Fjölmiðlun

Veröldin breyttist í nótt

Fjölmiðlun

Wikileaks hefur náð samstarfi við Guardian, Spiegel og New York Times um birtingu 90.000 leyniskjala. Fjalla um hernað Bandaríkjanna og fylgiríkja þeirra í Afganistan. Umfangsmesta aðgerð sögunnar til opnunar samfélagsins. Fyrsta skref Vesturlanda í átt til lýðræðis. Hingað til hafa valdamenn farið sínu fram í kyrrþey. Hafa byggt upp stofnanir á borð við Persónuvernd, sem flokka jafnvel fjármál sem einkamál. Því varð hrun á Íslandi. Lýðræði hefur hingað til ekki virkað vegna skorts á gegnsæi. Nú kemst heimska og siðleysi valdamanna á allra vitorð. Vonandi verður veröldin aldrei söm og áður.

Linnulaust slúður Bubba

Fjölmiðlun

Lengst allra Íslendinga í slúðri kemst Bubbi Morthens. Nýjasta grein hans á Pressunni er samfellt slúður: “Sagan segir, að …” og svo framvegis í það óendanlega. Ég hef aldrei áður séð neitt þessu líkt. Ekki orð af því, sem Bubbi fullyrðir í greininni er sannreynt. Það er svona framsetning, sem eyðileggur alla umræðu. Samkvæmt greininni eru óvinir Bubba þjófar, illmenni og morðingjar. Það er um að gera að vera harðskeyttur í skrifum og tala skiljanlega íslenzku. Ef staðreyndir eru sannreyndar, geta menn kveðið fast að orði. En þá er ég að biðja um sannreynslu, ekki linnulaust slúður Bubba.

Fjölmiðill varð að hóruhúsi

Fjölmiðlun

Robert R. McCormick var ritstjóri Chicago Tribune á velmektarárum blaðsins. Lét setja eina lyftu í skýjakljúf blaðsins fyrir ritstjórn og aðra fyrir auglýsingar. Vildi ekki samstarf deildanna. Klassísk skoðun á sérstöðu ritstjórnar. Mark Willes varð útgefandi Los Angeles Times 1995 og þvingaði fram samstarf deilda. Auglýsingamenn fóru að skipta sér af ritstjórn. Strax hrundu áskriftartekjur. Sigrún Stefánsdóttir tók upp samstarfsstefnu á Ríkisútvarpinu, setti auglýsingastjóra í dagskrárráð. Mæla óhjákvæmilega með efni, sem þóknast auglýsendum. Opinber fjölmiðill varð að opinberu hóruhúsi.

Drottningarviðtal við Beaty

Fjölmiðlun

Er enn að velta fyrir mér drottningarviðtali í DV um helgina við Ross Beaty, eiganda Magma. Hreint ímyndarviðtal, samið af spunakarli, ekki blaðamanni. Engar óþægilegar spurningar koma fram í viðtalinu. Samkvæmt viðtalinu er Beaty einn af stóru spámönnunum. Samt er samfélagið á hvolfi út af Magma. Beaty fór kringum lög með því að stofna gervifyrirtæki í skúffu í Svíþjóð. Um siðferðið átti að ræða. Illa er komið fyrir þjóðinni, ef viðtal DV er framtíð fjölmiðlunar. Minnir á, að Ríkisútvarpið hefur sett auglýsingastjóra í dagskrárráð. Breyting fjölmiðla í hóruhús gerist á mörgum stöðum í senn.

Egill og Ríkisútvarpið

Fjölmiðlun

Sumir erlendir fjölmiðlar vilja, að blaðamenn bloggi, aðrir ekki. Útvarpið ætti að hafa bloggsvæði fyrir starfsmenn til að ná til sín netnotkun. En svo er ekki og Egill bloggar hjá Eyjunni. Þar styður hvað annað, þáttastjórn í sjónvarpinu og blogg á Eyjunni. Báðir fjölmiðlar græða. Silfur Egils hefur verið hornsteinn umræðunnar frá hruni. Og í blogginu hefur Egill birt úrval fínna greina fólks út í bæ. Af hvorugu megum við missa. Ríkisútvarpið á að hafa vit á að hafa hvort tveggja á sínum snærum. Það gæti líka á fleiri vegu gert frábæra hluti í tengslum við blogg og fésbók. Þar er umræða dagsins.

Boltaleikir gegn gjaldi

Fjölmiðlun

Engin furða er, að notkun sjónvarpsfrétta minnkar, þegar ekki er að hægt að treysta föstum fréttatímum. Til skamms tíma voru fréttatímar heilagur þáttur sólarhringsins. Sjónvarp frá boltaleikjum hefur rutt hefðinni til hliðar. Áhugi á boltaleikjum er þó sérhæfður, til dæmis þekki ég engan, sem horfir á heimsleika í fótbolta. Þjónusta við þessa áhorfendur á að vera á sérstakri rás eða rásum, sem þeir borga sjálfir. Almenningur á að geta haft sínar fréttir í friði. Ríkisútvarp má ekki verja skattfé til að sýna boltaleiki. Þeir peningar eiga bara að fara í að halda uppi traustri fréttaþjónustu.

Lesbókin dó úr félagsspeki

Fjölmiðlun

Lesbók Moggans dó í höndunum á Þresti Helgasyni, sem var ritstjóri hennar í átta ár. Góðviljaðir sögðu tímaritið vera postmodern, aðrir sögðu það vera greinasafn fólks, sem hugsaði í hringi. Var fullt af hugtökum og slagorðum úr félagsspeki, sósíólógíu: Reynsluheimur, hliðarsjálf, arkífismi, rafrænt sjálf o.s.frv. Var leiðinlegasta tímarit landsins. Að lokum sáu ritstjórar Moggans ekki tilgang í að halda þessu úti. Létu Þröst hætta og gáfust síðan upp á tímaritinu. Enda geta félagsspekingar kverúlerað heima hjá sér á eigin kostnað. Og látið hina um blaðaútgáfu, sem geta skilað sómasamlegum arði.

Hvalrekinn rekinn

Fjölmiðlun

Gunnar Lárus Hjálmarsson, öðru nafni dr. Gunni, er einn allra bezti stílisti landsins. Ég hef löngum glaðst yfir hnitmiðuðum og beinskeyttum texta hans í blogginu. Líka er hann einn af fáum, sem sinnir neytendamálum og heldur úti einstæðri bloggsíðu um þau. Frægastur er hann þó fyrir skrif sín um popp og þáttöku í sjónvarpsþáttum um tónlist. Að öllu samanlögðu er hann einn mesti hvalreki blaðamennskunnar á þessum áratug. Honum hefur nú verið sagt upp störfum á Fréttablaðinu. Hafa má það til marks um dvínandi gengi blaðsins sem fjölmiðils. Við hlutverki hans taka óskrifandi unglingar. Að venju.

Ólafur er umbi hrunsins

Fjölmiðlun

Gegnum Gunnar Stein Pálsson almannatengil er Ólafur Arnarson bloggari á launum hjá stórfyrirtækjum úr hruninu. Ólafi er auðvitað velkomið að birta skoðanir á málum hrunsins. En hann má ekki sigla undir fölsku flaggi sem álitsgjafi í bloggi og fjölmiðlum. Hann þarf að gangast við, hver hann er og hvaða hagsmuna hann er að gæta. Síðustu vikur er greinilegt, að Ólafur er í vörn fyrir ýmsa helztu dólga hrunsins. Hann dettur því úr hópi álitsgjafa og fer beint í ruslakistu almannatengla. Í nútíma þarf allt að vera gegnsætt og uppi á borði. Varið ykkur því á Ólafi Arnarsyni, hann er umbi hrunsins.

Geta ekki stokkið á vefinn

Fjölmiðlun

Seattle Post-Intelligencer er dæmi um, að stökk dagblaða af pappír yfir á vefinn gengur ekki upp. Dagblað á vef kemur ekki í stað dagblaðs á pappír. Samt eru dagblöð dauðans matur á Vesturlöndum. Geta ekki keppt við vefinn, sem tók af þeim smáauglýsingar fyrir mörgum árum. Sé flótti á vefinn ekki lausn, hver er hún þá? Sérhæfð blöð eru möguleiki, samanber viðskiptablöð og íþróttablöð. Dagblöðin verða að fara út fyrir kassann, hugsa dæmið upp á nýtt, finna sér nýja hillu eða takmarka sig við þá hillu, sem þau kunna bezt. Fríblöð eru ein leið. Grapevine er önnur. Sunnlenska er þriðja leiðin.

Stærsta kaffihús í heimi

Fjölmiðlun

Fólk skrifar hvorki blogg né fésbók í limbói. Flest mitt blogg kviknar af orði, sem ég sé í bloggi og þó einkum fésbók. Renni daglega augum yfir skrif 80 bloggara og 600 fésbókara. Þar sé ég, hvað er til umræðu og hvaða hughrif eru þar í gangi. Hver hugsun leiðir af annarri. Fyrir mér er blogg og fésbók eitt risavaxið kaffihús, þar sem hver talar ofan í annan. Flest fer inn um annað eyrað og út um hitt. En í bland eru gullkorn, sem festast í minni. Umræða í samfélaginu hefur öðlazt áður óþekkta vídd og þó fyrst og fremst áður óþekkt magn. Ekkert er eins og áður var eftir komu bloggs og fésbókar.

Óskar Hrafn Þorvaldsson

Fjölmiðlun

Mikil eftirsjá er að Óskari Hrafni Þorvaldssyni sem fréttastjóra Stöðvar 2 og Vísis. Hann er mjög fínn fréttamaður og hefur næmt auga fyrir áhugamálum almennings. Hann reyndi að reka fréttastofuna óháð hagsmunum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og annarra eigenda hennar. Erfitt verður fyrir nýjan mann að verjast frekum gullætum. Ef fólk styður frjálsa og óháða fjölmiðlun, utan fyrirferðarmikilla hagsmuna, á það að segja upp Stöð 2. Eins og menn hafa væntanlega áður sagt upp Mogganum, þegar hann varð málgagn kvótagreifa og Davíðs Oddssonar. Hefðbundin fjölmiðlun á við aukið andstreymi að stríða.

Áttatíu bloggarar

Fjölmiðlun

Á blogg.gattin.is haka ég við nöfn áttatíu bloggara, sem ég les daglega. Mér finnst þeir spanna umræðuna. Þeir eru í stafrófsröð: Andrés Jónsson, Andrés Magnússon, Andri Geir Arinbjarnarson, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Árni Snævarr, Áslaug Ósk Hinriksdóttir, Baggalútur, Baldur Hermannsson, Baldur McQueen, Bergsteinn Sigurðsson, Birgitta Jónsdóttir, Björgvin Valur Guðmundsson, Björn Birgisson, Björn Ingi Hrafnsson, Dr. Gunni, Egill Helgason, Eiður Svanberg Guðnason, Einar Guðjónsson, Einar Kárason, Eiríkur Bergmann Einarsson, Eiríkur Jónsson, Erling Ólafsson, Friðjón R. Friðjónsson, Friðrik Þór Guðmundsson, Friðrik Skúlason, Gauti B. Eggertsson, Guðbjörg Hildur Kolbeins, Guðmundur Gunnarsson, Guðmundur Magnússon, Hallgrímur Thorst, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Hans Haraldsson, Hákon Jóhannesson, Henrý Þór Baldursson, Henry Birgir Gunnarsson, Illugi Jökulsson, Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, Jenný Anna Baldursdóttir, Jens Guð, Jóhann Hauksson, Jón Baldvin Hannibalsson, Kaffistofan, Kryppan, Lára Hanna Einarsdóttir, Mörður Árnason, Nanna Rögnvaldsdóttir, Okursíða Dr. Gunna, Orðið á götunni, Ólína Þorvarðardóttir, Ómar Ragnarsson, Ómar Valdimarsson, Páll Ásgeir Ásgeirsson, Páll Vilhjálmsson, Pétur Tyrfingsson, Pjetur Hafstein Lárusson, Salvör Gissurardóttir, Sandkorn DV, Sigurður Þór Guðjónsson, Sigurður Sigurðarson, Sigurjón M. Egilsson, Sigmundur Ernir, Símon Birgisson, Sóley Tómadóttir, Stefán Pálsson, Sverrir Jakobsson, Sverrir Stormsker, Sölvi Tryggvason, Teitur Atlason, Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, Vilhjálmur Þorsteinsson, Þór Jóhannesson, Þórarinn Þórarinsson, Þráinn Bertelsson, Ögmundur Jónasson, Össur Skarphéðinsson.

Hver hefur sitt ræðupúlt

Fjölmiðlun

Sem ritstjóri sinnar síðu ber bloggari ábyrgð á nafnlausum athugasemdum, sem þar birtast. Ég leysi málið með því að leyfa engar athugasemdir. Egill Helgason ritstýrir sínum vel, en fórnar í það miklum tíma. Ég er latari en hann. Þar sem ég leyfi ekki athugasemdir, geri ég ekki heldur athugasemdir undir skrifum annarra. Ég tel bloggið á Íslandi vera orðið nógu þroskað og tæknin nógu þroskuð til að hver geti haft sitt eigið ræðupúlt. Ég fylgist daglega með bloggi sjötíu manna. En ég les aldrei athugasemdir, sem fylgja neðan við það eða undir sérstökum hnappi á síðunni. Hver hefur sinn smekk.

Röng kenning Magnúsar Scheving

Fjölmiðlun

Magnús Scheving segir, að blaðamenn eigi að hlúa að íslenzkum bisness. Þýðir að þeir eigi að skrifa vel um hann. Ekki minnst á fjárhagslega erfiðleika, sem steðji að öllum fyrirtækjum. Sama sagði Birna Einarsdóttir bankastjóri í Sannleiksskýrslunni. Bíðið nú aðeins. Er ekki talið, að jákvæðni íslenzkra fjölmiðla í garð útrásarinnar hafi átt þátt í að blekkja þjóðina? Ekki er hvort tveggja hægt í senn að eiga kökuna og éta hana. Til lengdar skaðast Ísland af silkimjúkum skrifum fjölmiðla, því að þau glata trausti, þegar þau reynast byggð á sandi. Fjölmiðlar eiga ekki að þegja um fjárhagserfiðleika.