Fjölmiðlun

Bloggið og fésbókin

Fjölmiðlun

Auðvelt er að fylgjast með fréttum og bloggi á vefnum. Tekur enga stund. En samdráttur í bloggi veldur mér áhyggjum. Að vísu hefur fækkunin orðið mest hjá þeim, sem ekkert hafa að segja, en hinum hefur líka fækkað. Þvaðrið, sem áður var í bloggi, hefur að mestu færst yfir á fésbók. Þar er magnið orðið svo mikið, að ég er löngu hættur að geta fylgt því eftir. Ég veit hreinlega ekki, hvað þeir segja, sem hafa eitthvað að segja. Mér skilst, að ég geti samið lista yfir þá, sem ég þarf að lesa. En tel mér trú um, að ég hafi ekki tíma til þess. Þetta er ekkert gamanmál, þegar ég kem ólesinn á kaffihúsið.

Þjóð þagnarinnar

Fjölmiðlun

Um allan hinn vestræna heim eru fjölmiðlar komnir í bólakaf í uppljóstranir um skattsvik fyrirmenna og þýfi þeirra í skattaskjólum. Alls staðar eru stjórnvöld hlaupandi upp til handa og fóta að koma höndum yfir þýfið. Nema á Íslandi. Hér gerir skattrannsóknastjóri ekkert. Hér birta fjölmiðlar ekkert úr gögnum ICIJ, Alþjóðasambands rannsóknablaðamanna. Þeir spyrja ekki einu sinni skattrannsóknastjóra, hvort hann muni taka við sér. Hér ríkir bara þögnin. Og pressa er heldur engin frá almenningi. Blogg og fésbók eru næsta þögul um mesta skúbb aldarinnar, sönnunargögn um skattsvik yfirstéttarinnar.

Spyrlarnir fatta fátt

Fjölmiðlun

Í viðtali við útvarpið í gær sagði Sigmundur Davíð forsætis, að lítið væri að marka 400-500 tölvupósta, sem allir væru eins orðaðir. Það væri bara eins og einn póstur. Spyrillinn fattaði ekki að spyrja dólginn, hvort ekki gilti þá hið sama um undirskriftir vegna IceSave, þar sem textinn var alls staðar eins. Fjölmiðlar láta bófa komast upp með rugl. Bjarni Ben efnahags flaggar fagmennsku fyrri Rammaáætlunar um verndun og virkjanir. Spyrlar fatta ekki að spyrja, hverjir hafi verið fagmennirnir. Þeir voru nefnilega forstjórar í ráðuneytum og opinberum stofnunum, en alls ekki vísindamenn fyrir fimm aura.

Þriðja heims rottuhola

Fjölmiðlun

Í stórblöðunum birtast listar yfir mestu þjófa heimsins, sem eiga stórfé í skattaskjólum. 2,5 milljón skráningar listans ná yfir skattsvikara allra landa, þar á meðal Íslands. Skattaeftirlit flestra Vesturlanda hefur tekið upp þráðinn. Fjölmiðlar eða Skattrannsóknastjóri þurfa að taka upp samband við ICIJ, alþjóðasamband rannsóknablaðamanna, til að kanna okkar anga, finna nöfnin. Lítil áhugi virðist vera hér, enda fjölmiðlar í eigu skattsvikara og ríkið í eigu bófa. Og skattrannsóknastjóri virðist vera skelfingu lostinn. Ísland er og verður áfram þriðja heims rottuhola. Í boði kjósenda.

Að poppa upp fjölmiðil

Fjölmiðlun

Alexander Hjort í framhaldsþættinum Borgen er dæmigerður fyrir markaðshyggju á kostnað ritstjórnar. Spennan milli hans og Torben Friis fréttastjóra er menúett, sem víða er stiginn á ritstjórnum. Í þættinum snerist það um, hvort Hjort mætti poppa upp umræðuþátt flokksformanna í sjónvarpi. Frægasta dæmið um dansinn var Mark Willes, sem varð útgáfustjóri Los Angeles Times. Hugðist auka söluna um hálfa milljón kaupenda með markaðshyggju. En tapaði hálfri milljón kaupenda. Siðleysið rústaði þessu áður fræga dagblaði. Sumt í Borgen snýst óbeint um spennu raunverulegs valdatafls og það eykur gildi þáttanna.

Fyndið puð kjósenda

Fjölmiðlun

Fyndnast í kosningabaráttunni var áhugi fólks og fjölmiðla á stefnu flokka. Fólk, sem tók sig alvarlega, safnaði gögnum um loforð flokka og bar saman. Fjölmiðlar ýttu undir með hugvitsamlegum aðferðum við að samkeyra loforð flokka og væntingar kjósenda. Glæsilegir voru langir listar spurninga, sem áttu að skera úr um, hvar í flokki fólk ætti heima. Samt var allt þetta puð marklaust og tilgangslaust og allir máttu vita það, sem vita vildu. Aldrei er neitt samband milli orða og gerða. Loforð flokka eru einskis virði. Áhugi fólks og fjölmiðla á loforðum eru merki um alkunna pólitíska þjóðarheimsku.

Góður alþýðustíll

Fjölmiðlun

Mér sýnist ekki á bloggi og fésbók, að íslenzka sé á undanhaldi. Þekki þó ekki athugasemdir við blogg, því að ég les ekki nafnlaus skrif. En bloggið sjálft og umræða á fésbók eru nánast með réttri málfræði og stafsetningu. Meira máli skiptir þó, að setningafræði og stíll á þessum skrifum er líka í góðu lagi. Íslenzkur alþýðustíll er kjarnyrtur eins og hann hefur ævinlega verið. Undinn stíll háskólaritgerða endurspeglast ekki í umræðu almennings á veraldarvefnum, sem betur fer. Góð regla er þó, að lesa ekki blogg, sem fer yfir 200 orð. Þeim, sem lengra skrifa, er hætt við þoku og þvoglu í hugsun.

Má satt kyrrt liggja?

Fjölmiðlun

Á fésbók er góð regla að segja ekkert, sem ekki er hægt að segja á kaffihúsi eða í fermingarboði. Hins vegar þýðir það ekki, að einkum skuli satt kyrrt liggja. Ég get sagt, að Jón sé vitleysingur, en ég verð að rökstyðja málið. Annars væri það bara upphrópun út í loftið, lýsing á reiði minni. En flytji ég rök að vitleysu Jóns, fylgi ég bara þeirri reglu, að eigi megi satt kyrrt liggja. Því miður hneigjast margir Íslendingar að óhóflegri kurteisi. Þótt þeir búi í samfélagi, sem kallar iðulega á sterk orð. Einfaldlega af því, að margt fer hér úrskeiðis. Til dæmis haga kjósendur sér eins og fáráðlingar.

Að segja eða sýna fréttir

Fjölmiðlun

Í gamla daga SÖGÐU fréttamenn sannar sögur. Þegar sjónvarpið kom, fóru þeir að SÝNA sannar sögur. Þáttaskil voru sögð hafa verið í fyrra Persaflóastríði Bandaríkjanna. Fréttir CNN voru taldar sanna yfirburði þess að sýna fréttir í stað þess að segja þær. Var rugl, stríð CNN fólst í talandi hausum í garði Hilton í Rijad í Sádi-Arabíu. Við lásum svo löngu síðar í bókum, að þetta var sýndarstríð, CNN hafði sýnt skjámyndir úr tölvuleikjum. Svo kom vefurinn og menn fóru aftur að segja fréttir, fremur en að sýna þær. Sjónvarpið hafði komið og farið sem fréttamiðill, enda er það fyrst og fremst skemmtimiðill.

Konur og margmiðlun

Fjölmiðlun

Með breyttri fjölmiðlun eflist margvíð hugsun á kostnað tvívíðrar. Prentað mál er fullt af mósaíki með stuttum klausum, sem lesa má í hvaða röð sem er. Veraldarvefurinn er allur meira eða minna í krækjum, sem beina fólki í alls konar áttir. Þar á ofan er hann gagnvirkur, ekki línulaga eins og sjónvarp. Miðaldra karlmenn, sem stjórna fjölmiðlum, hugsa oft línulaga eins og margir karlmenn gera. Margar konur eru hins vegar næmari fyrir fjölmiðlun í mósaíki og hliðarskrefum. Of lítið er um slíka hugsun í fjölmiðlum, þar á meðal í valdastöðum. Fleiri konur þar mundu færa fjölmiðla nær margmiðlun nútímans.

Auglýst eftir sannreynslu

Fjölmiðlun

Sannreynslu er lítið beitt í blaðamennsku hér á landi og í minnkandi mæli. Skýrast kemur þetta fram í viðtölum við stjórnmálamenn og hagsmunaaðila. Þeir fá að tjá sig og flytja þvætting, án þess að blaðamenn bendi á augljósa annmarka í málflutningi. Blaðamenn þurfa að kunna heimavinnuna sína, þegar þeir lenda í klóm þjálfaðra lygara. Að öðrum kosti verða þeir að leita til fróðra manna. Sem geta bent þeim á, hvar og hvernig á að spyrja til botns. Í bandarískum blaðamannaskólum er sannreynsla ein fyrsta starfsreglan. Hér virðist hún hins vegar hafa lent ofan garðs og neðan hjá ungum blaðamönnum.

Samkeyrt á kennitölum

Fjölmiðlun

Í Bandaríkjunum felst öflugasti þáttur rannsókna blaðamanna í að samkeyra gagnabanka á kennitölum. Hér er bannað að samkeyra gagnabanka á kennitölum. Lög um persónuvernd banna það. Í Bandaríkjunum er gegnsæi frá gamalli tíð talið vera góð vörn gegn glæpum. Hér styðja lög um Persónuvernd hins vegar glæpi. Í Bandaríkjunum eru fjölmiðlar beintengdir við opinbera gagnabanka á netinu. Í anddyri ríkisstofnana eru tölvur, þar sem fólk getur skoðað gagnabanka stofnunarinnar. Við erum svo sannarlega ljósárum á eftir öðrum í upplýsingaskyldu og gegnsæi. Fjögurra ára vinstri stjórn breytti þar engu.

Meistari Hemingway

Fjölmiðlun

Meistari Hemingway sagði eitt sinn: “Steffens, sjáðu þetta skeyti, engin fita, engin atviksorð, engin lýsingarorð, ekkert nema blóð og bein og vöðvar. Þetta er nýtt tungumál.” Úrvals höfundur eins og Graham Greene og George Orwell. Eini íslenzki höfundurinn á þessu plani var Halldór Kiljan Laxness. Flestir höfundar nútímans eru alltof mælskir, froðan vellur út úr þeim. Útgefendur bóka skortir ritstjóra til að skera bókafroðuna niður um helming. Tími 800 síðna er liðinn. Nú miðast textaeining við þau 140 slög, sem komast fyrir í einu tísti á Twitter eða á einni skjámynd í vefsíma.

Trúgjarnir fjölmiðlar

Fjölmiðlun

Því miður er það sérkenni fjölmiðla, að þeir láta valdamenn ljúga að sér. Ekki bara einu sinni, heldur hvað eftir annað. Jafnvel blöð á borð við New York Times trúðu bandarískum stjórnvöldum um gereyðingarvopn í þriðja heims ríkjum, Íran og Írak. Hefðu blöðin þó átt að vita af fyrri reynslu, að slíkt er hefðbundinn aðdragandi styrjaldar. Lygin um atómvopn í Írak var notuð til að draga á asnaeyrunum vígfúsa landsfeður á borð við Davíð og Halldór. Úr þessu varð hörmulegt stríð. Lygin er vestrænum foringjum eðlislæg. Eftir stríðið í Kosovo kom í ljós, að Nató hafði logið margfalt meira en Serbar.

Ríki og kirkja dagblaða

Fjölmiðlun

Robert McCormick, sögufrægur eigandi Chicago Tribune, bannaði, að blaðamenn og auglýsingafólk blaðsins notaði sömu lyftuna í blaðhúsinu. Vildi ekki, að það hittist. Henry Luce, ekki minna sögufrægur eigandi Time, fyrirskipaði aðskilnað þess, er hann kallaði ríki og kirkju. Ríkið var fjármáladeild Time og kirkjan var ritstjórn Time. Þannig voru víða reistir virkisveggir milli ritstjórna blaða og peningadeilda á síðustu öld. Á gróðafíkinni nýrri öld braut nýr eigandi Los Angeles Times niður múrinn. Seldi langtímatraust þess fyrir meintan skammtímagróða. Blaðið hrundi í hvelli. Fólkið finnur þefinn.