Ferðir

EasyJet er álverið

Ferðir

Hef mikið notað EasyJet, einkum frá Stansted við London. Undantekningarlaust hefur það verið ánægjulegt. Öll flug á réttum tíma og allt staðið eins og stafur á bók. Mestu máli skiptir, að farseðlaverðið er notalegt. Fagna því komu EasyJet til Íslands, held það toppi flest lággjaldafélög. Með því koma hingað 40.000 farþegar í ár, að mestu hrein viðbót. Það er rokna blóðgjöf okkar stærstu og örast vaxandi atvinnugreinar. Ferðaþjónustan færir okkur meiri vinnu og meira vinnsluvirði í tekjum en nokkur önnur grein. Og það með sáralitlum kostnaði, öfugt við ál- og orkuver. EasyJet er okkar stóriðjuver.

Því minna því betra

Ferðir

Feneyingar stigu það heillaskref í sumar að hefja gjaldheimtu af ferðafólki. Skatturinn er lagður á alla gistingu, þar á meðal á tjaldstæðum uppi á landi. Feneyjar hafa lengi verið ofsetnar ferðamönnum. Þeir eru fleiri en 60.000 á degi hverjum. Einnig er brýnt að takmarka umferð skemmtiferðaskipa, þótt það verði ekki gert að þessu sinni. Skatturinn fer í aðgerðir til að vernda þetta heimsins stærsta og merkasta safn, en megintilgangurinn er þó að fækka ferðamönnum. Feneyingar hafa fengið nóg af þeim. Úti í heimi er til siðað fólk, sem ekki fer eftir íslenzka spakmælinu: Því meira, því betra.

Hjólreiðar í Amsterdam

Ferðir

Í Amsterdam hjóla allir. En þar er enginn með hjálm. Alls enginn. Þar hjólar fólk með spennta regnhlíf í annarri hendi og talar í farsíma með hinni. Þar hjólar fólk með hjálmlaus smábörn á stýri. Á stýrinu, eins og í gamla daga. Allar þær reglur um hjólreiðar, sem við þekkjum á Íslandi, gilda alls ekki í Amsterdam. Samt verða engin hjólreiðaslys í Amsterdam. Færri en í Reykjavík. Allt gatnakerfið snýst nefnilega um reiðhjól. Sérstakar brautir eru fyrir reiðhjól. Og bílar eru alls ekki leyfðir í þrengstu götunum. Reglurnar fyrir hjólreiðafólk hér á landi eru hins vegar sniðnar að kerfi almáttugra bíla.

Brothættur TripAdvisor

Ferðir

Fagfólkið að baki Michelin-rýni veitingahúsa veit miklu meira en leikmenn, sem rýna á TripAdvisor. Tökum Bruxelles sem dæmi. Michelin gefur þar sex húsum stjörnur og ekkert þeirra er framarlega á TripAdvisor. Michelin gefur níu húsum þar viðurkenningu fyrir gott hlutfall verðs og gæða. Ekkert þeirra er framarlega á TripAdvisor. Samkvæmt minni reynslu er mat Michelin í stórum dráttum rétt, þótt það sé gamaldags. Heildarmat leikmanna á TripAdvisor er hins vegar út úr kú. Dæmið um Bruxelles segir mér, að ég hafi ekkert gagn af TripAdvisor í vali veitingahúsa, þótt vefurinn komi að gagni við val hótela.

Málverkið er af svörtu laki

Ferðir

Í þúsund ár blómstraði lýðveldi Feneyinga, eitt af stórveldum Evrópu, unz Napóleon valtaði yfir álfuna. Í borginni var hertogi, kjörinn í flókinni kosningu, sem hindraði mútur. Hann var sameiningartákn borgarinnar, hafinn yfir ágreining og voru um það flóknar reglur. Þannig ríktu alls 120 hertogar í borginni. Einn stóð ekki undir væntingum, Marino Falier, sem ríkti árin 1354-1355. Eins og Ólafur Ragnar túlkaði hann lög og reglur sér í hag með hallarbyltingu. Feneyingar afgreiddu hann skjótt að þeirra tíma hætti. Í röð 120 mynda af hertogunum í Palazzo Ducale er eitt málverkið af svörtu laki.

Hátt skrifað ferðamannaland

Ferðir

Ísland er oftast hátt skrifað hjá þeim, sem fjalla um ferðir í mikilvægum fjölmiðlum erlendis. Í morgun var listi í New York Times yfir mikilvægustu áfangastaði nýja ársins. Þar er Ísland í fjórða sæti. Sérstaklega er bent á, að gengishrun krónunnar hafi gert þetta áður dýra land mun ódýrara. Nefndir eru hverir, jöklar, eldfjöll og norðurljós. Meginhluti greinarinnar snýst samt um framboð á dægradvöl í Reykjavík: Tónlistarhúsið Hörpu, DesignMarch listhönnunarhátíðina og Airwaves tónlistarhátíðina. Íslenzk menning er orðin aðdráttarafl. Ferðamönnum í Reykjavík mun fjölga í ár.

Þrautþjálfaðir í mótmælum

Ferðir

Ryanair er frægt fyrir ruddalega hegðun gagnvart farþegum. Andskotinn hitti þó ömmu sína, þegar farþegarnir voru franskir. Slíkir farþegar éta ekki það, sem úti frýs, heldur sameinast um að mótmæla. Eins ólíkir Íslendingum og hægt er að vera. Létu ekki segja sér að fara úr flugvél í Belgíu, þegar áætlunin hljóðaði upp á lendingu í Beuvais í Frakklandi. Eftir fjögurra tíma mótmælasetu í flugvélinni náðist loks samkomulag. Þið munið harðskeytt mótmæli við hækkun eftirlaunaaldurs í Frakklandi. Þar er fólk þrautþjálfað í mótmælum, enda fundu Frakkar upp borgaralegar byltingar. Fólk með reisn.

Flækingurinn segir frá

Ferðir

Mér líður vel á hótelum. Þar er allt til alls og enginn óþarfi, ekki einu sinni bók. Víðast gott rúm, sturta, þráðlaust net, jafnvel útsýni. Engin matreiðsla, engin þrif. Þegar ég skrifaði ferðabækur um stórborgir heimsins, bjó ég bara eina nótt á hverju hóteli. Var aðeins með handfarangur. Í París var ég á þrjátíu hótelum í einum mánuði og borðaði á sextíu veitingahúsum. Gæti verið heilt ár á 365 hótelum og 730 matstofum og þar á milli á rölti og kaffihúsum. Þrífst líka í fjallaskálum í hestaferðum, þegar fólk sefur í kös í svefnpokum á gólfinu. Sennilega flækingur í eðli mínu eins og Herlúlarnir.

Hús Maríu guðsmóður

Ferðir

María guðsmóðir er víðar tignuð en í kaþólsku. Tyrkneskir múslimar virða minningu hennar, enda telja þeir son hennar vera spámann. Nálægt Efesos er Maríuhús, Meriemana. Jóhannes postuli lofaði Kristi á krossinum að vernda hana. Fór með hana til Efesos. Þar er hún sögð hafa búið í litlu húsi, sem er til sýnis fyrir kristna og múslima. Helgi hefur verið á þessu húsi öldum saman. Allt getur þetta passað, því að hlutar hússins eru 2000 ára gamlir. Páfar hafa heimsótt húsið, þar á meðal þeir síðustu. Í Tyrklandi er mikið af kirkjum, sem múslimar láta í friði. Sú fræga Soffíukirkja er í Miklagarði.

Náði faxi í Moskvu

Ferðir

Bjó einu sinni á Messdunarodnaja í Moskvu í viku á tíð Jeltsíns. Baka til í anddyrinu var skrifstofa, sem gaf út heimildarmiða fyrir fólk að skrá sig inn á hótelið fremst í anddyrinu. Fékk send föx daglega. Þau komu ekki í box mitt í anddyrinu. Spurðist fyrir og fékk að vita, að föx væru afgreidd á fax-stofunni á níundu hæð. Fór þangað, fékk að vita, að fax væri komið. Fékk A3 skjal til að fara á skrifstofu gjaldkera á fimmtu hæð til að borga dollar á faxið. Fór niður, borgaði dollarinn og fékk A3 kvittun í fjórriti. Fór með kvittunina upp á níundu, fékk faxið, eina síðu A4. Alveg eins í fimm daga.

Herra Milljón í fangelsi

Ferðir

Sagan staðfestir, að Marco Polo hafði að mestu rétt fyrir sér. Þótt ekki nefndi hann kínverska múrinn í bókinni um ferðina frá Feneyjum til Kína og dvölina þar. Nákvæmni frásagnarinnar nægir til að staðfesta, að hann sá með eigin augum það, sem hann lýsti. Feneyingar voru þó vantrúaðir á furðusögur hans. Kölluðu hann herra Milljón, þegar hann talaði um milljónir. Enn í dag er Milljónargata í Feneyjum, þar sem hann bjó um skeið. Marco Polo var uppi 1254-1324. Ferðasagan um Kína er því að þakka, að hann fór í sjóherinn og var handtekinn af Genúamönnum. Í fangelsinu hafði hann bókina fyrir stafni.

Ódauðlegt refakex

Ferðir

Fyrsta færibandið í heiminum var Arsenal í Feneyjum. Þar runnu galeiður daglega fullbúnar af stokkunum. Oft lá mikið við, því að Feneyingar háðu sífelldar sjóorrustur við Tyrki um yfirráð á austanverðu Miðjarðarhafi. Um borð í galeiðunum var kex, sem var svo hart, að það entist endalaust. Þegar Feneyingar töpuðu Krít árið 1669, varð kex flotans innlyksa og týndist. Árið 1821, þegar Grikkir náðu Krít af Tyrkjum, fannst týnda kexið. Var þá enn ómyglað og ætt, þótt 152 ár væru liðin. Sennilega er ódauðlega hunda- eða refakexið merkasta framlag Feneyinga til matargerðarlistar Vesturlanda.

Múslimi friðar kristna

Ferðir

Kirkja hinnar heilögu grafar í Jerúsalem er ein af höfuðkirkjum heimsins, markmið pílagrímsferða. Kristnir söfnuðir deildu öldum saman og börðust jafnvel um stjórn kirkjunnar. Til að koma á friði gaf Tyrkjasoldán árið 1852 út tilskipun. Þar er stjórn kirkjunnar skipt milli safnaða Armena, Grikkja, Kopta, Kaþólikka, Eþiópíumanna og Sýrlendinga. Lyklavöld eru í höndum hlutlauss aðila, múslima. Hann opnar kirkjuna á hverjum morgni. Embættið hefur kynslóðum saman verið á hendi sömu fjölskyldu. Segið svo, að ekki geti verið gagn að múslima til að varðveita friðinn milli kristinna óróa-safnaða.

Gullhöllin og Tyrkjahöllin

Ferðir

Fljúgðu til Feneyja, farðu um borð í vaporetto númer eitt, hallaðu þér aftur og horfðu á hallir Stóraskurðar líða hjá. Þar sérðu hnignun Vesturlanda í hnotskurn. Fegurstar eru elztu hallirnar, Gullhöll, Hertogahöll, Tyrkjahöll Farsetti, Loredan og ótal fleiri. Allar í gótík eða fögrum stíl Miklagarðs, sem múslimar einir hafa síðan varðveitt í moskum sínum. Síðan koma þungar hallir endurreisnar, svo sem Grimani og Corner-Spinelli. Verstar eru yngstu barokk hallirnar, svo sem Pesaro og Balbi. Sjö ónýtar aldir í byggingalist liðu frá Miklagarði fram að 20. aldar fúnkis. Það má sjá við Stóraskurð.

Flýja eyrina upp í hlíðar

Ferðir

Patreksfjörður minnti á Flateyri. Byggilega landið á eyrinni að mestu komið í eyði. Byggðin hefur þanizt upp um fjallshlíðar. Vonandi verða þar engin skriðuföll. Fátt er að finna á eyrinni nema fiskverkun. Enga miðbæjarsækna þjónustu, en nóg af auðum lóðum. Benzínstöð, bakarí, kaupfélag og kaffihús eru hér og þar austast í bænum. Þaðan er stytzt að flýja til Brjánslækjar, þar sem ferjan bíður. Skrítið að hafa miðbæinn í bláendanum. Bíldudalur er huggulegri, þar er kaffihúsið í miðju. Þar fá menn ókeypis nettengingu með matnum, 700 krónur á Patró. Ódýrara þó en 1000 krónu okrið á ferjunni.