Fjölmiðlun

Fjölmiðlar hverfa úr augsýn

Fjölmiðlun

Góður fjölmiðill mundi birta graf um ráðstafanir til að lina vanda heimila. Grafið mundi sýna, hvaða leið hver ætti að fara miðað við eðli vandamálsins. Þannig vinna góðir fjölmiðlar erlendis og þannig unnu góðir fjölmiðlar hér á landi fyrir áratug. Enn hef ég ekki séð neinn fjölmiðil veita almenningi þessa sjálfsögðu þjónustu. Vangeta fréttamanna er miklu meiri en þá var og áhugaleysi yfirmanna þeirra mun meira. Líklega eru þeir pólitískari en áður var. Með slíkri hegðun hverfa hefðbundnir fjölmiðlarnir úr augsýn fólks. Enda er fólk undir fertugu hætt að nota gömlu fjölmiðlana. Þeir munu deyja.

Síður rass fjölmiðlunga

Fjölmiðlun

Sjaldan hafa íslenzkir fjölmiðlar brugðizt jafn hrapallega og í frásögnum og útskýringum, sem varða ráðstafanir gegn vanda heimilanna. Gripið hefur verið til ótal aðgerða, sem létta fólki að fást við skuldir sínar. Ég geri ráð fyrir, að þær nái til 95% vandans. Fjölmiðlar hafa nánast ekkert sagt frá þeim. Þess vegna hefur háværum plötuslögurum tekizt að gera fólk tryllt af hræðslu. Það sjáum við í fréttum og bloggi síðustu daga. Vanræksla fjölmiðla stafar af vangetu fréttamanna og áhugaleysi yfirmanna. Fréttir eiga að auðvelda fólki að lifa lífinu. Því þarf að dangla í síðan rass fjölmiðlunga.

Óbeit á fjölmiðlum

Fjölmiðlun

Fjölmælisdómar í málum Geira Goldfingers og Bubba Morthens sýna eindregna óbeit íslenzkra dómstóla á fjölmiðlum, einnig Hæstaréttar. Hún eru svipaðs eðlis og gjafsókn ofursmyglara fíkniefna, Rúnars Þórs Róbertssonar. Allt ber þetta að sama brunni. Heiðarleg blaðamennska vestræn er álitin verri glæpur en nauðgun. T.d. þýðir ekki að segja dómurum frá hefðbundnum skilgreiningum orðabóka. Þeir fara bara eftir þeim skilgreiningum, sem sækjendur velja sér. Telji einhver sig móðgaðan, þá gildir það. Ábyrgð samkvæmt prentrétti hefur líka verið snúið á haus. Dómvenju tuttugustu aldar hefur verið umturnað.

Fyrst flensa og svo fakír

Fjölmiðlun

Meiri háttar rugl er á ríkisfréttum sjónvarpsins. Daglega eru fluttir langir fréttaþættir til að magna upp ótta manna við flensu ársins. Eftir nokkra daga af slíku eru áhorfendur orðnir þreyttir. Ekkert bendir til að flensan sé skæðari en hverjar aðrar flensur. Eftir enn eina flensuhátíð kvöldfrétta í gær kom svo Kastljós, sem snerist um bandarískan fakír. Hann hyggst kenna Íslendingum jóga eða innhverfa íhugun. Lyftir þó ekki fólki með hugarafli. Líklega er þægilegra að birta svona rugl en alvörufréttir af íslenzkum veruleika. Að minnsta kosti sigar það ekki dómurum á fréttamenn.

Flokkarnir og fjölmiðlarnir

Fjölmiðlun

Spillingarflokkarnir þrír og hefðbundnu fjölmiðlarnir hindra, að við sjáum stærð mútumálsins 2006. Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin segja enn ekki allan sannleikann. Restin sést ekki fyrr en eftir kosningar. Við sjáum ekki, hvaða þingmönnum var mútað af hvaða útrásarfyrirtækjum og útrásarbönkum. Við sjáum ekki, hvaða þingmenn voru á mála hjá Baugi og Bjöggunum. Flokkarnir telja óheppilegt, að fólk sjái spillinguna, sem þeir synda í. Fjölmiðlarnir taka þátt í þessu samsæri gegn þjóðinni. Þeir taka ekki einu sinni fréttir upp af blogginu um spillinguna.

Dagblaðaskipulag er óþarft

Fjölmiðlun

Ég sé ekki, að dagblöðin séu orðin neitt krumpuð út af kosningunum. Jafnvel Mogginn er ekki kominn í flokksfötin tíu dögum fyrir kosningar. Að vísu er þar undarlegur myndatexti inni í blaði í dag. Ill meðferð á Vatnsstíg 4 var ekki hústökufólki að kenna, heldur löggunni. Hústökufólk snyrti húsið, en löggan rústaði því. Að öðru leyti var Mogginn í lagi. Ég sé ekki neina ástæðu til að koma upp opinberu skipulagi á dagblöðum. Ég sé ekki, að reglur um fjölbreytt eignarhald komi að nokkru gagni. Allar slíkar reglur þrengja líkur á, að hægt sé að reka dagblöð. Er það þó orðið nógu erfitt fyrir.

Allir æptu nema dagblöðin

Fjölmiðlun

Stöð 2 skúbbaði tugmilljónagreiðslum útrásarvíkinga til Sjálfstæðisflokksins í fyrrakvöld. Um nóttina og í gær loguðu bloggheimar. Vefmiðlar töluðu í gær við ýmsa framámenn Flokksins, sem allir þóttust koma af fjöllum. Haldinn var miðstjórnarfundur Flokksins um kaffileytið, formanni og varaformanni falið að tjá sig. Niðurstaðan kom fyrir kvöldfréttir ljósvakans, 30 milljónir frá Baugi, 25 milljónir frá Bjöggum. Athyglisverðast í þessu ferli er, að þar áttu prentuð dagblöð engan þátt. Þau endurbirtu þætti úr frétt Stöðvar 2 og sýndu ekkert eigið frumkvæði. Þau skákuðu sér út af fjölmiðlaborðinu.

Neyðarkall á fjölmiðlastyrki

Fjölmiðlun

Nýúkomið tímarit blaðamanna er neyðarákall á ríkisstyrki til hefðbundinna fjölmiðla. Vísað er til Noregs, þar sem næststærsta blað hvers svæðis (kratablaðið) fær mikla styrki. Meiri hrifning er þó á Frakklandi. Þar á að gefa ungmennum ársáskrift að dagblaði að eigin vali (íþrótta-dagblaðið L’Equipe). Þar hafa auglýsingar verið teknar úr ríkissjónvarpinu (hjálpar vinum Sarkozy forseta á einkastöðvunum). Ríkisstyrkir eru háir í Frakklandi og verða kannski auknir. Hér á landi í miðju hruninu er varla réttur tími til að biðja um ríkisstyrki. En neyðarkall stéttarfélagsins sker í eyru.

Fréttir seljast ekki

Fjölmiðlun

Ég hef enga trú á, að Viðskiptablaðinu takist að selja aðgang að fréttum sínum á vefnum. Ég hef ekki trú á, að neinu blaði takist það. Þótt Wall Street Journal hafi náð takmörkuðum árangri á vefnum. Svo mikið framboð er af ókeypis fréttum á vefnum, að það nægir langsamlega flestum. Reynslan sýnir, að fólk grefur ekki dýpra, þótt læstar fréttir kunni að vera betri eða ítarlegri. Þetta er ekki spurning um bezta lestur, heldur skásta ókeypis lestur. Útvarp og sjónvarp kynntu ókeypis fréttir fyrir almenningi, vefurinn kláraði dæmið. Seldir fjölmiðlar á borð við vefdagblöð eiga þar engan séns.

Tveir reiðilestrar Reynis

Fjölmiðlun

Reiðilestur Reynis Traustasonar í leiðara DV í dag um vinstri pólitík minnir á reiðilestur hans um vantrúarhunda fyrr í vetur. Hvort tveggja var ólíkt Reyni og ólíkt hversdagslegum stíl blaðsins. Flestir játa, að í senn þurfi að hækka skatta og spara í ríkisrekstri. Flestir játa, að vinnuaflsfrekar aðgerðir á kostnað ríkisins henti í slæmri stöðu. Það er eins og Reynir vilji herða atvinnuleysið. Að hætti frjálshyggju kallar hann félagslegar aðgerðir fátæktargildru. En þjóðin er komin í nýjan fasa núna. Hún mun hvorki trúa róttækum hægri texta gegn vantrú né gegn félagslegum lausnum.

Benjamínsást fjölmiðlunga

Fjölmiðlun

Ógeðfelldur er áhugi fjölmiðla á sífelldum viðtölum við kjaftforan Benjamín Þór Þorgrímsson. Það er eins og hann sé sérstakur vinur fjölmiðla. Frægastur er Benjamín fyrir að hafa nauðgað barni og látið félaga sinn halda barninu á meðan. Það eitt sýnir persónu Benjamíns. Fyrir nauðgunina var hann dæmdur. Nú hefur hann verið dæmdur fyrir að misþyrma manni. Í millitíðinni var hann innanbúðar hjá World Class. Enn rífur Benjamín kjaft og enn eru fjölmiðlar fullir af einhliða viðtölum við hann. Á Benjamíns-ástinni aldrei að linna? Hvaða sálsýki er þetta hjá viðkomandi fjölmiðlum? Málgagn hans er visir.is.

Leiðinlegur Nyhedsavisen

Fjölmiðlun

Höfundar bókarinnar um Nyhedsavisen átta sig ekki á tveimur stærstu göllum blaðsins. Í fyrsta lagi gekk íslenzka módelið ekki upp. Dreifing í hús er flóknari í Danmörku en á Íslandi. Fleiri búa þar í fjölbýlishúsum, þar sem gilda strangar reglur um dreifingu á frípósti. Nyhedsavisen neyddist að hluta til að dreifa eins og önnur fríblöð og þá var sérstaðan fokin. Í öðru lagi var danska framlagið, ritstjórnin, alveg misheppnað. Nyhedsavisen var frámunalega leiðinlegt blað sterílt með eindregnum langhundum. Ég nennti aldrei að lesa það. Höfundar bókarinnar eru lélegir dómarar í eigin sök.

Misvísandi vefsíðumælingar

Fjölmiðlun

Modernus er íslenzka vefsíðumælingin, mælir notendur, innlit og flettingar, notuð af fyrirtækjum, sem hafa ráð á því. Stóru fjölmiðlarnir kynna einkum flettingar og hafa gert þær að staðli, sem flestir nota. Sá galli er á, að skrautlegar síður með ljósmyndum, teikningum og auglýsingum mæla fleiri en eitt innlit eða eina flettingu í hverri síðu. Allt upp í tíu innlit eða flettingar á síðu. Þetta er svo sem í lagi, þegar stórir og skrautlegir miðlar á netinu eru bornir saman. En virkar of stórt í samanburði við einyrkja, sem eru bara með texta á sinni heimasíðu og ekkert skraut.

Fréttablað og sendibréf

Fjölmiðlun

Fréttablaðið er ekki málgagn Flokksins, þótt ritstjóri þess sé fyrrverandi formaður og forsætis. Þorsteinn Pálsson rekur Fréttablaðið sem hvert annað fréttablað. Þar eru ábyrgar fréttir, sem eru meira eða minna áreiðanlegar. Hef ekki séð þar neina undiröldu í þágu Flokksins. Líklega var Fréttablaðið eins og aðrir fjölmiðlar bláeygt á útrásarvíkinga í kreppunni í haust. Eins og aðrir tók blaðið við sér um mánuði eftir hrun. Mér finnst Fréttablaðið samt ekki gæta hagsmuna útrásarvíkinga. Leiðarar Þorsteins eru svo sérstakur kapítuli, sendibréf innan Flokksins, ekki áhugaverðir fyrir mig eða aðra.

Minningargrein um Össur

Fjölmiðlun

AMX er fréttastofa, sem ég nota mikið, einkum slúður smáfuglanna. Hún er utarlega á hægri kantinum og slær skjaldborg um Sjálfstæðisflokkinn. Afar sjaldan er ég sammála henni. En hún er áheyrileg og fundvís á skemmtileg og gagnleg skot. AMX segist vera fremsti fréttaskýringavefur landsins. Slíkt væri kokhreysti hjá hverjum, sem það fullyrti, en það stuðar mig ekki. Er bara eins og að segja, að malt sé nærandi og styrkjandi og bæti meltinguna. AMX.is auðgar frétta- og slúðurflóruna. Þar er ágæt minningargrein um Össur Skarphéðinsson og um söluna á sálu Framsóknar fyrir 300 milljónir króna.