Fjölmiðlun

Allir með sömu fyrirsögnina

Fjölmiðlun

Kíkti aðeins á erlendar fréttir á Google út af skýrslunni: Telegraph, BBC, Associated Press, Financial Times, Reuters, AFP, Guardian og margir fleiri fjölmiðlar. Allir voru þeir með sama þátt málsins í fyrirsögn: Fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi seðlabankastjóri sakaðir um vanrækslu. Þetta er sá eini punktur, sem allir erlendir fjölmiðlar voru sammála um að væri stóra fréttin í skýrslu sannleiksnefndarinnar.

Gott er að geta treyst

Fjölmiðlun

Mér hlýnar um hjartarætur af lestri DV síðustu misseri. Frábært er, hvernig Reynir Traustason og félagar höndla mitt gamla blað. Núna er það orðið eina dagblaðið, sem lesandi er. Hin duga bara í veðurfréttir og sauðburð. Vonandi ber Árvakur það út sem oftast til mín, oftar en einu sinni í viku. DV birtir hvert skúbbið á fætur öðru, skúbb sem meginmáli skipta, sem fletta ofan af svindli. Þar á ofan losnaði blaðið undan eignarhaldi, sem orkaði tvímælis. Það er núna komið í eigu Reynis og fólks, sem er hreint af aurnum, er Davíð og útrásarvíkingarnir ötuðu þjóðina. Gott er að geta treyst einhverjum.

Slúðurblað ber af öðrum

Fjölmiðlun

Bandaríska slúðurblaðið National Enquirer er tilnefnt til Pulitzer-verðlauna fyrir fréttir af framhjáhaldi John Edwards forsetaframbjóðanda. Reiknaði meira að segja barn í viðhaldið, sem reyndist síðar vera satt. Edwards hafði þindarlaust logið um sambandið og féll á því. Engir bandarískir fjölmiðlar tóku upp málið. Enquirer var eitt um það. Snobbaðir Bandaríkjamenn fyrirlíta blaðið og segja ekki satt orð í því. Oft hefur þó komið í ljós, að slúðrið er dagsatt. Einnig hafa komið til sögu vefmiðlar, svo sem Drudge Report. Rannsóknavinna slíkra miðla ber af hefðbundnum fjölmiðlum virðulegum.

Flestir bloggarar óháðir

Fjölmiðlun

Fyrst var mest lesna bloggið á vegum dagblaða, einkum Mogga. Hann lét undan síga, á nú aðeins 10% af vinsæla blogginu. Vísir bilaði líka og á enn minni þátt í vinsælu bloggi. DV sótti sig hins vegar í veðrið upp í 20% af vinsæla blogginu. Á svipuðu róli er Eyjan. Óháðir bloggarar eru orðnir fjölmennastir með þriðjung af lestri. Þetta eru grófar slumptölur, byggðar á vinsældalista á blogg.gattin.is. Með hjálp RSS-bloggsafnara nærðu í alla vinsæla bloggara á færibandi án þess að fletta upp hverjum fyrir sig. Blogg.gattin.is er slíkur safnari. Þú velur af lista yfir bloggara, setur inn á þitt færiband.

Við þurfum ruddalegri skrif

Fjölmiðlun

Bankahrunið sýndi, að umræðan í samfélaginu var áður of orðvör. Við vorum ekki nógu brútal í skrifum. Þjóðfélagið var of teprulegt. Tilefni voru og eru til að kveða fastar að orði og það gerir internetið vel. Umræðan er því gerbreytt. Bloggið hefur tekið við af greinum í dagblöðum. Þar er notað orðbragð, sem hæfir ljótum heimi. Hugtakið einkalíf er líka orðið þrengra. Það nær ekki lengur til fjármála. Núna er hlegið að “bankaleynd”, því að fólk sér, að hún er bara skálkaskjól. Netið hefur víkkað út velsæmismörk og það er fínt. Við þurfum ruddalegri skrif um inngróinn skítinn í samfélaginu.

Fésbók er góður gervivinur

Fjölmiðlun

Sumir hafa til marks um hættur Fésbókar, að tvær ástralskar systur fréttu þar af dauða bróður síns. Eina fréttin í þeirri sögu er lélegt samband innan sumra fjölskyldna í raunheimi. Gerviheimur Fésbókar kemur oft til bjargar, þegar önnur sambönd bila. Lastið ekki Fésbók, hún er fínt færi til að hafa samband við fjarverandi vini og kunningja. Hún býr til gervivini fyrir þá, sem fáa eða enga hafa í raunheimi. Menn mega bara ekki ímynda sér, að þeir hafi einkalíf á Fésbók. Þeir eru þar í persónulegum fjölmiðli. Þeir útvarpa þar persónu sinni eða meintri persónu. Og Fésbók velti IceSave, mikið afrek.

Opinn leyniskjalabanki

Fjölmiðlun

Frábærar eru hugmyndir um að koma hér upp jarðvegi fyrir birtingu skjala, sem haldið er leyndum fyrir almenningi. Fyrirmyndin er Wikileaks, sem birti lánabók Kaupþings. Við þurfum að koma upp hliðstæðu safni. Án þess að armur réttvísinnar elti þá uppi, sem afla slíks efnis eða koma því á vefinn. Hins vegar finnst mér aðstandendur hugmyndarinnar gera sér of háa hugmynd um, að árangur náist með þingsályktun. Þær eru viljayfirlýsingar þingmanna, sem sjaldnast leiða til lagafrumvarpa. Miklu nær er að leggja fram lagafrumvarp, sem beinlínis bannar afskipti kerfisins af opnum gagnabönkum leyniskjala.

Verkaskipti bloggs og fésbókar

Fjölmiðlun

60 bloggarar eiga um 70% af lestri bloggs. Flestir hafa þeir eitthvað til málanna að leggja. Margir eru fljótir að taka afstöðu til aðvífandi mála. Hálftími fer á dag í að lesa þetta blogg, sem er uppbyggilegra en hálftími í lestri blaðagreina. Blogg er orðið þroskaður vettvangur skoðanaskipta. Blogg fyrir ættingja og vini er á undanhaldi og unga fólkið er lítið í bloggi. Þetta fólk er komið á fésbók og talar þar við ættingja, vini og kunningja. Þar útvarpar fólk persónu sinni og þar er stemmningin. Þar var IceSave kolfellt. Skýr er verkaskipting skoðana í bloggi og stemmningar á fésbók.

Hatur dómara á blaðamönnum

Fjölmiðlun

Katrín Jakobsdóttir sýnir frumvarp um fjölmiðla, sem ver blaðamenn gegn ýmsu hatri dómara. Lögin stöðva, að þeir dæmi blaðamenn fyrir ummæli viðmælenda. Núverandi lög gera þó ráð fyrir, að fyrst sé leitað að höfundi; síðan að blaðamanni, ef höfundur finnst ekki. Þá að ritstjóra, ef blaðamaður finnst ekki; að útgefanda, ef ritstjóri er flúinn til Ameríku; og loks að prentara, ef útgefandi er líka horfinn. Úr því að þau lög halda ekki, þarf að hnykkja á þeim. Dómarar hafa síðustu ár farið víðar út fyrir lög, til dæmis gert fjármál að einkamálum. Fyrir hrun lögðu þeir stein í götu skrifa um fjármál.

Dómarar smíðuðu skrímslið

Fjölmiðlun

Gott er að fá lög, sem hindra dómara í að dæma blaðamenn fyrir ummæli viðmælenda. Enn brýnna er að hindra dómara í að túlka fjármál sem einkalíf manna. Með því hindruðu dómarar eðlileg skrif um fjármál útrásarmanna. Brýnast af öllu er að skilgreina bankaleynd að nýju. Við búum við kerfi fjármála, banka, einkamála og leyndar, sem gerði fjármálageirann í heild að skrímsli. Blaðamenn gátu ekki lýst inn í kerfið, því að dómarar refsuðu þeim fyrir það. Kanna þarf dóma yfir blaðamönnum síðasta áratuginn til að finna, hvernig hægt sé að hindra hliðstætt framferði dómara í framtíðinni.

Hver má birta stolin gögn?

Fjölmiðlun

Wikileaks liggur niðri þessar vikur af fjárhagsástæðum. Því birtust gögnin um Milestone ekki þar, utan lögsögu Íslands. Þau birtust hins vegar í DV, innan lögsögu Íslands. Því velta menn fyrir sér, hvernig þau komust þangað. Líka þeir, sem létu sér í léttu rúmi liggja, hvernig íslenzk gögn komust til Wikileaks. Væntanlega voru flest gögn stolin, sem birtust þar. Þar með talin lánabók Kaupþings. Eins og talið er, að Milestone gögnin séu stolin. Birting uppljóstrana úr þeim gögnum er líka mikilvæg fyrir almenning. Þau sýna rotin fjármál. Fólk sér þar, að bankarnir voru herfilega misnotaðir í þágu skúrka.

Silkihúfur sitja sem fastast

Fjölmiðlun

Fimmtán fréttamönnum Ríkisútvarpsins var sagt upp til sparnaðar og einum í markaðsdeild. Eftir það starfa 25 á markaðsdeildinni. Í rúman áratug hafa markaðsmál verið alfa og ómega fjölmiðla. Ráðnir hafa verið markaðsstjórar, atburðastjórnendur, almannatenglar, blaðurfulltrúar, gulmiðafræðingar og ímyndunarstjórar. Yfirleitt á hærra kaupi en blaðamenn. Þessir sérfræðingar í sjónhverfingum sjúga fjármagnið úr fjölmiðlum og gera þeim ókleift að hafa blaðamenn í vinnu. Ríkisútvarpið er í sama vítahring og aðrir fjölmiðlar okkar. Vinnandi starfsmenn eru slegnir af, en silkihúfur sitja sem fastast.

Stríð um minningargreinar

Fjölmiðlun

Fréttablaðið ræðst í dag á síðasta vígi Moggans. Tvær minningargreinar eru birtar og hótað fleirum. Ef árásin tekst, er þetta síðasta orrusta Moggans í dauðastríðinu. Margir segja mér, að greinarnar séu það eina, sem kalli á tryggð þeirra við blaðið. Skondið er, að mesta lygin í Mogganum skuli vera síðasta haldreipi blaðsins. Mogginn var ætíð sorprit, sem birti eða birti ekki efni af sértækum ástæðum. Þessar greinar voru samt alltaf mesta lygin. Þar var mannkostum troðið upp á látið fólk. Nú er tími þessa oflofs að verða liðinn. Málefnalegri greinar í Fréttablaðinu taka loksins við kyndlinum.

Fésbók er ekki einkalíf

Fjölmiðlun

Fésbók er sumpart áróður. Þannig talar Hrannar Arnarson á fésbókinni. Hún er líka auglýsing. Höfundar auglýsa þar bækur og diska. Og bloggarar kynna þar bloggið sitt. Fésbók er laus við að vera eitthvert einkalíf. Að vísu geta menn notað stillingar á “privacy settings” til að forðast snuðrara. Til að loka fyrir myndir og skoðanir til dæmis. En gera það fæstir. Ráðningarstofur og vinnuveitendur lesa fésbókina. Einkum er fésbókin fínt tæki til að hefja stemmningu til vegs. Ég fæ daglega óskir um að taka þátt í hinu og þessu átaki. Frægasta dæmið er áskorunin á forsetann um að synja IceSave-ábyrgð.

Skerið frekar uppi í turni

Fjölmiðlun

Ríkisútvarpið þarf sennilega að skera fleiri störf til þess að ná jafnvægi í rekstri. Þá er skynsamlegt að líta á fólkið uppi í turni. Fremur en á þá, sem starfa á gólfinu á jarðhæð og í kjallara. Rekstrarumhverfi er breytingum háð og víða er tímabært að minnka yfirbyggingar. Fréttastofan var hornsteinn stofnunarinnar og verður hornsteinn hennar áfram. Rýrð áherzla annarra aðila á hefðbundna fréttamennsku setur auknar skyldur á herðar Ríkisútvarpsins á því sviði. Spara má störf þarna án þess að skera meira niður í fréttum og fréttatengdu efni. Gott ráð er að fækka silkihúfum uppi í turni Efstaleitis.