Fjölmiðlun

Varnarrit útrásarvíkinga

Fjölmiðlun

Eftir lauslegan lestur hef ég efasemdir um bókina Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson. Mér finnst þáttur Davíðs Oddssonar næsta lítill. Hefði viljað sjá tímaröð ýmissa texta Seðlabankans og munnlegra yfirlýsinga Davíðs. Sjá misræmið þar á milli. Mér finnst þáttur útrásarvíkinga og -banka líka vera lítill. Hefði viljað sjá fjallað um ýmis hneykslismál, svo sem afskriftir kúlulána ýmissa lykilmanna. Orðið kúlulán er ekki einu sinni í orðaskrá og hugtakaskrá bókarinnar. Sé ekki heldur umfang veðlítilla lána bankanna til blöðrufyrirtækja eigendanna. Varnarrit fyrir útrásarvíkinga og -bankamenn.

Minnisstæð bók um hrunið

Fjölmiðlun

Ég skil, hvers vegna margir gagnrýna “Íslenska efnahagsundrið”, bók Jóns F. Thoroddsen. Stafar af, að gagnrýnendur hafa hagsmuna að gæta. Vakta hagsmuni útrásarvíkinga, stjórnenda banka og lífeyrissjóða. Fá á baukinn í bókinni og undan því svíður. Bókin er gölluð, illa prófarkalesin og án nafnaskrár. Er samt minnisstæðasta bókin um hrunið. Eina, sem tekur myndarlega á meginþætti víkinga og bankamanna. Eina, sem ég las tvisvar. “Hrunið” eftir Guðna Th. Jóhannesson og “Sofandi að feigðarósi” eftir Ólaf Arnarson eru fróðlegar. Taka á mörgum hliðum. En ekki nógu fast á sjálfum skúrkum útrásarinnar.

Réttlæti dagsins

Fjölmiðlun

Blaðamennirnir Sigurjón M. Egilsson og Erna Hlynsdóttir voru í gær sýknuð í meiðyrðamáli. Samt urðu þau að borga 400.000 krónur í málskostnað. Kærandi var kókaínsmyglarinn Rúnar Þór Róbertsson. Tapaði meiðyrðamálinu, en borgar samt ekki málskostnað. Þú borgar fyrir hann. Stafar af Birni Bjarnasyni, fyrrum dómsmálaráðherra. Sá gaf kókaínsmyglaranum gjafsókn til að hefnast á fjölmiðlungum. Nýr ráðherra, Ragna Árnadóttir, féll ekki frá gjafsókn, þótt hún væri augljóst gerræði. Nú hefur héraðsdómur bætt um betur, úrskurðaði fjölmiðlungunum ekki bættan málskostnað. Það er réttlæti dagsins á Íslandi.

Könnun: Sigur fyrningar

Fjölmiðlun

Fyrning kvóta vann mikinn sigur í skoðanakönnun DV í dag. Hlaut 41% fylgi, en andstaðan var 31%. Ef aðeins eru taldir þeir, sem afstöðu tóku, var útkoman 57% með og 43% móti. Hingað til hafa slíkar tölur verið taldar hreinar og klárar. Þannig hafa slík hlutföll til dæmis verið kynnt, þegar fjallað er um afstöðu til Evrópusambandsins. DV kýs hins vegar að túlka niðurstöðuna sem klofning í samfélaginu. “Fyrning kvóta afar umdeild” segir í fyrirsögninni. Slík fyrirsögn gæti verið á flestum fréttum um kanninir. Hún segir alls ekki neitt. “Sigur fyrningar” hefði verið réttari fyrirsögn.

Þverstæð þjóðarviðhorf

Fjölmiðlun

Samkvæmt skoðanakönnun MMR telur fólk DV standa sig fjölmiðla bezt við að ljóstra upp um spillingu. Samkvæmt könnun sama fyrirtækis ber fólk minnst traust til DV allra fjölmiðla. Þverstæðan er gömul og vaxandi. Ég minnist perramálsins á Ísafirði árið 2006. Hvert orð í DV var sannleikanum samkvæmt. Svo satt, að ríkið varð að borga fórnarlömbum perrans skaðabætur. Þjóðin snerist samt gegn DV. Hjálmar Árnason pokaþingmaður og Hjálmar Jónsson pokaprestur sögðu DV hafa drepið manninn og Össur Skarphéðinsson skrifaði um hann minningargrein. Gerð voru hróp að blaðinu í undirskriftum á netinu.

Skrifleg bezt – nafnlaus verst

Fjölmiðlun

Engin vitni eru betri en skrifleg plögg. Það er kennt í blaðamannaskólum. Engin vitni eru verri en þau nafnlausu. Það er kennt í blaðamannaskólum. Fréttastofa Ríkisútvarpið hefur undir höndum eintak af IceSave samningnum við Holland. Það er fyrsta flokks vitnisburður. Visir.is/Fréttablaðið hefur eftir ónafngreindum heimildarmanni, að frétt útvarpsins sé meira eða minna röng. Það er vitnisburður af síðustu sort. Við trúum fréttastofunni, sem hefur skjölin undir höndum og hlæjum að hinni aumu, sem vitnar í nafnlausan “áhrifamann innan ríkisstjórnarinnar”. Metnaður í blaðamennsku er misjafn.

Drottningarviðtal í Kastljósi

Fjölmiðlun

Ég er gáttaður á drottningarviðtali Helga Seljan í Kastljósi við Sigurð G. Guðjónsson útrásarlögmann. Töluðu um einkalífeyrissjóð eins og það væri skilgreint hugtak í lögum. Ekki var minnzt á, að 2514 menn eiga sparnað í svokölluðum einkalífeyrissjóði Sigurjóns P. Árnasonar. Það er í raun bara venjulegur fjárvörzlureikningur lífeyris, sem lögmenn Landsbankans hafa falsað með nýyrðum og lagaklækjum. Sá sjóður fjárfestir í peningaþvotti á Guernsey. Landsbankinn kallar skattsvikin “aflandsþjónustu”. Helgi ætti að reyna að fá úttekt úr sínum séreignasjóði með 3,5% vöxtum, skattfrjálst.

Skrúfað frá krana Landsbankans

Fjölmiðlun

Vefmiðlarnir birtu í nótt orðrétta fréttatilkynningu frá Landsbankanum um kúlulán séreignasjóðs til Sigurjóns Þ. Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra. Þar segir, að málið hafi komið upp við reglulega úttekt innri endurskoðunar. Hið rétta er, að málið kom upp í blogginu. En bankinn vill láta líta út sem einhver virk endurskoðun sé í bankanum. Þykist því ekki fylgjast með fréttum og skoðunum á opinberum vettvangi. Virkar dálítið eymdarlega. Fjölmiðlarnir hefðu ekki átt að láta sér tilkynninguna nægja. Hefðu átt að spyrja bankann um tímasetningar og fleira. En fjölmiðlar eru bara kranar valdastofnana.

Heilagt guðsorð Finns

Fjölmiðlun

Vefmiðlarnir sögðu hver um annan þveran í kvöld, að lagaheimildir skorti til að endurlífga ábyrgðir starfsmanna Kaupþings. Ég man samt ekki eftir neinum dómsúrskurði um það efni. Nánari lestur fréttanna sýnir, að blaðamenn hafa Finn Sveinbjörnsson bankastjóra fyrir þessu. Enginn blaðamaðurinn benti á takmarkað gildi slíkrar yfirlýsingar stjórnanda fyrirtækisins. Enginn spurði Finn, hvaðan hann hefði þetta. Enginn spurði hann, hvers vegna málið fengi ekki réttarfarslega meðferð. Svona aumir eru íslenzkir fjölmiðlungar því miður allt of oft. Hrun þjóðarinnar stafar sumpart af, að blaðamenn spurðu ekki eðlilegra spurninga. Tóku blaður viðmælenda sinna sem heilagt guðsorð.

Jón Kaldal ritstjóri

Fjölmiðlun

Jón Kaldal er einn orðinn ritstjóri Fréttablaðsins. Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra er hættur. Jón er fagmaður, hefur komizt þetta eftir brautum blaðamennskunnar einvörðungu. Það á að vera eina leiðin í faginu. Silkihúfur úr pólitíkinni hafa aldrei gefizt vel. Enda skil ég ekki, hvað sé unnið við að flagga þröngum flokkspólitíkusum framan í lesendur. Ritstjórn er margslungið fag, þar sem saman koma margir þættir í blaðamennsku. Ofan á það verður aldrei breidd nein slæða úr silkihúfum. Ég óska Jóni Kaldal til hamingju með að vera verðskuldað orðinn einn á toppnum.

Nýmiðlun er ekki vandamál

Fjölmiðlun

Evrópuráðið telur nýmiðlun vera vandamál. Það er hlægilegt, nýmiðlun er fín. Þar er að vísu of mikið af nafnleysi, en auðvelt er að breyta því. Þeir, sem eiga heimasíður með plássi fyrir athugasemdir, geta lokað fyrir nafnlausar athugasemdir. Rugludallarnir hengja texta sinn nefnilega á síður vinsælla höfunda og breiða þannig út ruglið. Einir og sér eru rugludallarnir hins vegar hættulausir. Það er ekki nýmiðlun, sem er vandamál, heldur hefðbundin fjölmiðlun. Hún er að glata viðskiptamynztri sínu á pappír og í ljósvaka, án þess að hafa fundið nýtt mynztur á vefnum. Því kvarta þeir yfir nýmiðlun.

Skrúfað fyrir vefinn

Fjölmiðlun

Tvítugsafmæli morðanna á Torgi hins himneska friðar er á morgun. Því hefur glæpastjórnin í Kína lokað fyrir vefþjónusturnar Twitter, Flickr og Hotmail. Áður var glæpastjórnin búin að loka YouTube og Blogger. Hún óttast umræðu á vefnum um blóði drifna sögu hennar. Veraldarvefurinn er orðinn höfuðóvinur hins ofbeldishneigða og ofurfreka Kínaveldis. Sem teygir arma sína alla leið til heybrókanna Jóhönnu Sigurðardóttur og Ólafs Ragnars Grímssonar. Um allan heim er Kínastjórn til vandræða, styður fjöldamorðingja og stríðsglæpamenn í þriðja heiminum. Er til meiri vandræða en Bandaríkin. Og er þá mikið sagt.

Okkur vantar gula pressu

Fjölmiðlun

Var í panil hjá blaðamannafélaginu í fyrrakvöld, sem ekki er í frásögur færandi. Lýsti utanaðkomandi erfiðleikum, sem hefðu síðastliðinn áratug raskað fjárhag hefðbundinna fjölmiðla. Ég sagði fundinum samt ekki frá, að einn vandi fjölmiðlunar og samfélags er, að hér er alltof lítið um gula pressu. Allur þorri fólks nærist eingöngu á fjölmiðlum, sem samdir eru af vel siðuðum hundum. Menn hefðu betra af að lesa texta eftir illa siðaða villiketti. Ég lét kyrrt liggja, fannst selskapið ekki næmt fyrir rökum af þessu tagi. Öll önnur Norðurlönd hafa aðgang að útbreiddri pressu gulri.

Látalæti í dagblöðunum

Fjölmiðlun

Stjórnarandstöðublöðin Fréttablaðið og Morgunblaðið slá því upp á forsíðu, að fólk sé almennt með böggum hildar vegna hærri tolla á benzíni og áfengi. Sjálfur þekki ég engan, sem er miður sín út af þessu. Flestir, sem ég þekki, vita, að ýmsir fleiri skattar verða hækkaðir og að ýmis opinber þjónusta verður skert. Flestum er nefnilega kunnugt um, að hér varð hrun í haust. Og flestum er kunnugt um, að afleiðingarnar munu snerta fjárhag okkar allra. Stjórnarandstöðublöðunum og viðmælendum þeirra virðist ekki kunnugt um neitt af þessu. Auðvitað eru þetta bara ódýr látalæti í stjórnarandstöðublöðunum.

Murdoch vill fá borgað

Fjölmiðlun

Heilar kynslóðir venjast við, að allt sé ókeypis á vefnum, bíó, tónlist og fréttir. Óánægðum eigendum höfundarréttar hefur ekki tekizt að stemma stigu við þessu. Google, risinn á vefnum, gerir ráð fyrir, að allt sé frítt. Blöð hafa gefizt upp á að selja aðgang á vefnum að efni sínu. Wall Street Journal er þekktasta undantekningin. Nú vill Rupert Murdoch fjölmiðlakóngur breyta þessu. Erfitt er að sjá fyrir sér, að það muni takast. Efni verður að vera mjög sérhæft til að vera söluvara og selzt samt ekki í mörgum tilvikum. Þótt allir vilji vita, vilja fáir borga fyrir það. Því fær Murdoch ekki breytt.