Fjölmiðlun

Viðræðuhæfur á einu sumri

Fjölmiðlun

Guðrún P. Helgadóttir íslenzkukennari bar sig sem drottning, sem dáleiddi lítilmótlega þegna sína. Kenndi einkum í formi undirbúnings fyrir landspróf. Lét okkur taka hvert gamla landsprófið á fætur öðru. Hamraði inn varnir gegn algengustu villum. Ég lærði rosalega vel hjá henni, hlustaði opinmynntur á allt, sem hún sagði. Útkoman var, að nemendur hennar fengu flestir háar einkunnir á samræmdu landsprófi í íslenzku. Í menntaskóla tók hún svo á móti mér og sagði í fyrsta tímanum: “Nú loksins er hægt að fara að tala við yður.” (Úr bókinni: Jónas Kristjánsson: Frjáls og Óháður, 2009)

Húðlatir fjölmiðlar

Fjölmiðlun

Þegar húðlatir fjölmiðlar skrifa um ágreiningsefni, kalla þeir í málsaðila og láta þá blása. Núna í Þór Saari og Árna Pál Árnason. Við erum engu nær. Fjölmiðlarnir upplýsa okkur ekkert. Þeir eiga að segja okkur, hver setti í lagafrumvarpið ákvæði um afskriftir og skattfrelsi kúlulána. Ákvæði, sem síðan var kastað út á síðustu stundu. Eiga líka að segja okkur, hvort endanleg útgáfa laganna hjálpar græðgiskörlum, sem áttu óhóflegan aðgang að lánum. Nú eru liðnir þrír sólarhringar frá afgreiðslu málsins. Án þess að neinn fjölmiðill hafi nennt að útskýra fyrir okkur, hvað gerðist í raun.

Tveir Jónasar sættust

Fjölmiðlun

Bernskuvinur minn er Sigurður Steinþórson, síðar jarðfræðiprófessor. Hann er sonur Auðar, dóttur Jónasar frá Hriflu Jónssonar. Með Sigurði fór ég oft til Jónasar að Hnitbjörgum á Hávallagötu. Fyrir mér var það höll. Ég var sex ára, þegar Jónas fékk mig í ökutúr með sér og Sigurði heim til Jónasar afa míns Kristjánssonar að Gunnarsbraut 28. Þeir höfðu átt í illu á Alþingi, þar sem afi minn sagði Hriflu-Jónas geðveikan. Hittum afa minn og þeir nafnar fóru í göngutúr eftir Gunnarsbraut. Ég man eftir baksvipnum … (Úr bókinni: Jónas Kristjánsson: Frjáls og Óháður, 2009)

Gott og vont fjölmiðlafrumvarp

Fjölmiðlun

Nýja fjölmiðlafrumvarpið er bæði vont og gott. Það er vont að því leyti, að það linar ekkert á forneskjulega þungum reglum um meiðyrði og einkalíf. Reglurnar lama frjálsa fjölmiðlun í umfjöllun um fjármál, því að þær flokka fjármál ranglega sem einkamál. Mikilvægara er að slaka þar á taumunum en að eltast við nafnlausar athugasemdir. Hins vegar er í sjálfu sér gott að losna við nafnleysingjana. Einhver verður að bera ábyrgð á hverju efni fyrir sig. Bloggarar bera ábyrgð á því, sem birtist á bloggsvæðum þeirra. Eðlilegt er, að vefmiðlar beri líka ábyrgð á nafnlausum athugasemdum við efni þeirra.

Fréttablaðið alls staðar frítt

Fjölmiðlun

Menn kvarta um, að frídreifing Fréttablaðsins hafi minnkað. Hún sé orðin forréttindi þéttbýlisins. Aðrir verði að kaupa blaðið. Þeir virðast ekki hafa tekið eftir, að blaðið er daglega fáanlegt frítt á vefnum. Þar eru ekki bara fréttirnar úr blaðinu, heldur allt blaðið með auglýsingum og öllu, síðu fyrir síðu í uppsetningu blaðsins. Þannig hefur vefútgáfan verið frá byrjun. Því hafa allir frían aðgang daglegan að Fréttablaðinu. Ég notaði hann mikið fyrir nokkrum árum, þegar ég var erlendis og var enn háður lestri dagblaða. Nú læt ég veffréttir nægja, en það er allt önnur saga um hnignun dagblaða.

Vinnuveitendur handrukkara

Fjölmiðlun

Undarleg frétt birtist á Vísi um, að handrukkarar séu farnir að innheimta venjulegar skuldir. Haft eftir Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra, sem er varasöm heimild. Gerum samt ráð fyrir, að það sé satt. Þá hlýtur að vera vitað, hvaða skuldir er verið að innheimta. Einhver stofnun, fyrirtæki eða persóna hlýtur að vera að baki venjulegs rukkunartilrefnis. Við erum ekki að tala um fíkniefni. Fréttin hefði fyrst verið prenthæf, ef birt hefðu verið nöfnin, sem ráða svona rukkara. Með því að segja til nafnanna að baki er snögglega kippt burt vinnuveitendum handrukkara. En kannski er fréttin lygi.

Pressan.is falsar graf

Fjölmiðlun

Grafísk framsetning talna hefur engan tilgang, nema notendur geti af útliti grafsins áttað sig á breytingum, sem verið er að lýsa. Í öllum gröfum er því mikilvægt, að núllpunktur sé notaður. Annars er ekki hægt að bera saman tvo punkta í grafi. Pressan.is sýnir graf, sem á að sýna, að skuldatryggingaálag íslenzka ríkisins hafi rokið upp síðustu tvo daga. Það sýnir grafið, enda er upphafsreitur þess settur á 350 stig. Í rauninni hefur orðið lítil breyting á álaginu. Mundi sjást, ef miðað væri við núllpunkt. Hækkun úr 360 stigum í 415 stig er ekki roka. Svona má falsa fréttir, meðvitað og oftar ómeðvitað.

Óskar brýtur engar reglur

Fjölmiðlun

Óskar Magnússon er nógu lífsreyndur í blaðamennsku til að vita, hvað gengur ekki. Að minnsta kosti ekki til langs tíma. Ef heimildamenn blaðsins frétta í DV, að hann lesi tölvupósta blaðamanna, telja þeir hann einnig líklegan til að hlera síma þeirra. Samskipti blaðamanna við umheiminn verða erfiðari en áður. Kontról-fríkar vilja vita allt, til dæmis, hver lak uppsagnarbréfi Ragnhildar Sverrisdóttir. En það er sumt, Óskar, sem bara ekki borgar sig að vita. Gerir bara illt verra. Að segja “engar reglur hafi verið brotnar” er eins marklaust og útrásarvíkingur, sem segir “engin lög hafa verið brotin”.

Fúll út í bloggið

Fjölmiðlun

Því minna sem fjallað er um Davíð Oddsson í hefðbundnum fjölmiðlum, þeim mun meira er fjallað um hann í blogginu. Bent er á það afrek hans að hljóta tvenn verðlaun í senn. IgNoble fábjánaverðlaun Harvard-háskóla og sæti á lista Time Magazine yfir mestu efnahagslegu hryðjuverkamenn heims. Hvort tveggja vegna stjórnar hans á Seðlabankanum. Davíð er fúll yfir umfjöllum bloggsins. Meðan erlendir sérfræðingar ráðleggja ritstjórum dagblaða að faðma að sér bloggið, sendir Davíð því skæting í leiðara Moggans. Stafar af prívathagsmunum hans. Mogginn verður tæki Davíðs til að breyta fortíðinni.

22 reglur blaðamennsku

Fjölmiðlun

Blaðamaðurinn Dan Gillmor, höfundur bókarinnar We the Media, birti í morgun 22 reglur blaðamennsku í Guardian. Eiga að bæta og auka notkun hefðbundinna fjölmiðla. Sjálfur notaði ég sumar reglurnar, þegar ég var virkur. Til dæmis að forðast nafnlausar heimildir, eitur í bransanum. Aðrar reglur Gillmor notaði ég í kennslubók minni í blaðamennsku, sjá hér á vefsíðuni í röðinni Nýmiðlun; köflunum Tækni grasrótar, Hliðin opnast, Fagfólk og amatörar, Næstu grasrótarskref, Ógnir framtíðar. Loks eru sumar alveg nýjar fyrir mér, einkum mikilvægar í blaðamennsku um kreppur. Skoðið greinina í Guardian.

Á öskuhaugi sögunnar

Fjölmiðlun

Lesið 22 reglur í blaðamennsku eftir Dan Gillmor í Guardian í morgun. Ég sagði ykkur frá þeim fyrr í dag. Snúast um, hvernig hefðbundnir fjölmiðlar geta mætt erfiðleikum sínum. Meðal annars með því að taka upp samstarf við lesendur sína. Berið Moggann saman við sérhverja af hinum 22 reglum. Þið munuð finna, að hann fer ekki eftir neinni þeirra. Það er borin von árið 2009 að hægt sé að selja dagblað, sem er málgagn eins Davíðs. Málgagn einnar klíku í einum stjórnmálaflokki eða málgagn róttækrar frjálshyggju. Tilraun Moggans með Davíð sem ritstjóra er dæmd til að lenda á öskuhaugi sögunnar.

Mogginn strax á fullu

Fjölmiðlun

Eins og ég spáði birtir Morgunblaðið greinaflokk um, að allir aðrir en Davíð Oddsson beri ábyrgð á hruninu. Einkum Geir Haarde. Vissulega ber hann þunga sök, er meira en hálfdrættingur á við Davíð. Var fjármála í stjórn Davíðs. Þeir einkavinavæddu bankana og skipulögðu skort á fjármálaeftirliti. Afhentu Björgólfsfeðnum Landsbankann og lögðu þannig grundvöllinn að IceSave. Davíð sukkaði svo meira í Seðlabankanum en Geir sem forsætis. Hvor um sig olli þá meira tjóni en þeir höfðu áður valdið með IceSave. Davíð gerði Seðlabankann gersamlega gjaldþrota og Geir borgaði sukkið í peningamarkaðssjóðunum.

Tribbinn hefur látið á sjá

Fjölmiðlun

Keypti mér dagblað í gær í fyrsta sinn í tvær vikur. International Herald Tribune var í gamla daga nauðsynlegur partur af deginum, er ég var erlendis. Ekki lengur. Allt sem máli skipti í blaðinu var ég búinn að sjá á netinu um morguninn. Svo hefur þetta gamla fjölríkjablað látið á sjá, síðan New York Times tók það yfir. Textinn er orðinn geldur að hætti móðurblaðsins, efnið laslegt og blaðið fullt af textaauglýsingum, svokallaðri kostun. Engin furða er, að menn eru víða um vestræna heiminn að hafna dagblöðum sem fréttamiðli. Þau eru tæpast samkeppnishæf við vefinn og reyna það sum ekki einu sinni.

Enn er vitnað í spunakarlinn

Fjölmiðlun

Stundum sé ég fjölmiðla vitna í spunakarl hrunsins, Ásgeir Jónsson. Á tíma vitleysunnar kom hann annan hvern dag í fjölmiðla til að lofsyngja útrásina. Eftir hrunið reis hann upp tvíefldur og skrifaði bók um hrunið. Á ensku. Í bókinni er hvergi fjallað um ofurþátt hans sjálfs í hruninu sem spunakarls Kaupþings. Ekki heldur í viðtölum fjölmiðla, nú síðast á mbl.is. Ég hélt, að Ásgeir Jónsson væri síðasti maðurinn til að hafa vit á hruninu. En þreytist aldrei á að verða hissa á fjölmiðlum, sem enn hossa spunakarlinum. Er minni blaðamanna eins skammvinnt og oft er sagt? Þetta fræga gullfiskaminni?

Vanskil aukast sáralítið

Fjölmiðlun

Fjölmiðlar ljúga að okkur, að mikil fjölgun hafi orðið á vanskilaskrá síðan 2007. Þeir sýna gröf því til sönnunar. Eins og venjulega eru gröfin fölsuð. Þau sýna ekki núllpunktinn, klippa neðan af grafinu. Veruleikinn er sá, að vanskil hafa aukizt úr 15.500 í 19.500. Það er aukning, en ekki mikil aukning, allra sízt ef litið er á hrunið í millitíðinni. Fréttin og gröfin um vanskilaskrána eru gott dæmi um, að fjölmiðlar reyna að hræða líftóruna úr fólki. Að eigin frumkvæði eða að frumkvæði hagsmunaaðila. Í rauninni er vanskilaskráin fámenn og gefur alls ekki tilefni til sérstakra aðgerða.