Fjölmiðlun

Fox varar við búsáhöldum

Fjölmiðlun

Fox er mest notaða sjónvarpsstöðin í Bandaríkjunum. Hún er í eigu Rupert Murdoch fjölmiðlakóngs og er yzt á hægri kantinum. Ber mikla ábyrgð á forheimskun Bandaríkjamanna síðasta áratuginn. Stöðin birti um daginn skrá yfir fimm hættulegustu lönd í heimi. Þau sem Bandaríkjamenn skyldu alls ekki heimsækja. Ísland var eitt af þeim, vegna búsáhaldabyltingar. Fréttin segir margt um áreiðanleika sjónvarpsstöðvarinnar. Hins vegar þýðir ekki að reyna að leiðrétta. Fox leiðréttir sig aldrei. Er eins og Sjálfstæðisflokkurinn.

Greiðslur fyrir fréttaskot

Fjölmiðlun

Áratugina, sem ég var ritstjóri DV, tók blaðið aldrei við greiðslum fyrir birtingu efnis. Auglýsingar voru sér og ritstjórnarefni var sér og aldrei hittust þessi atriði. Lengst af greiddi blaðið hins vegar lága upphæð fyrir fréttaskot, sennilega um 5.000 krónur á núverandi verðlagi. Fréttaskotin voru auglýst daglega á baksíðunni. Þau höfðu sérstakan síma og sérstaka vakt bak við símann. Blaðið greiddi ekki fyrir viðtöl, þótt Egill Helgason og Páll Ásgeir Ásgeirsson segi það. Enda nefna þeir ekki dæmi. Greiðslurnar voru bara fyrir fréttaskot, sem blaðamenn tóku síðan og fengu staðfest eða ekki.

Margar nafnlausar heimildir

Fjölmiðlun

Helzti stjórnmála-berserkur samtímans segir í Mogga, að framsóknarmenn sjái eftir stuðningi við ríkisstjórnina. Agnes Bragadóttir hefur það eftir mörgum framsóknarmönnum, öllum nafnlausum. Enginn er nafngreindur í grein hennar. Sú aðferð hefur alltaf verið umdeild. Washington Post hefur ákveðið, að nota ekki slíkar heimildir, en gefur sér tíma til að koma því í verk. Þegar stjórnmála-berserkur slær um sig með nafnlausum heimildum, verða lesendur annað hvort að treysta eða ekki. Greinina hefði Agnes getað skrifað upp úr sjálfri sér án þess að tala við nokkurn framsókmarmann.

Ínn og Saga á lægra plani

Fjölmiðlun

Dögg Pálsdóttir segist hafa greitt Ínn 74.700 krónur fyrir að taka við sig sjónvarpsviðtal og Sögu 53.535 krónur í sama skyni. Þetta er skrítið mál, því að fjölmiðlar gera jafnan skýran mun á svokölluðu ritstjórnarefni og auglýsingum. Ingvi Hrafn Jónsson segir þetta ekki hafa verið viðtal, heldur útsendingartíma. Ég skil ekki þá röksemd. Er líka sannfærður um, að notendur Ínn gera ekki slíkan greinarmun. Eins og Saga er Ínn í skítabissniss, sem aldrei hefur tíðkazt hér. Þótt sumt megi ljótt segja um fjölmiðlana, hafa þeir ekki selt aðgang að ritstjórnarefni. Ínn og Saga eru á lægra plani.

Málfrelsi er takmarkað

Fjölmiðlun

Hæstaréttardómur í máli Goldfingers gegn Vikunni sýnir takmörk málfrelsis á Íslandi. Ekki var kannað, hvað hæft væri í ummælum, sem birtust, bara hvort ummælin væru kurteis. Löggan komst upp með að rannsaka ekki sannleiksgildi ásakana á hendur eiganda Goldfingers. Blaðamaðurinn mátti því ekki hafa sannleikann eftir viðmælanda sínum. Það er auðvitað ófær niðurstaða. Sem stafar af, að þingmenn hafa minni en angan áhuga á frjálsri blaðamennsku. Samt kvarta þeir um skort á rannsóknum í blaðamennsku. Er t.d. hægt að ætlast til, að sagt sé satt um Björgólfana undir hótunum Ásgeirs um málsókn?

Leyndó gekk út í öfgar

Fjölmiðlun

Leyndarstefna hefur rutt gegnsæi til hliðar á mörgum stöðum og þannig klippt á þroska lýðræðis. Umsvifamesta stofnunin á því sviði er Persónuvernd, sem túlkar fé og eignir sem einkamál. Hún hefur valdið lýðræði á Íslandi miklum skaða. Önnur stofnun á því sviði er Úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sem heldur skjölum leyndum. Nú hafa menn skyndilega áttað sig á, að leyndin gengur út í öfgar. Alls staðar heimta menn meira gegnsæi. Meirihluti er á Alþingi fyrir auknu gegnsæi. Frumvarp um saksóknara gerir ráð fyrir afnámi bankaleyndar. Nú þarf líka að taka til á öðrum póstum leyndarstefnunnar.

Fjölmiðlar og flýtimeðferð

Fjölmiðlun

Enginn íslenzkur fjölmiðill hafði burði til að kanna, hvort Björgólfur Thor væri að segja satt. Fullyrti í Kompási í haust, að brezk yfirvöld hefðu boðizt til að taka IceSave yfir í flýtimeðferð. Ef íslenzk stjórnvöld hefðu lánað Landsbankanum skitnar 200 milljónir punda. Til að kanna málið þurfti óháðan blaðamann, Friðrik Þór Guðmundsson. Hann sendi fyrirspurn til brezkra stjórnvalda, sem nú hafa svarað. Kannast ekki við flýtimeðferð Björgólfs. Ég skil, að þrælslundaði Mogginn vantreysti sér til að efast um eiganda sinn. En margir aðrir fjölmiðlar eru í landinu. Þeir kiknuðu líka fyrir Bjögganum.

Pressan er á klafa

Fjölmiðlun

Lengi hafa fjölmiðlar viljað teljast frjálsir og óháðir. Sumir hafa ekki staðið undir þeim væntingum. Fráleitast er þó, að vefritið Pressan segist vera óháð. Í raun er hún uppvakningur gamla Tímans, málgagn flokkseigenda Framsóknar, höll undir fjármálafursta. Í forsvari eru ímyndunarfræðingar úr Framsókn, Björn Ingi Hrafnsson og Steingrímur Sævarr Ólafsson. Björn Ingi reyndi fyrir ári að einkavæða mannauð Orkuveitunnar gefins. Peningarnir koma frá Róbert Wessmann, sem vill ná undir sig sjúkrastofnunum suður með sjó. Wessmann á líka Viðskiptablaðið og færir núna út kvíarnar í fjölmiðlun.

Tíðarandinn tekur við sér

Fjölmiðlun

Tidarandinn.is, hefur endurnýjazt. Hann er blogggátt, sem tínir upp blogg þekktra manna og flokkar það. Þar eru þingmenn og bæjarstjórnarmenn, ýmsir flokksmenn, fjölmiðlamenn og áhugamenn. Einnig eru þar söfn frétta og bloggs á ýmsum sviðum. Tíðarandinn keppir við Blogg.gattin.is og Fretta.gattin.is, sem hingað til hefur haft forustu í þessu. Þær birta þó alla nafngreinda bloggara, en Tíðarandinn grisjar þá. Þetta eru öðru vísi gáttir en mbl.is, visir.is, dv.is og eyjan.is, sem ná bara til eigin bloggara. Líf er að færast í þennan bransa og Tíðarandinn er kominn í hörku fína samkeppni.

Tvöföld afneitun öfga

Fjölmiðlun

“… öfgamenn, sem telja sig vera í stríði gegn meintri heimsvaldastefnu Bandaríkjanna, kveiktu í fjórum stórmörkuðum …” Svo segir Fréttablaðið í dag. Annað hvort “telja menn sig vera í stríði gegn heimsvaldastefnu” eða þeir “eru í stríði gegn meintri heimsvaldastefnu.” Ekki tvær afneitanir í senn, ekki tvöföld afneitun. Höfundi textans, aa, er svo mikið í mun að setja gjá milli sín og vinstri öfgamanna, að hann sést ekki fyrir í texta. Þar fyrir utan var alls ekki sýnt fram á, hverjir kveiktu í stórmörkuðunum. Pólitísk viðhorf skriffinna skína oft í gegn í fréttum.

Misvondir Moggakaupendur

Fjölmiðlun

Ég sé ekki, að Íslandsbanki hafi ráð á að gæðastimpla þá, sem eru bakvið Óskar Magnússon eða Steve Cosser. Hlutverk bankans er ekki að meta, hvers konar stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn henti Mogganum. Bankinn á bara að ná eins miklum peningum til baka og unnt er. Honum er það til ævarandi skammar að hafa brennt þrjá milljarða króna á mesta risagjaldþroti fjölmiðlasögunnar. Nóg er komið af slíku rugli. Fyrsta regla við slíkar aðstæður er að hleypa fyrri eigendum ekki að. Önnur regla er, að enginn kaupandi sé betri eða verri en peningarnir, sem hann veifar.

Röng grisjun Fréttablaðsins

Fjölmiðlun

Fréttablaðið hefur misst Svanborgu Sigmarsdóttur, Auðun Arnórsson, Guðrúnu Helgu Sigurðardóttur og Hrefnu Sigurjónsdóttur úr starfi. Ég held, að blaðið tapi á því, þetta voru valinkunnir blaðamenn. Miklu nær var fyrir blaðið að grisja silkihúfurnar. Þar er mikið af yfirmönnum, aðstoðarviðaukastjórum af ýmsu tagi. Einnig eru þar fullar skrifstofur af stoðdeildum ýmiss konar, markaðsfræðingum og mannauðsstjórum, ívent-fulltrúum og ímyndarfræðingum, blaðurfulltrúum og samskiptasérfræðingum. Slíkir fóru að ryðjast inn á fjölmiðla í lok síðustu aldar. Hafa æ síðan étið upp hagnað fjölmiðlanna.

Fjölmiðlavandinn er annar

Fjölmiðlun

Fáokun af völdum auðkýfinga er ekki að drepa frjálsa fjölmiðlun. Hún sligast undir vondri stjórn, breytingum í tækni og efnahag, veraldarvefnum. Dagblöð tapa áskrifendum og auglýsingum og það drepur þau. Sjónvarp tapar líka áskrifendum og auglýsingum, nema það geti skattlagt fólk. Ekki er komið í veg fyrir valdþjöppun með því að hindra samkeyrslu Fréttablaðsins og Moggans. Það eina, sem skaðast, er geta hefðbundinna fjölmiðla til að birta alvörufréttir í samkeppni við ríkið. Fjölmiðlar eru svo illa á vegi staddir, að fáokun auðkýfinga er ekki hættulegasta vandamál fjölmiðlunar.

Vandlega faldir hluthafar

Fjölmiðlun

Hlutafé gengur kaupum og sölum, það er eðli hlutafjár. Ókleift er að setja hömlur á viðskipti með hlutafé. Samt reynir nýi Glitnir að hindra leppa í að bjóða í hlutafé Árvakurs. Það er fallega hugsað að reyna að hindra ljósfælna auðkýfinga í að eignast Moggann. En málefnalega getur bankinn ekki hindrað slíka bragðvísi. Bak við erlenda áhugamenn eru íslenzkir fjárglæframenn, sem munu eignast Moggann, hvað sem hver segir. Þeir eignast Moggann, sem bezt geta borgað, þótt þeir séu vandlega faldir að tjaldabaki. Bankinn á ekki að vasast í svona málum. Hann á bara að reyna að fá sem hæst verð fyrir hræið.

Dýrasta prentvélin keypt

Fjölmiðlun

Ég tók einu sinni þátt í að velja prentvél fyrir fyrirtæki, sem nú heitir Ísafoldarprentsmiðja. Hún var prentstofa DV og síðar Fréttablaðsins. Við keyptum vél í ódýrari kantinum, kölluðum hana Fólksvagninn. Á þessum tíma vöktu prentvélakaup Moggans athygli útlendinga, sem ræddu prentvélar fyrir dagblöð. Mogginn keypti nefnilega dýrustu fáanlegu prentvél. Blaðið hefur síðan ekki getað staðið undir henni. Þetta á mikinn þátt í hruni blaðsins. Gífurlegur kostnaður á pappír og prentun kippti fótunum undan Mogganum. Sá kostnaður sparast, ef gefið er út á vefnum einum. Mogginn ætti að skoða það.