casa Batlló, frá 1905 eftir Gaudí, auðþekkjanlegt af bylgjuðum svölum og bjúgu þaki (B1). Nokkru norðar, vinstra megin, á nr. 92, er Casa Milà eða La Pedrera, frá 1905, eftir Gaudí, sjóveikislega bylgjulaga með furðusmíðum á þaki.

Öll þessi hús eru í róttækri útgáfu af ungstíl eða nýstíl aldamótanna, sem hafði meiri áhrif í Barcelona en í flestum öðrum borgum Evrópu.

Sagrada Família

Ef við beygjum inn þvergötuna við Casa Milá, komum við fljótlega að einkennistákni borgarinnar, umdeildri höfuðsmíði arkitektsins Gaudí. Það er kirkjan Temple Expiatori de la Sagrada Família. Byrjað var að reisa hana fyrir rúmri öld, en hún er enn ekki fullsmíðuð, en turnarnir mörgu, með marglitum mósaíktoppum, rísa í óskipulegri reisn yfir görðunum í kring. Ekki er hægt að lýsa þessu furðuverki í texta. Það tekst betur með ljósmynd, en bezt er þó að koma á staðinn, standa undir berum himni í kirkjuskipinu og horfa upp til turna Gaudís.

Héðan má taka leigubíl og skreppa til Parc Güell. Það er skemmtigarður, sem er teiknaður af enn hinum sama Gaudí. Upphaflega átti þetta að vera hverfi 60 garðíbúða, en aldrei varð af því. Eftir stendur skemmtigarðurinn með Hans og Grétu piparkökuhúsum og skrautlegum hleðslum af ýmsu tagi, draumaheimur fyrir börn á öllum aldri.

Parc de la Ciutadella

Austan við gamla miðbæinn er mikill garður, Parc de la Ciutadella, þar sem heimssýningin var haldin árið 1888 og þar sem nú er vinsælt að fara í sunnudagsgöngur. Syðst í garðinum er dýragarður borgarinnar, fremur þægilegur garður á nútíma vísu, og fyrir norðan hann er nýlistasafn borgarinnar, Museu d’Art Modern, aðallega með verkum katalúnskra listamanna. Í garðinum er líka þinghús Katalúníu. Milli garðsins og hafnarinnar er uppfylling, þar sem er að rísa ólympíuþorpið fyrir árið 1992.

Montjuïc

Vestan við miðbæinn er fjallið Montjuïc. Gott er að fá sér leigubíl upp eða fara með kaðallyftu, en ganga niður. Efst uppi er hernaðarsafnið, Museu Militar. Þaðan er mikið útsýni yfir borgina, höfnina og hafið. Fyrir neðan safnið er tívolí-garður með margvíslegum leiktækjum, svo sem Parísarhjóli.

Þar er líka nýlegt safn, Fundació Joan Miró, þar sem sýnd eru verk katalúnska nútímalistamannsins Miró. Safnhúsið er hið frumlegasta að allri hönnun, opið þriðjudaga-föstudaga 11-20, laugardaga-sunnudaga 11-14:30.
Á leiðinni niður komum við næst að svæðinu, þar sem ólympíuleikarnir 1982 verða haldnir. Þar er stóri ólympíuleikvangurinn og margir aðrir keppnisvellir af ýmsu tagi.

Neðan við þetta svæði er Palau Naçional, sem stendur virðulega frammi á fjallsbrún. Þessi mikla höll var reist vegna heimssýningarinnar í Barcelona árið 1929. Þar er til húsa eitt stærsta safn miðaldalistar í heiminum, Museu d’Art de Catalunya, opið 9-14, lokað mánudaga. Í brekkunum austan við höllina eru fornminjasafnið, Museu Arqueològic, opið þriðjudaga-laugardaga 9:30-13 og 16-19, sunnudaga 9:30-14, og þjóðfræðisafnið, Museu Etnològic, opið þriðjudaga-laugardaga 9-20:30 og sunnudaga 9-14.

Poble Espanyol

Í brekkunum vestan við höllina er eins konar Árbær, Poble Espanyol. Þar hafa verið reistar nákvæmar eftirlíkingar af spönskum húsum, raðað saman eftir landshlutum. Þar má til dæmis finna Katalúníuhverfi, Kastilíuhverfi og Andalúsíuhverfi. Í húsunum eru verzlanir, listiðnaðarverkstæði og veitingastofur. Á kvöldin eru oft ýmsar sýningar, til dæmis dansar, svo og tónleikar og kvöldvökur. Poble Espanyol er opið frá 9 á morgnana fram yfir miðnætti.

Frá Palau Naçional liggja voldugar tröppur niður brekkuna, inn á milli sýningarhalla kaupstefnunnar í Barcelona, og niður á Spánartorg, Plaça d’Espanya. Þar er gaman að snúa sér við og virða fyrir sér mikilúðlegt útsýnið upp til Palau Naçional.
Handan við Spánartorg er einn helzti nautaatshringur borgarinnar, í márískum stíl eins og svo margir nautaatshringir á Spáni. Á bak við hringinn er Parc Joan Miró með stórri höggmynd eftir listamanninn.

Héðan tökum við leigubíl niður í bæ. Skoðun Barcelona er lokið að sinni.

Costa Dorada

Frá Barcelona er stutt að fara um ströndina Costa Dorada til Sitges, 30 kílómetrum sunnan borgarinnar. Þar er strönd og kaffihúsalíf og skemmtilega gamall miðbær.

Lengri ferð má fara suður um ströndina til Tarragona, sem er 100 kílómetrum sunnan við Barcelona. Tarragona er gamall Rómverjabær með miklum fornleifum frá þeim tíma, þar á meðal hringleikahúsi og borgarmúr. Miðbær Tarragona er frá miðöldum.
Einnig er stutt að heimsækja fjallaklaustrið Montserrat, 60 kílómetrum frá borginni. Þar er fjölbreytt landslag.

Costa Brava

Einnig má fara norður um ströndina Costa Brava, sem er ein fegursta strönd Spánar, með klettum í sjó fram og sandvíkum á milli. Þar er bærinn Gerona, 100 kílómetrum norðan Barcelona, með skemmtilegum miðbæ frá miðöldum, hinum bezt varðveitta á öllum Spáni.

1991

© Jónas Kristjánsson

Madrid inngangur

Ferðir

LEIÐSÖGURIT

FJÖLVA

JÓNAS KRISTJÁNSSON

ritstjóri

MADRID

og merkisborgir Spánar

Leiðsögurit fyrir

íslenzka ferðamenn

Við höfum lesið mikinn fjölda leiðsögubóka fyrir ferðamenn og okkur fundizt þær að ýmsu leyti takmarkaðar.

Við höfum lesið bækurnar, sem ekki taka tillit til, að mikill hluti ferðamanna ver nokkrum hluta tímans á hóteli og í veitingahúsum og hefur þess á milli töluverðan áhuga á að skemmta sér og líta í búðarglugga, en er ekki allan sólarhringinn að skoða söfn og merka staði. Við viljum taka tillit til þessa og reyna að semja raunsæja bók.

Við höfum líka lesið bækurnar, sem leggja dóm á hótel, veitingahús, verzlanir og skemmtistaði, en eru þá fremur að þjónusta þessar stofnanir en lesendur. Við teljum svo eindregið, að upplýsingar af því tagi eigi að vera óháðar, að við prófuðum allar þessar stofnanir og komum hvarvetna fram sem venjulegir gestir, greiðandi almennt og afsláttarlaust verð og gáfum okkur ekki fram fyrr en að reikningum greiddum. Á þann hátt teljum við mestar líkur á, að reynsla lesenda muni koma heim og saman við þá reynslu, sem hér er lýst.

Þá höfum við skoðað bæklinga hótela, veitingahúsa og ferðamálaráða og fundizt myndirnar falsaðar. Innanhúss eru þær stúdíoteknar og sýna ekki raunveruleikann, hvað þá þegar þær eru teknar í hótelsvítu, en viðskiptavinurinn fær venjulegt herbergi. Utanhúss er beðið dögum saman eftir réttri birtu og réttu birtuhorni og myndirnar sýna ekki þungskýjaðan raunveruleika ferðamannsins.

Við höfnuðum öllum gjafamyndum af slíku tagi, tókum okkar eigin og teljum þær gefa raunhæfari mynd en glansmyndir áróðursbæklinga.

Jónas Kristjánsson og Kristín Halldórsdóttir

Inngangur

Flestir þekkja Costa del Sol, Costa Brava eða Benidorm, enda er þessi bók ekki um þá valinkunnu staði. Handan við sólarstrendur er til annar Spánn, gamall menningarheimur, sem hefur gengið í endurnýjun lífdaganna á nýfengnum lýðræðistíma. Þessi bók er skrifuð fyrir ferðamenn, sem vilja kynnast ánægjulegum raunveruleika utan við ágæta ferðamannaþjónustu sólarstranda. Við munum í yfirreið okkar bæði skoða frjálslegan nútíma og fjölbreytta menningarsögu.

Suma staðina í þessari bók er auðvelt að skoða með því að fá sér bílaleigubíl frá Costa del Sol eða Costa Brava. Aðra er auðvelt að skoða með því að láta eftir sér að taka flugvél frá sólarströnd inn til höfuðborgarinnar í Madrid og gista þar tvær eða þrjár nætur. Þeir, sem ætla að fljúga með Iberia til Spánar geta fengið lítt takmarkað flug innanlands í 60 daga á Spáni fyrir $250, ef þeir panta það fyrirfram.

Spánn er skagi, sem löngum hefur staðið sér á parti í Evrópu, en samt í þjóðbraut. Fyrir ritöld voru þar gamlar þjóðir vesturevrópskar, svo sem Íberar og Keltar. Grikkir og síðan Karþagó-menn náðu tímabundnum áhrifum, en Rómverjar náðu góðum tökum á skaganum og gerðu að helzta hornsteini ríkis síns, sóttu meira að segja þangað fræga keisara, skáld og heimspekinga.

Vestgotar komu á þjóðflutningatímanum. Síðan tóku Márar við, héldu völdum í átta aldir, gerðu Spán að menningarmiðstöð íslams og skildu eftir sig djúp spor og minjar. Síðan hefur verið strangkaþólskur tími á Spáni í fimm aldir. Á 16. öld, tíma landafundanna, var Spánn voldugasta ríki heims. Þá dreifðist spönsk tunga um mestan hluta rómönsku Ameríku. Í lok valdaskeiðs Francos fyrir hálfum öðrum áratug var Spánn fátækt og fyrirlitið afturhaldsríki, en hefur með innreið lýðræðis brunað í átt til velsældar.

Spánn er ekki eitt land, heldur mörg lönd. Þungamiðjan er landlokað kastalalandið Kastilía, sem hefur gefið ríkinu aðalsættirnar og tungumálið, sem við köllum spönsku, en aðrir Spánverjar kalla kastilísku. Í suðri er glöð og fátæk Andalúsía með márískum áhrifum frá Afríku. Við Miðjarðarhafið eru dugnaðarlöndin Katalúnía og Valensía með sérstökum tungumálum, sem minna á suðurfrönsku. Í norðri eru Galisía og Euzkadi, sem hvort um sig hafa eigið tungumál. Galisíska minnir á portúgölsku, og euskera, baskatunga, stendur alein út af fyrir sig í heiminum, ein af óleysanlegum gátum veraldarsögunnar.

Ef greina á Spánverja frá öðrum Evrópumönnum, má segja, að þeir séu sjálfmiðjaðir stjórnleysingjar. Frá blautu barnsbeini eru þeir vanir að tjá sig sem einstaklinga, fremur en að gefa og þiggja upplýsingar og skoðanir. Þeir hemjast illa í félagsskap, og á kaffihúsum tala allir í einu. Þeir eru hrokafullir og vingjarnlegir í senn, þrasgjarnir og gjafmildir, sérstaklega barngóðir. Og þeir eiga gnótt listamanna.

Bankar

Flestir bankar eru opnir 9-14 mánudaga-föstudaga og 9-13 laugardaga. Sumir opna fyrir erl. gjaldeyri 17-19.

Dagblöð

International Herald Tribune er víða fáanlegt. El País er spánskt blað, sem hefur mikið af erlendum fréttum.

Ferðir

Skrifstofur ferðamálaráðs, Oficina de Turismo, er á Plaza Mayor 3, símar 221 12 68 og 266 48 74 og á Princesa 1 (Plaza de España), sími 241 23 25.

Flug

Barajas-flugvöllur er 13 kílómetra frá miðbænum, símar 205 40 90 og 205 83 84. Leigubíll þangað kostar um 1.100 peseta og tekur ferðin hálftíma. Fljótlegra er að fara í lest en í loftkældum strætisvagni, sem fer á 20 mínútna fresti frá Plaza de Cólon og er þrjá stundarfjórðunga á leiðinni.

Framköllun

Víða í miðbænum er unnt að fá framkallað og kóperað á hálftíma.

Hótel

Á Barajas-flugvelli og á járnbrautarstöðvunum Atocha og Chamartin er ferðamönnum útvegað hótelherbergi. Pantaðu herbergi með “twin beds”, því að þau eru oft stærri en herbergi með “double bed”. Herbergi með útsýni eru oft ekki dýrari en önnur herbergi.

Krítarkort

Ef þú hefur glatað krítarkorti, er heima svarað allan sólarhringinn í 354-1-68 54 99 fyrir Eurocard og í 354-1-67 17 00 fyrir Visa.

Kvartanir

Ef þú ert óánægður með frammistöðu hótela eða veitingahúsa, getur þú krafizt kvörtunareyðublaðs (hoja de reclama-ciones) í þríriti, sem slíkum stofnunum ber að eiga. Krafa um slíkt leysir oft vandamál, því að kvartanir ferðamanna eru teknar alvarlega.

Leigubílar

Leigubílar eru á sérstökum biðstöðvum og einnig er unnt að veifa í þá á götunni. Ef þeir eru lausir, hafa þeir grænt ljós á þaki og skilti í framglugga með orðinu “libre”. Þeir nota gjaldmæla. Álag er á ferðir til og frá flugvelli og fyrir ferðatöskur.

Lyfjabúð

Lyfjabúðir (“farmacia”) eru opnar 9-14 mánudaga-laugardaga og 16-20 mánudaga-föstudaga. Á þeim er yfirleitt vísað á næstu lyfjabúð á næturvakt. Þær mega selja ýmis lyf án lyfseðils.

Löggæzla

Hringdu í neyðarsímann 091 hvar sem er á Spáni.

Peningar

Á Spáni er 1, 5, 25, 50 og 100 peseta klink og 100, 500, 1.000 og 5.000 peseta seðlar. Flest hótel og veitingahús taka bæði Eurocard og Visa.

Póstur

Pósthús eru venjulega opin 9-13 mánudaga-laugardaga og 17-19 mánudaga-föstudaga, en aðalpósthúsið í Madrid er opið til miðnættis.

Rafmagn

Rafmagnsspenna er sama og hér heima, 220 volt, en sums staðar á hótelum er þó eldra, 120 volta kerfi.

Ræðismenn

Aðalræðismaður Íslands í Madrid er í Eurobuilding, Oficina 15, sími (1) 457 89 84. Í Barcelona: Cerdena 229-237, Sobreatico Tercera, sími (3) 232 58 10. Ræðismaðurinn í Benidorm er í Casa Las Flores, local 13, Avda. Mediterranée 2/n, sími (65) 85 08 63. Í Bilbao: San Vicente 6, Apartado 250, sími (4) 423 06 79. Í Las Palmas: Leon y Castillo 244, Oficina 209, sími (28) 23 04 60. Í Malaga: Paseo Maritimo 25, sími (52) 22 17 39. Í Valencía: Plaza Porta de la Mar 4, sími (6) 351 72 75. Í Palma de Mallorca er vararæðismaður í Vía Alemania 2-10, sími (71) 29 10 88.

Salerni

Salerni eru í kaffihúsum, veitingahúsum, söfnum og stórverzlunum. Víða þarf að borga salernisverði þjórfé.

Samgöngur

Annatímar á götunum og í neðanjarðarlestinni eru 8-10, 13-14, 16-17, 19:30-20:30. Neðanjarðarlestin er hreinleg og fljótvirk, en getur orðið heit á sumrin.

Sendiráð

Ekkert sendiráð er á Spáni, en ræðismenn eru víða, sjá “Ræðismenn”.

Sími

Myntsímar eru víða, til dæmis á börum og kaffihúsum. Milli borga á Spáni er tölustafnum 9 bætt framan við svæðisnúmerið. Til Íslands er hringt fyrst í 07 til að fá millilandasamband, beðið eftir sóni, síðan í 354 fyrir Ísland og loks svæðisnúmer og símanúmer í einni bunu. Landsnúmer Spánar er 34, svæðisnúmer Madrid er 1, Barcelona 3 og Sevilla 5.

Sjúkrabíll

Hringdu í 252 32 64 eða 227 20 21.

Sjúkrahús

Almennur neyðarsími heilsugæzlu í Madrid er 061. Slysa- og neyðarspítali í Madrid er t.d. Urgencia Médica, Barco 26, sími 531 88 47.

Slys

Almennur slysasími í Madrid er 092.

Slökkvilið

Hringdu í síma 232 32 32.

Vatn

Kranavatn er drykkjarhæft, en margir nota vatn af flöskum til öryggis.

Veitingar

Veitingahús eru yfirleitt opin fyrir matarpantanir 13:30-16 og 21-24. Mörg eru lokuð í ágúst og sum sunnudaga. Leiðsögumenn og hótelpúrtnerar reyna yfirleitt að benda þér á hús, sem gefa þeim prósentu af viðskiptum.

Verðlag

Verðlag hér í bókinni er frá áramótum 1990-1991. Verðbólga er svipuð og hér á landi. Liðinn er sá tími, þegar Spánn var ódýrt land.

Verzlun

Verzlanir eru yfirleitt opnar 9-13/14 mánudaga-laugardaga, 16:30/17-19:30/20 og jafnvel lengur mánudaga-föstudaga. Stórverzlanir eru opnar samfellt yfir daginn, líka laugardaga.

Þjórfé

Þjónusta er innifalin í reikningum veitingahúsa. Sumir skilja eftir klink til viðbótar. Burðarmenn fá 50 peseta fyrir töskuna.

Öryggi

Notaðu ekki handtöskur. Hafðu peninga í fremri buxnavösum eða í belti innan klæða. Notaðu plastkort sem mest. Hafðu skilríki ekki á sama stað og peninga. Skildu ekki eftir verðmæti í hótelherbergjum eða í læstum bílum.

1991

© Jónas Kristjánsson

Róm gisting

Ferðir

Í hverjum áningarstað er gisting frumþörf ferðamannsins. Ef við búum ekki hjá vinum, eru hótelin hið fyrsta, sem við þurfum á að halda í ókunnri borg. Við byrjum því leiðsögnina um Róm á hótelunum.

Rómversk hótel eru yfirleitt hreinleg og hafa allan búnað í lagi, þar á meðal pípulagnir, ef þau eru þriggja eða fleiri stjörnu að opinberu mati, en sum tveggja stjörnu hótel geta líka verið mjög góð, þótt ekki sé sjónvarp í herbergjum. Sjálfsagt þykir orðið, að baðherbergi fylgi hverju herbergi. Hér verður aðeins vikið að gistingu, þar sem rykugur ferðamaður getur þvegið sér í eigin baðkeri og sturtu.

Í flestum tilvikum setjum við líka það skilyrði, að sími sé í herberginu með beina línu úr húsi. Ennfremur viljum við, að þreyttir ferðamenn hafi um nætur sæmilegan svefnfrið í herbergjum sínum. Þá viljum við helzt hafa loftkælingu, en hún er því miður víða ekki í nógu góðu lagi, þar á meðal á fínum hótelum. Síðast en ekki sízt finnst okkur nauðsynlegt, að hótelið sé í miðborginni, svo að ekki þurfi að verja miklum tíma í hótelferðir og svo að stutt sé að fara í síðdegislúrinn að suðrænum hætti.

Hér verður sagt frá nokkrum völdum hótelum, sem hafa reynzt okkur vel á undanförnum árum. Þau eru í ýmsum verðflokkum, allt frá L. 80.000 fyrir tvo án morgunverðar, upp í L. 590.000 fyrir tvo án morgunverðar. Ef þau uppfylla ekki eitthvert ofangreindra skilyrða, er það sérstaklega tekið fram í textanum um þau.

Við reynum að losna við morgunverð, því að á ítölskum hótelum er hann yfirleitt lítilfjörlegur að frönskum hætti. Miklu bragðbetra og ódýrara er að fá sér sterkt og gott kaffi og nýbakað smjördeigshorn, cornetto, úti á götuhorns-kaffihúsi, eins og heimafólk gerir. Í flestum tilvikum er morgunverður þó innifalinn í verði, af því að þannig er verðið skráð.

Öll hótelin prófuðum við veturinn 1991-1992 til öryggis, því að allt er í heiminum hverfult. Við prófuðum líka önnur hótel, sem við getum ekki mælt með, af því að okkur fannst þau ekki standast samkeppni við hin, hvert í sínum gæðaflokki.

Við byrjum á þremur draumahótelum og tökum síðan önnur gæðahótel í verðröð, það dýrasta fyrst og það ódýrasta síðast.

Gregoriana

Eitt þriggja uppáhaldshótela okkar í Róm er stílhreint og smekklegt 19 herbergja Gregoriana í gömlu smáklaustri í hliðargötu ofan við Spánartröppur, 200 metrum frá tröppunum. Það er svo vinsælt, að ráð er að panta þar með löngum fyrirvara. Þar búa frægar tízkusýningardömur, þegar sýningar eru í Róm, enda gneistar hótelið af hreinlæti og huggulegheitum. Herbergin eru merkt bókstöfum, en ekki tölustöfum.

Herbergi nr. F er afar heimilislegt, ljóst og bjart, með svölum út að frið- og gróðursælum garði. Allur búnaður er stílhreinn í ljósrauðum lit. Þar eru bambusviðarstólar, skatthol, ruggustóll og þykkt teppi. Herberginu fylgir mjög stórt baðherbergi með mjúku blómaveggfóðri, meira að segja yfir baðkeri. Verðið var L. 220.000 með morgunverði. Plastkort voru ekki tekin.

(Gregoriana, Via Gregoriana 18, sími 67.94.269, fax 67.84.258)

Condotti

Annað uppáhaldshótel okkar í Róm er hið pínulitla, 19 herbergja Condotti í göngugötu í tízkubúðahverfinu neðan við Spánartröppur, 200 metrum frá tröppunum. Það er nýlega uppgert í hólf og gólf og er orðið mun notalegra en það var áður. Starfsfólk var einkar þægilegt og kunni svör við spurningum.

Herbergi nr. 102 er stórt og notalegt, nútímalega innréttað í bláu klæði, bleiku harðplasti og ljósri furu, skipt með skápi í svefnhluta og setukrók með djúpum sófa. Allur búnaður í herbergi og í fullflísuðu baðherbergi er mjög fínn og allt afar hreinlegt. Verðið var L. 204.000 með morgunverði.

(Condotti, Via Mario de’Fiori 37, sími 67.94.661 og 67.90.484, telex 611217, fax 67.90.457)

Carriage

Rétt hjá Condotti er þriðja uppáhaldshótelið, ekki síður vel sett og vel búið, þótt það láti lítið yfir sér að utanverðu. Það er 27 herbergja Carriage á friðsælu horni, aðeins 100 metrum frá Spánartröppum. Þetta er einkar persónulegt hótel með miklu af forngripum úti um allt. Meðal þeirra er hótelbar, sem áður var altari í 17. aldar kirkju. Starfsfólk hótelsins var til fyrirmyndar.

Herbergi nr. 102 er vel búið fornum húsgögnum, þar á meðal sérkennilega þríhyrndum fataskáp, fallegu skattholi og síma í aldamótastíl. Baðherbergi er fullflísað og í góðu lagi. Verðið var L. 210.000 með morgunverði.

(Carriage, Via delle Carrozze 36, sími 67.94.106 og 67.93.152, telex 626246, fax 67.88.279)

Hassler

Eitt fínasta hótel heims er Hassler Villa Medici, sem er beint ofan við Spánartröppur, við hlið kirkjunnar Trinità de’Monti. Það er fremur lítið hótel af slíkum að vera, aðeins 100 herbergja. Það er afar smekklega innréttað, nánast eins og sveitasetur, enda er andrúmsloftið afslappað, þótt þetta sé í miðri stórborg. Rólegheitin voru einum of mikil, því að það tók óratíma að fá farangurinn upp á herbergi. Morgunverður er borinn fram í veitingasal á efstu hæð, þaðan sem er frægt útsýni yfir gamla miðbæinn í átt til Péturskirkju.

Herbergi nr. 523 er fínasta hótelherbergi, sem við höfum gist. Það er nánast íbúð, með anddyri, setukrók, risabaðherbergi og stórum svefnsal. Allt er í ljósum, björtum litum. Gamli tíminn kemur fram í loftbitum og veggsúlum yfir rúmi, svo og veggmálverkum yfir rúmi og baðkari. Miklir speglar eru á veggjum og hnausþykk teppi á gólfi. Næturgrindur glugganna eru vélknúnar. Þykk handklæði og sloppar eru í baðherbergi. Verðið var L. 590.000 án morgunverðar.

(Hassler, Piazza Trinità de’Monti 6, sími 67.82.651, telex 610208, fax 67.89.991)

Raphaël

Raphaël er mjög fínt, 85 herbergja þingmannahótel að baki norðurenda Piazza Navona, undir öryggiseftirliti nótt sem nýtan dag. Þar býr meðal annarra Bettino Craxi, formaður ítalska sósíalistaflokksins, þegar þingið starfar. Friðsælt hótelið er vafið klifurvið og lítur út eins og vin við lítið torg með nokkrum trjám. Það er mikið stemmningshótel, fullt af fornminjum og nýtízkulegum listaverkum um alla sali og ganga. Hótelinu fylgir þakgarður með góðu útsýni. Starfsfólk var sérstaklega liðlegt.

Herbergi nr. 104 er afar vel búið, með parkettgólfi, afstæðis-málverkum, risavaxinni kommóðu og stórum gluggum út að torginu. Baðherbergi er mjög vandað, meðal annars búið baðsloppum. Verðið var L. 360.000 með morgunverði.

(Raphaël, Largo Febo 2, sími 65.08.81, telex 622396, fax 68.78.993)

Inghilterra

Rétt neðan við Spánartröppur í miðju höfuðhverfi tízkuverzlana er Inghilterra, hið hefðbundna hótel rithöfunda og menningarvita í Róm allar götur frá 1850. Í þessari 105 herbergja höll við lítið torg á göngugötusvæði bjuggu H. C. Andersen, Anatole France, Ernest Hemingway, Henry James og Alec Guinness. Hótelið hefur verið vandlega gert upp, en fornir munir og búnaður hafa haldið sér.

Herbergi nr. 138 er fremur lítið, vel búið, með mjúku veggfóðri, ósamstæðum húsgögnum í gömlum og notalegum stíl. Baðherbergið er marmaraklætt og einkar vel búið, þar á meðal sloppi. Verðið var L. 302.000 án morgunverðar.

(D’Inghilterra, Via Bocca di Leone 14, sími 67.21.61, telex 614552, fax 68.40.828)

Forum

Forum er virðulegt, 81 herbergis hótel beint yfir Fori Imperiali, með góðu útsýni yfir lýðveldistorgið Forum Romanum að keisarahæðinni Palatinum. Þetta er höll frá endurreisnartíma, byggð úr grjóti frá Forum Romanum. Niðri eru fallegir salir með brezkum innréttingum í Játvarðsstíl. Á efstu hæð er morgunverðarsalur með góðu útsýni. Góð þjónusta var veitt í anddyri.

Herbergi nr. 205 er stórt og gott, með alvöruskrifborði, hægindastól, parkettgólfi, fínum smáteppum og ljósum veggjum með gömlum málverkum. Baðherbergið er mjög vel búið. Verðið var L. 300.000 með morgunverði.

(Forum, Via Tor de’Conti 25, sími 67.92.446, telex 622549, fax 67.86.479)

Cardinal

Cardinal er við hina þekktu göngugötu, Via Giulia, í gamla miðbænum, rétt við Tiburfljót, vel búið forngripum. Þetta 73 herbergja hótel er gamall herragarður frá því um 1400 og var einu sinni borgardómþing. Salirnir niðri eru glannalega klæddir dulúðugu og kardínálsrauðu veggfóðri, en víða er látið sjást í beran múr eða steina frá Forum Romanum, svo sem bak við sérstæðan hótelbarinn. Hótelið er byggt utan um ferhyrndan garð.

Herbergi nr. 216 var orðið fremur þreytulegt, með slitnu og flögnuðu veggfóðri. En það er stórt, búið gömlum og virðulegum húsgögnum og hefur sérstaka skrifstofu framan við svefnstofu. Verðið var L. 238.000 með morgunverði.

(Cardinal, Via Giulia 62, sími 65.42.710 og 65.42.787, telex 612373)

Scalinata di Spagna

Eitt minnsta og skemmtilegasta hótel, sem við þekkjum í Róm, er 14 herbergja Scalinata di Spagna, beint fyrir ofan Spánartröppur, andspænis Hassler hóteli. Það er fallega búið fornum munum og heimilislegum, lítur raunar út eins og gömul sveitakrá.

Herbergi nr. 3 er lítið og skemmtilega hornskakkt, búið gömlum og notalegum munum, þar á meðal skattholi og peningahólfi. Loftið er gamalt smáreitaloft með máluðum blómum í reitunum eins og í gamalli, íslenzkri kirkju. Berar vatnsleiðslur eru utan á veggjum og gömul ljósakróna í lofti. Baðherbergi er lítið, en þó með sturtuklefa. Verðið var L. 214.000 með morgunverði.

(Scalinata di Spagna, Piazza Trinità de’Monti 17, sími 67.93.006 og 68.40.896, fax 68.40.598)

Columbus

115 herbergja Columbus er afar vel í sveit sett fyrir þá, sem mestan áhuga hafa á Péturskirkju og Vatíkansöfnunum. Það er við aðalgötuna upp að Péturstorgi, 150 metrum frá torginu, í rúmlega fimm alda gamalli kardínálahöll, Palazzo dei Penitenzieri, sem um tíma var klaustur, kuldalega strangt að ytra útliti. Höllin var byggð á 15. öld fyrir Domenico della Rovere kardínála, sem síðar varð Julius II páfi, og hefur mikið af upprunalegum búnaði og veggmálverkum í setustofum inn af anddyri. Morgunverður var aldraður og þjónninn fúll eftir því. Starfsfólk í anddyri var hins vegar mjög liðlegt.

Herbergi nr. 446 er mjög stórt og mjög vandað að öllum búnaði í gömlum stíl, með steindum gluggum, fínu teppi og mjúku veggfóðri. Baðherbergið er fullflísað, með gamaldags útbúnaði í góðu lagi. Verðið var L. 210.000 með morgunverði.

(Columbus, Via della Concialiazione 33, sími 68.65.435, telex 620096, fax 68 64 874)

Duca d’Alba

Duca d’Alba er lítið og notalegt, nýtízkulega innréttað, 25 herbergja hótel í gömlu húsi við lítið torg í Suburra, hinu fornfræga skuggahverfi upp af Fori Imperiali, 500 metrum frá hinum fornu rústum höfuðtorga heimsveldistíma borgarinnar. Þetta svæði er eins og sveitaþorp í borgarmiðju.

Herbergi nr. 201 er afar fallega innréttað í grænum litbrigðum, með vönduðum húsgögnum og mjúku veggfóðri, allt sem nýtt sé. Loftræsting er óvenju góð og baðherbergi mjög gott. Verðið var L. 190.000 með fremur góðum morgunverði.

(Duca d‘Alba, Via Leonina 14, sími 48.44.71 og 48.47.12, telex 620401, fax 46.48.40)

Fontana

Fontana er 28 herbergja hótel í 13. aldar miðaldaklaustri beint á móti fossaföllum Trevi brunns. Það er afar lítið áberandi að utanverðu, aðeins einar dyr, merktar HF. Mörg herbergi hafa skemmtilegt útsýni að brunninum og iðandi ferðamannlífinu í kringum hann, en eru full hávaðasöm til langdvalar. Hótelinu fylgir þakgarður. Góð þjónusta var veitt í anddyri.

Herbergi nr. 207 er mjög lítið, en snyrtilegt, með blágrænu blómaveggfóðri og stálhúsgögnum, litlu og vel búnu baðherbergi. Útsýni úr glugganum að brunninum er frábært, en fossaniðurinn bergmálaði í loftinu, þegar glugginn var opinn. Ekki er bein símalína úr herberginu. Verðið er L. 181.000 án morgunverðar.

(Fontana, Piazza di Trevi 96, sími 67.86.113 og 67.91.056)

Colosseum

200 metrum frá Santa Maria Maggiore og stutt frá aðaljárnbrautarstöðinni og Colosseum er samnefnt, 49 herbergja hótel í fremur nýlegu húsi með góðu útsýni frá efri hæðum, meðal annars til Colosseum. Það býr yfir virðulegri setustofu til hliðar við anddyri.

Herbergi nr. 74 er sjálft mjög lítið, en með breiðum svölum, þar sem eru sólstólar og borð og útsýni gott. Það er búið afar vönduðum húsgögnum í gömlum stíl, þar á meðal skattholi. Sjónvarp er þar ekki. Baðherbergi er fullflísað og í góðu lagi. Verðið var L 159.000 með morgunverði.

(Colosseum, via Sforza 10, sími 48.27.228 og 48.27.312, telex 611151, fax 48.27.285)

Campo de’Fiori

Lítið og notalegt hótel er í gamla bænum við þrönga götu, sem liggur út frá markaðstorginu Campo de’Fiori, og heitir eftir torginu, enda bara 10 metrum frá því. Það hefur aðeins 27 herbergi, enga lyftu, en skemmtilegan þakgarð með útsýni til allra átta. Morgunverður er snæddur í speglasal í kjallara, sem er rómantísk stæling á fornu musteri.

Herbergi nr. 106 er nokkuð stórt, háreist og hreinlegt, sérkennilega rómantískt innréttað með múrhleðslu í veggjum og þaksteinum yfir baðherbergi og gangi, svo og hlöðnu steinariði yfir rúmi. Hvorki er þar sjónvarp né bein símalína út. Baðherbergið er lítið, en fallega flísað og vel búið, með sturtuklefa. Verðið var L. 140.000 með morgunverði. Plastkort voru ekki tekin.

(Campo de’Fiori, Via del Biscione 6, sími 68.74.886 og 65.40.865)

Cesàri

Cesàri er sögufrægt, 50 herbergja hótel rétt við þinghúsið og Piazza Colonna í gamla bænum, 10 metrum frá Corso. Það státar af samfelldum hótelrekstri í nærri þrjár aldir og sérstöku leyfisbréfi páfa frá 1787. Þar gistu meðal annars sjálfstæðishetjurnar Garibaldi og Mazzini og margir þekktir rithöfundar. Þá þótti það með fínni hótelum borgarinnar, en nú er það í hópi hinna ódýrari, það þriðja ódýrasta í þessari bók. Niðri er notalegur bar, sem margir þekkja.

Herbergi nr. 20 er einfalt í sniðum, með gólfdúki og gömlum húsgögnum, dálítið skældum. En allt er hreinlegt og í góðu lagi, nema loftkælingin er þreytuleg og rúmið með gömlu gormasniði. Þröngt baðherbergi er sómasamlegt. Verðið var L. 134.000 með morgunverði.

(Cesàri, Via di Pietra 89a)

Portoghesi

Portoghesi er þekkt smáhótel með 27 herbergjum í þeim hluta gamla bæjarins, þar sem göturnar eru þrengstar og undnastar, 200 metrum frá Piazza Navona, við hlið kirkjunnar Sant’Antonio. Á þessum slóðum er endurreisnartíminn einna nálægastur í Róm nútímans, enda er andspænis hótelinu einn gömlu aðalsmannaturnanna, Torre dei Frangipane. Til þess að komast í morgunverðarstofu, sem er uppi á þaki, þarf að fara úr lyftunni upp stuttan stiga, sem er utan á húsinu.

Herbergi nr. 83 er lítið, en vel búið nokkuð slitnum húsgögnum, blómaveggfóðri og teppi á gólfi. Verðið var L. 120.000 með morgunverði, hið næstlægsta í þessari bók.

(Portoghesi, Via dei Portoghesi 1, sími 68.64.231, fax 68.76.976)

Piccolo

Piccolo er skemmtilegt hótel í gamla bænum, mitt á milli Campo dei Fiori og Largo di Argentina. Það er pínulítið, telur aðeins 15 herbergi, sum ekki með baði. Það hefur ekki lyftu og býður ekki morgunverð, svo að gestir fara út á næsta horn til að fá sér nýtt cornetto eða skinkubrauð og gott kaffi í morgunverð fyrir lítinn pening. Þetta er ódýrasta hótel, sem ég þekki frambærilegt í Róm.

Herbergi nr. 8 er stórt, með aukarúmi og skrifborði, flísagólfi og rósaflúri í ábreiðum, hvorki sjónvarpi né beinni símalínu út.

Baðherbergið er fullflísað og vel búið. Verðið var L. 80.000 án morgunverðar.

(Piccolo, Via dei Chiavari 32, sími 65.42.560)

1991

© Jónas Kristjánsson

Madrid Madrid

Ferðir

Madrid hefur á hálfum öðrum áratug breytzt úr friðsælu stórþorpi í fjörugustu höfuðborg Vesturlanda. Fólkið í Madrid hefur tekið nýfengið lýðræði og frelsi með slíku trompi, að því er líkast sem það sé að vinna upp hálfrar aldar kúgun á valdatíma Francos. Miðbærinn er á fullum dampi frá morgni til morguns. Barir og kaffihús eru alltaf meira eða minna þétt skipuð gestum. Það er rétt svo, að göturnar róist milli 5 og 7 á morgnana. Á móti hvílir fólk sig milli 14 og 16 á daginn.

Movida kalla heimamenn þetta hraðgenga fyrirbæri. Allt er keyrt á fullu, bæði vinna og skemmtun, og lítill tími er aflögu til svefns. Rannsóknir sýna, að í Madrid sofa menn minna en í öðrum höfuðborgum Vesturlanda. Frjálslyndið er svo mikið, að víða má sjá fólk koma í veitingahús og skemmtistaði eftir miðnætti með smábörn í vöggu.

Madrid er ekki bara fjörugusta höfuðborg Evrópu, heldur líka sú hæsta, í 646 metra hæð yfir sjávarmáli, með þrjár milljónir íbúa. Nafn borgarinnar er frá Márum, sem kölluðu hana Magerit. Árið 1083 náðu kristnir menn henni af íslömum. Hún varð af tilviljun höfuðborg árið 1561, þegar Habsborgarinn Filippus II ákvað að reisa konungshöllina El Escorial. En hún var áfram sóðalegt þorp enn um skeið.

Borgin fékk ekki höfuðborgarbrag fyrr en með valdatöku Búrbóna á 18. öld. Þeir byggðu konungshöllina og málverkahöllina Prado og lögðu breiðstræti og garða um borgina. Með opnun nýrra listasafna er Madrid orðin ein helzta lista- og menntaborg heimsins.

Gisting

ð er gisting frumþörf ferðamannsins. Ef við búum ekki hjá vinum, eru hótelin hið fyrsta, sem við þurfum á að halda í ókunnri borg. Við byrjum því leiðsögnina um Madrid á hótelunum.

Spönsk hótel eru yfirleitt hreinleg og hafa allan búnað í lagi, þar á meðal pípulagnir, ef þau eru þriggja eða fleiri stjarna að opinberu mati, en sum tveggja stjarna hótel geta líka verið mjög góð, þótt ekki sé sjónvarp í herbergjum. Sjálfsagt þykir orðið, að baðherbergi fylgi hverju herbergi. Hér verður aðeins vikið að gistingu, þar sem rykugur ferðamaður getur þvegið sér í eigin baðkeri og sturtu.

Í öllum tilvikum setjum við líka það skilyrði, að sími sé í herberginu með beina línu úr húsi. Ennfremur viljum við, að þreyttir ferðamenn hafi um nætur sæmilegan svefnfrið í herbergjum sínum. Þá viljum við helzt hafa loftkælingu, en hún er því miður víða ekki í nógu góðu lagi, þar á meðal í fínum hótelum.

Síðast en ekki sízt finnst okkur nauðsynlegt, að hótelið sé í miðborginni, svo að ekki þurfi að verja miklum tíma í hótelferðir og svo að stutt sé að fara í síðdegislúrinn að spönskum hætti.

Hér verður sagt frá nokkrum völdum hótelum, sem hafa reynzt okkur vel á undanförnum árum. Þau eru í ýmsum verðflokkum, allt frá 4.700 pts fyrir tvo án morgunverðar, upp í 32.000 pts fyrir tvo án morgunverðar.

Öll hótelverð eru hér gefin upp án morgunverðar, því að á spönskum hótelum er hann yfirleitt lítilfjörlegur að frönskum hætti. Miklu bragðbetra og hagkvæmara er að fá sér gott kaffi og nýbakað smjördeigshorn úti á götuhorns-kaffihúsi, eins og heimafólk gerir.

Öll hótelin prófuðum við veturinn 1990-1991 til öryggis, því að allt er í heiminum hverfult. Við prófuðum líka önnur hótel, sem við getum ekki mælt með, af því að okkur fannst þau ekki standast samkeppni við hin, hvert í sínum gæðaflokki. Sum fjögurra stjarna hótel eru raunar mun lakari en sum tveggja stjarna hótel.

Palace

Lúxushótelin í miðborginni eru tvö, Ritz og Palace, sem horfast á yfir torgið Cánovas del Castillo. Ritz þykir heldur fínna og þar búa sendiherrarnir, enda kostar tveggja manna herbergi 62.000 pts, eitthvert hæsta verð í Evrópu. Á 500 herbergja Palace kostar tveggja manna herbergi 32.000 pts, sem ætti að vera nóg samt.

Palace er þingmannahótelið í Madrid, enda er spánska þingið, Cortes, handan götunnar Carrera de San Jeronimo. Prado listasafnið er svo handan götunnar Paseo del Prado. Palace er réttu megin við þá götu, það er að segja miðbæjarmegin, en Ritz utanmegin. Palace er hð sjá en Ritz. Þar eru líka mjög fínar og víðáttumiklar setustofur á neðstu hæð, þar á meðal hringlaga kaffistofa með gler- og kristalshvolfi. Víða uppi á hæðunum eru setustofur á göngum og við lyftur. Húsið er frá 1912, en hefur nýlega verið endurnýjað eftir ýtrustu kröfum nútímans.

Mörg herbergin eru þó enn í gömlum stíl, þar á meðal nr. 106. Það er fremur stórt, búið virðulegum, póleruðum húsgögnum, leðurstólum og mjög fínu gólfteppi, svo og öllum þægindum. Mikið af speglum og flísum er í stóru baðherbergi. Nokkur hávaði var utan af götunni, en fólk getur líka fengið herbergi, sem snýr að húsabaki.

(Palace, Plaza de las Cortes 7, s. 429 75 51, fax 429 82 66, telex 23903, D4)

Victoria

Í næstu röð miðborgarhótela leizt okkur einna bezt á 200 herbergja Victoria. Það er afar vel í sveit sett, við torgin Plaza del Ángel og Plaza Santa Ana, sem eru hávær þungamiðja helzta gleðskaparhverfis kaffihúsa og drykkjarkráa borgarinnar, rétt sunnan við Plaza Puerta del Sol. Þar bjuggu nautabanar og Hemingway á sínum tíma, en nú hefur það verið gert upp á nýtízkulegan hátt, þótt útlit hússins hafi verið friðað. Niðri er feiknastór og glæsileg stofa.

Mörg herbergin hafa setukrók með hægindastólum við stóra, útbyggða glugga út að öðru torginu, þar á meðal nr. 306. Innréttingar herbergisins eru smekkvíslegar og vandaðar, pláss með allra bezta móti og baðherbergi glæsilegt. Af hinum dýrari hótelum borgarinnar er þetta í mestu uppáhaldi hjá okkur. Verðið var 14.500 pts.

(Victoria, Plaza del Ángel 7, s. 531 60 00, fax 314 31 56, telex 42920, C4)

Liabeny

Annað helzta uppáhaldshótelið okkar í dýrari kantinum í Madrid er 209 herbergja Liabeny, sem er við litla göngugötu í verzlanahverfinu rétt norðan við Plaza Puerta del Sol og rétt sunnan við Gran Vía. Enginn umferðarhávaði er við þetta einkar virðulega hótel. Það er í mexíkanskri eigu og gestir eru margir frá rómönsku Ameríku.

Herbergi nr. 201 er meðalstórt, búið óvenjulega vönduðum húsgögnum. Því fylgir glannalega glæsilegt baðherbergi, lagt marmara og flísum. Verðið var 12.500 pts.

(Liabeny, Salud 3, sími 532 53 06, fax 532 74 21, telex 49024, C3)

Suecia

Í svipuðum gæðaflokki og töluvert dýrara er Suecia, lítið 128 herbergja hótel að baki þinghússins, við umferðarlétt og rólegt torg í hjarta borgarinnar. Þar er skemmtilegur kaffibar uppi á palli inn af anddyri. Í móttökunni er afar notalegt starfsfólk, sem spyr gesti, hvort þeir vilji reyklaust svefnherbergi.

Við báðum um reyklaust og fengum afar fallegt herbergi, en fremur lítið, nr. 201, með pottablómum, sem eru sjaldgæf sjón í hótelherbergi. Það snýr út að torginu, með hljóðheldum gluggum, innréttað í ljósbláum og léttum blóma- og sumarstíl, með miklum speglum. Baðherbergið er glæsilegt. Sum herbergi hótelsins á efstu hæðum hafa enn ekki verið gerð upp og þau ber að forðast. Herbergið kostaði 17.500 pts.

(Suecia, Marqués de Casa Riera 4, sími 531 69 00, fax 521 71 41, telex 22313, D3)

Carlos V

Af meðalverðs-hótelum borgarinnar leizt okkur einna bezt á Carlos V, sem er lítið, 67 herbergja hótel við friðsæla göngugötu í verzlanahverfinu rétt norðan við Plaza Puerta del Sol og rétt sunnan við Gran Vía. Starfslið var mjög glaðlegt og hjálpsamt.
Við fengum gott herbergi, nr. 209, með svölum út yfir göngugötuna, þar sem fiðluleikari og flautuleikari skiptust á um að flytja hina ljúfustu tóna langtímum saman. Þetta er lítið herbergi, en notalegt, með gömlum húsgögnum og snyrtilegu baði. Enskumælandi rás frá Sky var í sjónvarpinu. Herbergið kostaði 9.500 pts.

(Carlos V, Maestro Victoria 5, s. 531 41 00, fax 531 37 61, telex 48547, B3)

Mayorazgo

Mayorazgo er vel staðsett og nothæft, 200 herbergja hótel í svipuðum verðflokki og Carlos V, nokkurn veginn alveg við Gran Vía, í næsta nágrenni Spánartorgs, en þó á kyrrlátum stað. Það er sérkennilega innréttað í kastilískum kastalastíl, bæði á almennum svæðum og inni í herbergjum. Verð gistingar er nokkuð misjafnt.

Herbergiþði 8.500 pts, sneri inn í port og var fremur hljóðbært. Betra er að taka heldur dýrara herbergi, á um það bil 11.000 pts. Herbergi 323 er fremur lítið, en með parketi og fínum teppum, svo og buxnapressu, sem er of sjaldgæf sjón í hótelherbergjum. Baðherbergið er vel búið og lagt marmara.

(Mayorazgo, Flor Baja 3, sími 247 26 00, fax 241 24 85, t.x 456479, B2)

París

Helzta uppáhaldshótel okkar í Madrid er 114 herbergja París. Það er feiknarlega vel staðsett, því að mörg herbergi eru með svölum út að miðtorgi borgarinnar, Plaza Puerta del Sol. Það er líka ódýrt hótel, því að það hefur aðeins tvær stjörnur og tréstiginn er afar slitinn. En ég hef ekki séð hreinlegra, betur bónað eða rykfrírra hótel á Spáni. Sjónvarp er ekki í herbergjum, en sími með beinu sambandi út. Þau herbergi, sem ekki snúa út að torginu, snúa inn í port með blómaskrúði.

Herbergi nr. 221 snýr út að höfuðtorginu, með frábæru útsýni af svölunum yfir lífið, sem er í fullum gangi frá klukkan sjö á morgnana til klukkan fimm á morgnana.

Glerið í gluggunum er tvöfalt og vel hljóðhelt. Parketið á gólfinu var hált af bóni. Baðherbergið er fullflísað og með öllum tækjum í lagi. Þetta herbergi kostaði 6.500 peseta.

(París, Alcalá 2, sími 521 64 96, telex 43448, C3)

Moderno

Nothæft hótel á svipuðu verði, einnig við aðaltorgið, Plaza Puerta del Sol, er 100 herbergja Moderno, en ekki með útsýni yfir torgið. Það er hreinlegt, en á ýmsan hátt þreytulegt, með parketi á göngum og búið góðum og glanspóleruðum húsgögnum í herbergjum, síma, en ekki sjónvarpi. Morgunverður er ekki seldur, en rétt hjá er ein bezta morgunverðarstofa bæjarins, Mallorquina.

Herbergi 412 snýr ekki út að götu, er með parketgólfi og öllum þægindum á baði, en þyrfti málningu á baðloft. Verðið var 6.800 pts.

(Moderno, Arenal 2, sími 531 09 00, fax 531 35 50, B3)

Europa

Ódýrast af hinum frambærilegu hótelum í miðbænum er Europa, sem einnig er við megintorgið, Plaza Puerta del Sol. Þar er ákaflega vingjarnlegt starfsfólk. Sími er í herbergjum, en ekki sjónvarp eða loftkæling.

Ekki er tekið við krítarkortum og ekki er seldur morgunverður, en kaffistofa er við hlið hótelsins. Þau herbergi, sem ekki eru út að götu, snúa inn í snyrtilegt blómaport.

Herbergi nr. 214 er stórt og sérkennilegt í laginu, með setukróki úti við svalir, sem hafa útsýni yfir göngugötu á ská til torgsins. Engin bílaumferð er fyrir framan, en samt er tvöfalt og vel hljóðhelt gler í gluggunum. Baðherbergið er stórt og fullflísað, með öllum pípulögnum í fínu lagi.

Næturgistingin kostaði aðeins 4.800 pts. Miðað við stað og gæði eru þetta beztu kaup í borginni.

(Europa, Carmen 4, s. 521 29 00.C3)

Veitingar

Þar sem Spánverjar borða tvisvar á dag og á undarlegustu tímum, þurfa þeir snarl inn á milli. Það kalla þeir tapas, sem þeir úða í sig á vín- og snarlbörum milli klukkan 13 og 14 á daginn og milli klukkan 20 og 23 á kvöldin, meðan þeir eru að bíða eftir, að tímabært sé að fara í veitingahús. Tapas-barir eru alveg rosalega fjörlegir og hávaðasamir staðir. Snarlið er oft djúpsteikt og fitandi, en sumt er gott, svo sem smokkfiskhringir (calamares), rauðar smápylsur, skarpkryddaðar og áfengisvættar (chorizo), rækjur (gambas og cigalas), skeljar (almejas), ansjósur (anchoas), sniglar (caracoles), ostur (manchego) og hráskinka (jamón serrano).

Þótt Madrid sé inni í miðju landi, er borgin fræg fyrir góða sjávarrétti. Aflinn kemur í flugi á nóttunni frá sjávarplássum við Miðjarðarhaf og Atlantshaf. Kokkarnir fara sjálfir snemma á morgnana á fiskmarkaðinn til innkaupa. Matreiðslan er svo sem ekki betri en á Íslandi, en tegundirnar eru miklu fleiri. Þar eru ostrur (ostras) og ótal skelfiskar (almejas), margar tegundir af rækjum (gambas, cigalas, langostas, langostinos), humar (bogavante), fiskar á borð við þykkvalúru (rodaballo) og kólguflekk (besugo) og hafurriða (merluza). Yfirleitt borgar sig að biðja um einfalda matreiðslu, til dæmis grillun (a la parilla) eða ofnbökun (al horno). Ekki má heldur gleyma saltfiskinum (bacalao), sem er á boðstólum í flestum veitingastofum, þar á meðal hinum beztu, og er langtum betri en við þekkjum heima á Íslandi.

Gagnstætt því, sem margir halda, er hægt að fá mjög góða nautasteik (buey) víðast hvar á Spáni. Ennfremur er þar fjölbreytni í ýmissi villibráð, svo sem dádýrum (corzo og venado), akurhænum (perdiz) og orrum (codorniz). Um slíkar steikur gildir hið sama og um aðra matreiðslu á Spáni, að hún er bezt sem einföldust, grillun (a la parilla) eða ofnsteiking (asado). Hrásteiking er bezt (poco hecho), fremur en miðlungi steikt (regular) eða mjög steikt (muy hecho).

Spánverjar eru mikið fyrir hrísgrjónagrauta, -vellinga og súpur með kanil (arroz con leche). Eftirréttir af því tagi eru í boði víðast hvar og eru mun frumlegri en við þekkjum á Íslandi. Steingrímur Hermannsson ætti að prófa það.

Eitt hið bezta við veitingamennsku í Madrid og raunar víðast hvar á Spáni er kaffið, sem kemur sterkt og gott úr ítölskum kaffivélum. Spánverjar drekka það svart, (café solo). Á morgnana fá þeir sér það stundum mjólkurblandað, (café con leche).

Önnur sérgrein í Madrid eru vindlarnir frá rómönsku Ameríku, þar á meðal frá Kúbu. Hvergi hef ég séð annað eins úrval af allra fínustu vindlum heims, né á jafnlágu verði og á Spáni.
Öll verð hér í bókinni eru fyrir þríréttaða máltíð með glasi af víni eða flöskuvatni, svo og kaffi, allt fyrir tvo.

Vín

Vín eru góð á Spáni, en menn hugsa ekki eins mikið um fræg búgarðsvín og gert er í Frakklandi. Flestir biðja um rauðvín hússins eða þá sérstaklega um vín frá héraðinu Rioja, ef vín hússins er þá ekki þaðan.

Ekkert þykir heldur sjálfsagðara en, að fólk vilji heldur flöskuvatn eða sódavatn með matnum og er því þá hellt í vínglösin, og vatnsflöskurnar eru oftast settar óumbeðið í hvítvínskæliföturnar.

Aðferðir við vínyrkju í Rioja eru runnar frá Frakklandi og víngæðin eru mest þar. Ilmur vínsins minnir á vanillu og eik, en þó í tempraðra mæli en áður var. Þessi vín eru geymd lengi, áður en þau eru sett á markað, og eldast ákaflega vel. Vín frá 1964 eru til dæmis enn að batna. Nærri allir árgangar frá Rioja eru góðir, en beztir hafa verið 1952, 1955, 1964, 1968, 1970, 1973, 1978 og 1982.

Meðal Rioja-vína er algengt Marqués de Riscal, sem margir Íslendingar þekkja, gott og traust vín. Önnur mjög góð Rioja-merki eru til dæmis Marqués de Murrieta, Marqués de Cáceres og Marqués de Alella. Meðal frægustu vína Spánar eru Castillo Ygay og Vega Sicilia, en þau fást ekki víða.

Í stað hanastéls fyrir mat drekka margir glas af skraufaþurru sérríi frá Andalúsíu, svo sem Tio Pepe eða La Ina, sem eru beztu fordrykkir, er hugsazt getur, af því að þeir dempa ekki bragðlaukana eins og sætar sterkvínsblöndur gera.

Zalachaín

Bezta veitingahúsið í Madrid og eitt af þremur beztu á Spáni er Zalachaín. Þess vegna fær það að fljóta með í bókinni, þótt það sé eiginlega utan verksviðs hennar, það er að segja ekki í miðborginni, eins og hún er skilgreind á kortinu í bókinni. Zalachaín er ekki bara gott, heldur líka mjög fínt. Til dæmis varð Tony Curtis, sem sat við næsta borð, að setja upp hálsbindi, sem hann fékk lánað hjá yfirþjóninum. En hann hefndi sín með því að skila því með bugti og beygingum á miðju gólfi.

Zalachaín er í nokkrum virðulegum og harðviðarhlöðnum stofum hverri inn af annarri og eru nokkur borð í hverri stofu, hlaðin fínasta kristalli og postulíni. Þjónustan er eftir því. Matreiðslan er í baskneskri útgáfu af nýfrönskum stíl, svo sem yfirleitt tíðkast í beztu veitingahúsum Spánar. Kokkurinn er Baski, Benjamín Urdáin. Nærri allir frægustu kokkar Spánar eru frá Baskalandi.Ein sérgreina hans er saltfiskur (bacalao Tellagorri) og önd (pato azulón al chartreuse verde).

Við höfum hins vegar prófað hjá honum rækjusalat með sætum maís í tómataískraumi (ensalada de gambas con maíz dulce al sorbete de tomates); sveppi og gæsalifur í pasta (raviolis rellenos de setas, trufas y foie gras); humarragú með artistokkum (ragoût de bogavante con alcachofas); haf-urriðaflök með skelfisksósu (escalopes de lubina con salsa de almejas); kaffiís með súkkulaðisósu (biscuit glacé con chocolate fundido); og ber árstíðarinnar með ískraumi (frutas del tiempo con sorbete). Allt var þetta í þeim hágæðaflokki, sem allir segja, að einkenni þennan stað. Verðið var líka mjög hátt, þrír réttir á 20.000 pst. fyrir tvo.

(Zalachaín, Álvarez de Baena 4, sími 261 48 40, fax 261 47 32, lokað í laugardagshádegi og sunnudaga)

El Cenador del Prado

Einn af þremur beztu matstöðunum í gamla miðbænum er El Cenador í tveimur glæsilegum sölum rétt hjá Plaza de Santa Ana. Fremri salurinn er virðulegur og búinn forngripum, en hinn innri er í björtum og léttum garðstofustíl, með hvítu rekkverki, pottablómum, blómamálverkum og þakglugga, svo og fögru marmaragólfi. Herranz-feðginin reka þennan stað, hann í eldhúsi og hún í sal. Þjónustan er formleg og fullkomin.

Tomás Herranz er mjög frumlegur kokkur í nýfrönskum stíl, óhræddur við hamborgara. Meðal sérgreina hans er dádýr með kastaníuhnetum (corzo con castañas), gufusoðinn lýsingur (merluza al vapor con espárragos y mariscos). Við prófuðum mjög góða, kínverska eggjadropasúpu (sopa de centollo y maiz al estilo oriental); kryddleginn smátúnfisk, geysilega meyran (bonito marinado al perfume de tomillo); risarækjur með olífumauki (langustinos a la parilla solve cremo de aceitunas); frábæran hamborgara (!) úr andakjöti með tómatsósu, steiktum lauk, frönskum kartöflum og þriggja lita sinnepi (hamburgesa de pato con ketchup (!), casero y cebolla); skógartínd jarðarber með kraumís (fresones con sorbete); og ísturn í súkkulaðigrind með kaniltertu í vanillusósu til hliðar (bartolillo de crema y cabello de Ángel con leche merengado). Þrírréttað fyrir tvo kostaði 13.000 pts, sem er tiltölulega lítið í samanburði við gæði.

(El Cenador del Prado, Prado 4, sími 429 15 61, lokað í laugardagshádegi og sunnudaga, C4)

Café de Oriente

Annar af beztu matstöðunum er líka nýfranskur og það með baskneskum hætti, Café de Oriente, andspænis konungshöllinni við Plaza de Oriente. Í rauninni eru það tveir matstaðir og þarf að fara um húsasund til að komast í betri hlutann, sem er vinstra megin. Snætt er í virðulegri borðstofu í gömlum góðborgarastíl. Kokkurinn er Bernardo Santos.

Hjá honum prófuðum við sérstaklega gott humarsalat; jafngott spergilfrauð með sæsniglum og sterkri þangsósu; fallega gerða og góða dúfnasteik; sneidda nautalund, mjög góða; eldsteiktan og glæsilegan núggatís með sykurþráðaþaki; og mjög góðan sólberjakraumís með svartberjasósu. Meðal annarra sérgreina hans eru hafurriði (darne de lubina a las hierbas aromáticas) og turnbauti (tournedó Felipe V con vino de Burdeos). Þríréttað fyrir tvo kostaði 12.000 pts, lítið miðað við gæði.

(Café de Oriente, Plaza de Oriente 2, sími 541 39 74, lokað í laugardagshádegi og sunnudaga, A3)

Club 31

Þriðji hágæðastaðurinn í miðborginni er hins vegar með hefðbundna matreiðslu. Það er Club 31, nálægt horni Alcalá og Plaza de la Independencia, þangað sem viðskiptahöldar streyma í hádeginu og fínar frúr á kvöldin. Þetta er dökkbrúnn, stór salur, sem væri tómlegur, ef hann væri ekki alltaf þétt setinn háværu fólki. Spánverjar tala alls staðar rosalega hátt og mikið og hratt, líka í Club 31. Innréttingin er óvenjuleg. Meðal annars er risastórt veggteppi á einum veggnum, korkveggur á öðrum stað og tréveggur á öðrum. Teppi er á gólfi. Mikill fjöldi þjóna er á stöðugum þeytingi. Kokkurinn er Ángel Paracuellos.

Við fengum góða, ofsaheita þykkvalúrufroðu í djúpri skál (souffle de rodaballo con bacon a las finas herbas); góða snigla með gæsalifrarkæfu í bakaðri kartöflu (cacaroles de borgona con foie en nido de patata asado); mjög góða akurhænu með bakaðri kartöflu (perdiz asada en hoja de vid); og gott dádýr að áströlskum hætti, með sveskjum og rúsínum (venado estilo australio, ciruelas, parsas y pinones); eplafylltar pönnukökur eldsteiktar (crepes de manzana al calvados con sorbete al cava); og franskar og sérstaklega léttar smjördeigsbollur (nuestra tarta milhojas). Meðal sérgreina staðarins er þykkvalúra með sveppum (rodaballo al horno con setas) og appelsínuönd (pato azulón a la naranja y compota de membrillo). Þetta er mjög dýr staður. Þríréttað fyrir tvo kostaði 16.000 pts.

(Club31, Alcalá 58, s. 532 05 11,E3)

Bajamar

Þótt Madrid sé inni í miðju landi, kemur góður fiskur í flugi á hverjum degi. Þekktasta sjávarréttahús miðbæjarins, vinsælt af ferðamönnum, er Bajamar í kjallara við horn Plaza de España. Innan við stigann er risavaxið humarbúr, þar sem fórnardýrin bíða matargesta, sem bæði eru kaupsýslumenn og ferðamenn. Staðurinn er fremur kaldur, í norrænum stíl, klæddur ljósum viði og minnir á norskt hótel frá 1965.

Humar og ýmsir aðrir réttir eru seldir eftir þyngd, svo að gestir verða að gæta þess að vita, hvað þeir hafa pantað mikið. Við prófuðum nokkuð góðan, soðinn humar, án meðlætis; afar góðar risarækjur í hvítlauksolíu, sjóðandi í potti; bakað epli; og bakaðan hrísgrjónamjólkurgraut með kanil (torrija de la casa). Þríréttað fyrir tvo: 11.000 pts.

(Bajamar, Gran Vía 78, sími 248 59 03, fax 248 90 90, B2)

Korynto

Hinn sjávarréttastaðurinn er Korynto, rétt við Plaza de Callao á Gran Vía. Úti í glugga er mikið fiskabúr, sem á að trekkja að. Frammi er afar nýtízkulegur og skemmtilegur humarbar, en innar er virðulegur matsalur með fínum panil og þykku veggfóðri. Staðurinn er nokkuð kuldalegur, en greinilega vinsæll af fastagestum úr nágrenninu, fremur en ferðamönnum, enda er hráefnið mjög ferskt.

Við prófuðum mjög góða krabbasúpu; góða þykkvalúru, grillaða (rodaballo); og góða ferska ávexti. Þrírréttað fyrir tvo kostaði 12.000 pts.

(Korynto, Preciados 36, sími 521 59 65, B2)

Ainhoa

Við beinum nú athygli okkar að matstöðum, sem ekki eru í dýrari endanum. Við byrjum norðaustast í miðbænum, þar sem Ainhoa er í hliðargötu rétt við breiðgötuna Paseo de Recoletos. Ainhoa er einn af mörgum Baskastöðum borgarinnar, smekklega einfaldur og nýtízkulegur, stúkaður með rekkverki og hlaðinn speglum á eina hlið. Þar er boðin hefðbundin matreiðsla.

Við prófuðum matarmikla baunasúpu með rófum, kartöflum og túnfiski (marmitako); góða eggjahræru með söxuðum olífum (revuelto de pisto); grillaðan lýsing frambærilegan (merluza a la parilla); ágætan skötusel með grænni baunasósu (rape a la koskera); hversdagslega möndlutertu (tarta et truffa almondes); og baskneskan ost, mjög góðan (idiázabal). Þríréttað fyrir tvo kostaði 9.000 pts.

(Ainhoa, Bárbara de Braganza 12, sími 308 27 26, lokað sunnudaga, E2)

El Espejo

Rétt hjá Ainhoa, við sjálfa breiðgötuna Paseo de Recoletos, er mjög fallegt veitingahús, El Espejo. Mikið speglaverk, postulínsflísar og steindir lampaskermar, allt í ungstíl eða nýstíl aldamótanna eru helzta aðdráttarafl staðarins. Þetta er fjörugur matstaður, sem minnir á franskt “brasserie”. Þjónustan reyndist afar góð. Eldamennskan er ættuð frá Baskalandi og Navarra.

Við fengum okkur olífuolíuleginn spergil (espárragos Navarra); salat með rækjum, melónu, reyktum laxi og litlum tómötum (ensalade de langosta, melón y salmón ahumado); bleikar og góðar lambalærisneiðar (escalopines de cordero); sæmilega sítrónuönd (pato e la naranja); matarmiklar smjördeigsbollur með rjóma og heitu súkkulaði (profiteroles de nata con chocolate caliente); og lélegan karamellubúðing (flan al caramelo). Þríréttað fyrir tvo kostaði 9.000 pts.

(El Espejo, Paseo de Recoletos 31, sími 308 23 47, E1)

Al Mounia

Mekka márískrar eldamennsku í Evrópu er Al Mounia, sem er í næsta nágrenni Ainhoa og Espejo, handan Paseo de Recoletos. Teppalögðum staðnum er skipt í nokkrar stofur, þar sem márískar skreytingar eru í hólf og gólf, lofti og veggjum, súlum og arabískum bogum og minna á Alhambra. Gestir sitja í lágum sófum umhverfis kringlótt sófaborð og njóta óvenjulega góðrar þjónustu.

Við fengum ágætar pönnukökur hússins (Al Mounia panache); góðar kjötbollur á teini (brochette khefta); mjög góðan og meyran kjúkling með möndlum og kjötsoði; fremur þurrt, grillað lambakjöt; dísæta eftirrétti með möndlubragði; svo og alveg himneskt mintute, sem Al Mounia er frægt fyrir. Meðal annarra sérgreina hússins er ofnsteikt lamb (cordero mechoui), kjúklingakássur af ýmsu tagi (taginé) og aðrar kássur (alcuzcuz). Þríréttað fyrir tvo kostaði 8.500 pts., sem er hagstætt.

(Al Mounia, Recoletos 5, sími 435 08 28, lokað sunnud. og mánud., E2)

Irizar jatetxea

ðurinn er Irizar, á milli hótelsins Suecia og þinghússins. Hann er uppi á annarri hæð í nokkuð löngum og einföldum sal í ljósgrænum lit, þar sem gestir sitja á bakháum og virðulegum stólum við ljósgrænt dúkuð borð. Staðurinn heitir eftir kokki hússins, sem er Luis Irizar og eldar að hefðbundnum baskahætti.

Þarna fengum við mjög gott ostrugratín með tómati (gratinado de ostras sobre roseta de tomate a la muselina de aromáticos); heita dúfulifur og andalifur í hlaupi (milhofas de paloma y foie a la gelatina de frambuesa); dágott dádýrakjöt í þykkri sveskjusósu, blandraðri möndlum (ragout de cievres); mjög gott akurhænubrjóst (suprema de perdiz en lecho de col fresada); hrísgrjónabúðing með plómustöppu (pudding de arroz con leche a la crema de cirulas farsas); og perutertu með karamellusósu (charlota de peras con caramelo al Williams).

Meðal annarra sérgreina kokksins eru saltfiskur (bacalao al pil-pil), nautalundir með gæsalifur (solomillo con foie-gras a las uvas) og ostur frá Baskalandi (idiázabal). Þríréttað fyrir tvo kostaði 11.000 pts.

(Irizar jatetxea, Jovellanos 3, uppi, sími 231 45 69, lokað í laugardagshádegi og sunnudaga, D3)

Taberna del Alabardero

Andspænis konungshöllinni við Plaza de Oriente er Taberna del Alabardero í snotrum nítjándu aldar stíl, sem er líklega of virðulegur til að kallast kráarstíll. Bezt er að fá borð í innsta herberginu, þar sem ýmsir forngripir eru á veggjum. Þessi staður hefur getið af sér afkvæmi, meðal annars í Washington. Matreiðslan er í nýfrönskum stíl frá Baskalandi og ýmislegt skemmtilegt er á nýjungagjörnum matseðli.

Við prófuðum tómata með krabbakjötfyllingu og afar mildri kokkteilsósu; papriku með villisveppa-, rækju- og spínatfyllingu með fínni tómatsósu; góðan og milt eldaðan orra með kartöfluflögum; góðar andasneiðar í appelsínusósu; góðan hrísgrjónavelling; og melónurjómasúpu með hindberjum. Meðal annarra sérgreina staðarins eru saltfiskur (bacalao “Club Ranero”) og nautalundir (corazón de solomillo de toro). Þríréttað fyrir tvo: 9.000 pts.

(Taberna del Alabardero, Felipe V. 6, sími 247 25 77, A3)

Zarauz

Milli höfuðtorgsins Plaza Puerta del Sol og konungshallarinnar er gatan Arenal. Rétt hjá henni er enn einn Baskastaðurinn, Zarauz, í afar einföldum stíl, með kvistafuru hátt upp á veggi. Þar er mikið um fastagesti, sem kunna að meta afar hefðbundinn matseðil og trausta matreiðslu. Meðal sérgreina hússins er saltfiskur (bacalao vizcaína). Við fengum okkur mjög góða, þykka og brúna krabbasúpu með ristuðum brauðteningum (sopa de cangrejos); ekki síður góðan kólguflekk (besugo), grillaðan; og jafngóðan ís með sykruðum valhnetum (helado con nueces). Þríréttað fyrir tvo: 8.000 pts.

(Zarauz, Fuentes 13, sími 247 72 70, lokað sunnudagskvöld, B3)

La Toja

Nú kemur röðin að nokkrum matstöðum, sem eru við veitingakílómetrann, sem liggur frá Plaza Mayor eftir götunum Cuchilleros og Cava Baja. Við norðvesturhorn torgsins, í sautjándu aldar húsi, er La Toja, afar vinsæl og fjörleg, einföld og víðáttumikil matstofa, sem er bæði sótt af heimamönnum og ferðamönnum. Þar er boðin sjávarréttamatreiðsla frá Galisíu.

Við fengum okkur góðar risarækjur í eggjasósu; mjög góðan og matarmikinn krabba; milt grillaðan lýsing með hvítum kartöflum (merluza gallega); ljúflega grillaðan lambabóg; stóra napóleonstertu (tarta Toja); og jarðarber með rjóma. Sérgreinar hússins eru skelfiskar og krabbar af ýmsu tagi. Þríréttað fyrir tvo kostaði 11.000 pts.

(La Toja, Siete de Julio 3, sími 266 30 34, B3)

Casa Botín

Þegar gengið er niður tröppurnar úr suðvesturhorni Plaza Mayor, eru innan við 100 metrar að Casa Botín á vinstri hönd. Fullu nafni heitir staðurinn Antigua Casa Sobrino de Botín. Veitingastofan var opnuð árið 1725 og er sagt elzta vertshús heimsins, samkvæmt heimsmetabók Guinness. Hér var háður lokakaflinn í skáldsögu Hemingways um sólina, sem einnig rís, enda var hann fastagestur. Matstofunnar er einnig getið í sögu hans um síðdegisdauða. Upprunalega var hún á neðstu hæð, en er nú á þremur hæðum hússins, enda vinsæl af ferðamönnum og raunar einnig af heimamönnum. Innréttingar eru gamlar og skemmtilegar, með trébitum í lofti, postulínsflísum á veggjum og marmara í gólfi. Þetta er kráarlegur staður. Enn er matreitt í meira en 265 ára gömlum ofni.

Hefðbundið er að fá sér ofnsteikt lamb (cordero asado) eða ofnsteiktan grís (cochinillo asado). Við prófuðum hvort tveggja og reyndist vel. Við fengum líka matarmikla og bragðsterka, heita og góða svartpylsu frá Burgos; ágæta hráskinku á melónu; og allgóða ostaköku hindberjablandaða. Þríréttað fyrir tvo kostaði 8.000 pts., sem er fremur hagstætt.

(Casa Botín, Cuchilleros 17, sími 266 42 17, B4)

Casa Paco

Þegar gengið er áfram niður eftir Cuchilleros, er kastilíska nautakjötshúsið Casa Paco til hægri á næsta horni. Þetta er óvenju fátæklegur staður að öllum búnaði, en bætir sér það upp með hundruðum ljósmynda af eigandanum með alls konar frægu fólki. Þessar myndir eru í tvöfaldri og þrefaldri röð, þétt eftir öllum veggjum í nokkrum matstofum á tveimur hæðum. Hér kemur listafólkið og borðar góðar nautasteikur með hrásalati, en fær ekki kaffi, því að slíkt er ekki á boðstólum. Matreiðslan er hefðbundin.

Við prófuðum seiga hráskinku (jamón serrano); gott hrásalat; ágæta svínasteik; frábæra nautalund (solomillo de buey); sæmilegt ávaxtahlaup (flan); og mjög góða tertu hússins (tarta Santiago). Þríréttað fyrir tvo kostaði 8.000 pts., gott verð.

(Casa Paco, Puerta Cerrada 11, sími 266 31 66, lokað sunnudaga, B4)

El Schotis

Í framhaldi af Cuchilleros er löng og mjó gata, Cava Baja, þétt setin veitingahúsum. Við snúum okkur fyrst að El Schotis, löngum og mjóum matsal með risastórum veggmálverkum. Hér sitja heimamenn á bakháum stólum og snæða steikur af sjóðandi leirbökkum.

Við fengum okkur allgóða eggjahræru með löngum baunum (revuelto de trigueros); gott tómatsalat; fína nautasteik á sjóðandi leirfati (solomillo); og eftirréttablöndu hússins, tvo ísa með búðingi, ananas og þeyttum rjóma (especialidad de la casa). Í fiskréttum er lýsingur (merluza) sérgrein hússins og í eftirréttum er það eggjabúðingur (flan de huevo). Þríréttað fyrir tvo kostaði 9.000 pts.

(El Schotis, Cava Baja 11, sími 265 32 30, lokað mánudaga, B4)

Esteban

Töluvert innar í götunni sitja blaðamenn, aðrir í útgáfubransanum og leikhúsmenn og snæða í Esteban. Þar þekkja allir alla og ráfa milli borða. Staðurinn er eins konar partí. Innréttingar eru afar fornlegar og skemmtilega kraðakslegar. Gamlar stoðir og gamlir bitar eru áberandi. Matreiðslan er hefðbundin.

Við fengum góða artistokka með skeljum í þykkri súpu (alcachofas con almejas); mjög góða dádýralund (solomillo de corzo); og hrísgrjónagraut (torrijas de leche frita). Meðal sérgreina hússins eru saltfiskur í papriku (pimientos rellenos de bacalao); uxahalafylling (rabo de toro estofado); og ofnsteikt lambakjöt (cordero asada). Þríréttað fyrir tvo kostaði 9.000 pts.

(Esteban, Cava Baja 36, sími 265 90 91, lokað sunnudaga, B4)

Casa Lucio

ður, gamall og fremur fínn, mikið sóttur af heimamönnum úr heimi lista og stjórnmála, nautaats og sjónvarps, alltaf fullur af fólki á tveimur hæðum. Þjónusta er góð fyrir vini hússins, en ekki aðra.

Við prófuðum afar venjulega skinku með melónu (melón con jamón); hrærða eggjaköku með frönskum kartöflum (revuelto de patatas con huevo); góða nautalund (solemillo); edikslegna akurhænu (perdices), meyra og góða; og afar góð hrísgrjón í mjólkurbúðingi með karamelluskán (arroz con leche). Meðal sérgreina hússins er hráskinka (jamón de Jabugó); koli (lenguado de la casa) og skelfiskur af ýmsu tagi. Þríréttað fyrir tvo kostaði 11.000 pts, sem er fremur dýrt.

(Casa Lucio, Cava Baja 35, sími 265 32 52, lokað í laugardagshádegi, B4)

Gure-Etxea

Á svipuðum slóðum, nokkru vestar en Cava Baja, er baskahúsið Gure-Etxea við lítið kirkjutorg. Þar eru vandaðar innréttingar í virðulegum stíl með bindingsverki. Þjónusta er afar góð. Matreiðslan er með hinum betri í borginni.

Við prófuðum mjög góða hræru af papriku, eggjaköku og skinku (piperrada vasca); ágætar rækjur í krabbasúpu; heilan kólguflekk í olíu (besugo al estilo de Beneo); góðan og léttbakaðan lýsing (merluza al horno); pönnusteikta mjólkursoppu, afar létta og mjúka (leche frita); og óvenjulega góðan karamellubúðing (flan de la casa). Þríréttað fyrir tvo: 9.500 pts.

(Gure-Etxea, Plaza de la Paja 12, sími 265 61 49, lokað sunnudaga, A4)

Skemmtun

Að mati Madridarbúa felst skemmtun fyrst og fremst í að tjá sig í tali. Þeir verja frístundum sínum til að tala, hátt og hratt og mikið. Þetta þjóðarsport er einkum háð í kaffihúsum og á 8000 börum borgarinnar. Þessar þindarlausu samræður fengu byr undir báða vængi, þegar lýðræði var innleitt að nýju á Spáni eftir andlát Francos árið 1975. Aðalannatímarnir eru klukkan 12-14 og 20-22, áður en fólk fer út að borða. Þriðji annatíminn í sumum kaffihúsum er kl.17-19, þegar skoðanabræður flykkjast saman til að ræða stjórnmál eða bókmenntir. Hver hópur hefur þá sitt kaffihús.

Gran Café de Gíjon

Töluvert af stjórnmála- og menningarumræðunni í Madrid fer fram í Gran Café de Gíjon, við umferðaræðina Paseo de Recoletos, rétt norðan við Plaza de Cibeles. Þetta er hið dæmigerða 19. aldar kaffihús, meira en aldar gamalt, opið og hljóðbært. Þar hanga menningarvitar klukkustundum saman og tjá sig í síbylju. Stórir gluggar snúa út að umferðarþunga breiðgötunnar. Á þessu svæði, eftir breiðgötunni endilangri, er töluvert af líflegum útikaffihúsum, þar á meðal útibú frá veitingastofunni El Espejo.

(Gran Café de Gíjon, Paseo de Recoletos 21, E2)

Círculo de Bellas Artes

Eitt skemmtilegasta morgunkaffihús borgarinnar, oft fullt af listmálurum, er kaffistofan í Círculo de Bellas Artes, við umferðargötuna Alcalá, sem liggur milli höfuðtorganna Plaza Puerta del Sol og Plaza de Cibeles. Þar er hægt að setjast með kaffibollana í djúpa leðursófa og hafa gott útsýni, annað hvort út yfir götuna eða yfir salinn, þar sem hátt er til lofts, veggmálverk í lofti og steindar rúður í gluggum. Selt er inn í kaffihúsið, en um leið hafa menn aðgöngumiða að þeirri listsýningu, sem þá stundina er í salnum til hliðar.

(Círculo de Bellas Artes, Alcalá 42, D3)

Mallorquina

Mallorquina er fremur rólegur staður á annarri hæð við aðaltorg borgarinnar, þar sem það mætir Calle Mayor. Þar er vinsælt að fá sér morgunkaffi og alvörusnúð, það er að segja léttan smjördeigsspíral, sem kemur frá Mallorca og heitir ensaimada.

(Mallorquina, Calle Mayor/Plaza Puerta del Sol, B3)

Café Central

Við Plaza del Ángel, andspænis Victoria hóteli er kaffistofa í gömlum speglastíl, sem minnir nokkuð á franskar aldamótakrár. Hér er oft leikinn jazz á kvöldin í góðri stemmningu. Í næsta nágrenni eru fleiri jazzbúlur.

(Café Central, Plaza del Ángel 10, C4)

Cervecería Alemana

Cervecería Alemana er einn staðanna, sem Hemingway gerði fræga í Madrid. Þetta er afar látlaus og einfaldur staður, en yfirleitt iðandi af lífi og fjöri. Cervecería er í senn kaffistofa og bjórkrá, sem býður líka upp á snarl (tapas) fyrir mat eða í stað matar. Á þessu svæði, umhverfis torgin Santa Ana og Ángel, er mikið af snarl- og vínbörum og kvöldlíf einna fjörugast.

(Cervecería Alemana, Plaza Santa Ana, C4)

Cuevas de Sésame

Afar vingjarnlegur og gamall píanóbar er Cuevas de Sésame niðri í kjallara við hliðargötu norður frá Plaza de Santa Ana. Gestir sitja á misháum pöllum við lítil borð. Veggirnir eru þaktir málverkum frægra listamanna og spakmælum frægra menningarvita. Stundum taka gestir upp sín eigin hljóðfæri, en þess á milli sér píanisti um tónlistina.

(Cuevas de Sésame, Principe 5, C3)

La Trucha

Snarlbarinn framan við frjálslegt Andalúsíu-veitingahúsið Trucha er einn af hinum vinsælli samræðustöðum við torgið Santa Ana. Þar við barinn stendur fólk í þrefaldri og fjórfaldri röð og hámar í sig snarl (tapas) að hætti Madridarbúa. La Trucha er í göngugötu frá norðausturhorni Plaza Santa Ana.

(Trucha, Manuel Fernadez y Gonzalez 3, C4)

Mesón

Í undirgöngunum, sem liggja í norðvestur frá Plaza Mayor er Mesón, sem býður bezt snarl (tapas) í bænum, smokkfiskhringi, skelfisk, sveppi og margt annað lystugt.

(Mesón, Ciudad Rodrigo, )

Café de Oriente

Í veitingahúsakaflanum hér að framan var fjallað um veitingastaðinn Café de Oriente við samnefnt torg andspænis konungshöllinni. Á sama stað og undir sama heiti er líka kaffi- og snarlstofa, sem er raunar meira áberandi, því að útikaffihúsið fylgir því. Það er samkomustaður tónlistarfólks og stjórnmálamanna.

(Café de Oriente, Plaza de Oriente 2, A3)

Corral de la Morería

Flamenco er dans frá Andalúsíu, undir áhrifum frá Márum og Sígaunum. Bezti Flamenco í Madrid er á hverju kvöldi í Corral de la Morería, þar sem hin fræga Blanca del Rey dansar í rauðum kjól á næstum hverju kvöldi. Þar eru sýningar frá kl.11 að kvöldi til klukkan 3 að morgni. Matargestir koma kl. 9:30 og fá beztu borðin. Maturinn er sæmilegur, umhverfið gott og stemmningin mikil, ef Spánverjar eru fjölmennir meðal gesta.

Dansarar og söngvarar sitja á sviðinu og skiptast á um að koma fram. Undir dansinn og veinandi stríðan sönginn er leikið á gítar, barðar kastanettur og klappað saman lófum. Söngur og dans lýsa miklum tilfinningum, harmi, söknuði og stolti. Konurnar dansa í afar litskrúðugum og efnismiklum kjólum og karlarnir syngja á háhæluðum skóm. Aðgangur kostaði 1.500 pts. Þríréttað fyrir tvo kostaði 12.000 pts.

(Corral de la Morería, Morería 17, sími 265 84 46, A4)

Plaza de Toros

Mikilvægasti nautaatshringur heims er í Madrid, sem er höfuðborg nautaatsins, þótt það sé komið frá Andalúsíu. Plaza de Toros var reistur 1931 í nýmárískum stíl, eins og svo margir nautaatshringir á Spáni, og rúmar 26.000 manns. Yfirleitt fer nautaatið fram síðdegis á sunnudögum og keppir þá við fótboltann hjá Real Madrid og Atlético de Madrid. Stundum er líka nautaat á fimmtudögum.

Spánskt nautaat er ekki íþrótt í hefðbundnum skilningi eða keppni milli nauts og manns, heldur formfastur sorgarleikur, sem lýkur nær alltaf með dauða nautsins. Nautaat hefur verið iðkað frá miðöldum, en núverandi form þess er frá síðari hluta átjándu aldar.

Þrír nautabanar koma fram og drepur hver þeirra tvö naut. Athöfnin fer fram í þremur þáttum.

Fyrst sýnir nautabaninn (matador) nokkrar hefðbundnar hreyfingar (svo sem verónica) með rauðu duluna. Síðan taka riddarar (picadores) við og stinga nautið með spjótum.

Í öðrum hluta athafnarinnar stinga aðstoðarmenn (bandilleras) þremur pörum af örvum í háls nautsins.

Loks í þriðja hluta kemur nautabaninn fram aftur með rauðu duluna (muleta), fremur nokkrar hefðbundnar æfingar og drepur síðan nautið með markvissri sverðstungu ofan í hálsinn (estocada). Allt verður þetta að gerast með mikilli nákvæmni og í samræmi við strangar reglur.

(Plaza de Toros Monumental, Alcalá 231, sími 246 22 00)

Skoðun

1. ganga

Plaza Puerta del Sol

Torgið Puerta del Sol (C3) er miðja borgarinnar, bæði að formi til og í reynd. Frá því eru mældar allar vegalengdir á Spáni. Kílómetrasteinn “0” er fyrir framan höll öryggislögreglunnar, sem er við suðurhlið torgsins. Í turni hallarinnar er klukkan, sem allar aðrar klukkur á Spáni eru miðaðar við. Frá torginu er skammur vegur til flestra staða, sem ferðamenn vilja skoða í Madrid. Það er umlokið samræmdum og rjómalitum húsum frá 18. öld.

Íbúar í Madrid mæla sér mót á torginu á öllum tímum dagsins og koma þangað í strætisvögnum og neðanjarðarlestum. Allan daginn iðar torgið af lífi. Það er líka staður útifunda og mótmælaaðgerða. Við bjuggum á hótelum við torgið og komumst að raun um, að það er helzt milli klukkan fimm og sjö á morgnana, að kyrrð færist yfir torgið.

Norður frá því liggja göngugöturnar Preciados og Carmen í átt til verzlunargötunnar Gran Vía. Við þessar göngugötur eru helztu vöruhús borgarinnar, El Corte Inglés og Galerias Preciados. Suður frá torginu er helzta gleðskaparhverfi borgarinnar, fullt af skyndibitastöðum, kaffihúsum, vín- og snarlbörum, veitingahúsum og skemmtistöðum. Þar er líka “hitt” torgið í bænum, Plaza Mayor.

Descalzas Reales

Vestur frá Plaza Puerta del Sol liggja tvær götur, Mayor og Arenal. Við höldum þá síðari í átt til óperuhússins. Við getum tekið stuttan krók eftir annarri þvergötu til hægri, San Martín, til að skoða Monasterio de Descalzas Reales við samnefnt torg. Það er nunnuklaustur frá 16. öld fyrir aðalskonur og safnaði fljótt miklum auði, m. a. í listaverkum. Því hefur verið breytt í safn, þar sem sjá má fræg verk eftir Brüghel eldri, David, Titian og Rubens. Miðja safnsins er húsagarður með þrjátíu kapellum allt um kring. Opið 10:30-13; þriðjud.-fimmtud. 16-18; lokað mánud. B3.

Plaza de Oriente

Við hverfum til baka og göngum Arenal áfram, förum framhjá óperuhúsinu Teatro Real, sem er frá fyrri hluta nítjándu aldar, og komum inn á torgið Plaza de Oriente (A3) fyrir framan langhlið konungshallarinnar. Á torginu er stytta af Filipusi IV Spánarkonungi, gerð eftir teikningum eftir Velázquez. Við torgið suðaustanvert er útikaffihúsið Café de Oriente, þar sem við getum hvílt okkur.

Ef við nennum, getum við farið norður fyrir höllina og gengið tröppurnar niður í Sabatini-garða, sem eru með klipptum trjám að frönskum hætti. Þaðan er virðulegt útsýni til konungshallarinnar.

Annars förum við suður fyrir höllina, því að gengið er inn í hana að sunnanverðu, þar sem hallarportið er. Konungsfjölskyldan býr ekki lengur í Palacio Real. Höllin er notuð fyrir opinberar móttökur og gestaboð, en að öðru leyti er hún safn, opið almenningi.

Palacio Real

Palacio Real var byggð á átjándu öld á grunni eldri hallar, sem brann árið 1734. Í henni eru 2.800 herbergi, en frá árinu 1931 hefur enginn búið þar. Hápunktur safnsins er hásætissalurinn, sem er sennilega skrautlegasti salur heimsins, klæddur gullflúruðu pelli og purpura, með loftmálverki eftir Tiepolo. Íbúð Maríu Kristínu drottningar er til sýnis sem veggteppasafn.

Íbúð Ísabellu prinsessu er til sýnis sem málverka-, útsaums-, postulíns- og kristalssafn. Þar eru til dæmis verk eftir Goya, Bosco, Rubens, Greco og Velázquez. Bókasafn Filipusar V er til sýnis sem bóka- og myntsafn. Einnig er til sýnis lyfjasafn hallarinnar og herklæðasafn. Inn í skrautvagnasafn er gengið á öðrum stað, úr garðinum Campo del Moro, sem er vestan hallar. Þaðan er glæsilegt og bratt útsýni upp til hallarinnar. Palacio Real er opin 9:30-12:45; á sumrin 16-18:30 og á veturna 15:30-17:15. A3.

Plaza de la Villa

Við höldum suður eftir götunni meðfram konungshöllinni, Bailén, unz við komum að Mayor, sem liggur til baka að Plaza Puerta del Sol, þar sem við hófum göngu okkar. Á þeirri leið komum við fljótlega að Plaza de la Villa (B4), hinu gamla ráðhústorgi borgarinnar. Á miðju torginu er stytta af Álvaro de Bazán flotaforingja, hetju sjóorrustunnar við Lepanto.

Andspænis okkur, austan torgsins, er 15. aldar turninn Torre de Los Lujanes, þar sem Frans I var í haldi eftir orrustuna við Pavía. Við hlið turnsins er Hemeroteca í márastíl með voldugum inngangi í gotneskum stíl. Neðan við torgið er Casa de Cisneros, frá 16. öld, í gotneskum silfursmíðastíl, með eftirtektarverðum svalaglugga. Vestan við torgið er svo ráðhús borgarinnar, Ayuntamiento, reist á miðri 17. öld í endurreisnarstíl.

Catedral de San Isidro

Héðan höldum við á vit gamla bæjarins í Madrid. Við göngum sundið Punonrostro norðan við Torre de Los Lujanes og leið okkar liggur til suðurs að 18. aldar kirkjunni San Miguel í ítölskum hlaðstíl með íbjúgri framhlið. Við höldum enn áfram til suðurs eftir götunni Letamendi, unz við komum að kirkjunni San Pedro. 14. aldar turn kirkjunnar er annar af tveimur turnum í borginni í márastíl.

Hér getum við haldið áfram götuna San Pedro til suðurs að Plaza San Andrés, þar sem við beygjum til vinstri inn langa og mjóa götu, Cava Baja, sem er helzta veitingahúsagata borgarinnar. Í þeim kafla bókarinnar segir frá Esteban, Casa Lucio og El Schotis. Síðan beygjum við til hægri götuna Bruno og komum beint að dómkirkjunni, Catedral de San Isidro, sem er við götuna Toledo (B4).

San Isidro er verndardýrlingur Madrid. Mesta hátíð ársins er haldin honum til heiðurs 8.-15. maí. Það er hátíð tónlistar og matargerðarlistar, nautaats og næturlífs, svo og annarrar skemmtunar. Sjálf dómkirkjan er frá 17. öld, í voldugum og ströngum jesúítastíl.

Rastro

Til suðurs frá kirkjunni liggur gatan Estudios að Plaza de Cascorro. Þar byrjar markaðurinn Rastro (B5), sem einkum er í götunni Ribera di Curtidores og raunar líka í flestum nálægum götum. Þetta er helzti flóamarkaður borgarinnar, opinn á sunnudögum 10-14 og í seinni tíð einnig á laugardögum. Þar er jafnan mikið mannhaf og nokkuð um vasaþjófnað.

Á þessum slóðum er elzti og litríkasti hluti borgarinnar. Hér eru víða steinlögð öngstræti og hér er talað með digurstum hreim Madridarbúa.

ð förum hins vegar til baka inn á Cava Baja og höldum þá götu til norðurs yfir torgið Plaza Puerta Cerrada, þar sem nafn götunnar breytist í Cuchilleros. Á þessari leið eru veitingahúsin í röðum, svo sem Casa Paco og Casa Botín. Við förum upp tröppurnar og undirgöngin inn á Plaza Mayor.

Plaza Mayor

Þetta er hitt aðaltorgið í bænum, notalegt torg, laust við bílaumferð, kjörinn staður til að setjast niður á útikaffihúsi. Þetta er rétthyrnt torg í formföstum stíl, byggt í upphafi 17. aldar. Öll húsin við torgið eru í sama stíl, þrjár hæðir og með samtals 114 súlum, þar sem hægt er að ganga í skugga umhverfis torgið. Stytta af Filipusi III er á miðju torgi, svo og skarar af dúfum. Níu undirgöng liggja inn á torgið, sem að öðru leyti er lokað umheiminum.

Plaza Mayor (B3-4) var áður helzta torg borgarinnar. Þar voru trúvillingar dæmdir og teknir af lífi, þar var nautaat háð og kóngar krýndir. Nú er þetta miðstöð ferðamanna í Madrid, en staðarmenn gera sig þar einnig heimakomna. Skrifstofa ferðamála er á nr. 3.

Skemmtilegast er á Plaza Mayor á sunnudagsmorgnum, þegar þar er frímerkja- og myntsafnaramarkaður. Þangað koma menn með albúmin sín til að skiptast á frímerkjum.

Ef við förum til vesturs út um undirgöngin í norðvesturhorni torgsins, framhjá snarlbarnum Mesón, og beygjum síðan til vinstri, komum við að fallegum og skemmtilegum matvælamarkaði miðbæjarins við 17. aldar torgið Plaza San Miguel. Í undirgöngunum til norðurs úr sama horni Plaza Mayor er veitingastaðurinn Toja.

Plaza Santa Ana

Við förum hins vegar til austurs út um undirgöngin í suðausturhorni torgsins og göngum framhjá utanríkisráðuneyti Spánar eftir götunum Gerona og Bolsa, unz við komum að torgunum Plaza del Ángel og Plaza Santa Ana, þar sem hótelið Victoria gnæfir hæst (C4). Á þessum slóðum eru flestir barir og kaffihús í borginni, miðað við flatarmál, þar á meðal Café Central, Cerveceria Alemana, Cuevas de Sésame og La Trucha. Frá þeim segir í bókarkaflanum um skemmtun í Madrid. Hér er líka veitingahúsið El Cenador del Prado. Við göngum svo frá Santa Ana norður Principe, unz við komum að götunni San Jerónimo, þar sem við beygjum til vinstri til Plaza Puerta del Sol, þar sem við hófum þessa gönguferð um gamla miðbæinn í Madrid.

2. ganga

Plaza de España

Við hefjum síðari gönguferðina á Spánartorgi, Plaza de España (A2). Það er svo sem ekkert sérstaklega skemmtilegt torg, girt ljótum skýjakljúfum, en merkilegt fyrir bronzstyttuna af Don Quixote og Sancho Panza, sem er einkennistákn borgarinnar og ljósmyndað á kápu þessarar bókar. Yfir styttunni gnæfir minnismerki um rithöfundinn Miguel de Cervantes Saavedra, sem samdi söguna um þá félaga, hina dæmigerðu Kastilíubúa. Cervantes var uppi fyrir fjórum öldum, samtíðarmaður Shakespeares og sr Einars í Eydölum.

Gran Vía

Úr austurhorni torgsins liggur Gran Vía, helzta ferðamannagata borgarinnar. Við röltum upp brekkuna framhjá skrifstofum flugfélaga og skyndibitastöðum, hótelum og bílaleigum, bönkum og bíóhúsum. Þungamiðja götunnar er við Plaza de Callao, þar sem göngugöturnar tvær, Preciados og Carmen, liggja niður á Plaza Puerta del Sol. Töluvert austar rennur Gran Vía inn í götuna Alcalá. Alla þessa leið er yfirleitt þung umferð bíla með tilheyrandi flauti og taugaveiklun.
Gran Vía skiptir miðborginni í tvennt. Sunnan við er hin hefðbundna miðborg, sem lýst er í þessari bók, þar á meðal veitingastaðir, kaffihús, barir og skemmtistaðir ferðamanna og fullorðinna Spánverja, en norðan við eru staðir unga fólksins í Madrid, með hávaðasamri tónlist, fíkniefnasölu og umræðum um ljóðlist.

Paseo de Recoletos

Við staðnæmust á næsta torgi, Plaza de Cibeles (E3), og virðum fyrir okkur pósthúsið handan götunnar. Sennilega er þetta virðulegasta pósthús veraldar, enn skrautlegra en gamla pósthúsið í Amsterdam, reist í brúðkaupstertustíl upp úr síðustu aldamótum. Á torginu er átjándu aldar stytta af frjósemisgyðjunni Kýbelu í vagni, sem er dreginn af ljónum.

Við beygjum til vinstri eftir breiðgötunni Paseo de Recoletos til Kólumbusartorgs, Plaza de Cólon (E1). Á þessari leið er allt fullt af útikaffihúsum á grænu eyjunni milli umferðaræðanna, þar á meðal Café d´Espejo í glerhúsi í ungstíl. Við þennan kafla er einnig kaffihúsið Gran Café de Gijón. Hávaðinn í bílunum drukknar í hávaðanum af samræðunum. Og bílaumferðin er á fullu alla daga, öll kvöld og langt fram eftir nóttu.

Næst Kólumbusartorgi að austanverðu er þjóðarbókhlaðan, Biblioteca Naçional, og fornminjasafnið, Museo Arqueológico Naçional, opið 9:15-13:15, lokað mánudaga. Þjóðarbókhlaðan snýr til vesturs að Paseo de Recoletos og fornminjasafnið til austurs að götunni Serrano, sem við munum ganga á eftir.

Næst okkur á Plaza de Cólon gnæfir stytta af Kólumbusi yfir fossaföllum og menningarmiðstöð, sem er neðanjarðar undir torginu. Þar er sýningarsalur og leikhús. Inngangurinn er við styttuna. Innst á torginu eru ljósbrúnir minnisvarðar um fræga spánska landkönnuði.

Serrano

Við förum yfir torgið og göngum suður úr austurenda þess eftir götunni Serrano, sem er helzta gata tískuhúsa og forngripasala í borginni og um leið dýrasta verzlunargatan. Hér má sjá margar tízkudrósirnar stika með bægslagangi milli búða. Hverfið hér í kring heitir Salamanca, upprunalega byggt aðalsfólki seint á 19. öld, og núna helzta aðsetur sendiráða í borginni.

Við göngum götuna alla leið til þvergötunnar Alcalá, þar sem er sigurboginn Puerta de Alcalá (E3), reistur eftir teikningum Sabatinis á síðari hluta átjándu aldar til minningar um innreið Karls III í borgina. Torgið heitir Plaza de la Independencía.

Retiro

Hér af torginu förum við inn í norðvesturhorn hins græna lunga borgarinnar, Retiro-garðsins. Hann er afar stór, að umfangi eins og Hyde Park í London, en miklu meira ræktaður skógi. Þessi garður var upphaflega lagður á 17. öld sem hallargarður sumarseturs Filipusar IV, en var gerður að almenningsgarði seint á 19. öld.

Við förum framhjá stöðuvatninu Estanque, þar sem fólk rær um á skemmtibátum. Handan vatnsins er minnisvarði um Alfons XII, teiknaður í svipuðum brúðkaupstertustíl og minnisvarði Viktors Emanúels II í Róm.

Hér göngum við framhjá brúðuleikhúsi fyrir börn, spákonum, sem segja okkur framtíðina í Tarot-kortum, pylsusölum, vasaþjófum, bridgespilurum, kotrukörlum og skákmönnum, unz við komum að Palacio de Cristal, sem speglast í tjörninni fyrir framan.

Suðurhluti garðsins er afskekktari og þar má sjá heitar ástir og skrítna hunda. Við förum út um suðvesturhornið og göngum niður brekkuna Claudio Moyano. Þar á gangstéttinni eru fornbókasalarnir. Mest er um að vera hjá þeim á sunnudagsmorgnum, þegar borgarbúar gera sér dagamun í Retiro.

Centro de Arte Reina Sofia

Torgið fyrir neðan brekkuna er Plaza del Emperador Carlos V. Við förum yfir torgið, göngum nokkra metra suðvestur eftir breiðgötunni Atocha og beygjum til hægri inn í götuna Santa Isabel. Þar á nr. 52 er nýlega búið að innrétta nútímalistasafn í gömlu sjúkrahúsi. Þetta er Centro de Arte Reina Sofia (D5), auðþekkjanlegt af miklum glerhýsum utan um lyftuganga, sem hafa verið reistir utan við gamalt húsið. Þetta er víðáttumikið safn, á stærð við Pompidou-safnið í París og státar að sjálfsögðu af spönsku snillingunum Salvador Dalí, Joan Miró og Pablo Picasso. Hugsanlegt er, að Guernica eftir Picasso, sem nú er í öðru safni í Madrid, verði flutt í þetta safn.

Paseo del Prado

Við förum til baka til torgs Karls keisara og göngum norður eftir breiðgötunni Paseo del Prado, sem er safngata borgarinnar, liggur nokkurn veginn frá Reina Sofia til Palacio de Villahermosa við torgið Canovas del Castillo, þar sem hótelin Palace og Ritz horfast í augu og þar sem spánska þjóðþingið, Cortes, er handan við Palace-hótel. Á hægri hönd er fyrst grasgarður borgarinnar, Jardin Botanico, og síðan eitt af allra frægustu söfnum heims, Museo del Prado, fölbleikt í nýgnæfum stíl.

Colección Thyssen

Í Palacio de Villahermosa (D3) er svo verið að innrétta enn eitt safnið á þessum litla bletti. Það er safn 787 listaverka, sem svissneski auðkýfingurinn Thyssen-Bornemisza er að afhenda Spáni til varðveizlu. Það verður opnað um áramótin 1991-1992. Þá verða þrjú voldug málverkasöfn á um það bil eins kílómetra kafla við breiðgötuna Paseo del Prado. Það eru Colección Thyssen, Centro de Arte Reina Sofia og síðast en ekki sízt Museo del Prado.

Museo del Prado

Erfitt er að veita leiðsögn um Prado, (E4) ekki bara af því að safnið er stórt, heldur einnig af því að alltaf er verið að færa til hluti og leiðbeiningar eru einstaklega lélegar. Reiknað er með, að málverk Goya verði flutt yfir torgið Canovas del Castillo inn í Palacio de Villahermosa, en síðast, þegar ég vissi til, voru þau í suðurenda Prado, á tveimur hæðum. Bezt er að nota þann inngang, andspænis grasgarðinum, því að oft eru biðraðir við aðalinnganginn á miðri vesturhlið safnsins.

Mörg frægustu málverk Goya hafa til skamms tíma verið varðveitt hér. Þar á meðal eru málverkin af Maju í fötum (nr. 741) og nöktu Maju (nr. 742); af Satúrnusi að éta son sinn (nr. 763); og af lífláti uppreisnarmanna í Madrid 3. maí 1808 (nr. 749). Málverk Goya er í sölum 66-68, 19-23 og 32-38.

Hér er líka mikið af málverkum eftir El Greco. Þau eru miðsvæðis á annarri hæð, í sölum 8b-10b. Þar á meðal er aðalsmaður með hönd við hjartastað (nr. 809) og Lotning fjárhirðanna (nr. 2988).

Ekki er síður El Bosco eða Hieronymus Bosch sjáanlegur í miklu úrvali. Hans myndir eru í sölum 40-44 á efri hæð. Þar á meðal eru lotning vitringanna (nr. 2048) og gleðigarðurinn (nr. 2823).

Eftir Raphael má nefna myndina af rauðklædda kardínálanum (nr. 299) í vesturenda efri hæðar og eftir Velázquez má nefna myndina af konungsbörnunun (nr. 1174) í miðsal efri hæðar.

Þá má ekki gleyma nöktu jússunum hans Rúbens, sem þekja fermetra eftir fermetra í safninu.

Allt eru þetta meðal merkustu málverka heims, kunn úr listaverkabókum. Prado er eitt af helztu söfnum gamallar listar í heiminum, við hlið Louvre í París, Uffizi í Flórens og National Gallery í London.

Eitt frægasta verk safnsins er þó ekki hér í húsinu, heldur í sérstöku húsi í nágrenninu, í Casón del Buen Retiro. Það er Guernica eftir Picasso, ef til vill frægasta málverk aldarinnar. Það lýsir afleiðingum þýzkra loftárása á borg í Baskalandi í borgarastyrjöldinni 1936-1939. Hann málaði það fyrir lýðveldisstjórnina, sem Franco hrakti frá völdum. Heimkoma málverksins til Spánar varð tákn fyrir sigur lýðræðis. Til að komast þangað er gengið upp brekkuna norðan við Prado, alla leið að Retiro-garði.

Við að skoða öll þessi listaverk, sem meira eða minna eru úr eign Spánarkonunga, sker í augun, hvað mikið er af hrottalegum og ofsafengnum málverkum í samanburði við önnur söfn af þessu tagi. Tortíming, dauði og djöflar hafa greinilega verið hugleikin umþóttunarefni sumra hinna rammkaþólsku Habsborgara, sem réðu fyrir Spáni.

Prado er opið þriðjudaga-laugardaga 9-15, sunnudaga 9-14

El Escorial

Einn þessara sérkennilegu Spánarkonunga var Filipus II af Habsborg. Hann var ofsatrúaður kaþólikki og reisti sér vinkilrétt reglustrikaða grjóthöll mikla, El Escorial, í nágrenni Madrid, um miðja 16. öld.

Við skulum ljúka kaflanum um Madrid með því að skreppa í útrás til þessarar hallar, sem er 55 kílómetrum norðan við borgina.
El Escorial er í afar ströngum og kuldalegum fægistíl, hönnuð af Juan de Herrera og reist á síðari hluta 16. aldar, um leið og Madrid var gerð að höfuðborg. Höllin er ferningslaga, reist með mikla kirkju að miðpunkti og er að öðru leyti skipt í fjóra jafna ferninga, tveir af hverjum skiptast í fjóra minni ferninga. Í tveimur ferningum var klaustur, í einum háskóli og í einum vistarverur konungs. Allar línur eru afar hreinar, beinar og kuldalegar, í stærðfræðilegum málsetningum.

Gaman er að bera saman tiltölulega fátæklegar vistarverur Habsborgarans Filipusar II á 2. hæð við ríkmannlegar vistarverur eins eftirkomanda hans, Búrbónans Karls IV, á 3. hæð.

Í höllinni eru líka ýmis söfn, þar sem meðal annars má sjá kvöl heilags Máritz eftir El Greco. Hallarkirkjan er í fægirænum endurreisnarstíl; eins og grískur, jafnarma kross að grunnfleti, með víðáttumiklu hvolfi. Undir henni eru grafir flestra Spánarkonunga, sem ríkt hafa frá þeim tíma.

El Escorial er opin 10-13:30 og 15:30-19, -18 á veturna, lokuð mánudaga.

1991

© Jónas Kristjánsson

Róm göngur

Ferðir

1. ganga, Páfaríki

Palazzo di Giustizia

Péturskirkja er eitt helzta aðdráttarafl Rómar, enda höfuðkirkja kristindóms. Við byrjum leiðsögnina um Róm í nágrenni hennar, á bakka borgarfljótsins Tevere, við brúna Ponte Umberto I.

Andspænis okkur er það hús, sem mest ber á í allri Róm. Það er Palazzo di Giustizia, dómhús borgarinnar, mikil rjómaterta, hönnuð af Gugliemo Calderini og byggð 1889-1911 í sögustíl, eins konar blöndu hlaðstíls og nýgnæfu.

Ponte Sant’Angelo

Við göngum niður eftir árbakkanum, Lungotevere Castello, í átt til fegurstu brúar Rómar. Það er Ponte Sant’Angelo, að mestu frá 136.

Hadrianus keisari lét reisa hana til að tengja Marzvelli, Campus Martius, við grafhýsi sitt handan árinnar. Miðbogarnir þrír eru upprunalegir, en endabogarnir eru frá 17. öld. Stytturnar af Pétri og Páli postulum á syðri enda brúarinnar eru frá 1530. Hinar stytturnar tíu eru hannaðar af Bernini og reistar árin 1667-1669.

Castel Sant’Angelo

Við norðurenda brúarinnar blasir við mikilúðlegt grafhýsi Hadrianusar, reist 135-139. Sívalningurinn er að mestu upprunalegur, í stíl etrúskra grafhýsa. Þar var varðveitt aska Hadrianusar og eftirmanna hans allt til Septimusar Severusar. Ofan á sívalningnum var þá jarðvegshaugur og þar trónaði efst líkneski af Hadrianusi í fereykisvagni.

Þegar Aurelius keisari lét víggirða borgina 270, gerði hann grafhýsið að virki í borgarmúrnum. Gregorius I páfi lét reisa kapellu uppi á haugnum 590, helgaða Sant’Angelo, og af honum er 18. aldar bronsstyttan, sem nú trónir á virkinu. Grafhýsinu var breytt í kastala, sem fékk nafn það, er hann ber enn í dag.

Nikulás V lét reisa múrsteinshæð ofan á sívalninginn og turna á hornin um miðja 15. öld. Alexander VI lét reisa áttstrendu fallbyssustæðin umhverfis virkið um 1500. Virkið var þá tengt páfahöllinni með göngum í löngum múrvegg, Passetto, sem páfar gátu flúið eftir inn í virkið, ef hættu bar að höndum. Clementius VII flúði í virkið undan herjum Karls V Frakkakonungs 1527 og lét gera vistarverur þar. Síðar var kastalinn löngum notaður sem herbúðir og fangelsi, en nú er hann orðinn að safni. Í óperunni Tosca eftir Puccini varpar söguhetjan sér út af virkisveggnum.

Gengið er inn í safnið frá hliðinni, sem snýr að ánni. Farið er upp rampa og tröppur í megingarð virkisins, þar sem er upprunalega marmarastyttan af engli virkisins, frá 1544. Rampinn er að verulegu leyti í upprunalegu ástandi, með svart-hvítum steinfellumyndum. Við efri enda hans var útfararklefi Hadrianusar.

Safnið er að mestu hernaðarlegs eðlis. Á efstu hæð eru vistarverur þriggja páfa, Piusar IV, Juliusar II og Páls III. Vistarverur Juliusar eru hannaðar af Bramante. Þaðan er gott útsýni yfir borgina. Á þessari hæð er einnig bókasafn og leyndarskjalasafn páfastóls.

Á næstefstu hæð er megingarðurinn, Cortile di Onore, garður Alexanders VI af Borgia, dómsalurinn í kastalamiðju, nokkrir fangaklefar, svo og kapella Leo X, hönnuð af Michelangelo, reist þar sem upprunalega kapellan var. Í fangaklefunum sat meðal annarra munkurinn og vísindaheimspekingurinn Giordano Bruno.

Safnið er opið þriðjudaga-laugardaga 9-14, sunnudaga 9-13, mánudaga 14-19.30.

Vaticano

Við göngum til hægri úr kastalanum og áfram breiðgötuna Via della Conciliazione, sem liggur beint til Péturstorgs og Péturskirkju, miðpunkts heimsins í síðustu fimm aldir. Við ætlum þó fyrst að skoða hin víðáttumiklu söfn Vatíkansins, því að dyrum þeirra er lokað kl.13 á veturna.

Hér stöndum við ekki á Ítalíu, heldur í ríki Páfastóls. Hér fást frímerki Vatíkansins og hér eru póstkassar þess. Héðan komast póstkort fljótar heim en úr póstkössum Rómar.

Frá torginu beygjum við til hægri meðfram húsum Páfaríkis, eftir Via di Porta Angelica, Piazza del Risorgimento, Via Michelangelo og Viale Vaticano, samtals um 800 metra leið að dyrum Vatíkansafna.

Vatíkansöfnin eru í páfahöllum, sem smám saman voru reistar, allt frá því um 500, en einkum eftir 1377, þegar páfastóll var fluttur aftur til Rómar frá Avignon og Vatíkanið tók við af Laterano-höllinni, sem hafði eyðilagzt í eldsvoða. Flest húsin eru frá 15. og 16. öld. Smám saman hlóðu páfarnir upp forngripum og dýrgripum, sem fylltu sali hallanna. Söfnin hafa verið opin almenningi síðan í lok 18. aldar, en hafa mikið verið stækkuð síðan.

Musei Vaticani

Vatíkansöfnin eru opin mánudaga-laugardaga 9-14, á sumrin einnig 14-17 mánudaga-föstudaga.

Þetta eru vel skipulögð og mikið sótt söfn, einkum fræg fyrir Sistínsku kapelluna, sem hefur verið hreinsuð og logar nú í litadýrð málverka Michelangelos. Auðvelt er að fara um söfnin, því að fjórar misjafnlega langar og ítarlegar leiðir um þau eru merktar fjórum litum. Við veljum ótrauð lengstu leiðina.

Fyrst liggur leiðin um egypzka safnið með styttum af móður Ramsesar II og Mentuhotep faraó í sal nr. 5.

Síðan förum við um grísk-rómverska safnið, þar sem frægastur er Belvedere-garður. Þar eru frægar styttur af Apollo og Perseifi, en einkum þó styttan af Laocoën konungi og sonum hans, sem reyna að verjast höggormum. Þessi höggmynd er frá Rhodos frá 1. öld f.Kr. og fannst í gullhöll Neros keisara. Þetta verk er oft tekið sem dæmi um spennuna í hlaðstíl hellenismans, er grísk list rann skeið sitt á enda.

Næst er etrúska safnið með dýrgripum úr grafhýsi etrúskra hjóna. Munirnir sýna vel sérstöðu etrúskrar menningar, sem var öðru vísi en grísk og rómversk og stundum talin ættuð frá Litlu-Asíu.

Stanze di Rafaello

Þá liggur leiðin um langan gang, þar sem er teppasafn og safn landakorta frá 1580-1583. Loft þessara sala eru rækilega skreytt.
Síðan förum við um sali Rafaels, með verkum hans frá 1508-1517, þar á meðal eldsvoðanum í Borgo, Aþenuskólanum, messunni í Bolsena og frelsun Péturs postula úr fangelsi. Þessir salir eru frægasti hluti safnanna næst á eftir Sistínsku kapellunni.

Svo förum við um Nikulásarkapellu með freskum eftir Fra Angelico frá 1447-1451 og um Borgia-sali með freskum eftir Pinturicchio frá 1492-1503.

Capella Sistina

Þá er röðin komin að Sistínsku kapellunni, sem var reist 1475-1480. Þar er frægast loftið, sem Michelangelo málaði 1508-1511 og gaflmynd hans af dómsdegi, máluð 1533. Loftmyndirnar sýna sköpun heimsins, brottrekstur Adams og Evu úr aldingarðinum og Nóa.

Dómsdagsmyndin er hlaðin spennu og markar þau tímamót, að endurreisnarstíll er þá að byrja að breytast yfir í hlaðstíl.

Næst er málverkasafnið, Pinacoteca, þar sem eru meðal annars þrjú altarismálverk Rafaels, af krýningu heilagrar Maríu, Madonnu frá Foligno og ummyndun Krists á fjallinu. Þar er líka heilagur Jeronimus eftir Leonardo da Vinci og losun Krists af krossinum eftir Caravaggio.

Ferðinni um söfn Vatíkansins lýkur í yngsta hlutanum; fornminjasafni, þar sem meðal annars eru steinfellumyndir úr baðhúsi Caracalla; og kristminjasafni, þar sem eru nokkrar þekktar steinkistur.

Við förum ekki sömu leið til baka úr safninu, heldur með strætisvagni, sem ekur á hálftíma fresti um garða Vatíkansins milli safns og torgsins framan við Péturskirkju.

San Pietro

Hér var áður Péturskirkja hin fyrri, reist á dögum Constantinusar mikla á fyrri hluta 4. aldar, sennilega 326, og var lengi ein af höfuðkirkjum Rómar, en ekki páfakirkja. Hún var reist hér, af því að á þessum stað var Pétur postuli sagður hafa verið krossfestur á dögum Neros keisara.

Péturskirkja hin síðari var í upphafi krosskirkja, jafnarma eins og grískur kross, að mestu hönnuð og reist af Michelangelo 1547-1564, en var síðan lengd í byrðu af Maderno og Bernini á fyrri hluta sautjándu aldar, þannig að grunnmynd hennar varð eins og latneskur kross. Samtals tók bygging hennar meira en hálfa aðra öld, allt frá því er Bramante gerði fyrstu teikningarnar 1506 og til þess er Bernini lauk við kirkjutorgið 1667. Kirkjan er byggð í endurreisnarstíl, en skreytt í hlaðstíl.

Sporöskjulaga göngin með fjórum súlnaröðum umhverfis Piazza San Pietro eru eftir Bernini, reist 1656-1667. Markmið sporöskjunnar var að draga athyglina að framhlið kirkjunnar og búa til eins konar náðarfaðm fyrir hina trúuðu, er þeir hlýða á boðskap páfa. Ofan á sporöskjunni eru 140 englastyttur. Í miðju torgsins er einsteinungur frá Heliopolis í Egyptalandi, höggvinn á 1. öld f. Kr., fluttur til Rómar á dögum Caligula. Brunnarnir á torginu eru eftir Maderno, hægra megin, og Bernini, vinstra megin.

Andspænis okkur gnæfir sviplítil framhlið kirkjunnar, hönnuð af Carlo Maderno og reist 1607-1614. Styttur Péturs og Páls postula standa á tröppunum framan við kirkjuna. Héðan frá að sjá skyggir framhliðin að verulegu leyti á meistaraverk Michelangelos, kirkjukúpulinn. Á brúninni standa styttur Krists og allra lærisveinanna nema Péturs sjálfs. Páfasvalirnar eru neðan við gaflaðsþríhyrninginn.

Sjálf kirkjan er ein hin stærsta í heimi, með 450 styttum, 500 súlum og 50 ölturum, ríkulega skreytt marmara og listaverkum, talin rúma 60.000 manns í einu. Hún er rúmlega 200 metra löng, með 140 metra háu og 40 metra breiðu hvolfþaki yfir krossmiðju.
Hvolfþakið er eins konar stækkuð mynd af hvolfþaki Pantheons. Giacomo della Porta lauk við þakið og gerði það heldur léttara útlits en Michelangelo hafði gert ráð fyrir. Hvolfið er alsett steinfellumyndum.

Hægra megin við innganginn er Pietà, höfuðafrek Michelangelos, höggvin 1499-1500 og sýnir sorg Maríu meyjar við lát Krists.
Við kórbak er afar skrautlegur Pétursstóll í hlaðstíl, hannaður af Bernini. Undir hvolfþakinu er hásæti með 29 metra háum og hrikalegum bronshimni, sem Bernini hannaði í hlaðstíl. Bronsinu lét páfinn Urban VIII ræna úr Pantheon. Undir hásætinu er grafhýsi Péturs postula. Framan við það hægra megin er bronsstytta af Jupiter, sem í fornöld stóð á Capitolum, en er nú sögð af Pétri postula, með fægðan fót af kossum trúaðra, sem vita ekki, að þetta er heiðinn guð.

Um norðaustursúluna undir hvolfþakinu er gengið niður í grafarhvelfingar páfa og um leifar gömlu Péturskirkju.
Úr anddyri kirkjunnar er hægra megin farin leiðin til lyftunnar, sem flytur fólk upp á kirkjuþak. Gott útsýni er ofan af framhliðinni, en frábært verður það, ef fólk leggur á sig að klífa tröppurnar af þakinu upp á hvolfþakið.

Frá suðurhlið kirkjunnar er gengið niður í fornan kirkjugarð frá 1.-4. öld, sem grafinn hefur verið út. Panta þarf fyrirfram, ef fólk vill fara þangað niður.

2. ganga, fornar rústir

Miðborg hinnar fornu Rómar var í lægðinni vestur af hæðinni Capitolum og norður af hæðinni Palatinum. Þar var Forum Romanum, höfuðtorg Rómar á lýðveldistíma, og Fori Imperiali, röð höfuðtorga hennar á keisaratíma.

Þessi torg voru öldum saman þungamiðja Vesturlanda, allt frá því að Rómverjar tóku við af Grikkjum sem merkisberar vestursins og þangað til kaþólska kirkjan flutti þungamiðjuna hálfan annan kílómetra suðaustur til Laterano-torgs.

Lítið stendur eftir af fornri frægð þessa svæðis, brot af súlum og veggjum, sem gefa hugmynd um fornan glæsileika. Enn stendur mikið af Trajanusarmarkaði og Maxentiusarbyrðu, bútar af keisarahöllum og heiðnum hofum, nokkrir heilir sigurbogar og fundarsalur öldungaráðsins.

Við hefjum ferðina í norðurhorni svæðisins, á höfuðtorgi Rómar í nútímanum, Piazza Venezia, þaðan sem við sjáum súlu Trajanusar greinilega. Við göngum að henni.

Foro di Traiano

Trajanusarsúlan hefur staðið hér í tæplega nítján aldir, furðanlega vel varðveitt. Trajanus keisari lét reisa hana til að minnast sigra sinna í tveimur styrjöldum við Daka í Rúmeníu. Sagan er sögð í 100 lágmyndum, sem mynda marmaraspíral utan á súlunni og væru alls 200 metra langar, ef þær lægju í beina línu. Eins og mörg marmaraverk fornaldar voru þessar myndir í upphafi málaðar skærum litum. Lengst af stóð efst stytta af Trajanusi, en síðustu fjórar aldirnar hefur Pétur postuli verið á vaktinni. Upphaflega voru háar bókasafnsbyggingar beggja vegna súlunnar og þá var auðveldara en nú að lesa myndasögu súlunnar.

Að baki súlunnar eru leifar fimm skipa Ulpiubyrðu, Basilica Ulpia, sem ber ættarnafn Trajanusar. Við tökum eftir, að fyrir tveimur árþúsundum var yfirborð lands mun lægra í miðbæ Rómar en það er nú. Handan byrðunnar var sjálft Trajanusartorgið undir beru lofti, stærsta torg keisaratímans í Róm.

Vinstra megin, í hálfhring undir hlíðinni, stendur enn að nokkru Kringla hinna fornu Rómverja, safn 150 sölubúða og þjónustufyrirtækja undir einu þaki. Þetta er merkasti hlutinn af Foro di Traiano, hannaður af Apollodorusi frá Damascus og byggður árin 107-113.

Yfir þessum minnisvarða um skipulagskunnáttu hinna fornu Rómverja gnæfir yngra mannvirki, Torre delle Milizie, frá 1227-1241, eitt bezt varðveitta miðaldamannvirki Rómar.

Til þess að skoða hina fornu verzlanamiðstöð þarf að fara upp tröppurnar vinstra megin við hana, Via Magnanapoli, því að þar er eini inngangurinn, frá Via Quattro Novembre, lokaður mánudaga, opinn 9-13 og 15-18 á sumrin, 9-16 á veturna, nema sunnudaga 9-14.

Foro di Augusto

Við förum aftur niður tröppurnar og göngum eftir Via Alessandrina, meðfram grindverkinu, sem snýr að Trajanusarmarkaði, framhjá Casa dei Cavalieri di Rodi, reist 1464-1471 í feneyskum endurreisnarstíl, svo sem sjá má af yfirbyggðu svölunum, sem snúa að Foro di Traiano.

Næst blasa við leifar Foro di Augusto og musteris Marz hefnanda, Martius Ultor, sem Augustus keisari lét reisa árið 31 f.Kr. til minningar um sigur sinn á Cassiusi og Brutusi. Þetta musteri var lengi síðan ættarmusteri afkomenda hans. Beggja vegna þess eru leifar af bogadregnum byrðum. Milli byrðanna og musterins eru tröppur, sem lágu til skuggahverfisins Suburra.

Síðasti hluti fornleifasvæðisins handan grindverksins er Foro di Nerva, framan við hótelið Forum, sem sagt er frá á öðrum stað í þessari bók. Þetta torg vígði Nerva keisari árið 98. Það var langt og mjótt, umhverfis hina fornu aðalgötu Argiletum, sem lá frá Forum Romanum, meðfram Curia til Suburra. Lítið sést af sögufrægum rústum musteris Minervu, sem hér var miðsvæðis á torginu, því að páfinn Páll V lét ræna þær á 17. öld til að byggja gosbrunn á Janiculum.

Í fornöld var hér eitt keisaratorgið enn í röð, þar sem nú eru gatnamót Via dei Fori Imperiali og Via Cavour. Það var torg Vespanianusar keisara með musteri friðarins og bókasafni, þar sem nú er kirkjan Santi Cosma e Damiano. Norðaustan torgsins er turn frá 13. öld, Torre de’Conti.

Foro di Cesare

Mussolini lét í æði sínu leggja breiðgötuna Via dei Fori Imperiali beint yfir hinar fornu rústir. Yfirvöld nútímans hafa ekki enn megnað að manna sig upp í að framkvæma ásetning um að fjarlægja götuna til að leita fleiri fornleifa.

Við förum yfir breiðgötu Mussolinis og göngum til baka eftir henni í átt til Foro di Cesare, sem lá milli áðurnefndra torga og hins forna Rómartorgs, Forum Romanum, þétt við Capitolum-hæð. Við sjáum greinilega niður í tvo þriðju hluta hins forna torgs, sem Cesar lét gera árið 51 f.Kr. Enn standa þar þrjár súlur úr hofi Venusar Genetrix, sem Juliusarætt taldi ættmóður sína, svo og súlubrot úr gjaldeyrisverzlana-byrðunni Argentaria, er stóð meðfram forngötunni Clivus Argentarius.

Við bregðum okkur frá suðurenda torgsins inn sundið Via Tulliano í átt til sigurboga Septimusar Severusar. Á hægri hönd okkar eru tröppur niður í kirkjukjallara. Undir kirkjunni er fangelsi, Mamertine, á tveimur hæðum, þar sem geymdir voru óvinir Rómarveldis, svo sem Jugurta Afríkukóngur árið 104 f.Kr. og Vercingetorix Gallahöfðingi árið 46 f.Kr. Búnar hafa verið til sögur um, að Pétur postuli og fleiri kristnir píslarvottar hafi einnig verið í þessari prísund.

Héðan getum við virt fyrir okkur hluta af Forum Romanum, svo sem sigurboga Severusar og Tabularium, áður en við förum til baka meðfram Via dei Fori Imperiali, eftir göngustígnum Via della Salara Vecchia, til eina inngangsins í Forum Romanum.

Foro Romano

Stærsta torg lýðveldistíma hinnar fornu borgar var Forum Romanum. Það var upprunalega verzlunartorg með múrsteinshúsum, en varð síðan marmaraslegið stjórnmála- og trúmálatorg fram að þjóðflutningum miðalda, þegar Rómarveldi hrundi. Af frágangi eftir fornleifagröft getum við gert okkur í hugarlund skipan merkra bygginga og gatna á þessu svæði, ef við göngum um það og gefum okkur góðan tíma.

Antonio e Faustina

Þegar við göngum frá innganginum niður á torgið, er hof keisarahjónanna Antoniusar og Faustinu á vinstri hönd og grunnur Emilíubyrðu á hægri hönd. Hofið var reist á vegum Antoniusar Piusar árið 141. Súlur framhliðarinnar eru upprunalegir einsteinungar, svo og tröppurnar upp að hofinu. Framhliðin í hlaðstíl er að öðru leyti frá 1602, þegar hofinu hafði verið breytt í kirkju.

Basilica Aemilia, Emilíubyrða, var reist 179 f.Kr. og bar nafn ættarinnar, sem sá um viðhald hennar. Þær leifar, sem nú sjást, eru frá 1. öld. Þarna var verzlað og sættir gerðar.

Meðfram Emilíubyrðu var helgibrautin Via Sacra, þar sem fram fóru sigurgöngur herforingja.

Við norðurenda Emilíubyrðu má sjá götuna Argiletum, sem að fornu var líflegasta gata borgarinnar. Handan götunnar rís Curia.

Curia

Þessi fundarsalur öldungaráðs Rómar er frá 80-29 f.Kr. og var endurreistur árið 283, en hin upprunalega Curia lýðveldistímans stóð við hliðina, þar sem nú er kirkjan Luca e Martina. Húsið varðveittist, af því að því var breytt í kirkju. Curia er fremur drungalegt múrsteinahús, en var auðvitað glæsilegra að fornu, þegar það var klætt marmara. Bronshurðirnar miklu eru eftirlíking, en hinum upprunalegu lét páfinn Alexander VII ræna á 17. öld handa Jóhannesarkirkju við Lateranum-torg, þar sem þær eru enn þann dag í dag.

Í húsinu eru núna tvær marmarabríkur, sem voru áður á Rostra.

Rostra

Fyrir utan Curia er sigurbogi Septimusar Severusar, Arco di Severo, reistur 203 eftir sigra hans og tveggja sona hans gegn Pörþum. Athyglisvert er, að sonurinn Caracalla, sem varð keisari eftir Severus og lét drepa bróður sinn, Geta, lét líka má út nafn hans á sigurboganum. Boginn er sá fyrsti þeirrar gerðar, að súlurnar eru aðskildar frá veggnum að baki.

Við hlið sigurbogans, fjær Curia, er Rostra, ræðupallur torgsins, þar sem ræðuskörungar Rómaveldis komu fram. Slíkur pallur var á torginu allt frá 338 f.Kr., en sá pallur, sem nú stendur, er frá tímum Cesars, frá 44 f.Kr.

Framan við Rostra stendur Fókasarsúla, síðasta byggingaframkvæmd Rómartorgs, tekin úr hofi og reist 608 á vegum páfans í þakklætisskyni fyrir, að Fókas keisari gaf kirkjunni Pantheon til messugerðar.

Tabularium

Að baki gnæfir Tabularium á Capitolum, reist 78 f.Kr. til varðveizlu ríkisskjala, lagabálka og ríkisfjármuna. Neðri hlutinn með súlnariðum er upprunalegur, en ofan á var reist Palazzo Senatorio á 12. öld. Tabularium markaði norðvesturenda Rómartorgs.

Hægra megin fyrir framan Tabularium stóð áður fyrr Sáttahof, Concordia, til minningar um sátt höfðingja og alþýðu Rómar 367 f.Kr.
Fyrir miðju Tabularium standa enn þrjár kórinþusúlur úr hofi Vespanianusar keisara, sem sonur hans og sonarsonur létu reisa að honum látnum árið 79.

Vinstra megin standa átta súlur úr hofi Saturnusar frá 42 f.Kr., en upprunalega var hér elzta hof torgsins, reist 497 f.Kr.
Að baki Saturnusarsúlna eru tólf kórinþusúlur úr súlnagöngum, sem Dominitianus keisari lét reisa til heiðurs tólf helztu Rómarguðum undir lok 1. aldar.

Basilica Julia

Við höldum nú framhjá Fókasarsúlu meðfram grunni hinnar risastóru, fimm skipa Júlíubyrðu, Basilica Julia, sem stóð andspænis Emilíubyrðu við torgið, reist á vegum Cesars 55 f.Kr og fullgerð á vegum Augustusar keisara árið 12. Hún gegndi svipuðu hlutverki og Emilíubyrða, verzlun og dómstörfum. Framan við byrðuna sjást leifar af súlnaröð, sem reist var um aldamótin 300 til heiðurs herforingjum.

Í framhaldi af Júlíubyrðu standa enn þrjár snæhvítar kórinþusúlur frá stjórnartíma Augustusar úr hofi Castors og Polluxar, sem upphaflega var reist á 5. öld f.Kr. til minningar um sigur í orrustunni við Regillusarvatn 496 f.Kr.

Við förum áfram milli þessa hofs og Juliusarhofs, sem stóð við suðausturenda torgsins. Það hof var hið fyrsta í röð hofa keisaradýrkunar, tileinkað Juliusi Cesar keisara, reist 29 f.Kr.

Vestae

Við stefnum beint á hringlaga hof Vestumeyja. Þar sátu kvenprestar og gættu Rómarelds og helgigripa Rómarveldis allt frá 6. öld f.Kr. Þær rústir, sem nú sjást, eru frá valdatíma Severusar í upphafi 3. aldar.

Að baki hofsins eru leifarnar af Vestae, stórhýsi Vestumeyja, þar sem kvenprestarnir bjuggu. Enn má sjá innigarð þeirra með tveimur laugum.

Ofan við Vestae til hægri sjáum við leifar keisarahallar Caligula í hlíðum Palatinum-hæðar.

Við gögum út úr garðinum til vinstri og förum þar aftur inn á Via Sacra, aftan við Regia, sem var á lýðveldistíma Rómar aðsetur æðstaprests Rómar, Pontifex Maximus. Regia er að baki áðurnefnds Juliusarhofs.

Við göngum framhjá leifunum af hringlaga hofi Romulusar, ekki stofnanda Rómar, heldur sonar Maxentiusar keisara, og beygjum til vinstri að byrðu Maxentiusar og Constantinusar.

Basilica Maxentia

Basilica Maxentia e Constantina var reist að mestu 308-312 á vegum Maxentiusar keisara, en fullgerð á vegum Constantinusar keisara. Hún stendur enn að nokkru, gnæfir yfir rústum Rómartorgs og ber vitni um frábæra snilld Rómverja í hvelfingagerð. Þetta var síðasta byrða fornaldar, þriggja skipa og svipuð að flatarmáli og Júlíu- og Emilíubyrður, en voldugri á hæðina. Svipuð tækni var notuð við byggingu hennar og við gerð hinna frægu baðhúsa keisaraaldar.

Arco di Tito

Via Sacra liggur upp að Titusarboga, sem stendur á þrepi, þar sem vegi hallar til beggja átta, til Forum Romanum og til Colosseum. Sigurboginn er í mælirænum hlutföllum og fagurlega skreyttur, reistur árið 81 til minningar um sigra hinna keisaralegu feðga, Vespanianusar og Titusar, á Gyðingum.

Hér beygjum við til hægri af Via Sacra og höldum eftir veginum Clivus Palatinus upp á keisarahæðina.

Palatino

Elzta byggð í Róm var í svölum hlíðum Palatinum-hæðar. Augustus lét reisa sér keisarahöll, Domus Augustana, í auðmannahverfi, sem var á hæðinni á hans dögum. Eftirkomendur hans færðu út kvíarnar og síðasti keisari Flavia-ættar, Dominitianus, breytti allri hæðinni í keisarahöll, Domus Flavia.

Mjög lítið er nú sjáanlegt af hinum miklu byggingum fornaldar, en duldar gersemar eru vafalaust undir trjám Farnese-garða.
Ef við tökum stefnuna á forngripasafnið, er Domus Augustana á vinstri hönd og Domus Flavia á hægri hönd, síðan Domus Livia og loks Domus Tiberiana.

Domus Flavia

Næst brekkunni niður að Forum Romanum eru leifarnar af heimilishofi keisarans við Clivus Palatinus, síðan af hásætissalnum og loks dómbyrðunni, þar sem keisarinn kvað upp úrskurði sína.

Að baki salanna þriggja er garður, peristyle, upprunalega með súlnagöngum í kring og í miðju átthyrnd tjörn, sem enn sést. Undir sölunum þremur og garðinum eru neðanjarðarsalir.

Handan við peristyle var triclinium, borðstofa keisarans, fegursti salur hallarinnar. Hluti gólfsins hefur varðveizt, lagt marglitum marmara.

Beggja vegna við borðstofuna voru nymphaea. Það, sem er hægra megin, hefur varðveitzt sæmilega. Þetta voru setustofur hallarinnar.

Domus Augustana

Stjórnarhöll Augustusar var byggð utan um tvo garða. Sá hærri er vinstra megin framan við forngripasafnið og hinn lægri er að baki þess, einnig vinstra megin. Neðri hæðir hallarinnar gnæfa enn í íhvolfum sveig yfir Circus Maximus handan hæðarinnar.

Vinstra megin við Domus Augustana sést enn leikvangur frá tíma Dominitianusar, upprunalega umluktur tveggja hæða súlnagöngum.

Sporbaugurinn í öðrum enda leikvangsins er viðbót frá tíma Þeodoriks Austgotakonungs á 6. öld. Handan leikvangsins eru rústir baðhúss, sem reist var á vegum Maxentiusar keisara.

Domus Livia

Ef við förum þvert gegnum Domus Flavia, komum við að svæði fornleifagraftar. Þar eru leifar musteris, sem Augustus reisti guðinum Apollo. Ennfremur eru þar rústir af Domus Livia, sem var bústaður Augustusar. Veggmyndir hafa verið losaðar af veggjum og settar upp fyrir framan þá, svo að betra sé að virða þær fyrir sér.

Domus Tiberiana

Milli Domus Livia og Forum Romanum eru Farnese-garðar, lagðir á miðri 16. öld ofan á því, sem áður voru rústir keisarahalla Tiberiusar, Caligula, Trajanusar og Hadrianusar. Næst Domus Livia var höll Tiberiusar, en fjærst, þar sem útsýnissvalirnar eru yfir Forum Romanum, var höll Caligula. Hallir Trajanusar og Hadrianusar voru þar inn af, nær Clivus Palatinus. Ekkert sést nú ofanjarðar af höllum þessum, en leifar bogariða sjást í hlíðunum, sem snúa út að Forum Romanum. Undir Farnese-görðum má vafalaust finna fleiri menjar þessara keisarahalla.

Arco di Constantino

Við höldum til baka niður að Titusarboga og förum Via Sacra meðfram nokkrum súlum úr musteri Venusar og Rómar, sem reist var á vegum Hadrianusar 121-136, í átt til sigurboga Constantinusar og hringleikahússins Colosseum. Á þessum slóðum var inngangurinn í gullhöll Neros.

Sigurboginn var reistur 315 til minningar um sigur Constantinusar yfir keppinauti sínum, Maxentiusi, mjög vel hannaður og mikið skreyttur lágmyndum. Sumum hinum beztu þeirra hafði verið rænt af eldri minnismerkjum Trajanusar, Hadrianusar og Aureliusar frá upphafi 2. aldar.

Þá þegar var hafinn sá langi tími í sögu Rómar, að ný og lakari minnismerki voru reist með því að spilla þeim betri, sem fyrir voru. Kirkjunnar menn voru mikilvirkastir í þeim spellvirkjum og hefur það til dæmis komið feiknarlega hart niður á Colosseum.

Colosseo

Colosseum er einkennistákn hinnar fornu Rómar á svipaðan hátt og Péturskirkja er einkennistákn hinnar kristnu Rómar. Sporöskjulagað hringleikahúsið, sem er 188 og 156 metrar að þvermáli og rúmaði 50.000 áhorfendur, var reist árin 72-96, á stjórnarárum hinna flavísku keisara, Vespanianusar, Titusar og Dominitianusar.

Grunnform þess stendur enn að mestu, þótt það hafi verið rúið marmara og öðru skarti, sætum og heilu veggjunum. Það vekur enn ógnþrungna virðingu ferðamanna, því að ljósmyndir segja litla sögu um stærð þess og efnismagn.

Að utanverðu er Colosseum fjögurra hæða. Neðst er dórískt súlnarið, síðan jónískt rið á annarri hæð og kórinþurið á hinni þriðju, en næsta heill veggur á hinni fjórðu, á sínum tíma lagður bronsskjöldum. Þessi röðun grískra súlnaforma hefur æ síðan orðið byggingameisturum til fyrirmyndar. Yfir mannvirkið var dreginn tjaldhiminn, þegar þurfti að skýla áhorfendum fyrir sól eða regni.

Bygging hringleikahússins var verkfræðilegt afrek. Með þreföldum útvegg og þrautskipulögðu kerfi stiga milli veggjanna var séð um, að 50.000 áhorfendur gætu yfirgefið það á skömmum tíma. Undir sýningarsvæðinu var einnig mikið aðflutningskerfi starfsfólks, þræla og dýra, sem sjá má ofan frá, ef menn fara hring um svæðið.

Sýningar lögðust af á 6. öld, og á 13. öld var leikhúsinu breytt í virki. Á 15. öld var hafizt handa við að taka úr því grjót til byggingar Péturskirkju, Feneyjahallar og fleiri mannvirkja í Róm. Þessi vandalismi hélt áfram í þrjár aldir, unz hann var stöðvaður á 18. öld.

Domus Aurea

Colosseum var reist, þar sem áður var hallartjörn Gullhallar Neros keisara, Domus Aurea. Hann lét reisa höllina árið 64 utan í hæðinni Esquilinum eftir mikinn bruna í Róm. Hún stóð aðeins í fá ár, en varð fræg fyrir íburð, þar á meðal ilmefnaleiðslur. Aðalmatsalurinn snerist í hring eins og veitingasalur Perlunnar.

Með eftirmönnum Neros hófst hinn hvimleiði siður að rífa gömul mannvirki í Róm til að byggja ný. Keisararnir byrjuðu á þessu og síðan tóku páfarnir við. Grunnur hallar Neros var notaður undir baðhús Trajanusar, sem líka er horfið. Merki þessara bygginga, nokkur veggjabrot, má sjá í hlíðinni norðaustan við Colosseum.

Hér er ráð að gera hlé á skoðun og bregða sér í síðbúinn hádegismat í Da Nerone eða Tre Scalini, sem getið er í veitingakafla bókarinnar.

Terme di Caracalla

Frá veitingahúsinu eða Colosseum getum við tekið leigubíl til almennings-baðhallar Caracalla eða gengið hálfan annan kílómetra suður frá sigurboga Constantinusar eftir Via di San Gregorio og svo til suðausturs eftir Via delle Terme Caracalla. Voldugir veggir og 30 metra há hvolf baðhallarinnar leyna sér ekki, þegar við nálgumst.

Rústirnar gefa góða mynd af hefðbundnu baðhúsi frá rómverskum tíma, að vísu með óvenjulega stórbrotnu hallarsniði. Það er samhverft um miðju, þar sem voru heit baðstofa, caldarium; volg baðstofa, tepidarium; og köld baðstofa, frigidarium. Beggja vegna við köldu baðstofuna voru búningsklefar og enn utar leikfimisalir, gymnasium. Beggja vegna við heitu baðstofuna voru þurrgufubaðstofur, laconicum. Þessu fylgdi þaulhugsað kerfi vatns- og hitaleiðsla. Utan um höllina voru garðar, þar sem voru fleiri leikfimisalir og bókasöfn, því að baðhús Rómverja voru um leið félagsmiðstöðvar og menningarmiðstöðvar.

Caracalla keisari og eftirmenn hans létu byggja þessa baðhöll 212-235, lagða marmara og steinfellumyndum, og var hún þá hin stærsta í Róm, með aðstöðu fyrir 1600 manns í einu. Það var notað í rúmar þrjár aldir, unz vatnsrið Rómverja voru mörg hver eyðilögð í árásum þjóðflutningatímans. Þegar menn skoða slíka baðhöll, má minnast þess, að enn meiri mannvirki og enn meiri verkfræðiafrek fólust í hinum feiknarlegu vatnsriðum, sem fluttu vatn úr fjöllunum til borgarinnar og baðhúsa hennar.

Hægt er að ganga um leikfimisali, búningsklefa og köldu baðstofuna. Á þessari leið má sjá falleg steinfellumynztur í gólfum. Miklir hljómleikar eru stundum haldnir í heitu baðstofunni og garðinum fyrir framan hana.

San Stefano Rotondo

Frá baðhöllinni förum við yfir Via delle Terme Caracalla, nokkurn spöl til hægri eftir henni og beygjum síðan til vinstri eftir Via Druso og Via dell’Amba Aradam til Laterano-torgs, um 1200 metra leið. Við getum líka tekið krók úr Via Druso til vinstri eftir Via della Navicella og síðan til hægri eftir Via di San Stefano Rotondo, sem einnig liggur til torgsins, og verður leiðin þá 500 metrum lengri.

Ef við tökum á okkur krókinn, förum við hjá San Stefano Rotondo, stærstu hringkirkju frumkristninnar, byggðri 468-483, og átti þá að vera nákvæm eftirlíking frægustu kirkju þess tíma, fjallkirkjunnar í Jerúsalem. San Stefano var lengi ein af höfuðkirkjum Rómar, ríkulega skreytt, en má nú muna fífil sinn fegri.

San Stefano var upphaflega 45 metrar að þvermáli, með tveimur ferilgöngum umhverfis altarismiðju, sem haldið er uppi af jónískum súlum, lýst 22 lyftingargluggum. Páfinn Nikulás V lét spilla kirkjunni 1453 með því að láta hlaða upp í ytra súlnariðið og rífa ytri ferilganginn.

San Giovanni in Laterano

Þegar við komum inn á Laterano-torg, verður fyrst fyrir okkur skírnhúsið, Battistero, á hægri hönd og Laterano-höll beint framundan, en á milli þeirra sést í hlið hinnar fornu kirkju, sem var höfuðkirkja páfastóls fyrir daga Péturskirkju. Til þess að komast að framhlið kirkjunnar, þurfum við að ganga umhverfis Laterano-höll.

Þessi kirkja var endastöð íslenzkra pílagríma sögualdar og Sturlungaaldar. Hingað komu Guðríður Þorbjarnardóttir og Sturla Sighvatsson til að fá aflausn synda sinna, því að hér var kirkja páfans í nærri þúsund ár, frá 314 og til útlegðarinnar í Avignon 1309.

Skírnhúsið er jafngamalt kirkjunni. Á 4. öld voru allir kristnir menn skírðir í því. Nokkrar breytingar voru gerðar á því á 5. öld og síðan aftur á 16. öld.

Gamla páfahöllin er horfin, en í hennar stað er komin höll frá 1586. Hún er erkibiskupsstofa Rómar og ræður páfinn þar ríkjum, því að hann er jafnan einnig erkibiskup Rómar. Þótt San Giovanni sé ekki lengur höfuðkirkja kristninnar, er hún enn dómkirkja Rómar.

Fyrir framan erkibiskupshöllina er stærsti einsteinungur Rómar, frá 15. öld f.Kr., fluttur til Rómar á dögum Constantinusar II.
Þegar við komum fyrir hornið, blasir við voldug framhlið kirkjunnar og veldur strax vonbrigðum, þótt hún sé falleg. Því veldur, að hún er ekki forn, heldur í hlaðstíl frá 18. öld.

Upphaflega var þessi kirkja reist á vegum Constantinusar mikla, þá tileinkuð Kristi og ekki Jóhannesi skírara fyrr en síðar. Þetta var fimm skipa kirkja, sem fór illa í árásum villiþjóða á 5. öld, jarðskjálfta 896 og eldsvoða 1308. Ekkert er raunar talið standa eftir af hinni upprunalegu kirkju, nema einhverjir veggir og hlutar hinnar stóru steinfellumyndar í hvolfi kórbaks.

Innan við kirkjuportið sjáum við voldugar bronshurðir, sem rænt var frá fundarsal öldungaráðsins í hinni fornu Róm. Þar fyrir innan sjáum við hlaðstílskirkju, hannaða af Borromini og byggða upp úr hinni gömlu kirkju 1646-1650, en þó með fyrra timburlofti frá 16. öld og steinfellumyndinni gömlu. Eitt helzta einkenni kirkjunnar eru risastór líkneski af postulunum tólf, hönnuð af lærisveinum Berninis.

Steinfellumyndin lifði af endurbyggingu á 5. öld og aðra á 13. öld, þegar Jacopo Torriti bætti í hana nýjum atriðum. Borromini lét hana í friði á 17. öld, en svo varð hún á 19. öld fyrir skemmdum, sem hafa síðan verið lagfærðar. Óljóst er, hve mikið af henni er upprunalegt.

Við Laterano-torg er ágætt veitingahús, Cannavota, sem getið er í veitingakafla bókarinnar.

3. ganga, gamli bærinn, I

Santa Sabina

Við tökum leigubíl að Santa Sabina, sem er á útsýnisstað uppi á Aventino-hæð. Santa Sabina er frá 422, ein elzta byrðukirkja í Róm, haldið uppi af fögrum bogariðum kórinþusúlna. Þau eru fyrsta rómverska dæmið um, að hrein súlnarið leysi blönduð vegg- og súlnarið af hólmi, og má kirkjan því teljast fyrsta rómverska kirkjan í rómönskum stíl. Gáruðum marmarasúlunum hafði verið rænt úr rómversku hofi. Kirkjunni var breytt á 9., 13. og 16. öld, en eftir lagfæringar á 20. öld er hún orðin lík því, sem hún er talin hafa verið í upphafi.

Einna merkustu gripir kirkjunnar eru hinar upprunalegu, útskornu vesturdyr úr kýprusviði, sem sýna myndir úr ævi Móse og Jesú, þar á meðal ein elzta mynd, sem til er af krossfestingunni. Ofan við innganginn eru leifar upprunalegu steinfellumyndanna, sem áður náðu allan hringinn ofan við súlnariðin. Stóra steinfellumyndin í kórbakshvolfi er 16. aldar eftirlíking af upprunalegri mynd.
Frá garðinum við hlið kirkjunnar er útsýni yfir miðbæ Rómar og til Péturskirkju.

Circo Massimo

Þegar við komum út úr garðinum, beygjum við til vinstri Via di Santa Sabina og síðan í beinu framhaldi Valle Murcia, alls 500 metra leið, niður á Piazzale Romolo e Remo, þar sem er útsýni yfir Circus Maximus og handan hans til keisarahallanna fornu á Palatinum. Þessi forni veðhlaupavöllur er núna orðinn að grasi grónu útivistarsvæði með grasbrekkum og sýnir vel upprunalegt form vallarins.

Circus Maximus var stærsta veðhlaupabraut Rómar, fyrst 500 og síðan 600 metra löng og rúmaði 150.000 áhorfendur á tímum júlíönsku keisaranna, en 250.000 á tíma Trajanusar. Veðhlaupin voru aðallega stunduð á tví- og fereykjum og voru eitt helzta tómstundagaman Rómverja á keisaraöld.

Santa Maria in Cosmedin

Við göngum niður brekkuna eftir Via dei Circo Massimo og síðan Via Greca í beinu áframhaldi norður í átt til gamla miðbæjarins, niður á Piazza Bocca della Verità, alls 400 metra leið. Okkur á hægri hönd er kirkjan Santa Maria in Cosmedin, auðþekkjanleg á háum turni. Torgið nær nokkurn veginn yfir sama svæði og Forum Boarium, hinn forni nautgripamarkaður Rómar. Norðan við hann upp með ánni var hinn forni Forum Holitorium, ávaxta- og grænmetismarkaður.

Kirkjuturninn hái er frá 12. öld, en sjálf kirkjan frá 6. öld, ein fegursta kirkja sem um getur í rómönskum stíl, látlaus og stílhrein. Eftir ýmsar breytingar fyrri alda var hún á 19. öld færð í upprunalegt horf.

Vinstra megin í kirkjuportinu er forn vatnsleiðsluskjöldur með ógnvekjandi andlitsmynd. Á miðöldum var þeirri sögu hleypt af stokkunum, að höndin mundi klippast af hverjum þeim, sem segði ósatt, er hann stingi henni í skjaldarmunn. Af því draga skjöldurinn og torgið nafn.

Milli kirkjuskipanna eru fagrar korinþusúlur úr marmara, stolnar úr fornum, rómverskum mannvirkjum. Glæsilegt gólfið er yngra, frá 12. öld.

Tempio di Vesta

Andspænis kirkjunni við torgið er hringlaga hof frá 2. öld f.Kr., ranglega kennt við Vestu, af því að það líkist Vestuhofinu á Rómartorgi, en er sennilega Herkúlesarhof. Þetta er elzta marmarahof, sem hefur varðveitzt í Róm, reist úr marmara, sem var fluttur inn frá Grikklandi. Hringlaga kórinþusúlnariðið er frá tíma Tiberiusar keisara, sem lét gera hofið upp. Hofið varðveittist á hinum kristnu öldum, af því að það þjónaði þá sem kirkja.

Tempio della Fortuna Virile

Við hlið Herkúlesarhofsins er annað hof í ágætu ástandi, að sögn tileinkað karlmannsgæfu, Fortuna Virilis, en upprunalega sennilega helgað árguðnum Portumnusi. Það er frá sama tíma, 2. öld f.Kr., er ferhyrnt í laginu og skartar gáruðum jóníusúlum. Þetta hof hefur einnig varðveitzt um aldirnar á þeim forsendum, að það þjónaði sem kirkja. Það er eitt hið bezt varðveitta í Róm.

Arco di Giano

Við þann enda torgsins, sem lengst er frá hofunum tveimur, er Janusarbogi, sérstæður að því leyti, að hann hefur fjórar hliðar með bogagöngum, en ekki tvær, enda spannaði hann að fornu krossgötur við norðurenda kjötmarkaðarins Forum Boarium. Hann er frá 4. öld, tileinkaður guðinum Janusi.

Frá torginu göngum við Via di San Giovanni Decollato 200 metra leið norður til Piazza della Consolazione. Fyrir enda torgsins er Santa Maria della Consolazione, kirkja frá 1470 með forhlið frá 16. öld. Síðan göngum við 300 metra leið eftir Vico Jugario undir hlíðum Kapítóls-hæðar að breiðgötunni Via di Tetro di Marcello. Fyrir ofan hlíðarnar er Tarpeiu-klettur, þar sem svikurum var fleygt fram af, heitinn eftir Tarpeiu þeirri, sem hleypti her Sabína inn í borgina á dögum Romulusar.

San Nicola in Carcere

Hinum megin við breiðgötuna er San Nicola in Carcere, reist á 11. öld á rústum þriggja hofa, sem stóðu hlið við hlið ofan við Forum Holitorum, grænmetismarkaðinn. Í hliðarvegg kirkjunnar má sjá súlnarið úr einu hinna gömlu hofa.

Árbakkinn við Forum Holitorum og Forum Boarium var höfnin í Róm fornaldar. Hingað sigldu skip með varning til Rómar. Svæðið frá Santa Maria in Cosmedin og hingað til San Nicola var hafnarhverfi Rómar, þétt skipað hofum af ýmsu tagi.

Í framhaldi af þessu kaupskipalægi var svo herskipalægi til norðurs upp með ánni. Við förum þá leið, sem liggur meðfram ánni að kirkjubaki, Lungotevere dei Pierleoni, 300 metra leið að brúnni yfir ána.

Ponte Fabricio

Ponte Fabricio er eina brúin á Tiburfljóti, sem hefur varðveitzt óbreytt frá fornöld. Hún var reist 62 f.Kr., á tíma Fabriciusar ræðismanns, og er því meira en 20 alda gömul. Hún tengir meginhluta borgarinnar við Tibureyju. Breið boghöf hennar sýna, hversu djarfir og traustir rómverskir verkfræðingar fornaldar voru í burðarþolsfræðum og hve vel sum verk þeirra þola jarðskjálfta, flóð og styrjaldir.

Tibureyja er aðsetur munkareglu, Fatebenefratelli, sem fæst við hjúkrun í beinu framhaldi af, að þetta var eyja læknislistar í heiðnum sið. Þar sem nú er kirkjan San Bartolomeo, var áður hof Æsculapiusar, guðs læknislistarinnar. Byggingar eyjarinnar eru að mestu leyti sjúkrahús.

Teatro di Marcello

Þegar við höfum skoðað eyna, förum við til baka Ponte Fabricio og göngum milli San Nicola og Teatro di Marcello til áðurnefndrar götu, Via di Tetro di Marcello, þar sem við beygjum til vinstri meðfram Teatro di Marcello.

Smíði leikhúss Marcellusar hófst á dögum Cesars og var lokið 11 f.Kr. á stjórnarárum Augustusar, tileinkað systursyni hans. Af hinu upprunalega leikhúsi standa enn tvær hæðir súlnariða af þremur. Neðst er dórísk súlnaröð, þar ofan á jónísk, og talið er, að hin þriðja hafi verið kórinþsk. Talið er, að súlnariðin hafi verið fyrirmynd Colosseum.

Súlurnar, sem enn sjást, eru hluti af hálfhringlaga áhorfendasvæði leikhússins. Þetta var næststærsta leikhús Rómar, á eftir leikhúsi Pompeiusar á Marzvöllum, var 120 metrar í þvermál og rúmaði 20.000 áhorfendur. Hér voru leiksýningar, tónleikar, upplestur og ræðuhöld að fornu.

Rústum leikhússins var 1150 breytt í kastala og síðan í höll á 16. öld. Minjar þess má sjá ofan á súlnariðum leikhússins.

Framan við súlnarið Marcellusar sjáum við þrjár kórinþusúlur, sem eftir standa af frægu hofi Apollos, sem reist var 433-431 f.Kr. og endurnýjað 34 f.Kr. Hinn gríski guð var í metum hjá Rómverjum, einkum þegar leitað var ráða gegn sjúkdómum.

Portico d’Ottavia

Við förum framhjá hofi Apollos og beygjum til vinstri á Piazza di Campitelli, þar sem er kirkjan Santa Maria in Campitelli frá 1661, hlaðin súlnariðum að innan sem utan.

Á næstu gatnamótum, þar sem er veitingahúsið Vecchia Roma, beygjum við enn til vinstri í Via Tribuna di Campitelli og göngum þá götu og framhald hennar, Via di Sant’Angelo di Peschieria, alla leið til Via Portico d’Ottavia.

Hér sjáum við Octaviuport, leifar mikils mannvirkis, sem Caecilius Metellus lét reisa 146 f.Kr. Portið er hluti girðingar umhverfis tvö hof, helguð Juno og Jupiter. Augustus keisari lét endurbæta mannvirkið 27-23 f.Kr. og tileinkaði Octaviu konu sinni. Severus keisari lét enn endurbæta það 203 og frá þeim tíma er portið, sem nú sést.

Í stað tveggja af súlum portsins var á miðöldum byggður múrsteinabogi til að halda portinu uppi og stingur hann mjög í stúf við hinn upprunalega hluta.

Ghetto

Við göngum Via Portico d’Ottavia til vesturs í átt til Via del Progesso. Á þessum slóðum er Gyðingahverfi Rómar, svokallað Ghetto.

Gyðingar bjuggu fyrst í Trastevere, handan árinnar. Þeir voru látnir flytja hingað á 13. öld og Páll páfi IV lét gera múr um hverfið um miðja 16. öld. Hann var síðan rifinn um miðja 19. öld, en hverfið umhverfis Octaviuport ber enn Gyðingleg merki, þar á meðal veitingahúsin. Áður var nefnt veitingahúsið Vecchia Roma og hér í þversundinu Via Monte de’Cenci út frá Via del Progresso er annað, Piperno. Þau eru bæði í veitingakafla þessarar bókar.

Við förum ekki alla leið til Via del Progresso, heldur beygjum til hægri út af Via Portico d’Ottavia eftir Via Sant’Ambrogio til Piazza Mattei. Þar er frægur gosbrunnur, Fontana della Tartarughe, frá 1581-1584.

Við höldum áfram frá torginu eftir Via Paganica og komum að stóru torgi með niðurgrafinni miðju.

Largo di Torre Argentina

Hér komum við að fornleifagreftri, sem meðal annars sýnir, hversu miklu lægra var yfirborð lands á dögum Rómarveldis. Minjarnar, sem hér sjást, eru leifar elztu hofa, sem fundizt hafa í Róm, frá lýðveldistíma borgarinnar, sumpart frá 5. öld f.Kr.

Við göngum framhjá miðaldaturni á horni torgsins og meðfram grindverkinu austan megin torgsins. Fyrst komum við að leifum elzta hofsins, sem var í etrúskum stíl. Miðhofið var hringlaga, frá 2. öld f.Kr. Þriðju og síðastar í röðinni eru rústir hofs, sem byggt var og endurbyggt á ýmsum tímum, frá 4. öld til 1. aldar f.Kr, en inni í því eru einnig leifar miðaldakirkju. Að baki þessa hofs er hár veggur, sem að fornu var hluti almenningsnáðhúss.

Að baki rústanna, vestan torgsins, er leikhúsið Argentina, þar sem Rakarinn frá Sevilla var fyrst settur upp og kolfelldur, svo sem frægt hefur orðið. Sömu megin er eitt af frægustu kaffihúsum Rómar, Bernasconi.

Frá torginu förum við austur eftir aðalgötunni Corso Vittorio Emanuele II og komum fljótlega að voldugri kirkju, Gesú.

Gesú

Gesú er frá 1568-1575, fyrsta hlaðstílskirkja Rómar, hönnuð af Vignola fyrir nýstofnað munklífi jesúíta og er enn höfuðkirkja þess. Framhliðin, sem við sjáum, er eftir Giacomo della Porta, frá árunum 1573-1584. Þessi virðulega og spennuþrungna framhlið með súlnapörum á tveimur hæðum, sem eru tengdar með bókrolluvindingum varð fyrirmynd mikils fjölda kirkna víða um heim.

Sjálf kirkjan er samþjöppuð að formi, teiknuð í anda gagnsiðaskipta kristmunka, sem vildu færa söfnuðinn nær prestunum. Hún er aðeins einskipa, og kapellustúkur koma í stað hefðbundinna hliðarskipa. Þetta auðveldaði söfnuðinum að sjá til prestanna. Ennfremur var reynt að hafa hljómburð sem beztan í kirkjunni.

Hinar miklu skreytingar eru viðbrigði frá fyrri byggingarstílum, enda eru þær einni öld yngri en kirkjan, frá þeim tíma, er hlaðstíll hafði fest sig betur í sessi. Giovanni Battista var fenginn 1672 til þess að búa kirkjuna freskum. Frægust þeirra er myndin af Jesú í skipshvolfi kirkjunnar.

Skrautlegasti hluti kirkjunnar er þriðja kapellan hægra megin, tileinkuð stofnanda reglunnar, Ignatiusi Loyola, gerð af Andrea Pozzo 1696-1700, lögð dýrum steinum á borð við dökkbláan lapis azuli á grænum marmara.

Piazza Venezia

Við göngum áfram eftir Corso Vittorio Emanuele II og í framhaldi af henni Via del Plebiscito alla leið til Feneyjatorgs, miðtorgs borgarinnar, þar sem höfuðbrautir hennar skerast og þar sem umferðarhnútar verða verstir. Allar leiðir leigubíla virðast þurfa að liggja um þetta torg.

Á hægri hönd okkar er Palazzo Venezia, byggð 1455-1471 á vegum páfans Páls II, sem bjó hér. Síðan bjuggu hér margir páfar, svo og Karl VIII Frakkakonungur og Mussolini hafði hér skrifstofur sínar. Hér kom hann fram á svalirnar og talaði til lýðsins. Undir svölunum er helzti staður stefnumóta í borginni. Nafn hallarinnar kemur frá þeim tíma, er sendiherrar Feneyja bjuggu í hluta hallarinnar. Andspænis henni við torgið er 20. aldar höll, sem dregur dám af Feneyjahöll.

Höllin er fyrsta borgaralega mannvirkið í endurreisnarstíl í Róm. Í stílnum eru miðaldaminni, svo sem hinn voldugi hornturn, en endurreisnartíminn kemur meðal annars fram í póstagluggum hallarinnar og tvöföldu súlnariði framhliðar hallarkirkjunnar til hliðar við turninn.

Kirkjan sjálf er raunar eldri en höllin, upphaflega frá 336, en endurbyggð á 9. öld. Að innan er hún mikið skreytt í stíl ýmissa tímabila. Höllin er líka mikið skreytt hið innra, þótt hún líti hófsamlega út að utanverðu. Í henni er frægur hallargarður og safn listmuna frá miðöldum, opið almenningi virka daga 9-13:30, sunnudaga -12:30, lokað mánudaga.

Monumento Vittorio Emanuele II

Við beinum nú athygli okkar að frægasta mannvirki 19. aldar í borginni, hinu konunglega minnismerki, sem blasir við Piazza Venezia, belgir sig út utan í Capitolum og skyggir rjómahvítt á rústir fornu Rómar. Þetta er hástig tertustílsgreinar sögustíls 19. aldar, teiknað 1884 af Giuseppi Sacconi, en varð ekki fullbyggt fyrr en 1922.

Fyrir miðju mannvirkinu er riddarastytta af Victor Emanuel II, sem var fyrsti konungur sameinaðrar Ítalíu. Fyrir framan styttuna er Þjóðaraltari Ítalíu, minnismerki óþekkta hermannsins.

Santa Maria d’Aracoeli

Við göngum hægra megin við minnismerkið og getum valið um að fara upp brattar tröppur vinstra megin að Santa Maria d’Aracoeli eða aflíðandi tröppur, Cordonata, hægra megin að Piazza del Campodoglio. Kirkjutröppurnar eru frá 1346, 122 að tölu. Efst úr þeim er gott útsýni yfir miðbæinn með hvolfþak Péturskirkju í bakgrunni. Kirkjustæðið var að fornu helgasti staður borgarinnar. Þar var borgarkastalinn, Arx, og hof Junos.

Santa Maria d’Aracoeli er frá 1250, búin gotneskum rósagluggum. Innan í henni er töluvert af listaverkum frá miðöldum, svo sem marmaragólf og steinkistur við innganginn, svo og freskur eftir Pinturicchio í kapellu hægra horns við innganginn. Mest helgi er á barnslíkneski, Santa Bambino í kapellu í vinstra þverskipi.

Piazza Campodoglio

Hægt er að fara út um hliðardyr kirkjunnar, skoða steinfellumyndir yfir dyrunum, og stíga tröppur niður til Piazza Campodoglio. Að öðrum kosti förum við upp hinar tröppurnar, sem áður er getið. Það var Michelangelo, sem hannaði þær eins og torgið ofan þeirra að tilhlutan Páls páfa III 1536 og réð að mestu útliti hallanna við torgið.

Capitolum var guðahæð Rómar. Hér var reist hof Jupiters þegar á etrúskum tíma, á 6. öld f.Kr. Síðar voru þar þrjú hof, Jupiters, Junos og Minervu. Þegar Michelangelo hófst handa, var hin forna frægð lengi búin að vera týnd og geitur hafðar hér á beit.

Torgið er fagurlega steinlagt samkvæmt hönnun Michelangelos. Á mótum trappa og torgs eru gamlar styttur frá keistaratímanum af Castori og Polluxi með hrossum sínum. Þær fundust á Marzvöllum og voru fluttar hingað á 16. öld.

Á miðju torgi er eftirlíking riddarastyttu af Aureliusi keisara frá síðari hluta annarrar aldar. Frummyndin hafði verið flutt hingað frá Laterano-torgi, þar sem hún hafði fengið að vera, af því að menn héldu hana þá vera af hinum kristna Constantinusi keisara. Til skamms tíma stóð sjálf frummyndin hér á torginu.

Miðhöllin við torgið var upphaflega höll öldungaráðs borgarinnar, Palazzo Senatorio, reist 1143 á rústum hins forna Tabularium, og gnæfði yfir Forum Romanum, sem er handan hallarinnar. Michelangelo lét hallarveggina halda sér, en hannaði nýja framhlið, sem var útfærð 1582-1605 af Giacomo della Porta. Hún er nú ráðhús Rómar.

Vinstra megin við miðhöllina er Palazzo dei Conservatori, reist á 15. öld til að hýsa sýslumenn borgarinnar, en endurhönnuð af Michelangelo. Andspænis henni er Palazzo Nuovo í sama stíl, reist 1654. Í báðum þessum höllum eru söfn, meðal hinna beztu í borginni.

Í Palazzo dei Conservatori eru minjar og listaverk, einkum frá fornöld, þar á meðal Spinario, bronsmynd af dreng, sem dregur þyrni úr fæti sér, frá 1. öld f.Kr.; etrúsk bronsmynd af úlfynju, tákn borgarinnar, frá 5. eða 6. öld f.Kr.; og 3. aldar brjóstmynd af Juniusi Brutusi, stofnanda hins forna lýðveldis í Róm. Í safninu er einnig málverkadeild, Pinacoteca Capitolina, með verkum eftir Caravaggio, Cortona, Rubens, Titian og Van Dyck.

Í Palazzo Nuovo eru einnig þekktar myndastyttur frá fornöld, svo sem Venus frá Capitolum, eftirlíking af gömlu verki hins gríska Praxitelesar; og Deyjandi keltinn, eftirlíking af bronsmynd frá Pergamon. Þar eru einnig brjóstmyndir allra rómversku keisaranna.
Söfn þessi eru opin 9-14, þriðjudaga og föstudaga einnig 17-20, lokuð mánudaga. Sami aðgöngumiði gengur að báðum.

Frá torginu er gengið niður að Forum Romanum vinstra megin við Palazzo Senatorio. Hægra megin við hana er gengið niður Via del Campidoglio, þaðan sem er gott útsýni yfir Forum Romanum. Þetta er hinn forni Clivus Capitolinus, leið skrúðgangna frá Forum upp á Capitolum.

4. ganga, gamli bærinn, II

Gamli miðbærinn með flóknu neti undinna gatna, sem bílar komast tæpast um, er skemmtilegasti hluti borgarinnar. Við fórum um hluta hans í 3. göngu, þar sem fjallað var m.a. um Ghetto, Largo di Torre Argentina og Gesú.

Tempietto

Hér verður haldið áfram í gamla bænum og lýst gönguferð um meginhluta hans. Við byrjum handan árinnar, í Trastevere, og förum í leigubíl upp hæðina Gianicolo til kirkjunnar San Pietro in Montorio.

Í garðinum við hlið kirkjunnar er eitt þekktasta listaverk borgarinnar, Tempietto eftir Bramante, hringlaga og formfast hof í gnæfrænum stíl, með dórísku hringsúlnariði, byggt 1502. Þessi bygging markar upphaf há-endurreisnar og prýðir margar bækur um byggingarlist.

Af torginu framan við kirkjuna er gott útsýni yfir Róm. Þar standa upp úr Castel Sant’Angelo vinstra megin; minnismerki Victors Emanuels, Capitolum og Maxentiusarbyrða fyrir miðju; og San Giovanni in Laterano hægra megin.

Héðan göngum við niður tröppur og brekkuna eftir Via Garibaldi að næstu gatnamótum og síðan eftir Via Memeli, unz við komum að tröppum, sem liggja niður að Via della Paglia í Trastevere. Þá götu göngum við til aðaltorgs hverfisins, Piazza Santa Maria in Trastevere.

Santa Maria in Trastevere

Kirkjan við Trastevere-torg er frá 341. Hún var endurbyggð 1140 og þá var klukkuturninn reistur, en súlnaportið löngu seinna, 1702. Kirkjan er fræg fyrir steinfellumyndir á framhlið og að innanverðu. Myndin yfir kórbak ofanverðum af Kristi og Maríu er í býzönskum stíl eftir gríska meistara frá 12. öld, en sex myndirnar þar fyrir neðan eru eftir Pietro Cavallini, frá 13. öld.

Við torgið eru veitingahúsin Sabatini og Galeassi, sem getið er í veitingakafla bókarinnar.

Trastevere

Upprunalega var Trastevere ekki hluti Rómar. Svæðið var byggt Etrúrum og síðan einnig Gyðingum og Sýrlendingum, en Augustus keisari innlimaði það í Róm. Borgarmúr Aureliusar keisara náði utan um hverfið. Þarna bjuggu löngum handverksmenn í nágrenni þáverandi hafnar, en á síðustu árum hefur ungt efnafólk í vaxandi mæli einkennt hverfið. Veitingahús eru á hverju strái í Trastevere og götulíf fjörlegt að kvöldlagi.

Við göngum frá torginu eftir Via della Lungaretta til Piazza Sonnino, þar sem San Crisogno er á horninu, að grunni til frá 5. öld, en endurbyggð á 12. öld. Við beygjum þar til vinstri og förum framhjá 13. aldar Anguillara-turni, dæmigerðum borgarturni frá miðöldum, áður en við höldum yfir ána Tibur á Garibaldi-brú.

Via Giulia

Þegar við erum komin yfir ána, beygjum við til vinstri eftir Lungotevere de Vallati, unz við komum að Piazza Pallotti, þar sem við víkjum inn í göngugötuna Via Giulia, sem er ein af fáum beinum brautum bæjarins. Þetta var ein helzta gata Rómar á endurreisnartímanum, gata fornra kardínálahalla, og hefur hafizt á ný til virðingar í nútímanum, vinsæl gata fornminja- og listaverkasala.

Þegar við komum að garði Farnese-hallar hægra megin, auðþekkjanlegum af klifurjurtum og af 17. aldar göngubrú yfir götuna, er sérkennilegur brunnur, Fontana del Mascherone, á vinstri hönd, andspænis Via del Mascherone, settur upp 1626, en hefur vafalaust verið tekinn ófrjálsri hendi úr einhverri fornbyggingunni.

Palazzo Farnese

Við göngum meðfram Palazzo Farnese og beygjum til hægri á horninu til að komast út á torgið framan við höllina. Þar á torginu eru tvö risastór steinker úr Caracalla-baðhöllinni. Þeim var rænt þaðan 1626.

Palazzo Farnese er helzta verk Antonio Sangallo yngra, hönnuð 1514. Smíðin hófst 1534 og Michelangelo lauk henni að mestu 1546 og Giacomo della Porta að fullu 1589. Hátíðleg höllin er frístæð og hornrétt og býr yfir miðhúsagarði með bogagöngum og súlnaknippum í rómönskum stíl.

Að utanverðu eru hvorki frístæðar súlur né veggsúlur, heldur láréttir fletir í endurreisnarstíl. Á annarri hæð eru gluggagaflöð til skiptis bogadregin og þríhyrnd, samkvæmt fyrirmynd úr hvolfi Pantheons. Ytra form hallarinnar hefur löngum verið talið fullkomnasta dæmi endurreisnarstíls í Róm.

Palazzo Spada

Frá Piazza Farnese göngum við samsíða höllinni eftir Via dei Venti að Palazzo Spada, sem reist var 1540, nokkrum árum á eftir Farnese-höll, enda er stíllinn ekki lengur hreinn endurreisnarstíll, heldur sú grein hans, sem kölluð hefur verið fægistíll eða mannerismi. Veggir eru ekki lengur sléttir og strangir, heldur hlaðnir lágmyndum og ýmsu skrauti. Við sjáum við þetta vel í veggjum efri hæða.

Palazzo Spada er safn, sem sýnir muni, sem Spada kardínáli safnaði á 17. öld, og er þeim komið fyrir á sama hátt og í upphafi. Safnið er opið 8:30-14 þriðjudaga-laugardaga, 9-13 sunnudaga, lokað mánudaga.

Í sundi rétt við höllina, á Via dell’Arco del Monte 95, er veitingahúsið Il Pianeta Terra, sem getið er í veitingakafla bókarinnar.

Piazza Campo dei Fiori

Frá höllinni göngum við til baka út á Farnese-torg, beygjum þar til hægri og förum út af torginu eftir Via dei Corda til Piazza Campo dei Fiori, sem er fjörlegur blóma- og grænmetismarkaður gamla miðbæjarins með þreytulegum húsum í kring. Á miðju torgi er stytta af Giordano Bruno munki, sem var brenndur á báli 1600 fyrir skoðanir sínar um, að jörðin væri ekki miðja alheimsins.

Þetta torg var miðja Rómar á 16. öld. Þar voru borgarhátíðir og aftökur. Þar mæltu menn sér mót og þar voru veitingahúsin, meðal annars krá Vanozzu Catanei, sem átti hin illræmdu systkini Cesare og Lucretia með páfanum Alexander VI Borgia. Kráin er við horn götunnar Vicolo del Gallo. Við suðurenda torgsins er eitt bezta kaffihús Rómar, Om Shanti.

Frá þeim enda göngum við eftir Via del Biscione og Via del Paradiso til Corso Vittorio Emanuele II, þar sem við beygjum til hægri. Í sundi út frá Via del Paradiso, við Piazza del Paradiso 65, er veitingahúsið Costanza, sem getið er í veitingakafla bókarinnar.
San Andrea della Valle

Hér komum við strax að hvítri framhlið San Andrea Della Valle, sem reist var 1591-1665. Fyrsti hönnuðurinn var Carlo Maderno, en hin glæsilega hlaðstíls-framhlið er eftir Carlo Rainaldi, sem tók við af honum. Í stað bókrolluvindinga eru englamyndir látnar tengja neðri og efri hæð framhliðarinnar.

Hvolfþakið eftir Maderno er eitt hið fegursta í borginni og er næststærst þeirra á eftir hvolfi Péturskirkju, málað af Lanfranco.
Við förum yfir götuna framan við kirkjuna og skoðum gosbrunn eftir Maderno.

Piazza di Pasquino

Við snúum til baka eftir Corso Vittorio Emanuele II, framhjá sveigðri framhlið Palazzo Massimo, frá 1527-1536 eftir Baldassarre Peruzzi, að torginu Piazza San Pantaleo, þar sem Palazzo Braschi er við enda torgsins, þar sem Rómarsafn er til húsa.

Héðan eru aðeins nokkrir metrar inn að Piazza Navona og við getum vel skotizt eftir Via Cuccagna til að líta á torgið. Að öðrum kosti förum við frá torginu eftir Via di San Pantaleo til Piazza di Pasquino. Þar á horninu er illa farin stytta, sem sennilega er frá 3. öld f.Kr.

Almenningur kallaði styttuna Pasquino eftir berorðum skraddara, sem frægur er í Rómarsögu fyrir gróft umtal um fína fólkið. Á nóttunni hengdu menn á styttuna háð og spott, skammir og svívirðingar, áróður og auglýsingar, sem um morguninn fóru eins og eldur í sinu um borgina. Þetta var öldum saman ritfrelsishorn Rómar.

Við göngum áfram eftir Via del Governo Vecchio, framhjá handverksbúðum og forngripaverzlunum, til Via della Chiesa Nuova, þar sem við beygjum til vinstri út á torgið fyrir framan Chiesa Nuova.

Oratoria dei Filippini

Chiesa Nuova var reist 1575-1647 í hlaðstíl. Hún er afar skrautleg að innan, samkvæmt hönnun Pietro da Cortona. Hvelfingar miðskips, miðhvolfs og kórs eru þaktar freskum. Englamyndirnar við altarið eru eftir Rubens.

Við hliðina á Chiesa Nuova er Oratorio dei Filippini, hannað og byggt af Borromini 1637-1650, eitt af helztu meistaraverkum hans. Útlitið er samræmt kirkjunni, en til viðbótar gerði hann framhliðina íhvolfa, með hvelfdum og íhvolfum byggingarþáttum, sem hann var frægur fyrir. Þetta er einn hápunktanna í sögu hlaðstíls.

Við förum inn með hlið Oratorio dei Filippini eftir Via dei Filippini til torgsins Piazza dell’Orlogio. Á afturhorni hallarinnar er veggskreyting með englum prýddri Madonnumynd, í líkingu við það, sem víða sést á götum í Róm. Yfir henni er klukkuturn á höllinni.

Via dei Coronari

Frá Piazza dell’Orlogio förum við eftir Via dei Banchi Nuovi og Via Banco di Santo Spirito, eftir samnefndum páfabanka, sem var í hneykslisfréttum fyrir fáum árum. Hér var bankahverfi Rómar á endurreisnartíma.

Þegar við komum að Vicolo del Curato, beygjum við þá götu til hægri og síðan í beinu framhaldi af henni inn Via dei Coronari, sem við göngum nærri því á enda.

Þetta er aðalgata forngripasala í Róm, þétt skipuð smáhöllum og smábúðum, með nokkrum smátorgum á stangli.

Santa Maria della Pace

Við beygjum til hægri inn í Vicolo della Volpe. Við komum þar strax að klaustri við kirkjuna Santa Maria della Pace. Þar er tveggja hæða klausturgarður eftir Bramante frá 1500-1504 með gullinsniði í súlnaskipan. Á neðri hæð eru jónískar veggsúlur á bogastoðum, líkt því sem er á Colosseum. Á efri hæð eru kórinþusúlur með grönnum deilisúlum á milli.

Við göngum nokkur skref áfram eftir Vicolo della Volpe, förum fyrir afturenda Santa Maria della Pace og beygjum meðfram henni til hægri til að komast framan að þessari litlu og vel földu kirkju.

Pietro da Cortona reisti 1656-1657 þessa framhlið í hlaðstíl á eldri kirkju og hannaði raunar líka friðsælt kirkjutorgið, þar sem gert var ráð fyrir fyrsta einstefnuakstri sögunnar, á hestvögnum, sem fluttu aðalsfólk til kirkju. Hann notaði æðóttan kalkstein í framhliðina, eins og Rómverjar gerðu að fornu. Súlnarið framhliðarinnar er hálfhringlaga með íhvolfum vængjum. Þessi form hafa víða verið stæld, svo sem í hliðardyraveröndum Pálskirkju í London. Gaflaðið er í senn þríhyrnt og sveigt.

Að innan er kirkjan frá 15. öld, með stuttu kirkjuskipi og átthyrndu miðhvolfi. Í fyrstu kapellunni hægra megin eru Síbyllur Rafaels frá 1514. Í fyrstu kapellunni vinstra megin er freska eftir Peruzzi. Yfir altari eftir Carlo Maderno er fræg mynd af Madonna della Pace.

Við förum til baka meðfram kirkjunni og beygjum til hægri inn í Via della Pace og beint í framhaldi af henni eftir Via dei Lorensi inn á torgið Piazza Navona.

Rétt norðan við torgið, við Via Zanardelli 14, er veitingahúsið Passetto, sem getið er í veitingakafla bókarinnar.

Piazza Navona

Torgið er í laginu eins og Circus Agonalis, íþrótta- og veðhlaupavöllur Dominitianusar keisara, sem var lagður hér á Campus Martius árið 86. Þá fóru hér fram frjálsar íþróttir og glíma, auk veðhlaupa. Constantinus keisari lét ræna marmara vallarins árið 356. Bardagasýningar riddara voru síðan háðar hér fram á 17. öld. 1477-1869 var grænmetismarkaður borgarinnar á torginu.

Nú er þetta einn helzti ferðamannastaður borgarinnar, enda er banni við bílaumferð framfylgt hér, þótt það sé ekki gert annars staðar í miðbænum. Hér sitja málarar og bjóða vegfarendum verk sín. Hér eru tvö þekkt kaffihús andspænis hvort öðru, Tre Scalini og Colombia. Hinu fyrra má ekki rugla saman við samnefnt veitingahús, sem getið er í veitingakafla bókarinnar.

Á miðju torgi er hinn frægi Fjórfljótabrunnur í hlaðstíl frá 1651 eftir Bernini. Fjórar mannsmyndir, sem tákna höfuðfljótin Dóná, Níl, Ganges og Plate, eru í kringum helli, sem ber uppi rómverskan einsteinung frá tíma Dominitianusar.

Við enda torgsins eru Márabrunnur að sunnanverðu og Neptunusarbrunnur að norðanverðu. Við sunnanverða vesturhlið torgsins er Palazzo Pamphili, hönnuð af Rainaldi 1644.

Sant’Agnese in Agone

Fyrir miðju torgi er hlaðstílskirkjan Sant’Agnese in Agone, eitt þekktasta verk Borrominis, byggð að mestu 1652-1657. Hann gerði hvolfþakið og framhliðina, þar sem fram kemur blanda af ávölum og íhvolfum línum, en að öðru leyti er kirkjan meira hlaðin skrauti en hann hafði gert ráð fyrir. Kirkjan er einkar skrúðbúin að innanverðu.

Palazzo Madama

Frá miðju torgi, þar sem er kaffihúsið Colombia, göngum við eftir Calle Agonale til Corso del Rinascimento, þar sem Palazzo Madama gnæfir andspænis okkur, reist á 16. öld fyrir Medici-ættina og hýsir nú öldungadeild ítalska þingsins. Hin glæsilega framhlið, sem nýlega var gerð upp, er frá 1649.

Ef við förum vinstra megin meðfram höllinni, komum við að torgi, þar sem San Luigi dei Francesi er á vinstri hönd. Í kirkjunni, sem var byggð 1518-1589, eru málverk eftir Caravaggio og freskur eftir Domenichino.

San Ivo

Við göngum til baka að framhlið Palazzo Madama og suður eftir Corso del Rinascimento, þar sem við komum vinstra megin að Palazzo della Sapienza, sem var háskóli Rómar fram til 1935. Við förum inn í háskólaportið til að skoða háskólakirkjuna San Ivo, mesta meistaraverk Borrominis, í ávölum og íhvolfum línum hans, frá 1642-1660.

Kirkjan er hönnuð til að falla inn í sund á milli tveggja húsa. Kirkjan hefur íhvolfa framhlið á grunni, sem er eins og sexarma stjarna, og hún hefur sexlaufahvolf undir spíralturni. Flóknari gátu byggingar hlaðstíls tæpast orðið og er þetta þó lítil kirkja.
Við förum úr háskólaportinu, beygjum til vinstri eftir Corso del Rinascimento, aftur til vinstri eftir Via dei Sediari, framhjá veitingahúsinu Papà Giovanni, sem getið er í veitingakafla bókarinnar, og síðan enn til vinstri inn á Piazza Sant’Eustachio. Þaðan er gott útsýni til hvolfsins á San Ivo og þar er þekkt kaffihús, Sant’Eustachio.

Síðan höldum við til vinstri eftir Via Sant’Eustachio og til hægri eftir Salita di Crescenzi inn á Piazza della Rotonda.

Pantheon

Hér erum við komin að bezt varðveittu fornbyggingu Rómar, hofið Pantheon, með frægu hringhvolfi frá 119-128, reistu á vegum Hadrianusar keisara á rústum fyrra hofs, sem Marcus Agrippa lét reisa 27 f.Kr. Það hefur staðið af sér allar hremmingar í nærri nítján aldir.

Upphaflega voru utan á hringhvolfinu bronzflögur, sem Constantinus keisari lét ræna 356 og flytja til Miklagarðs. Ennfremur voru í anddyrinu bronzplötur, sem páfinn Urban VIII af Barberini-ætt lét ræna 1624 til að steypa hásætishiminn Péturskirkju. Þá sagði hinn frægi Pasquino: Quod non fecerunt Barbari, fecerunt Barberini (Það sem barbarar gerðu ekki, það gerðu Barberinar) Að öðru leyti varðveittist hofið, vegna þess að því var breytt í kristna kirkju.

Framhlið Pantheons er eins og hefðbundið grískt hof með miklu, tvöföldu súlnaporti undir gaflaðsþríhyrningi. Súlurnar sextán eru einsteinungar úr graníti. Inn í sjálfa hringkirkjuna er gengið um voldugar bronsdyr, sem eru upprunalegar.

Hringkirkjan er 43,30 metrar í þvermál og jafnmargir metrar á hæð. Hvolfið, sem er breiðara en hvolf Péturskirkju, var einstætt verkfræðiafrek á sínum tíma, fegursti minnisvarði þeirrar tækni Rómverja að leiða burðarþol um hvolf niður í veggi og súlur. Efst uppi er tveggja metra, hringlaga op, sem hleypir inn ljósstaf sólar.

Neðst skiptast á súlnarið framan við kapellur, sem eru til skiptis hálfhringlaga og kantaðar; og veggfletir með helgiskrínum, þar sem skiptast á bogadregin gaflöð og þríhyrnd. Þessi form úr Pantheon voru síðan stæld endalaust, einkum á tíma endurreisnarstíls.
Útliti hæðarinnar ofan súlnanna var breytt á 18. öld. Yfir þriðju kapellunni hægra megin hefur þessu aftur verið breytt í upprunalegt horf til samanburðar.

Í kirkjunni eru steinkistur tveggja Ítalíukonunga og nokkurra listamanna, þar á meðal Rafaels.

Við götuna Via della Rosetta, á nr. 8-9, er veitingahúsið Rosetta, sem getið er í veitingakafla bókarinnar.

Santa Maria sopra Minerva

Við göngum vinstra megin við Pantheon að Piazza della Minerva, þar sem er egypzkur einsteinungur frá 6. öld f.Kr. á fílsbaki. Bernini átti hugmyndina að þessari uppsetningu.

Við torgið er Santa Maria sopra Minerva, eina gotneska kirkjan í Róm, frá 1280. Ferhyrnd og einföld framhliðin var endursmíðuð í endurreisnarstíl á 17. öld með óbreyttum dyraumbúnaði f

Kaupmannahöfn göngur

Ferðir

Flest markvert í borgarmiðju Kaupmannahafnar er hægt að skoða í þremur þriggja klukkustunda gönguferðum. Tímalengdin er miðuð við rólegt rölt og ekki talinn með sá tími, sem færi í að skoða innan dyra söfn og mannvirki, sem opin eru almenningi. Áhugamenn þyrftu auðvitað miklu lengri tíma.
Fyrsta gönguleiðin liggur um gamla bæinn milli Kóngsins Nýjatorgs og Ráðhústorgs. Önnur liggur um Friðriksbæ frá Kóngsins Nýjatorgi út að Hafmeyjunni við Löngulínu. Hin þriðja liggur svo um Kristjánshöfn, handan brúnna yfir höfnina.

1. ganga:

Kóngsins Nýjatorg

Við hefjum gönguna á mótum Kóngsins Nýjatorgs og Austurgötu, við enda Striksins, á horninu fyrir framan hótelið Angleterre og lítum þar í kringum okkur. Hér er stærsta torg borgarinnar, yfir þrír hektarar að flatarmáli. Það er líka eitt fegursta torgið, girt mörgum frægum og fallegum húsum og höllum.

Gróðurreitur, kallaður Krinsen, er á miðju torginu, umhverfis riddarastyttu af Kristjáni V Danakonungi. Styttan er nýleg bronsstytta af hinni upprunalegu blýstyttu frá 1688. Í aldanna rás höfðu blýfætur hestsins sigið saman, svo að ráðlegt þótti 1946 að skipta til harðara efnis.

Handan við torgið sjáum við menningarhöllina Charlottenborg, þar sem Listaakademían er til húsa. Höllin var reist í hollenzkum hlaðstíl 1672-83 og þótti á sínum tíma glæsilegasta hús borgarinnar. Akademían hefur verið hér síðan 1754. Að baki hennar er sýningarsalur, þar sem hver merkissýningin rekur aðra.

Til hægri sjáum við hið mun glæsilegra Konunglega leikhús frá 1872-74, sem einnig hýsir óperuna og balletinn. Aðalsalurinn rúmar 1.500 gesti og hliðarsalurinn 1.000 gesti. Við getum skoðað þessar hallir danskrar menningar í síðari gönguferð og látum nú nægja að átta okkur á staðháttum.

Við röltum til hægri framhjá Hvíti (Hviids Vinstue), yfir Litlu Kóngsinsgötu (Lille Kongensgade), framhjá Mjóna (Stephan á Porta) og höll vöruhússins Magasin du Nord, þar sem áður var sögufrægt hótel, Hótel du Nord, og beygjum til hægri í Víngarðsstræti (Vingårdstræde).

Brimarhólmur

Hér við hægri hlið götunnar er falið í kjallara matarmusterið Kong Hans (sjá bls.23). Við förum ekki þangað svo snemma dags, heldur göngum áfram út að Brimarhólmi (Bremerholm), sem áður var illræmdur og hét Hólmsinsgata (Holmensgade).

Við erum komin í hverfi, sem að stofni til er frá árunum eftir borgarbrunann 1795. Á síðustu árum hafa mörg hinna gömlu húsa verið rifin og ný reist í staðinn, svo að gamli heildarsvipurinn er horfinn. Við getum kíkt inn í sumar litlu og gömlu hliðargöturnar, áður en við höldum til vinstri niður Brimarhólm.

Í gamla daga var þetta þröng gata með öldur- og vændishúsum á báða vegu. Sukkinu var útrýmt héðan með gömlu húsunum og flutt til Nýhafnar fyrst og síðan Istedgade. Nú ríkir hér siðprýðin ein, en hvorki tangur né tetur af fornri frægð.

Við höldum þvert yfir Hólmsinssíki (Holmens Kanal), sem áður var eitt af síkjum borgarinnar, og göngum eftir Hafnargötu (Havnegade) inn á hinn forna Brimarhólm. Þar var áður fyrr skipasmíðastöð konungs og flota. Vinnuaflið var fengið úr þrælakistu Brimarhólms, þar sem geymdir voru lífstíðarfangar.

Danmörk var mikið flotaveldi á fyrri tímum. Veldi konungs byggðist mest á flotanum, sem hér var smíðaður, nánast undir glugggum konungshallar Kristjánsborgar. Í eina tíð réð þessi floti öllum Norðurlöndum og í annan tíma teygði hann arma sína til fjarlægra heimsálfa.

Á hægri hönd okkar er Hólmsinskirkja (Holmens Kirke), upprunalega reist sem akkerasmiðja skipasmíðastöðvarinnar 1563. Þessa gömlu smiðju í endurreisnarstíl lét hinn mikli byggingastjóri, Kristján IV konungur, dubba upp í kirkju fyrir flotann 1619. Síðan hefur kirkjan nokkrum sinnum verið endurbyggð og lagfærð.

Hún er opin 9-12 virka daga og á sumrin 9-15 mánudaga-föstudaga. Aðgangur er ókeypis. Við látum duga snögga heimsókn og höldum áfram Hafnargötu út að síkinu. Nú verða senn kaflaskil á göngu okkar. Við yfirgefum Brimarhólm og erum senn komin út á Hallarhólma, þá eyju, sem öldum saman hefur verið pólitísk þungamiðja Danmerkur. Við nemum staðar á Kauphallarbrú (Børsbroen).

Hallarhólmi

Framundan sjáum við Kauphöllina (Børsen), handan brúarinnar, reista í hollenzkum fægistíl 1619-40 að tilhlutan Kristjáns IV konungs. Kauphöllin er ríkulega skreytt, bæði innan dyra og utan. Mesta athygli okkar vekur turnspíran mikla, ofin saman úr fjórum drekasporðum.

Við beygjum af brúnni til vinstri, förum í kringum Kauphöllina og göngum eftir Hallarhólmagötu (Slotsholmsgade) út á hallartorg Kristjánsborgar. Framhlið hennar blasir við okkur. Að baki styttunnar af Friðriki VII konungi eru svalirnar, þar sem Margrét II Þórhildur drottning var hyllt við valdatöku.

Núverandi Kristjánsborg var reist 1907-28 eftir hallarbrunann 1884. Hún er klædd marglitu graníti frá Borgundarhólmi og ber ógrynni af kopar á þaki, eins og svo margar hallir borgarinnar. Hún hefur að geyma hæstarétt Danmerkur, þjóðþing Dana, svo og hluta utanríkisráðuneytis og veizlusali konungs og ríkisstjórnar.

Undir höllinni hafa fundizt leifar af fyrsta kastala Kaupmannahafnar, borg Absalons erkibiskups frá 12. öld. Á þeim grunni voru síðan reistar konungshallir Dana, allt til hallarbrunans 1794, er heimkynni konungs voru flutt úr rústum Kristjánsborgar til fjögurra halla Amalíuborgar.

Meðan konungar sátu í Hróarskeldu (Roskilde) höfðu völdin hér arftakar Absalons biskups. Á 15. öld komst borgin í hendur Danakonunga. Þeir tóku þá sæti biskupa á Hallarhólma. Og loks á tíma lýðræðis tóku þingmenn og ráðherrar sæti konungs. Hallarhólmi hefur þannig staðið af sér allar veltur stjórnmálasögunnar.

Ekki voru Kaupmannahafnarbúar alltaf jafn uppnæmir fyrir konungi og hirð. Höllin stendur að hluta, þar sem áður voru öskuhaugar borgarinnar, Skarnholmen. 1650 neyddist konungur til að gefa út tilskipun um bann við, að borgarbúar notuðu nafnið Skarnhólma yfir Hallarhólma.

Við yfirgefum umferðargný torgsins og förum göngin milli hallar til hægri og ríkisskjalasafns til vinstri og komum inn í Þjóðþingsport (Rigsdagsgården). Þar er til hægri voldugt anddyri Þjóðþingsins. Við beygjum hins vegar til vinstri inn fyrstu göng og erum komin inn í rósagarð Konunglegu bókhlöðunnar.

Hér ríkir friður og ró, aðeins steinsnar frá ys og þys nútímans. Við hvílumst um stund á bekk, andspænis styttu heimspekingsins Søren Kierkegård, sem sómir sér vel á þessum stað. Við virðum fyrir okkur Ríkisskjalasafnið að baki, Týhúsið (Tøjhuset) til hægri, Konunglega bóksafnið framundan og Próvíanthúsið (Proviantgården) til vinstri.

Þar sem þessi garður er nú, var áður herskipahöfn konunga Danmerkur. Þá voru vistageymslur flotans í Próvíanthúsinu og aðsetur lífvarðar konungs í Týhúsinu. Það hús lét Kristján IV konungur reisa 1598-1604. Nálægðin við Kristjánsborg sýnir, hve mikilvægt var konunginum að hafa flotann undir handarjaðrinum.

Eftir hvíldina förum við aftur út í Þjóðþingsport og beygjum þar til vinstri að anddyri Týhússins. Þar var 1928 komið upp merku vopnasafni, þar sem mest áberandi eru margir tugir, ef ekki hundruð, fallstykkja frá fyrri tímum. Safnið er opið 13-15 virka daga og 11-16 sunnudaga á veturna og 13-16 virka daga og 10-16 sunnudaga á sumrin. Aðgangur er ókeypis.

Við erum á morgungöngu og safnið lokað, nema sunnudagur sé. Við verðum því að láta heimsókn bíða betri tíma. Andspænis Týhúsinu er hesthús konungs og við förum inn sund milli þess og Þjóðþings. Við okkur blasir paðreimur Kristjánsborgar í skjóli hallar á alla vegu.

Í framhaldi af honum er innri hallaragarðurinn, þaðan sem hægt er að fara í skoðunarferðir um veizlusali hallarinnar 13 og 15 alla daga nema mánudaga á sumrin og 14 alla daga nema mánudaga og laugardaga á veturna. Ennfremur fornleifar kastala Absalons 9:30-16 alla daga á sumrin og alla daga nema laugardaga á veturna.

Af skeiðvellinum er gengið inn í leiklistarsafnið, sem er til húsa í hirðleikhúsi Kristjánsborgar. Það er opið sunnudaga og miðvikudaga 14-16 og á sumrin að auki föstudaga 14-16.

Við komumst ekki þangað að sinni og göngum frá höllinni af skeiðvellinum út á Marmarabrú (Marmorbro). Á hinum bakkanum vinstra megin er hádegisverðarkjallarinn Kanal Caféen við Frederiksholms Kanal 18 (sjá bls. xx).

Andspænis okkur hægra megin er eitt elzta og stærsta þjóðminjasafn heims, Nationalmuseet, í Prinsens Palæ. Í húsinu eru níu söfn, flest opin 10-16 á sumrin og 11-15 á veturna, lokuð mánudaga. Hér eru sýndir danskir og erlendir forngripir, myntir og ótalmargt fleira.

Við getum litið á safnið, gengið inn frá Ny Vestergade í framhaldi Marmarabrúar. Við getum líka haldið áfram götuna og yfir Dantes Plads, þar sem blasir við Glyptoteket, eitt af meiriháttar söfnum Evrópu á sviði fornlistar Egypta, Grikkja og Rómverja. Það er opið þriðjudaga-laugardaga 10-16 á sumrin, 12-15 á veturna og sunnudaga 10-16 allt árið.

Ef við höfum ekki hug á þessum söfnum að sinni, beygjum við síkisbakkann til hægri frá Marmarabrú og förum aftur yfir næstu brú út á Hallarhólma. Þar göngum við síkisbakkann í átt til Thorvaldsensafns og virðum fyrir okkur húsin við Nybrogade, handan síkis.

Þar er húsið nr. tólf eitt glæsilegasta svifstílshús borgarstéttar gamla tímans í Kaupmannahöfn, ríkulega skreytt sandsteini. Og húsin nr. 14-20 eru dæmigerð “brunahús” með kvistgöflum í hlaðstíl, reist eftir brunann 1728. Í nr. 18 er hádegisverðarstofan Nybro (sjá bls. xx)

Næst liggur leið okkar í Thorvaldsensafn, byggt 1839-48 yfir listaverk og minjar, sem frægasti myndhöggvari danskrar og íslenzkrar ættar, Bertel Thorvaldsen, gaf dönsku þjóðinni. Mest er þar um hvít og virðuleg, nýklassisk verk úr grískri goðafræði. Safnið er opið 10-15 alla daga nema þriðjudaga á veturna og 10-16 alla daga á sumrin. Aðgangur er ókeypis.

Þegar við komum úr safninu, beygjum við til vinstri framhjá Hæstarétti Danmerkur og aftur til vinstri milli safns og Hallarkirkju Kristjánsborgar og komum út á síkisbakkann. Handan síkis sjáum við húsaröðina við Gömluströnd (Gammel Strand), sem við munum senn kynnast nánar.

Kaupmannabærinn

Við förum til vinstri yfir Hábrú (Højbro) og virðum fyrir okkur framboð og ferskleika þess, sem fiskisölukonan við brúarsporðinn hefur á boðstólum. Síðan förum við inn á Højbro plads og skoðum styttuna af Absalon biskupi, stofnanda Kaupmannahafnar, og fögur, gömul hús á nr. 6, 9 og 17-21.

Héðan er ágætt útsýni til baka, til Hólmsinskirkju, Kauphallar, Kristjánsborgar, Hallarkirkju og Thorvaldsenssafns. Hér er líka skammt til góðra fiskréttahúsa, ef við erum sein fyrir og hádegissultur farinn að segja til sín. Vinstra megin, í kjallara hornhússins á Ved Stranden 18 og Fortunstræde, er Fiskekælderen (sjá bls. 26). Hægra megin, á Gömluströnd, eru Fiskehuset og Kroghs.

Við göngum einmitt Gömluströnd meðfram síkinu og virðum fyrir okkur hin gömlu hús, einkum Frænda (Assistenshuset) frá 1728, aðsetur menntamálaráðuneytisins, við hinn enda götunnar. Hægra megin þess förum við inn í skemmtilega þorpsgötu, hlaðna rómantík fyrri tíma. Þetta er Snaragata (Snaregade), mjó og undin, með gömlum kaupsýsluhúsum á báða vegu. Á nr. 4 er veitingastaðurinn Esbern Snare (sjá bls. xx).

Við erum komin inn í hina gömlu Kaupmannahöfn borgarastéttarinnar, kaupmanna og iðnaðarmanna. Hér heita margar götur eftir gömlum einkennisstörfum þeirra, Skindergade, Vognmagerstræde, Farvergade, Brolæggerstræde og Læderstræde. Ein heitir Hyskenstræde eftir húsum, “Häuschen”, þýzkra Hansakaupmanna.

Á mótum Snaragötu og Magstræde göngum við spölkorn til hægri inn í Knabostræde að gatnamótum Kompagnistræde, bæði til að drekka í okkur meira af gömlum tíma og til að fá útsýni til Frúarkirkju, sem við munum skoða nánar síðar. Förum síðan Knabostræde til baka og beygjum til hægri í Magstræde.

Þetta er önnur dæmigerð gata gamla tímans í Kaupmannahöfn. Húsin nr. 17 og 19 eru af sumum talin vera elztu hús borgarinnar. Á nr. 14 er Huset, sem er eins konar klúbbur eða félagsmálamiðstöð ungra Kaupmannahafnarbúa.

Við förum ekki óðslega hér í gegn, því að Snaragata og Magstræde eru sennilega þær götur, sem bezt hafa varðveitt andrúmsloft gamalla tíma. Vindingur þeirra veldur því, að við sjáum ekki til nútímalegri gatna og stöndum því hér eins og í lokuðum heimi.

Við hinn enda Magstræde er agnarlítið torg, Vandkunsten, þar sem áður stóð vatnsdæla Kristjánsborgar. Við beygjum til hægri eftir Ráðhússtræti (Rådhusstræde) upp á Nýjatorg (Nytorv) og Gamlatorg (Gammeltorv). Þessi torg voru áður fyrr miðstöð daglega lífsins í Kaupmannahöfn. Enn er fjörugt hér, en eingöngu vegna þess, að Strikið liggur þvert í gegn.

Bæjarþing voru háð á Gamlatorgi. Ráðhúsið var á mótum torganna efst á Nýjatorgi fram að brunanum 1795. Þá var það ekki endurreist á sama stað. Torgin voru í staðinn sameinuð í eitt og mynda nú langan ferhyrning með virðulegum húsum á alla vegu.

Hér héldu konungar burtreiðar til að skemmta lýðnum. Hér voru framkvæmdar hýðingar og aftökur, lýðnum bæði til viðvörunar og skemmtunar. Hér var auðvitað gapastokkurinn og svartholið. Hér var bjórsala borgarráðsmanna í Ráðhúskjallaranum. Hér komu fram farandtrúðar og -listamenn. Hér var húllum og hér var hæ.

Nú er neðst til vinstri við Nýjatorg dómhús Kaupmannahafnar. Á miðju Gamlatorgi er eitt elzta augnayndi borgarinnar, brunnurinn frá 1608-10. Þar eru gulleplin látin skoppa á konunglegum afmælisdögum. Og hér á torginu eru sæti, svo að við getum fengið okkur kaffi eða öl og horft á fólksstrauminn fara hjá.

Við beygjum síðan norður Strikið, fyrst eftir Nýjugötu (Nygade), síðan Vimmelskaftet, unz við komum að Heilagsandakirkju (Helligåndskirken) á mörkum Amákurtorgs (Amagertorv), endurreistri 1730-32 eftir borgarbruna. Við göngum hjá kirkjunni og beygjum til vinstri inn Hemmingsensgade til að skoða Heilagsandahúsið að baki kirkjunni.

Það er sambyggt kirkjunni og er eitt allra elzta mannvirki Kaupmannahafnar, reist um miðja 14. öld. Það var upprunalega sjúkrastofa Ágústínusarklausturs, er þarna var á kaþólskum tíma.

Latínuhverfið

Eftir skoðun Heilagsandahúss liggur leið okkar áfram Hemmingsensgade upp á Grábræðratorg (Gråbrødretorv). Nafn þess minnir á Fransiskusar-munkana, er bjuggu við torgið. Hér í kjallara á nr. 11 og 13 hafa fundizt leifar sjálfs klausturs þeirra, þar sem nú er veitingastofan Bøf & Ost.

Grábræðratorg er ennfremur mannlegasta torg borgarinnar, lokað bílum, en í þess stað iðandi af fólki. Hér sitja hinir ungu úti og hlusta á hljómlist eða stinga sér niður í einn hinna mörgu veitingakjallara (sjá bls. xx), sem einkenna torgið.

Nú er gamla kaupmannahverfið að baki og við erum komin inn í háskólahverfið eða Latínuhverfið eins og það hefur verið og er venjulega kallað.
Grábræðratorg er þægilegt anddyri þessa hverfis, sem öldum saman hefur ómað af söng og skálaglammi.

Þess vegna skulum við hvílast hér um sinn á torginu og virða fyrir okkur átjándu aldar húsin, máluð sterkum litum. Síðan göngum við norður af torginu eftir stytztu götu borgarinnar, er ber hið virðulega nafn Keisaragata (Kejsergade).

Fyrst lítum við til hægri eftir Skinnaragötu (Skindergade) til að sjá fornlega götumynd, áður en við höldum götuna til vinstri. Hún liggur út að Gamlatorgi og síðan áfram undir nafninu Vesturgata (Vestergade) í mjúkum sveigjum alla leið að Ráðhústorgi (Rådhuspladsen). Hin virðulegu hús við Vesturgötu eru flest frá því um 1800.

Á torginu blasir ráðhúsið við til vinstri, frægt af myndum, en ekki að sama skapi stílhreint. Það var byggt 1892-1905 í svonefndum sögustíl, sem stældi endurreisnarstíl norðurítalskra borga og þótti mikið hneyksli á sínum tíma.

Höfuðprýði ráðhússins er raunar heimsklukka Jens Olsen innan við aðaldyrnar. Hún sýnir margs konar tíma og gang himintungla, einstæð í sinni röð í heiminum. Ráðhúsið er opið mánudaga-föstudaga 10-16, laugardaga 10-13 og lokað sunnudaga.

Eftir að hafa virt fyrir okkur hinn samfellda straum fólks og bíla um þetta önnum kafna torg, höldum við í átt frá ráðhúsinu eftir Vesturvegg (Vester Voldgade) yfir Stúdíustræti (Studiestræde) að Jarmerstorgi. Þar á miðju torgi má sjá leifar turns frá 1528 úr hinum gamla borgarmúr, er lá, þar sem nú er Vesturveggur, Norðurveggur (Nørrevoldgade) og Austurveggur (Øster Voldgade).

Við förum Vesturvegg til baka að Stúdíustræti og beygjum þar til vinstri. Þar hefur fornbókaverzlunum fækkað, en þó má enn sjá bókakassa úti á stétt. Ef við getum stillt okkur um að eyða tíma í að róta í kössunum, erum við von bráðar komin yfir Larsbjörnsstræti út á Norðurgötu (Nørregade), þar sem við beygjum til vinstri.

Hér á horninu er Biskupsgarður, sem einu sinni var ráðhús Kaupmannahafnar. Handan götunnar rís hin kuldalega Frúarkirkja (Vor Frue Kirke), dómkirkja borgarinnar, endurreist 1811-29 eftir fallstykkjahríð brezka flotans 1807. Kirkjan er kunnust fyrir listaverk Thorvaldsens innan dyra.

Við sjáum háskóla Kaupmannahafnar snúa framhlið að stjórnborða kirkjunnar handan Norðurgötu. En hérna megin götunnar er “brunahús” frá 1728 á nr. 13. Og á horni Norðurgötu og Pétursgötu (Sankt Petersgade) sjáum við elztu kirkju borgarinnar, Sankti Péturskirkju. Hennar er fyrst getið í heimildum 1304. Hún hefur margsinnis verið endurreist eftir bruna.

Við förum yfir Norðurgötu og lítum inn í háskólaportið. Þar inni ríkir miðaldaró aðeins steinsnar frá nútímanum. Og þar er konsistoríið, einu leifar hins kaþólska biskupsseturs miðaldanna. Í kjallara þess hvíla sex hvelfingar í rómönskum stíl á granítsúlum.

Úr portinu beygjum við til hægri og göngum meðfram byggingum háskólans. Hér við Norðurgötu var Kannibalen, mötuneyti stúdenta. Nafnið bendir til, að þar hafi matur ekki verið góður. Við beygjum síðan enn til hægri fyrir háskólahornið og göngum Kristalsgötu (Krystalgade) framhjá vöruhúsi Daells að Fjólustræti (Fiolstræde), einni af göngugötum borgarinnar.

Á horninu er útsýni eftir Kristalsgötu til Sívalaturns, sem við munum skoða nánar síðar. Fyrst beygjum við krók til vinstri eftir Fjólustræti og þræðum milli torgsölutjaldanna til að grúska um stund í fornbókaverzlunum götunnar, en snúum síðan til baka suður götuna.

Við tökum eftir fallegu, gömlu bindingshúsi á horni Fjólustrætis og Kristalsgötu og göngum framhjá háskólabókhlöðunni á hægri hlið, unz við komum aftur að Frúarkirkju, en í þetta sinn aftan að henni.

Við nemum staðar til að virða fyrir okkur kirkjuna og háskólann frá nýju sjónarhorni, áður en við beygjum til vinstri inn Stóra Kanúkastræti (Store Kannikestræde), götu stúdentagarðanna. Við erum hér í hjarta Latínuhverfisins, í götunni, sem stúdentar gengu löngum milli Garðs og skóla.

Við þessa götu hafa flest hús áratugum og öldum saman verið beint eða óbeint tengd stúdentum og starfi háskólans. Hér eru frægir stúdentagarðar á báðar hendur, Borchs Kollegium á nr. 12, Ehlers Kollegium á nr. 9 og Admiral Gjeddes Gård á nr. 10. Við lítum andartak inn í friðsælan garð Borchs Kollegium til að fá snertingu við gamlan tíma.

Við hinn enda götunnar, vinstra megin, er stærsti og merkasti stúdentagarður götunnar, Garður (Regensen). Hann var reistur 1623-28, en brann að nokkru 1728. Frá þeim tíma eru rauðu tígulsteinsveggirnir, sem setja svip á húsið. Hér getum við gengið inn í portið og setzt um stund við linditréð.

Þegar við komum úr garðinum blasir við Sívaliturn (Rundetårn) handan Kjötmangarans (Købmagergade). Hann var reistur eins og fjöldi frægra húsa að tilhlutan Kristjáns IV konungs 1637-42. Turninn er í senn stjörnuskoðunarstöð og kirkjuturn Þrenningarkirkju (Trinitatis Kirke), sem er hér að baki, fullbyggð 1656. Turninn er opinn 10-20 á sumrin og 11-16 virka daga og 12-16 sunnudaga á veturna.

Sívaliturn er 36 metra hár og rúmlega 15 metra breiður. Upp hann liggur 209 metra löng snigilbraut, sem rússneska keisaraynjan Katrín ók einu sinni upp í hestvagni, meðan maður hennar, Pétur mikli, fór ríðandi. Þetta var 1716 og fara engar sögur af slíku framtaki hefðarfólks á síðari öldum.

Það er léttara að ganga upp Sívaliturn en aðra kirkjuturna, af því að brautin er slétt, en ekki í tröppum. Uppi er gott útsýni yfir þök og turna miðborgarinnar. Þar fáum við góða hugmynd um, hve þröngt er byggt innan gömlu borgarmúranna. Hvarvetna lítum við þétt húsþakahrjóstur.

Við förum aftur út á Kjötmangarann, beygjum til vinstri og göngum þessa bílalausu viðskiptagötu í átt til Striksins. Ef við viljum skoða gömul “brunahús” frá 1728 við Gömlumynt (Gammelmønt), beygjum við til vinstri inn Klörubúðir (Klareboderne) og Möntergade og síðan til hægri í Gömlumynt. Úr henni beygjum við svo enn til hægri eftir Sværtegade og Kronprinsengade til Kjötmangarans.

Við höldum þar til vinstri eftir Kjötmangaranum yfir Silkigötu (Silkegade) niður á Strik, sem hér heitir Amákurtorg (Amagertorv). Þar beygjum við til vinstri eftir að hafa skoðað okkur um á torginu og ef til vill sezt niður á gangstéttarkaffihúsi.

Við göngum Strikið eftir Austurgötu (Østergade), sem er austasti endi hinnar frægu göngugötu. Austurgötu og Amákurtorgi er nánar lýst í verzlunarkafla þessarar bókar (sjá bls. xx-xx). Við förum framhjá litlum þvergötum og Brimarhólmi, sem áður var nefndur í þessari leiðarlýsingu, og höfum auga með þröngu sundi, Pistolstræde, á vinstri hönd.

Af þessu sundi megum við ekki missa (sjá bls. xx). Þar er margt skemmtilegt að skoða, einkum gömul bindingshús. Við göngum í vinkil, framhjá veitingastofunni Alsace (sjá bls. xx ) og komum úr sundinu í Nýju Austurgötu (Ny Østergade). Andspænis okkur er kaffistofan Victor (sjá bls. xx). Við sjáum fallegt bindingshús á horni Nýju Austurgötu og Grænugötu (Grønnegade).

Grænagata er rétt að baki hins fína Kóngsins Nýjatorgs. Hér var áður eitt illræmdasta fátækrahverfi borgarinnar, fullt af tæplega manngengum sundum, sem voru engir þröngir vegir dyggðarinnar. Hér í Grænugötu ólst myndhöggvarinn Bertil Thorvaldsen upp við drykkjuskap föður og ósamlyndi foreldra.

Nýju Austurgötu göngum við til baka til Striksins, beygjum þar til vinstri og erum eftir andartak komin aftur að Kóngsins Nýjatorgi, nákvæmlega þeim stað, þar sem við hófum hringferðina.

Þetta hefur verið krókaleið um elzta hluta Kaupmannahafnar. Ekki þurftum við nauðsynlega að byrja ferðina og enda á torginu. Við gátum til dæmis byrjað á Ráðhústorgi eða hvar sem betur kynni að liggja við ferðum okkar.

Ef við erum ekki mjög gönguhraust, getum við líka skipt leiðinni í þrjá hluta. Í einum hluta hefðum við þá skoðað Brimarhólm og Hallarhólma og endað á torginu Hábrú við Strikið. Í öðrum hluta hefðum við skoðað kaupmannahverfið, byrjað á Hábrú og endað á Amákurtorgi. Í þriðja hluta latínuhverfið frá Amákurtorgi til Kóngsins Nýjatorgs. Í öllum tilvikum byrja ferðirnar og enda í nágrenni Kóngsins Nýjatorgs.

2. ganga:

Kóngsins Nýjatorg

Enn hefjum við göngu á Kóngsins Nýjatorgi, við enda Striksins og byrjum eins og áður á því að ganga yfir Litlu Kóngsinsgötu, en förum svo yfir torgið að Konunglega leikhúsinu. Handan þess er Tordenskjoldsgade með listamannakránni Brönnum. Síðan tekur við Konunglega akademían í Charlottenborg og þá erum við komin að Nýhöfn (Nyhavn).

Framundan, vinstra megin Breiðgötu (Bredgade), er Thottshöll. Á hinu horninu við Breiðgötu er kyndugt hús, “Kanneworffske Hus”. Í framhaldi af því sjáum við svo húsaröð Nýhafnar, sem við skulum virða fyrir okkur, áður en við förum yfir götuna fyrir botni hafnarinnar. Við skulum líka horfa til baka yfir torgið og taka eftir, hvernig hótelið Angleterre ber í hvítum glæsibrag af öðrum höllum torgsins.

Nýhöfn

Milli Kanneworffske Hus og oddmjóa hússins göngum við inn Store Strandgade, þar sem veitingahúsið væna, Els, er strax á vinstri hönd, á nr. 3. Við göngum þá götu áfram og síðan til baka til hægri eftir Lille Strandgade út að Nýhöfn. Í þessum götum er margt gamalla húsa frá síðari hluta átjándu aldar. Við tökum sérstaklega eftir nr. 3 og 18 við Stóru og nr. 14 og 6 við Litlu Strandgötu.

Hér ætlum við að rölta til vinstri eftir Nýhöfn í átt til sjávar. En fyrst förum við spölkorn til hægri að botni Nýhafnar til að missa ekki af innstu húsunum. Við förum hægt yfir, því að hér er margt smáskrítið og skemmtilegt að sjá í gömlum skreytingum húsanna. Allt það yrði of langt mál að telja upp.

Elzta húsið við götuna er nr. 9, frá 1681. Við missum ekki af sérkennilegri klukku uppi á nr. 11 og gömlu ölkrárskilti frá 1803 á nr. 23, meðan við göngum í rólegheitum í átt til sjávar, fyrst framhjá Tollbúðargötu (Toldbodgade) og síðan Kvesthúsgötu (Kvæsthusgade), unz við nemum staðar fyrir utan hótelið Nyhavn 71 (sjá bls. 8) við enda götunnar.

Á leiðinni lítum við inn í eina eða tvær ölkrár til að finna reykinn af réttum gamla tímans, þegar þetta var hafnarhverfi Kaupmannahafnar. Erlendar tungur eru enn talaðar í öðru hverju horni, en þær eru fæstar sjómanna, heldur ferðamanna. Hnútur fljúga ekki lengur um borð né hnífar hafnir á loft.

Fleiri minningar eru bundnar við Nýhöfn en hrossahlátrar sjómanna. Ævintýraskáldið H. C. Andersen batt mikla tryggð við götuna. Hann ritaði fyrstu ævintýri sín í húsinu nr. 20, bjó með hléum 1854-64 á þriðju hæð hússins nr. 67 og varði tveimur síðustu árum ævinnar á nr. 18.

Fyrir utan hótelið Nyhavn 71, sem er innréttað í rúmlega 200 ára pakkhúsi, höfum við gott útsýni til hafnarbakka Málmeyjarbátanna, yfir innri höfnina og til Kristjánshafnar (Christianshavn) handan hennar.

Síðan förum við eftir Kvesthúsbrúnni (Kvæsthusbroen) meðfram innri höfninni að götunni Sankt Annæ Plads. Við beygjum til vinstri og þar eru brátt á vinstri hönd hótelið Neptun (sjá bls. xx) og hádegisverðarstofan Sankt Annæ (sjá bls. xx) á nr. 12. Til hægri, við þvergötuna Tollbúðargötu, er hótelið Admiral (sjá bls. xx) í rúmlega 200 ára kornþurrkunarhúsi.

Amalíuborg

Við höldum áfram eftir Sankt Annæ Plads og beygjum til hægri inn í Amalíugötu (Amaliegade). Ef komið er hádegi, er kjörið að líta inn í áðurnefnt Sankt Annæ eða í Amalie, sem hér er framundan vinstra megin, á nr. 11. — Konungshöllin Amalíuborg er skammt undan. Við göngum inn á hallartorgið og svipumst um.

Amalíuborg er einkar viðfelldin og sérkennileg konungshöll í fjórum höllum í svifstíl, aðskildum af krossgötum. Hallirnar mynda átthyrning umhverfis torgið. Upphaflega voru þetta hallir fjögurra aðalsmanna, en voru gerðar að konungshöll, þegar Kristjánsborg brann 1794.

Við förum undir tengibyggingu, þegar við komum inn á torgið. Hægra megin tengiálmunnar er bústaður Margrétar II Þórhildar drottningar og Hinriks prins. Vinstra megin eru veizlusalir drottningar. Í þriðju höllinni, hægra megin, býr Ingiríður, ekkjudrottning Friðriks VIII. Og í fjórðu höllinni, vinstra megin, bjó Kristján X.

Tjúgufáni yfir höll Margrétar sýnir, hvort hún er heima eða ekki. Við stillum helzt svo til að vera hér kl. 12 til að sjá varðsveitina koma með lúðrablæstri eftir Amalíugötu inn á torgið, þegar skipt er um varðmenn með tilheyrandi serimoníum.

Hverfið umhverfis Amalíuborg heitir Friðriksbær, byggt eftir ströngum og þá nýtízkulegum skipulagsreglum um miðja átjándu öld. Göturnar eru tiltölulega breiðar og húsin einkar virðuleg. En mannlíf er hér miklu minna og fátæklegra en í gamla bænum, sem við lýstum í fyrstu gönguferð. Helzt er líf í verzlunargötunni Stóru Kóngsinsgötu (Store Kongensgade), sem liggur samsíða Amaliegade.

Frá torgmiðju sjáum við Marmarakirkjuna (Frederikskirke) gnæfa yfir Friðriksgötu (Frederiksgade) með einn af hæstu kúplum heims, 45 metra á hæð og 30 metra á breidd, grænan af kopar. Smíði kirkjunnar hófst 1746 og varð ekki lokið fyrr en 1894. Hún er opin 9-15 alla daga nema sunnudaga á veturna, 9-16 mánudaga-föstudaga og 9-12 laugardaga á sumrin. Aðgangur er ókeypis.

Hér eiga hinir göngumóðu þess kost að ganga nær kirkjunni og beygja til vinstri eftir Breiðgötu (Bredgade) til Kóngsins Nýjatorgs, þar sem gangan hófst. Hinir beygja til hægri eftir sömu götu.

Brátt komum við að Listiðnasafninu (Kunstindustrimuseet), sem er hægra megin götunnar, í fyrri húsakynnum Friðriksspítala. Þar er fjöldi fornra og nýrra listmuna, danskra og erlendra. Hægt er að ganga inn í safnið bæði frá Breiðgötu og Amalíugötu. Safnið er opið 13-16 alla daga nema mánudaga. Aðgangur er ókeypis virka daga nema í júlí-ágúst.

Langalína

Þegar við komum aftur út á götuna, beygjum við til hægri og förum Breiðgötu á enda. Við göngum stuttan spöl til hægri framhjá Frelsissafninu (Frihedsmuseet), sem er timburhús handan götunnar Esplanaden. Þar eru sýndar minjar andspyrnuhreyfingarinnar dönsku frá stríðsárunum síðustu.

Safnið er opið á sumrin 10-16 virka daga og 10-17 sunnudaga og á veturna 11-15 virka daga og 11-16 sunnudaga, en lokað alla mánudaga. Aðgangur er ókeypis.

Að baki safnsins er Churchill-garður. Þar sjáum við álengdar ensku kirkjuna og til hægri við hana Gefjunarbrunn (Gefionspringvandet). Gosbrunnurinn sýnir, hvernig gyðjan Gefjun bjó til Danmörku með því að breyta sonum sínum í naut og beita þeim fyrir plóg, sem hún notaði til að plægja upp Skán.

Við getum haldið áfram eftir Esplanaden til að fá okkur að borða í Lumskebugten, á nr. 21 (sjá bls. xx). Eða farið gönguleið hjá Gefjunarbrunni út Löngulínu (Langelinie). Á leiðinni er Langelinie Pavilionen, þar sem við getum fengið snarl við ágætt útsýni. Síðan höldum við áfram út Löngulínu að Hafmeyjunni litlu, höggmynd Edvard Eriksen frá 1913, kunnasta einkennistákni Kaupmannahafnar.

Gatan sveigir hér frá sjónum og við göngum hana spölkorn, förum yfir brú og beygjum út af til vinstri í átt til Kastellet, aðalvirkis borgarinnar, reist 1662-65, en þá byggt á eldra grunni. Ytri virkin eru sumpart eyðilögð, en eftir stendur fimmstrendur kjarninn.

Þar sjáum við falleg hlið og kastalakirkjuna, sem er áföst fangelsinu á þann sérkennilega hátt, að í gamla daga gátu fangar hlýtt messu án þess að yfirgefa svartholið. Fallegust er vindmyllan, sem prýðir vesturhorn virkisveggjarins. Kastellet er opið frá 6 til sólarlags, en kirkjan aðeins til 18. Aðgangur er ókeypis.

Við förum aftur gegnum Churchill-garð og Esplanaden til hægri að enda hennar við Stóru Kóngsinsgötu (Store Kongensgade). Þar á horninu lítum við fyrst til hægri og sjáum hluta af Nýbúðum (Nyboder), hverfi, sem Kristján IV konungur lét reisa fyrir starfsfólk flotans upp úr 1631.

Síðan beygjum við til vinstri inn í Stóru Kóngsinsgötu og svo strax til hægri inn í Sankt Paulsgade. Þar hægra megin götunnar undir Pálskirkju sjáum við húslengju í upprunalegri mynd Nýbúða. Henni hefur verið breytt í minjasafn um Nýbúðir, opið 14-16 á sunnudögum.

Við göngum Pálsgötu á enda, beygjum til hægri í Riegensgade og síðan til vinstri í Stokkhúsgötu (Stokhusgade), er heitir eftir alræmdu fangelsi, sem tók við af áðurnefndum Brimarhólmi 1741 og þótti jafnvel enn grimmilegra. Af því sést nú ekki lengur tangur eða tetur og standa þar nú jarðfræðihús háskólans.

Garðarnir

Úr Stokkhúsgötu förum við framhjá húsi Jóns Sigurðssonar yfir Austurvegg (Øster Voldgade) og brúna yfir járnbrautina út í Østre Anlæg. Þar skoðum við okkur um eins lengi og við höfum tíma til og njótum náttúrunnar í þessum fallega garði, sem er í virkisgröfum hins gamla borgarveggs. Enn sést greinilega, hvernig virkisgrafirnar hafa litið út.

Um síðir tökum við stefnuna á Listasafn ríkisins, sem er í suðurhorni garðsins. Þar er gaman að skoða myndir gamalla meistara, einkum hollenzkra. Uppi hanga verk eftir Rubens, Rembrandt, Cranagh, Tintoretto, Mantegna, Matisse og Picasso. Dönskum listaverkum er líka sómi sýndur. Safnið er opið 10-17 alla daga nema mánudaga. Aðgangur er ókeypis.

Úr safninu förum við yfir Silfurgötu (Sølvgade) út í Grasgarðinn (Botanisk Have). Þar er fjölskrúðugan gróður að sjá, meðal annars regnskógajurtir innan dyra. Úr garðinum förum við aftur yfir Austurvegg og göngum hann til baka að Silfurgötu, þar sem við förum á horninu inn í Rósinborgargarð eða Kongens Have.

Kongens Have er elzti garður borgarinnar og með hinum stærri. Þar má sjá hinar fegurstu rósir og linditré. Eitt helzta skart garðsins er þó talið vera höllin Rósinborg (Rosenborg), þar sem varðveitt eru krýningardjásn konungsættarinnar og minjasafn hennar.

Rósinborg var reist 1606-17 í endurreisnarstíl að tilhlutan Kristjáns IV konungs hins byggingaglaða. Höllin var upphaflega sveitasetur Danakonunga, en var síðan notuð til veizluhalda þeirra, unz hún var gerð að minjasafni konungs 1858. Safnið er opið á sumrin 11-15 alla daga og á veturna 11-13 þriðjudaga og föstudaga, 11-14 sunnudaga.

Að lokum rennum við okkur út um annað suðurhlið garðsins yfir í Gothersgade. Við göngum eftir henni beint út á Kóngsins Nýjatorg, þar sem við erum á ný á kunnugum slóðum, upphafspunkti gönguferða okkar.

Þar bregðum við okkur inn á Hvít og fáum okkur glas af ágætu víni hússins. Á meðan hugleiðum við, hvort eitthvert safnið eða höllin freisti til nánari skoðunar síðar, ef tími vinnst til.

3. ganga:

Kristjánshöfn

Við eigum eftir að skoða eitt hverfi gamla bæjarins innan borgarmúranna. Það er Kristjánshöfn (Christianshavn) handan innri hafnarinnar. Þar er ýmislegt að skoða, svo að við fáum okkur leigubíl eða strætisvagn nr. 2, 8, 9, 31 eða 37 yfir Knippelsbro að horni Torvegade og Strandgade.

Fyrst lítum við til hægri inn í Strandgade, þar sem Kristjánskirkja (Christianskirke) frá 1755 hvílir fyrir enda götunnar, með smáhöllum á báðar hendur. Á horninu, á nr. 14, er gamla ráðhúsið í Kristjánshöfn.

Við förum í hina áttina og göngum Strandgötu til norðurs. Okkur á vinstri hönd, andspænis Sankt Annægade, er höll Asiatisk Kompagni frá 1740, með minningum frá gullöldinni, þegar danski flotinn sigldi um heimshöfin og Danmörk var nýlenduveldi. Nú er utanríkisráðuneytið í höllinni.

Við lítum inn í bakgarð hússins nr. 44, þar sem áður voru búðir stórskotaliðsins, sem gerðar hafa verið að íbúðum. Síðan höldum við áfram Strandgötu að síkinu, þar sem við snúum til hægri. Hér komum við í hinn amsturdammska hluta Kaupmannahafnar, hannaðan 1618 af hollenzkum arkitektum, sem hinn títtnefndi byggingastjóri og konungur, Kristján IV, kallaði til.

Þegar við komum að horni Overgaden Neden Vandet, fáum við fyrirtaks útsýni eftir Kristjánshafnarsíki (Christianshavn Kanal), þar sem nýmálaðir bátar hvíla við bakka og gömul hús og vöruskemmur kúra við götur. Við tökum eftir gálgum og blökkum efst á mjóum stöfnum húsanna.

Við snúum til vinstri yfir næstu brú, inn í Sankt Annægade, þar sem við virðum fyrir okkur hinn einstæða vindingsturn Frelsarakirkjunnar (Vor Frelsers Kirke). Honum var bætt 1747-52 við hlaðstílskirkjuna, sem er frá 1682. Spíran er 87 metra há, næsthæst í bænum á eftir ráðhústurninum. Við getum klifrað upp turninn að innanverðu og spíruna að utanverðu. Kirkjan er opin á sumrin 9-16:30 virka daga og 12-16:30 sunnudaga og á veturna 10-13:30 virka daga og 12-13:30 sunnudaga.

Handan kirkjunnar beygjum við til vinstri í Prinsessegade og förum hana að innganginum í Kristjaníu (Christiania) á horni Bátsmannsstrætis (Bådmandsstræde). Kristjanía hefur verið eins konar fríríki ungs utangarðsfólks síðan 1971, þegar þessar 170 húsa herbúðir voru teknar úr notkun og ætlaðar til niðurrifs.

Eftir miklar deilur hústökufólks og yfirvalda var Kristjaníutilraunin samþykkt í verki tímabundið. Síðan hefur Kristjanía verið litríkur hluti borgarinnar, með ódýrum veitingahúsum og tilraunaleikhúsum. Borgaralegir gestir með myndavélar eru ekki vel séðir.

Síðast þegar við komum til Kristjaníu, virtist staðurinn þreytulegur og sóðalegur, skuggi fyrri frægðar. Aðeins fíknilyfjagrösin voru fersk og litsterk í skarpri birtu sunnudagsmorguns. Og smám saman hefur staðurinn fyllzt af fíkniefnasölum og smáglæpamönnum í stað margra hinna upprunalegu sakleysingja.

Þegar við komum til baka úr Kristjaníu, förum við til vinstri eftir Bátsmannsstræti að borgarvirkjum 17. aldar. 1659 vörðu virkin borgina gegn árás Svía, en nú hefur þeim verið breytt í friðsæla garða. Við röltum rólega um þá og hressum okkur eftir ömurleikann í Kristjaníu.

Þegar við komum að Overgaden Over Vandet, yfirgefum við virkin og höldum áfram eftir síkinu. Hérna megin eru mörg falleg, gömul hús, aðallega reist af kaupmönnum á 18. öld. Í nr. 10 var sýning fornminja frá Kristjánshöfn.
Að lokum lýkur göngunni á Kristjánshafnartorgi við horn Torvegade, þar sem við getum tekið leigubíl, strætisvagn eða gengið yfir Knippelsbro til meginlands Kaupmannahafnar.

1981, 1989

© Jónas Kristjánsson