Fjölmiðlun

Google kann íslenzku

Fjölmiðlun

Kerfisfræðingarnir Jón Guðnason og Trausti Kristjánsson hafa afrekað að láta leitarvél Google skilja íslenzkt tal. Nú geta menn talað við internetið í síma og spurt Google spurninga án þess að nota ensku. Þetta hjálpar okkur við að varðveita íslenzku í tæknilegri framtíð. Ekkert er sjálfgefið í þeim efnum. Á sínum tíma var unnið annað afrek, þegar íslenzkum bókstöfum var komið inn í rómanska stafasettið. Það tryggði stöðu íslenzks ritmáls og nú hefur annað eins verið gert í talmáli. Stóru fyrirtækin, sem leiða þróunina, hafa engan áhuga á íslenzku. Til þess þarf framtak gáfaðra einstaklinga.

Ávísun á misskilning

Fjölmiðlun

Jón Hákon Halldórsson skrifar undarlega frétt á Visir.is í gær. Þar segir framarlega: “Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fól þremur ráðherrum í gær að hefja stofnun nýju ráðuneytanna. Samkvæmt nýjum forsetaúrskurði er Steingrími J. Sigfússyni […] falið að undirbúa stofnun …” Blaðamaðurinn virðist telja forseta Íslands ákveða ýmis mál og skipa einstökum ráðherrum síðan að framkvæma þau. Í rauninni er forsetinn bara að staðfesta gerðir Alþingis nákvæmlega og án eigin frumkvæðis. Hann fær bunka af skjölum frá Alþingi og skrifar undir þau. Fréttin felur í sér ávísun á misskilning.

Lítið fylgi frambjóðenda

Fjölmiðlun

Enn ein marklítil skoðanakönnun er komin fram. Svarhlutfall í könnun Gallup er bara 59%. Þýðir, að 41% hirtu ekki um að svara tölvupósti. Enginn getur spáð í hugsanir þessa stærsta hópa könnunarinnar. Þar til viðbótar sögðust 16% ekki hafa tekið afstöðu. Samanlagt eru því 57% enn óráðin stærð. Með tilliti til þeirra hafa frambjóðendur mun minna fylgi en fjölmiðlar segja. Ólafur Ragnar hefur ekki nema um 19% fylgi og Þóra ekki nema um 16% fylgi. Ari Trausti hefur 4%, Herdís 2% og önnur framboð eru dauð. Enn er því mikið eftir af slagnum. Enginn hefur tekið þá forustu, að nægi honum til sigurs.

ÓRG 22% – Þóra 19%

Fjölmiðlun

Ólafur Ragnar Grímsson hefur 22% fylgi samkvæmt netkönnun Gallup, en ekki 46%. Þóra Arnórsdóttir hefur 19% fylgi, en ekki 39%. Engin leið er að sjá, að þau 39%, sem ekki skiluðu sér, hugsi eins og þeir, sem hafa ákveðið sig. Þar á ofan er óvíst, að þau 13%, sem tóku ekki afstöðu, muni taka afstöðu í sömu hlutföllum og hinir. Þannig eru 39% plús 13% kjósenda óráðin gáta, það eru alls 52%. Með tilliti til alls þessa eru rauntölur Ólafs Ragnars og Þóru hálfu lægri en fjölmiðlar segja. Og rauntölur allra hinna eru svo lágar, að þær mælast varla. Fullkomin óvissa ríkir því um úrslit forsetakosninganna.

Könnuðir eiga bágt

Fjölmiðlun

Áður fyrr reyndust símakannanir mjög vel hér á landi. Komu vel heim og saman við kosningaúrslit. Allir höfðu heimasíma og svöruðu um kvöldmatarleytið. Fólk setti ekki í símaskrá, að það hafnaði símtölum af þessu tagi. Pólitíska staðan var stöðug og breyttist hægt. Núna er fólk hætt að nota heimasíma og hafnar því að láta könnuði ónáða sig. Pólitísk staða flýtur hratt. Könnuðir hafa sótt yfir í vefkannanir. Þær hafa þann ókost, að hinir spurðu þurfa að sýna frumkvæði í að svara. Slíkt mengi gefur of lágt svarhlutfall. Síminn orðinn úreltur og netið ekki komið í staðinn. Sá er vandi könnuða dagsins.

Byltingin mesta

Fjölmiðlun

WIKIPEDIA er frábær, svipuð að gæðum og Britannica, nákvæm og úreldist ekki eins og alfræðibækur. GOOGLE er frábært, gerir þér kleift að finna allt, sem þú þarft að vita. GOOGLE NEWS er frábært, þar sérðu heimsfréttir ótal miðla á einum stað. Þessi forrit gera þig að fjölfræðingi. TWITTER er frábært, gerir aðgerðasinnum kleift að hafa áhrif á ferli mála á ögurstundu. BLOG er frábært, gerir allan heim að Hyde Park Corner, þar sem sérhver hefur sitt ræðupúlt. FACEBOOK er frábært kaffihús, rýfur órafjarlægðir milli kunningja og vina. Þannig er internetið þegar orðið mesta byltingin í sögu mannkyns.

Fésbókin til góðs

Fjölmiðlun

Undanfarið hef ég lesið nokkra bloggara kvarta yfir fésbókinni. Segja hana samsafn af upphrópunum og ofstæki. Það er ekki rétt. Fésbókin er meira að segja að mörgu leyti skárri en bloggið. Á fésbókinni koma menn oftast fram undir nafni, en í athugasemdum við bloggi er mikið af nafnleysingjum. Þeir eru yfirleitt illskeyttari. Auðvitað birtist fésbókin fólki á misjafnan hátt eftir vinasafni þeirra. En málefnalegir eru flestir, sem fjalla þar um ágreining. Oftast stuttorðir, en stundum með tilvísunum í ýtarefni. Heimur almennings á vefnum hefur raunar Víkkað með fésbókinni, en ekki þrengst.

Of háar tölur

Fjölmiðlun

Ólafur Ragnar Grímsson og Þóra Arnórsdóttir hafa ekki um 45% fylgi hvort um sig, þótt fjölmiðlar segi það. Þau hafa innan við 35% fylgi hvort um sig. Svörun er léleg í könnunum enn sem komið er og margir gefa lítil svör. Þeir, sem þegar hafa ákveðið sig, eru hinir sannfærðu, sem eru annað hvort með eða móti Ólafi. Þóra fær af taktískum ástæðum allt fylgi þeirra, sem hafna Ólafi. Aðrir frambjóðendur komast varla á blað. Þeir, sem ekki hafa ákveðið sig, munu raðast öðru vísi en hinir, sem eru ákveðnir. Kosningabaráttan er ekki hafin og kannanir hafa enn lítið forspárgildi um slag Ólafs og Þóru.

Falstölur um traust

Fjölmiðlun

Könnunarstofan MMR hafði nokkra fjölmiðla að fífli í gær. Sendi frá sér tölur úr gamalli könnun frá febrúar í vetur. Fjölmiðlarnir skrifa svo um hana eins og hún sé ný frétt. Upp úr áramótum var Ólafur Ragnar ekki búinn að bjóða sig fram til forseta. Og Lilja Mósesdóttir var ekki búin að stofna stjórnmálaflokk. Aðstæður voru allt aðrar í samfélaginu en þær eru núna. Fólk, sem ekki veit betur, tengir traust og vantraust pólitíkusa við nýjar fréttir af þeim. Því er mikilvægt að vekja athygli á, að birtingin er bara blekking. Hún styðst ekki við neina fagmennsku könnunarstofu eða fjölmiðla.

Okurverð rafbóka

Fjölmiðlun

Er farinn að lesa rafbækur, þótt þær hafi óvissan endingartíma. Nota hvorki Kindle né iPad. Ferðamakkinn er nógu góður. hefur að auki alvöru lyklaborð. Rek mig á, að verð rafbóka er sama og kiljubóka, þótt pappírs-, lager- og dreifingarkostnaður sé enginn. Það heitir okur á íslenzku. Hins vegar er verðmæti bóka misjafnt. Ég næ í þær bækur eftir le Carré og Graham Greene, sem ég hef ekki áður séð. Læt mig hafa það að kaupa þær á $9, því að ég fæ þær strax. En mér dettur ekki í hug að kaupa fáanlegar og nærtækar bækur á kiljuverði. Til dæmis ekki þær íslenzku rafbækur, sem komnar eru á markað.

Sjálfhverfa í imbakassa

Fjölmiðlun

Andri Freyr er sjálfhverfari sjónvarpsmaður en Gísli Einarsson. Meira í mynd sjálfur. Við sjáum þetta víðar í sjónvarpi. Einu sinni ætlaði ég að fylgjast með erlendum ferðaþáttum Discovery í sjónvarpi. Komst að raun um, að þeir snerust ekki um spennandi staði, heldur um persónu þáttastjóranna. Ég vildi hins vegar sjá merkilega staði. Þá fór Ian Douglas Wright á Globe Trekker um tíma meira í taugarnar á mér en aðrir menn í heiminum. Síðan uppgötvaði ég, að sjálfhverfa er einmitt það, sem imbakassafólkið sækist eftir. Því varð Andri Freyr svona vinsæll. Þess vegna hætti ég að horfa á Discovery Travel.

Þreytt myndmál sjónvarps

Fjölmiðlun

Stend mig stundum að því að hlusta á sjónvarpsfréttir en horfa ekki. Árum saman hef ég dofnað af að horfa á myndir af Seðlabankahúsi, Hæstaréttarhúsi og skilti Fjármálaráðuneytisins. Allar teknar á sama bletti og birtar í sama fréttatíma. Ég veit, hvernig helztu hurðarhúnar valdsins líta út, ekki bara húnninn á Höfða. Talandi hausar eru alls ráðandi. Myndefnið er bara viðbót við útvarp, eins konar skyldurækni vegna birtingar í sjónvarpi. Eins og í gamla daga, þegar CNN flutti fréttir af Persaflóastríðinu í garðinum bak við Hilton í Jeddah í Sádi-Arabíu. Þá missti ég trú á sjónvarpi sem fréttamiðli.

Gamlir og góðir miðlar

Fjölmiðlun

Of snemmt er að skrifa minningargreinar um hefðbundna fjölmiðla. Nýmiðlunin hefur sótt að þeim, en bloggið stenzt þó engan samjöfnuð við fréttir hinna hefðbundnu. Helztu afrek í rannsóknablaðamennsku er enn unnin á gömlu, góðu stöðunum. Og ekki í minna mæli en var fyrir svo sem áratug, þegar þeir höfðu meira umleikis. Gott að rifja þetta upp, þegar líður að árlegum verðlaunum fyrir blaðamennsku. Helzt hefur stíllinn látið á sjá í tímans rás. Útkoman er í auknum mæli birt í stirðum langhundum, sem stundum ná yfir nokkra daga. Væri stíllinn styttri, væri hann skýrari og meira spennandi. Næði athygli.

Áhugalausir eða fáfróðir

Fjölmiðlun

Nánast daglega les ég fréttir, þar sem íslenzkir blaðamenn láta undir höfuð leggjast að gata blöðrur. Pólitíkusar og hagsmunaaðilar fá færi á að blása upp blöðrur, sem kalla á spurningar. En til þess að spyrja, þarf að vita eitthvað. Ýmist eru þessir blaðamenn áhugalausir um fréttina, sem þeir eru að skrifa, eða fylgjast lítið með fréttum. Með þessum vinnubrögðum hafna blaðamenn hefðum stéttarinnar. Brýnasta verkefni þeirra á að vera að hrekja augljósar rangfærslur pólitíkusa og hagsmunaaðila. Annars gagnast fréttir þeirra ekki lesendum. Stuðla raunar bara að aukinni forheimskun þjóðarinnar.

Heiðnaberg frátekið

Fjölmiðlun

“Einhvers staðar verða vondir að vera”, sagði tröllið við Guðmund Arason, þegar hann vígði Drangey. Skildi Heiðnaberg eftir handa tröllunum. Nú hefur Ari Edwald fetað í fótspor hins góða biskups og skilið Heiðnaberg eftir við siðvæðingu Fréttablaðsins. Framvegis verða aukablöð og auglýsingakálfar þess eins konar Heiðnaberg, undanskilið siðvenjum blaðamennsku. Sumpart er gott, að forstjóri 365-miðla marki svigrúm fyrir tröllin, svo að fólk geti forðast þau. Og vont fyrir blaðamennsku, að hálf stéttin starfi í almannatengslum. En Ari fetar þó í fótspor þess góða Arasonar, sem þjóðinni er hugstæðastur.