Fjölmiðlun

“Awesome” Grapevine

Fjölmiðlun

Grapevine er fínt blað, sem ég les alltaf, dálítið kotroskið. Dæmi um útgáfu á pappír, sem fann sína hillu, þótt flest blöð eigi núna bágt. Ókeypis blað, lifir á auglýsingum, án þess að það sjáist á efni. Í senn túristablað; blað fyrir unga og nýja aðflutta; og blað fyrir vinstri sinna, einkum um tónlist. Ég kvartaði nýlega yfir veitingarýni þess. Pirraðist á lofrullu um lélegt Saffran, líklega aðild að átaki í almannatengslum. Að öðru leyti sæki ég í blaðið og hef gagn af því. Mér þótti vel við hæfi, að ritstjóranum skyldi í nýjasta leiðara takast að nota uppáhalds-lýsingarorð blaðsins, “awesome”.

Neytendafrömuður og almannatengill

Fjölmiðlun

Um leið og neytendafrömuður fer að kynna þjónustu er hann úr sögunni sem neytendafrömuður. Það liggur í hlutarins eðli, þótt sumir Íslendingar, fæddir eftir 1965, haldi annað. Dr. Gunni getur ekki í senn verið í neytó fyrir Fréttablaðið og höfuðsmaður í herferð Iceland Express. Mín reynsla í blaðamennsku segir mér, að blaðamenn, sem gerast almannatenglar eða blaðurfulltrúar, eiga ekki afturkvæmt í blaðamennsku. Hugarfar þeirra breytist. Úr því að menn geta ekki blandað þessu saman raðtengt, geta þeir það enn síður samhliða. Of margir fjölmiðlungar fatta ekki þennan árekstur.

Áhrifalausir nafnleysingjar

Fjölmiðlun

Nafnleysingjar eru nánast áhrifalausir í blogginu. Þeir sjást þar ekki, nema þeim sé hossað af bloggstjórum Moggans og Vísis. Sjálfsagt er, að því verði hætt. Ekki rugla bloggurum saman við þá, sem skrifa nafnlausar athugasemdir við fréttir á mbl.is og dv.is. Sjálfsagt er, að fjölmiðlarnir hætti að ota þessum nafnleysingjum framan í fólk. Þar fyrir utan grassera nafnleysingjar á sérstökum spjallsvæðum fyrir níð, svo sem Barnalandi. Það er ekki heldur blogg. Björgvin Sigurðsson hruns-ráðherra ruglar þessu öllu saman, enda í vondu skapi. Látið hann ekki komast upp með að láta ritskoða og banna blogg.

Tveir kveina undan blogginu

Fjölmiðlun

Tveir stjórnmálamenn hafa undanfarið veitzt að bloggurum. Hrun-ráðherrann Björgvin Sigurðsson telur þá hafa rýrt æru sína. Hann vill knýja fram aukna ritskoðun í samfélaginu. Hinn er Trausti Þór Herbertsson, sem neitar að hafa fengið kúlulán og síðan fengið það fellt niður. Hann fer með rangt mál. Varnagli, einkahlutafélag Tryggva, fékk 150 milljón króna kúlulán hjá Aski og aðra eins upphæð hjá Glitni. Hann samdi síðar um, að lánið yrði fellt niður. Engin furða er, að menn á borð við Björgvin og Tryggva Þór kveini undan meðferð netheima á sér. Bloggið þrengir svigrúm hættulegra pólitíkusa.

Engin viðbótarskerðing

Fjölmiðlun

Menn lepja allan andskotann í mig. Enginn hefur þó enn trúað mér fyrir, að Björgvin Sigurðsson sé fyllibytta og kvennabósi. Ég held enga umræðu vera í samfélaginu um slíkt. Hins vegar var Björgvin tekinn rækilega í gegn fyrir að vera utangátta fyrir hrunið og í hruninu. Viðskiptaráðherra þess tíma átti að grípa til eftirlits, en ekki haga sér sem klappstýra hrun-istanna. Björgvin skerti mannorðið með lélegri frammistöðu sem viðskiptaráðherra. Ég held, að nafnlausir bloggarar hafi ekki skert það neitt til viðbótar með lygi um persónu hans. Sú meinta umræða hefur t.d. farið alveg framhjá mér.

Hossa nafnleysingjum

Fjölmiðlun

Ég hef alltaf verið andvígur nafnleysingjum og ekki farið dult með það. Hins vegar tel ég þá áhrifalitla í netheimum. Að vísu er þeim hossað af mbl.is og dv.is. Mbl.is birtir fyrirsagnir nafnlausra athugasemda með fréttunum. Dv.is birtir heilar athugasemdir beinlínis með fréttunum. Hvort tveggja niðurlægir fréttirnar. Ég sé engar athugasemdir með fréttum á visir.is og ruv.is. Mogginn og DV eiga að hætta að hossa þessum nafnlausu athugasemdum. Leyfa áhugafólki um níð að hafa fyrir að opna línu, sem heitir Athugasemdir. Ekki veifa nafnleysingjum beinlínis framan í lesendur.

Gullfiskaminni fjölmiðla

Fjölmiðlun

Árið 2006 sagði OECD, alþjóða þróunarstofnunin, í skýrslu um Ísland: “Þessi frjálshyggjustefna hefur sýnt undraverðan árangur og skal haldið áfram” … “Bankarnir eiga að þola stór högg.” … “Eftirlit með fjármálmörkuðum hefur verið aflétt”. Það sem OECD hrósaði mest, hefur valdið mestum hörmungum. Robert Ford er kominn frá OECD til Íslands að kynna nýjasta bullið. Hann segir: “Ég geri ráð fyrir, að við höfum fyrir þremur árum verið fylgjandi frjálshyggjuvæðingu, og erum enn.” Alger afneitun alkóhólista. Nokkuð seint er fyrir íslenzka fjölmiðla að gapa upp á fíflið og tala um það sem spámann.

Óánægja blönduð skilningi

Fjölmiðlun

Fjölmiðlar slógu upp í kvöld á vefmiðlum sínum, að 63% Íslendinga séu andvígir IceSave samningunum. Slógu ekki upp, að 67% Íslendinga telja fall samningsins mundu hafa slæm áhrif á þjóðarhag. Þannig misstu þeir af raunverulegu fréttinni: Að þjóðin er ósátt við IceSave samninginn, en viðurkenndir, að slæmt sé að fella hann. Það er töluvert annað en fjölmiðlarnir sögðu. Þeir sögðu ekki heldur, að 38% þjóðarinnar eru sátt við Steingrím Sigfússon og 24% sátt við Bjarna Benediktsson. Sú frétt segir sögu af endanlegri útkomu foringjanna eftir harðar IceSave deilur á Alþingi.

Andlit skálka eru leyndó

Fjölmiðlun

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lagatæknir segir í Fréttablaðinu í dag, að menn eigi aðgang að ásýnd sinni. Geti bannað töku og birtingu mynda af sér. Þetta er það lengsta, sem lagatæknar hafa gengið í túlkun laga í þágu skálkanna í samfélaginu. Undanfarin ár græðgisvæðingar hafa lagatæknar sótt fram á breiðum vígvelli. Víkka hugtak einkalífs og gera bankaleynd að trúaratriði. Þeim hefur tekizt að gera peninga að einkalífi. Skattar, skuldir, eignir, tekjur, kúlulán, svindl og svínarí verða að einkalífi. Af samkeppnisástæðum eru fyrirtæki talin eiga einkalíf. Afleiðinguna sjáum við í hruni Íslands.

Blaðamenn spurðu ekki

Fjölmiðlun

Jóhanna Sigurðardóttir hélt blaðamannafund eftir ævintýri spunakarla hennar um helgina. Hún var þar ekki beðin um að tjá sig um skoðanir þeirra. Álit Hrannars Björns Arnarsonar á vafstri Evu Joly út fyrir verksvið sitt. Álit Kristjáns Kristjánssonar á drepandi ósamkomulagi ríkisstjórnarinnar á mörgum sviðum. Þjóðin hefur rétt á að fá að vita um skoðun ráðherrans á hressandi ummælum þeirra. Blaðamennirnir á fundi Jóhönnu spurðu ekki um það, svo vitað sé. Altjend birtust engin svör hennar í fjölmiðlum. Mætti ég auðmjúklega spyrja viðkomandi fjölmiðlunga, hvers vegna tækifærið rann þeim úr greipum.

Ellisif, ættingjar og vinir

Fjölmiðlun

Nú eru þeir tímar, að minni háttar glæpir komast ekki að í fjölmiðlum. Ekki er fjallað um mál, nema upphæðir skipti milljörðum. Í þeim samanburði fer lítið fyrir milljónum í Varnarmálastofnun. Opinberir eftirlitsaðilar saka forstjórann, Ellisif Tinnu Víðisdóttir, um viðskipti við vini og ættingja framhjá útboðsreglum. Samtals nema upphæðirnar mörgum milljónum króna. Ég sá frétt um þetta í einum fjölmiðli fyrir viku, en ekki orð annars staðar. Er þetta kannski eitthvert feimnismál Samfylkingarinnar? Eða fjölmiðlunganna? Er ekkert gert í þessu máli frekar en öðrum, sem lúta að misnotkun aðstöðu?

Óvinsæl rannsóknablaðamennska

Fjölmiðlun

Hvorki Ríkisútvarpið né Skjár einn vilja taka yfir Kompás, sem Stöð 2 gaf frá sér í vetur. Þar með fá Íslendingar ekki einn ötulasta rannsóknamiðil landsins næsta veetur. Þeir verða bara að treysta á DV, sem er eini miðill rannsókna um þessar mundir. Þetta er bara það, sem gæfulaus þjóð á skilið. Hún kennir sögumanni um ótíðindi. Skíturinn af spillingunni nuddast utan í fjölmiðla, sem stunda rannsóknir. Ef fólk væri í raun fylgjandi rannsóknum, mundi Kompás skrimta eins og DV. En staðreyndin er bara, að ekki borgar sig fyrir fjölmiðla að stunda rannsóknir. Þær draga úr trausti fólks á miðlunum.

Leiðarar orðnir úreltir

Fjölmiðlun

Fréttablaðið hefur falið málsmetandi talsmönnum fjölbreyttrar hugmyndafræði að skrifa leiðara blaðsins. Eðlilegur endapunktur þróunar, sem hófst árið 1973, þegar ég merkti leiðara fyrstur manna. Mér þótti skrítið, að stofnanir gætu haft skoðanir og birt leiðara, sem væru guðsorð blaðsins. Smám saman síðan hafa fjölmiðlar farið að merkja leiðara. Mismunandi höfundar á sama fjölmiðli hafa misjafnar skoðanir. Eðlilegt er, að það endi á, að talsmenn sjónarmiða skrifi leiðara, ekki starfsmenn fjölmiðilsins. Raunar þýðir þessi endastöð, að leiðarar eru orðnir úreltir. Þeir eru orðnir kjallaragreinar.

Greifinn í kranaviðtali

Fjölmiðlun

Enn einu sinni er Davíð Oddsson í kranaviðtali. Greifinn af Íslandi mætir eins og drottning, fær ekki einu sinni alvöruspurningar. Þátturinn í gær var skrípó, aðstandendum til skammar. Hafi Davíð einhvern tíma verið tekinn á beinið í fjölmiðli, man ég ekki eftir því. Þetta er maðurinn, sem skrifaði með Árna Mathiesen undir játninguna 19. nóvember. Þar segja þeir, að Ísland beri ábyrgð á skuldbindingum gagnvart öllum eigendum IceSave innistæðna. Samt tyggur Davíð í sífellu, að hann sé andvígur. Forhertasti pólitíkusinn er enn í náð fjölmiðlunga og fær óáreittur að segja landsmönnum þétta lygi.

Tómt tjón í einkalífinu

Fjölmiðlun

“Á sama tíma er allt í tómu tjóni í einkalífi yfirmanna stöðvarinnar, þeirra … og Orra Haukssonar.” “… gengur yfirmönnum stöðvarinnar illa að fóta sig í einkalífinu.” Þessi ummæli í DV voru dæmd dauð og ómerk í héraðsdómi í dag. Dómurinn er gott dæmi um endemis ruglið, sem hefur tekið völdin hjá dómurum. Hugtakið einkamál belgist út yfir allan þjófabálk. Skilnaður er auðvitað tjón í lífi fólks og sýnir erfiðleika við að fóta sig. Nýstárlegar skilgreiningar dómstóla á einkalífi eru séríslenzkar og langt út af kortinu. Skilnaður er opinber athöfn og fjölmiðlar mega túlka opinberar athafnir.