Fjölmiðlun

Okkur vantar kannanir

Fjölmiðlun, Punktar

Nú fer senn að verða áhugavert að sjá skoðanakannanir. Við erum að byrja að sjá, hvernig framboð skipast og getum farið að taka afstöðu. Við þurfum að sjá, hvaða ný framboð valda fjórflokknum mestum usla. Við þurfum á slíkum usla að halda, því að bófar fjórflokksins ganga fram af fólki. Ég vænti, að þeim fjölgi ört, sem sjá sorglegar pólitískar staðreyndir. Þegar ég tala um kannanir, á ég ekki við atkvæðagreiðslur á vefnum, sem hafa ekkert gildi. Við þurfum gamaldags kannanir, sem forðast kúnstir á borð við að þráspyrja um stuðning við einn flokk. Góðar kannanir auðvelda fólki að taka afstöðu.

Jón Ásgeir og 365

Fjölmiðlun

Hnignun hefðbundinna fjölmiðla á Vesturlöndum hófst, þegar viðskiptakeðjur fóru að kaupa þá af eigendum, sem ekki höfðu annarra hagsmuna að gæta. Nýir eigendur virtu ekki gömul lögmál um aðskilnað ritstjórna og markaðsdeilda. Með skelfilegum afleiðingum fyrir hefðarblöð á borð við Los Angeles Times. Í sumum tilvikum komust fjölmiðlar í eigu aðila á gráu svæði í viðskiptum, svo sem Robert Maxwell, Rupert Murdock og Conrad Black. Jón Ásgeir Jóhannesson í 365 er óneitanlega á gráu svæði, sætir rannsókn saksóknara. Óheppilegt er, að slíkir eigi öflugar fjölmiðlakeðjur. Það kann ekki góðri lukku að stýra.

Þjónusta við framboð

Fjölmiðlun

Ríkisútvarpið á málefnalega bágt í samskiptum sínum við Alþingi. Það lifir að mestu á nefskatti, sem Alþingi gæti hæglega skipt upp. Til dæmis á þann hátt, að tiltekin upphæð færi í þjónustu við framboðslista. Betra er fyrir Ríkisútvarpið að taka frumkvæðið og sýna tillögu um staðlaða þjónustu við framboðslista. Og þá eins við alla framboðslista. Slíkt frumkvæði dregur úr kröfu um lögbundna þjónustu. RÚV hefur staðið sig illa í tengslum við ýmsar kosningar. Skemmst er að minnast kosninganna til stjórnlagaráðs. Tregða þess núna leiddi nærri til laga um að það léti eftir hluta af dagskrárvaldi sínu.

 

Fyrirlestrar verða samtal

Fjölmiðlun

Þetta eru erfiðir tímar í hefðbundinni fjölmiðlun, hér á landi sem annars staðar á Vesturlöndum. Prentmiðlar og ljósvakamiðlar tapa notendum og ekki síður auglýsingum. Notkunina bæta þeir sér upp á veraldarvefnum, en geta ekki nýtt sér það í tekjum. Auglýsingatekjurnar þar aukast að vísu hratt, en eru þó sáralitlar í samanburði við auglýsingatapið á heimaslóðum. Gallinn við vefinn er, að fjárhagsgrundvöllur hans finnst ekki. Blogg, fésbók og tíst hafa tekið upp slakann. Fjölmiðlun almennings er orðin borgaralegt afl, sem skekur fjölmiðlana. Í stað fyrirlestra fjölmiðla er komið samtal fólks.

Síbylja rifrildis

Fjölmiðlun

Rifrildi í sjónvarpi er eitthvert ódýrasta efni, sem hægt er að hugsa sér. Þrasarar taka auðvitað ekkert fyrir að fá tækifæri til útrásar. Hér á landi og erlendis eru sjónvarpsstöðvar, sem eru bara röð af álitsgjöfum. Á Ínn eru þeir allir á sama máli á hægri jaðri, en á öðrum stöðvum er rifrildið til siðs. Hvergi er friður fyrir síbyljunni, jafnvel Silfur Egils flytur okkur reglubundið rifrildi. Eins konar álitsgjafaútvarp í sjónvarpsformi. Alþingi er markað þeim tón. Sérstaða þess felst þó einkum í, að flutt er síbylja um fundarstjórn. Og í málþófi um að tala þurfi um mál án þess að tala um þau.

Gegnsæi þar – leyndó hér

Fjölmiðlun

Öll ríki Bandaríkjanna hafa sólskinslög, sem skylda opinbera aðila að láta gögn sín liggja frammi. Séu gagnabankar til, er skylt að veita fjölmiðlum aðgang. Margar stofnanir hafa öll skjöl á vefnum. Munur sólskinslaganna og íslenskra upplýsingalaga er ferlegur. Bandarískir fjölmiðlar fá aðgang að gagnabönkum, ýmist á DVD-diskum eða með beinlínutengingu. Þar má nota hvers konar leit og tengja gagnabanka með kennitölum. Óskum um aðgang er svarað í hvelli. Í gegnsæi eru Bandaríkin ljósárum á undan Íslandi. Hjá Persónuvernd hins gerspillta Íslands er passað upp á, að bófarnir fái frið fyrir gegnsæi.

Út yfir gröf og dauða

Fjölmiðlun

Upphaflega náði höfundavernd til fjórtán ára. Sá tími hefur hvað eftir annað verið lengdur og nær núna í Bandaríkjunum til ævi höfundar plús 70 ár eða í 95 ár, þegar fyrirtæki er orðinn rétthafi. Út í hött og afleitt fyrir aðgang almennings að klassískum bókmenntum og fræðum. Þar að auki eru auðhringir útgáfuréttar farnir að banna tilvitnanir án sérstaks leyfis rétthafa. Gegn þessu er teflt fram tillögum um “fair use” og “creative commons” til að efla vísindi og auka gegnsæi. Auðhringir eru andvígir öllu slíku, enda stjórnað af miklum gróðafíklum, þeim sem lifa á einkarétti út yfir gröf og dauða.

Baráttan um spunann

Fjölmiðlun, Punktar

Ört eykst tækni blekkingafólks við að hafa fólk að fífli. Á félagsmiðlum svokölluðum sjáum við meira um auglýsingar og kynningar. Alls staðar læðist inn áróður. Spuni hefur í áratug verið mikið notaður í pólitík vestanhafs. Hópur bloggara, tístara og fésbókara tekur sig saman um að setja flökkusögur á flot og blása í segl þeirra. Aðrir eru seinir að átta sig og bera spunann til baka. Mikilvægt er í aðdraganda næstu alþingiskosninga, að bloggarar, tístarar og fésbókarar séu vakandi fyrir meinsemdum slíks spuna. Taki sig saman um að stöðva hann með réttum upplýsingum í tæka tíð. Fyrir lýðræðið.

Einokun geysist fram

Fjölmiðlun

Allt breiðband, allur ljósleiðari og allt þráðleysi á að vera á vegum hins opinbera eins og allt kerfi vega, hafna og flugvalla. Allt eru það innviðir samgangna. Erlendis ásælast auðhringir hraðbrautir veraldarvefsins til að stofna læsta garða. Þar hefur efni einokara forgang fram yfir frjálst efni. Breyta líka aldagamalli bókahefð, þar sem menn eiga sín eintök, lána þau, leigja og selja sem þeim þóknast. Í tónlist og kvikmyndum vilja auðhringir víkja frá hefðinni og banna mönnum að eiga sín keyptu eintök, lána, leigja og selja. Á vefnum geysist fram einokun. Því þurfum við ríkisrekna innviði.

Ögmundur spillir frelsinu

Fjölmiðlun, Punktar

Frelsi veraldarvefsins er eitt allra mikilvægasta grein upplýsingafrelsis. Frjálst internet styrkir almenning og þjóðir heims til frelsis. En voldug öfl, einkum harðstjórar þriðja heimsins og Bandaríkjastjórn, reyna að koma böndum á allt frelsi. Ögmundur Kínafari er í þessum flokki, sem vinnur gegn hagsmunum og réttindum almennings. Ekki í fyrsta skipti sem Ögmundur fiktar í málum, sem hann skilur ekki og ræður ekki við. Það eitt kemur úr krafsi hans, að Ísland missir af nethýsingu stofnana, sem flýja Bandaríkin. Síðan veltur Stóri bróðir út úr ráðuneytinu og við getum varpað öndinni léttar.

Ping pong blaðamennska

Fjölmiðlun

Til að losna undan skyldum sínum við að staðfesta fréttir kalla fjölmiðlar í svonefnda sérfræðinga. Þykjast góðir, ef þeir stilla upp tveim álitsgjöfum með andstæð sjónarmið. Og við erum auðvitað engu nær. Vitum fyrirfram um þorrann af þessum meintu sérfræðingum, að þeir eru ævinlega fylgjandi eða ævinlega andvígir ríkisstjórninni. Við þurfum engin sérfræðiálit hænsna. Þurfum miklu frekar álit þeirra fáu, sem ekki fylgja neinni pólitískri línu út fyrir yztu nöf. Færið okkur álit slíkra fræðinga, sem hafa eitthvað að segja okkur. Þá yrðu fjölmiðlar okkur gagnlegri og líf okkar einfaldara.

Gleypir hráan spuna

Fjölmiðlun

Ríkisútvarpið sagði okkur í morgun: “Lögreglumenn þurftu að beita táragasi” í Kaíró. Hver sagði útvarpinu, að þess hefði þurft? Veit útvarpið, hvort táragas var brýnt? Auðvitað er það matsatriði, sem ríkisútvarpið getur ekki fullyrt. Hér hefði verið rétt að segja, að lögreglan hafi “talið sig þurfa” að beita táragasi. Þannig verður lögreglan að heimild, sem ber alla ábyrgð á fullyrðingunni. En útvarpið sem óhlutdrægur aðili getur ekki gert hana að sinni. Íslenzkir fjölmiðlar láta yfirleitt undir höfuð leggjast að forðast mat á aðstæðum, sem þeir þekkja ekki. Gleypa því spuna hráan úr verksmiðjum.

Vanstilltir fundarmenn

Fjölmiðlun

Í erlendum iðnskólum í blaðamennsku er kennt að leita staðfestinga. Ekki sé nóg að birta tvö sjónarmið, hvað þá eitt. Blaðamaðurinn eigi að finna það rétta. Ágætis tækifæri féll í greipar íslenzkra blaðamanna, er borgarstjóri hélt borgarafund í Grafarvogi. Fjölmiðlar sögðu frá, að Gnarr kvartaði yfir orðbragði og einelti á fundinum. Einn fjölmiðill sagði þó, að nafngreindum fundarmanni hefði þótt svör Gnarrs lítil og léleg. Hvað á ég að halda? Las svo síðdegis í dag frétt á vef útvarpsins, þar sem óháður aðili úr öðrum bæ sagði nokkra fundarmenn hafa verið vanstillta á fundinum. Málið leyst, takk.

Nýja miðaldaþorpið

Fjölmiðlun

Ísland minnir á miðaldaþorpið. Með réttu og röngu njóta fjölmiðlar lítils trausts. Lítið samkomulag er um stöðu mála. Hver getur haldið því fram, sem honum þóknast. Lygi hefur sama rétt og sannleikur. Þú strikar yfir hamfarir í sögunni á borð við hrunið. Og fjöldi manns vill trúa þér. Þegar birt var kórrétt frétt um perra á Ísafirði, fór samfélagið á hvolf. Af því að útkoman stríddi gegn óskhyggju þjóðarinnar. Í gang fór hystería fjöldans, rétt eins og stundum í miðaldaþorpinu. Minnir á æðið gegn Evrópu. Ljóst er, að jafnan kynda þeir undir, sem vilja áfram hafa sitt séríslenzka gerræði í friði.

Hæstiréttur floppar

Fjölmiðlun

Lögreglan hefur ákært Jón Snorra Snorrason lektor í tengslum við gjaldþrot Sigurplasts. Samt eru bara liðin jólin síðan Hæstiréttur ómerkti þau orð DV, að Jón Snorri væri til rannsóknar út af þessu. Dæmdi DV til að greiða honum meira en milljón króna bætur. Hæstiréttur kvað þarna upp ranglátan dóm, sem stríðir gegn réttlæti og skynsemi. Auðvitað mun hann hanga á lagatæknilegu roði eins og aðrir lagatækni-hundar. En ekki eflir þetta virðingu skrílsins fyrir réttlæti í þessu guðsvolaða landi. Hæstiréttur skeit í bólið í þessu máli. Í stíl við aðra meiðyrðadóma réttarins að mati evrópskra yfirdómstóla.