Ferðir

Samþjöppun gæðanna

Ferðir, Veitingar

Erlendu túristarnir eru mest í miðborginni innan Hringbrautar. Hafa fátt að skoða annars staðar. Því er mest þar af þjónustu fyrir ferðamenn, svo sem veitingahús. Þau þrífast, þar sem viðskiptin eru. Nærri allir beztu matstaðir landsins eru í 101. Bara náttúrulögmál, ekki vandamál. Flest góð hús þrífast hér á túristum. Beztu staðarnir eru þéttskipaðir slíkum á kvöldin. 80% eru útlendingar, sagði Friðrik V. við mig. Við eigum þeim að þakka að hafa aðgang að svo mörgum gæðastöðum. Sama að segja um beztu kaffihúsin, þrífast í 101. Við skulum fagna samþjöppun gæða. Úthverfin standa bara undir pítsum og bjór.

Túristar hjálpast að

Ferðir

Ferðaþjónusta getur ekki lengur litið á ferðamenn sem auðtekið og skjótfengið fé. Ferðamenn segja reynslusögur sínar á fjölþjóðlegum ferðasíðum, einkum á TripAdvisor. Frásögur hlaðast upp og þjónustan fær einkunn. Almennt förum við vel út úr þessu eftirliti kúnna, en undantekningar sjást þó. Ég hef oft nefnt kost og löst á hótelum og matstöðum. En önnur ferðaþjónusta fær líka einkunn. Hæst fljúga Íslenskir hesturinn, Discover Iceland (jeppaferðir), Norðurflug (þyrlur) og GeoIceland (jöklar). Lægstu einkunn fá svo Listasafn Íslands og Þjóðmenningarhúsið, ekkert að sjá, auðir veggir, segja vonsviknir túristar.

Ferðapassinn óþarfi

Ferðir, Punktar

Ég skil ekki ferðapassann frekar en aðra flækjuhugsun. Finnst það einfalda vera betra. Fyrst hafnar ríkisstjórnin eðlilegum vaski á ferðaþjónustu og getur svo ekki kostað frágang og verndun helztu ferðamannastaða. Miklu nær er að hafa vaskinn í lagi og nota hluta teknanna til að kosta framkvæmdir og rekstur við ferðamannastaði. Enginn getur kveinað yfir að borga sama vask og aðrir. Ferðamenn pirrast fremur af aðgangseyri eða ferðapassa. Svo rífast menn og rífast. Eins og í kvótanum, sem ætti að bjóða út á frjálsum markaði og hætta grátbólgnu rifrildi. Hér skortir hnífskarpa hugsun hjá moðhausunum.

Misvísandi meðmæli

Ferðir, Veitingar

Á heimasíðu TripAdvisor slærðu inn leitarorð, t.d. „Reykjavik hotels“. Svo velurðu „all“ og loks „hotels“ eða „B&B“ og sitthvað fleira. Þú færð upp lista í gæðaröð eftir meðmælum notenda í punktum og prósentum. Vægi nýrra meðmæla er þyngst, gömul meðmæli fjara út. Þetta er val notenda, lýðræði. Einnig er skráð „Travelers Choice“ eftir leyndum, ósannreynanlegum kvarða, ef nokkrum. Til dæmis er Hótel Keflavík með 79% vinsældum þar hærra en Hótel Berg í Keflavík með 98%. „Travelers Choice“ fer framhjá meðmælum notenda. Gerir óverðugum kleift að setja miða TripAdvisor við útidyr. Væri þolandi, héti það annað en „Travelers Choice“. TripAdvisor svarar engum fyrirspurnum. Ég fattaði, þegar lífsþreytt Frú Berglaug fékk miðann rétt fyrir andlátið.

Varúð við ráðgjöf

Ferðir, Veitingar

Til að nota Michelin álit á veitingahúsum þarf að kunna á Michelin. Sama er að segja um uppsafnað TripAdvisor álit. Það getur verið misvísandi frá þínu eigin mati. Tökum Flórens sem dæmi. Samkvæmt vefsíðunni er meirihlutinn af toppstöðum borgarinnar skipaður ísbúðum, bakaríum, kjötbúðum, matarbúðum, vínbúðum og skyndibitastöðum. Svipað er að segja um Reykjavík, að vísu ekki eins gróft. Hér er kaffihús í 7. sæti matstaða, ísbúð í 10. sæti, bakarí í 14. sæti. Bæjarins bestu voru lengi nærri toppi. Í Istanbul skipa matstaðir túristahverfisins efstu sætin ofan við beztu matstaði viðskiptahverfanna.

Michelin margfaldar verð

Ferðir, Veitingar

Taka þarf meðmælum með varúð, hvort sem þær eru í bókum eða á vefsíðum. Álit Michelin á matarhúsum í Kaupmannahöfn er dæmi. Samanburður verðs sýnir mér, að 4000 krónur kostar að borða á þekktustu og beztu smurbrauðsstöðunum. Síðan tvöfaldast verðið upp í staði, sem fá Michelin-haus fyrir gott samræmi verðs og gæða. Aftur tvöfaldast verðið upp í einnar stjörnu staði. Og loks tvöfaldast verðið upp í tveggja stjörnu staði. Þar er verð komið upp í 32000 krónur á mann. Verðið mundi framreiknast í 64.000 krónur á þriggja stjörnu matstað. Gæðastimplar Michelin fela í sér ávísun á margfaldaðan verðmun.

Ellefu stjörnustaðir

Ferðir, Veitingar

Ellefu veitingahús í Kaupmannahöfn hafa Michelin. Tvær stjörnur hafa frægt Noma í sama pakkhúsi og íslenzka sendiráðið og Geranium við Fælledparken. Eina stjörnu hafa þessir: Einfaldur Kadeau við Wildersgade 10, gamaldags Kong Hans Kælder við Vingårdsstræde, ítalskur Era Ora við Overgaden under vandet, a.o.c. kjallari við Dronningens Tværgade, nýtízku Kokkeriet við Kronprinsessegade, tælenzkur Kiin Kiin við Guldbergsgade, formel B úr stáli+gleri við Vesterbrogade, flottur Grønbech & Churchill við Amaliegade, svo og einfaldur Relæ við Jægerborgsgade. Beztu smurbrauðsstaðir borgarinnar eru Amalie, Told&Snaps, Kanal Cafeen, Sankt Annæ og Slotskælderen hos Gitte Kik. Allir í miðborginni.

Kadeau hlífir veskinu

Ferðir, Veitingar

Sigurganga Noma í Kaupmannahöfn hefur leitt til fjölgunar veitingahúsa þar í borg, er einnig sigla undir merki Nýnorræna Eldhússins. Mestum árangri hefur náð einfalt og íburðarlítið Kadeau, sem leggur áherzlu á hráefni frá Borgundarhólmi. Nicolai Nørregård er yfirkokkur. Kadeau hefur eina Michelin stjörnu og er töluvert ódýrara en tveggja stjörnu Noma. Á þeim stað er bara einn matseðill með 20-30 smáréttum og kostar sem svarar 32.000 krónum íslenzkum. Á Kadeau kostar fjórréttað 14.000 krónur íslenzkar og áttréttað kostar 19.000 krónur. Stofan er í Christianshavn eins og Noma, en handan aðalgötunnar Torvegade, við Wildersgade 10. Lokað er á kvöldin um helgar og  lokað í hádeginu sunnudaga-fimmtudaga. Hægt að fá borð með litlum fyrirvara, sem er útilokað á Noma. Önnur eins veitingahús og þessi tvö finnast ekki í Reykjavík.

Ýkt um Hótel Keflavík

Ferðir

Víkurfréttir segja, að Hótel Keflavík hafi í TripAdvisor verið valið tíunda bezta hótel á Íslandi. Það er rangt. Hótelið fær 79%, sem er langt frá því að gefa tíunda sætið. Það er ekki einu sinni bezta hótelið í Keflavík, samkvæmt TRIPADVISOR.

Tvö hótel í Kaupmannahöfn

Ferðir

Um daginn sagði ég, að miðja Kaupinhafnar væri Kóngsins Nýjatorg, þaðan sem kílómetri er til Ráðhústorgs og Hafmeyjar, Østersøgade og Christianshavn. Í nágrenni torgsins er fátt um hagkvæm hótel, því miðja verður óhjákvæmilega dýrari en útnári. Það kostar að spara samgöngutæki. Hef þó rekið augun í tvö hótel, sem freista umfram önnur. Annað er Hotel Opera við Tordenskjoldsgade, að baki Konunglega leikhússins. Þar fann ég verðið 13.000 íslenzkar krónur á nóttina. Hitt er litlu fjær, Hotel Copenhagen Strand við Havnegade. Þar fann ég verðið 15.000 krónur. Bæði eru í áttina að Kristjánsborg og Knippelsbro.Kongens Nytorv

Finndu þungamiðjuna

Ferðir

Viljirðu vera túristi í túristaborg, þarftu að setja þig niður á hagkvæmum stað. Nálægt Lækjartorgi hverrar borgar, staðnum, sem er þungamiðja hennar. Í Kaupmannahöfn er það ekki Ráðhústorgið, heldur Kóngsins Nýjatorg. Þaðan er sama göngulengd norðaustur Breiðgötu að Hafmeyjunni og suðvestur Strikið að Ráðhústorgi og Tívolí. Túristaborgin nær frá Hafmeyjunni að Tívolí, milli múranna, sem áður lokuðu borginni. Á 1 km radíus er 90% af því, sem þú vilt sjá og 90% af matnum, er þú vilt éta. Finndu hótel nærri Kóngsins Nýjatorgi. Angleterre er of dýrt, en þú finnur hótel við hæfi milli torgs og hafnar.

Sigling drottninga

Ferðir, Punktar

Sitjirðu á kaffihúsi við breiðgötu í París, sérðu drottningar á miðjum aldri sigla fullum seglum hver á fætur annarri. Hvergi eru konur á miðjum aldri glæstari en í París. Grannar og bera sig rosalega vel. Í stíl Rachida Dati, fyrrum dómsmálaráðherra, Rama Yade, fyrrum menntaráðherra, Michèle Alliot-Marie, fyrrum innanríkis og Christine Lagarde, forstjóra Gjaldeyrissjóðsins. Fæddar til að drottna yfir körlum, með hoppandi skósveina kringum sig. Aldar upp við að borða þrisvar á dag og alls ekkert milli mála. Sumar, eins og Dati, hafa fleiri en einn ástmann í takinu í einu. Þykir sjálfsagt í France.

Staðhættir í reyfurum

Ferðir, Punktar

Á nokkurn veginn komplett safn bóka ýmissa reyfarahöfunda, sem eldast vel. Les þá í útgáfuröð bóka með opið borgarkort í tölvunni til hliðar. Byrja á Simenon, bækur hans eru 137, margar með óborganlegri lýsingu götu, hverfis, þorps. Endist fram í maí. Borgarkort til hliðar hentar fleiri höfundum. Þar á meðal eru 15 bækur Barbara Nadel um Istanbul og 22 bækur Donna Leon um Feneyjar, 22 bækur Ian Rankin um Edinborg, jafnvel 17 bækur Andrea Camilleri um Sikiley. Flestir þessara höfunda lýsa húsum, götum og hverfum eins og þetta er núna. Tengsl við veruleika skiptir mig máli, er ég les skáldsögur.

Snappað á örlagaferð

Ferðir, Punktar

Fólk flýtur undan þrýstingi að örlögum sínum og snappar. Þarna er trekantur í götusundi í París, lokaður heimur. Einn snappar, drepur sjálfan sig, annan hvorn hinna eða báða, möguleikarnir eru tólf. Sagan snýst um sálarhrun. Svo er athafnamaður, sem fær heilablóðfall og vaknar lamaður á spítala. Hefur aldrei tekið sér frí, fer að líða vel í einrúmi hugsana, neitar að láta sér batna. Sagan snýst um viljahrun. Fyrir framan mig eru 109 af 137 þekktum bókum sálkönnuðarins Simenon, engin eins. Sá reyfarasmiður eldist bezt allra við ítrekuð kynni. Vetri mínum er borgið, enginn dauður tími fyrr en í maí.

Höfuðborg veitingahúsa

Ferðir, Veitingar

Í París er haugur veitingahúsa, sem eru betri en nokkurt á Íslandi. Verðið er því miður rosalegt, 30.000-50.000 krónur á mann á þriggja stjörnu stað. Skynsamlegt er að heimsækja slík í hádeginu, sum hafa ódýrari hádegisseðil. Á glæsilegum Grand Véfour er þá til dæmis þriggja rétta tilboð á 16.000 krónur, á Taillevent á 15.000 krónur og á Tour d’Argent á 13.000 krónur. Allt staðir í hjarta Parísar. Jafngóðan mat má fá á ýmsum litlum bistros í hjarta borgarinnar, til dæmis 2.700 krónur þríréttað á P’tit Trouquet. Fjöldi slíkra er í Michelin, merktir með Michelin-broskarl í stað stjarna.