Fjölmiðlun

Sendiherrar út á fjárframlög

Fjölmiðlun

Barack Obama hefur ráðið tugi greiðvikinna fjármálafursta sem sendiherra víða um heiminn. Mörg veigamestu embættin lenda í höndum slíkra, þar á meðal í Bretlandi, Frakklandi og Þýzkalandi. Hefur lengi tíðkazt í bandarískri pólitík, en Obama gengur lengra í spillingu en George W. Bush. Obama hefur líka neitað að undirrita alþjóðabann við jarðsprengjum, sem 150 ríki hafa staðfest. Leggur fram lélegt tilboð um útblástur skaðlegra lofttegunda. Magnar stríðið við Afganistan. Margir voru hrifnir af ræðumennsku hans, er hann bauð sig fram. Ég sagði hins vegar þá, að hann væri ódýr kjaftaskur.

Murdoch berst við Google

Fjölmiðlun

Ég nota News.google.co.uk um það bil 50% til að fylgjast með erlendum fréttum, Guardian.co.uk 25%. Miklu betra en fyrir nokkrum árum, þegar ég fékk International Herald Tribune inn um lúguna fyrir kvöldmat. Kostaði líka morð fjár, en nú er allt frítt. Það getur flækt fyrir mér, ef Microsoft og Rupert Murdoch tekst að fá fjölmiðla til að loka fyrir Google. Fjölmiðlar Murdoch sjálfs skipta mig að vísu engu. Guardian og Independent og Telegraph eru merkari fjölmiðlar en Times. Þess vegna má Murdoch standa í bolabrögðum mín vegna. Ég hef litla trú á, að margir fjölmiðlar fylgi í kjölfar hans.

Fánýt fjölmiðlalög

Fjölmiðlun

Hef ekki trú á, að fjölmiðlalög bæti fjölmiðlana neitt. Nokkrir fá vinnu sem blýantsnagarar á Fjölmiðlastofu. Eins og ekki sé nóg til fyrir af stofnunum. Lögin stafa af hluta frá evrópskri tilskipun, sem er jafn marklaus og tollar á skriðdrekum. Sé ekki, að lögin auki neitt sjálfstæði ritstjórna. Þau setja þó skorður við eignarhaldi. Kjölfestufjárfestar eru óvinsælli en þeir voru fyrir bankahrun. Vandamál fjölmiðlanna felast ekki í skorti á tilskipunum hins opinbera. Þau felast í erfiðum fjárhag. Ný tækni hefur ýtt fjölmiðlum til hliðar og vefurinn hefur ekki skapað þeim nægilega tekjupósta í staðinn.

Ekki grær þar gras

Fjölmiðlun

Könnun háskólans á Bifröst fyrir Auglýsingamiðlun ehf. sýnir áþreifanlegar tölur: Mogginn tapaði yfir tíuþúsund kaupendum við komu hrun-greifans mikla. Davíð mun keyra blaðið í strand á mettíma eins og hann gerði Seðlabankann gjaldþrota. Hann rústaði virðingu þjóðarinnar erlendis í frægu viðtali við sjónvarpið og olli þar með uppgjöf ríkisstjórnar Flokksins. Davíð fór strax á fulla ferð á Mogganum í leiðréttingar á sagnfræði síðustu ára. Jafnframt er hann langt kominn með að slátra blaðinu í leiðinni. Ekki grær þar gras, sem hross Davíðs stígur hófi. Frábær afreksmaður, líkist Atla Húnakonungi.

Vilja borga pínulítið

Fjölmiðlun

Fjölþjóðleg skoðanakönnun leiðir í ljós, að fólk hafnar ekki alveg að greiða fyrir fréttir á vefnum. Sættir sig við að borga 400 til 900 krónur á mánuði, misjafnt eftir löndum. Lágar tölur miðað við áskriftir blaða og sjónvarps, en tölur samt. Rupert Murdoch fjölmiðlagreifi hefur lengi reynt að koma upp greiðslum fyrir vefmiðla, en ekki haft erindi sem erfiði. Auglýsingatekjur á vefnum eru undir væntingum og því líta útgefendur hýru auga til áskrifta. Murdoch segir: “Það eru ekki til nógu miklar auglýsingar í heiminum til að láta vefmiðla borga sig.” Leitin að rekstrarumhverfi vefmiðla heldur áfram.

Undraverðu sinnaskiptin

Fjölmiðlun

Fyrr munu allar ár renna upp á jökla en ritstjóri Moggans hafni klíkum. Fari að styðja gegnsæi í stjórnmálum og heimta valdið til fólksins. Svipuð undur og stórmerki hafa þó gerzt. Fyrrum ritstjóri Moggans hafnar núna klíkum, styður gegnsæi og heimtar valdið til fólksins. Betra seint en aldrei mundu sumir segja. Það er eins og Styrmir Gunnarsson hafi verið áhrifalaus á Mogganum öll sín ár. Klíkuskapur blaðsins, skortur gegnsæis og skömmtun upplýsinga til fólks hafi komið úr innréttingunum, ekki frá ritstjóranum. Undraverð sinnaskipti Styrmis minna mig á Pál postula á leið til Damaskus.

Andköf af skelfingu

Fjölmiðlun

Fréttamenn Ríkissjónvarpsins láta eins og heimsendir sé í nánd, þegar lagðir eru á örlítið eðlilegri skattar. Dag eftir dag eru þeir óðamála í fréttum út af skelfilegum skattahækkunum. Ramakveinið heldur áfram í sjónvarpinu kvöld eftir kvöld. Auðvitað með viðtölum við þá, sem eru ósáttir við sinn skatt. Hver er það ekki? Aldrei er talað við okkur hina, sem teljum þessar hækkanir í lagi eða jafnvel frábærar. Eftir breytingarnar verða skattar hér líkari því, sem er á Norðurlöndum, en þó alls ekki eins háir. Hálf þjóðin er sátt við breytingarnar, þótt fréttamenn sjónvarpsins taki andköf af skelfingu.

Tvær tegundir þvættings

Fjölmiðlun

Þáttur íslenzkrar blaðamennsku er birting þvættings eftir einn málsaðila. Það heitir kranablaðamennska, er stundum bólgnar upp í froðu, sem heitir drottningarviðtal. Dæmi er viðtal við Arnar Sigurmundsson um lífeyrissjóði. Sagði þá hafa aftur náð sömu stærð og fyrir hrun. Sannleikurinn er, að þeir hafa rýrnað um helming. Annar þáttur felst í að birta þvætting eftir tvo málsaðila, sem báðir hafa rangt fyrir sér. Dæmi um það er rifrildi Þórs Saari og Árna Páls Árnasonar um frumvarpið um skjaldborg um heimilin. Enginn er neinu nær. Fjölmiðlar reyndu ekki sjálfir að komast til botns í málinu.

Þjóðsagnapersónan Þórarinn

Fjölmiðlun

Þórarinn Þórarinsson var þjóðsagnapersóna á Tímanum. Leit stundum inn á morgnana og skrifaði þá venjulega leiðara næsta blaðs. Síðan kom hann aftur fyrir eða eftir fimmbíó og las prófarkir af leiðara. Herbergið hans var fremst á ritstjórnarganginum og ég man ekki eftir því, að hann hafi stigið fæti lengra. Hann bauð engan velkominn til starfa og kvaddi engan. Hann var alveg lokaður inni með leiðara sínum og öðrum skrifum um flokkspólitík. Ég kom nokkrum sinnum inn til hans og var hann þá hinn alúðlegasti. En aldrei vildi hann tala um nein fagleg málefni blaðsins. (Úr bókinni: Jónas Kristjánsson: Frjáls og Óháður, 2009)

Sá ekki gegnum Björn

Fjölmiðlun

Indriði G. Þorsteinsson, ritstjóri Tímans, samþykkti aldrei tillögur fólks um uppslætti. Björn Þ. Guðmundsson, síðar lagaprófessor, skrifaði erlendar fréttir. Þegar hann var búinn að því og velja aðalfrétt, skrifaði hann aðra til vara. Með hana fór hann niður til Indriða, sagði hana vænlega aðalfrétt. Það fannst Indriða ótækt og spurði, hvort ekkert væri til skárra. Björn minntist þá á málið í földu fréttinni. Indriða leizt vel á það, Björn fór upp og beið í tíu mínútur. Kom svo með fréttina, sem hann hafði alltaf ætlað í uppslátt. Indriði varð kátur og áttaði sig aldrei á sjónhverfingunni. (Úr bókinni: Jónas Kristjánsson: Frjáls og Óháður, 2009)

Skotinn pínulítið í fótinn

Fjölmiðlun

Einu sinni kom Jökull Jakobsson á kvöldvaktina hjá mér. Var með eitthvað, sem líktist riffli. Með ógnarhraða barst sú frétt í prentsmiðjuna, að Jökull væri á leiðinni og ætlaði að skjóta Tedda prentara. Hvers vegna vissi ég ekki og veit ekki enn. Jökull kom hávær inn í prentsmiðjuna og spurði: “Hvar er Teddi”. Prentarinn sá sér þann kost vænstan að skríða undir prentvélina og fela sig þar. Þegar Jökull áttaði sig á, hvers kyns var, kallaði hann: “Komdu Teddi, ég ætla bara að skjóta þig pínulítið í fótinn.” (Úr bókinni: Jónas Kristjánsson: Frjáls og Óháður, 2009)

Seríalt eða parallelt

Fjölmiðlun

Útvarpið var því miður í gangi í ræktinni í morgun. Neyddist til að heyra sjálfvirka gladíatora slást á Bylgjunni. Ekki veit ég, hverjir hafa gaman af efni, sem felst í gaggi og góli pólitísks eða hagfræðilegs ofsatrúarfólks. Að minnsta kosti kemur innihaldið engum að gagni. Þú hættir að heyra það og ekkert kemst í eyrun nema gaggið og gólið. Allt annað var að heyra viðtal á sömu stöð við mann, sem flytur inn bíla eða flytur þá ekki inn. Kannski finnst þáttastjórum flott að láta fólk rífast eins og hunda og ketti. En það er þreytandi til lengdar. Betra er, að fólk tali seríalt en parallelt.

Vaxandi veffréttastofur

Fjölmiðlun

Fréttir bólgna á vefnum. Þar hafa risið góðir fjölmiðlar, sem keppa við vefútgáfur hefðbundinna fjölmiðla. Mestur völlur er á Pressunni hjá Birni Inga Hrafnssyni. Þar er tíu manna skrifstofa undir fréttastjórn Steingríms Sævarrs Ólafssonar. Eldri í hettunni er Eyjan, sem er einkum blogggátt. Hún birtir einnig eigin fréttir og ágætar samantektir frétta frá öðrum. Svo eru pólitískir aðilar með fréttastofur. Skemmtilegust er AMX, þar sem Jónas Haraldsson fer á kostum sem “Smáfuglarnir”. Þar á vef er eingöngu birt hægri sinnað efni, markvisst hliðhollt Davíðsku. Fróðlegt, ég les það ævinlega.

Nafnlausi fréttaskýrandinn

Fjölmiðlun

Útvarpið vitnaði í hádeginu í nafnlausar heimildir. Sagði “fréttaskýrendur” telja Abdullah í Afganistan hafa hætt við aðra umferð forsetakosninga vegna fjárskorts. Ég leitaði á vefnum að þessum “fréttaskýrendum”, en fann ekki. Allir álitsgjafar sögðu Abdullah hafa hætt vegna kosningasvindls. Og tregðu Hamid Karzai forseta við að tryggja svindlfría aðra umferð. Fjölmiðlar eiga að nafngreina heimildir sínar. Auðvelt er að slá fram þvælu með því að fela sig bakvið nafnlausa heimildamenn, álitsgjafa, fréttaskýrendur. Ef heimildin er Zalmay Khalilzad, áður sendiherra George Bush í landinu, á að segja það.

Dró einkaneyzluna saman

Fjölmiðlun

Mér brá í DV í gær. Las grátbólgið drottningarviðtal við útrásarvíking. Sá sagði bankann hafa platað sig í útrás. Margir væru vondir við Björn Leifsson og það væri kalt á toppnum. Ég vissi ekki, að hann hefði verið á toppi. En hitt veit ég, að sá, sem lætur plata sig svona, má ekki koma nálægt rekstri. Það gildir raunar um aðra útrásarvíkinga, að bankarnir verða að halda þeim frá rekstri. Af öryggisástæðum. Björn er raunar svo ruglaður enn, að hann gaf dóttur sinni bíl um daginn. Var ekki nefnt í viðtalinu. “Ég hef dregið einkaneyzluna saman”, sagði hann í grátbólgna drottningarviðtalinu við DV.