Fjölmiðlun

Skilgreining á fréttabarni

Fjölmiðlun

Rangt er að kalla blaðamenn á þrítugsaldri fréttabörn. Það er slagorð, sem við notum nokkrir gamlingjar um vanda í þessum hópi, ekki um aldursflokkinn allan. Orðið fréttabarn táknar mann, sem misst hefur af landafræði og sögu. Sem hefur tæpa menntun í bókmenntum og erlendum tungumálum. Sem hefur fylgst minna með stjórnmálum og alþjóðamálum en tíðkaðist í þá gömlu, góðu daga. Sumpart afleiðing breyttra skóla og innreiðar nýrra áhugamála. Við bætist skortur á prófarkalestri. Útkoman er röng málfræði, vondur stíll, misþyrming máltækja og vanþekking á fréttasögu. Samanlagður vandinn heitir fréttabarn.

Hrunið fjölmiðlatraust

Fjölmiðlun

Til skamms tíma treysti ég nokkrum erlendum fjölmiðlum, einkum bandarískum og brezkum. Í Bandaríkjunum hefur nám í fjölmiðlun áratugum saman verið það bezta í heimi. Og ég hef notað bandarískar kennslubækur, þegar ég hef haft tækifæri til að kenna fjölmiðlun. Síðustu ár hefur þetta traust verið að dofna og nú er það hrunið. Margoft hefur komið í ljós, að New York Times er málpípa stjórnvalda og auðhringja. Guardian hagar sér undarlega, einkum í tengslum við Wikileaks. Washington Post er orðið sveitablað og Los Angeles Times er svipur hjá sjón. Nú þarf að leita frétta í tísti og fésbók.

Fjölmiðlarnir malaðir

Fjölmiðlun

Helztu bloggarar og fésbókarar hafa lestur, sem jafnast á við fjölmiðil. Og þetta er lesinn texti, sem menn sækja, en ekki skoðun, sem flett er yfir. Séu tíu helztu bloggarar og tíu helztu fésbókarar taldir saman er þar komin öflug sveit. Öflugri en sumir hefðbundnir fjölmiðlar, öflugri en til dæmis Mogginn. Þegar ofsaríkir hagsmunaaðilar ná tökum á fjölmiðlum, er því enginn harmur kveðinn að okkur. Vægi fjölmiðlanna minnkar bara við að segja okkur falskar eða engar fréttir. Við sjáum réttar í bloggi og fésbók. Líklega er  pólitískt vægi Láru Hönnu Einarsdóttur einnar svipað og alls Morgunblaðsins.

Pírati kennir þeim

Fjölmiðlun

Gamalreyndur blaðamaður var óvænt kosinn í útvarpsráð á vegum Pírata. Pétur Gunnarsson var í gamla daga fréttastjóri Moggans og fleiri blaða og kann til verka. Vonandi getur hann leiðbeint félögum sínum í ráðinu. Og leitt þá frá hugmyndum um að auka pólitísk afskipti af beztu fréttastofu landsins. Björg Eva Erlendsdóttir hefur einnig nokkra reynslu. Ég þekki lítið til annarra fulltrúa ráðsins og efast um, að þeir hafi þekkingu á málefninu. Efast til dæmis um, að fangelsisstjóri eigi heima þarna eða aflóga þingmenn Framsóknar og Sjálfstæðis. En svona er Ísland í dag. Og meira að segja í boði kjósenda.

Umræðan er andsnúin

Fjölmiðlun

Til að umræða hefjist um mál þarf að vera framboð skoðana, sem fela í sér rök eða dæmi. Ef rök eða dæmi vantar, er skoðunin bara neyðaróp, sem segir fátt. Svo sem: SDG er frábær. SDG er meðetta. Og svo framvegis. Betra er að koma með tvö-þrjú rök eða tvö-þrjú dæmi, sem hægt er að ræða. Þannig er umræða á kaffihúsi og þannig er hún oftast líka á fésbók. Þar má sjá, að umræðan er afar andsnúin nýjum stjórnarmeirihluta og stuðningsmenn sýna litlar varnir. Bloggið og fésbókin eru að vísu ekki þjóðin, ekki frekar en búsáhaldabyltingin var. En flytja straum skoðana, sem smám saman síast inn.

Hver mat þörfina?

Fjölmiðlun

“Óeirðalögregla í Rio de Janeiro þurfti að beita gúmmíkúlum á mótmælendur utan við Maracana-leikvanginn.” Þetta segir Mogginn á vefnum. “Þurfti” segir blaðið. Hvernig veit blaðið það? Vitað er, að lögreglan beitti þeim, en hitt þarfnast útskýringar. Hver segir, að löggan hafi þurft að beita gúmmíkúlum? Segir löggan það sjálf? Hún segir það alltaf. Sé hún heimildin, þarf að taka það fram. Mogginn getur ekki tekið ábyrgð á heimildinni, verður að nefna hana. Þetta er lítið dæmi um lélega fréttamennsku, kannski fyrirboði þess, að Mogginn segi um lögguna hér, að hún “hafi þurft” að beita rafbyssum.

Siðblinda fréttabarna

Fjölmiðlun

Fjölmiðlar freistast til að fækka hálaunuðu fólki, sem kann til verka. Ráða í staðinn svonefnd fréttabörn á lágu kaupi. Þetta lítur vel út í excel, en endar illa í raunheimi. Við sjáum afleiðingarnar, sem Eiður Guðnason bloggar um. Allt frá bommertum í stafsetningu yfir í skort á kunnáttu í landafræði, sagnfræði og annarri þekkingu. Með slíkum sparnaði lækka fjölmiðlar staðal sinn. Efla vanþekkingu og leyfa innreið siðblindu. Dæmi um það er auglýsing Andra Freys Viðarssonar á hamborgurum. Með sama áframhaldi verður fjölmiðlun að skrípó fréttabarna, markaðsbarna, dagskrárbarna og einkum siðblindingja.

Lárur Hönnur Einarsdætur

Fjölmiðlun

Væru hér fjölmiðlar í alvörunni mundu Lárur Hönnur Einarsdætur vera á hverri ritstjórn. Þær mundu klippa saman myndskeið og textaskeið, sem sýna, hvernig pólitíkusar verða margsaga og ganga um síljúgandi. Ég hef nefnt mörg dæmi um slíkt, en hefðbundnir fjölmiðlar láta þetta að mestu leyti vera. Pólitíkusar á borð við Ólaf Ragnar Grímsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson væru hlegnir út af borðinu alls staðar á Vesturlöndum. Hér komast menn upp með alls konar rugl, því að fjölmiðlar kryfja ekki. Síðan ganga pólitíkusar á lagið eins og enginn sé morgundagurinn. Þetta er ein af orsökum lýðræðisbrests á Íslandi.

Hatur Hæstaréttar

Fjölmiðlun

DV hefur kært úrskurð Hæstaréttar í meiðyrðamáli Jóns Snorra Snorrasonar lektors. Var dæmdur fyrir skilasvik. Þegar mál hans var í rannsókn, sagði Hæstiréttur, að það væri í “skoðun” en ekki í “rannsókn”. Dómarar bjuggu til skilgreiningu til að fá útrás fyrir hatur sitt á fjölmiðlum. Í auknum mæli kæra fjölmiðlar úrskurðina til Mannréttindadómstólsins og hafa þar jafnan sigur. Samt heldur Hæstiréttur áfram ruglinu, því að honum er líka illa við útlendinga. Hafnar erlendum málsgögnum, en leyfir innlend. Brenglað er hatur Hæstaréttar á fjölmiðlum, á útlendingum og einnig á konum, sem sæta nauðgun.

Bylting í fjölmiðlun

Fjölmiðlun

Ljósmyndurum Chicago Sun-Times hefur verið sagt upp og blaðamönnum afhentir iPhone snjallsímar í staðinn. Þetta er merki um byltingu, snjallsímar ryðja sér til rúms, einkum þeir, sem hafa átta megapixla gæði. Dugir fyrir þorra blaðaljósmynda. Á námskeiði mínu á www.jonas.is um miðlunartækni er rækilega fjallað um þessa og aðrar slíkar tæknibyltingar. Samanlagt snúa þær öllu gamalgrónu á hvolf. Hér eftir dugar ekki að mennta sig með hliðsjón af fjölmiðlun horfinna áratuga. Framvegis verður að mennta sig með hliðsjón af næstu tæknibyltingu. Námskeið mitt í miðlunartækni gefur sýn í þá byltingu.

Lausn á einbeitingarvanda

Fjölmiðlun

Mig skortir EINBEITINGU. Þegar ég sæki fyrirlestur, dettur athyglin ítrekað úr sambandi. Því hef ég búið fyrirlestra mína og námskeið í blaðamennsku á allt annan hátt. Efnið er á myndskeiðum, svo að þú getur notað þau, þegar þér hentar og þú ert í stuði, hvar sem þú ert. Þú getur horft á myndskeiðin, hlustað á þau, lesið textann á skjánum eða á meðfylgjandi skjali. Þú getur svissað fram og aftur milli skilningarvita til að hvíla þig eða notað fleiri en eitt skilningarvit í senn. Námskeiðin eru á heimaslóðinni www.jonas.is. Þau eiga að minnka skort á kennslu í sjálfu handverki blaðamennskunnar.

Ný og hagnýt blaðamennska

Fjölmiðlun

Blaðamennska hefur margar hliðar. Ég kenni þær flestar á nokkrum námskeiðum á veraldarvefnum. Þar er námskeið í TEXTASTÍL, sem er brýn lexía út úr þoku akademískra fræða. Einnig námskeið í NÝMIÐLUN, sem sýnir, hvernig þú getur af litlum efnum skapað vinnu og tekjur í margmiðlun, nýmiðlun og vefmiðlun. Ennfremur er þar námskeið í MIÐLUNARTÆKNI, sem sýnir hvernig þú getur fyrir lítið fé komið þér upp tækjum og hugbúnaði til blaðamennsku, fyrir allt frá stríðsfréttaritara til þúsundþjalasmiðar í krummaskuði. Námskeiðin felast í myndskeiðum, skyggnum og texta, svo og daglegum samskiptum við leiðbeinanda.

Blaðamennska er handverk

Fjölmiðlun

Áratugina, sem ég var ritstjóri, pirraðist ég stundum af að þurfa að kenna nýjum blaðamönnum. Byrja alltaf á núlli. Engin kennslustofnun útskrifaði blaðamenn. Fjölmiðlafræðingar gagnast fjölmiðlum takmarkað. Blaðamennska er einkum handverk, ekki akademísk grein. Nýliðar læra af þeim, sem reynsluna hafa, og af kennslubókum, byggðum á reynslu. Fræðingar byrja í mínus, því að þeir kunna verri íslenzku en sjómenn og bændur. Með fullri virðingu fyrir  fjölmiðlafræði sem grein af félagsfræði er hún ekki blaðamennska. Sú atvinna byggist á sífellt flóknara handverki með aukinni tækni og auknum hugbúnaði.

Glæsileg tækifæri

Fjölmiðlun

Blaðamennska býður þeim margvísleg tækifæri, sem áhuga hafa á fjölmiðlun á miklu breytingaskeiði. Að vísu sæta hefðbundnir fjölmiðlar vandræðum vegna breytinganna, en nýir koma í staðinn. Höfum eignast ýmis nýyrði, margmiðlun, nýmiðlun, vefmiðlun. Kostnaður við slíka nýja fjölmiðla hefur hríðlækkað að undanförnu. Tæki og hugbúnaður kosta bara brot af því, sem var fyrir fáum árum. Einstaklingar geta komið sér upp búnaði, sem um aldamótin var bara á færi voldugra kvikmyndavera. Við slíkar aðstæður verður mikið rót, störf hverfa og önnur koma. Þeir, sem kunna á nútímann, hafa glæsileg tækifæri.

Áhugaverðir óvissutímar

Fjölmiðlun

Óvissutímar eru runnir upp í fjölmiðlun. Hefðbundnir fjölmiðlar hafa glatað tekjum og áhrifum. Unga fólkið les hvorki dagblöð né horfir á sjónvarp. Í staðinn hafa komið nýir og óreyndir fjölmiðlar, sem enn hafa hvorki fundið sér fjárhagsgrunn né valdastöðu. Hliðvarzla fjölmiðlunga er rofin og kaos amatöra er komin í staðinn. Hefðbundnir fjölmiðlar eru hættir að geta sagt fólki, hvað það á að vilja eða velja. Hvorki bloggið né fésbókin hafa getað hlaupið í skarðið. Úr þessari kaos mun rísa ný fjölmiðlun, sem enn hefur ekki fundið sér farveg. Áhugaverðir tímar eru í uppsiglingu í fjölmiðlun.