Ferðir

Afleit Leifsstöð

Ferðir

Skemmti mér við að lesa dóma flugfarþega á AirlineQuality um Leifsstöð. Þeir hafa farið hríðversnandi síðasta hálfa árið, einkunnin 0-2 af 10 mögulegum. Leitun er að slíkri hneykslun á erlendum flugstöðvum. Farþegar tala meðal annars um skipulagsleysi, skort á merkingum, þéttar biðraðir, skort á sætum, yfirfull klósett og dónaskap starfsfólks. “Vil aldrei koma þangað aftur”, segir einn farþeginn. Hef litla trú á, að Leifsstöð hvetji fólk til ferða hingað, ef það fylgist með reiðilestri AirlineQuality. Leifsstöð virðist illa rekin af daufgerðu fólki, sem veit, að fólk skal éta það, sem úti frýs.

Sér á parti í tilverunni

Ferðir, Veitingar

Hornafjörður er flottur. Fallegt bæjarstæði á borgum við höfnina. Litir í landslagi umhverfisins eru jökull, tún og líparít. Engin þétting byggðar í miðbænum, bara gömul hús. Ekkert álver. Allt í snyrtilegu viðhaldi, jafnvel sjávarútvegurinn nýmálaður. Við höfnina eru þrjú frábær himnaríki. Í fyrsta lagi hreinlegt gistihúsið Dyngjan með notalegum gestgjöfum og netsambandi. Í öðru lagi tveir veitingastaðir í toppstandi. Humarhöfnin og Pakkhúsið bjóða  nýveiddan humar grillaðan rétt við hlið humarskipsins Sigurðar Ólafssonar. Hornafjörður er sér á parti í tilverunni, betur heppnað dæmi en Borgarnes.

Túristi kvartar um túrisma

Ferðir

“Íslandsvinur forðast ferðamannastaðina” las ég í villandi fyrirsögn fyrir skömmu. Á íslenzku þýðir þetta: “Túristi kvartar um túrisma”. Slíkt orðalag sýnir þverstæðu þessarar skoðunar. Túristar taka ástfóstri við staði, kvarta svo um, að þar fjölgi túristum. Túristar vilja nefnilega ekki hafa aðra túrista kringum sig. Að baki þverstæðunnar er hætta á, að túristar forðist staði of mikils túrisma. Það leiðir til fækkunar túrista og staðurinn verður því aftur fýsilegur. Líklega er þarna eitthvert optimum, sem er betra en maximum. Þýðir væntanlega einhvers konar ítölu á álagstímum. Er hún góð?

Þú veizt allt áður

Ferðir

Skrifaði margar ferðabækur um erlendar stórborgir 1973-1996. Sagði meðal annars kost og löst á hótelum og veitingahúsum. Hafði skömmu áður byrjað að skrifa innlenda veitingarýni og síðan haldið því áfram, en sjaldnar upp á síðkastið. Þessi rýni var barn síns tíma. Nú eru komnir vefir, sem sérhæfa sig í þessu, einkum TripAdvisor. Þar má sjá nýjustu lýsingar viðskiptavina, jákvæðar eða neikvæðar eftir atvikum. Þetta hefur gerbreytt ferðaþjónustu í heiminum, því rekstraraðilar vilja fækka skömmum um sig. Nú kemur þér fátt á óvart, þegar þú velur hótelherbergi eða veitingaborð. Þú veizt allt áður.

Vond gisting og matur

Ferðir

Vandi ferðaþjónustu felst ekki í of mikilli fjölgun hótela, þótt bransinn haldi því fram. Vandinn felst í þessu venjulega eftirlitsleysi ríkisins. Svört gisting eykst örar en önnur gisting og ekkert er gert í því. Í henni felst óheiðarleg samkeppni við þá gistingu, sem er uppi á borðum. Og svo eru komnir í bransann nokkrir gullgrafarar. Verðleggja gistingu eða mat langt umfram léleg gæði, sem þeir bjóða. Sögur af vondri gistingu og vondum mat sjást ótt og títt á veraldarvefnum. Gullgrafararnir okkar eru að venju þegar farnir að skaða ferðaþjónustuna og um leið framtíðartekjur okkar af henni.

Sparað eða spennt

Ferðir, Punktar

Íslendingar og Þjóðverjar eru að ýmsu leyti líkir í hegðun og hugsun, en að öðru leyti frábrugðnir. Mesti munurinn felst í viðhorfi til tekna og skulda. Vilji Þjóðverji eignast eitthvað, gáir hann að eign sinni í bankanum. Vilji Íslendingur eignast eitthvað, reynir hann að koma fyrstu afborgun á plastið sitt. Meðan Þjóðverji á erfitt með að skulda, telur Íslendingur skuldir vera síðari tíma fjarlægt vandamál. Þess vegna gengur Þjóðverjum svona vel og Íslendingum svona illa. Þjóðverjar kaupa ekki fyrstu sendinguna af iPod og iPad, heldur byrja á að safna. Þannig er ríkissjóður þeirra líka, traustur.

Græni kastalinn

Ferðir

Sendiráð Íslands í Berlín er hluti af framúrstefnulegum kastala Norðurlanda. Einn fjölmargra minnisvarða bæjarins um arkitekta. Saladínskur kastali með skotraufum og litlum turnum milli djúpra og líflausra gljúfra. Öðrum þræði minnisvarði um gegndarlausan kostnað við smíði minnisvarða um arkitekta, minnir á Perluna. En óneitanlega auglýsir hann tilveru Norðurlanda, því að strætó-biðstöðin við húsið heitir “Nordische Botschaften”. Kastalinn er til sýnis fyrir almenning og þangað liggur straumur nemenda úr skólunum. Þrátt fyrir alla galla er græni kastalinn vel heppnuð almannatengsli Norðurlanda.

Berlín og Reykjavík

Ferðir

Matardeildir stórmarkaða í Berlín hafa endalausar vínhillur. Og víðáttumikil svæði unninna kjötvara, þar sem fá má óteljandi gerðir af bjúgum og pylsum. Úrval af öllu er miklu meira en í Reykjavík. Hins vegar eru veitingahúsin ekkert betri en reykvísk hús, ekki einu Adlon og Fischers Fritz, með tvær stjörnur í Michelin. Yfirleitt er Prússland ekkert Mekka matargerðarlistar, Bæjaraland er mun fremra. Beztir eru hér útlendir staðir, einkum franskir. Verð á góðum stöðum er oft 70% hærra en hér og á stjörnustöðum 100% hærra. Berlín er samt með ódýrustu höfuðborgum í Evrópu í gistingu og veitingum.

Ferðatíðnin ræður

Ferðir

Samgöngur eru frábærar í Berlín, þótt lítið sé um leigubíla. Heimamenn nota samgöngutæki almennings, lestar, strætó og sporvagna. Munur Reykjavíkur og Berlínar er, að þar líða fimm eða tíu mínútur milli ferða. Gerir gæfumuninn, þér finnst þú aldrei vera að tefja tímann. Á mörgum stöðvum er tölvuskilti, sem segir hversu margar mínútur eru í næsta vagn. Tvær strætóleiðir, 100 og 200, dekka miðbæinn milli Bahnhof Zoo og Alexanderplatz, þar sem flest er af skoðunarverðu, jafnvel stanzað við íslenzka sendiráðið. En ferðatíðnin ræður úrslitum um vinsældirnar. Hér verður aldrei strætó nema með tíðum ferðum.

Skondnar skoðanir

Ferðir

Margt skondið kemur í ljós, þegar allir eru farnir að tjá sig opinberlega í bloggi eða á fésbók. Maður dagsins er Þór Saari, sem drukknar í ferðafólki. Getur ekki lengur séð Þingvöll, Geysi og Gullfoss fyrir þúsundum útlendinga. Ég var þarna í sumar og sá allt mjög vel. Kannski vantar Þór bara gleraugu. “Ég vil ekki sjá Íslendinga svipta sínu landi fyrir einhver fyrirtæki í ferðaþjónustu”, segir hann. Minnir mig á skondinn Ögmund, sem sagði eldhaf geisa um Evrópu, Þjóðverja skorta lífsrými og vilja kaupa sjálfstæði okkar fyrir eldvatn og glerperlur. Kannski þeir tveir stofni bara þjóðrembuflokk.

Þjóðgarður í basli

Ferðir

Vatnajökulsþjóðgarður hefur farið illa af stað. Mun verr en aðrir þjóðgarðar landsins. Stjórn garðsins hefur ekki borið gæfu til að hlusta á málsaðila og taka tillit til margvíslegra sjónarmiða. Eins og þeirra, að ekki hafa allir heilsu eða aldur til að ganga allar leiðir. Tilraunir til samráðs hafa farið út um þúfur og innkölluðum athugasemdum ýmissa aðila hefur ekki verið svarað efnislega. Fjármál garðsins eru höfð í flimtingum á Alþingi, þótt það segi kannski ekki mikið um þau. Skipta þarf út stjórnarmönnum og setja inn fólk, sem kann að stunda mannleg samskipti við málsaðila, sem það er ekki sammála.

Stíflur við hótelin

Ferðir

Hótel eru orðin svo þétt í Kvosinni, að rútur stöðva stundum umferð. Einkum gerist það í norðurenda Aðalstrætis, en einnig í Pósthússtræti. Nóg er komið af slíkum, þótt ekki komi hótel í Landsímahúsið og á Ingólfstorg. Borgin á ekki bara að bregðast við hugmyndum braskara, heldur hafa sjálf frumkvæði að hótelstefnu. Víða er gott pláss fyrir hótel í nágrenni miðbæjarins, svo sem á Héðinsreitnum við Ánanaust og á lóð gamla Hampiðjuhússins. Verðum að gera okkur grein fyrir vexti ferðaþjónustu fram í tímann og varðveita aðra vinnu á svæðinu. Við megum sízt fórna torgum miðborgarinnar undir rútur í bið.

Ólögleg gisting

Ferðir

Athuganir benda til að fjórðungur gistirýmis á höfuðborgarsvæðinu sé utan laga og réttar. Ríkið hefur ekkert gert til að koma böndum á lögbrotin. Missir því af eðlilegum skatttekjum. Brýnna er að koma þessu í lag en að skattleggja meira þá, sem starfa innan ramma laganna. Í sjálfu sér er ég hlynntur hærri vaski á gistingu til jafns við annan rekstur. Tel þó rétt að byrja á að hreinsa til í spillingunni. Allar aðgerðir eða aðgerðaleysi hins opinbera hefur áhrif á markaðinn. Eftirlitsleysi með skattsvikum skekkir markaðinn á kostnað löglegs rekstrar. Grefur einnig undan siðgæði okkar.

Brú inn í Blábjörg

Ferðir

Borgarfjörður eystri er afskekktur með frábærum fjöllum, hvar líparít slær í gegn. Þaðan liggur eina leiðin í rómaðan Loðmundarfjörð, sem fáir þekkja. Tröllavegur um brattar brekkur, en ætti að vera öllum jeppum fær, sé varlega farið. Fann nýtt gistiheimili í miðbænum, í gamalli fiskvinnslu við bryggju, kaupfélag og benzínstöð. Í Blábjörg er gengið um brú á endurnýjaða efri hæð. Hreinlegt tveggja manna herbergi, með fínasta baði úti á gangi, á 12.900 krónur nóttin. Að inniföldum einföldum morgunmat, sem ég bætti með trópí úr kaupfélaginu. Frábært var útsýni um haf og fjöll, jafnvel af klósettsetunni.

Yndislega Aschinger

Ferðir

Búinn að panta viku í Berlín. Var þar í tvö ár fyrir rúmri hálfri öld, fyrir múr. Hef ekki komið þar síðan múrinn var rifinn. Ætla á Aschinger við hlið Bahnhof Zoo, þar sem námsmenn átu linsubaunasúpu fyrir 50 þýzka aura. Máttu taka eins margar brauðkollur og þeir gátu borið í höndunum. Methafinn bar 21 kollu. Reglan er enn í gildi, en nú kostar súpan tæpar fjórar evrur. Vinsæll staður virka daga, því maturinn á mensunni var óætur. Sunnudaga keyptum við fimm austurmörk fyrir hvert vesturmark á Bahnhof Zoo og fórum austur á Hótel Búdapest. Þar sörguðu þrír fiðluleikarar meðan við svangir átum þríréttað.