Fjölmiðlun

Eignarhald fjölmiðla þjappast

Fjölmiðlun

Enn þjappast eignarhald fjölmiðla, Pressan keypti Eyjuna. Þar voru að verki Björn Ingi Hrafnsson og spekúlantar hans. Fólk með vafasama fortíð á nú báða mest notuðu vefmiðlana utan hefðbundnu fjölmiðlana. Og fjölmiðlarisinn 365 er í eigu Jóns Ásgeirs og Mogginn í eigu kvótakónga. Við munum að vísu ekki strax sjá ritstjórnarbreytingu á Eyjunni. En til langs tíma er afleitt, að fjölmiðlar séu í eigu umdeildra braskara. Höfuðpaur yfirtökunnar vakti áður athygli fyrir brask í borgarstjórn og Orkuveitunni. Reyndi að koma innviðum borgarinnar í hendur bófa. Fýluna af kaupum Eyjunnar leggur langar leiðir.

Hæfilegur fimmtíuþúsundkall

Fjölmiðlun

Kröfur lagatækna á hendur blaðamönnum eru fyrir löngu komnar út í öfgar. Mest vegna þjónustulundar dómara, sem sjálfvirkt dæma blaðamenn í milljón króna sekt eða meira. Nú hefur Vilhjálmur H. Vilhjálmsson fært ruglið upp á nýtt stig. Heimtar tvær milljónir af Agnesi Bragadóttur og fangelsisvist að auki. Ég er sem fyrr hræddur við dómara landsins. Reynslan sýnir, að þeir eru veikir fyrir rugli af þessu tagi. Agnes fór offari í þjónustunni við Hádegismóra. En ástæðulaust er að ganga af göflunum, þótt hún hafi ekki haft tíma til að sannreyna staðreyndir málsins. Fimmtíuþúsundkall er hæfilegur.

Kastljós og Sykurpúðar

Fjölmiðlun

Flott blaðamennska kemur oft fram í vel undirbúnum viðtölum Helga Seljan í Kastljósinu. Dæmi eru viðtöl við Kristján Gunnarsson verkalýðsrekanda og Bjarna Benediktsson flokksformann. Sýndu annars vegar vanmáttugt sníkjudýr og hins vegar upplýstan formann, sem varðist fimlega atlögum Helga. Slík viðtöl eru gerólík illa undirbúnum viðtölum Þórhalls Gunnarssonar. Unnt er svo sem að þola sykursæt drottningarviðtöl. En þá á ekki að gefa annað í skyn með því að kalla þau Návígi. Eiga að heita Sykurpúðar. Viðtöl hans eru án neista og þar vantar forvitnilegar spurningar Helga, sem máli skipta.

Ritstjórn fellur niður

Fjölmiðlun

“Lögmaður hissa á áfrýjun” segir fyrirsögn á ruv.is. “Lögmaður gagnrýnir Glitni fyrir að áfrýja dómnum í New York” segir fyrirsögn á eyjan.is. Sérkennilegar fyrirsagnir á lítt merkri frétt um, að verjandi í dómsmáli sé ósáttur við áfrýjun sækjanda. Fyrirsagnirnar gefa hins vegar í skyn, að einhver lögspekingur hafi grundað málið og komizt að þessari niðurstöðu. Önnur hver frétt á vefnum er fréttatilkynning frá hagsmunaaðila. Stafar áreiðanlega af vaxandi fátækt fjölmiðla, samdrætti í mannahaldi þeirra og tilheyrandi óðagoti á ritstjórn. Prófarkalestur og ritstjórn falla niður.

Fjölmiðlar bregðast okkur

Fjölmiðlun

Ríkisútvarpið þegir þunnu hljóði um mikilvægasta innanflokkságreining í sögu lýðveldisins. Var þó á fullu við að fjalla um ágreining í öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum. Samt var ekki verið að kljúfa þá flokka í herðar niður eins og Sjálfstæðisflokkinn núna. Gildir raunar um aðra fjölmiðla einnig. Notendur fjölmiðla eiga skilið að fá að vita um straumana í Flokknum. Svara þarf brennandi spurningum: Heldur Bjarni meirihlutanum í þingflokknum fram í atkvæðagreiðslu um IceSave síðar í mánuðinum? Er uppreisnin bundin við fá flokksfélög eða er hún almenn? Hrynur Flokkurinn niður í frumeindir sínar?

Samkeppni við Wikileaks

Fjölmiðlun

Wikileaks hefur fengið samkeppni. Fleiri blöð birta bandarísku leyniskjölin framhjá Wikileaks. Guardian er eitt þeirra, hafði áður forustu í blaðahópi Wikileaks. Hundruð þúsunda höfðu aðgang að leyniskjölunum. Því er ekki að undra, að leyndin leki á fleiri en einum stað. Viðbótin er kærkomin, því að Wikileaks var komið í tvenns konar ógöngur. Í fyrsta lagi er birtingin þar afar hæg. Aðeins hafa verið birt 2658 skjöl af hundruðum þúsunda. Með sama framhaldi tekur birtingin mörg ár. Í öðru lagi er birtingin verzlunarvara í samskiptum Julian Assange við Bandaríkjastjórn. Slíkt gengur auðvitað ekki.

Frá hlerun til birtingar

Fjölmiðlun

Engin leyniþjónusta hefur eins fjölmennt lið og samanlagðar njósnastofnanir Bandaríkjanna. Eina stofnunin, sem gæti látið sér detta í hug að njósna um Alþingi. Bara til að drepa tímann. Síðan fer safn af rugli Sjálfstæðismanna í tölvupósti inn á stórar tölvur í Bandaríkjunum. Þaðan fer það til hundraða þúsunda, sem hafa leyfi til að skoða leyndarskjöl þar í landi. Einn reynist flautublásari, lekur til Wikileaks. Sem birtir svo hægt, að fréttirnar koma fyrst í New York Times. Þetta er hringrás leyndarskjala í nútímanum. Fyrst er það CIA, síðan litli flautublásarinn, svo Wikileaks og loks stórblöðin.

Flateyrir og Betrifjörður

Fjölmiðlun

Svipan og Frjálslyndi flokkurinn halda, að vestfirzkt þorp heiti Flateyrir, Beygist Flateyrir-Flateyris. Svipan notar Flateyris í fyrirsögn í gær. Það er síðan endurtekið í texta tilkynningar Frjálslyndra. Minnir mig á nýliða, sem ég hafði einu sinni. Sem skrifaði frétt um slys í Bitrufirði. Sá af hyggjuviti sínu, að það gat ekki staðizt. Skrifaði því Betrifirði. Þá var hjörð prófarkalesara í starfi. Almenningur sá því ekki afrekið. Nýliðinn varð skammlífur í starfi. Núna virðast slíkir ryðja sér til rúms. Taka við af reynsluboltum, sem útgefendur losa sig við. Og prófarkalestur er horfinn.

Auglýsingar eru ekki tjáning

Fjölmiðlun

Í nútímanum tíðkast orðhenglar meira en nokkru sinni fyrr. Markmiðið er að setja jákvæðan svip á neikvætt atferli og öfugt. Auglýsingastofur eru fremst í þessum flokki. Hafa atvinnu af að selja óþarfar og/eða hættulegar vörur og þjónustu. Samtök þeirra mótmæltu takmörkun á auglýsingafrelsi sem takmörkun á tjáningarfrelsi. Fráleit túlkun þeirra. Tjáningarfrelsi snýst um frelsi fólks til að tjá sig og segja fréttir. Snýst ekki á neinn hátt um frelsi auglýsenda til að auglýsa og selja vörur og þjónustu við hliðina á barnaefni sjónvarps. Auglýsingar eru bara sala, en ekki stjórnarskrárvernduð tjáning.

Bæjarfulltrúi fer starfavillt

Fjölmiðlun

Valdimar O. Hermannsson heldur, að hann sé fréttastjóri Ríkisútvarpsins. Sendir útvarpinu lista yfir fréttir, sem hann telur æskilegt að birta. Í raun er Valdimar bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð. Listi hans þýðir, að hann vill, að birtar séu tilkynningar frá bæjarstjórn, en ekkert neikvætt. Margt er skrítið austur á fjörðum og Valdimar er eitt af því. Bæjarstjórnarmenn eiga að haga gerðum sínum á þann veg, að af þeim fari góðar fréttir. Hagi þeir sér illa, eiga að koma af því vondar fréttir. Valdimar gæti bara stýrt slíku, ef hér væri alræði Sjálfstæðisflokksins.

Heiðarleiki bíður hnekki

Fjölmiðlun

Gömul regla blaðamennsku er að skilja að ritstjórnarefni og auglýsingar. Lesandinn, hlustandinn, áhorfandinn vita um mörkin. Sjónvarpið skar gat á regluna með “kostun”. Auðvaldið var hvatt til að kosta hitt og þetta efni. Þar með jókst framleiðsla efnis fyrir auðvaldið og minnkaði fyrir venjulega notendur. Svo er komið, að íþróttafélög kaupa umfjöllun í ríkissjónvarpinu fyrir 300.000 króna mútur. Við bætast laumuauglýsingar, þar sem þáttastjórar Stöðvar 2 sitja í mynd með gosflöskur fyrir framan sig. Ég veit ekki, hversu háar múturnar eru eða hverjir fá þær. Heiðarleg blaðamennska bíður hnekki.

Laumu-auglýsingar í sjónvarpi

Fjölmiðlun

Laumuauglýsingar eru farnar að tíðkast hér, einkum á Stöð 2. Þorsteinn J. laumar auglýsingum um töfradrykk í handboltaþátt. Þáttakendur sitja allir með flöskur fyrir framan sig. Auddi og Sveppi og félagar hafa lengi stundað slíkar laumu-auglýsingar. Þær eru siðlaus tilraun til að hagnýta sér meinta heimsku áhorfenda, sem telja þetta vera vinsæla drykki. Einhver vill hagnast á slíku, þáttastjórar eða sjónvarpsstöð. Seljandi reynir að komast aftan að fólki með leynd. Ef Katrín vill gera eitthvað fyrir fjölmiðlun, á hún að draga ritskoðunar-frumvarpið til baka. Banna heldur laumu-auglýsingarnar.

Ögmundur þaggari

Fjölmiðlun

Ásmundur Einar Daðason lenti í klóm fjölmiðla, þegar hann kom niður í lyftu af stóra fundinum. Upplýsti þá um að lyftan gengi fyrst upp og síðan niður. Þá spurðu blaðamenn, hvort hann væri enn í þingflokki Vinstri grænna. Ofur eðlilegrar spurningar, sem brennur á margra vörum. Ögmundur Jónasson greip þá fram í og sagði: “Af hverju hafið þið ekki áhuga á málefnum.” Þar með slapp Ásmundur við að svara mjög svo mikilvægri spurningu. Ögmundur var þarna í hlutverki þaggarans og honum tókst það mæta vel. Blaðamanninum varð orðfall. Svo er Ögmundi fyrir að þakka, að enginn varð neinu nær um neitt.

Ritskoðun Möllers og Katrínar

Fjölmiðlun

Kristján Möller flytur fyrsta mál ritskoðunarnefndar Katrínar Jakobsdóttur. Alþingi samþykkir ritskoðunarlög hennar á næstu vikum. Fyrsta mál á dagskrá er sú ósvinna blaðamanna að kalla vegatoll vegatoll. Kristján upplýsir, að vegatollur sé ekki vegatollur, heldur notendagjald. Orðaval fjölmiðlunga grefur undan notendagjaldinu og æsir upp snarruglað Félag bifreiðaeigenda. Það hefur misvísandi framsetningu og rangtúlkar allt, að því er Kristján segir. Passlegt verkefni fyrir hina nýju nefnd Katrínar Jakobsdóttur, sem á að ritskoða vonda fjölmiðla. Hugtakasmiðurinn hangir nú þegar á húninum.

Katrín Jakobs í þokunni

Fjölmiðlun

Vandi okkar með fjölmiðlana felst ekki í, að faglegt eftirlit skorti af hálfu ritskoðunar ríkisins. Katrín Jakobsdóttir telur sig finna réttlætingu fyrir því í sannleiksskýrslunni. Ég held hún skilji það vitlaust. Hvaðan ætti þetta faglega eftirlit að koma? Það, sem fjölmiðla vantar, er allt annað: Aðgang að upplýsingum. Hér er allt lok, lok og læs. Í boði ríkisins. Við höfum bankaleynd, upplýsingalög og Persónuvernd, sem allt stefnir að algerri þögn. Leki lánabókar Kaupþings á Wikileaks er eina blómið í eyðimörk Katrínar. Við þurfum afnám bankaleyndar, upplýsingalaga og Persónuverndar.