Fjölmiðlun

Framtíðin er komin

Fjölmiðlun

Blaðamennska hefur margar hliðar. Ég kenni þær flestar á nokkrum námskeiðum á http://www.jonas.is. Þar er námskeið í TEXTASTÍL, leiðsögn úr textaþoku akademískra fræða. Einnig námskeið í NÝMIÐLUN, sem sýnir, hvernig þú getur af litlum efnum skapað vinnu og tekjur í margmiðlun, nýmiðlun og vefmiðlun. Ennfremur er þar námskeið í MIÐLUNARTÆKNI, sem sýnir hvernig þú getur fyrir lítið fé komið þér upp tækjum og hugbúnaði til blaðamennsku, fyrir allt frá stríðsfréttaritara til þúsundþjalasmiðs í krummaskuði. Námskeiðin felast í myndskeiðum, skyggnum og texta, svo og daglegum samskiptum við leiðbeinanda.

Framleiða sýndarveruleika

Fjölmiðlun

Trúgirni og undirgefni eru helztu gallar fréttaveitna og fjölmiðla af því tagi, sem kallast stórblöð. Láta annars vegar her og leyniþjónustu segja sér, hvað séu fréttir. Láta hins vegar banka og peningamenn segja sér, hvað sé hagfræði. Samt eru hvorir tveggja hagsmunaaðilar. Her og leyniþjónusta belgjast út á að framleiða ótta við ímyndaða óvini. Bankar og peningamenn belgjast út á að selja eftirlitsleysi af hálfu ríkisins. Mikið af fréttum er því af sýndarveruleika, ekki af raunveruleika. Eftirlitsleysið framkallar bankahrun. Óttinn við ímyndaða óvini framkallar persónunjósnir og stríð.

Glæst fjölmiðlafæri

Fjölmiðlun

Blaðamennska býður þeim margvísleg tækifæri, sem áhuga hafa á fjölmiðlun á miklu breytingaskeiði. Að vísu sæta hefðbundnir fjölmiðlar vandræðum vegna breytinganna, en nýir koma í staðinn. Höfum eignast ýmis nýyrði, margmiðlun, nýmiðlun, vefmiðlun. Kostnaður við nýja fjölmiðla hefur hrunið. Tæki og hugbúnaður kosta brot af því, sem var fyrir fáum árum. Menn geta komið upp búnaði, sem um aldamótin var bara á færi voldugra kvikmyndavera. Við slíkar aðstæður verður mikið rót í faginu. Þeir, sem kunna á nútímann, hafa glæst tækifæri. Námskeið mín í fjölmiðlum kenna þér rétta lagið. Sjá hér til hægri.

Þá hló ég upphátt

Fjölmiðlun

Ritstjórar norrænu blaðanna víttu forsætisráðherra Bretlands í gær. Sögðu David Cameron hafa hrifsað Bretland úr forustusveit vestræns lýðræðis. Það gerði hann með handtöku David Miranda á Heathrow-flugvelli um daginn. Kvarta yfir misnotkun hryðjuverkalaga. Undir víturnar skrifa ritstjórar Politiken, Dagens Nyheter, Aftenposten og Helsingin Sanomat. Þetta voru Bo Lidegård, Peter Wolodarski, Hilde Haugsgjerd og Riikka Venäläinen. Ekkert íslenzkt dagblað var í hinum fríða hópi, enginn íslenzkur ritstjóri. Hér er nefnilega ekki til alvöru dagblað. Ég hugsaði um Moggann og Davíð og hló upphátt.

Skúraðir fjölmiðlar

Fjölmiðlun

Fæstir taka mark á hefðbundnum fjölmiðlum og þeim fækkar ört. Stafar einkum af, að þeir hafa lengi ekki nennt að skúra hjá sér. Eigendur fjölmiðla þurfa að lýsa yfir, að fjölmiðlarnir starfi í þágu borgaranna. Ráði forstjóra, sem skilja það. Setji skýrar verklagsreglur á ritstjórn og birti þær. Lýsi yfir, að ritstjórar ráði fréttum afskiptalaust. Blaðamönnum verði kennd siðfræði fjölmiðlunar. Ráðinn verði umboðsmaður lesenda á ritstjórnir. Nafnlaus tröll verði bönnuð í athugasemdum á vefsíðum sem annars staðar. Fyrsta skrefið til að endurreisa traust fjölmiðla er að hreinsa til og skúra síðan reglulega.

Hamfarir dagblaða

Fjölmiðlun

Dagblöð hafa á skömmum tíma sætt fjölbreyttum hamförum. Ég man vel, þegar götusala blaða fór að bila víða um heim. Þá skellti DV sér yfir í áskrift að hornsteini og náði að bjarga sér. Síðan komu fríblöðin, sem voru ekki lesendadrifin, heldur dreifingardrifin. Þá versnaði staða áskriftarblaða. Tók þátt í stofnun Fréttablaðsins. Það hefur lengi gengið vel fjárhagslega, meðan áskriftarblöðin hafa verið rekin með tapi. Nú sækir veraldarvefurinn gegn útgáfu, sem áður var á flótta úr götusölu um áskrift yfir í fríblöð. Ögrun dagblaða stafar frá veraldarvefnum, sem hefur klófest fréttaflutning.

Rennireið í Kjarnanum

Fjölmiðlun

Fékk nýja blaðið, Kjarnann , í fartölvuna í morgun. Reyndist erfitt að fletta pdf formi þess. Síðurnar löguðust ekki að skjánum. Flettingin var óþægileg. Virðist vera gert fyrir snjallsíma eða spjaldtölvur. Skrunlínan kom af stað rennireið um síðurnar, sem erfitt var að hemja. Vafalaust geta lagnari menn en ég umgengist blaðið á notendavænni hátt. Náði þó glefsum úr innihaldinu, sem virtist vera fróðlegt. Mér hefði gagnast betur að fá blaðið í textaformi fremur en í pdf. Nokkrum sinnum áður en ég gafst upp á skruninu, hugsaði ég: Bezt að kíkja á þetta efni síðar, þegar ég get fengið lánaðan prentara.

Fáfróðu fréttabörnin

Fjölmiðlun

Þegar ég fór úr skóla í blaðamennsku fyrir hálfri öld, vorum við fullorðin. Kunnum stafsetningu, Y og Z, setningafræði og þekktum rætur orða. Kunnum hugtakafræði, þekktum mun á lýðveldi og lýðræði, sálgreiningu og sálfræði, barokk og rókokkó, belgísku og frönsku Kongó. Höfðum lært landafræði og sagnfræði. Lengi hefur fátt slíkt verið í boði í menntakerfinu. Uppeldi felst í að hossa börnum, segja þau vera topp tilverunnar. Þróar sjálfstraust fáfróðra barna, sem telja sig sigra heiminn með millilendingu á ritstjórn. Eru núllin, er við köllum fréttabörn. Þeim fjölgar smám saman á ritstjórnum.

Óvæntur óhroði

Fjölmiðlun, Punktar

“Ríkisútvarpið gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi með aðhaldi og hlutlægri umfjöllun um íslenskt samfélag.” Svo sagði Framsókn í febrúar á flokksþingi sínu, fyrir hálfu ári. Eftir kosningar umhverfðist flokkurinn. Fyrstu merki þess var fésbókarsíða, sem Frosti Sigurjónsson stofnaði. Þar hefur síðan verið birtur stanzlaus óþverri um Ríkisútvarpið. Svo kom Vigdís Hauksdóttir með harkalegar ásakanir í garð þess. Sigmundur Davíð hefur látið sér þessa kúvendingu vel líka. Neitaði beinlínis að setja ofan í við órólegu deildina. Hvað segja flokksþingsmenn um óvæntan óhroða Frosta og Vigdísar?

Líkjast óvinum sínum

Fjölmiðlun, Punktar

Þegar David Miranda var tekinn fastur í millilendingu á Heathrow, var hann ekkert spurður um hryðjuverk. Heldur um samband hans við blaðamann Guardian, Glenn Greenwald, sem skrifaði um Edward Snowden. Um Guardian og um efni þess um njósnastofnun Bandaríkjanna NSA. Að vera tengdur blaðamanni telst semsagt vera hryðjuverk í vænisjúku Bretlandi. Raunar starfa flestir terroristar hjá stjórnvöldum þessara tveggja ríkja, sem líkjast óvinum sínum meira með viku hverri. Svo vel hefur til tekizt hjá al Kaída, að ríkisstjórnir Bretlands og Bandaríkjanna hafa gengið af göflunum. Vladimír Pútín hlær auðvitað í Kreml.

350 fyrirlestrar – 8 námskeið

Fjölmiðlun

Á einkanámskeiðum mínum á vefnum í fjölmiðlun kenni ég blaðamennsku sem handverk, ekki sem fjölmiðlafræði. Næsti bær við að vinna á fjölmiðli. Kenni verkin í fréttamennsku, rannsóknablaðamennsku, svo og margs konar nýmiðlun. Fjalla um frábæran og ódýran tæknibúnað og hugbúnað, sem blaðamenn þurfa að geta notað. Kennsluna ég á eigin langri reynslu og á kennslubókum, sem rekja reynslu erlendra ritstjóra. 350 fyrirlestrar á 8 námskeiðum, sem þú getur tekið hvenær og hvar sem þú vilt. Dagleg samskipti við kennarann. Aðgangur þinn að fjölmiðlun eins og hún verður næsta áratug. Líttu á www.jonas.is

Bara forn frægð

Fjölmiðlun

Gullöld Washington Post var 1972-1974. Þá var Katharine Graham útgefandi og Benjamin Bradlee ritstjóri. Blaðamennirnir Bob Woodward og Carl Bernstein sýndu ótrúlega þrautseigju við að rannsaka Watergate, sem hratt Richard Nixon úr embætti. Jafnvel New York Times hvarf í skugga Washington Post. Svo hvarf þetta lið smám saman af vettvangi og lakara fólk úr Graham-ættinni tók við stjórn. Á löngum tíma hrakaði blaðinu og hefur nú lengi siglt lygnan sjó pólitísks rétttrúnaðar. Amazon-kóngurinn Jeff Bezos hefur keypt blaðið og gerir það tæpast hversdagslegra. En gleymum ekki, að Amazon er skattsvikari.

Varúð veraldarvefur

Fjölmiðlun

Umræða á netinu er arftaki umræðu á kaffihúsi. Menn tala frítt, eins og þeir gera á kaffihúsi eða í mötuneyti. Sumpart hefur netið slípazt, fésbók og blogg eru til dæmis undir nafni. Bloggið var áður fullt af skít, en nú er það orðið fremur stillt. Eins er um fésbókina, þar sem safnast fyrir umræða, sem er léttvægari en blogg. Eigendur fésbóka átta sig hins vegar sumir ekki á ábyrgð sinni á ummælum annarra. Þeir þurfa að ritskoða veggi sína eins og bloggarar gera. Annars lenda þeir í vanda hefðbundinna fjölmiðla. Þeir hafa litla sem enga stjórn á athugasemdum við fréttir og munu lenda í málaferlum.

 

Fjölmiðlar og fámiðlar

Fjölmiðlun

Hefðbundnir fjölmiðlar lifa í auknum mæli í firrtum heimi. Frumkvæði í rökum er komið í hendur fámiðla á veraldarvefnum. Hefðbundnir fjölmiðlar flögguðu kosningaloforðum og settu upp reikningsdæmi um, hvar hver tegund kjósenda ætti heima. Fámiðlarnir á vefnum tættu þessa hugmyndafræði í sig, sýndu fram á algilda reynslu af markleysi loforða. Eftir kosningar ræddu hefðbundnir fjölmiðlar um stjórnarsáttmálann sem umræðuhæft plagg. Fámiðlarnir á vefnum bentu hins vegar á, að sáttmálinn væri einkum froða og steypa. Rúmlega hálf þjóðin trúir firrtum fjölmiðlum og tæpur helmingur sér gegnum lýðskrumið.

Siðblinda þyrlar ryki

Fjölmiðlun

Litlu skiptir, þótt pólitískir plebbar rugli saman fréttamennsku, álitsgjöf og almannatengslum. Brynjar Níelsson og Frosti Sigurjónsson eru ómarktækir. Verra er, þegar menn rugla sinni eigin starfsstöðu. Þetta er svo sem ekki nýtt. Ég man eftir nýliða í fréttum, sem taldi sig geta tekið raðviðtöl við vini sína. En þetta hefur stórversnað, Fréttablaðið lýgur að minnsta kosti vikulega á hálfsíðu, að sjónvarpskokkur á Ínn sé einn bezti kokkur landsins. Þetta er siðblindan, sem hefur á breiðri víglínu haldið innreið sína. Menn ramba milli frétta, álits og almannatengsla eins og það sé sami grauturinn.