Fjölmiðlun

Veruleiki og sjálfsfróun

Fjölmiðlun

Sumir pólitíkusar ofmeta blogg og fésbók. Blogg er fyrst og fremst Hyde Park Corner. Það er smjörlíkiskassi, þar sem fólk segir skoðun sína á öllu milli himins og jarðar. Bloggið er engin fréttastofa. Vefútgáfur hefðbundinna fjölmiðla ráða enn ferð í fréttum af veruleikanum. Þær hafa fólk, sem hefur atvinnu af fréttaöflun. Bloggarar hafa það ekki. Fésbók er samtal fólks, sem þekkist meira eða minna. Pólitíkusar á borð við Lilju Mósesdóttur loka fyrir þá, sem ekki eru sammála þeim í öllu. Baða sig svo í aðdáun hinna, sem eftir sitja. Það er pólitísk sjálfsfróun, en alls engin mynd af veruleikanum.

Vinsælasta lesefnið: Heilsa

Fjölmiðlun

Það eru ekki þjóðmál, sem halda dagblöðum uppi. Í dag fjalla vinsælustu greinarnar á vef New York Times um heilsu. Í efsta sæti er grein um svefn. Þar var skýrt frá rannsóknum. Þær sýna, að þeir, sem sofa lítið á nóttunni, eru hálfsofandi að degi til. Í öðru sæti er grein um setur. Þar var skýrt frá rannsóknum. Þær sýna, að mataræði og heilsurækt halda ekki vigtinni í skefjum, ef menn sitja lon og don. Í þriðja sæti er grein um sykur, sem ég hef áður sagt ykkur frá. Hún var búin að vera lengi í fyrsta sæti. Hún segir frá rannsóknum eins og hinar. Þær sýna, að sykur er lífshættulegt eitur.

Framtíð varð að fortíð

Fjölmiðlun

Í nokkur ár hefur samþætting fjölmiðla verið kennd í blaðamennskunámi í Bandaríkjunum. Markmiðið er að útskrifa fólk, sem getur tekið til hendinni á fjölbreyttu sviði. Kann að meðhöndla kvikmyndavélar, myndavélar, hjóðtækni og klippingar. Kann að koma fram í sjónvarpi og að tala í útvarp og skrifa texta fyrir pappír. Þótt þessi samþætting sé ný í kennslubókum, er hún orðin úrelt. Menn verða líka að kunna á veraldarvefinn og nýjasta hugbúnað hans hverju sinni, ef þeir vilja verða blaðamenn. Hvort sem þeir hafa í hyggju að starfa á grónum fjölmiðlasamsteypum eða brjótast fram með eigin fjölmiðla.

Framtíðin fer framhjá fjölmiðlunum

Fjölmiðlun

Hefðbundnir fjölmiðlar þróast yfir í fjölbreytta útgáfu á pappír, í útvarpi og sjónvarpi og á vefnum. Bezta dæmið um það er visir.is, sem tengir saman Fréttablaðið, Stöð 2 og Bylgjuna. Á þeim vettvangi mæta þeir nýjum vefmiðlum á borð við Pressuna. Eins og víðar á Vesturlöndum veitir gömlu fjölmiðlunum betur í samkeppninni. Hafa burði og úthald, sem nýliðarnir hafa síður. Samt hefur þeim gömlu ekki tekizt að fylgja þessari sókn eftir. Fjölmiðlaneyzla ungs fólks fer framhjá þessu öllu. Það sækir upplýsingar til Facebook og YouTube, Twitter og Google og Wikipedia. Framtíðin fer framhjá fjölmiðlunum.

Slöpp forsíðublaðamennska

Fjölmiðlun

Ég varð í morgun fórnardýr slapprar blaðamennsku. Í Fréttatímanum er bútur af viðtali við mig um nafn- og myndbirtingu afbrotamanna. Sá texti er eftir Heiðdísi Lilju Magnúsdóttur og er í fínu lagi. Sá, sem sá um forsíðuna, skildi hins vegar ekki textann. Hann hefur það eftir mér, að fréttaumfjöllun sé eins og opinberar aftökur áður fyrr. Það sagði ég ekki og meinti ekki. Ég sagði, að fréttir nútímans af glæpum ættu að vera eins og fréttir gamla tímans af dómum og aftökum á torgum þess tíma. Þarna varð samsláttur og skammhlaup í meiningunni hjá forsíðustjóra blaðsins. Léleg frammistaða þar.

Sannreynsla er hornsteinninn

Fjölmiðlun

Sannreynsla er hornsteinn fjölmiðlunar. Blaðamenn taka ekki allt trúanlegt, sem þeim er sagt. Ef fanatíkus heldur einhverju fram, kanna blaðamenn málið. Segja til dæmis lesendum, hverjir borga IceSave auglýsingar. Láta ekki hagsmunaaðila halda fram því, sem þeim sjálfum þóknast. Fyrir bragðið geta notendur vestrænna fjölmiðla treyst því, að blaðamenn reyni að draga úr botnlausu þvaðri fanatíkusa á opinberum vettvangi. Hér spara fjölmiðlar sér hins vegar oftast að sannreyna það, sem þeim er sagt. Fyrir bragðið vaða hér uppi alls konar rangfærslur, sem sumir notendur fjölmiðla hafa fyrir sannar.

Landsbanka-bófar ögra

Fjölmiðlun

Bankabófar Landsbankans og dótturfélaga hans leika lausum hala eins og aðrir bófar landsins. Þótt Landsbankinn sé ríkisrekinn, ögrar hann þjóðinni ekki síður en aðrar fjármálastofnanir. Græðgi er leiðarljós hans og bankaleynd er helzta vopnið. Reynir að stöðva birtingu réttra frétta DV af skuggaverkum dótturfyrirtækis Landsbankans. Hefur fengið Sýslumanninn í Reykjavík til að krefjast afhendingar gagna og að setja lögbann á birtingu upplýsinga um þau. Ríkisbankinn hyggst elta ritstjórana alla leið í fangelsi. Ríkisstjórnin hefur engin tök á skrímslum, sem hún ræktar í fjármálastofnunum landsins.

Blaðamenn í bóndabeygju

Fjölmiðlun

Ein af ástæðum hrunsins er, að blaðamenn eru reyrðir í dómvenju, sem refsar fyrir að segja satt. Bófar fá blaðamenn dæmda fyrir meiðyrði og fyrir að skaða einkalíf bófa. Blaðamönnum er bönnuð birting og þeir eru dæmdir til að segja frá vitnum. Óvígur her héraðsdómara, hæstaréttardómara, sýslumanna, Persónuverndar og Úrskurðarnefndar upplýsingalaga sækir að blaðamönnum. Sem dæmin sanna. Eftir hrunið eiga menn að hafa áttað sig á þessum meginvanda. En ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að losa fjölmiðla úr bóndabeygjunni. Ekki eru í vinnslu nein lög um aukið frelsi fjölmiðla og afnám bankaleyndar.

Nafn- og myndbirtingar

Fjölmiðlun

Tilgangur nafn- og myndbirtinga er að segja fréttir. Fréttir án nafna eða án mynda eru fatlaðar. Á fyrri öldum stóð fólk á torgum og horfði á persónur dómsmála. Myndir í fjölmiðlum vernda þá fornu nálægð. Birtingar eru enginn þáttur í ferli dómsmála. Ekki þáttur í refsingu eða ígildi refsingar. Fjölmiðla á ekki að skipuleggja að utan með reglum félagslegs rétttrúnaðar. Þar mega ekki gilda reglur um, að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir. Slíkt veldur bara öðru hruni. Ný fjölmiðlum fer framhjá reglum félagslegs rétttrúnaðar. Blogg, Facebook og YouTube endurheimta nálægð þorpstorgsins.

Nafnlausar heimildir

Fjölmiðlun

Washington Post bannar nafnlausar heimildir á síðum blaðsins. Áður voru þær leyfðar, ef hvert atriði var stutt tveimur sjálfstæðum heimildum, óháðum hver annarri. Leyfi fjölmiðlar nafnlausar heimildir, mega þær bara vera um staðreyndir, ekki um skoðanir. Fjölmiðillinn á að segja lesandanum frá því, hvers vegna þær eru nafnlausar. Kannski er þar flautublásari, sem gæti skaðast af nafnbirtingu. Oftast er gengið of langt í nafnlausum heimildum. “Ég talaði í dag við marga lögfræðinga”, segir Svavar Halldórsson í fréttum sjónvarps. Notendur eiga að vara sig á slíkri ótraustvekjandi framsetningu.

Vítahringur blaðamennsku

Fjölmiðlun

Fyrir tuttugu árum fóru blaðamenn úr húsi til að taka viðtöl augliti til auglitis við fólk. Fyrir tíu árum tóku þeir upp símann og hringdu í fólk eða svöruðu símtölum. Í dag senda þeir tölvupóst eða taka við tölvupósti. Þetta er hagkvæmt af fjárhagsástæðum, en drepur blaðamennsku. Við hverja breytingu eykst fjarlægð blaðamanna. Helmingur frétta ber þess merki, að blaðamaður hefur snyrt tilkynningu frá stofnun eða fyrirtæki. Hann afgreiðir. Fyrir tuttugu árum voru nokkrir blaðamenn á Alþingi, hittu þingmenn, ekki síður gesti og komust að ýmsu forvitnilegu. Nú er bara Ríkisútvarpið með mann þar.

Slappir blaðamenn

Fjölmiðlun

Blaðamenn eru hættir að gera mun á fakta og rökum annars vegar og bulli hins vegar. Allt álit er jafnt fyrir þeim. Ef kynna á umdeilt mál, eru fengnir tveir kjaftaskar að rífast. Röng vinnubrögð, blaðamenn eiga að hafa burði til að finna fakta og rök. Eiga að grisja skóg fyrir okkur. Ekki núllstilla milli rugls og raka. Kastljósið með Frosta var dæmi um blaðamann, sem hafði ekki burði til að sjá gegnum froðu Frosta. Tölfræðilegar athugasemdir við áskorun á forsetann sýna grófar falsanir. Bloggarar fatta það, en blaðamenn ekki. Og nefnið ekki Fréttatímann í mín eyru, forsíðan þar var úti á túni.

Allir fjölmiðlar brugðust

Fjölmiðlun

Hér er gott dæmi um hnignun fjölmiðla. Tveir sólarhringar eru liðnir síðan mikið mengunarslys varð í Reykjavíkurhöfn. Fjölmiðlar hafa eingöngu birt fréttatilkynningar málsaðila. Þeir hafa ekkert fjallað um það furðulega fyrirbæri, að enginn öryggisbúnaður var á dælunni. Þótt slíkur búnaður sé á hverri einustu dælu á benzínstöðvum landsins. Engin tilraun var gerð til að stilla Reykjavíkurhöfn eða Umhverfisstofnun upp við vegg. Engin tilraun var gerð til að kanna furðulega fullyrðingu um, að svartolían væri föst milli skips og bryggju. Allir fjölmiðlar brugðust okkur í þessu hneykslismáli.

Undanhald dagblaða

Fjölmiðlun

Fyrsta áratug aldarinnar minnkuðu auglýsingatekjur dagblaða um helming í Bandaríkjunum. Á sama tíma fækkaði þar störfum á ritstjórn um þriðjung. Við höfum ekki tölur frá Íslandi, en þróunin er söm. Færri vinna verkin og þess vegna magnast kröfur um hraða á ritstjórn. Leiðir til slakari vinnubragða. Stafsetningu og stíl hrakar. Rannsóknir og sannreynsla slúðurs dofna. Samt eru dagblöð enn þungamiðja fréttaöflunar í heiminum. Langt framar ljósvaka, sé litið bara á magnið. Veffréttir áhugafólks koma að nokkru í stað frétta dagblaða. Oft minna vandaðar en fréttir atvinnumanna, sem kunna til verka.

Sviptingar fréttabransans

Fjölmiðlun

Það merkilega er, að arabíska fréttastofan Aljazeera stóð sig bezt í fréttum af byltingunni í Túnis og falli Mubaraks í Egyptalandi. Aljazeera var meðal fólksins og sagði fréttir af því. Meðan vestrænar fréttastofur töluðu við gamla og þreytta liðið framan við Hvíta húsið í Washington. Fréttastofur á Vesturlöndum eru orðnar samofnar vestrænum fjármálaheimi og geta ekki horft út fyrir boxið. Sama er að segja um fjölmiðla, sem áður voru beztir í heimi, til dæmis New York Times. Eina læsilega blaðið um Túnis og Egyptaland var brezka Guardian. Það hefur tekið forustu sem eina heimsblað Vesturlanda.