Fjölmiðlun

Kastljós á Bjöggana

Fjölmiðlun

Kastljósið er með góða spretti í rannsóknablaðamennsku. Nánari upplýsingar um fjárglæfra Bjögganna reynast vera mesti reyfari jólavertíðarinnar. Veldi þeirra byggist á stolnu brugghúsi í Sankti Pétursborg. Fór þaðan um spillta Búlgaríu til Actavis og Landsbankans á Íslandi. En sagan er lengri en þetta. Ævintýralegt er, hvernig feðgarnir sneru forustumönnum Sjálfstæðisflokksins um fingur sér, einkum Geir H. Haarde. Bjöggarnir og Flokkurinn voru tifandi tímasprengja. Makalaust er að sjá, hvernig tengsli stjórnmála og viðskipta gátu framkallað blöðru, sem sprakk framan í þjóðina í októberbyrjun 2008.

Þrugl í héraðsdómara

Fjölmiðlun

Héraðsdómi Reykjavíkur er illa við fjölmiðla. Finnst fráleitt, að blaðamenn rifji upp gamla dóma. Telur líka, að fjölmiðlum beri að láta af skrifum, þegar menn hóta blaðamönnum með málsókn. Þetta kemur fram í dómsorðum Sigrúnar Guðmundsdóttur dómara í máli Margrétar Lilju Guðmundsdóttur gegn Jóni Bjarka Magnússyni blaðamanni. Þótt Hæstiréttur sé slæmur, efast ég um, að hann láti þruglið úr Sigrúnu standa. Fjölmiðlar eiga að hafa fullt frelsi til að rifja upp gömul dómsmál. Og auðvitað að hafa frelsi til að hafna hótunum. Alþingi þarf að taka af skarið og herða á lögum um tjáningarfrelsi.

“Allt annað var í lagi”

Fjölmiðlun

“Athugasemdir Vinnueftirlitsins fáar”, segir Bæjarins besta í fyrirsögn á vefnum. Í fréttinni segir: “Eina athugasemdin, sem Vinnueftirlitið setur út á framkvæmd sprengingarinnar er, að ekki voru notaðar sprengjumottur.” Þær hefðu komið í veg fyrir, að grjót flygi yfir bæinn. “Allt annað var í lagi hjá Ósafli og samkvæmt reglugerðum”, segir Bæjarins besta. Dæmigert fyrir ömurlega blaðamennsku nútímans. Fréttin gengur út á, að næstum allt hafi verið í lagi í Bolungarvík. Samt var látið undir höfuð leggjast að sprengja undir mottum. Og það eitt skiptir máli. Bæjarins besta er undirlægja Ósafls.

Ofurþjóðin hvött til dáða

Fjölmiðlun

Veltist um af hlátri við að horfa á drottningarviðtal Kastljóss við Michael Porter prófessor. Þar fossuðu fram gömlu klisjurnar frá 2007. Porter hvatti til nýtingar tækifæra, sókndirfsku og áhættusækni. Bíðið andartaka, voru þetta ekki einmitt eiginleikar ofurþjóðarinnar árið 2007 ? Voru það ekki þessir meintu eiginleikar útrásarbófanna, sem brenndu 8000 milljarða króna til agna? 8000 milljarða! Viðtalið við Porter sýndi, að sumir blaðamenn geta ekki lært að spyrja spurninga. Með svona spyrjendum og viðmælendum erum við komin á fulla ferð út í næsta ofurhrun. Góða ferð, íslenzkir ofurbjánar.

Skemmdarverkin í Dyrhólaey

Fjölmiðlun

Undarlegar eru fréttir fjölmiðla af skemmdarverkum í Dyrhólaey. Ástæða hlýtur að vera fyrir, að skemmdarvargar rífa daglega niður hlið og skilti. Ríkissjónvarpið nefndi Reyni Ragnarsson, sem tók þátt í skemmdarverkunum og hótar að halda þeim linnulaust áfram. Það birti myndskeið af aðgerðum hans. Sveitarstjórinn í Vík, Ásgeir Magnússon, er líka nefndur. Engin skýring var gefin. Eru fjölmiðlar þó skyldugir að segja fréttir á þann hátt, að notendur skilji. Hugsanlega er um snarbilaða menn að ræða, en oftast býst maður við, að eiginhagsmunir séu að baki. Ég bið um skýringar á eindregnum brotavilja.

Bakpokamaður yfirbugaður

Fjölmiðlun

Fréttir vekja oft fleiri spurningar en þær svara. Vísir segir hóp manna með kirkjuvörðinn í broddi fylkingar hafi “yfirbugað” erlendan mótmælanda í Dómkirkjunni. Fjölmiðillinn hefur eftir Hjálmari Jónssyni presti, að sá hafi verið “með stóran bakpoka, sem hvað sem er gat verið í”. Mig langar til að vita meira um þennan mann. Hvernig útlendingur var þetta, hverju var hann að mótmæla, lét hann ófriðlega, hafði hann hátt, var hann vopnaður? Eða er nóg að vera með stóran bakpoka til að vera vísað úr kirkjunni. Sjálfsagt eru til eðlilegar skýringar á þessu öllu, en fjölmiðillinn gefur okkur þær ekki.

Fréttir mæta afgangi

Fjölmiðlun

Stundum velti ég fyrir mér, hvaða tilgangi þjóni að reka hér ríkisútvarp og ríkissjónvarp á kostnað skattgreiðenda. Einkareknar stöðvar ættu að geta veitt þjónustu á flestum sviðum. Auðvelt er að reka íþróttastöðvar á kostnað notenda. Eina afsökun ríkisrekstrar er að koma öryggisfréttum á framfæri, svo sem veðri, jarðskjálftum og eldgosum. Hugsanlega líka almennum fréttum, ef einkafjölmiðlar eru hagsmunatengdir. En ég skil alls ekki, hvers vegna fréttatímar Ríkisútvarpsins eru látnir víkja fyrir boltaleikjum. Steininn tekur út, þegar fréttir víkja fyrir fótboltaleik milli Danmerkur og Sviss.

Kastljósið batnar

Fjölmiðlun

Þótt unglingar séu of fyrirferðarmiklir á Ríkisútvarpinu, er margt gert þar gott. Kastljósinu hefur farið fram. Fínir voru þættir þess um rítalín og fleiri fíkniefni. Læknar eru of háðir lyfjaframleiðendum til að geta sett fram marktæka gagnrýni. Umræðan um læknadóp er stóra málið í Bandaríkjunum núna. Og tölur um ávísanir sýna greinilega, að ástandið er í skralli hér á landi. Sigmar er betri stjórnandi en forverinn og Jóhannes er góð viðbót við teymið, þrautreyndur rannsóknablaðamaður. Sú tegund blaðamennsku hefur því miður verið á undanhaldi, þótt við þurfum hana meira en nokkru sinni fyrr.

Glæpsamleg kranafrétt

Fjölmiðlun

“Glæpsamlegt að loka Ekron”, segir ríkisútvarpið á vefnum í kvöld. Fréttin snýst um, hversu ógeðslegt sé, að ríkið framlengi ekki samning við Ekron um meðferð vímuefnaneytenda. Ekki er vikið einu orði að þeim sjónarmiðum, sem liggja að baki ákvörðunar ríkisvaldsins. Aðeins er talað við annan aðilann, fulltrúa Ekrons. Þessi fáránlega frétt er dæmi um innreið kranablaðamennsku í fjölmiðlun landsins. Hún kom inn með unglingum, er í auknum mæli hafa tekið við af reyndu fólki, sem kann til verka. Ríkisútvarpið veit ekkert um, hvort glæpsamlegt er að loka Ekron. Og á ekki að fullyrða slíkt út í loftið.

Þjónusta við kvótagreifa

Fjölmiðlun

Ég er löngu hættur að skilja þjónustu ríkissjónvarpsins við kvótagreifana. Fréttatíma eftir fréttatíma lepja fulltrúar þess upp þvæluna úr greifunum, án þess að spyrja mikilvægra spurninga. Sjaldan heyri ég þar sjónarmið, sem efast um fullyrðingar greifanna. Þeir nota hugtakarugling og komast upp með það. Setja samasemmerki milli sjálfra sín og sjávarútvegs. Ætti þó öllum að vera ljóst, að sjávarútvegur heldur áfram, þótt greifunum sé kippt burt. Jafnmikið verður veitt af fiski og áður og jafnmargir hafa vinnu og áður. En meira jafnvægi verður milli sjávarplássa. Ríkissjónvarpið er í hafvillum.

Arfavitlaus fjölmiðlalög

Fjölmiðlun

Neyddist til að lesa nýju fjölmiðlalögin í tilefni framsögu hjá virðulegu félagi fjölmiðlakvenna. Sá lestur varð mér þraut, leiðinlegri langhund hef ég ekki lesið. Betri lög hefðu hljóðað svo: 1. Blaðamenn mega halda heimildamönnum leyndum. 2. Fyrsta ábyrgð efnis er á höfundum fremur en á blaðamönnum. 3. Útgefendur eiga að vera góðir við ritstjóra. Þar með er upptalið það jákvæða í óralöngu máli laganna. Höfundur þeirra gladdist fyrst við skrifin, er hann telur upp refsingar ritstjóra í févítum og fangelsum. Meginefni laganna er arfavitlaus tilraun til að ríkis-ritstýra fjölmiðlum.

Krumpaðir blogga og fésbókast

Fjölmiðlun

Ég fæ verk fyrir hjartað, þegar ég les krumpað blogg og fésbók fólks, sem skammar Jóhönnu og Steingrím. Fyrir að hafa á tveimur árum ekki tekizt að hreinsa upp mega-sukk Davíðs og Geirs í ríkisstjórn og Seðlabanka. Þeir félagar og svo bankabófarnir settu þúsund milljarða króna slagsíðu á ríkið. Og þar með á skattgreiðendur og velferðarþega. Fólk virðist ætlast til, að hamfarir Davíðs og Geirs verði lagaðar á tveimur árum. Þeir, sem þannig skrifa, eru stórpólitískt vandamál Bara það er kraftaverk, að ríkið skuli lifa og borga niður skuldir. Vandamál Jóhönnu og Steingríms eru allt önnur.

Megn fýla af ríkissjónvarpi

Fjölmiðlun

Mér kemur á óvart, að sjónvarpsdeild fréttastofu Ríkisútvarpsins hefur tekið afstöðu með kvótagreifum gegn þjóðinni. Eins og raunar Fréttablaðið einnig. Í fréttatíma eftir fréttatíma raðar sjónvarpið upp málsvörum kvótagreifa, án þess að gagnrök annarra fái hliðstætt vægi. Skekkjan er um það bil fjórir á móti einum. Þetta getur engan veginn talizt eðlilegur stuðningur við klíku, sem hefur tugi milljarða af þjóðinni á hverju ári. Gerir út Morgunblaðið og Samtök atvinnulífsins, Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn til að hafa fé af þjóðinni. Megna skítafýlu leggur af ríkissjónvarpinu.

Skattgreiðendur reka Moggann

Fjölmiðlun

Morgunblaðið tapar tæpum milljarði á ári. Því hafa hluthafar spýtt hundrað milljónum í málgagn hrunstjórans. Hvaðan koma hinar 900 milljónirnar? Svarið er auglýst. Það er Landsbankinn, sem heldur hátalara kvótagreifa á floti. Ríkið á Landsbankann og lætur skattgreiðendur leggja honum til, sem hann þarf. Þess vegna er rekstur Moggans að mestu leyti á kostnað skattgreiðenda og sumpart á kostnað velferðar. Yfirbófar Landsbankans geta þetta í skjóli illrar bankaleyndar. Væri hér alvöru gegnsætt þjóðfélag, væri bankastjórinn brottrekinn og búið að slá Moggann af. Skattgreiðendum til mikils léttis.

Ritskoðun og skjalaleynd

Fjölmiðlun

Minnisvarði ríkisstjórnarinnar er að hafa stofnað ritskoðun fjölmiðla og hert skjalaleynd stjórnvalda. Að baki er sú árátta margra vinstri manna að telja ríkiskontóra bezt fallna til að stjórna. Sjáum þess merki í fjölmennum stofnunum, sem gera fátt nema flækjast fyrir. Senn fá fjölmiðlar áminningar um skort á fylgni við félagslegan rétttrúnað hvers tíma. Í dag vegna ónógs jafnréttis kynjanna, á morgun vegna skrípamyndar af Múhameð spámanni, þriðja daginn vegna samanburðar á Jóhönnu og Hitler. Og þessir ríkiskontórar geta þar á ofan lagzt í enn meiri spillingu í skjóli aukinnar skjalaleyndar.