Ferðir

Notalegt Hótel Flatey

Ferðir

Flatey er þreytt pláss fyrir fuglaskoðara. Fjórum sinnum á dag setur ferjan fólk í land. Leitar skjóls á notalegu Hóteli Flatey við þorpstorgið. Hanga í sólbaðskaffi á svölunum, nema þeir nenni að skoða fugla. Allir borða þar á kvöldin. Plokkari og síldarbakki í hádegi, grásleppuhrogn og þorskur um kvöldið, hnallþórur um miðjan dag. Allt ágætis matur. Þess á milli röltir fólk. Fáir eru í gömlu húsunum, gera skyldu sína, sitja í sólbaði fyrir utan dyr og kasta kveðju á fólk. Viðkunnanlegt, einkum þó starfsliðið. Dýrt hótel með flottar sturtur, 19.900 fyrir tvo. Hótelið er líf Flateyjar, morgunmatur ekki fyrr en klukkan níu. Með bygggraut og fínum osti, en engu kornflexi.

Fegursta pláss landsins

Ferðir

Stykkishólmur er fegursta pláss landsins, slær út Seyðisfjörð. Gömlu húsin standa út og suður í kvosinni kringum kirkjuna. Flest eru þau frá því fyrir byggingarlist nútímans. Gamli tíminn ræður í miðbænum, ég þarf að fara upp á hæðir til að sjá nýju hverfin. Í Læknishúsinu gamla er Hótel Breiðaförður, notalegt hótel með sómasamlegum morgunmat og þráðlausu interneti. Tveggja manna herbergi m. sturtu á 17.000 kr. Þar við hlið eru tvö ágæt veitingahús, Fimm fiskar og Narfeyrarstofa. Það síðara er spennandi, býður mat beint frá bónda. Ferska bláskel úr Breiðafirði á 3.450 kr og Erpsstaða-ís á 1.450 kr.

Þeir skildu þarfir fólks

Ferðir

Eitt sinn fórum við hjónin með þrjúhundruð ritstjórum um Shenandoah fjöll í Virginíu. Að morgni skildum við töskurnar eftir fyrir utan herbergisdyrnar. Að kvöldi komum við að nýju hóteli. Í anddyrinu var langborð með bókstöfum. Ég gekk að bókstafnum K og fann umslag með nafninu mínu. Í umslaginu var nýr herbergislykill. Þegar við komum á herbergið, voru töskurnar þegar komnar þangað. Æ síðan hef ég haft dálæti á þeim þætti bandarískra viðskipta, sem snýr að umgengni við notendur. Ég hef ferðast nokkuð með svipuðum hópi, til dæmis um Evrópu. Og aldrei séð þvílíkan skilning á þörfum og þægindum fólks.

Alhambra var himnaríki

Ferðir

Márar frá Sahara byggðu Alhambra-kastala í Granada á Spáni. Þegar þeir komu til Spánar, urðu þeir hugfangnir af rennandi vatni. Þeim fannst þeir vera komnir til himnaríkis. Er þeir reistu kastalann, veittu þeir vatni í stokk til hans og létu læki hríslast um stofur og garða. Þessi mannvirki standa enn. Þau eru minnisvarði um mesta lúxus heims í huga eyðimerkurbúans. Hér á Íslandi gerum við okkur ekki grein fyrir gildi rennandi vatns. Við höfum svo mikið af því. En ég er samt hissa á, að forfeður okkar skyldu ekki veita vatni í stokkum inn í hús. Sérstaklega á stöðum með heitu yfirborðsvatni.

Heitir eftir söðlasmiðum

Ferðir

Man eftir Berdaine-moskunni, klædda grænu postulíni, nyrzt í gamla bænum í Meknes. Einni af þremur konungaborgum í Marokkó. Hinar eru Fez og Rabat. Þar og í Marrakech eru einna stærstu miðalda-souk eða bazarar heimsins. Ég var í þessum borgum tvær vikur fyrir nokkrum árum og bjó sumpart við þröngar bazar-göturnar. Berdaine-moskan heitir eftir söðlasmiðum, sem hafa verkstæði sín við hlið hennar. Þar koma trúaðir nokkrum sinnum á dag og biðjast fyrir. Núna hrundi græni bænakall-turninn og nokkrir tugir fórust. Björgunarstörf voru erfið, því að farartæki nútímans komast ekki um ævaforn miðbæjarsund.

Finndu þér hótel og matstaði

Ferðir

Torgið framan við Bláu moskuna er miðja Istanbul. Þaðan eru tæpir 500 metrar til allra átta, til Soffíukirkju og Topkapi soldánshallarinnar, til paðreims keisara og risamarkaðarins, til Hellusunds. Opnaðu viamichelin.com og fylltu leitarreiti: Sultanahmet, Istanbul, Turkey. Þú færð kort af borgarmiðjunni. Opnaðu fyrir hótel og veitingahús. Sérð hvar þú getur búið, hvað það kostar. Best Western Saint Sophia kostar aðeins 10.000 krónur eftir krónuhrun, sama kostar Sultanahmet. Skoðaðu veitingahúsin í kring. Álit notenda á gistingu og mat sérðu á tripadvisor.com. Aðrar borgir, sama góða leitaraðferðin.

Dæmi um fyrsta ferðaskrefið

Ferðir

Stefánskirkja er miðja Vínarborgar. Þaðan eru tæpir 500 metrar til allra átta, til keisarahallarinnar, gamla ráðhússins og Jesúítakirkjunnar. Opnaðu viamichelin.com, fylltu leitarreiti: Stephansplatz, Wien, Austria. Þú færð kort af borgarmiðjunni. Opnaðu fyrir hótel og veitingahús. Sérð hvar þú getur búið og hvað það kostar. König von Ungarn og Kaiserin Elizabeth eru eftir hrun komin í 40.000 krónur. Kíktu á pensjónötin og finndu t.d. Pension Neuer Markt á 20.000 krónur. Skoðaðu veitingahúsin í kring. Álit notenda á gistingu og mat sérðu á tripadvisor.com. Aðrir staðir, sama leitaraðferð.

Næturlíf nú og fyrir hálfri öld

Ferðir

Fyrir fimmtíu árum var ég háskólastúdent í borg, sem þá hét Vestur-Berlín. Það var frjálslyndur staður. Baristar máttu loka, þegar þeir vildu loka, og þeir lokuðu, þegar kúnnarnir vildu fara. Ég kynntist þar í fyrsta skipti vinstra fólki, sem kveikti í húsum til pólitískra mótmæla. Og kynntist líka hægra fólki, sem barðist með sverðum í leyniklúbbum. Bjó hjá fjölskyldu, sem vildi bara leigja “aríum”. Bjó líka í Studentendorf, sem varð gróðrarstía stúdentauppreisna. Allt þetta var opinberun frá stöðnun og doða Íslands. Enn er Berlín á oddinum. Þar ólgar að minnsta kosti næturlífið sem aldrei fyrr.

Flóknara útstáelsi

Ferðir

Vegna Davíðs-hruns fyrir ári tími ég ekki að borða á Michelin-stjörnustöðum í Gent. Sá ódýrari, C-Jean, selur kvöldmatinn á 20.000 krónur áður en kemur að drykkjum. Sem betur fer gat ég klórað í bakkann með því að koma þar einu sinni í hádeginu. Á 7.000 krónur, sem flestum mundi samt þykja nokkuð stíft. Hér í Gent er helzt hægt að borða úti í hádeginu. Nokkrir Michelin-staðir án stjörnu bjóða tvíréttaðan hádegismat á 3.000 krónur, sem er þolandi. Café Théâtre, Pakhuis og Belga Queen. Svo þakka ég almættinu fyrir, að Davíð er bara ritstjóri. Getur ekki framið fleiri efnahagsleg hryðjuverk á mér.

Hundrað orða kort af Gent

Ferðir

Borgarmiðjan í Gent í Belgíu er á torginu Korenmarkt við Nikulásarkirkju. Þaðan eru 500 metrar til suðurs að lúðrasveitartorginu Kouter, þar sem verzlanahverfið er. Þar á milli er háskólinn. Til norðurs eru 500 metrar að markaðstorginu Vrijdagmarkt. Þar á milli eru hótelin. Austur frá Korenmarkt er röð smátorga við turnana Belfort og Baafs-dómkirkju. Til vesturs í 100 metrum er áin Leie með útivistarbökkum, þar sem eru matar- og kaffihúsin. Á öllu þessu svæði með kortérs gönguradíus eru mest um fínar göngugötur. Undir torgunum Kouter og Vrijdagmarkt eru svo bílageymslur fyrir fólk í bæjarferð.

Kaffið betra í Reykjavík

Ferðir

Eitt er verra í Gent en í Reykjavík. Kaffihúsin. Belgar eru bjórfólk, sem er á svipuðum slóðum í kaffimenningu og Íslendingar voru fyrir fimm eða tíu árum. Þeir nota enn uppáhelling. Eða vélar, sem gefa af sér veikt kaffi, sem þeir kalla espresso. Þannig espresso fengum við í Reykjavík fyrir tíu árum. Nú er miðbærinn okkar fullur af kaffihúsum, sem bjóða indælis kaffi úr gamaldags ítölskum kaffivélum. Þótt ég búi í miðborg Gent, sem er stærri en allt Reykjavíkursvæðið, er leitun að almennilegu kaffi. Jafnvel ítölsk veitingahús brugga kaffið þunnt á belgíska vísu. Ég fæ að lokum heimþrá.

Vind- og vatnsþéttur Laugavegur

Ferðir

Flestir ferðamenn ráfa milli búða í Reykjavík. Margir fara líka í bjórinn, sumir á kaffihús og fáeinir á veitingahús. Síðan fara menn í Bláa lónið. Einstaka sérvitringar fara út á land. Gengi ferðaþjónustunnar stendur og fellur með aðdráttarafli Reykjavíkur. Því miður er veðrið ekki nógu gott flesta daga ársins. Það er stóri þröskuldurinn. Úr því má bæta með því að framkvæma gamla hugmynd. Setja vind- og regnhelt þak á Laugaveginn og gera hann að göngugötu að erlendri fyrirmynd. Vind- og vatnsþéttur Laugavegur er ávísun á hersveitir erlendra ferðamanna að rölta milli búða og bjórkráa.

Mannhafið á blómamarkaði

Ferðir

Blómamarkaðurinn á aðaltorginu í Gent er frábær. Aðfaranótt sunnudags er farið að setja upp tjöld á Kouter klukkan fjögur. Tveim tímum síðar fara blómin að koma inn og klukkan átta að morgni er allt tilbúið í sölu. Ég horfi á þetta allt út um stofugluggann. Mannhafið er mikið, eins og öll Reykjavík sé á göngu. Klukkan hálfellefu byrjar lúðrasveitin á art-decco palli. Upp úr hádegi er allt búið og garðyrkjubændur tínast brott. Sama morgun er forn bókamarkaður á síkisbakkanum Ajuinlei og gæludýramarkaður á Vrijdagmarkt, þar sem fiskmarkaður er á föstudögum við ótrúlegt mannhaf.

Ríka fólkið í strætó

Ferðir

Hér í Gent í Belgíu eru flestar götur miðborgarinnar bara fyrir sporvagna og gangandi fólk. Kaupmenn vilja hafa þetta svona, vilja heldur fólk en bíla. Kaupmenn Laugavegar eru á öðru máli, berjast gegn breytingu í göngugötu. Viðhorf fólks eru afar ólík. Hér í miðborg Gent býr mikið af ríku og vel klæddu fólki. Það á samt ekki bíl og fer sinna ferða í sporvagni. Hér hefur ekki orðið nein græðgisvæðing. Fólk grýtir ekki fé í óþarfa. Flatskjáir eru örugglega færri en í Reykjavík. En vel stæðir borgarar klæða sig upp til að fara út að borða. Þótt veitingaverð sé nokkru hærra í Gent en í Reykjavík.

Hroðalegt umtal um hótel

Ferðir

Metropolitan hótelið við Ránargötu, áður City Hotel, fær hroðaleg ummæli hótelgesta á TripAdvisor.com. Nefna dæmi um, að hótelið reyni að svindla á sér. Ljúgi til um staðreyndir, þótt þær séu skjalfestar. Afgreiðslan sé þurr og jafnvel dónaleg. Eitthvað sé um, að krítarkortum sé rennt tvisvar í gegn og reynt að fá tvígreitt fyrir gistingu. Morgunverðurinn sé afleitur og hreinlæti lélegt í eldhúsi og herbergjaþjónustu. Sjaldgæft er, að hótel fái svona vonda útreið hjá gestum. Spurning er, hvort Ferðamálaráð þurfi ekki að grípa í taumana. Svo að lélegur hóteleigandi skaði okkur ekki.