Ferðir

Gisting í spéspeglasal

Ferðir

Skrítnasta gisting í heimi er á Propeller Island City Lodge í Charlottenburg í Berlín. Þar er hægt að gista í spéspeglasal, í virkisturni, í herbergi með skýjaþykkni, í silfurmusteri, í herbergi með bröttu gólfi. Eða í fangaklefa, í líkkistu í grafhvelfingu, í grænbólstruðu herbergi fyrir geðsjúklinga. Eða í loftbelg, sem er áfastur hótelinu. Jafnvel í herbergi, þar sem húsgögnin eru límd við loftið, sem veldur svima. Gistingin kostar 75-115 evrur á nóttina. Sjáið myndir af herbergjum á www.propeller-island.com. Alls staðar er hægt að gera sér pening úr frjóu hugmyndaflugi.

Mikilvægar borgarmiðjur

Ferðir

Ég hef lengi verið meðtekinn af hugtakinu borgarmiðja. Það er sá punktur, þaðan sem eru stytztar leiðir til markverðra skoðunarstaða, veitingahúsa og hótela. Erlendis hef ég notað þetta til að finna miðlægt hótel. Í Reykjavík er borgarmiðjan á Lækjartorgi. Í Kaupmannahöfn er hún á Højbro Plads á Strikinu. Í Osló er hún framan við Grand hótelið á Karl Jóhann. Í Stokkhólmi er hún framan við Óperukjallarann á Torgi Karls tólfta. Í Feneyjum er hún við austurenda Rialto-brúar. Þar er hótelið Rialto, sem ég hef oft notað. Með útsýni úr herbergisglugganum niður á umferðina undir brúna og yfir hana.

Afturför í samgöngum

Ferðir

Ég var einn af mörgum, sem notuðu Iceland Express til Stansted við London. Það var vegna tengiflugs lággjaldafélaga út um alla Evrópu, einkum EasyJet og Ryanair. Fyrir mig er færsla Iceland Express frá Stansted til Gatwick til mikils skaða. Þótt tengiflug sé gott frá Gatwick, er minna um lággjaldaflug þaðan. Ég flaug ekki með Iceland Express til að komast til miðbæjar London, heldur til að komast út í heim. Ef ég þarf að fara til London, er hvort sem er fljótlegast að fljúga með Icelandair til Heathrow. Álit mitt á Kristjáni Möller sukkráðherra minnkaði enn við að sjá hann klippa borða vegna Gatwick.

Allt í heiminum færist

Ferðir

Þegar ég var háskólanemi í Berlín fyrir hálfri öld, var borgarmiðja á horni Kudamm og Joachimstaler Straße. Steinsnar frá Kempinski fínimannshótelinu, Gedächtnis-kirkju og Zoo-brautarstöð. Fyrir hundraðkall átum við baunasúpu á Aschinger með eins mörgum brauðsnúðum og við gátum borið frá deskinum. Nú er borgarmiðjan í gamla austurbænum, þar sem mætast Unter den Linden og Friedrichstraße. Engin stúdentastofa er þar í grennd og verðlag himinhátt. Rétt hjá er fínimannshótelið Adlon (400 evrur) og fínimanns-veitingastofan Fischers Fritz (100 evrur á mann). Allt í heiminum færist í rúmi og verði.

Fótapláss á vefnum

Ferðir

Hafið þið skoðað seatguru.com? Þar eru sýnd kort af sætaskipan í flugvélum margra flugfélaga, þar á meðal Icelandair. Góð sæti með fótaplássi eru merkt græn og rauð með vondu fótaplássi. Í Boeing 757-300 vélum Icelandair eru flest sæti hvít, sem þýðir meðallag. Vond eru öftustu sæti framan við eldhús eða salerni, þeim er ekki hægt að halla aftur. Góð eru sæti við aftanverðan öryggisútgang, þar er fótapláss. Hliðstæðar upplýsingar eru ekki á þessum vef um Boeing 737-700 vélar Iceland Express. Mín reynsla er sú, að fótapláss sé þar heldur skárra en hjá Icelandair, en samt ekki forsvaranlegt.

Verðlauna góðan mat ódýran

Ferðir

Michelin leiðsögubókunum um matarhús hefur farið fram. Þær eru ekki eins franskar og áður. Flest stjörnuhús bókanna í Evrópu hafa að vísu franska matreiðslu. En japanska bókin gefur japanskri matreiðslu fleiri stjörnur en franskri. Bækurnar eru því orðnar alþjóðlegi. Svo er óþarfi að taka trú á stjörnugjöfina. Bækurnar eru til fleiri hluta nytsamlegar. Um nokkurt skeið hafa matarhús fengið kokkahúfur (Bib Gourmand) í einkunn fyrir fínan mat þríréttaðan á 2000 krónur eða minna. Þeir, sem ekki eru fyrir nýklassíska myndlistareldhúsið (Bocuse) fá því ábendingar við sitt hæfi. Og mitt hæfi.

París er það heillin

Ferðir

Ef þú hefur ekki komið til London, tekur þig viku að kynnast miðborginni og því, sem hún hefur að bjóða. Í mannlífi, verzlunum, menningu, minjum. Sama er að segja um Manhattan og Rómarborg. Amsterdam og Kaupmannahöfn taka tæpa viku, svona fjóra daga. Ein heimsborg sker sig úr. Það er París. Þú ert að minnsta kosti þrjár vikur að kynnast henni eins vel og þú kynnist öðrum heimsborgum á viku. Miðborgin í París er órastórt svæði, tíu kílómetrar á kant. Gefðu þér góðan tíma, ef þú vilt kynnast mestu heimsborg heims, mestu mannlífsborginni, mestu verzlunarborginni, mestu menningarborginni.

Fiskur í hafnarborg

Ferðir

Matreiðsla í Feneyjum er vanmetin. Borgin er ekki í pastalandi Suður-Ítalíu, heldur í hrísgrjónalandi Norður-Ítalíu. Fyrst og fremst eru Feneyjar samt sjósóknarborg. Sjávarfang er alfa og ómega matreiðsluhefða borgarinnar. Eins og allt annað í borginni er þetta dýr vara. Dýrust er hún á Markúsartorgi og í nágrenni þess. Betra er að fara inn í íbúðahverfin til að fá góðan mat á léttu verði. Fiskmarkaðurinn rétt við Rialto brúna er frægur að verðleikum. Prófaðu að borða á Da Fiori, Osteria di Santa Maria, Fiascetteria Toscana og Osteria Vecio Fritolin. Þar borða heimamenn og þar er fiskurinn frábær.

Marco Polo var ekki þar

Ferðir

Rolf Potts ferðast um heiminn fyrir minna en tíu dali á dag. Hefur skrifað um það bækurnar Vagabonding og Marco Polo Didn’t Go There. Hann telur sig kynnast fjarlægum slóðum betur með því að gista á ódýrum stöðum og borða það, sem götusalar bjóða. Hann er eins konar Jack Kerouac nútímans. Getur kannski bent Íslendingum á, hvernig hægt er að ferðast fyrir lítinn pening í kreppunni. Í grein í Guardian lýsir hann, hvernig hann kynntist sekkjapípu-tónlist í Havana á Kúbu. Potts segist ferðast ódýrar en hann lifir heima hjá sér. Kannski lausn fyrir Íslendinga, sem ná ekki lengur endum saman.

Gallerí, leikhús, kirkja

Ferðir

Kostar 20.000 á mann að borða á El Bulli, frægasta veitingahúsi heims, við landamæri Spánar og Frakklands. Ferran Adriá kokkar 40 rétta matseðil, sem er fremur listaverk en matur. Fæst er eins og það sýnist. Olífuolía lítur út eins og járnvír, svínafita eins og risavaxin græn baun. Sósa með humri er græn, búin til úr grænu tei. Ostrur líta út eins og laufblað. Þjónar eru fleiri en gestir, segja þér, hvernig á að snæða hvern rétt. Þetta er blanda af galleríi, leikhúsi og kirkju. Þarna hefur myndlistar-árátta matargerðar nútímans náð fullkominni úrkynjun. Pantaðu borð með tveggja ára fyrirvara.

Sex og dey síðan

Ferðir

Nú erum við hætt að ferðast til útlanda. Það er í boði Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar. Því er rétt að nefna nokkur erlend furðuverk, sem þið misstuð af á ferðafylleríi ykkar. Fyrst ber að nefna grímuballið í Feneyjum 14.-22. febrúar, upprunalega grímuballið. Næst á listanum er grátmúrinn í Jersúsalem. Það þriðja er kvikmyndahátíðin í Cannes 13.-24. maí. Fjórða eru píramídarnir í Giza við Cairo. Fimmta undur veraldar er grafhýsið Taj Mahal í nágrenni Nýju Delhi. Sjötta undrið er óperuballið í Vínarborg 19. febrúar. Ef þú átt afgangs evrur eftir útrásina skaltu sjá þetta og deyja síðan.

Lestir skáka flugvélum

Ferðir

Flugferðir eru vaxandi skelfing. Eilífar biðraðir og eftirlit, þröng seta og ekkert súrefni. Það er eins og þú sért á leið til Auswitch. Enda eru gamlar járnbrautarlestir að lifna að nýju. Dónárlestin fer í miklum lúxus frá Þýzkalandi um nítján borgir til Tyrklands. Austurlandahraðlestin fer frá London til Feneyja. Bláa lestin fer frá Höfðaborg til Pretoríu. Gullni stríðsvagninn fer frá Bangalore til Goa á einni viku. Síberíuhraðlestin fer frá Moskvu til Peking á tveimur vikum. Ég held, að meira vit sé í að prófa einhverja slíka ferð. Í stað þess að láta misþyrma sér í flugferðum.

Snargalinn borgarstjóri

Ferðir

Borgarstjóri Feneyja hyggst fjármagna viðgerð Markúsartorgs með risavöxnum auglýsingaskjám. Napóleon kallaði torgið “fegurstu stofu heims”. Það hefur staðið nánast óbreytt í 900 ár. Borgin er fjárhagslega með allt niður um sig. Massimo Cacciari hyggst fjármagna viðgerðir með því að rústa þessu heimsundri. Hann telur sig þurfa fimm 250 fermetra risaskjái á torginu sjálfu. Alls 1250 fermetra. Hann er snargalinn. Viðgerða er þörf. En alls staðar er viðgerða þörf. Án þess að menn kasti barninu út með baðvatninu. Betra er að selja ferðamönnum aðgang að Feneyjum fyrir 100 evrur á mann.

Farið ekki til Barcelona

Ferðir

Barcelona er þyngsta borg ferðamanna í Evrópu. Þjófar vaða uppi, meira eða minna í skjóli borgaryfirvalda. Peter Preston, útgáfustjóri Guardian og Observer, segir í dag frá að hafa þrisvar lent í klóm þeirra. Í eitt skipti tók hann þátt í að ýta bíl og var rændur á meðan. Í annað skiptið sprakk dekk á bíl hans af mannavöldum. Hann var rændur meðan hann sinnti dekkinu. Þetta minnti mig á, þegar ég kom fyrst til Barcelona með kvittum um að hafa borgað inn á hótelgistingu. Hótelið tók ekkert mark á því, setti mig á götuna, en hirti samt innágreiðsluna. Í Barcelona stela háir sem lágir.

München er bezt

Ferðir

Bezti flugvöllur Evrópu er Strauss í München að mati World Airport Awards. Þar á ofan er München bezta ferðamannaborg Evrópu. Næstir flugvalla koma Zürich, Amsterdam og Barajas í Madrid. Íslenzku flugfélögin ættu að fljúga til þessara valla fremur en annarra. Allra sízt ættu þau að fljúga til Heathrow, sem að mati WAA er versti flugvöllur Evrópu. Nógir aðrir eru við London, til dæmis Stansted, sem Iceland Express notar. Við hlið Heathrow á botninum eru Gaulle í París, Fiumicino í Róm og Frankfurt. WAA segir enga góða flugvelli í Bandaríkjunum, þar er litið á flugfarþega sem terrorista.