Fjölmiðlun

Stigatöfluna vantar

Fjölmiðlun

Væru fjölmiðlar ekki dofnir, væri komin upp stigatafla um brennda milljarða í himnaríki peninganna. Efstir væru auðvitað þeir víkingar, sem þegar hafa sturtað fyrirtækjum í gjaldþrot eða afskriftir banka. Síðan koma valinkunnir stjórnmálamenn. Efst trónir þar Bjarni Benediktsson með 4.314.866.156 króna gjaldþrot BNT. Síðan kemur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir með 1.933.000.000 króna kúlugjaldþrot eiginmannsins. Síðan kemur Tryggvi Þór Herbertsson með 800.000.000 króna afskrifað raðgjaldþrot gervifyrirtækja. Síðar bætast aðrir landsfrægir heiðursmenn við skrána. Ein þjóð, einn Flokkur, stétt með stétt.

Á eftir samtíðinni

Fjölmiðlun

Fjölmiðlarnir hafa glatað hliðvörzlunni. Þeir stjórna ekki lengur flutningi frétta. Þegi þeir, þá tala bloggið, fésbókin og tístið. Hefur bæði kosti og galla. Kostirnir felast í meiri upplýsingum almennings. Gallarnir felast í meiri ónákvæmni. Ritskoðunarnefnd Katrínar Jakobsdóttur og Öryggisstofnunar Evrópu vill setja fjölmiðlum strangari skorður í aðdraganda kosninga. Sú þöggun gerir þátt fjölmiðla enn dapurri og upplýsingar enn ónákvæmari. Komi ekki skoðanakannanir í fjölmiðlum, birtast bara í fámiðlunum enn ótraustari kannanir. Að venju eru þöggun og ritskoðun of langt á eftir sinni samtíð.

 

Fer heimsins dýrð

Fjölmiðlun

Þjóðin hefur fallizt á sannleikann í máli Ísafjarðarperrans sjö árum eftir atburðinn. Kastljósi má þakka, að þjóðin stendur andspænis fortíðinni og sér ljósið. Lítið fer núna fyrir mörgum, sem tóku þátt í að magna skrílinn gegn sannleikanum um barnaníð. Í stuðningi við orðstír perrans lögðu ýmsir hönd á plóginn, en lengst gengu þrír þáverandi alþingismenn. Össur Skarphéðinsson ráðherra, Hjálmar Jónsson prestur og Hjálmar Árnason, reddari á Keili. Séu upplýsingar til og þær ekki birtar, þá fyrst eru menn farnir að leika guð. Og þingmennirnir þrír spiluðu guð fyrir sjö árum. Þannig fer heimsins dýrð.

Tölvutækni blaðamanna

Fjölmiðlun

Stöð 2 birti um daginn undarlega frétt um, að einn héraðsdómari legði greifa útrásar í einelti. Sakfelldi þá ævinlega. Fréttamaðurinn nennti samt ekki að keyra dómstólagögn í tölvuforriti; mundi hafa tekið of langan tíma. Páll Hilmarsson á  gogn.in  tók af honum ómakið, keyrði 4689 dóma á nokkrum dögum. Notaði forritin Scraperwiki, Open Refin, PyBossa og Crowdcrafting. Dómarinn reyndist sakfella litlu oftar en aðrir. Hjá öðrum dómara komu hins vegar í ljós sérstæðir sýknudómar. Æfing Páls sýnir, að tölvuklárir blaðamenn geta beitt forritum til að birta alvörufréttir í stað þess að þjónusta eigendur.

Óskúrað hjá fjölmiðlum

Fjölmiðlun

Fæstir taka mark á hefðbundnum fjölmiðlum og þeim fækkar ört. Stafar einkum af, að þeir hafa lengi ekki nennt að skúra hjá sér. Eigendur fjölmiðla þurfa að lýsa yfir, að fjölmiðlarnir starfi í þágu borgaranna. Ráði forstjóra, sem skilja það. Setji skýrar verklagsreglur á ritstjórn og birti þær. Lýsi yfir, að ritstjórar ráði fréttum afskiptalaust. Blaðamönnum verði kennd siðfræði fjölmiðlunar. Ráðinn verði umboðsmaður lesenda á ritstjórnir. Nafnlaus tröll verði bönnuð í athugasemdum á vefsíðum sem annars staðar. Fyrsta skrefið til að endurreisa traust fjölmiðla er að hreinsa til og skúra síðan reglulega.

Amazon sparkar þér

Fjölmiðlun

Vefbókasalinn Amazon er staðinn að því að þurrka fyrirvaralaust út vefbækur á tölvum viðskiptamanna án þess að gefa skýringu. Sjá Guardian í dag. Minnir á, að í smáa letrinu frá Amazon segir, að viðskiptamenn kaupi ekki bækurnar, heldur hafi þær aðeins á leigu meðan Amazon þóknast. Einnig, að Amazon hafi heimild til að haga sér eins og skepna gagnvart viðskiptamanni. Minnir á, að setja þarf lög gegn græðgi vefbókasala. Evrópusambandið er eini aðilinn, sem hefur styrk og siðferði til að bregða skildi fyrir almenning í máli þessu. Þangað ber okkur að sækja skjól eins og í allri annarri vernd lítilmagnans.

Bófarnir á jaðarinn

Fjölmiðlun

Eindreginn meirihluti með tillögum að nýrri stjórnarskrá er eindregið tap Sjálfstæðisflokksins. Bjarni Benediktsson hvatti flokksfólkið til að hafna stjórnarskránni. Herhvöt hans fékk bara 17% fylgi. Bófaflokkurinn er orðinn að jaðarstofnun í samfélaginu. Sömuleiðis fjölmiðlarnir, sem reyndu að veita þjóðaratkvæðinu sem minnsta athygli. Birtu til dæmis enga skoðanakönnun um fylgið, þótt vani sé að birta margar í aðdraganda kosninga. Ríkisútvarpið er í hópi taparanna. Sérhagsmunaöfl og fjölmiðlar töpuðu kosningunum. Þjóðin reis upp og mun fá að greiða atkvæði um endanlega stjórnarskrá næsta vor.

Engin könnun enn

Fjölmiðlun

Skrítið er, að engin könnun um væntanleg úrslit kosninganna skuli hafa verið birt. Komið er fram í síðustu viku fyrir kjördag, bara þrír dagar eftir til kosninga. Mér finnst þetta nánast grunsamlegt, þótt ég vilji forðast að vera vænisjúkur. Fjölmiðlar hljóta að sjá sér hag í að skúbba með skoðanakönnun. Eru þeir að leyna einhverju fyrir okkur af ásettu ráði? Eða er einhver að segja þeim að vera ekki að tromma upp áhuga á kosningunni? Ef ekki birtist neitt um könnun síðar í dag, er eitthvað alvarlegt athugavert við fjölmiðla okkar. Þjóðin á rétt á að vita, hvernig landið liggur í kosningabaráttunni.

Meira skrípó

Fjölmiðlun

Enn eitt ruglið kom frá héraðsdómi. Ragnar Árnason fékk Þór Saari þingmann dæmdan fyrir meiðyrði. Málsefni var helzt, að Ragnar situr í embætti, sem kostað er af kvótagreifum. Svo vill til, að hann hefur líka nákvæmlega sömu skoðun á kvótamálum og greifarnir. En það er bara tilviljun, eftir því sem hann segir. Hann er einnig stjórnarformaður Hagfræðistofnunar Háskólans, sem hefur vakið athygli fyrir undarlegar álitsgerðir í þágu bófa. Umsvif hans eru dæmi um, hvers vegna háskólinn verður seint meðal hundrað beztu háskóla í heimi. Ekki bætir úr skák, þegar kennararnir fara í skrípó í héraðsdómi.

Saumað að íslenzku

Fjölmiðlun

Hingað til hélt ég, að íslenzk tunga væri á sæmilegu róli í nútímanum. Vel hefði tekizt að búa til orð um hafsjó tæknilegra og vísindalegra hugtaka. Stéttarfélög verkfræðinga og tæknimanna hefðu treyst stöðu tungumálsins á þeim sviðum. Líka væri íslenzka á fjölþjóðlegum tölvustöðlum og talgervlum. Nú berast fréttir af fjölþjóðlegri könnun, sem virðist hafa leitt í ljós, að staðan sé mun lakari. Íslenzka sé eitt af tuttugu tungumálum í Evrópu, sem eigi á hættu að missa af lestinni. Ekkert er íslenzku þó eins hættulegt og greinilegt áhugaleysi ungra fjölmiðlunga á tungumálinu sem atvinnutæki sínu.

Sigurbraut fréttabarna

Fjölmiðlun

Þegar ég fór úr skóla í blaðamennsku, vorum við fullorðin. Kunnum íslenzku, þar á meðal stafsetningu, kunnum Y og Z, kunnum setningafræði, þekktum rætur orða. Kunnum hugtakafræði, þekktum mun á lýðveldi og lýðræði, sálgreiningu og sálfræði, barokk og rókokkó, Juno og Heru, belgísku og frönsku Kongó. Við höfðum lært landafræði og sagnfræði. Lengi hefur ekkert slíkt verið í boði í menntakerfinu. Og uppeldi snýst um að hossa börnum og segja þau vera toppinn á tilverunni. Þróar unglinga, sem telja sig sigra heiminn með millilendingu í blaðamennsku. Þau eru núllin, er við köllum fréttabörn. Milli hláturkasta.

Skiljanlegt sjórán

Fjölmiðlun

Réttindi eigenda hugverka eru komin út yfir allan þjófabálk. Gróðafyrirtæki hafa keypt upp slík réttindi og reka harðan áróður fyrir framlengingu þeirra langt út yfir gröf og dauða. Slíkur var ekki upphaflegur tilgangur laga um höfundarétt. Höfundaréttur á bara að gilda í tvo áratugi frá fyrstu útgáfu hugverka. Erlend og íslenzk lög, sem ganga lengra, eru bara ólög, sett undir þrýstingi hagsmunaaðila. Eðlilegt er, að fólk leiti leiða til að forðast ólögin. Því hafa Hróar hettir fundið leiðir til að dreifa hugverkum ókeypis framhjá handhöfum höfundaréttar. Það er sjórán nútímans, skiljanlegt sjórán.

Leiga en ekki kaup

Fjölmiðlun

Þegar þú kaupir rafbók, ertu ekki að kaupa. Skilmálarnir eru slíkir, að það er leiga, ekki kaup. Þú færð afnotarétt meðan bókin er í tölvunni þinni og meðan hún bilar ekki. Þurfir þú að skipta um tölvu eða færa þig milli tölva, verður málið flóknara. Stundum tekst að millifæra bækurnar, stundum ekki. Gömlu pappírsbækurnar geturðu þó flutt með þér milli heimila. Þú getur líka arfleitt börnin að pappírsbókum þínum, en alls ekki að rafbókum. Skilmálar rafbókasala segja, að kaupin renni út við andlát þitt. Rafbókasala er bara bókaleiga með misjöfnum endingartíma og á að verðleggjast ódýrt sem slík.

Má kosta 2500 krónur

Fjölmiðlun

Hef ekki keypt íslenzka sögu í þrjá mánuði. Keypti á sama tíma 78 erlendar sögur, allt rafbækur, flestar hjá Amazon. Svo margar hef ég aldrei keypt á svo stuttum tíma. Finnst þolandi að borga 15 dollara fyrir rafbók að vaski meðtöldum, 1800 krónur. Tími ekki að borga tvöfalda upphæðina fyrir íslenzka sögu, enda fáar þess virði. Fylltist grunsemdum, þegar helzti útgefandinn kvartaði um kostnað við umbrot rafbóka. Í raun er hann núll krónur. Rafbók kostar ekki umbrot, ekki pappír, ekki prentun, ekki dreifingu. Þegar íslenzk rafsaga er komin niður í 2500 krónur, get ég hugsað mér að kaupa, fyrr ekki.

Hatrið á Agli

Fjölmiðlun

Fáir Íslendingar sæta eins linnulausum árásum vefmiðla á vegum umboðsfólks glæframanna og Egill Helgason. Skoðanir hans fara rosalega í taugar þeirra, sem lifa og hrærast í siðblindu. Egill er svipaður og flestir, sem ég hef kynnst erlendis í stétt álitsgjafa í fjölmiðlum. Eins og þeir reynir hann að vinna vinnuna sína eins heiðarlega og hann getur. Slíkir standa lóðréttir, þótt hvessi kringum þá. Þetta skilja ekki þeir, sem telja hægt að kaupa eða leigja alla til að þjóna undir sig. Því láta þeir pólitíska undirsáta sína á vefmiðlum ausa skömmunum yfir Egil. Sem tekur þessu öllu með stóískri ró.