Fjölmiðlun

Fésbók er opinbert eldhús

Fjölmiðlun

Aðstoðarmaður forsætisráðherra getur ekki verið prívat á Fésbók með 1733 (!) vinum. Reynslan sýnir, að Fésbók er opinbert eldhús. Hrannar Björn Arnarson er valdamaður með raðhneyksli á bakinu. Gerði í ágúst grín að Evu Joly og nú að Ólafi Ragnari. Þetta gengur ekki. Ríkisstjórnin hefur næg vandamál, þótt hún burðist ekki með Hrannar á bakinu, erkitýpu blaður-fulltrúans. Venjulegt fólk má gera grín að hverjum sem er, en almannatengill forsætisráðherrans má það ekki. Þetta er alvarlegra vegna þess, að Jóhanna forsætis er mannafæla. Hún forðast að koma fram fyrir hönd Íslands og styðst við aðstoðarmennina.

Google ögrar harðstjórum

Fjölmiðlun

Google hefur ákveðið að hætta ritskoðun leitar á vefnum í Kína. Neitar að taka þátt í kínverska stríðinu gegn upplýsingum til almennings. Fyrirtækið hefur til dæmis síað út texta um mannréttindi og fjöldamorðin á Torgi hins himneska friðar. Mörg fyrirtæki í upplýsingatækni beygja sig undir kröfur kínverskra stjórnvalda og Google var eitt þeirra. Hefur sætt meira ámæli en önnur, því að ritskoðun stríðir gegn einkunnarorðum þess, “Don´t be evil.” Nú má búast við, að Google verði rekið frá Kína. Aðgerð þess gegn ritskoðun í Kína, stærsta internet-lands í heimi, er fágætur sigur fyrir mannréttindi.

Mogginn er lifandi lík

Fjölmiðlun

Fréttablaðið lifir af kreppuna. Ekkert í rekstri blaðsins hindrar það í að laga sig að fjárhagslegum aðstæðum í samfélaginu. Ef blaðið er látið þenjast út og inn í samræmi við auglýsingar, á það að geta lifað af. Öðru máli gegnir um seldu blöðin. Morgunblaðið er hvorki betra né lakara sorprit en það var, en fylgið hrynur af því. Ekki bara vegna Davíðs. Ungt fólk kaupir ekki Moggann og mun aldrei gera það. Ofsalegt tap er á blaðinu. Svo mun áfram verða, þangað til það rekst aftur á bankavegginn. Meiri líkur eru á, að DV lifi. Fjárhagsdæmi þess miðast við að lifa af við mun þrengri kost.

Gamall minnisleki minn

Fjölmiðlun

Rétt er hjá Friðjóni R. Friðjónssyni, að slæmur minnisleki varð hjá mér í starfsögunni “Frjáls og óháður”. Frásögnin af samskiptum mínum og Magnúsar Óskarssonar borgarlögmanns við Birgi Ísleif Gunnarsson borgarstjóra er rangt tímasett. Voru ekki fyrir kosningarnar 1982, heldur kosningarnar 1978. Að öðru leysi stendur sagan eins og hún er sögð í bókinni. Raunar hefur alltaf verið galli við minnið, að ég hef átt erfitt með að tímasetja atburði langt aftur í tímann. Man atburðarásina, en ekki tímasetningarnar. Oft þarf ég að fara í aðrar heimildir til að finna rétta tímann. Það kom ekki með ellinni.

Villurnar þrjár og allar hinar

Fjölmiðlun

Var staðinn að ártalsvillu í nýútkominni bók minni, “Frjáls og óháður”, vont mál. Einu sinni skrifaði ég tíu bækur um erlendar ferðaborgir. Í bókinni um París var þýðingarvilla í nafni verzlunar. Hannesi Hólmsteini er sú villa minnisstæð. Dýrasta villan var þó í fjórtán binda bókaflokki mínum um hesta. Þar voru tugþúsundir einkunna og ein reyndist vera röng. Það sá Sigurður Sigmundsson hestaljósmyndari og græddi af mér viskíflösku. Ótaldar eru þær villur mínar, sem fáir hafa gómað. Til dæmis skrifaði ég um Gordon Brown og kallaði hann George Brown. Hannes Smárason kallaði ég Hannes Flosason.

Hrokinn í plögginu

Fjölmiðlun

Kastljósið er hrokafullur þáttur, ríki í ríkinu. Hefur að undanförnu mest snúizt um plögg í þágu ýmissa vina, sem selja vörur og þjónustu fyrir jólin. Inn á milli slíkra auglýsinga var svo skotið sérkennilegri árás á Ögmund Jónasson þingmann. Allir álitsgjafar, ALLIR, eru sammála um, að það var með öllu ómakleg árás. Samt hefur hrokagengi Kastljóss ekki beðizt afsökunar. Það heldur áfram eins og ekkert sé. Þannig er bara lífið í dag, hrokagikkir og tuddar ráða ferðinni. Árið 2007 lifir enn í sálarlífi margra. Fólk verður að venja sig við, að afneitun er eitt allra öflugasta tæki nútímamannsins.

Vandræðin með nafnleysingja

Fjölmiðlun

Nánast daglega les ég málefnalegar kvartanir um nafnlausar athugsemdir undir bloggi og veffréttum. Kvartarar telja þær ekki frambærilegar og draga umræðu niður á lágt plan. Ég hef aldrei átt í þessum erfiðleikum. Les aldrei athugasemdir undir bloggi og veffréttum. Hef nóg með að lesa stórflóð af gáfulegu bloggi nafngreinds fólks. Það finn ég á vefsöfnurum á borð við blogg.gattin.is. Hitt er bara tímaeyðsla. Menn geta auðveldlega gert slíkt hið sama. Þar á ofan geta bloggarar og vefmiðlar lokað fyrir athugasemdir. Sé ekki betur en, að sérhver geti gert athugasemdir á sínu eigin vefsvæði.

Einstæð vínfrétt

Fjölmiðlun

Ögmundur Jónasson baðst undan komu í Kastljós í gær. Hefði drukkið vínglas með matnum. Fór síðan á kvöldfund Alþingis og greiddi atkvæði. Ríkisútvarpið sagði frá. Var það hefnd fyrir að koma ekki í Kastljósið? Mun Ríkisútvarpið hér eftir fylgjast með matardrykk þingmanna og gefa okkur daglega skýrslu um hann? Ef þetta er einhver siðvæðing á vegum fjölmiðilsins, hluti af stærri heild, getur hún gengið. Sem árás á einn þingmann er hún út í hött. Þúsundir fá sér bjór eða vínglas með mat án þess að vera hengdir út til þerris í fjölmiðli. Fyllerí og rugl er annað mál. Hvað ætlast Ríkisútvarpið fyrir?

Hvar voru blaðamennirnir?

Fjölmiðlun

Aðeins einn blaðamaður var við málflutning fyrsta svindlmáls bankahrunsins. Lofar ekki góðu um frammistöðu fjölmiðla næstu misserin. Blaðamaðurinn var Magnús Halldórsson á Viðskiptablaðinu. Birti þar greinargott yfirlit um málflutning. Hvar voru dagblöð, hvar var útvarp og sjónvarp? Vitni sögðu, að Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri hefði setið fundi samráðshóps um stöðu bankanna mánuðum saman fyrir bankahrun. Þar fékk hann að vita, að bankarnir væru að hrynja. Þar lagði hann til, að þjóðinni yrði ekki skýrt frá hruninu. Seldi sjálfur bankahlutabréfin sín við fyrsta tækifæri. Hinn sanni innherji.

Brezkir dómar ógildir

Fjölmiðlun

Frá því fyrir rúmum fjórum árum hef ég sjö sinnum tekið málstað Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Alltaf í málaferlum Jóns Ólafssonar gegn honum. Vil ítreka, að nauðsynlegt er að setja lög um, að brezkir meiðyrðadómar gildi ekki hér. Séu ekki aðfararhæfir. Það hefur sums staðar verið gert í Bandaríkjunum. Ástandið í dómhúsum Bretlands er orðið svo hrikalegt, að auðmenn heimsins hlaupa þangað til að gera gagnrýnendur gjaldþrota. Hannes Hólmsteinn bloggar í dag um, að hann hafi orðið fyrir meira en tuttugu milljón króna kostnaði vegna þessa máls. Það er náttúrlega út í Hróa hött.

Opinbera trúarstofnunin

Fjölmiðlun

Bar aldrei virðingu fyrir Mogganum í gamla daga. Vissi of mikið um fréttir, sem blaðið birti ekki af pólitískum og öðrum ástæðum. Fyrirleit þá, sem sníktu sér gott veður þar á bæ. Var hissa á vinstri pólitíkusum, sem álitu heimsókn á miðilsfundi Styrmis Gunnarssonar vera þrep á framabraut sinni. Mogginn var að mínu viti ekki fjölmiðill, heldur opinber stofnun með ívafi trúar. Þar voru ritstjórarnir æðstu prestar. Þótt ég skrifaði yfir tuttugu bækur, voru þær aldrei nefndar í Mogganum. Því að ég átti að koma skríðandi til Styrmis eða Matthíasar, sem ég gerði ekki. Ég skil ekki hátt álit manna á Mogganum. (Úr bókinni: Jónas Kristjánsson: Frjáls og Óháður)

Fréttaflutningur á netinu

Fjölmiðlun

Twitter er ofmetið sem fréttatæki. Forritið er sagt hafa verið mikilvægt í fréttum af uppþotum í Kína, Guatemala og Moldavíu. Athuganir hafa þó sýnt, að Facebook og YouTube og Wikipedia eru mikilvægari tæki til fréttaflutnings af fjarlægum atburðum. Fjölmiðlar og fréttastofur hafa fækkað fréttamönnum erlendis og lokað útibúum. Í staðinn er treyst á fréttaflutning heimamanna, sem nota ýmsa tækni internetsins við að koma upplýsingum á framfæri. Oft gegn tilburðum stjórnvalda til ritskoðunar. Til dæmis var Wikipedia uppfært 900 sinnum á tæpum sólarhring um hryðjuverkin í Mumbai í Indlandi fyrir ári.

Ástarbréf Indriða og Flanagans

Fjölmiðlun

Birting tölvubréfa Indriða H. Þorlákssonar og Mark Flanagan staðfestir, að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn er handrukkari Bretlands og Hollands. Við vissum það raunar áður, en sjóðurinn hefur reynt að ljúga sig klaufalega út úr því. Flanagan segir “erfitt” að þoka áfram lánum til Íslands meðan IceSave sé óafgreitt. Birtingin segir okkur líka, að Indriði reynir að fara fram hjá skjalaskráningar-skyldu stjórnvalda með því að nota einkapóstfang sitt úti í bæ. Hann svindlar, hefði verið sagt í gamla daga. Merkast við póstinn er þó, að hann skuli vera birtur. Wikileaks þrengir flott að leynimakki valdamanna.

Kosið um IceSave á þriðjudag

Fjölmiðlun

Aðeins einn frétta-vefmiðill birti í gærkvöldi aðalfréttina um málþófið á Alþingi. Það var vefur ríkisútvarpsins. Hann sagði kl. 22:37 frá skriflegu samkomulagi um atkvæðagreiðslu um IceSave á þriðjudaginn. Þá verður kosið um að vísa málinu til nefndar og síðustu umræðu. Þar með er búið að semja um endalok málþófsins. Aðrir vefmiðlar misstu af aðalfréttinni. Mogginn sagði 22:19 og Eyjan 22:00, að stjórnarflokkarnir hefðu bakkað og hleypt öðrum málum fram fyrir IceSave. En málsaðilar sömdu um alla meðferð þingmála næstu daga og um endalok málþófsins. Stóra fréttin segir, hvenær málþófinu lýkur.

Reknir fyrir að fótósjoppa

Fjölmiðlun

Mér fundust skrítnar landslagsmyndirnar í Iceland Review, sem ýktu bratta og nálægð fjalla. Sýndu ekki íslenzkt landslag, heldur ímyndað. Þá notuðu menn fjarlægðarlinsur. Nú nota menn Photoshop til að falsa myndir. Ísraelska fréttablaðið Yated Neeman fótósjoppar alltaf út ráðherrana Limor Livnat og Sofa Landver, því að þeir eru konur. Le Figaro fótósjoppaði út demantshring ráðherrans Rachida Dati. Náttúrulífsmyndir eru gerðar óeðlilega grænar, til dæmis af Machu Picchu í Perú. Alvöru dagblöð úti í heimi eru farin að átta sig á þessum vanda. Fréttaljósmyndarar eru núna reknir fyrir að fótósjoppa.