Fjölmiðlun

Creditinfo ofmetur netmiðla

Fjölmiðlun

Creditinfo segir netmiðlana koma sterkt inn í fréttum, birta helming allra frétta. Þetta er afar ónákvæmt, því að könnun fyrirtækisins segir ekkert um uppruna fréttanna. Meirihluti frétta fæðist á ritstjórn blaða og minnihluti á ritstjórn ljósvakamiðla. Örlítill hluti verður til á netmiðlunum sjálfum. Að mestu leyti birta þeir fréttir, sem fæðast hjá hefðbundnum fjölmiðlum. Þótt þær birtist oft fyrst á netinu, þá eru þær samdar á vegum hefðbundinna fjölmiðla. Síðan fara þær oft hring á netinu, birtast á mbl.is, visir.is, ruv.is, eyjan.is, pressan.is. Creditinfo gefur brenglaða mynd af stöðunni.

Reiðareksstefna á sigurbraut

Fjölmiðlun

Eiður Svanberg Guðnason birtir daglega vefpistla um hörmulega íslenzku í fjölmiðlum. Kallar þetta reiðareksstefnu, sem studd sé af málfarsráðunauti Ríkisútvarpsins. Ef svo fer, sem horfir, leggjast niður tíðir, hættir, myndir, tölur og föll. Íslenzka verður nánast beygingalaus eins og danska og enska. Tungumálið verður vafalaust léttara í vöfum og þjónar áfram hlutverki mannlegra samskipta. En ósköp verður það flatt. Fyrir fáum áratugum kunnu blaðamenn íslenzku og þótti hún ekki tiltakanlega erfið. Nú þykjast menn vera atvinnumenn í fjölmiðlun og kunna samt ekkert á sjálft atvinnutækið.

Fjölmiðlar úti að aka

Fjölmiðlun

Aðeins tveir fjölmiðlar virða stjórnlagaþingið viðlits, DV.is og Svipan.is. DV.is ber af með löngum spurningalista og greinum frambjóðenda. Aðrir miðlar sinna ekki borgaralegu skyldu. Ríkisútvarpið, Vísir og Mogginn bjóða bara auglýsingapakka, sem nánast allir hafna. Lítt þekktir frambjóðendur eru að vonum ósáttir við þetta forkastanlega afskiptaleysi. Einkum er blóðugt, að miðill, sem þiggur árlega hundruð milljóna af almannafé, vanræki hlutverkið. Væri kosningabaráttan í formi fótbolta, mundi útvarp allra landsmanna vakna til lífsins. En mér sýnist það almennt vera að gefast upp á lífsbaráttunni.

Fréttamenn sofa hér og þar

Fjölmiðlun

Hafi Jóni Bjarnasyni verið hótað ráðherramissi, á hann að segja það sjálfur. Einskis virði eru fullyrðingar Ásmundar Einars Daðassonar um það. Hann sagði einu sinni, að sér hefði verið hótað í símboðum, en gat þó ekki sýnt boðin. Fjölmiðlar lepja vænisýki hans, tala ekki við Jón. Minnir á frétt sjónvarps um bóndann, sem var hissa á sæg geisladiska í vegköntum. Fréttamaðurinn kunni ekki fagið, aflaði ekki upplýsinga um, hvaða músík væri þar. Eiríkur Jónsson er eitt bezta fréttanef landsins og vakti athygli á þessu. Fórnardýr tónlistar vilja sjá lista yfir tíu efstu í brottkasti tónlistar á vegköntum.

Átta mig ekki á Ríkisútvarpinu

Fjölmiðlun

Ég átta mig ekki á Ríkisútvarpinu. Dregur rétta frétt til baka á fáránlegri forsendu. Rekur fréttamann fyrir bók, sem stofnunin átti að vita um fyrir löngu. Af hverju kynnti útvarpið sér ekki, við hvaða ráðherra var talað og gerði ráðstafanir í tæka tíð? Á hvaða forsendum eru dálkahöfundar útvarpsins ráðnir og reknir? Ekki dugir fyrir opinbert ríkisútvarp að hafa vinnureglur sínar í felum. Því ber að birta verklagsreglur eða siðareglur sínar. Þá hefðum við einhverja möguleika á að skilja, hvað er að gerast þar á bæ. Úr fjarlægð virka aðgerðirnar eins og tilviljanakennt fálm taugaveiklaðra.

Hvílíkt rugl Katrínar

Fjölmiðlun

Katrín Jakobsdóttir skilur sannleiksskýrsluna eins og andskotinn biblíuna. Telur nefndina hafa beðið um aðhald menntaráðherra með fjölmiðlum. Þeir hafi ekki varað nógu vel við hruninu. Ástæða þess var þó einföld. Fjölmiðlar voru og eru dauðhræddir við að stíga á fætur þeirra, sem settu okkur á hausinn. Gengisbraskarar og fjárglæframenn hóta fjölmiðlum með hjörðum lagatækna. Dómstólar dæma fjölmiðla á færibandi fyrir móðganir. Lög um meiðyrði eru vond og dómvenja er viðbjóðsleg. Ef vekja á fjölmiðla til lífs, á að veita þeim frelsi. Ekki sparka þeim í ritskoðun hjá Katrínu. Hvílíkt rugl hennar.

Stjórnarskráin verndi fjölmiðla

Fjölmiðlun

Hver bófinn á fætur öðrum hótar fjölmiðlum öllu illu. Sigar lagatæknum á þá, sem ljósta upp um atferli þeirra. Vita, að íslenzkir dómstólar dæma slíkt á færibandi. Fjölmiðlar eru nánast alltaf sekir um móðganir. Meira að segja dæmdir fyrir að hafa rétt eftir viðmælendum sínum. Lög og dómvenja um fjölmiðla eru út í hött hér á landi, bæði í héraðsdómi og hæstarétti. Svo er komið, að fjölmiðlar þora varla að skrifa um svínarí af því tagi, sem setti þjóðina á hausinn. Ný stjórnarskrá þarf að taka á þessu og knýja dómara til stefnubreytingar. Upplýsingafrelsi þarf að vera æðra hagsmunum peningabófa.

Þú borgar tap Moggans

Fjölmiðlun

Ríkisbankinn greiðir Mogganum meira en hundrað milljónir á mánuði á kostnað skattgreiðenda. Landsbankinn afskrifaði rúmlega fjóra milljarða í fyrra til að gera Davíð Oddssyni kleift að reka málgagn fyrir kvótagreifa. Tap Moggans nam þá hundrað milljónum á mánuði. Það hefur aukizt síðan, því að tólfþúsund áskrifendur sögðu Mogganum lausum á fyrri hluta þessa árs. Ætli mánaðarlegt tap blaðsins fari ekki að nálgast tvöhundruð milljónir. Enn er blaðið rekið á okkar kostnað. Eitt af mörgum dæmum um, að ríkisstjórninni mistókst að koma viti í geðveikan bankarekstur. Sem proppar upp undirmálsfólk landsins.

Félagslegur rétttrúnaður

Fjölmiðlun

Félagslegur rétttrúnaður fer á kostum. Ríkisútvarpið dregur til baka frétt um Eyfirðing, sem samdi um skuldir og er sáttur við stöðuna. Hann sagði sjónvarpinu ekki frá, að hann var áður í stjórn staðarfélags vinstri grænna. Rosalegt hneyksli, segja rétttrúaðir. Fylgist þið með, hvort Ríkisútvarpið tilkynnir okkur framvegis um pólitíska fortíð viðmælenda. Setur á þá spjöld í sjónvarpinu. Það, sem gildir um hann, hlýtur að gilda um aðra. Skoðunum verður stungið undir stól, tengist þær pólitík. Félagslegur rétttrúnaður leikur Ríkisútvarpið grátt. Það er farið að draga til baka réttar fréttir.

Nafnlausu heimildirnar Svavars

Fjölmiðlun

Svavar fréttamaður hefur hirð ónafngreindra og ímyndaðra heimildamanna. Ég talaði við marga lögmenn í dag og þeir segja þetta -er viðkvæði hans í fréttunum. Samt segir námskeið 101 í amerískri blaðamennsku, að heimildamenn eigi að vera nafngreindir. Á sama tíma biðst Ríkisútvarpið afsökunar á viðtali við fyrrverandi vinstri grænan. Virðist ætla að taka upp þann sið að merkja viðmælendur með spjaldi um röð stjórnmálaskoðana sinna gegnum tíðina. Af hverju gildir gegnsæi þá ekki um Svavar? Hvaða rugl er á Ríkisútvarpinu? Setjið þá líka merki á umboðsmenn kvótagreifa og aðra vini fréttastofunnar.

Pirraðir út í Eið Svanberg

Fjölmiðlun

Fjölmiðlungar pirrast út í Eið Svanberg Guðnason málfarsrýni. Vísir.is uppnefnir hann “sjálfskipaðan málfarsráðunaut” í frétt. Þannig eru fréttir orðaðar árið 2010, enginn agi á neinu. Þetta sama agaleysi einkennir texta í fjölmiðlum landsins. “Það er nú frekar erfitt að gera honum til geðs”, segir Andri Ólafsson í fréttinni. Það er rangt hjá Andra. Leiðbeiningar Eiðs eru einfaldar og augljósar. Hroki og heimska ungra fjölmiðlunga hindrar þá í að taka leiðsögn. Og yfirmenn á fjölmiðlum hafa glatað áhuga á að halda uppi snyrtilegu rennsli á tungumálinu. Því fær Eiður daglega nóg að skrifa um.

Nýr Eiríkur vandfundinn

Fjölmiðlun

Eiríkur Jónsson er fæddur Séð og heyrt ritstjóri. Hefur alla starfsævi haft næmt auga fyrir sérstæðum fréttum af fólki úr daglega lífinu. Raunar einn af beztu blaðamönnum, sem ég hef kynnst. Sér óvenjuleg sjónarhorn og sniðuga orðaleiki á svipstundu. “Bubbi fallinn”, var hans meistarastykki í ögrandi stíl. Var dæmdur út á heimsku ferkantaðra dómara, sem töldu orðskýringu Bubba rétta, þvert á orðabókina. Örsjaldan hafði Eiríkur það, sem betur hljómaði og hafði ég af því nokkurn ama. Hann var í essinu sínu á Séð og heyrt. Ég er sannfærður um, að vandfundinn sé eftirmaður Eiríks Jónssonar.

Óháð blað í vikunni

Fjölmiðlun

Hlakka til að sjá nýtt vikublað, Fréttatímann. Þar eru ýmsir góðir blaðamenn, sem ekki er pláss fyrir á döprum fjölmiðlum. Blaðið kemur í fyrsta skipti á föstudaginn. Þar verða fréttir, fréttaskýringar og viðtöl. Mestu máli skiptir, að blaðið er í eigu starfsmanna. Hvorki í eigu fjárglæframanna né kvótagreifa. Hagsmunaaðilar að valdakerfinu hljóta sem eigendur fjölmiðla að verða hættulegir prentfrelsinu. Því er brýnt, að til skjalanna komi nýir fjölmiðlar. Óháðir ríkinu og aðilum, sem hafa aðra hagsmuni en þjóðin. Vonandi mun Fréttatíminn standa sig og verða vinsæll.

Samspil fésbókar og bloggs

Fjölmiðlun

Fésbók er komin til að vera. Þingmenn eru farnir að rífast þar. Birgitta Jónsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Unnur Brá Konráðsdóttir rífast þar um leyndó í Atlanefnd. Fésbók hefur tekið við sem skoðanamiðillinn. Ekki bara skoðanamiðill hinna smáðu, heldur einnig hinna, sem völdin hafa á Alþingi. Eign á fjölmiðlum skiptir minna máli en áður. Allar skoðanir komast fyrir á fésbók og þar er lífleg umræða. Bezt er samspil fésbókar og bloggs. Stakar fullyrðingar á fésbók hafa tengi í rök í bloggi. Og jafnvel í áratuga gamalt bloggsafn eins og hjá mér. Gömlu fjölmiðlarnir ráða þó enn mestu í fréttum.

Greindarskerðing Ríkisútvarpsins

Fjölmiðlun

Greindarskerðing Ríkisútvarpsins heldur áfram. Kristni Hrafnssyni var sagt upp í dag, einum bezta fréttamanni stofnunarinnar. Við honum tekur einhver unglingur af því tagi, sem í vaxandi mæli einkenna apparatið. Sameiginlegt einkenni þeirra er, að þeir kunna hvorki íslenzku né blaðamennsku. Rugla saman tölum, tíðum, föllum, kynjum og einkum þó föstum orðasamböndum. Eiður Svanberg Guðnason hefur rækilega lýst málfarshruni Ríkisútvarpsins í 362 pistlum um miðlana. Auglýsingadeildin hefur tekið við dagskrárstjórn eins og í svartasta kapítalisma Mark Willes, sem setti Los Angeles Times á hausinn.