Ferðir

Stærsta túristaborgin

Ferðir

Matarborgin París er stærsta ferðamannaborg heims. Miðbærinn er rosalegur, 7 kílómetra frá Bastillunni í austri að Sigurboganum í vestri og 7 km frá Montmartre í norðri að Mantparnasse í suðri. Þurfirðu viku til að skoða New York eða London, ertu þrjár vikur að skoða þétta miðborg Parísar. Þá er ég bara að tala um hverfi I til VII og syðri hluta hverfis VIII. Til að spara tíma og lúin bein, þarftu að búa nálægt miðju, svo sem nærri Louvre. Bendi helzt á 20.000 króna Lombarde, Paris Chambres og Delareynie. Líka vel sett en lakari eru 24.000 króna Du Quai Voltaire og 28.000 króna Place du Louvre.

Gott matarverð í London

Ferðir, Veitingar

Leiðsögubækur Michelin eru mest gefnar fyrir flottan og dýran mat. Samt eru þær þó farnar að gefa prik fyrir hagstætt verð. Michelin-broskarlinn er fín viðbót við þær ágætu bækur. Í London eru um tuttugu matstaðir með úrvalsmat á lágu verði. Flestir eru í úthverfunum, en nokkrir eru niðri í bæ, í Soho og Covent Garden. Það eru OPERA TAVERN við 23 Catherine Street, GREAT QUEEN STREET, nr.32 við samnefnda götu, POLPO COVENT GARDEN við 6 Maiden Lane, TERROIRS við 5 William IV Street, GREEN MAN & FRENCH HORN við 54 St Martin’s Lane og KOYA við 49 Frith Street. Hádegismatur yfirleitt á 3000-4000 krónur.

Góð gisting í 101

Ferðir

Þarf sjálfur ekki hótel í Reykjavík, en er stundum spurður um þau. Get ekki svarað af eigin reynslu, en nota reynslu notenda, sem lýsa hótelgistingu á ferðavefnum TripAdvisor. Miða þá eingöngu við hverfi 101, svo fólk þurfi ekki að nota bíla. Þeim, sem vilja B&B, bendi ég á Luna við Spítalastíg 1 í €140 flokknum og Bed and Books við Þjórsárgötu 3 í €100 flokknum. B&B eru oft notalegust. Vilji menn frekar gista á hóteli bendi ég á Reykjavik4you við Bergstaðastræti 12 í €140 flokkum og Castle House við Skálholtsstíg 2a í €100 flokknum. Þessir tveir verðflokkar skipta mestu, algengastir í Evrópu.

Misdýr gisting í Evrópu

Ferðir

Góð hótelherbergi án íburðar fást í Reykjavík á 20.000 krónur á dag. Svipað og meðaltal í ferðaborgum Evrópu, svo sem Amsterdam, Kaupmannahöfn, Flórens og München. Ódýrari eru Berlín, Bruxelles, Dublin, Madrid, Istanbul og Vín, 15.000 krónur á dag. Dýrari eru Barcelona, Feneyjar og Róm, 25.000 krónur á dag. Dýrastar eru London og París á 35.000 krónur á dag. Verðið fer sumpart eftir lóðarverði, sumpart eftir vinsældum og sumpart eftir breiddargráðu. Undantekningin er Berlín, sem er ótrúlega ódýr, ódýrari en München í sama landi. Einnig er skrítið, að Barcelona er mun dýrari en Madrid í sama landi.

Þrír í skammakróknum

Ferðir

Mér sýnist hótelhaldararnir vera orðnir þrír, sem haldi uppi háðslegu umtali ferðamanna um Ísland. Þetta má sjá á TripAdvisor, þar sem fólk rekur raunir sínar. Gamalkunnugt er ástandið á Adam hóteli við Skólavörðustíg og Travel Inn við Sóleyjargötu. 54 vitni eru að skelfingunni á því síðara og 59 á því fyrra. Ég ætla að spara ykkur lýsingarnar, en bendi á, að myndir fylgja á TripAdvisor. Þriðja í skammakrókinn er komið gistiheimilið Tunguvegur, en þar eru vitnin bara orðin fimm. Samtök ferðaþjónustu gerðu vel í að stöðva landkynninguna, sem aðeins þrír hótelhaldarar veita, þvert á ágæti annarra.

Bezti matur Miklagarðs

Ferðir, Veitingar

Buhara2

Kostar bara 2500 krónur að borða tvíréttað á Buhara við stóra markaðinn í gömlu Istanbul. Samt eru 444 notendur TripAdvisor sammála um, að sé bezta matstofa stórborgarinnar. Hæst einkunn af 10.512 stofum. Falin í sundi og stílar ekki upp á túrista. Snyrtilega gamaldags innréttuð með innsýni til eldhúss. Þjónar eru rosalega kurteisir að hætti Tyrkja. Fékk skógarsalat úr smásöxuðum tómötum, kryddjurtum og hnetum í bráðsterkum kryddlegi, frábært salat. Með fylgdi útblásið flatbrauð. Síðan lambahakk teingrillað í eldi, skemmtilega kryddað og borið fram á jógúrt. Eftir matinn kom svo sætabrauð.

 

Hirðmatreiðsla soldána

Ferðir, Veitingar

Tyrkir mikla fyrir sér hirðmatreiðslu soldánanna sálugu. Eins og Kínverjar lofa matreiðslu mandarína. Samt er ekki nema ein matreiðsla í heiminum, sem þolir samjöfnuð við franska matreiðslu. Það er sú japanska. Í Miklagarði eru rúmlega 10.000 veitingahús nefnd í TripAdvisor. Nóg er þar af góðum stöðum og margir bjóða hirðmatreiðslu ottómana. Mér finnst hún la-la, kryddlegið grænmeti í olíu, innbakstur í vínviðarlaufi, ofnmaukað kjöt í leirpotti, sykurhlaup í eftirrétt. Grillaður matur er þó góður, svo sem lambakjöt, betra en heima. Og hrásalöt geta verið fín. En eftirréttirnir eru dísætir.

Óvinnandi vígi

Ferðir

Murinn

Austrómversku eða grísku keisararnir í Miklagarði vildu gera höfuðborg heims okkar að óvinnandi vígi. Tvisvar féll hún þó, í fyrra skiptið fyrir herjum Feneyinga og krossfara 1205. Þeir klifu múrinn, þar sem hann kemur í sjó fram við Marmarahaf. Eftir það var múrinn stórefldur og gerður að mesta vígi heims, 6,6 km langur. Hann varð ekki klifinn, þegar Tyrkir hertóku borgina 1453. Þeir drógu skip sín á trjábolum úr Sæviðarsundi yfir Galata niður í Gullna hornið, sem lokað hafði verið með risakeðju. Sóttu þaðan að borginni, þar sem varnir voru veigalitlar. Múrinn voldugi stendur enn að miklu leyti.

 

Rúnaristur væringja

Ferðir

Á marmarahandriði innansvala Ægisifjar í Miklagarði eru norrænar rúnaristur. Þær eru fámæltar, önnur segir “Hálfdan var hér” og hin segir “Ari var hér”. Væringjum í lífverði keisarans hefur leiðst að hlýða messu í höfuðkirkju grísks rétttrúnaðar. Meira leiddist væringjum í Píreus, þegar þeir ristu á makka marmaraljóns: “Ásmundur risti þessar rúnir með Ásgeiri og Þorleifi að ósk Haralds háa, þótt Grikkir hafi bannað það. Þessir menn og Haraldur hái lögðu háar sektir á Grikki vegna uppreisnar. Dálkur er fanginn í fjarlægum löndum og Egill er í herferð með Ragnari til Rúmeníu og Armeníu.” Ljónið er nú við inngang skipasmíðastöðvar Feneyjaflotans. Mannkynssaga í hnotskurn.

VenetianLion Hagia-Sofia

Miðpunkturinn Ægisif

Ferðir

Ægisif

Ægisif er miðpunktur okkar, merkasta og fegursta mannvirki mannkyns. Hefur staðið í miðjum Miklagarði í 1500 ár. Reist af Jústíníanusi keisara og var í þúsund ár stærsta kirkja heims. Síðan var hún moska og hefur verið safn í 80 ár, nýlega uppgerð. Fyrirmynd allra rétttrúnaðarkirkja og moska. Hvolfþakið er meistaraverk burðarþols, virðist svífa eins og sjálft himinhvolfið. Hefur samt staðið af sér tíða jarðskjálfta. Með minjum kristni og íslams er hún enn skurðpunktur öflugustu trúarbragða heims. Mikligarður var í þúsund ár stærsta heimsborgin. Þar yfir sögufrægu Sæviðarsundi gnæfir voldug Ægisif.

 

 

 

Topkapi og Alhambra

Ferðir

.Bókasafnið í Topkapi

Hallir í heimi múslima bera af höllum í heimi kristinna. Víða í Evrópu minna konungshallir á íbúðablokkir, svo sem í Madrid, þar sem eru 2.800 herbergi. Þetta eru steinklumpar. Í Alhambra og Topkapi eru hallir hins vegar smáhýsi í garði, oft með bunulækjum. Í Topkapi eru sérhús bókasafns, fundarsalar, eldhúss, móttöku sendiherra og svo framvegis. Á milli eru fallegir garðar. Sonum eyðimerkurinnar þótti meira koma til gróðurs og vatnslinda heldur en grjóthauga. Í Japan eru hallirnar líka litlar í stórum garði. Hvorki hjá Japönum né múslimum tíðkast að fylla húsakynni sín með alls konar dóti.

 

Túristinn orðinn kóngur

Ferðir

TripAdvisor er dásamlegur vefbanki. Þar sé ég, hvað viðskiptavinir segja um gistingu og veitingar, ferðastaði og afþreyingu. Veitingarýnin er að vísu út og suður, en smám saman lærði ég að finna alvörurýni. Hún er oft frá þeim, sem ferðast víða og skrifa oft, en síður frá þeim, sem skrifa fátt og segja þá “en dásamlegt, skál”. Hokinn af lestri góðrar rýni merki ég í tölvunni 30 ágætar matarholur í miðborg Miklagarðs. Þær fara sjálfvirkt á borgarkortið í símanum. Þannig finn ég staðina fljótt og vel. Sama er að segja um hótelið og áhugaverða skoðunarstaði og ferðaþjónustu. Túristinn er orðinn kóngur.

Ráðum við straumþungann

Ferðir

Skortur á fagmennsku muni ekki standa aukinni ferðaþjónustu fyrir þrifum. Hér er mikið af vel menntuðum kokkum og mikið af elskulegu fólki til að reka hótel og veitingastaði. Hvort tveggja fær aðhald af reynslusögum ferðalanga á TripAdvisor. Þar kemur fram, að víða fá ferðamenn frábæra gistingu hér og flottan mat. Þar fá þeir líka að heyra það, sem standa sig illa. Við munum í fagmennsku þola 15% aukningu í ferðamannastraumi á ári hverju. Plön um aukið gistirými eru víðtæk og munu vafalaust standa undir eftirspurn. Vandinn er mestur í of vægu eftirliti og lélegum frágangi við helztu náttúruperlurnar.

Lærum af vanda Feneyja

Ferðir

Feneyjar voru eitt heimsveldanna fyrir nokkrum öldum. Borgin er fyrir löngu orðin að safni um sína eigin fortíð. Þar búa 60.000 manns og taka við 80.000 manns á degi hverjum. Voldug skemmtiferðaskip sigla framhjá Palazzo Ducale, sem er eins og legó-kubbur í samanburði. Feneyingar segja að nú sé komið meira en nóg, skammta þurfi aðgang með aðgöngumiðum. Samt er enn auðvelt að finna kaffihús og veitingahús með fleiri heimamönnum en túristum. Samt eru enn sund og brýr, þar sem fortíðin ríkir ein. Við getum sumt lært af vanda Feneyinga. Einkum þarf innviði: Eftirlit, klósett, viðhald og göngustíga.

 

Afturhvarf til fortíðar

Ferðir

Þótt ég eigi ekki iPad eða iPhone, er ég ekki alveg frosinn í fortíðinni. Hef stundað pappírslaus samskipti við umheiminn í nærri áratug. Gengur bara vel, bankar eru stafrænir, póstur er stafrænn og texti er stafrænn. Eini vandinn kemur upp í flugferðum. Flugfélög heimta pappírsútskrift kvittana fyrir greiðslu fargjalds og pappírsútskrift brottfararspjalds. Neyddist þess vegna til að kaupa prentara, þótt ég hafi ekki notað slíkan fornaldargrip í næstum áratug. Samt er öll afgreiðsla stafræn að tjaldabaki. Pappírskrafa flugfélaga er úrelt. Lykilorð eða jafnvel persónuskilríki eiga að nægja.